Ég er svo heppin að þekkja marga matgæðinga, ein þeirra er Heiða, doktor í tannlækningum með meiru og gott efni í matarbloggara! 🙂 Hún gaf mér uppskriftina af þessu pastasalati þegar við bjuggum báðar í Stokkhólmi og ég hef reglulega gert þetta salat síðan þá. Þetta pastasalat er meðal annars með pepperóni, ólífum og klettasalati. En það sem gerir það sérstaklega gott er maukið sem er útbúið og blandað við salatið. Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik og hlynsíróp gerir dásamlega góða dressingu/mauk sem gefur salatinu gómsætt bragð. Þetta er upplagt salat til að taka með sér á til dæmis hlaðborð eða aðra viðburði eða fara með í lautarferð! Yngstu börnin á heimilinu eru mjög hrifin af þessu salati.
Uppskrift:
- 300 gr pasta
- 4 msk sólþurrkaðir tómatar
- gott búnt af basiliku
- búnt af steinselju
- 2-3 hvítlauksgeirar
- 1 dl jómfrúar ólífuolía
- 2 msk balsamic edik
- 1 tsk hlynsíróp
- 4 msk furuhnetur, ristaðar á þurri pönnu
- 80 g pepperóní, skorin í þunnar sneiðar
- 2 msk ólífur, skornar í bita
- 2-3 msk rifinn parmesan ostur
- slatti af ruccola salati
- salt og pipar úr kvörn
Pasta soðið eftir leiðbeiningum og kælt (Mikilvægt að ofsjóða það ekki). Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik, ólífuolía og hlynsíróp sett í matvinnsluvél, keyrt nokkra hringi og grófsaxað saman. Blandað saman við pastað. Furuhnetum, pepperoní, ólífum, parmesan osti og klettasalati bætt við, kryddað með salti og pipar. Borið fram með góðu brauði.
Bakvísun: Sushi salat | Eldhússögur
Bakvísun: Pepperóníbrauð | Eldhússögur
Frábært pastasalat ! Takk fyrir 🙂
Gaman að heyra Anna Sigrún, verði þér að góðu! 🙂
Hvað er uppskrifin fyrir c.a marga ?
Fyrir ca. 3-4.
Takk fyrir 🙂
Sæl vertu
Við margföldun á uppskriftinni halda þá öll hlutföll sér? Eða breyist eitthvað?
Kveðja Tinna
Sæl Tinna. Já, ég held að ég myndi halda hlutföllunum miðað við margföldunina, það er t.d. þrefalda uppskrift – þrefalda hráefni. Kannski þarf eitthvað minna af parmesan ostinum.
Þakka þér fyrir 🙂
Hæ Dröfn eru cashew hnetur í þessu salati, ásamt furuhnetur um, finnst eins og það sé á myndunum??? Er að spá í þetta fyrir sunddómarana næstu helgi 😉 kv. Erna
Setti kasjúhnetur þarna í stað furuhneta. Ég forðaðist furuhnetur á tímabili vegna þess að ég lenti í svona „pine mouth“ dæmi sem var óskemmtilegt. http://www.pressan.is/Frettir/LesaTjorupressufrett/atu-furuhnetur-og-nu-er-obragd-af-ollu-bragdlaukarnir-i-sjokki—allt-bragdast-eins-og-gomul-sapa
Alveg rétt 😉 takk elskuleg fyrir þetta. Minnir að ég hafi smakkað þetta hjá þér einhvern tíman og einstaklega lúfengt. Er að leita að réttum sem ég get gert með kannski dags fyrirvara fyrir 20 manns. Þessi réttur kemur vel til greina og fiskisúpan góða.
Sæl, þetta er frábært pastasalat og takk fyrir að deila svona ljúfmeti hægri vinstri með okkur.
Varðandi 1 dl af jómfrúar ólífuolíu setur þú hana með hinum „vökvanum“ (hlynsírópi og balsam…) ? sé hvergi minnst á hvar það endar 🙂
Sæl Íris og takk fyrir kveðjuna! 🙂 Ég hef gleymt að setja þetta inn, takk fyrir að benda mér á það. En jú, olían fer með hinum vökvanum, er búin að laga þetta núna.
Takk 🙂