Pepperóníbrauð


Pepperóníbrauð

Núna eru krakkarnir komnir í sumarfrí og það er alltaf sami höfuðverkurinn að finna eitthvað  handa þeim að borða í hádeginu. Yngsta barnið er einstaklega kresið og það þýðir lítið að bjóða henni bara ristað brauð, jógúrt eða skyr í hádeginu, hún er lítið hrifin af því. Sá gállinn er á henni að ef að henni líkar ekki maturinn þá sleppir hún því bara að borða þrátt fyrir svengd. Ég er því alltaf að reyna finna eitthvað gott til þess að eiga í hádeginu fyrir krakkana. Ef ég er heima þá er fljótlegt að búa til ostapasta og það er afar vinsælt.

IMG_1133

Ekki finnst þeim verra að fá crepes með eggi, skinku og osti.

Collages1-001

Eða pastasalat með pepperóní. 

IMG_3953

Í afmælinu hennar mömmu bauð hún upp á pepperóní brauð sem er afar vinsælt hjá krökkunum og gott að geta gripið til í frystinum. Þessi brauð passa líka vel á veisluborðið í barnaafmælum eða til að taka með í ferðalagið. Krakkarnir á heimilinu mæla eindregið með þessu brauði! 🙂

Uppskrift (Brauð og kökubók Hagkaups):

  • 320 ml mjólk
  • 600 g hveiti (hægt að skipta helmingnum út fyrir heilhveiti)
  • 20 g salt
  • 20 sykur
  • 60 smjör
  • 1 pk þurrger

Fylling:

  • 400 g beikonsmurostur
  • 130 g pepperóní, saxað
  • rifinn mozzarellaostur

Setjið allt saman í hrærivélaskál og vinnið rólega í 4 mínútur með króknum, vinnið svo deigið á miðjuhraða í 5 mínútur. Mótið deigið í kúlu og látið það hefast undir rökum klút í ca. 45 mínútur. Fletjið þá deigið út með kökukefli 30 cm x 70 cm, smyrjið ostinum á miðjuna á deginu og setjið pepperóní yfir ostinn. Brjótið saman deigið, fyrst annan helminginn yfir ostafyllinguna, svo hinn ofan á þann helming (deigið verður þannig þrefalt). Snúið deiginu við, sárið niður. Skerið deigið niður í tígla og leggið á smjörpappír (ca. 16 stk). Látið deigið hefast í 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi. Penslið deigið með vatni og setjið mozzarellaostinn yfir. Bakið við 220 gráður í um það bil 18 mínútur eða þar til það er kominn fallegur gylltur litur á brauðin.

IMG_9926