Súkkulaði-bananavöfflur


IMG_0368

Mér finnst flest allt þar sem súkkulaði er sameinað með banönum afskaplega gott. Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar slíkar uppskriftir sem eru allar í miklu uppáhaldi.

Frönsku pönnukökurnar, crepes, með Nutella og banönum eru til dæmis hættulega góðar.

IMG_3736

Þessi súkkulaði- og bananakaka er líklega uppáhaldskakan mín hér á Eldhússögum. Ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu!

IMG_9530

Banankakan með súkkulaði lætur ekki mikið yfir sér á mynd en er sjúklega góð.

IMG_0153

Þessi bananakaka hefur verið í uppáhaldi á heimilinu í 20 ár og eina kakan sem eiginmaðurinn bakar reglulega.

IMG_2259

Hér er svo súkkulaðikaka með banönum og sykurpúðum, algjört hnossgæti.

IMG_1013

Hérna er reyndar banana- og karamellubaka en hún er svo dásamlega góð.

IMG_3186

Í dag bæti ég í safnið enn einni súkkulaði/bananauppskriftinni sem sló svo sannarlega í gegn hér heima! Ég fór nefnilega að hugsa um leiðir til þess að nota skemmtilegu vöffluformin mín á fleiri vegu en að baka bara í þeim hefðbundnar vöfflur. Þessi form fást í Kokku. Hér setti ég inn uppskrift þar sem ég bakaði hefðbundar vöfflur í formunum.

vöfflur

Mér datt í hug að prófa að búa til vöfflur með súkkulaði og banönunum, nokkuð sem reyndist snilldarhugmynd. Ég prófaði mig áfram og fyrstu vöfflurnar reyndust óætar! Ég notaði of mikið kakó og of lítinn sykur, þær urðu alltof rammar. En eftir að hafa prófað mig áfram með deigið datt ég niður á sjúklega góðar vöfflur, þessar verðið þið bara að prófa! Frábær eftirréttur eða með kaffinu til hátíðarbrigða. Ég prófaði bæði að baka þær í vöffluformunum mínum í ofninum en líka í belgíska vöfflujárninu og hvor tveggja kom álíka vel út.

IMG_0353IMG_0361IMG_0375

Svona komu vöfflurnar úr belgíska vöfflujárninu

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að baka þessar vöfflur í hefðbundu vöfflujárni ef þið eigið ekki formin. Ég mæli hins vegar mikið með formunum úr Kokku, þá er hægt að baka allar vöfflurnar í einu og bera þær fram sjóðandi heitar samtímis. Snilld til dæmis sem eftirréttur fyrir marga.

Súkkulaði-bananavöfflur

Uppskrift:

  • 2 dl hveiti
  • 2 dl kartöflumjöl
  • 1 msk kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjölk
  • 2 egg
  • 100 g smjör, brætt
  • 2 bananar, stappaðir

Þurrefnunum blandað saman í skál. Þá er öðru egginu og helmingnum af mjólkinni blandað út í. Því næst er hinu egginu, restinni af mjólkinni, brædda smjörinu og banönunum bætt út í og hrært með písk þar til deigið er slétt. Bakað í vöfflujárni og vöfflurnar bornar fram heitar.

Ef notuð eru vöffluform er ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Deiginu er hellt í formin og sett inn í ofn í 7 mínútur. Því næst eru formin tekin úr ofninum og vöfflunum hvolft á bökunarplötu. Hitað í ofninum í 4-5 mínútur til viðbótar.

IMG_0349

Vöfflurnar er hægt að bera fram með niðursneiddum banönum og sírópi, ís og karamellusósu, þeyttum rjóma og Nutella sósu eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0379

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!


Súkkulaðiterta með saltri karamellu

Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!

blogg

Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂

blogg1

Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.

blogg2

Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna  árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!

IMG_0281

Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!

IMG_0310

IMG_0307

IMG_0304

Uppskrift: 

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

IMG_0273

IMG_0291

Marengskrem með saltri karamellu

  • 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
  • 200 g sykur
  • 400 g smjör, vel við stofuhita
  • 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
  • 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
  • 1/2 tsk vanillusykur
Eggjahvítur og sykur sett í hrærivélaskálina. Skálin er sett yfir vatnsbað, þ.e. sett ofan í pott með sjóðandi vatni. Blandan er hituð og hrært í stöðugt á meðan með þeytara. Þegar sykurinn er uppleystur og blandan farin að hitna (komin í 65 gráður ef notaður er mælir) er skálin sett á hrærivélina og þeytt þar til blandan er stífþeytt, glansandi og orðin köld (ég þeytti í ca. 10 mínútur). Þá er þeytaranum skipt út fyrir hrærarann. Smjörinu (verður að vera við góðan stofuhita) er bætt út í og hrært á lægstu stillingunni. Á meðan smjörið er að blandast við marengsinn getur litið út fyrir að hann skilji sig en óttist ekki, þetta blandast allt vel saman að lokum! Þegar blandan nær um það bil sömu áferð og majónes má auka hraðan, stilla á millihraða og hræra í smástund til viðbótar. Því næst er slökkt á hrærivélinni og dulce de leche sósunni, saltinu og vanillusykrinum er bætt út í og síðan hrært á lægsta hraða, hækka svo smá saman í millihraða. Nauðsynlegt er að smakka svo til kremið, ég til dæmis bætti við dulce de leche sósu.
Krem

Súkkulaðikrem:

  • 45 g kakó
  • 90 ml sjóðandi vatn
  • 340 g smjör við stofuhita
  • 65 g flórsykur
  • 450 g suðusúkkulaði

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.

IMG_0312

Tertan sett saman:
Einn kökubotn er lagður á kökudisk og góðu magni af marengskremi er smurt á botninn. Þetta er endurtekið með hina tvo botnana. Í lokin er restinni af kreminu smurt utan um kökuna alla. Þá er kakan sett í kæli í ca. 20 mínútur þar til kremið hefur stífnað dálítið. Því næst er súkkulaðikreminu smurt utan um kökuna og kakan sett í kæli í nokkra tíma (best yfir nóttu) til að brjóta sig. Gott er að taka kökuna út allavega einum tíma áður en hún er
borin fram.
IMG_0294
Súkkulaðiterta með saltri karamellu
IMG_0293

Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu


Indverskur nautakjötspottréttur með raita jógúrtsósu
Ég er alltaf að prófa mig áfram með uppskriftir þar sem ég get notað gúllasið sem ég pantaði af býli. Ókosturinn við gúllas er að oft þarf að elda það mjög lengi eða láta það liggja í maríneringu lengi, það hentar illa fyrir upptekið fólk eins og mig. Þessi réttur er hins vegar fremur fljótlegur og kjötið naut sín vel, virkilega góður réttur! Það er hægt að stjórna hversu sterkur rétturinn er með karrímaukinu. Ég gef upp þrjár matskeiðar í uppskriftinni en það gerir réttinn sterkan, það er því gott að prófa sig áfram með magnið. Raita jógúrsósan er dásamlega góð, hún gefur jafnvægi við kryddið og kallar betur fram góða bragðið.
Uppskrift:
  • 600 nautakjöt í bitum (ég notaði nautagúllas, líka hægt að nota lambakjöt)
  • 4 msk olía
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 2 msk rifið ferskt engifer
  • 5 lárviðarlauf
  • 3 msk currypaste (rautt), gott samt að prófa sig áfram með magnið, 3 msk gera réttinn sterkan)
  • 1,5 msk garam masala
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 msk mango chutney
  • 2-3 dl vatn (líka gott að nota helming vatn og helming rjóma)
  • 1-2 grænar paprikur, skornar í strimla
  • 2-3 tómatar, skornir í bita
Kjötið er steikt á pönnu upp úr olíunni þar til það hefur náð dálitlum lit. Þá er lauknum og hvítlauknum bætt út í og steikt áfram. Því næst er engifer, lárviðarlaufum (þau eru svo fjarlægð áður en rétturinn er borinn fram), currypaste, garam masala, tómatpúrru og mango chutney bætt út í og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Allt er svo flutt yfir í pott, vatni bætt út, lok sett á pottinn og látið malla í 30-40 mínútur eða þar til kjötið er orðið meyrt. Þegar um það bil 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er paprikunni og tómötunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, salati, mango chutney og raita jógúrtsósu.
IMG_0152
Raita jógúrsósa:
Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Tælensk kjúklinga- og sætkartöflusúpa


IMG_9654

Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.

Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂

IMG_9651

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
  • 1 dós kókosmjólk
  • ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • grófmalaður svartur pipar

IMG_9644

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus.  Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.

IMG_9652

Rjómalöguð fiskisúpa með chili


IMG_0110

 

Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.

IMG_0097

Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!

Uppskrift f. 4

  • ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
  • olía til steikingar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1/2 gul paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauð paprika, skorin í bita
  • 5 dl fiskisoð
  • 2 dl rjómi
  • 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 3/4 dl tómatpúrra
  • ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
  • 1/2 tsk chili-krydd
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/4 tsk cumin
  • 1 msk sykur (má sleppa)
  • 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
  • salt & pipar

IMG_0113

Aðferð:

Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.

IMG_0115

Sojamarineraður lax með mangó-avókadó salsa og smörsteiktu spínati


IMG_9632

Enn ein frábær helgi er liðin hjá og dásamlegur júnímánuður runninn upp. Í gærkvöldi átti ég yndislegt kvöld með vinkonum mínum úr meistaranáminu. Þvílík lukka að námið leiddi okkur þrjá sálufélagana saman! 🙂 Við fórum á Austurlandahraðlestin á nýja staðinn í Lækjargötu og fengum ákaflega góðan mat þar. Því næst lá leiðin í Þjóðleikhúsið þar sem við sáum sýninguna Engla alheimsins sem er frábær sýning. Því næst var bærinn málaður rauður … tja, eða allavega fölbleikur! 😉

En ég ef ég vík að uppskrift dagsins þá ætla ég að gefa ykkur langbestu laxauppskriftina mína hingað til! Já ég veit, ég segi oft að þær laxauppskriftir sem ég set inn séu þær bestu! En trúið mér, þessi ER sú besta! Þessi uppskrift er afskaplega einföld en maður minn hvað hún er góð! Meðlætið er dásamlegt, mangó- og avókadó salsa er auðvitað hrein snilld með laxi en smjörsteikta spínatið er líka ofsalega gott, ég ætla sannarlega að notað það oftar. Okkur fannst marineringinn dásamlega ljúffeng, hún gerði laxinn að hnossgæti! Við mælum sannarlega með þessum frábæra rétti!

Uppskrift: 

  • 800 g lax, roðflettur og skorinn í bita
  • olía til steikingar

IMG_9625

Marinering:
 
  • 1.5 dl sojasósa
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður fínt
  • 1-2 tsk ferskur engifer, rifinn
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • límónusafi (lime)
  • hunang, fljótandi (eða sykur)
Hráefnunum fyrir marineringuna blandað saman, smakkað til með hunangi og límónusafa. Laxinn er því næst steiktur á pönnu upp úr olíu í um það bil 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til laxinn hefur fengið fallegan steikingarlit. Þá er marineringunni hellt yfir laxinn og honum leyft að malla á vægum hita á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Laxinn er þá lagður upp á fat og marineringunni dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum, smjörsteiktu spínati og mangó-avókadósalsa.

IMG_9627
Smjörsteikt spínat
  • 300 g ferskt spínat
  • smjör
  • 6 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • salt og pipar
Rétt áður en laxinn er borinn á borð er spínatið og vorlaukurinn steikt upp úr smjöri í örstutta stund þar til spínatið verður mjúkt. Kryddað með örlitlu salti og pipar eftir smekk og borið fram strax.

Mangó-avókadó salsa
  • mangó, skorið í bita
  • 1 stórt eða 2 lítil avókadó, skorið í bita
  • 1/2 – 1 rauður ferskur chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • safi úr einni límónu (lime)
  • kóríander eftir smekk, saxað
Öllu blandað vel saman og borið fram með laxinum.

IMG_9639

Blaut súkkulaðikaka með glóaldini


súkkulaðikaka með glóaldini

Í æsku þegar ég átti að velja átti appelsínu eða epli í „Fram, fram fylking“ þá valdi ég alltaf epli. Alla gagnfræðiskólagöngu mína, sem var fyrir tíð skólamötuneyta, þá borðaði ég langloku og drakk Svala með eplabragði í hádeginu. Enn þann dag í dag held ég upp allt með eplabragði, hvort sem það eru eplakökur, eplahlaup, epladrykkir, eplasorbet eða annað slíkt og forðast flest með appelsínubragði. Þess vegna hafði ég ekkert of miklar væntingar til þessarar appelsínusúkkulaðiköku. Hins vegar þá hljómar blaut súkkulaðikaka með eplabragði ekkert sérstaklega vel þannig að ég gaf appelsínukökunni séns! Ég sá ekki eftir því! Þessi kaka er algjört sælgæti, hún minnir á gömlu og góðu kattartungurnar. Algjört hnossgæti með þeyttum rjóma! Ég var ekki ein um að finnast þessi kaka góð. Ég smakkaði eina sneið og bauð svo Vilhjálmi og þremur vinum hans upp á köku. Ég hafði varla snúið mér við þegar þeir höfðu klárað alla kökuna og voru afar sælir og sáttir. 🙂

IMG_9596

IMG_9615

Ef ég vík að nafninu á kökunni þá var að finna lítið kver í bókasafni langömmu minnar sem ber heitið „Orð úr viðskiptamáli eftir orðanefnd verkfræðingafélagsins“ og er frá árinu 1927. Þar eru íslenskar kjarnyrtar þýðingar á nýmóðins orðum. Það er gaman að skoða þessa bók, margar þýðingar hafa náð að festast í sessi í málinu okkar, aðrar ekki. Í bókinni fengu ávextir einstaklega fallegar þýðingar sem því miður hafa ekki náð að skjóta rótum í tungumálinu. Dæmi um þetta eru:

  • appelsína: glóaldin
  • mandarína: gullaldin
  • ananas: granaldin
  • banani: bjúgaldin
  • melóna: tröllaepli
  • tómatur: rauðaldin

„Súkkulaðikaka með glóaldini“, er þetta ekki mikið fallegra en „súkkulaðikaka með appelsínu“? 🙂 Önnur orð sem ég er hrifin af úr bókinni eru: marmelaði: glómauk og servíetta: smádúkur eða mundlína. Mér finnst að við ættum að taka okkur saman og innleiða þessi fallegu orð í íslenskuna! 😉 En burtséð frá því þá verða allir súkkulaðiunnendur að prófa þessa dýrðlegu köku!

IMG_9548

Uppskrift

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (bragðlaus)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • safi úr 1 appelsínu (ca. 1 dl)
  • fínrifið hýði af 1 appelsínu
  • 3 dl hveiti
  • 4 1/2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

IMG_9551

Ofn hitaður i 200 gráður við undir- og yfirhita. Sykur, egg, olía og brædda smjörið hrært vel saman. Því næst er appelsínusafa og appelsínuhýði bætt út í. Gætið þess að rífa hýðið grunnt, ekki taka með hvíta lagið af appelsínunni. Þá er hveiti, kakói og vanillusykri sigtað út í og blandað varlega saman við deigið. Smelluform smurt að innan (ca. 24 cm) og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 200 gráður við undir- og yfirhita í um það bil 18-22 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut í miðjunni. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_9608

IMG_9604

Kartöflusalat án kartaflna


IMG_9727

Ég skrifaði um daginn að ég hefði haldið matarboð sem hentaði fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífsstílnum, LKL. Mig langaði að búa til gott kartöflusalat með grillsteikinni en kartöflur eru ekki leyfilegar í LKL. Ég gerði því kartöflusalat án kartaflna, notaði kúrbít í staðinn. Það kom ákaflega vel út, kúrbíturinn er auðvitað ekki með sömu áferð og kartöflur en getur samt vel komið í stað t.d. kartaflna í kartöflusalat eða í stað lasagnaplatna í lasagnaréttinn. Það er auðvitað hægt að nota hvaða kartöflusalats uppskrift sem er og skipta bara út kartöflum fyrir kúrbít en hér er uppskriftin sem ég notaði.

Uppskrift:

  • 1 stór kúrbítur Unknown
  • 1/2 púrrlaukur
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 0,5 dl majónes
  • 0,5 msk dijon sinnep
  • 1 msk capers (kemur frá mismunandi framleiðendum en lítur um það bil svona út eins og á myndinni     →
  • Salt & svartur pipar

Kúrbíturinn er afhýddur og skorinn í teninga. Púrrlaukurinn er saxaður fínt. Hvor tveggja er því næst steikt upp úr smjöri þar til kúrbíturinn hefur mýkst dálítið, látið kólna. Capers er saxað og blandað við sýrðan rjóma, majónes og sinnep. Því næst er kúrbítsblöndunni hrært út í og smakkað til með salti og pipar.
IMG_9725

Grillaður lax með kryddjurtamaríneringu og klettasalatssósu


IMG_9833

Mér finnst lax ákaflega góður. Það liggur við að mér finnist hver einasti laxaréttur vera „sá besti sem ég hef bragðað“! En ég held að það sé vegna þess að það er varla hægt að klúðra svona góðu hráefni eins og laxinn er. Að þessu sinni grillaði ég laxinn með einkar góðri maríneringu og gerði með honum ofsalega góða klettasalatssósu. Þessa klettasalatssósu væri einnig gott að nota með til dæmis grilluðum kjúklingi. Ég grillaði imagesgrænmeti með laxinum, sætar kartöflur, gulrætur og blómkál. Grænmetið skar ég niður í bita, velti því upp úr ólífuolíu, góðum kryddum og grillaði í snilldar grillbakkanum frá Weber. Ég mæli svo mikið með þessum grillbakka. Hér um alltaf þegar ég grilla, set ég eitthvað grænmeti í bakkann, það slær ekkert meðlæti grilluðu grænmeti við! Ég hef séð þennan grillbakka ódýrastan hjá Bauhaus.

Ég fékk um daginn sendingu frá Saltverk Reykjaness.

IMG_9846

Fyrirtækið framleiðir vestfirskt kristalsjávarsalt sem eru stórar og stökkar saltflögur. Saltið er unnið með aldagamalli íslenskri aðferð sem stunduð var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á 18.öld. Frábært salt sem ég mæli sannarlega með. Það var svo spennandi að ég fékk líka prufur af nýju bragðbættu Saltverks-salti sem er ekki enn komið á markaðinn. Meðal annars lakkríssalti og blóðbergssalti. Ég er búin að vera að þefa og smakka á saltinu og reyna að átta mig á hvernig best væri að nota það. Einna spenntust er ég að finna góða leið til þess að nota lakkríssaltið! En ég notaði blóðbergsaltið í maríneringuna á laxinn og það kom afar vel út.

IMG_9844Uppskrift:

800 g laxaflak

Marínering:

  • 1 dl fínsöxuð blaðasteinselja (eða kóríander)
  • 1 límóna (lime), hýði fínrifið og safinn
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 2 msk ólífuolía
  • salt (ég notaði blóðbergssalt frá Saltverki) og pipar

IMG_9826

Hráefninu í maríneringuna er hrært saman. Laxinn er lagður á þar til gerða grillgrind eða einnota grillbakka. Maríneringunni er dreif fyrir laxinn og hann grillaður við meðalhita í um það bil 10 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn – það þarf að gæta þess að ofelda hann ekki. Borið fram með grilluðu grænmeti og klettasalatssósu.

IMG_9832

Klettasalatssósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • ca. 2 stórar lúkur klettasalat
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl furuhnetur
  • 1 dl fínrifinn parmesanostur
  • salt och grófmalaður svartur pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél og borið fram með fisknum.

IMG_9836