Grillsósa


Ég er ekki sérstaklega hrifin af tilbúnum barbecue sósum í flöskum með þessu týpíska reykta barbecue bragði. En um daginn fann ég uppskrift af grillsósu sem mér fannst líta girnilega út og ákvað að prófa. Þessi sósa passar mjög vel með ljósu kjöti, til dæmis kjúkling og svínakjöti. Ég prófaði hana á grilluðum kjúkling og okkur öllum fannst hún afar ljúffeng. Eiginlega hefði ég þurft að gera helmingi stærri uppskrift til að geta borið fram meiri sósu með kjúklingnum , ég ætla að gera það næst!

Uppskrift:

  • 1 lítill laukur, fínsaxaður (ég átti skarlottulauka og notaði nokkra svoleiðis í staðinn)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 dl tómatsósa
  • 2-3 tsk hunang
  • 2-3 tsk balsamedik
  • 2-3 tsk Dijon sinnep
  • salt og pipar

Steikið laukinn í olíu þar til að hann er orðinn mjúkur. Bætið við hinu hráefninu. Smakkið ykkur fram þar til að það er komið gott jafnvægi milli sæta og súra bragðins. Sósan látin krauma þar til hún þykknar.

Kælið sósuna. Penslið kjötið með sósunni og bætið við sósu á kjötið á meðan grillun stendur. Berið fram afganginn af sósunni með kjötinu. Passið ykkur á að halda aðskilinni þeirri sósu sem þið dýfið penslinum ofan í og berið á hrátt kjötið og þeirri sósu sem þið berið fram með kjötinu. Grillsósuna er hægt að geyma í allt að þrjár vikur í ísskáp ef hún er í lofttæmdri krukku eða flösku.