Síbreytilegt lasagna


Framarlega í uppskriftabókinni minni sem hefur fylgt mér síðan ég var 19 ára hef ég skráð niður lasagna uppskrift. Þetta var árið 1992 og þar stendur jafnframt að uppskriftin komi úr uppskriftabók frá matreiðslukennslu í Seljaskóla í 9. bekk! 🙂 Ég hef örugglega fylgt þessari uppskrift í fyrstu skiptin sem ég eldaði lasagna en síðan þá hef ég sjaldan eldað það tvisvar sinnum eins. Stundum bæti ég við grænmeti, t.d. sveppum, gulrótum eða kúrbít. Stundum nota ég spínat -lasagnablöð, set ferskar kryddjurtir út í kjötsósuna og annað slíkt. Allt fer þetta eftir því hvaða hráefni ég á til og hvert tilefnið er. En eitt finnst mér mikilvægt með lasagna, að það sé ekki bragðdauft. Þegar saman kemur kraftlítil kjötsósa, ostasósa og lasagnaplötur þá getur sú útkoma verið heldur dauf . Þetta lasagna hins vegar rífur dálítið í bragðlaukana, getur orðið býsna sterkt með heita pizzukryddinu, fer þó auðvitað alveg eftir hversu mikið er notað af því. En allir krakkarnir borða það með bestu lyst og biðja um ábót, það er góðs viti! Hér notaði ég í fyrsta sinn beikon í lasagnað, það var nú bara af því að ég átti beikonbréf sem var að renna út, en það kom vel út.

Uppskrift fyrir 6:

Kjötsósa:

 • 800 gr. hakk
 • 1 pakki beikon
 • 1 stór laukur
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • 150 gr sveppir
 • 2 dósir niðursoðnir tómatar (ég nota yfirleitt Huntz með hvílauk annars vegar og basiliku hinsvegar)
 • 3 msk tómapuré
 • kjötkraftur
 • Heitt pizzakrydd frá Pottagöldum
 • Krydd lífsins frá Pottagöldrum
 • basiliku krydd
 • oregano krydd
 • salt og pipar
 • olía til steikingar
 • lasagna plötur
 • rifinn ostur

Ostasósa: 

 • 90 gr smjör
 • 90 gr hveiti
 • ca 1 líter nýmjólk
 • 2 dl rifinn mozzarella ostur
 • 150 gr rjómaostur
 • múskat
 • salt og pipar

Aðferð

Beikon steikt á pönnu þar til það verður stökkt og gott. Beikonið tekið af pönnunni, lagt á eldhúsrúllublað, þerrað, kælt og skorið niður í litla bita. Sveppir skornir í sneiðar, laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk. Steikt á pönnu þar til laukurinn er orðinn mjúkur og sveppirnir hafa tekið lit. Til þess að laukurinn brenni ekki er blandan tekin af pönnunni og hakkið steikt. Það er kryddað vel með kryddunum í uppskriftinni (ég notaði lítið sem ekkert salt þar sem að beikonið er vel salt) og nautakrafti bætt út í. Beikoni og grænmeti bætt út í ásamt niðursoðnum tómötum og tómatpuré. Þessu er leyft að malla í dágóða stund, smakkið til með kryddunum eftir þörfum.

Ostasósan:

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, munið að hræra án afláts. Bætið osti og rjómaosti út í, hrærið saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddið með múskati, salti og pipar.

Lasagna sett saman:

Fyrst er ostasósa sett á botninn á eldföstu móti, því næst er lasagna plötum raðað yfir, þá kjötsósan og svo koll af kolli. Endað á ostasósu og þá er rifnum osti dreift yfir. Ef ég á ferska basiliku raða ég henni stundum yfir efsta lagið af ostasósunni áður en ostinum er dreift yfir.

Bakið í ofni við 200 gráður í ca. 25-30 mínútur. Berið fram með góðu brauði og salati. Svo mæli ég með því að gera mjög stóra upppskrift af lasagna, setja í fleiri en eitt form og frysta auka formin. Það er afar ljúft að geta tekið lasagna út úr frysti að morgni, stungið því inn í ofn eftir vinnu og verið fyrirhafnalaust komin með afar gómsætt lasagna á borðið hálftíma síðar! 🙂

12 hugrenningar um “Síbreytilegt lasagna

 1. Bakvísun: Kjúklingapottréttur | Eldhússögur

 2. Bakvísun: Lasagna með beikoni, salami og rjómaostasósu | Eldhússögur

  • Sæl Christel! Ég nota annað hvort fljótandi nautakraft frá Oscars (það sést glitta í svörtu flöskuna á einni myndinni) eða nautakraftinn frá þeim sem er í svörtum dollum (í duftformi)! 🙂

 3. Ok, ég googlaði lasagne, rakst á þetta… Notaði Ferska basiliku, oregano og timian og vel af þessum 3 en sleppti hinum 2 og ja hérna hér! þetta er það albesta lasagne sem ég hef smakkað takk kærlega fyrir mig 🙂

 4. Aukaformin sem þú frystir, ertu þá búin að baka þau í ofninum?

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.