Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

  • 100 g laxaflak
  • 1 stk. hvítlauksgeiri
  • 2msk Maldon sjávarsalt
  • hluti úr ferskum ananas
  • 2-3 msk. sýrður rjómi
  • 1stk skarlottulaukur
  • ferskur pipar úr millu
  • 2 msk. ólífuolía
  • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Salat með sesamkjúklingi


Salat með sesamkjúklingi

Ég tók mér ekki bara frí frá blogginu í gær heldur eldamennskunni líka þar sem að ég átti afmæli. Eiginmaðurinn ákvað að það væri kominn tími til að hann eldaði fyrir mig! 🙂 Hann grillaði líka þessa dýrindis steik með gómsætu meðlæti. Maturinn var eiginlega hættulega góður hjá honum og líkurnar á því að hann verð sendur oftar í eldhúsið stórjukust eftir gærdaginn!

Það var svo margt skemmtilegt um að vera um síðustu helgi. Auk þess sem við hjónin fórum á Hótel Glym þá fórum við líka í stóra og glæsilega fertugsafmælisveislu hjá einni vinkonu minni úr saumaklúbbnum. Á sunnudagskvöldinu hélt ég svo saumaklúbb til þess að við stelpurnar gætum nú gert upp skemmtunina kvöldið áður! 🙂 Ég hafði fengið óskir um að hafa Snickerskökuna, að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk. Að auki bjó ég til kjúklingasalat og þessar bruschetta snittur nema að þessu sinni skipti ég út mozzarella fyrir gullost og basiliku fyrir kóríander og steinselju. Kjúklingasalatið var samanblanda af hinu og þessu og var afskaplega ljúffengt. Að minnsta kosti þorðu stelpurnar ekki að segja neitt annað við mig þessar elskur! Mér fannst dressingin einstaklega góð og mun klárlega nýta þá uppskrift fyrir fleiri salöt. Magnið af hráefninu í kjúklingasalatið og hlutfallið á milli þeirra fer eftir smekk.

IMG_9295

Uppskrift:

  • kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • kjúklingakrydd
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • maple síróp
  • sesamfræ
  • spínat
  • klettasalat
  • grænt salat
  • kokteiltómatar, skornir til helminga
  • avókadó, skorið í bita
  • mangó, skorið í bita
  • jarðarber, skorin í bita
  • nachos flögur, muldar gróft
  • beikon
  • fetaostur með olíu en olían síuð frá

IMG_9289

Kjúklingabringur eru skornar í fremur litla bita og þeir kryddaðir með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Steikt á pönnu þar til kjúklingabitarnir hafa náð góðum lit. Þá er sírópi og sesamfræum bætt út á pönnuna, hrært vel saman við kjúklinginn, og látið krauma í dálitla stund (þar til enginn vökvi er eftir á pönnunni). Ég notaði 1 kíló af kjúklingabringum og ca. 1/2 dl af maple sírópi og 1/3 dl af sesamfræum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann látin til hliðar og leyft að kólna.

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til bitarnir verða stökkir. Þá er öllum hráefnunum blandað saman og salatdressingunni dreift yfir salatið.

IMG_9291

Salatdressing:

  • 1/2 dl olífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 cm ferskur engifer, rifinn fínt
  • nokkrar greinar fersk steinselja, söxuð fínt
  • ca 1 msk sesamfræ
  • maldon salt
  • 1/2 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur grænmetiskraftur

Öllum hráefnunum blandað vel saman og dressingunni dreift yfir salatið.

Bakaðar vöfflur


Bakaðar vöfflur

Við hjónin vorum að koma ofan úr Hvalfirði þar sem við eyddum ljúfum tíma á hótel Glym. Hótel Glymur er mjög hlýlegt og notalegt hótel. Útsýnið frá hótelinu er óborganlegt, við nutum þess yfir góðu vínglasi áður en við snæddum góða þriggja rétta máltíð á hótelinu.

Seinna um kvöldið fórum við í heita pottinn undir ævintýralega stjörnubjörtum himni. Morgunverðarhlaðborðið var afskaplega ljúffengt. Ef á slíku borði eru egg í allskonar útgáfum, ostar, reyktur lax og ávextir þá er ég glöð og Hótel Glymur stóð undir þeim væntingum.

image

image

Instagram áhangendur Eldhússagna gátu séð myndir frá þessari ferð. Mér finnst þetta Instagram svo ægilega skemmtilegt! Það er nú samt týpískt að loksins þegar ég kemst á Instagram þá eru allir að færa sig yfir á Cinemagram! 🙂 Aldrei að vita nema að Eldhússögur prófi sig áfram þar líka!

Það áttu sér stað tilraunir í eldhúsinu í Kleifarselinu í gær. Ég eignaðist stórsniðug silikon form úr Kokku sem notuð eru til að baka vöfflur í ofni. Ég var ægilega spennt að prófa nýju formin mín og stóðst ekki mátið að búa til vöfflur áður en við hjónin fórum í Hvalfjörðin. Börnin og vinir þeirra sem voru í heimsókn voru ekkert ósátt við þessar tilraunir! Einn af stóru kostunum við þessi form er að allar vöfflurnar verða tilbúnar á sama tíma.

vöfflur

Ég notaði hér um bil sömu uppskrift og ég nota fyrir venjulegar vöfflur en notaði meira smjör. Vöfflurnar urðu rosalega góðar og í raun ekkert líkar þeim sem bakaðar eru í vöfflujárni. Bragðið var það sama en áferðin allt önnur. Þær eru töluvert þykkari og minna á belgískar vöflur. Með því að baka vöfflurnar í þessum formum verða þær stökkar að utan og mjúkar og djúsí að innan. Vöfflurnar slógu algjörlega í gegn hjá öllum börnunum fimm sem sögðu öll sem eitt að þessar vöfflur væru mikið betri en hefðbundnar vöfflur. Ég verð að vera sammála þeim, þetta voru dásamlega góðar vöfflur og afskaplega auðvelt að baka þær. Ég er strax farin að upphugsa fleiri leiðir til þess að nota þessi form. Spenntust er ég fyrir því að prófa að baka brownies í formunum. Það yrði örugglega dúndur eftirréttur sem væri gaman að skreyta og bera fallega fram. Einnig væri sniðugt að nota gerdeig eins og notað er í belgískar vöfflur og gera ósætar vöfflur með kannski beikoni, ostum eða einhverju slíku. Möguleikarnir eru býsna margir!

IMG_9265

Hér er önnur hliðin bökuð, svo er vöfflunum hvolft á bökunarplötu og þær bakaðar í nokkrar mínútur í viðbót.

IMG_9267

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 100 g smjör
  • 400 ml mjólk
  • 250 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk sykur

Ofn hitaður í 220 gráður. Smjörið brætt og eggin pískuð létt saman, þá er smjörinu bætt út í eggin. Því næst er mjólkinni bætt út í og hún pískuð saman við eggin og smjörið. Að lokum er þurrefnunum bætt út og og degið hrært saman með písk þar til það er slétt og laust við kekki. Deginu er hellt í formin og bakað í ofni í ca. 8-9 mínútur. Þá eru formin tekin út og vöfflunum hvolft á ofnplötu og þær bakaðar í ca. 5 mínútur til viðbótar (samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum). Ég reyndar bakaði þær í ca. 8 mínútur til þess að fá meiri lit á vöfflurnar. Við bárum fram vöfflurnar með rjóma og sultu annars vegar …

IMG_9277

og Nutella og jarðaberjum hinsvegar …

Bakaðar vöfflur

Ananas-salsa með myntu og chili og Eldhússögur á Instagram


IMG_8883

Í gær kom Elfar aftur heim frá Svíþjóð. Hann kom ekki tómhentur heim því ég fékk blóm og afmælisgjöf! Ég á samt ekki afmæli fyrr en eftir nokkra daga en hann var spenntur eins og lítið barn og gat ekki beðið með að gefa mér gjöfina! 🙂 Ég er sem sagt orðin Iphone eigandi!  Ég hef alltaf sagt að Iphone sé óþarfi, ég þurfi ekkert slíkt tæki. Elfar var ekki samþykkur því og sagði að nýútskrifaður upplýsingafræðingur þyrfti að eiga Iphone! Ósk var honum innilega sammála, sjálfri fannst henni afar lífsbætandi að eignast Iphone! 🙂 Ég verð nú eiginlega að vera sammála þeim feðginum eftir að hafa fiktað við Iphone-símann minn í dag, þetta er ansi sniðugt tæki! Núna eru Eldhússögur komnar á Instagram eins og öll almennileg blogg og ég get loksins farið að fylgjast með bloggunum sem ég les á Instagram! Spennandi! Ykkur er velkomið að fylgjast með mér á Instagram, þið finnið mig undir eldhussogur.

Ég er svo leið yfir því að finna ekki uppskriftina af eplakökunni sem ég bakaði um daginn. Ég er búin að leita og leita! Hún var voða góð og fór strax í uppáhald hjá Jóhönnu Ingu sem elskar eplakökur. Svo virðist sem kakan verði bara að lifa í minningunni og á myndum!

IMG_8539Þegar ég var með útskriftaveisluna mína um daginn var einn rétturinn hjá Marentzu einhverskonar ananas-salsa sem var svo gott.

IMG_8214Ég sá í hendi mér að þetta salsa væri gott með allskonar súkkulaðikökum, súkkulaðifrauði, vöfflum, ís og öðru góðu gúmmelaði eða bara eitt og sér. Ég prófaði sjálf að búa til ananas-salsa og bjó til eftirfarandi uppskrif. Magnið metur maður bara sjálfur, fer eftir því hvaða bragð maður vill að sé ríkjandi.

  • ferskur ananas skorin í bita
  • rautt chili, saxað smátt
  • fersk mynta, söxuð smátt
  • limesafi
  • hunang (má sleppa)

Öllu blandað saman og látið bíða í ísskáp í minnst 20 mínútur áður en salsað er borið fram. Borið fram með súkkulaðikökum, ís, grilluðu ljósu kjöti eða fisk. Ég held hreinlega að þetta passi vel með ansi mörgu! 🙂

IMG_8869

Pönnubuff í grískri tortillu


Pönnubuff í grískri tortillu
Það var fámennt hjá mér í mat eitt kvöldið og ég ákvað að nýta einn nautahakkspakkann frá Mýranauti. Ég kíkti í ísskápinn og setti mér það markmið að búa til eitthvað úr því sem ég átti til. Útkoman var samruni grískrar og mexíkóskar matargerðar sem var bæði afar fljótlegur og afskaplega góður réttur! Reyndar held ég að hvorki Grikkir né Mexíkóar myndu gangast við þessari matargerð. Það er líklega klisjukennt að kalla mat mexíkóskan bara af því notaðar eru tortillur eða grískan bara af því að notaður er fetaostur! 🙂 Burtséð frá því þá finnst mér alltaf svo skemmtilegt að týna fram hráefni sem ég á og reyna að búa til eitthvað gott úr því. Ég held að ástæðan sé tvíþætt, annars vegar finnst mér gott að vera sparsöm og geta nýtt það hráefni sem ég á út í ystu æsar. Hins vegar þá er spennandi að týna fram hráefni, sjá óljóst fyrir sér útkomuna og halda svo af stað í smá óvissuferð. Best er auðvitað þegar útkoman verður vel heppnuð og bragðgóð þó það heppnist auðvitað ekki alltaf. Að þessi sinni var matreiðslan ekki flókin enda þarf hún ekki að vera það til þess að útkoman verði góð!

Uppskrift:
  • 600 g nautahakkhakk
  • 1 egg
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • annað gott kjötkrydd eftir smekk
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • 150 g sveppir, niðursneiddir
Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Stór kaka er mótuð úr hakkinu og hún sett á pönnuna. Pönnubuffið steikt á annarri hliðinni í nokkrar mínútur. Þegar sú hlið hefur náð góðri steikingarhúð er buffinu skipt í fjóra hluta og því snúið við og steikt þar til það er tilbúið. Þegar búið er að taka buffið af pönnunni er dálitlu smjör og/eða olíu bætt á pönnuna og sveppirnir steiktir.

Sósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 tsk mynta
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • maldon salt
  • grófmalaður pipar
  • 1 msk ólífuolía

Öllu blandað saman fyrir utan ólífuolíuna sem er dreift yfir sósuna eftir að hún hefur verið hrærð saman. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í.

  • tortilla kökur
  • salat
  • gúrka, skorin í bita
  • tómatar, skorinn í bita
  • rauðlaukur, sneiddur þunnt

Tortillakökur eru hitaðar samkvæmt forskrift og borið fram með pönnubuffinu, grænmeti, steiktum sveppum og sósu.

IMG_8631

Pönnuköku-souffle


Pönnuköku-souffle

Dagurinn í gær var mikill gleðidagur frá upphafi til enda. Okkur fjölskyldunni bárust frábærar fréttir um miðjan dag sem við erum enn að gleðjast yfir. Um kvöldið hringdi svo Elfar frá Svíþjóð en hann var þar í átta daga vinnuferð og átti ekki að koma heim fyrr en eftir helgi … hélt ég! En á meðan ég var að tala við hann í símann kom hann gangandi inn um útidyrnar með rós handa mér! 🙂 Hann hafði þá breytt ferðinni til að geta eytt helginni með fjölskyldunni, okkur öllum til mikillar gleði. Hann gat því farið með Ósk og sænsku vinkonu hennar, Helenu, í skemmtilega göngu í Reykjadal í dag. Þar fóru þau í náttúrulaug sem stelpunum fannst alveg magnað. Dagurinn byrjaði því með staðgóðum ,,brunch“ áður en lagt var af stað í gönguna.

IMG_9186

Í glasinu er skyrboostið góða og á disknum er eggjakakan mín sem ég fæ aldrei leið á. Reyndar var ekkert brokkolí í henni í dag, þess í stað var appelsínugul paprika auk sveppa og rifins cheddar osts. Á disknum er líka alfalfa spírur sem mér finnst svo góðar. Þær eru rosalega góðar í salat og ég nota þær líka mikið ofan á brauð. Þessar voru sérstaklega góðar, lífrænt ræktaðar og fengust í Nettó.

Í dag prófaði ég nýja útfærslu á pönnukökum sem mér fannst alveg ótrúlega skemmtileg og sjúklega góð! Pönnuköku-souffle! Finnst ykkur þetta ekki lokkandi hugtak?? 🙂 Það var svo gaman og gott að borða þessar pönnukökufrauð! Ég borðaði mitt heitt og dásamlega gott með þeyttum rjóma og hindberjasultu. Ótrúlega ljúffengt og gaman að borða eitthvað sem bragðast eins og pönnukaka en er létt og lokkandi eins og frauð. Það var afar einfalt að baka þessi pönnukökufrauð, ég bakaði þau í nákvæmlega 15 mínútur og þá voru þau fullkomlega bökuð. Ég hvet ykkur til að prófa þetta hnossgæti! 🙂

IMG_9197

Uppskrift í fjögur souffle-form:

  • 50 g smjör
  • 2 egg
  • 1,5 msk sykur
  • 0,5 dl rjómi
  • 0,75 dl mjólk
  • 1,5 dl hveiti
  • 0,5 tsk lyftiduft

IMG_9189

Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir- og yfirhita. Fjögur souffle-form eru smurð með smjöri. Eggin eru aðskilin og eggjahvítan stífþeytt og látin bíða í ísskáp. Smjörið er brætt í potti á meðan eggjarauðurnar og sykurinn er þeytt saman. Því næst er mjólkinni, rjómanum og brædda smjörinu bætt út í eggjarauðurnar og sykurinn. Þá er hveitið og lyftiduftið sigtað og bætt út í. Að lokum er blöndunni blandað varlega saman við þeyttu eggjahvíturnar með sleikju. Deiginu er skipt í souffle-formin fjögur og þau bökuð fremur neðarlega í ofni við 200 gráður (undir- og yfirhita) í 15 mínútur. Borið strax fram með þeyttum rjóma og sultu.

IMG_9205Mér fannst þetta dásamlega gott, vona að þið séuð á sama máli! 🙂

IMG_9206

Ofnbakað nachos með cheddarosti


Ofnbakað nachos

Nú er að baki stutt vinnuvika sem bauð upp á einstaka veðurblíðu. Besta vinkona Óskar frá Svþjóð er búin að vera hjá okkur í heimsókn síðastliðna viku. Þær vinkonurnar hafa notið þess að fara í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi og gengið um borgina í sól og veðurblíðu.

Ég hef verið spennt að nota allt góða kjötið mitt frá Mýranauti. Það er svo gaman að nota svona gott hráefni og geta verið þess fullviss að maður sé að bjóða upp á eins vandaðan mat og völ er á. Ég líka farin að kaupa egg beint af býli. Þessi egg eru ofsalega góð og allt önnur en þau sem fást út í búð. Bæði eru þau einstaklega bragðgóð en líka extra stór, eitt slíkt egg samsvarar einu og hálfu hefðbundu eggi. Í uppskriftinni sem ég gef upp í dag gat ég notað góða nautahakkið frá Mýranauti. Þetta er alveg upplögð föstudagsuppskrift, það er alltaf svolítið notalegt að gera sér dagamun á föstudagskvöldum, borða eitthvað extra gott og jafnvel hafa matinn þannig að hægt sé að narta í hann yfir skemmtilegri bíómynd. Ég gef ekki upp neinar nákvæmar mælieiningar því magnið af hverju hráefni fer eftir smekk hvers og eins.

IMG_8823

Uppskrift:

  • nautahakk
  • tacos krydd
  • nachos flögur
  • cheddar ostur
  • Iceberg salat
  • gúrka
  • tómatur
  • sýrður rjómi
  • salsasósa

IMG_8827

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Hakkið er steikt á pönnu og kryddað með tacos kryddi.  Nachos flögum er dreift í eldfast mót, eða á ofnplötu, þannig að þær fari ekki ofan á hvor aðra. Cheddar-ostsneið er lögð ofan á hverja flögu. Flögurnar eru hitaðar í ofni við 200 gráður í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að bráðna. Gúrka og tómatur er skorið í litla bita og salatið rifið niður. Um leið og flögurnar koma út úr ofninum er hakkinu dreift yfir þær, þá grænmetinu og í lokin er sýrða rjómanum og salsa sósunni dreift yfir grænmetið. Ekki er verra að dreifa yfir réttinn, eða bera fram með honum, guacamole, uppskriftin af því er hér. Best er að borða réttinn bara með fingrunum (munið bara að vopnbúast með nóg af servíettum! 🙂 )

IMG_8841

Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti


Kjötbollur með eplum og beikoni ásamt jógúrtsósu með fetaosti

Mig grunar að páskaeggin séu að klárast á íslenskum heimilum og súkkulaðifráhvörf yfirvofandi því vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu í dag er ómótstæðilega súkkulaðikakan með Pippkaramellukreminu! Þessi kaka hefur nú náð því afreki að vera deilt meira en þúsund sinnum á Facebook. Bara þúsund deilingar í viðbót og þá hefur hún náð Snickerskökunni! 🙂 Á þeim tæpu tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan ég setti Snickerskökuna hingað inn þá hefur hún daglega verið ein mest sótta uppskriftin hér á blogginu. Ég verð þó að mæla líka með súkkulaðikökunni með Pippkaramellukreminu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum í fjölskyldunni, þetta er einstaklega fljótleg og einföld kaka. Hún er dásamleg þegar hún er heit og nýbökuð með rjóma eða ís en er alls ekki síðri daginn eftir, þá er hún ákaflega bragðgóð og með seigri karamelluáferð.

En ég kom ekki hingað inn til að tala um súkkulaði heldur til þess að setja inn frábæra kjötbollu uppskrift! Þessar kjötbollur eru með eplum og beikoni sem gefur þeim svo einstaklega gott og frísklegt bragð. Ég veit eiginlega ekki af hverju mér datt þetta ekki í hug fyrr! Salta og stökka beikonið á móti sæta eplabragðinu – algjör snilld bundin saman í bragðgóðum kjötbollum. Meðlætið var líka svo gott, steikt epli og jógúrtsósa með fetaosti. Þessi sósa gæti ekki verið einfaldari og betri, ég held að það hafi tekið mig innan við tvær mínútur að hræra saman sósuna og hún passaði einstaklega vel með kjötbollunum. Þetta er sannarlega réttur sem ég mun elda reglulega héðan í frá.

IMG_9175

Uppskrift f. ca 3-4

  • 600 g nautahakk
  • 1 egg
  • ca 140 g beikon
  • ca 4 stór græn epli
  • 1/2 lítill laukur
  • salt og pipar (ég notaði vel af pipar, minna af salti því beikonið er salt)
  • gott krydd (ég notaði Best á allt)
  • 1 tsk nautakraftur
  • smjör til steikingar

Beikonið er skorið í bita og steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það tekið af pönnunni og látið renna af því á eldhúspappír. 1 epli er afhýtt og rifið gróft. Laukurinn er saxaður mjög smátt. Rifna eplinu, beikoninu, lauknum, egginu og nautakraftinum er blandað vel saman við nautahakkið og kryddað vel. Því næst eru mótaðar bollur úr hakkinu og þær steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Bollurnar eru því næst veiddar af pönnunni (ekki þvo pönnuna) og þeim haldið heitum (t.d. undir álpappír). Restin af eplunum eru afhýdd og þau svo skorin í báta. Eplabátarnir eru svo steiktir á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á, við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til þeir eru orðnir mjúkir. Kjötbollurnar eru bornar fram með steiktu eplabátunum, ofnbökuðum kartöflum, jógúrtsósu með fetaosti og fersku salati.

IMG_9168

Jógúrtsósa með fetaosti:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 100 g fetaostur (ekki í olíu)
  • örfáir dropar Tabasco sósa

Öllu blandað vel saman með gaffli.

IMG_9172