Draumaterta með fílakaramellukremi


Draumaterta með fílakaramellukremi

„Hvaða hrúgald er þetta“, gætuð þið réttilega spurt ykkur að – „Draumaterta með fílakaramellukremi!“ svara ég þá! Það mætti halda að við lifðum á tertum í sumarfríinu.  Svona slæmt er þetta nú samt ekki alveg hjá okkur. Ástæðan fyrir öllum kökuuppskriftunum hér á síðunni upp á síðkastið er sú að ég var með afmælisveislu um daginn og prófaði nokkrar nýjar tertur sem mig langar að setja hér í uppskriftasafnið mitt.

Fyrir löngu síðan prentaði ég út tertuuppskrift og setti í uppskriftamöppuna mína. Ég man ekki lengur hvaðan uppskriftin kom en mér leist vel á hana og hafði hugsað mér að prófa þessa tertu við gott tækifæri. Uppskriftin féll hins vegar í gleymskunnar dá þar til ég tók til í eldhússkápunum um daginn . Ég ákvað að prófa tertuna og bjóða hana í afmælisveislunni hans Vilhjálms. En þegar ég hafði bakað botnana þá leist mér ekkert á þá. Mér fannst þeir verða harðir og bakast afar ójafnt. Ég skellti nú samt rjóma á milli botnanna og kreminu ofan á kökuna (ég smakkaði á kreminu og það var ljúffengt!). Svo tilkynnti ég afmælisgestunum að þessi kaka væri alveg misheppnuð (í ofanálag lenti hún í óhappi í ísskápnum og var hálf-löskuð!). Ég sagði gestunum að þeir mættu gjarnan smakka á tertunni, svona til að staðfesta að hún væri misheppnuð, en þyrftu ekki að vera kurteisir og klára hana. Hins vegar fór svo hún var kosin besta tertan (í afar óformlegum kosningum!) á kaffihlaðborðinu! Tertan var það vinsæl að ég náði bara einni pínulítlli sneið, eða ekki einu sinni sneið, meira svona lítilli hrúgu, til þess að taka mynd af. Myndir af þessari tertu eru því bæði af skornum skammti auk þess sem hún var ekkert sérlega falleg! Þið verðið því að taka viljann fyrir verkið og trúa afmælisgestunum mínum þegar þeir segja að tertan hafi verið ljúffeng! 🙂

Uppskrift:

  • 200 g sykur
  • 3 egg
  • 100 g pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g döðlur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g suðusúkkulaði, saxað meðalgróft
  • 50 g kornflex
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 líter rjómi

IMG_1379

Fílakaramellukrem:fílakaramella

  • 200 g fílakaramellur
  • 1 dl rjómi

Ofn hitaður í 200 gráður. Egg og sykur þeytt mjög vel saman. Þá er
pecanhnetunum, döðlunum, suðusúkkulaðinu ásamt kornflexinu og lyftidufti bætt út í varlega með sleikju.

IMG_1381

Tvö smelluform (ca. 24 cm) smurð og deiginu skipt á milli þeirra. Bakað við 200 gráður í um það bil 20-30 mínútur. Tíminn getur verið dálítið misjafn eftir ofnum, það þarf að fylgjast með botnunum og meta tímann. Botnarnir eru kældir.
1/2 líter rjómi þeyttur og settur á milli botnanna. Ég skildi dálítið eftir að rjóma til að skreyta tertuna með.

Fílakaramellur settar í pott ásamt rjómanum og hitað við vægan hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hafa blandast saman við rjómann. Þá er kremið látið kólna þar til það er hæfilega þykkt – það er að það sé hægt að hella því yfir tertuna án þess að það leki of mikið. Eftir að kremið er sett á kökuna er hún geymd í ísskáp þar til að kremið er orðið kalt og stífnað.  Þá er kakan skreytt með afgangnum af þeytta rjómanum. Ég skar niður nokkrar fílakaramellur smátt og dreifði yfir tertuna en ég mæli reyndar ekki með því. Mér fannst karamellurnar of seigar undir tönn til þess að nota þær sem skraut.

IMG_1419