Heimatilbúin tómatsósa og Food network!


Mér finnst voða gott að stússast í eldhúsinu seinni hluta dags og undirbúa kvöldmat. Það er undartekning ef ég elda ekki á kvöldin enda erum við sex í fjölskyldunni, stóru krakkarnir (sem eru nú varla krakkar lengur!) taka með sér afganga í vinnu og skóla, það krefst stöðugrar framleiðslu á mat! Ég elda því alltaf eins og fyrir minnst átta manns þar sem að markmiðið er að eiga afganga í nesti næsta dag. Í eldhúsinu er lítið sjónvarp með ótal rásum en ég horfi yfirleitt bara á eina rás yfir eldamennskunni, Food network auðvitað!

Þar eru margir mjög góðir þættir, uppskriftalega séð finnst mér „Barefood contessa“ vera best, hún er með mjög evrópskar og góðar uppskriftir. Ég er alltaf með annað augað á skjánum og fæ fullt af góðum hugmyndum, punkta þær niður á skrifblokk í eldhúsinu og fer svo á netið til að skoða þær betur. Ég fékk hugmyndina af heimatilbúinni tómatsósu frá grillþætti á Food network. Mér hafði aldrei dottið í hug að gera slíka sósu áður, ég nota venjulega tómatsósu ekki mikið nema á pylsur og finnst hún ekkert sérstök. En eins og ameríkönum er einum lagið þá mærðu þáttastjórnendur þessa sósu í bak og fyrir, hún væri víst ómissandi með grillmat! Ég skoðaði uppskriftir á netinu, fann þessa uppskrift frá snillingnum Paul Løwe og  prófaði. Og viti menn, heimatilbúin tómatsósa er ljúffeng! 🙂 Ég myndi segja að munurinn á heimatilbúinni tómatsósu og þessari venjulegu sé svipaður og munurinn á til dæmis ferskum og niðursoðnum ananas! Hún er sérstaklega góð á grillaða hamborgara en það er hægt að nota hana með öllum grilluðum mat. Það er lítið mál að gera þessa sósu, eina vinnan er eiginlega að skera laukinn, svo mallar hún bara sjálf á pönnunni. Tómatsósan geymist vel í kæli í þéttri flösku (fæst í Søstrene Grene). 

Uppskrift:

  • 1 dós góðir niðursoðnir heilir tómatar (ég notaði niðursoðna kirsuberjatómata)
  • 1 lítill gulur laukur
  • 2 msk ólífuolía
  • 1-2 msk tómatpúrra
  • 2 dl púðursykur
  • 1 dl eplacider-edik
  • salt

Niðursoðnir tómatar settir í matvinnsluvél og hrært þar til blandan verður jöfn. Fínsaxið laukinn og steikið í olíunni þar til laukurinn verður mjúkur. Tómötum, tómatpúrru, eplacider-edik og púðursykri bætt við (smakkið sósuna til). Það er hægt að fínhakka hálfan rauðan chili og setja út í tómatana fyrir þá sem vilja sterkari útgáfu af sósunni. Látið blönduna malla á lágum hita, án loks, þar til hún þykknar eða í ca. einn klukkutíma. Smakkið hana til með salti. Setjið blönduna alla í matvinnsluvél og hrærið í smá stund. Kælið og hellið í krukku eða flösku með þéttu loki eða tappa. Tómatsósan geymist í ísskáp í vel lokuðu íláti í allt að þrjár vikur. Berið fram með grillmat, t.d. grilluðum hamborgurum.

Jóhönnu Ingu fannst þessi tómatsósutilraun afar spennandi og vildi útbúa sína eigin flösku sem hún gerði með glæsibrag! 🙂

2 hugrenningar um “Heimatilbúin tómatsósa og Food network!

  1. Æðislegt! Ég hef sterkan grun um að Jóhanna muni feta í fótspor móður sinnar þegar kemur að matreiðslu 🙂

  2. Bakvísun: Hvítlauksbrauð Ínu | Eldhússögur

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.