Frönsk súkkulaðikaka


Eldhússaga dagsins er frönsk súkkulaðikaka, saga sem verður aldrei of oft sögð! 🙂 Strangt til tekið eru klassískar franskar súkkulaðikökur ekki með kremi, en þessi fær undanþágu án nokkurra vandkvæða! Ljúffeng súkkulaðikakan leidd saman við gómsæt kremið, það er bara ekki hægt að standa í vegi fyrir slíkri sameiningu, enda les líklega engin frönsk kökulögga þetta blogg! Ég skreyti oftast þessa frönsku dásemd með jarðaberjum eða hindberjum. En verandi stödd á Vestfjörðunum þurfti ég að grípa til þess sem í boði var. Það var annars vegar kiwi og hins vegar nýtínd bláber frá bláberjalyngi við fjallsrætur Brella þó enn sé júlí. Einkenni franskra súkkulaðikaka eru að í þeim er lítið, jafnvel ekkert hveiti. Kakan er dökk, þétt og þung og á að vera eins og hún sé dálítið klesst. Þetta er einföld kaka sem flestum þykir góð, þetta er til dæmis uppáhaldskaka yngstu barnanna á heimilinu.

Uppskrift

Botn:

  • 2 dl sykur
  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 1 dl hveiti
  • 4 stk egg

Súkkulaðikrem:

  • 150 g suðusúkkulaði
  • 70 g smjör
  • 2-3 msk síróp

Aðferð-botn:

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Bakið í vel smurðu tertuformi (ath. ekki lausbotna) við 170°C í 30 mínútur.

Aðferð – krem:

Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Kakan á að vera blaut í miðjunni. Gott er að bera kökuna fram með rjóma eða ís og berjum, til dæmis jarðaberjum, hindberjum eða bláberjum.