Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.

Kladdkaka með banana og sykurpúðum


Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.

Uppskrift:
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
  • 1/4 tsk salt
  • 1,5 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 1 banani, maukaður
  • sykurpúðar eftir smekk

Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!

Spaghettípizza með pepperóní


Ég kom heim aðfaranótt gærdagsins frá Stokkhólmi eftir hafa dvalið þar langa helgi með Önnu Sif vinkonu. Ferðin var löngu plönuð í tilefni stórafmæla okkar en ég hafði þó ráðgert að vera búin með ritgerðina mína áður en ég færi. Bjartsýnin í hámarki hjá mér! Ég er auðvitað langt frá því að vera búin og endaði á því að vinna í ritgerðinni bæði nætur og daga fyrir ferðina. Nóttina áður en við fórum skrifaði ég til kl. 4.30 og átti þá eftir að pakka! Lagði svo af stað út á flugvöll hálftíma seinna. Ég náði þó að klára að skrifa það sem ég hafði ætlað mér og við Anna Sif áttum góða helgi í Stokkhólmi. VIð bjuggum á hóteli í Solna Centrum sem er stór verslunarmiðstöð í hverfinu sem ég bjó í þau 15 ár sem við fjölskyldan bjuggum í borginni. Það var svolítið skrítið að búa í verslunarmiðstöð sem maður þekkti svona vel, svipað eins og ef maður byggi heila helgi í Kringlunni! 🙂 En alveg frábær staðsetning, lobbýið okkar var fjórum skrefum frá H&M!

Svo var neðanjarðarlestarstöð í kjallaranum og það tekur bara 8 mínútur að fara í miðbæinn. Við hittum íslensku vinkonur mínar, sem búa enn í Stokkhólmi, eina kvöldstund og var boðið í gómsætan forrétt, sushi, hvítvín og sænska prinsessutertu! Annars þræddum við búðirnar og afrekuðum að komast út úr mollinu tvo heila daga en þeim eyddum við í miðbænum. Á laugardagskvöldinu fóru við út að borða ,,afmælis“máltíðina á Grill sem er frábær veitingastaður. Ljúffengur matur og ótrúlega skemmtilega innréttaður staður. Honum er skipt upp í nokkra mismunandi þemahluta og óhætt að segja að þeman séu tekin alla leið! Þarna er sirkus hluti, hluti sem er í rococo stíl, annar í frönskum kaffihúsastíl og svo framvegis.

Við náðum að kaupa fullt af jólagjöfum sem hentaði mér afar vel þar sem ég er sokkin aftur niður í ritgerðarskrif. Ég mun örugglega ekki komast í búðir aftur næstu vikurnar! En hér heima hafði heimilisfaðirinn allt undir stjórn en mér skilst að það hafi lítið verið eldað. Krakkarnir voru samt ekkert ósátt við að fá pizzur, Nings og Subway nokkra daga í röð! 🙂 Í gærkvöldi voru hins vegar bara ég og yngstu krakkarnir heima, Elfar og elstu krakkarnir voru að vinna. Ég ákvað því að leyfa þeim að velja matinn. Þau skoðuðu þetta blogg og langaði mest í hakkrétt með pizzuívafi. En þá mundi Jóhanna eftir svipuðum rétti sem ég gerði síðasta vetur og þeim fannst svo góður, hún vildi endilega að ég myndi gera hann aftur. Ég mundi líka eftir honum en það var fyrir tíma bloggsins og ég mundi ómögulega hvar ég hafði náð í uppskriftina. En þá kom sér vel að ég sendi oft sjálfri mér tölvupóst með linkum á uppskriftir sem ég dett niður á og eftir smá leit fann ég uppskriftina. Ég breytti henni aðeins, í upphaflegu uppskriftinni var spaghettí blandað saman við parmesan ost en ég notaði rifinn piparost í staðinn og fannst það koma enn betur út. Krökkunum fannst þessi réttur æði og ég verð að viðurkenna að mér fannst hann afskaplega góður líka! Ég mun örugglega búa hann til reglulega.

Uppskrift:
  • 400 gr spaghettí, soðið
  • 30 gr smjör
  • 1 askja rifinn piparostur (85 gr)
  • 2 egg
  • 900 gr nautahakk
  • salt og pipar
  • gott kjötkrydd
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1/2 laukur, saxaður smátt
  • 1 krukka tómatsósa með basiliku frá Rinaldi (680 gr)
  • rifinn ostur
  • 1 bréf pepperóní
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum og blandað heitu vel saman við smjör, egg og rifinn piparost. Lagt í botninn á stóru eldföstu móti. Laukurinn steiktur á pönnu og nautahakkinu bætt út á pönnuna, kryddað. Hakkið steikt þar til það er eldað í gegn. Þá er því dreift yfir spaghettíið. Því næst er tómatsósunni hellt yfir hakkið. Rifnum osti dreift yfir og pepperóni raðað ofan á. Bakað í ofni í 25 mínútur.

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
  • 1 búnt steinselja
  • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk maldonsalt
  • reykt paprikuduft á hnífsoddi
  • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
  • 2 kg humar, helst stór eða millistór
  • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
  • 1.5 dl hvítvín
  • 1.5 dl rjómi
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.

Spaghettí og hakk


Spaghettí og hakk! Einfaldara getur það varla orðið en samt er þetta einn vinsælasti rétturinn á okkar heimili. Ég held áfram með þemað ,,fljótlegir matréttir“ sem er alveg í takti við tímaleysið hjá mér þessa dagana.

Yngri krakkarnir eru svolítið kresin á sósuna í hakkinu. Þeim líkar illa ef í henni eru tómatbitar eða laukabitar. Mér finnst Rinaldi tómatsósurnar ákaflega góðar og nota þannig ,,orginal“ sósu sem ég krydda svo til sjálf. Þegar ég sýð spaghettí set ég vatn í stóran pott og læt suðuna koma upp, þá bæti ég út í ca 2 tsk af salti. Því næst set ég spaghettíið út í. Ég passa að hræra öðru hvort í því þannig að það festist ekki saman. Mikilvægt er að ofsjóða ekki spaghettíið, ,,al dente“ – ,,við tönn“ er málið! Það er, nógu mjúkt til að borða en samt enn þétt í sér.

Uppskrift:

  • 600 gr hakk
  • 1 krukka Rinaldi orginal tómatsósa
  • 2 msk basilika
  • 1 msk oregano
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • spaghettí

Spaghettí soðið eftir leiðbeiningum. Hakk steikt á pönnu þar til það er steikt í gegn. Þá er sósunni hellt út á pönnuna. Því næst er kjötsósan krydduð með basiliku, oregano, nautakrafti, sojasósu, salti og pipar. Borið fram með dálitlu rifnum osti eða parmesan osti ásamt tómatsósu. Einnig gott að bera fram með réttinu brauð og nota það til þess að hreinsa upp góðu sósuna af disknum! 🙂

Tælenskur kjúklingur í grænu karrí


Ég er að berjast við löngunina að skrifa ekki karrí með ý! Karrí er víst skrifað með venjulegu i í íslensku en einhvern vegin finnst mér karrý líta betur út á prenti, ætli það sé ekki enskuvæðingunni að kenna! En burtséð frá því þá er tælenskur kjúklingur í grænu karrí ákaflega góður réttur! 🙂 Þó svo að ég leitist yfirleitt við að elda allan mat frá grunni þá er ég líka alltaf á höttunum eftir fljótlegum, einföldum og góðum matréttum eins og örugglega flestar aðrar uppteknar fjölskyldur. Sérstaklega þessa dagana þegar ég er að skrifa ritgerðina mína bókstaflega dag og nótt. Ég ákvað að prófa green curry mix frá Santa Maria og blanda því við kjúkling, bætti svo bara við lauk, hvítlauk og papriku ásamt kókosmjólk. Gæti ekki verið einfaldara og rétturinn sló í gegn hér heima. Það sem kom mér mest á óvart var að yngstu krakkarnir hámuðu í sig matinn og fannst hann svo góður! Rétturinn er bragðmikill en samt ekki of sterkur. Ég spurði þau einmitt hvort þeim þætti hann ekkert of sterkur, en svo var ekki! Það er líka til rautt karrí mix sem ég ætla að prófa næst.

Uppskrift:

  • 3-4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • 1 bréf Green Curry Spice Mix
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/2 -1 laukur, saxaður í þunnar sneiðar
  • 1 rauð paprika, söxuð í þunnar sneiðar
  • smjör til steikingar

Laukur, hvítlaukur og paprika steikt upp úr smjörinu í þar til það verður mjúkt. Þá er kjúklingnum bætt út í og hann steiktur á öllum hliðum. Því næst er kryddinu bætt út í blandað vel. Þá er kókosmjólk hellt út á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum.

Kalkúnaveisla


Um helgina héldum við árlega kalkúnaveislu fyrir kollega Elfars og eiginkonur. Við skiptumst á að halda veisluna og í ár var komið að okkur. Mér finnst kalkúnn afskaplega góður og skemmtilegur að elda. Að auki er meðlætið með kalkúni svo ofsalega gott. Ég hef alltaf kalkún á gamlárskvöld og á páskunum. Ég hef prófað ýmsar eldunaraðferðir og er komin niður á aðferð sem ég er býsna sátt við. Ég hef prófað að leggja kalkúinn í saltpækil í sólarhring, mér fannst það ekki virka sérstaklega vel en er mjög ánægð með þessa aðferð sem ég gef upp hér.

05996Með kalkúninum mælir Sævar Már Sveinsson vínþjónn með hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay. Concha y Toro er eitt virtasta og stærsta víngerðarfyrirtæki veraldar og hefur undanfarin ár hlotið flest þau verðlaun sem vínfyrirtæki sækjast eftir.

Litur: Skærgulur. Eiginleikar: Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Bragð: Ananas, sítrus, vanilla.

Kalkúnn:

  • 1 kalkúnn
  • 1 askja kryddsmjör
  • 500 gr smjör (til að smyrja kalkúninn með og til þess að ausa yfir hann á meðan hann er í ofninum)
  • Kalkúnakrydd frá Pottagöldrum

Kalkúninn er látinn þiðna í ísskáp í 2- 4 sólarhringa, fer eftir stærð. Ef þú lest þetta núna, horfir á gaddfreðna kalkúninn þinn sem þú ætlaðir að elda á morgun og færð smá panikk, þá er þetta allt í lagi! 🙂 Það er hægt að setja kalkúninn í stóra fötu (eða ílát sem rýmir kalkúninn vel) fylla hana með ísköldu vatni, láta það fljóta vel yfir kalkúninn og passa að vatnið sé alltaf kalt. Þannig þiðnar til dæmis 7 kílóa kalkúnn á um það bil 8-10 tímum.

Því næst er kalkúnninn skolaður vel og þerraður bæði að utan og innan. Þá er hann smurður vel með bræddu smjöri. Þá eru gerðar raufar í bringurnar með hníf  og þær fylltar með kryddsmjöri.  Ég sting sem sagt beittum hníf í bringurnar, ca. 5 holur í hvora bringu. Ég hef þær ekkert mjög djúpar, kannski ca. 3-4 cm, ekki alveg niður að beini. Í raun bara nógu djúpar til að koma ca. 1-2 teskeiðum af kryddsmjöri í holuna. Þar sem hnífurinn breikkar frá hnífsoddinum þá víkkar líka holan þegar ofar dregur og þar með kemst töluvert mikið af smjöri í holuna þó hún sér ekkert svo djúp. Svo er kalkúnninn kryddaður vel með kalkúnakryddi og því nuddað vel inn í allan kalkúninn. Ég notaði allt kryddglasið. Fyllingin sett inn í fuglinn, ég set alltaf smá fyllingu líka undir skinnið á hálsinum.

Stundum sleppi ég því að setja fyllinguna inn í fuglinn, í raun breytir hún engu fyrir sjálft kjötið en hún eykur eldunartímann. Þá set ég bara fyllinguna í eldfast mót og elda hana sér en fylli fuglinn af appelsínu- og sítrónubátum (gefa frá sér raka sem mýkir kjötið og gott bragð) og elda hann þannig – athugið samt að þannig verður eldunartíminn styttri (ég hendi appelsínu- og sítrónubátunum eftir eldun).

Nú er kalkúnninn lagður á ofngrind og ofnskúffa sett undir. Byrjað á því að steikja hann við 200 gráður í 15 mínútur. Þá er viskustykki dýft í brætt smjör, það breitt yfir kalkúninn og hitinn lækkaður í 120 gráður. Á meðan á eldunartíma stendur er bræddu smjöri ausið reglulega yfir kalkúninn (viskustykkið), þegar líður á eldunartímann er soðinu ausið yfir kalkúninn. Þegar 15 mínútur eru eftir af tímanum er viskustykkið tekið af og hitinn hækkaður í 200 gráður. Ég var með hitamæli í kalkúninum og tók hann út þegar hitinn var kominn í ca. 70-72 gráður (ég reyni að láta eldunina stoppa við 72 gráður en yfirleitt hækkar hitinn um 1-2 gráður eftir að fuglinn er tekinn úr ofninum). Þá er hann vafinn inn í álpappír og leyft að jafna sig í hálftíma. Eldunartíminn fer eftir stærð fuglsins, hvort hann er með fyllingu eða ekki og hver ofnhitinn er. Kalkúnninn var í 5 tíma í ofninum hjá mér en hann var 7 kíló og með fyllingu (hún eykur eldunartímann). Það gerir ca. 40 mínútur per kíló. Kalkúnninn varð ofsalega meyr og safaríkur við þessa eldunaraðferð. Ég mæli eindregið með því að nota kjöthitamæli, annars er erfitt að vita hvenær kalkúnninn er tilbúinn þar sem það fer eftir stærði fuglsins, bakarofninum, fyllingunni og fleira. Þessi kjöthitamælir sem ég nota á myndinni er hræódýr og virkar vel. Best er að stinga honum djúpt milli bringu og læris, þar eldast fuglinn seinast.

Kalkúnafylling:

Ég hef gert hefðbundnar fyllingar hingað til, með beikoni, brauði og fleira en hef ekki verið nógu hrifin af þeim. Mér hefur fundist fyllingin verða of mikið í anda við heitan brauðrétt. En núna prófaði ég hins vegar nýja fyllingu sem mér fannst frábærlega góð og fersk. Í henni eru meðal annars sætar og safaríkar perur, Dímon ostur og þurrkuð epli. Það er sniðugt að nota þurrkuð epli því þá verður fyllingin ekki of blaut.

  • 3 perur, skornar í litla bita
  • 1/2 poki þurrkuð epli, skorin í bita
  • 1 Dímon ostur, skorin í litla bita
  • 1 poki brauðteningar
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 engiferbútur, saxaður smátt
  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • kryddjurtir, t.d. kóríander, salvía og timjan, saxað gróft

Öllu blandað saman, gott að gera fyllinguna kvöldið áður. Fyllingin sett inn í fuglinn og líka inn í hálsinn. Ef það er afgangsfylling er hægt að setja hana í eldfast mót og baka sér.

Kalkúnasósa:

Sósan með kalkúninum er afar mikilvæg og ég legg mikið upp úr henni. Ég byrja á henni upp úr hádegi og læt soðið malla allan daginn til að fá kraftmikla og bragðgóða sósu. Þessi uppskrift er mjög stór, miðuð við allavega 15 manns.

  • 1 kíló gulrætur, skornar í bita
  • 2 laukar, skorinn í bita
  • 1 búnt sellerí, skorið í bita
  • 10 hvítlauksrif, söxuð gróft
  • ca 200 ml tilbúinn fljótandi kalkúnakraftur
  • kalkúnahálsinn (innan úr kalkúninum)
  • 4 lítrar vatn
  • 5 dl rjómi
  • sósujafnari
  • smjör til steikingar

Gulrætur, laukur, sellerí, hvítlaukur steikt á pönnu upp úr vænum skammti af smjöri þar til  grænmetið er mjúkt, þá er hálsinn af kalkúninum brúnaður að utan með grænmetinu. Allt fært yfir í stóran pott. Vatninu bætt út í ásamt stórum hluta af kalkúnakraftinum og soðið af miklum krafti (ég hafði stillt á 5 af 9) undir loki í 4-5 tíma. Ef að lokið er mjög óþétt og soðið sýður niður of hratt er gott að fylgjast með og bæta dálitlu vatni út í við þörfum. Það er ágætt viðmið að það verði eftir um það bil 2 lítrar eftir af soði í lokin þegar búið er að sigta grænmetið frá. Undir lokinn bæti ég út pottinn hluta af soðinu sem safnast hefur í ofnskúffunni undir kalkúninum, magnið þarf að meta dálítið eftir því hver mikið af soði er í skúffunni.

Á meðan kalkúnninn bíður og jafnar sig er sósan kláruð. Soðið sigtað til að fá hreint soð með því að sigta allt grænmetið frá. Hreina soðið sett aftur í pottinn og hann látin standa á kaldri hellu í smá stund. Þá flýtur öll fitan á yfirborðið, hún veidd af og lögð til hliðar. Hluti af henni er notuð til að búa til smjörbollu sem síðan þykkir sósuna. Smjöbollan er gerð með því að hveiti og fitan er pískað saman í potti og þetta er hitað. Rjómanum bætt út soðið og sósan krydduð eftir smekk með salti og pipar. Restinni af kalkúnakraftinum bætt út í. Suðan látin koma upp og smjörbollunni hrært út í til að þykkja sósuna. Ég bætti líka við sósujafnara. Sósan látin malla þar til að kalkúninn er borinn á borð. Mikilvægt að smakka hana til með kryddum.

Meðlæti með kalkúninum (miðað við ca. 12-15 manns)

Sætkartöflumús

  • ca. 1.6 kíló sætar kartöflur (4 stykki)
  • 300 gr rjómaostur
  • salt og pipar
  • pekanhnetur

Sætar kartöflur soðnar, afhýddar og stappaðar saman með rjómaosti og kryddi. Karöflumúsin sett i eldfast mót, pekanhnetum stráð yfir og hitað í ofni við 180 gráður í ca. 15 mínútur. Það er lítið af pekanhnetur á myndinni en það var nú bara af því að ég átti svo lítið af þeim, fann ekki pokann sem ég keypti! Mér finnst betra að nota meira.

Rósakál með beikoni

  • 2 pokar frosið rósakál eða 500 gr ferskt
  • 1 beikonbréf
  • salt og pipar
  • 2 dl hvítvín
  • smjör til steikingar
  • möndluflögur ef vill

Rósakál soðið eftir leiðbeiningum ef það er frosið. Ef það er ferskt þá eru endarnir fyrst skornir af rósakálinu og ystu blöðin tekin af, hver haus skorinn í tvennt, soðið í 2-3 mínútur í söltu vatni. Smjör sett á pönnu, beikon skorið í litla bita og steikt á pönnunni. Rósakáli bætt út í steikt í smá stund, saltað og piprað. Hvítvíni hellt út á pönnuna og látið malla þar til það hefur soðið niður. Hægt að strá möndluflögum yfir rósakálið áður en það er borið fram.

Gláðar gulrætur

  • 1 kíló gulrætur, flysjaðar sneiddar langsum
  • 1 dl. púðursykur
  • 1 msk. karrí
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar

Gulrætur snöggsoðnar, vatni hellt af og þær geymdar í potti. Smjör hitað á pönnu, karrí stráð út á, því næst púðursykri. Þegar púðursykurinn er bráðnaður er gulrótunum bætt út, kryddað með salti og pipar og þeim leyft að malla í blöndunni í smá stund.

Öðruvísi Waldorf salat

  • 3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
  • góður klasi af grænum, steinlausum grænum vínberjum, skorin í tvennt
  • 1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • þeyttur rjómi
  • valhnetur til skreytinga, má sleppa

Öllu blandað saman saman.

IMG_6816

Brúnaðar kartöflur

  • 70 gr smjör
  • 200 gr sykur
  • 0,75 dl rjómi
  • 2 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt.

Trönuberjasulta

  • 1 poki fersk trönuber
  • 2 dl appelsínusafi
  • 2 dl sykur

Allt sett í pott og soðið niður í ca. 20 mínútur á meðalhita. Hellt í skál og kælt.

Borið fram með ljúffengu hvítvíni frá Chile: Casillero Del Diablo Chardonnay.

Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti


Í dag birtist þessi uppskrift í helgarblaði Fréttablaðsins, Lífið. Það var ekki pláss til að setja inn myndir af þessum gómsæta rétti í blaðið þannig að ég ætla að setja inn uppskriftina og myndir hér á bloggið. Ég prófaði þetta lasagna í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum en er búin að elda það allavega þrisvar síðan! Krakkarnir eru sólgnir í þetta lasagna og okkur Elfari finnst það líka æðislegt. Ég eldaði það um daginn fyrir stórfjölskylduna, 16 manns, og öllum fannst það frábærlega gott. Meira að segja Bára Margrét litla frænka sem er þriggja ára borðaði skammt á við fullorðinn! 🙂 Það er einmitt svo skemmtileg hvað yngstu krökkunum finnst þetta gott en þau þykjast samt ekki borða spínat og fetaost! Ef ég á ferskt kóríander og/eða steinselju set ég dálítið af því líka út í tómatsósuna ásamt basilikunni, hún verður bara enn betri þannig. En ef maður á ekki matvinnsluvél eða töfrasprota er vel hægt að nota maukaða tómatsósu („passerade tomater“) í staðinn og fínsaxa bara basiliku út í. Uppskrift f. 5-6 

  •  900 gr kjúklingabringur, skornar í litla bita
  •  ólífuolía til steikingar
  •  salt og pipar
  •  1 rauðlaukur, saxaður smátt
  •  2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  •  2 dósir niðursoðnir tómatar
  •  1 box fersk basilika (miðað við boxin frá Náttúru sem eru 30 gr.)
  •  2 tsk þurrkuð basilika (krydd)
  • chili krydd (ég nota Chili explosion frá Santa Maria)
  •  150-200 gr ferskt spínat
  •  150-200 gr fetaostskubbur
  •  lasagnaplötur
  •  rifinn ostur

Ostasósa:

  • 40 gr smjör
  •  4 msk hveiti
  •  ca 5-6 dl mjólk
  •  2 dl rifinn ostur (líka mjög gott að nota rifinn piparost)
  •  múskat
  •  pipar

Bakarofn stilltur á 220 gráður. Tómötum í dós og ferskri basiliku blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til tómatsósan verður slétt og kekklaus. Kjúklingur steiktur upp úr olíu á pönnu og kryddaður með pipar og salti (athugið að fetaosturinn í uppskriftinni er fremur saltur). Rauðlauk og hvítlauk bætt út á pönnuna og steikt með kjúklingnum í nokkrar mínútur til viðbótar. Tómatsósunni er því næst hellt út á pönnuna og kryddað með basiliku kryddinu og chili kryddinu og smakkað til.

Ostasósa: smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við þar til sósan er hæfilega þykk, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar. Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti og því næst er lasagna plötum raðað yfir ostasósuna. Þá er kjúklingasósa sett yfir lasagnaplöturnar og ofan á hana er dreift spínati og að auki er muldum fetaosti stráð yfir. Þetta er gert í tvær eða þrjár umferðir, endað á ostasósu og loks er rifnum osti dreift yfir. Bakað við 220 gráður í ca. 20-25 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

Ostafylltur kjöthleifur


Um daginn gerði ég þessa nautahakksrúllu sem sló í gegn hér heima og ég sé að þetta er vinsæl uppskrift hér á blogginu. Ég er búin að horfa á nýjan ost frá Philadelphia úti í búð í nokkurn tíma. Þetta er Philadelphia með sweet chili, hljómar mjög girnilega. Ég hef verið að hugsa um hvernig ég geti nýtt hann í einhvern góðan matrétt. Í kvöld ákvað ég að gera útfærslu af nautahakksrúllunni og nota þennan ost. Þó það sé chili í honum þá er hann ekki sterkur, enda er þetta sweet chili, og hann er afar bragðgóður. En það er líka hægt að nota ost með til dæmis hvítlauksbragði, það er örugglega mjög gott líka. Þessi kjöthleifur sló í gegn, sérstaklega hjá elstu krökkunum sem stóðu í hörðum samningaviðræðum yfir því hvernig afgangnum yrði skipt í matarboxin þeirra og þá ekki síst sósunni! 🙂

  • 600-700 g nautahakk 
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  •  ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • ca. 150 gr Philadelphia ostur með Sweet Chili (eða með öðru bragði)
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari
  • 2 tsk rifsberjahlaup
Ofn stilltur á 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Hakki, lauk, eggi, brauðmylsnu, mjólk og kryddi blandað vel saman. Helmingnum af kjötblöndunni sett ofan í eldfast mót og hún mótuð í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum og hún fyllt með Philadelphia osti. Raufinni lokað vel, afgangnum af kjötblöndunni lagður ofan á og haldið áfram að móta hleifinn. Hann er gerður vel þéttur svo osturinn leki ekki út. Smjör brætt í potti og sojasósu bætt út í. Sósunni er því næst hellt yfir kjöthleifinn og hann bakaður í ofni í 40-50 mínútur, fer eftir þykktinni. Þegar kjöthleifurinn er eldaður í gegn er hann tekinn úr eldfasta mótinu og settur undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og soðnu grænmeti.

Himneskir kjúklingaleggir með rjómasósu


Í kvöld eldaði ég nýjan kjúklingarétt sem varð á svipstundu einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar! Börnin linntu ekki látum fyrr en ég lofaði að hafa þennan rétt allavega vikulega. Okkur Elfari fannst rétturinn líka ofsalega góður og að auki er hann mjög auðveldur að matreiða og frekar ódýr þar sem að kjúklingaleggir eru fremur ódýrt kjöt. Ég set hann því með glöðu geði á listann yfir uppáhaldsrétti. Það má nú deila um hollustu sósunnar sem inniheldur bæði smjör, rjóma og rjómaost en hún er ó svo hrikalega góð!! Það, að láta smör og sojasósu malla saman í safa af kjöti, gefur afskaplega góðan grunn í sósur. Kjúklingaleggirnir verða líka svo ofsalega bragðgóðir í þessari marineringu og meyrir við eldunina. Ég gerði satt að segja tvöfalda uppskrift hér að neðan, notaði sem sagt tvö kíló af kjúklingaleggjum! En við vorum sex í mat og svo var að auki afgangur sem dugði í þrjú matarbox, eitthvað sem gleður elstu krakkana mikið, þá þurfa þau ekki að eyða pening í mat í skólanum á daginn.
Uppskrift fyrir 4:
  • 1 kíló kjúklingaleggir
  • 25 gr smjör
  • ½ dl ólífuolía
  • 3 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • Knorr kjöt & grill krydd (eða annað gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum)
  • ½ dl vatn
  • 100 gr rjómaostur (jafnvel enn betra að nota Philadelpia með hvítlauk og kryddjurtum)
  • 3 dl rjómi
Ofninn stilltur á 200 gráður. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót eða í ofnskúffu, fer eftir fjölda leggja. Smjörið brætt og sojasósunni ásamt ólífuolíunni bætt út í. Blöndunni síðan hellt yfir kjúklingaleggina og þeim velt vel upp úr henni. Leggirnir eru því næst kryddaðir á alla kanta mjög vel með kjöt & grill kryddinu ásamt salti og pipar. Settir inn í 200 gráðu heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til leggirnir eru eldaðir í gegn. Kjúklingaleggirnir eru því næst lagðir á fat og vatni pískað út í sósuna í eldfasta mótinu, henni er síðan hellt yfir í pott. Rjómaosti er svo bætt út í og sósan látin malla þar til hann er bráðnaður. Þá er rjómanum bætt út í og sósan bragðbætt með salti og pipar ef þarf. Sósan látin malla í nokkrar mínútur og þykkt af vild með sósujafnara.
Kjúklingaleggirnir eru bornir fram með sósunni, hrísgrjónum og salati.