Ofnbökuð blálanga í chili-rjómaostasósu


Þegar ég var á aldur við yngstu dóttur mína sagði ég við mömmu að þegar ég yrði fullorðin ætlaði ég aldrei hafa fisk í matinn! Ég stóð ekki við það! Reyndar þá var frekar lítið um að ég eldaði fisk þessi 15 ár sem við bjuggum í Svíþjóð, það var þá einna helst íslensk ýsa sem hægt var að kaupa frysta og svo ferskur lax. Eftir að við fluttum til Íslands finnst mér frábært að komast í góðar fiskbúðir. Ég kaupi aðallega fisk frá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni, þeir eru með ljúffengan fisk og veita góða þjónustu. Ég kaupi aldrei ýsu lengur, það er svo mikið til af öðrum góðum fisk. Í þessari uppskrift átti að vera smálúða en hún var ekki til. Ég keypti því blálöngu í staðinn. Hún er vissulega mjög ólík smálúðu sem er flatfiskur en blálangan er þéttur og frekar feitur fiskur. Langan kom vel út í þessum rétti en ég er spennt að prófa smálúðuna næst, hún er með sterku auðkennandi bragði og kemur örugglega enn betur út.

Uppskrift f.4

  • 1200 gr. smálúða
  • 4 skarlottulaukar
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 rauður chili
  • 1 dós hrein jógúrt eða 200 gr. grísk jógúrt
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1/2 – 1 askja rjómaostur með svörtum pipar
  • 2 tsk sykur
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Aðferð:

Álpappír lagður á ofnplötu sem er penslaður með ólífuolíu og salti og pipar stráð yfir. Smálúðuflök lögð þétt saman á álpappírinn (smálúðan tekur pláss þar sem hún er flatfiskur og þarf því heila ofnplötu, ég notaði hins vegar eldfast mót þar sem að langan er umfangsminni). Skarlottulaukar, hvítlauksrif og kjarnhreinsaðan rauður chilli skorin niður fremur smátt og steikt upp úr 1 msk af jómfrúarolíu við fremur lágan hita í nokkrar mínútur, þannig verður laukurinn og chilliinn sætur og góður. Jógúrti, sýrðum rjóma og  rjómaosti með svörtum pipar bætt út í. Saltað og piprað og 2 teskeiðum af sykri bætt út í. Látið sósuna malla í smástund og hellið svo yfir fiskinn. Bakað við 200 gráður í 12 mínútur (15-20 mínútur fyrir þykkari fisk). Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflum ásamt salati og góðu brauði. Ég notaði ljúffengt spínat og klettasalat úr garðinum og glænýja íslenska kokteiltómata.

Ég get auðveldlega sleppt rauðvíni með steikum en það er eitthvað við góðan fisk svo ekki sé talað um sushi sem bara kallar á hvítvínsglas! Við hjónin fengum okkur því Reisling vín með matnum. Ég kann ekkert á vín og nota „hversu flott er myndin á flöskunni“ trikkið til að velja vín. Það er í raun ótrúlegt að vínframleiðendur nýti sér ekki þessa markaðssetningu betur því ég er handviss um að ég er ekki ein um þessa skotheldu aðferð! 🙂 En það er spurning hvort maður þurfi ekki að fara hugleiða að breyta um aðferð þegar heim er komið með vín þar sem stendur utan á flöskunni að þrúgurnar hafi verið ræktaðar í ,,hlidunum vid Týsku árnar í Týskalandi“! 🙂

Amerísk ostakaka með bláberjum


Jæja, tölum um ostakökur, þær dásemdarkökur! Það eru til tvenns konar útfærslur á ostakökum, bakaðar og óbakaðar. Uppistaðan í þessum óbökuðu er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér áður fyrr gerði ég oftar óbakaðar ostakökur en núna er ég farin að gera oftar bakaðar. Þessi uppskrift af bakaðri ostaköku (kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu) er mín uppáhalds hingað til, ég mun þó örugglega halda áfram að prófa fleiri uppskriftir! Ég held að galdurinn við hana sé hvíta súkkulaðið. Það er ótrúlegt hvað hvítt súkkulaði getur gert mikið fyrir kökur og eftirrétti! Í upphaflegu uppskriftinni er þessi ostakaka bökuð með bláberjum. Sú útgáfa hjá mér sést á myndinni hér að ofan (borin fram á dásamlega mánaðarstellinu sem ég fékk frá ömmu). En mér finnst hins vegar ekki verra að sleppa bláberjunum og skreyta hana með hindberjum og bera fram með hindberjasósu sem er himnesk með þessari ostaköku! Það er heldur ekkert sem segir að ekki sé hægt að baka hana með bláberjunum og bera fram með hindberjasósu! Þið sem elskið „Cheescake Factory“ ostakökur verðið að prófa þessa!

Uppskrift

  • 300 gr Digestive kex
  • 150 gr ósaltað smjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 gr Philadephia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 200 gr hvítt súkkulaði
  • 2.5 dl. bláber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
Hindberjasósa:
  • 300 gr hindber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
  • 2-3 msk sykur

Aðferð:

  1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
  2. Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki of lengi eftir að eggjum hefur verið bætt við. Rjómanum smám saman bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í. Hellið blöndunni yfir kexbotninn og dreifið báberjunum yfir kökuna.
  3. Bakið við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin, sjáið þetta myndband við ca. 2.55 mínútur, þarna er sýnt að kakan getur ,,dansað“ svolítið þó hún sé tilbúin. Síðan sígur hún dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt, látið það ekki á ykkur fá! Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.
  4. Fyrir þá sem vilja prófa hindberjasósuna með! Afþýðið 300 gr. af hinberjum, bætið við 2-3 msk. af sykri og hrærið vel saman með gafli eða töfrasprota. Bætið við örlitlu vatni ef sósan er of þykk. Það er hægt að hella sósunni ofan á kökuna og bera hana þannig fram eða bera sósuna fram með kökunni. Ég mæli með þessum frosnu hindberjunum í Kosti, þau eru alveg eins og þau séu fersk þegar þau eru afþýdd. Þau eru rándýr, 2000 kr. fyrir tæpt kíló. En það er samt mun ódýrara en að kaupa fersk ber, auk þess eru þau öll í lagi (maður fær oft ónýt fersk ber), hægt að næla sér í skammt í frystinn hvenær sem er og svo eru þau stór og ljúffeng!

Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.

Pavlova


Ég bakaði Pavlovu í vikunni þegar Vilhjálmur hélt upp á 12 ára afmælið sitt. Á myndinni er ég einmitt að horfa inn um stofugluggann á forviða afmælisgesti sem skildu ekkert í af hverju ég skaust út í garð með tertuna áður en hún var borin á borð! 🙂 Ég nota Pavlovu uppskrift frá Jóa Fel sem mér finnst mjög góð, ég hef þó aukið við magnið af rjómanum í uppskriftinni. Tertan er stór þannig að það þarf að gera ráð fyrir stórum kökudisk. Þá kom sér vel nýi flotti kökudiskurinn frá Brynju!

Pavlova er ein af mínum uppáhaldstertum. Stökkur marengs sem er mjúkur í miðjunni og þakinn rjóma og berjum, gerist ekki betra!  Það er hægt að velja hvaða ber sem er á tertuna, mér finnst sérstaklega gott að nota ástaraldin og hindber. Ég var með að auki jarðarber á þessari tertu. Tertan er nefnd eftir Önnu Pavlovu, sem var þekkt rússnesk ballerína. Þegar hún heimsótti Ástralíu og Nýja Sjálandi á öðrum áratug síðustu aldar var þessi terta fundin upp þar henni til heiðurs (það var nú samt örugglega eins og að kasta perlum fyrir svín, ég get samt ekki ímyndað mér að ballerínur borði mikið af marengstertum! ). Það sem er frábrugðið við marengsinn í Pavlovunni er að í hann er sett edik. Hann gerir það að verkum að marengsinn helst mjúkur í miðjunni.

Uppskrift

Botn:
8 stk eggjahvítur
400 g sykur
1 1/2 tsk edik
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk salt

Rjómakrem:
4-5 dl rjómi
4 msk flórsykur
1/2 tsk vanilludropar

Fersk ber eða ávextir eftir smekk

Þeytið eggjahvítur og bætið sykri, ediki, salti og vanilludropum við. Þeytið þar til sykur er vel uppleystur og marengsinn er orðinn stífur. Smyrjið marengsinn út á smjörpappír 26 cm hring (verið óhrædd, marengsinn á að vera svona stór og hár) setjið á plötu og bakið við 100° í 2 klukkustundir. Slökkvið á ofninum og látið kólna í honum.

Þeytið rjóma og blandið flórsykri og vanilludropum saman við. Setjið ofan á tertuna og skreytið með berjum og eða ávöxtum. Dæmi: jarðarber, hindber, ástaraldin, bláber, kíwi, blæjuber, brómber og mangó.

Oregano kjúklingaréttur með perlukúskús


Þegar ég bjó í Svíþjóð verslaði ég alltaf í ICA matvöruversluninni. Ohh, hvað ég sakna þess, vöruúrvalið var svo mikið! Hér þarf maður alltaf að fara í nokkrar verslanir til að fá þær vörur sem mann vantar og margt fæst alls ekki. Ísland hefur þó lambakjötið og sérstaklega fiskinn fram yfir Svíþjóð. En aftur að ICA! Verslunin sendi vikulega viðskiptavinum sínum heim tímarit um mat. Þar var meðal annars dálkur þar sem nokkrar fjölskyldur prófuðu tvær uppskriftir og gáfu álit sitt á þeim. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska allskonar dóma, einkunnir og gagnrýni! 🙂 Ég myndi til dæmis aldrei fara á hótel eða veitingastað sem ekki fær góða gagnrýni og háa einkunn frá gestunum! Allavega, þessi þáttur í blaðinu var í uppáhaldi hjá mér, ég klippti samviskusamlega út allar uppskriftir sem féllu fjölskyldunum vel í geð og setti í uppskriftabókina mína. Ég held að þessi kjúklingauppskrift sé mín uppáhalds úr þessum hópi uppskrifta.

Það sem mér finnst ótrúlegast og best við þessa uppskrift er hvað það þarf fá hráefni til að skapa ljúfengan rétt. Svo er þetta líka fljótlagaður og einfaldur réttur.

Í upphaflegu uppskriftinni eru hvorki sveppir né gulrætur en ég bæti þeim við. Eins er mælt með í uppskriftinni að hafa ofnsteika kartöflubáta sem meðlæti en mér finnst mikið betra að hafa hrísgrjón eða kúskús, þá nýtist bragðgóða sósan mikið betur. Hér notaði ég perlukúskús í fyrsta sinn (fæst í Hagkaup og í versluninni Tyrkneskur bazar). Það sló alveg í gegn, sérstaklega hjá krökkunum, ég mun nota það oftar. Það getur verið erfitt að fá ferskt oregano (bergmyntu). Ég kíki eiginlega alltaf eftir því í verslunarferðum og ef það er til, þá laga ég þennan rétt um kvöldið! Verið óhrædd að nota mikið af bergmyntunni, dragið laufin af stilknum og fínhakkið.

Uppskrift

  • 5 kjúklingabringur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 500 ml. matargerðarjómi
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • Nokkrar greinar af fersku Oregano (bergmyntu)
  • 1 1/2-2 msk. balsamic edik
  • Sveppir og gulrætur eftir smekk
  • Salt og pipar

Aðferð

  1. Skerið hverja kjúklingabringu á lengdina í þrjá bita. Hakkið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppi og gulrætur í bita. Hakkið oregano smátt (dragið blöðin af stilknum), í upprunalega uppskriftinni er talað um 3 matskeiðar af fersku oregano en mér finnst gott að nota mikið meira af því.
  2. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar (ég krydda auðvitað líka með uppáhalds kjúklingakryddinu mínu, Best á allt frá Pottagöldrum!) og steikið upp úr smjörinu og ólífuolíunni þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit. Bætið þá út í hvítlauk, sveppum og gulrótum og steikið í 2-3 mínútur í viðbót.
  3. Bætið út í rjóma, kjúklingakrafti, oregano og balsamic edik. Látið sjóða í 5-8 mínútur (undir loki ef þið eigið það til á pönnuna) eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til sósuna og bætið við salti, pipar eða jafnvel oregano kryddi við þörfum. Ef ég á ferska steinselju og/eða basiliku þá bæti ég því stundum í sósuna. Ef mér finnst of lítið af sósu drýgi ég hana með smá mjólk. Einnig er hægt að nota sósujafnara ef maður vill hafa sósuna þykkari.
  4. Berið fram með perlukúskús (eða hrísgrjónum) og salati eftir smekk.

Banana-karamellubaka


Þessi himneska baka kemur úr smiðju Davids Lebovitz sem er snillingur þegar kemur að eftirréttagerð. Uppskriftina er að finna í bókinni hans Ready for Dessert: My Best Recipies. Á ensku heitir þessi baka Butterscotch Banana Cream Pie. Ég er búin að spá aðeins í þetta ,,butterscotch“. Á íslensku notum við orðið karamella yfir allar gerðir karamellu. En á ensku er til:

Butterscotch = púðursykur, rjómi og smjör hitað í ca. 115°C – 125°C.
Toffee = púðursykur, rjómi og smjör hitað upp í 150°C – 160°C þar til það verður stökkt.
Caramel = hvítur sykur ásamt smjöri og rjóma hitað þar til sykurinn brúnast, gerist við 150-170°C

Ég fæ ekki séð að við eigum mismunandi orð yfir þessar karamellur en ég er búin að fletta upp í eldhúsbiblíunni minni, Matarást eftir Nönnu Rögnvaldar, hún notar ensku orðin til aðgreiningar.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er oftast rjómi í butterscotch-karamellunni en David notar mjólk í þessari uppskrift sem er auðvitað snilld, þá getur maður fengið sér fleiri sneiðar af bökunni án samviskubits! 🙂

Það kannski lítur út fyrir að það sé flókið að gera karamelluna en svo er alls ekki. Fylgið bara leiðbeiningunum nákvæmlega. Snilld við þessa böku er að það er hægt að útbúa hana deginum áður, en þá er bara rjómanum bætt við rétt áður en bakan er borið fram. Ég mæli með að þið prófið þessa dásemdarböku sem allra fyrst! 🙂

 Uppskrift

Botn:
180 gr súkkulaðikex (td. Maryland, rautt) eða Digestive kex ef maður vill minna sætan botn.
3 msk sykur
4 msk bráðið smjör

Aðferð:
Smyrjið bökuform. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél eða mixer, blandið saman. Sett í botninn á forminu og blöndunni þrýst i í botninn og upp í hliðar á bökuforminu. Kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frysti og bakið svo í ofni við 175°C í 10 mínútur. Leyfið botninum að kólna á meðan karamellan er er útbúin.

Karamella: 

215 gr. púðursykur
30 gr. smjör
3 msk. maizenamjöl
375 ml. nýmjólk
1/2 tsk. salt
3 eggjarauður
1/2 tsk vanilluextract (ég notaði fræin úr ferskri vanillustöng í staðinn en það er líka hægt að nota vanilludropa)
3 þroskaðir bananar

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman á meðalhita í potti, hellið yfir í meðalstóra skál, setjið sigti yfir skálina og setjið til hliðar
  2. Hrærið maizenamjölið út í 75 gr. af mjólkinni í lítilli skál. Hitið restina af mjólkinni með saltinu í potti þangað til að blandan er við suðu og hellið þá maizenamjölsblöndunni út í og hrærið þar til blandan þykknar (álíka mikið og majónes).
  3. Þeytið eggjarauðurnar saman í skál. Hellið smá af heitri mjólkurblöndunni útí eggin og þeytið meira. Hellið nú eggjablöndunni út í pottinn með heitu mjólkinni, sjóðið á meðalhita til að blandan þykkni.
  4. Hellið nú heitri blöndunni í gegnum sigtið ofan í púðursykurblönduna. Bætið vanilluextract við og hrærið vel saman. Núna er karamellan tilbúin.
  5. Skerið bananana niður í 6 mm sneiðar og dreifið yfir kexbotninn. Hellið karmellublöndunni yfir bananana, setjið plastfilmu yfir bökuna og geymið í kæli í minnst 2 klukkutíma áður en rjóminn er settur ofan á og bakan borin á borð.

IMG_3190

Rjómi:

250 ml rjómi
1 msk sykur
1/2 tsk vanilluextract
súkkulaðispænir til skreytingar

Þeytið rjómann þar til hann fer að þykkna, bætið þá sykri og vanilluextract út í og þeytið rjómann til fulls. Dreifið yfir bökuna og skreytið með súkkulaðispæni.

Grillbrauð


Síðasta kvöldið í sumarbústaðnum ákvað ég að reyna nýta afganga í kvöldmatinn. Fyrir utan ávexti og grænmeti átti ég einn pylsupakka en ekkert pylsubrauð. Ég ákvað því að búa til brauðdeig:

Uppskrift
 
6 dl hveiti
3 dl vatn
1 pk þurrger
2 msk ólífuolía
1 tsk sykur
1 tsk salt

Deig 
Hafið vatnið fingurvolgt. Olían sett út í volgt vatnið í skál, þurrgeri, sykri og salti blandað vel saman við hveitið og þurrefnunum loks hrært saman við vökvann. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og samfellt. Látið deigið í hveitistráða skál og látið það lyfta sér á hlýjum stað í 1 klst. eða þar til það hefur tvöfaldað umfang sitt.

Bakstur 
Hnoðið deigið aftur og skiptið því í tvo hluta. Skiptið hvorum deighluta í 5-6 hluta og búið til pylsu úr hverjum þeirra sem síðan er vafið utan um grillspjót. Stráið örlitlu hveiti yfir deigspjótin og látið hvíla í 20 mín. á bakka eða plötu. Raðið deigspjótum á grillið og látið bakast þar til þau eru fallega steikt. Snúið spjótunum nokkrum sinnum þannig að úr verði 3-4 hliðar á hverju brauði. Bökunartíminn fer eftir glóðarhitanum í grillinu en þau eru fljót að bakast, u.þ.b. 2 mín. á hverri hlið við meðalhita. Úr uppskriftinni fást 10-12 smábrauð. Ég vafði sumum deighlutum upp á spjót en öðrum utan um pylsurnar. Einnig setti ég ólífur í sum brauðin.

Það þarf bara að passa að hafa grillið ekki á of háum hita, fylgjast vel með brauðinu og snúa því reglulega.

Úr þessu varð alveg ágætis máltíð! 🙂

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku


Ég keypti nautaribeye í versluninni Til sjávar og sveita. Þar sem að við voru að fara í bústað í eina viku þá lét ég þá vakúmpakka því kjöti sem ég keypti. Þá geymist það í kæli í allavega viku. Kjötið var í heilum bita en það er mikið betra að skera kjötið sjálfur í sneiðar og ná þannig öllum sneiðunum jafn þykkum. Mikilvægt er að taka kjötið úr kæli nokkru áður en það er grillað þannig að það sé við stofuhita. Ég kryddaði kjötið með pipar, grillaði við frekar háan hita og leyfði því svo að jafna sig dálitla stund og kryddaði það með maldon salti.

Með kjötinu gerði ég bearnaise sósu. Það er í raun ekki flókið að gera heimatilbúna bearnaise sósu. Tvennt er mikilvægt: að hafa smjörið ekki það heitt að ekki sé hægt dýfa fingri ofan í það og að hella smjörinu út í eggjarauðurnar hægt í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Eins má alls ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði. Ég notaði  Bernaise Essence sem er seldur í litlum glösum í flestum verslunum. Það er líka hægt að búa til sitt eigið „essence“ úr meðal annars hvítvínsediki, skarlottulauk, tarragon og kryddi.

Uppskrift f. 4

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • Salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við (í sveitinni átti ég bara steinselju og bjargaði mér með henni, það slapp alveg!). Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf.

Með þessu var ég með grillað grænmeti og chilikartöflur með papriku en uppskrift af þeim er hér. Þær eru svolítið sterkar og koma þvi vel út með mildri bearnais sósunni og kjötinu. Þetta var býsna gott þó ég segi sjálf frá! 🙂

08451Sævar vínþjónn mælir með rauðvíninu Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon frá Chile með þessum rétti. Það er dökkrúbínrautt. Eiginleikar: Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Bragð: sólber, jörð, minta, vanilla, tóbak, eik.

Dásamleg kirsuberjaterta


Þessa mynd tók ég fyrir um það bil ári síðan þegar ég gerði þessa dásamlegu kirsuberjatertu í fyrsta sinn og tók hana með til góðra vina í Grjótaþorpinu. Ég hafði séð upppskriftina á ýmsum sænskum matarbloggum og gat ekki annað en prófað. Síðan þá hef ég gert þessa tertu nokkrum sinnum, breytt og aðlagað uppskriftina og núna er þetta ein af mínum uppáhaldstertum.  Það er mikilvægt að gera tertuna deginum áður og leyfa henni að brjóta sig í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram. Botnarnir verða þá blautir, eiginlega eins og súkkulaðifrauð eða búðingur sem er einstaklega ljúffengt í bland við gómsæta kirsuberjakremið! Í uppskriftinni er mascarpone ostur en ég hef líka notað rjómaost og mér finnst það alveg jafn gott. Kirsuber fást yfirleitt aldrei á veturnar og þá er hægt að skreyta tertuna með öðrum berjum. En núna eru kirsuber til í mörgum verslunum þannig að það er ákkurat rétti tíminn til að prófa þessa dásemd! Það tekur dálítin tíma að gera tertuna þar sem að það þarf að baka þrjá botna og búa til tvenns konar krem. En ég get lofað að það er þess virði! 🙂

IMG_8361

Hér bakaði ég tertuna við annað tækifæri og skeytti hana með jarðaberjum í stað kirsuberja

Uppskrift

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

IMG_7174Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

Kirsuberjakrem

  • 500 g mascarpone ostur
  • 3 dl rjómi
  • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
  • 120 g sykur
  • ½ tsk vanilusykur

Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.

Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.

Súkkulaðikrem

  • 175 g suðusúkkulaði
  • ½ dl rjómi
  • 1 msk smjör
  • 1msk síróp

Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!

 

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.