Síbreytilegt lasagna


Framarlega í uppskriftabókinni minni sem hefur fylgt mér síðan ég var 19 ára hef ég skráð niður lasagna uppskrift. Þetta var árið 1992 og þar stendur jafnframt að uppskriftin komi úr uppskriftabók frá matreiðslukennslu í Seljaskóla í 9. bekk! 🙂 Ég hef örugglega fylgt þessari uppskrift í fyrstu skiptin sem ég eldaði lasagna en síðan þá hef ég sjaldan eldað það tvisvar sinnum eins. Stundum bæti ég við grænmeti, t.d. sveppum, gulrótum eða kúrbít. Stundum nota ég spínat -lasagnablöð, set ferskar kryddjurtir út í kjötsósuna og annað slíkt. Allt fer þetta eftir því hvaða hráefni ég á til og hvert tilefnið er. En eitt finnst mér mikilvægt með lasagna, að það sé ekki bragðdauft. Þegar saman kemur kraftlítil kjötsósa, ostasósa og lasagnaplötur þá getur sú útkoma verið heldur dauf . Þetta lasagna hins vegar rífur dálítið í bragðlaukana, getur orðið býsna sterkt með heita pizzukryddinu, fer þó auðvitað alveg eftir hversu mikið er notað af því. En allir krakkarnir borða það með bestu lyst og biðja um ábót, það er góðs viti! Hér notaði ég í fyrsta sinn beikon í lasagnað, það var nú bara af því að ég átti beikonbréf sem var að renna út, en það kom vel út.

Uppskrift fyrir 6:

Kjötsósa:

 • 800 gr. hakk
 • 1 pakki beikon
 • 1 stór laukur
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • 150 gr sveppir
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar (ég nota yfirleitt Huntz með hvílauk annars vegar og basiliku hinsvegar)
 • 3 msk tómapuré
 • kjötkraftur
 • Heitt pizzakrydd frá Pottagöldum
 • Krydd lífsins frá Pottagöldrum
 • basiliku krydd
 • oregano krydd
 • salt og pipar
 • olía til steikingar
 • lasagna plötur
 • rifinn ostur

Ostasósa: 

 • 90 gr smjör
 • 90 gr hveiti
 • ca 1 líter nýmjólk
 • 2 dl rifinn mozzarella ostur
 • 150 gr rjómaostur
 • múskat
 • salt og pipar

Aðferð

Beikon steikt á pönnu þar til það verður stökkt og gott. Beikonið tekið af pönnunni, lagt á eldhúsrúllublað, þerrað, kælt og skorið niður í litla bita. Sveppir skornir í sneiðar, laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk. Steikt á pönnu þar til laukurinn er orðinn mjúkur og sveppirnir hafa tekið lit. Til þess að laukurinn brenni ekki er blandan tekin af pönnunni og hakkið steikt. Það er kryddað vel með kryddunum í uppskriftinni (ég notaði lítið sem ekkert salt þar sem að beikonið er vel salt) og nautakrafti bætt út í. Beikoni og grænmeti bætt út í ásamt niðursoðnum tómötum og tómatpuré. Þessu er leyft að malla í dágóða stund, smakkið til með kryddunum eftir þörfum.

Ostasósan:

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, munið að hræra án afláts. Bætið osti og rjómaosti út í, hrærið saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddið með múskati, salti og pipar.

Lasagna sett saman:

Fyrst er ostasósa sett á botninn á eldföstu móti, því næst er lasagna plötum raðað yfir, þá kjötsósan og svo koll af kolli. Endað á ostasósu og þá er rifnum osti dreift yfir. Ef ég á ferska basiliku raða ég henni stundum yfir efsta lagið af ostasósunni áður en ostinum er dreift yfir.

Bakið í ofni við 200 gráður í ca. 25-30 mínútur. Berið fram með góðu brauði og salati. Svo mæli ég með því að gera mjög stóra upppskrift af lasagna, setja í fleiri en eitt form og frysta auka formin. Það er afar ljúft að geta tekið lasagna út úr frysti að morgni, stungið því inn í ofn eftir vinnu og verið fyrirhafnalaust komin með afar gómsætt lasagna á borðið hálftíma síðar! 🙂

Heimatilbúin tómatsósa og Food network!


Mér finnst voða gott að stússast í eldhúsinu seinni hluta dags og undirbúa kvöldmat. Það er undartekning ef ég elda ekki á kvöldin enda erum við sex í fjölskyldunni, stóru krakkarnir (sem eru nú varla krakkar lengur!) taka með sér afganga í vinnu og skóla, það krefst stöðugrar framleiðslu á mat! Ég elda því alltaf eins og fyrir minnst átta manns þar sem að markmiðið er að eiga afganga í nesti næsta dag. Í eldhúsinu er lítið sjónvarp með ótal rásum en ég horfi yfirleitt bara á eina rás yfir eldamennskunni, Food network auðvitað!

Þar eru margir mjög góðir þættir, uppskriftalega séð finnst mér „Barefood contessa“ vera best, hún er með mjög evrópskar og góðar uppskriftir. Ég er alltaf með annað augað á skjánum og fæ fullt af góðum hugmyndum, punkta þær niður á skrifblokk í eldhúsinu og fer svo á netið til að skoða þær betur. Ég fékk hugmyndina af heimatilbúinni tómatsósu frá grillþætti á Food network. Mér hafði aldrei dottið í hug að gera slíka sósu áður, ég nota venjulega tómatsósu ekki mikið nema á pylsur og finnst hún ekkert sérstök. En eins og ameríkönum er einum lagið þá mærðu þáttastjórnendur þessa sósu í bak og fyrir, hún væri víst ómissandi með grillmat! Ég skoðaði uppskriftir á netinu, fann þessa uppskrift frá snillingnum Paul Løwe og  prófaði. Og viti menn, heimatilbúin tómatsósa er ljúffeng! 🙂 Ég myndi segja að munurinn á heimatilbúinni tómatsósu og þessari venjulegu sé svipaður og munurinn á til dæmis ferskum og niðursoðnum ananas! Hún er sérstaklega góð á grillaða hamborgara en það er hægt að nota hana með öllum grilluðum mat. Það er lítið mál að gera þessa sósu, eina vinnan er eiginlega að skera laukinn, svo mallar hún bara sjálf á pönnunni. Tómatsósan geymist vel í kæli í þéttri flösku (fæst í Søstrene Grene). 

Uppskrift:

 • 1 dós góðir niðursoðnir heilir tómatar (ég notaði niðursoðna kirsuberjatómata)
 • 1 lítill gulur laukur
 • 2 msk ólífuolía
 • 1-2 msk tómatpúrra
 • 2 dl púðursykur
 • 1 dl eplacider-edik
 • salt

Niðursoðnir tómatar settir í matvinnsluvél og hrært þar til blandan verður jöfn. Fínsaxið laukinn og steikið í olíunni þar til laukurinn verður mjúkur. Tómötum, tómatpúrru, eplacider-edik og púðursykri bætt við (smakkið sósuna til). Það er hægt að fínhakka hálfan rauðan chili og setja út í tómatana fyrir þá sem vilja sterkari útgáfu af sósunni. Látið blönduna malla á lágum hita, án loks, þar til hún þykknar eða í ca. einn klukkutíma. Smakkið hana til með salti. Setjið blönduna alla í matvinnsluvél og hrærið í smá stund. Kælið og hellið í krukku eða flösku með þéttu loki eða tappa. Tómatsósan geymist í ísskáp í vel lokuðu íláti í allt að þrjár vikur. Berið fram með grillmat, t.d. grilluðum hamborgurum.

Jóhönnu Ingu fannst þessi tómatsósutilraun afar spennandi og vildi útbúa sína eigin flösku sem hún gerði með glæsibrag! 🙂

Gulrótarkaka með súkkulaði og eplum


Gulrótarkökur eru rosalega góðar, sérstaklega þær sem eru safaríkar og bragðmiklar. Þessi er ein af þeim, þetta er dásamlega góð uppskrift. Þessi gulrótarkaka er best daginn eftir að hún er bökuð.

Uppskrift:

 •  3 stór egg
 • 2.5 dl matarolía (t.d. sólblómaolía)
 • 200 gr. sykur
 • 150 gr púðursykur
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 tsk kanill
 • 1/2 tsk múskat
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk lyftiduft
 • 320 gr. hveiti
 • 100 gr. suðusúkkulaði, fínsaxað
 • 400 gr gulrætur, rifnar
 • 1-2 græn epli, rifin

Rjómaostakrem

 •  100 gr. smjör, við stofuhita
 • 200 gr. flórsykur
 • 200 gr. rjómaostur, við stofuhita
 • 3 tsk vanillusykur

Aðferð:

Hitð ofinn í 180 gráður. Þeytið saman egg, sykur og olíu þar til blandan verður ljós. Bætið út í hveiti og öðrum þurrefnum og blandið varlega saman. Bætið við súkkulaði, rifnum gulrótum og rifnum eplum og blandið við deigið. Bakið í lausbotna smurðu formi (25 cm) í miðjum ofni í 50-60 mínútur.

Krem:

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til það verður létt og ljóst, bætið þá við rjómaostinum og vanillusykri. Smyrjið kremið á kökuna þegar hún er orðin köld.

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

 • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
 • 1/2 dl ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
 • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
 • 1/4 tsk sykur
 • salt og pipar
 • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

 • 1 stórt mangó, skorið í teninga
 • 2 avókadó, skornir í teninga
 • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
 • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
 • 1/2 límóna (lime)
 • 2 msk góð ólífuolía
 • 1 msk hvítvínsedik
 • salt og pipar
 • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!

Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.

Crêpes með eggi, osti og skinku


Vinsælasti hádegismatur krakkana í sumarfríinu eru afar fljótlegar pizzur. Þá smyr ég burrito pönnukökur með pizzusósu, dreifi pepperoni eða skinku yfir ásamt osti og hita í pizzaofninum okkar.
En í framhaldinu af crêpes-æðinu sem ríkir heima hjá mér þessa dagana ákvað ég hins vegar að prófa í hádeginu í gær franskar crêpes með eggjum, skinku og osti eins við fengum í Frakklandi. Sjúklega gott! Ég hrærði í crêpes deig sem ég er með uppskrift af hér. Það þarf ekki að nota sérstaka crêpespönnu eins og ég er með. Þetta er hægt að gera á steikarpönnu með góðri teflonhúð eða á pönnukökupönnu.
Deiginu er ausið á pönnu, dreift um pönnuna og umfram deigi hellt af. Þegar pönnukakan er steikt á þeirri hlið er henni snúið við. Eftir ca. 30 sekúndur er pönnukakan brotin saman, egg sett yfir hana og dreift úr því með pönnukökuspaða (rauðan sprengd), egginu er ýtt aðeins út fyrir pönnukökuna (þeim megin sem pönnukakan er í boga). Því næst er skinku dreift yfir og svo rifnum osti, saltað og piprað eftir smekk.
Beðið í um það bil 30-60 sekúndur svo er pönnukökunni lokað frá báðum hliðum, sem sagt á móti hvor annarri. Að lokum er pönnukökunni snúið við lokaðri um það bil tvisvar fram og aftur eða þar til osturinn hefur náð að bráðna vel. Borðið vel heitt og njótið! Hér er hægt að sjá franskan fagmann að verki! 🙂

Grillsósa


Ég er ekki sérstaklega hrifin af tilbúnum barbecue sósum í flöskum með þessu týpíska reykta barbecue bragði. En um daginn fann ég uppskrift af grillsósu sem mér fannst líta girnilega út og ákvað að prófa. Þessi sósa passar mjög vel með ljósu kjöti, til dæmis kjúkling og svínakjöti. Ég prófaði hana á grilluðum kjúkling og okkur öllum fannst hún afar ljúffeng. Eiginlega hefði ég þurft að gera helmingi stærri uppskrift til að geta borið fram meiri sósu með kjúklingnum , ég ætla að gera það næst!

Uppskrift:

 • 1 lítill laukur, fínsaxaður (ég átti skarlottulauka og notaði nokkra svoleiðis í staðinn)
 • 1 msk ólífuolía
 • 1 dl tómatsósa
 • 2-3 tsk hunang
 • 2-3 tsk balsamedik
 • 2-3 tsk Dijon sinnep
 • salt og pipar

Steikið laukinn í olíu þar til að hann er orðinn mjúkur. Bætið við hinu hráefninu. Smakkið ykkur fram þar til að það er komið gott jafnvægi milli sæta og súra bragðins. Sósan látin krauma þar til hún þykknar.

Kælið sósuna. Penslið kjötið með sósunni og bætið við sósu á kjötið á meðan grillun stendur. Berið fram afganginn af sósunni með kjötinu. Passið ykkur á að halda aðskilinni þeirri sósu sem þið dýfið penslinum ofan í og berið á hrátt kjötið og þeirri sósu sem þið berið fram með kjötinu. Grillsósuna er hægt að geyma í allt að þrjár vikur í ísskáp ef hún er í lofttæmdri krukku eða flösku.


Brieostabaka með mango chutney


Eitt kvöldið í vikunni fengum við góða gesti í kvöldkaffi. Ég vildi bjóða upp á osta en langaði í tilbreytingu frá venjulegum ostabakka. Ég fór að hugsa um þegar góðir ostar eru bakaðir í ofni með mango chutney og kasjúhnetum og datt í hug hvort að það væri ekki hægt að gera meira úr því, einhverskonar böku. Ég fór á netið og fann ekkert á íslenskum vefsíðum. En þegar ég fór að skoða sænskar vefsíður kom í ljós að ég var ekkert að finna upp hjólið! Það voru til nokkrar útgáfur af bökum með brie og mango chutney enda eru Svíar mikið fyrir allskonar bökur. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og týndi saman það mér leist vel á úr hverri uppskrift og útkoman var þessi baka sem var afar ljúffeng. Það er hægt bera fram með bökunni parmaskinku sem er örugglega afar gott en þar sem gestirnir okkar eru grænmetisætur þá gerði ég það ekki. Þessa böku er líka hægt að bera fram sem forrétt. Þá er hægt að setja bökusneið og salat á forréttadiska.

Uppskrift

Botn:

 • 3 dl hveiti
 • 125 gr smjör (kalt, skorið niður í litla bita)
 • 1 msk kalt vatn
 • 1/2 dl sólblómafræ (má sleppa)

Fylling:

 • 400g brie ostur (ég notaði einn brie ost og einn gullost)
 • U.þ.b. 1.5 dl mango chutney
 • 3 egg
 • 2 1/2 dl rjómi (má nota matargerðarjóma)
 • salt og pipar
Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél þar til það verður að deigi. Vatni bætt við og hrært í smástund í viðbót. Sólblómafræjum bætt við í lokin, gott að láta þau ekki myljast of mikið niður. Deginu þrýst niður á botninn í  bökuformi og upp með hliðunum, kælt í 30 mínútur. Botninn bakaður við 225 gráður í 10 mínútur. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað ofan á botninn. Helmingurinn af mango chutney smurt ofan á ostinn (ég mældi ekki magnið af mango chutneyið, smurði því bara vel á!). Eggjum, rjóma, salt og pipar pískað saman. Helmingnum af eggjahrærunni helt ofan á bökufyllinguna. Afgangnum af brie osti raðað yfir ásamt mango chutney og að lokum er restinni af eggjablöndunni hellt yfir. Lækkið ofnin niður í 200 gráður og bakið í 30-40 mínútur eða þar til bakan er tilbúin. Setjið álpappír yfir bökuna ef hún dökknar of mikið.

Balsamedik-síróp
 • 2 dl balsamedik
 • 1 msk hunang
 • 1 hvítlauksrif

Hráefninu blandað saman í lítinn pott og látið krauma þar til blandan hefur soðið niður um helming og hefur þykknað. Hvítlauksrifið fjarlægt, blandan kæld, hellt yfir bökuna.

Hugmyndir fyrir barnaafmæli!


Ég hef lengi verið að hugsa um að taka saman það helsta sem ég hef gert fyrir barnaafmæli undanfarin 18 ár. Þessi 15 ár sem við bjuggum í Svíþjóð fengu börnin tvær afmælisveislur, bæði á Íslandi og í Svíþjóð, þannig að þetta eru orðnar nokkuð margar afmælisveislur í heildina! Samt er maður alltaf dálítið hugmyndalaus þegar kemur að undirbúningi fyrir barnaafmæli og man til dæmis ekki milli ára hvað maður hafði árið áður sem var svo sniðugt! Það getur því verið þægilegt að hafa einhverskonar yfirlit yfir sniðuga rétti og skemmtilegar kökur. Ég get bakað þokkalega góðar kökur en ég er alls enginn listamaður, gæti varla teiknað Óla prik þótt líf mitt lægi við, í alvöru! Þannig að afmæliskökurnar mínar eru engin listaverk. Auk þess eru allir að gera þvílíkt flottar fondant kökur í dag en þegar ég var að gera sem flestar afmæliskökur var fondant ekki komið til sögunnar, ég var alltaf að basla við smjörkrem! Ég ætla að láta myndirnar tala, sumar reyndar „tala“ ekkert sérstaklega fallega þar sem að nær allar eru teknar fyrir tíma þessa blogs og þar með ekkert verið að mynda matinn sérstaklega. Ég stefni svo á að fara í gegnum fleiri afmælismyndir og afmælishugmyndir almennt sem ég hef sankað að mér og bæta þeim við þetta innlegg jafnt og þétt.

Súkkulaðimús


Það eru til nokkrar útfærslur af súkkulaðifrauði. Mér finnst eiginlega hægt að flokka þær gróflega í fjórar útgáfur. Ein útgáfan er súkkulaði, sykur og bara eggjahvítur. Í annarri útgáfu er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið, sem sagt eggjarauðurnar notaðar auk eggjahvítanna. Í þriðju útgáfunni bætist rjómi við grunnhráefnið. Í þeirri fjórðu er enginn rjómi notaður en í stað hans kemur smjör. Í bókinni hennar Juliu Child notar hún einmitt síðastnefndu aðferðina (mæli með kvikmyndinni Julie & Julia ef þið hafið ekki séð hana enn!). Ég er enn að prufa mig áfram. Núna notaði ég uppskrift með hvorki smjöri né rjóma sem telst líklega mest hefðbundin og upprunaleg uppskrift af súkkulaðifrauði og það kom afar vel út. Ég notaði 70% súkkulaði en það er með 70% kakóinnihaldi og 30% sykri. Það er talað um að það þurfi aðeins að venjast svona kröftugu og lítið sætu súkkulaði og mörgum finnst það fullrammt við fyrstu kynni. Fyrir þá sem finnst þetta of rammt súkkulaði geta notað 56% súkklaði í uppskriftina hér að neðan. Næst ætla ég að prófa uppskriftina frá Juliu Child sem er með smjöri og mun auðvitað uppfæra hér á blogginu hvers konar súkkulaðifrauð hafi vinninginn!

Uppskrift f. 6-8 (fer eftir skammtastærð)

200 gr gott dökkt súkkulaði (56-70%)

8 eggjahvítur

75 gr sykur

3 eggjarauður

Súkkulaði brætt í vatnsbaði og kælt dálítið. Eggjarauður ásamt helmingnum af sykrinum þeytt þar til blandan verður ljós. Brædda súkkulaðinu hellt varlega saman við eggjarauðurnar og hrært vel í á meðan. Eggjahvíturnar hálfþeyttar og afganginum af sykrinum bætt út í smátt og smátt meðan þær eru stífþeyttar. Blandið þriðjungi af þeyttu eggjahvítunum rösklega saman við súkkulaðiblönduna með písk eða sleif. Að því búnu er afganginum af eggjahvítunum blandað varlega saman saman við með sleikju. Hér sést rétt tækni hvernig blanda á þeyttum eggjahvítum við annað hráefni án þess að þær missi ,,loftið“.

Setjið súkkulaðifrauðið í skálar eða glös og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en það er borið fram. Það er falleg og gott að skreyta með þeyttum rjóma og berjum, t.d. hindberjum eða jarðaberjum