Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Klessukaka með Daimrjóma


Klessukaka með daimrjómaÉg er loksins komin út úr ákveðinni matargerðarlægð sem ég hef verið í undanfarið. Ég hef prófað mig áfram með hina og þessa matrétti án þess að ég hafi verið nægilega sátt við útkomuna. Ég set ekkert hingað inn á bloggið nema það sem ég er mjög ánægð með og get hugsað mér að elda/baka aftur. Venjulega hef ég haft um margt að velja til að setja inn á bloggið en upp í síðkastið hef ég sem sagt verið að lenda í því að hafa bara ekkert fram að færa á blogginu. En sem betur fer þá held ég að þetta tímabil sé yfirstaðið og núna er ég með nokkrar spennandi uppskriftir sem bíða birtingar! 🙂

Sænsku klessukökurnar halda áfram að fara sigurför á heimilinu! Þessa bakaði ég um helgina og hún er auðvitað löngu búin! Grunndeigið er afskaplega gott. Í því er suðusúkkulaði en oftast nær er bara kakó í sænskum klessukökum (kladdköku). Fyrir þá sem vilja ekki daimrjómann er hægt að baka bara kökuna og skreyta hana með berjum eða sáldra bara yfir hana flórsykri og bera fram með hindberjasósu og vanilluís. Sjálf kakan er algjört gúmmelaði og Daimrjóminn er punkturinn yfir i-ið!IMG_8594

Uppskrift:

  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hveiti

Daimrjómi:

  • 3 dl rjómi
  • 1/2 – 1 msk kakó
  • 1 1/2 msk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 tvöfaldar pakkningar af Daim (56 g stk), samtals ca. 110 g

Ofn hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smelluform (ca 24 cm) smurt að innan. Smjörið og súkkulaðið brætt varlega saman í potti. Egg og sykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni bætt út í. Að lokum er hveitinu bætt út í. Deiginu hellt í kökuformið og kakan bökuð við 200 gráður í ca 18-20 mínútur.  Kakan er þá kæld og gott er að láta hana svo standa í kæli í nokkra tíma áður en rjóminn er settur á og kakan borin fram.IMG_8603

Daimrjómi: Rjóminn er þeyttur ásamt kakói, vanillusykri og flórsykri sem hefur verið sigtað út í. Þá er Daimsúkkulaðið saxað og bætt út í þeytta rjómann með sleikju (það er gott að skilja smá eftir til að skreyta með) og Daimrjómanum því næst dreift yfir kökuna.IMG_8619

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

  • grænt gott salat
  • klettasalat
  • spinat
  • rauð paprika, skorin í litla bita
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 avókadó skorið í bita
  • 1 mangó, skorið í bita
  • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

  • 400 g risarækjur
  • ca 1 msk ólífuolía
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • ½ tsk chiliduft
  • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
  • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
  • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Pönnusteiktur parmesanþorskur með tómatrisotto


IMG_8505Eftir ótrúlega mildan vetur gerði veturkonungur vart við sig í dag. Þá er afskaplega ljúft að þurfa bara ganga 190 metra í vinnuna og þurfa ekkert að hreyfa bílinn! 🙂 Ekki er síðra að vinna í sama skóla og börnin ganga í og þurfa því ekki að hafa áhyggjur af þeim til og frá skóla. Þegar ég og börnin komu heim í dag nutum við þess að vera inni í veðrinu, lágum undir teppi, lásum og höfðum það notalegt. Í kvöldmat eldaði ég frábærlega góðan þorsk sem Elfar sótti úr Fiskbúð Hólmgeirs á leiðinni heim úr vinnunni. Með þorsknum hafði ég tómatrisotto. Ég minnist þess varla að hafa nokkurn tímann eldað risotto áður. Mér finnst risotto gott en ég hef tekið það í mig að það sé afar flókið að elda risotto rétt, slíkt sé ekki á hvers manns færi! Ég afsannaði það nú á það í kvöld, risottóið var nú barasta mjög vel heppnað þrátt fyrir reynsluleysi mitt! 🙂 Við hjónin ákváðum að blása á hversdaginn, kveiktum á kertum og fengum okkur sitt hvort hvítvínsglasið með fisknum! Mikið var það nú gott! 🙂 Mér finnst smá hvítvínsdreitill gera svo mikið fyrir góða fiskrétti.

Uppskrift f. ca 4:

  • 600 g hvítur fiskur, ég notaði þorsk
  • 2 dl hveiti
  • 2 egg
  • 4 dl parmesan, fínrifinn
  • salt og pipar

Tómatrisotto

  • 250 g kokteiltómatar
  • 2 skarlottulaukar eða 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk smjör
  • 2 dl risotto
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl tómatsafi (ég nota „passerade tomater“ sem eru í fernu)
  • 5 dl vatn
  • 2 msk kjúklingakraftur (eða 2 teningar)
  • 25 g smjör
  • 2 dl parmesanostur, rifinn

Kokteiltómatar eru settir í mjög stutta stund í sjóðandi vatn þar til hýðið losnar. Þá eru tómatarniar teknir upp úr, kældir undir köldu vatni, hýðið tekið af þeim og þeir skornir í tvennt og geymdir. Laukur og hvítlaukur eru saxaðir fínt og steikt í meðalstórum potti i stutta stund. Þá er risotto bætt út í ásamt hvítvíni og soðið niður í ca. 3 mínútur á fremur háum hita. Því næst er tómatsafanum bætt út í, hrært vel í blöndunni og hitinn lækkaður. Vatnið er soðið og blandað vel saman við kjúklingakraftinn. Nú er risottið soðið í ca. 18 mínútur við meðalhita og kjúklingsoði reglulega hellt út í, ca. 1 dl í hvert sinn. Það þarf að hræra í risottoinu mjög vel og reglulega. Í lokinn er 2 dl af parmesanosti bætt út í ásamt smjöri og kokteiltómötunum. Á meðan risottið er sýður er fiskurinn útbúinn (ekki gleyma samt að hræra oft í risottoinu á meðan!). Fiskurinn er skorinn í meðalstóra bita. Hveiti, salti (ég notaði lítið salt þar sem parmesanosturinn er saltur) og pipar blandað saman á einn disk, eggjum vispað létt saman með gaffli á öðrum disk og rifinn parmesan ostur settur á þann þriðja. Fisknum er fyrst velt upp úr hveiti, þá eggjum og svo parmesan osti. Fiskurinn er svo steiktur upp úr góðri klípu af smjöri á pönnu, á báðum hliðum, þar til hann er steiktur í gegn. Borið saman með tómatrisotto og góðu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_8509

Skonsur


IMG_8399Þá er enn ein helgin liðin – það er nú meira hvað helgarnar líða hratt! Á föstudagskvöldið fórum við hjónin á árshátíð og í gærkvöldi var okkur boðið í matarboð. Í kvöld ætlum við hins vegar að slaka á og horfa á Argo, bíómyndina sem hlaut Óskarinn. Jóhanna Inga tók þátt í danskeppni í gær en hún er að æfa street dance. Þær voru voða sætar vinkonurnar þrjár. Þær sáu um þetta algjörlega sjálfar, völdu lag, sömdu dans og æfðu. Þær eru nú bara átta ára og mér fannst þetta ótrúlega vel af sér vikið hjá þeim ásamt því að þora að dansa síðan fyrir framan fullan sal af áhorfendum. Stöllurnar byrjuðu að æfa snemma í gærmorgun hér heima og voru orðnar glorhungraðar um hádegið. Ég bakaði þá fyrir þær skonsur. Það var einmitt ein af þeim uppskriftum sem er í gömlu uppskriftarbókinni minni og ég hef alltaf verið á leiðinni að færa hér inn á bloggið. Skonsur eru mjög vinsælar á okkar heimili, bornar fram sjóðheitar með smjöri og osti, namm! 🙂

Uppskrift:

  • 7 dl hveiti
  • 1 dl sykur
  • 4 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 3 egg
  • 3 msk olía
  • ca. 5 dl mjólk

IMG_8396

Þurrefnum blandað saman í skál og og eggjum svo hrært saman smátt og smátt ásamt olíunni og mjólkinni. Ég hræri deigið í höndunum með písk. Pönnukökupanna hituð og borin á hana olía eða smjör ef þarf. Degið sett á pönnuna með stórri skeið eða ausu og skonsurnar steiktar á meðalháum hita (ég notaði ca. 7 af 9). Þegar það fara myndast holur í degið er skonsunum snúið við með pönnukökuspaða eða steikarspaða. Skonsurnar bornar fram heitar með smjör og því áleggi sem hugurinn girnist, til dæmis osti og/eða smjöri.

IMG_8398

Kjúklingur í osta- og tómatsósu


IMG_8389Kjúklingur er eitt af mínum uppáhaldshráefnum. Það er svo ótrúlega margt gott hægt að gera úr kjúklingi. Um daginn bjó ég til þennan rétt, Cacciatore kjúklingarétt, sem við vorum öll svo hrifin af. Núna gerði ég aðra útfærslu af svipuðum rétti. Að þessu sinni var papriku bætt út í tómatsósuna ásamt fersku chili. Auk þess er í réttinum ostasósa sem fór ákaflega vel með heimatilbúnu tómatsósunni. Þetta er einfaldur og ljúffengur réttur.

Uppskrift:

  • 800 g kjúklingabringur
  • kjúklingakrydd
  • smjör og/eða olía til steikningar

Tómatsósa:

  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 3 msk tómatpúrra
  • ½ gul paprika eða 1 lítil
  • ½ rauð paprika eða 1 lítil
  • ½ rautt chili, ferskt
  • 3 hvítlauksrif
  • salt & pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g rifinn ostur (bragðmikill)
  • salt & pipar

Að auki:

  • 2 st skarlottulaukar, saxaðir fínt
  • 1-2 dl kasjúhnetur (má sleppa)
  • 30 g fersk basilika, söxuð gróft

IMG_8382

Ofninn stilltur á 225 gráður undir/yfir hita.

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi. Þá er hann snöggsteiktur á pönnu í stutta stund (ekki eldaður í gegn heldur bara látinn taka smá lit). Kjúklingurinn er svo settur í eldfast mót, pannan er ekki þvegin. Því næst er paprikan skorin í bita, chili er fræhreinsað og saxað auk þess sem hvítlaukurinn er saxaður. Allt er sett í matvinnsluvél ásamt tómötunum og keyrt í ca. 10 sekúndur. Þá er tómatsósunni hellt á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á og henni leyft að malla á meðalhita í ca. 10 mínútur. Í lok tímans er 2/3 af basilikunni bætt út í tómatsósuna.

Á meðan tómatsósan mallar er ostasósan búin til. Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts. Osti bætt út í og allt hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með salti og pipar.

Þá er tómatsósunni hellt yfir kjúklingabitana og svo er ostasósunni hellt yfir tómatsósuna. Að lokum er skarlottulauknum og kasjúhnetunum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Restinni af basilikunni dreift yfir réttinn og hann borinn fram með til dæmis hrísgrjónum, kúskúsi eða pasta og fersku salati.

IMG_8384

Pönnubuff með steinseljusmjöri


IMG_8374Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga að ég hef lítið getað sinnt blogginu. Eldhússögur hafa þó lifað sínu eigin lífi á meðan. Í dag kom uppskrift af blogginu í fermingarblaði Fréttablaðsins. Ég gaf uppskrift af kirsuberjakökunni góðu sem er líka hægt er að finna hér. Hér að neðan er alvöru ljósmyndari að störfum! 🙂

IMG_8358

Að auki er bloggið komið í útrás norður í land! 🙂 Eldhússögur eru komnar með fastan uppskriftadálk í N4 dagskrána sem gefin er út vikulega. Fyrsta uppskriftin birtist í blaðinu sem kom út í síðustu viku. En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Í vikunni bjó ég til þessi girnilegu pönnubuff. Smjörið var ekki sparað í þessari uppskrift en það er nú bara hollt!

Uppskrift f. 4

  • 125 g smjör, við stofuhita
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • ca 30 g steinselja, söxuð smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 600 g nautahakk
  • 1 lítill laukur, saxaður smátt
  • 2 egg
  • 1 dl rjómi (eða mjólk)
  • ½ msk kartöflumjöl
  • ½ dl brauðmylsna
  • salt & pipar
  • annað gott krydd

IMG_8370

Rjóma, kartöflumjöli og brauðmylsnu er blandað saman í skál og látið þykkna í ca. 10 mínútur. Skarlottulauknum og steinseljunni er blandað við smjörið og sett í ísskáp. Þá er laukurinn steiktur á pönnu þar til hann verður mjúkur og honum síðan blandað saman við hakkið ásamt eggjunum og brauðmylsnublöndunni. Kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi sem hugurinn girnist. Ég notaði blöndu af ítölskum kryddum (steinselja, basilika, timjan og fleiru). Þegar allt hefur blandast vel saman er mótuð bolla úr hakkinu sem flött er út og dálítið af steinseljusmjörinu sett inn i hakkið. Buffinu er þá lokað vel svo að smjörið renni ekki út við steikinguna. Þá eru bollurnar steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Ég bar þær fram með hrísgrjónum, fersku brokkolí og heimagerðri brúnni sósu.

IMG_8372

Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu og útskriftarveisla


IMG_8352Útskriftardagurinn minn í gær var frábær! Mér fannst gaman að vera viðstödd athöfnina í Háskólabíói, hún var hátíðleg og passlega löng. Mér leist reyndar ekkert á blikuna þegar kom í ljós að ég var sú fyrsta sem átti að stíga á svið! En mér tókst að komast frá þessu skammarlaust og gera allt rétt! Svona eftir á að hyggja er ég nú bara frekar stolt yfir því að hafa klárað þetta meistaranám með stóra fjölskyldu og fremur annasamt líf. Ég er eiginlega langstoltust af því að hafa tekist að klára meistararitgerðina mína á einni önn en slíkar ritgerðir eru oft flöskuháls í svona framhaldsnámi. Mér virðist líka hafa tekist vel upp með ritgerðina því ég fékk 9 fyrir hana í einkunn og náði þar með 8.98 í meðaleinkunn. Ég er reyndar pínu svekkt samt að vera bara 0.02 frá því að ná 1. einkunn! 🙂 Seinni partinn í gær var svo útskriftarveisla hér heima og í boði voru smáréttir frá Marentzu Poulsen sem starfar nú hjá Cafe Flóru í Laugardal. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með matinn, hann var rosalega góður og hráefnið afar vandað. Ég mæli sannarlega með veislumatnum hennar Marentzu.

IMG_8212Útskrift1

ÚtskriftÚtskrift2Útskrift3Útskrift5

Útskrift6

Í kvöld eldaði ég einfaldan en afar góðan kjúklingarétt. Ég notaði til tilbreytingar leggi og læri af kjúklingnum en það er mjúkt og bragðgott kjöt. Ekki spillir fyrir að þeir bitar eru ódýrir.

Uppskrift: 

  • 1 kíló kjúklingaleggir og læri
  • salt & pipar
  • 4 tsk oregano
  • beikon
  • 4-5 dl matreiðslurjómi
  • 2-3 msk balsamik edik
  • 1.5 msk kjúklingakraftur
  • 4 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • smjör og/eða olía til steikingar

Ofninn hitaður í 225 gráður. Kjúklingurinn kryddaður með salti, pipar og oregano. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu þar til þeir ná lit. Þá er beikoni vafið utan um bitana og þeir settir í eldfast mót. Rjóma, balsamik edik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í ofninum í ca. 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_8347IMG_8355

Kjúklingaleggir í sweet chili marineringu með satay sósu


Kjúklingaleggir með satay sósuTveggja daga vetrarfríið mitt hefur verið annasamt. Í gær var bókamarkaðurinn opnaður fyrir skólabókasöfnin og ég fór því í bókainnkaup fyrir safnið mitt. Ég starfa enn við rannsóknarverkefnið á Landspítalanum sem ég tók að mér meðfram náminu mínu við Háskólann og í gær þurfti ég að hitta nokkrar sjúklinga í tengslum við það. Kvöldmaturinn í gær var bara samloka á hlaupum því að lokinni vinnu á sjúkrahúsinu brunuðum við hjónin í Borgarleikhúsið og þar sem yngstu börnin biðu með ömmu, afa og Ingu frænku. Við sáum þar seinni forsýningu á Mary Poppins. Það má með sanni segja að við öll höfum verið uppnumin enda stórkostleg sýning, hvert atriðið öðru glæsilegra. Ég held að þetta sé ein flottasta sýning sem ég hef séð hér á landi með tilliti til leikmyndar, búninga, tæknibrella auk söng- og dansatriða. Jóhanna Inga er harður gagnrýnandi og við förum á allar barnaleiksýningar sem sýndar eru hér í leikhúsunum. Fram að hléi sagði hún að þetta væri frábær sýning en að sér þætti Óliver enn besta sýningin. En að lokinni sýningu var hún með stjörnur í augum og sagði að þetta væri besta leiksýning sem hún hefði nokkurn tíma séð og vildi vita hvort hún mætti sjá sýninguna aftur! 🙂 Í dag hef ég verið á fullu við að þrífa og taka til. Á morgun er útskriftin mín og það verður dálítið boð hér heima í tilefni þess. Ég ákvað að gefa sjálfri mér frí í eldhúsinu og pantaði smárétti frá Marentzu Poulsen. Bestu smáréttir sem ég hef bragðað hafði hún útbúið fyrir brúðkaup vinkonu minnar fyrir nokkrum árum. Ég hef því miklar væntingar og er spennt að gæða mér á veitingunum á morgun! 🙂 En uppskrift dagsins er ljúffengur kjúklingur sem ég bjó til um daginn.

Kjúklingaleggir með sweet chilimarineringu:

  • 16 kjúklingaleggir
  • 1 dl sweet chili sósa
  • 1 dl olía
  • 1 dl sojasósa

Öllum hráefnunum er blandað saman. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót og marineringunni helt yfir, kjúklingnum er velt vel upp úr marineringunni. Gott er að láta kjúklinginn standa í klukkutíma í ísskáp í marineringunni. Ofninn er stilltur á 200 gráður og grill og kjúklingurinn eldaður í 20-30 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Það þarf að passa að hann brenni ekki.

Satay sósa

  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 100 g jarðhnetur
  • 1 dós kókosmjólk
  • salt & pipar
  • olía

Laukurinn, hvítlaukur og chili steikt á pönnu upp úr olíu. Helmingurinn af hnetunum er sett í matvinnsluvél, hinn helmingurinn saxað gróft með hníf. Hnetunum er bætt út á pönnuna. Því næst er kókosmjólkinni bætt út í, saltað og piprað. Látið malla á vægum hita í ca. 15 mínútur. Borið fram með kjúklingnum, hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_7996