Þorskhnakkar i Miðjarðarhafssósu


IMG_8748

Þessi fiskréttur er einn af þeim réttum sem ég gerði um daginn og var svo góður en ég finn ekki uppskriftina af. Ég sem sagt týndi miðanum sem ég hafði skrifaði uppskriftina á! Mjög pirrandi því þessi fiskréttur var ljúffengur. Ég er hins vegar búin að rýna í myndirnar og reyna að muna. Og viti menn, smátt og smátt rifjast þetta upp! Ég ætla því að skrifa niður þessa uppskrift eftir minni, vona að það takist. En fyrst ætla ég að skrifa til gamans hvað ég er búin að borða í dag fram að kvöldmatnum.

Dagurinn byrjaði á AB-mjólk og heimatilbúnu múslí. Ég er með uppskriftina af því hér og í þeirri færslu mæri ég þetta múslí mikið, enda er það dásamlega gott!

IMG_9722

Í hádeginu fékk ég mér svona eggjaköku. Mér finnst eggjakökur svo geggjað góðar og ég fæ mér oftast eina slíka ef ég er heima í hádeginu. Ég er dálítið vanaföst, mér finnst best að hafa í henni brokkolí og sveppi. Svo finnst mér afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með henni Gullost, melónu eða einhvern annan ávöxt og/eða avókadó.

IMG_6897

Í kaffitímanum fékk ég mér gróft brauð, Dinkelbergerbrauð, með skinku, káli, avókadó og kiwi. Ef þið hafið ekki smakkað gróft brauð með skinku, káli og kiwi þá eruð þið að missa af miklu! 🙂

IMG_8815

Sem betur fer þá bjargaði Ali mér algjörlega rétt eftir að við fluttum til Íslands. Í Svíþjóð var skinkan silkiskorin og ljúffeng ofan á brauð. Hér á Íslandi var bara til (og er enn) þykk og hlaupkennd skinka sem okkur finnst alveg óæt. En nokkrum mánuðum eftir að við fluttum til landsins rættist úr þessu skinkuástandi og Ali fór að framleiða silkiskorna skinku, bæði reykta og soðna sem er mun skárri en þessi þykka og hlaupkennda. Langbest er þó skinkan úr Pylsumeistaranum Laugalæk. Ég nota alltaf tækifærið þegar ég fer þar framhjá og kaupi gómsæta, ekta skinku.

IMG_8816

Þetta í glasinu er einn af mínum löstum, kók light! Jamm, ég er kókisti! Ég hef reynt að hætta og var hætt í hálft (leiðinlegt) ár en byrjaði svo aftur. Mér þætti mikið meira töff að við hlið disksins væri glas með ljúffengu latte, það væri smart! En mér finnst kaffi bara svo hrikalega vont, ég get ekki vanist því. Samt vantar mig koffeinið. Hvað á kona að gera í því annað en að fá sér kók light!? Kók er nú samt ekkert alslæmt og ég gerði meira að segja ljúffenga köku eitt sinn úr kóki. Hún var ekki bara skemmtileg í útliti heldur líka safarík og afar bragðgóð!

IMG_9658

Ég get hins vegar gortað mig af því að kókið er líklega það eina óholla sem ég innbyrti í dag. Ég get vel farið í gegnum daginn án sætmetis. En líklega mun ég samt fá mér í kvöld nokkra mola af Marabou súkkulaðinu með hnetum og rúsínum sem ég hef falið vel hér heima! 🙂

En hér kemur fiskuppskriftin góða.

Uppskrift: 

  • 600 g þorskhnakkar
  • 1 msk rósapipar, mulinn
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • smjör til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 150 g sveppir, niðursneiddir
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 dl hvítvín
  • mozzarella ostur, rifinn
  • 1 egg

IMG_8734

Ofninn er hitaður í 200 gráður og stilltur á grill. Fiskurinn er kryddaður með rósapipar, salti, pipar og sítrónusafanum dreift yfir fiskinn. Fiskurinn er steiktur á pönnu upp úr smjörinu á báðum hliðum þar til hann hefur náð góðum lit á báðum hliðum. Þá er hann tekinn af pönnunni og lagður í smurt eldfast mót. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt út á pönnuna. Þetta er steikt í smástund (smjöri bætt við eftir þörfum) og þá er tómötum og hvítvíni bætt út á pönnuna, saltað og piprað. Sósan er látin malla í ca. 10 mínútur. Þá er henni hellt yfir fiskinn.

IMG_8736

Eggi er blandað saman við mozzarella ostinn og því næst er honum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni sem er stilltur á grill við 200 gráður í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn hefur náð lit og fiskurinn er eldaður í gegn.

IMG_8742

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

  • grænt gott salat
  • klettasalat
  • spinat
  • rauð paprika, skorin í litla bita
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 avókadó skorið í bita
  • 1 mangó, skorið í bita
  • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

  • 400 g risarækjur
  • ca 1 msk ólífuolía
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • ½ tsk chiliduft
  • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
  • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
  • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Pönnubuff með steinseljusmjöri


IMG_8374Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga að ég hef lítið getað sinnt blogginu. Eldhússögur hafa þó lifað sínu eigin lífi á meðan. Í dag kom uppskrift af blogginu í fermingarblaði Fréttablaðsins. Ég gaf uppskrift af kirsuberjakökunni góðu sem er líka hægt er að finna hér. Hér að neðan er alvöru ljósmyndari að störfum! 🙂

IMG_8358

Að auki er bloggið komið í útrás norður í land! 🙂 Eldhússögur eru komnar með fastan uppskriftadálk í N4 dagskrána sem gefin er út vikulega. Fyrsta uppskriftin birtist í blaðinu sem kom út í síðustu viku. En svo ég snúi mér að uppskrift dagsins. Í vikunni bjó ég til þessi girnilegu pönnubuff. Smjörið var ekki sparað í þessari uppskrift en það er nú bara hollt!

Uppskrift f. 4

  • 125 g smjör, við stofuhita
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • ca 30 g steinselja, söxuð smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 600 g nautahakk
  • 1 lítill laukur, saxaður smátt
  • 2 egg
  • 1 dl rjómi (eða mjólk)
  • ½ msk kartöflumjöl
  • ½ dl brauðmylsna
  • salt & pipar
  • annað gott krydd

IMG_8370

Rjóma, kartöflumjöli og brauðmylsnu er blandað saman í skál og látið þykkna í ca. 10 mínútur. Skarlottulauknum og steinseljunni er blandað við smjörið og sett í ísskáp. Þá er laukurinn steiktur á pönnu þar til hann verður mjúkur og honum síðan blandað saman við hakkið ásamt eggjunum og brauðmylsnublöndunni. Kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi sem hugurinn girnist. Ég notaði blöndu af ítölskum kryddum (steinselja, basilika, timjan og fleiru). Þegar allt hefur blandast vel saman er mótuð bolla úr hakkinu sem flött er út og dálítið af steinseljusmjörinu sett inn i hakkið. Buffinu er þá lokað vel svo að smjörið renni ekki út við steikinguna. Þá eru bollurnar steiktar á pönnu þar til þær eru eldaðar í gegn. Ég bar þær fram með hrísgrjónum, fersku brokkolí og heimagerðri brúnni sósu.

IMG_8372

Ofnbakaður kúrbítur með tómötum og mozzarella


IMG_8015Mér finnst bæði grillað nautakjöt og lambakjöt afar gott. Mér finnst meðlætið með kjötinu ekki síður vera mikilvægt og er stöðugt á höttunum eftir góðum meðlætisuppskriftum. Við grillum allt árið, hér um bil í hvaða veðrum sem er. Þó það sé kalt í veðri þessa dagana þá er dásamleg stilla og sól, það er næstum því vor í lofti! Þá langar mann enn meira að grilla en ella. Við keyptum ungnautafille í Nóatúni en um þessar mundir eru þeir með tilboð á því kjöti – ég mæli með því fyrir helgina. Kjötið skárum við í hæfilega þykkar sneiðar, svo var það piprað og saltað áður en það fór á grillið. Með kjötinu gerði ég sveppasósu, steiktar kartöfluskífur, ferskt salat og ofnbakaðan kúrbít með tómötum og mozzarella. Þetta var afskaplega ljúffengt og þessa uppskrift af kúrbít mun ég nota aftur!

IMG_8026

Ofnbakaður kúrbítur:

  • 2 kúrbítar
  • ólífuolía
  • 1 -2 hvítlauksrif, pressuð
  • salt & pipar
  • ca. 1 dl brauðmylsna (ég bjó til eigin brauðmylsnu úr ristuðu brauði, muldu í matvinnsluvél)
  • kokteiltómatar
  • ca. 1/2 -1 mozzarella kúla, skorin í litla bita
  • parmesan (má sleppa)

IMG_8017

Ofn hitaður í 180 gráður. Kúrbíturinn skorinn á lengdina og aðeins tekið af botninum svo hann geti staðið stöðugur. Fræin skafin úr miðjunni með skeið. Bátarnir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír. Ólífuolíu, hvítlauk, salti og pipar dreift yfir bátana. Kokteiltómatar skornir í tvennt og raðað ofan í bátana, brauðmylsnu stráð yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Þá er platan tekin út, og mozzarella ostinum bætt á bátana á milli tómatanna. Sett aftur inn í ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Þá eru bátarnir teknir úr ofninum og dálítið af ólífuolíu stráð yfir ásamt ferskri basiliku (og parmesan ef vill).

IMG_8020

Steiktar kartöfluskífur:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

IMG_8013

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

IMG_8022

Túnfisksalat með kotasælu og avókadó


IMG_7745Þó ég elski osta mikið þá sá ég í hendi mér að það væri kannski ekki gæfulegt að nota Gullost sem álegg í öll mál! Þetta túnfisksalat er sjúklega gott svo ekki sé minnst á hversu hollt það er. Ég skipti Gullostinum út með ánægju fyrir það – allavega í annað hvert mál! 🙂 Ég kaupi reglulega avókadó og bíð þolinmóð eftir því að þau verði passlega þroskuð. Hér skrifaði ég um hvernig hægt væri að flýta fyrir þroska þeirra (notabene þá er þetta kjúklingasalat æði!). Þegar avókadóið er passlega þroskað hræri ég í þetta salat, það tekur bara nokkrar mínútur, set það í vel þétt box inn í ísskáp og þá er alltaf hægt að næla sér í gómsætt álegg á brauðið eða hrökkbrauðið. Reyndar þá er „alltaf“ orðum aukið því salatið er ofurvinsælt að taka með sér í skóla og vinnu og stoppar stutt við á heimilinu! Best finnst mér að nota það á Minna mál hrökkbrauðið með osti og graskerafræjum

frettir_minnamal2 eða Finn Crisp hrökkbrauðið sem er miklu uppáhaldi hjá okkur Ósk.

UnknownUppskrift:

  • 1 dós túnfiskur í vatni
  • 1-2 lárperur (avókadó)
  • 1/2 lítill rauðlaukur
  • 1 stór dós kotasæla
  • ferskt kóríander
  • salt og pipar
  • 1/2 rautt chili (má sleppa)

Avókadó er skorið í fremur litla bita. Rauðlaukur saxaður mjög smátt. Kóríander saxað fremur smátt. Ef notaður er chili er hann fræhreinsaður og saxaður mjög smátt. Öllu blandað vel saman. Gott að setja á gróft hrökkbrauð með t.d. tómatsneiðum og/eða káli eða bara eitt og sér. Salatið geymist í boxi með vel þéttu loki í minnst 2-3 daga – það hefur eiginlega aldrei reynt á það hjá mér! 🙂

IMG_7739

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti


IMG_7549Á meðan ég sat yfir ritgerðinni minni þá dagdreymdi mig um ýmiss verkefni hér heima fyrir sem mig langaði svo mikið meira að gera en að sitja og skrifa alla daga. Ég dundaði mér við að búa til „to do“ lista yfir öll þessi geysispennandi verkefni. Efst á þeim lista var að fara í gegnum alla fataskápa heimilisins. Ég get staðfest það hér með að þetta verkefni var mun meira spennandi í dagdraumum mínum en í veruleikanum! Ofarlega á lista var líka endurskipulag á barnaherbergjunum. Ég hef því undanfarið verið að selja gamlar hillur og slíkt sem henta ekki lengur þar sem að krakkarnir hafa elst, dótinu fækkað og það breyst. Í kjölfarið hafa ófáar ferðir verið farnar í Íkea undanfarið. Ósk fékk líka dálitla yfirhalningu á sínu herbergi og um helgina fann ég þetta fallega stafrófs-sængurver sem var punkturinn yfir i-ið í herberginu hennar. Það er úr nýrri, tímabundinni línu hjá Íkea, Fjälltåg, margt skemmtilegt í þeirri línu hjá þeim.

Fjalltag

En að uppskrift dagsins. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég með þetta gómsæta hægeldaða lambalæri. Það var svo gott að ég ákvað að endurtaka leikinn að hluta til með því að hægelda lambahrygg í gær. Ekki var það síðra en lærið! Að þessu sinni var ég með rauðvín í ofnpottinum sem gaf góðan grunn í sósuna.

IMG_7540

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 4-5:

  • 1 lambahryggur (2 kíló)
  • 2 dl rauðvín
  • 1 laukur, afhýddur og skorinn í stóra bita
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • 4 tómatar, skornir í tvennt
  • 5 lárviðarlauf
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. rósmarín (ég notaði Best á allt frá pottagöldrum)

Ofninn er hitaður í 100 gráður. Hryggurinn er snyrtur ef þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hann, nuddaður með ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Rauðvíni er hellt í ofnpottinn og hryggurinn settur ofan í ásamt, lauk, hvítlauk, tómötum og lárviðarlaufum. Því næst er kryddað yfir allt með rósmarín eða Best á allt. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 5 tíma fyrir 2 kílóa hrygg. Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 62-65 gráður. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin.

IMG_7561

Sósa:

  • vökvinn úr ofnpottinum
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 tsk sojasósa
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 tsk hunang
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Vökvinn úr ofnpottinum er sigtaður og tær vökvinn settur í pott. Mesta fitan er veidd ofan af vökvanum. Suðan látin koma upp og vökvinn látinn malla kröfuglega í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann hefur soðið niður um allavega 1/3. Þá er restinni af hráefnunum bætt út og suðan látin koma aftur upp, sósan látin malla þar til hún er hæfilega þykk. Þá er sósan smökkuð til með kryddum.
riojaSævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með spænska rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessum rétti og svona er því lýst: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.

Hunangsgljáð grænmeti:

  • 6-8 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1/2 ferskur brokkolí-haus, skorin í bita
  • 150 gr sveppir, skornir í bita
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör eða olía til steikingar
  • grænmeti frá steikarpottinum
  • 1 msk hunang
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sesamfræ

Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Gulrætur og brokkolí sett út í vatnið og látið sjóða í örfáar mínútur þar til það er hálfsoðið. Sveppir steikir á pönnu upp úr smjöri/olíu og nautakrafti, ásamt papriku. Þá er hálfsoðna brokkolíinu og gulrótunum bætt út á pönnuna ásamt lauknum og tómötunum úr steikarpottinum. Hunangi bætt út í og kryddað örlítið með salti og pipar auk þess sem sesamfræum er stráð yfir. Grænmetinu leyft að malla í nokkrar mínútur við meðalhita.

IMG_7542

Beikonvafinn kjöthleifur


IMG_7483Ég fann þessa uppskrift á sænskum vef en endaði á því að breyta henni mjög mikið. Það er einmitt einn kosturinn við uppskriftir á netinu. Þar myndast oft spjall og athugasemdir við uppskriftirnar sem gera það að verkum að maður getur nýtt sér hvernig hinir og þessir hafa betrumbætt uppskriftirnar. Þetta hafa netuppskriftir fram yfir uppskriftabækur finnst mér. Ég les allavega alltaf athugasemdir við netuppskriftir af miklum áhuga. Í þessari uppskrift voru nokkrir sem sögðust hafa bætt við hvítlauk og steinselju við kjöthleifinn en slíkt var ekki í upprunalegu uppskriftinni. Ég gerði það líka auk þess að bæta við fleiri kryddum, nautakrafti og beikoni. Ég átti ekki brauðmylsnu og ristaði því brauð sem ég muldi niður, sem er líka eiginlega betra en að nota brauðmylsnu úr pakka. Kjöthleifurinn var ákaflega safaríkur (eins og sést á myndinni hér fyrir neðan), bragðmikill og góður einnig var sósan ljúffeng. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir! 🙂

IMG_7485

Uppskrift f. 6:

  • 1 kíló nautahakk
  • 1 gulur laukur, saxaður fínt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 2 egg
  • 1 dl brauðmylsna (ég ristaði brauð þar til það varð dökkt og muldi það niður)
  • 1.5 dl mjólk
  • 1 dl rjómi (hægt að skipta út fyrir mjólk)
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum (ég notaði það krydd sem mér fannst henta best, þetta er með chili, hvítlauk og fleiru sem mér fannst passa vel en það er hægt að nota það krydd sem manni hugnast best)
  • ferskar kryddjurtir, saxaðar, t.d. steinselja, basilika og/eða kóríander. Ég átti dálítið af öllum fyrrnefndum kryddjurtum sem voru að verða slappar, tilvalið til að nota í svona rétti. Líka hægt að nota þurrkuð krydd.
  • 50 g smjör
  • 1 msk sojasósa
  • 1 pakki beikon
  • 2.5 dl vatn

IMG_7470

Sósa

  • ca. 30 g smjör
  • soðið frá kjöthleifnum
  • 0,5 – 1 dl hveiti
  • 2-3 dl mjólk eða matreiðslurjómi
  • salt og pipar
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • matarlitur

IMG_7472
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Öllu hráefninu í kjöthleifnum, fyrir utan smjör, sojasósu, beikon og vatn, er blandað vel saman (ég gerði það í höndunum). Stórt eldfast mót smurt að innan og mótaður kjöthleifur ofan í forminu. Smjörið er brætt og sojasósunni bætt út í. Kjöthleifurinn er smurður með soja-smjörblöndunni (allt í lagi þó það leki niður í formið). Því næst er beikoni vafið utan um kjöthleifinn. Vatninu hellt ofan í formið og kjöthleifurinn bakaður við 200 gráður í 50 mínútur. Ef vökvinn minnkar mikið á meðan eldun stendur er gott að bæta dálitlu vatni út í formið.

Þegar ca 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er steikarvökvanum hellt af kjöthleifnum  og hann settur aftur inn í ofn. Fitan er veidd ofan af steikarvökvanum og dálítið af honum settur í pott ásamt smjörinu og það bakað upp með hveitinu. Þá er restinni af steikarvökvanum hellt út í smátt og smátt og hrært í pottinum á meðan. Því næst er mjólkinni/rjómanum bætt út í og sósan krydduð með sojasósu, nautakrafti og rifsberjahlaupi og látin malla um stund. Ef sósan er of þykk er meiri mjólk bætt út í, ef hún er of þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara. Fallegra er að dekkja sósuna með sósulit. Sósan smökuð til með kryddum, sojasósu og rifsberjahlaupi.

IMG_7489
.

Hægeldað lambalæri


IMG_7414Í gær var ég með hægeldað lambalæri í sunnudagsmatinn. Það var dásamlega meyrt og gott, hreinlega bráðnaði í munni! Að auki var fyrirhöfnin næstum engin. Ég setti lærið ásamt kartöflum og grænmeti í steikarpott á hádegi. Því næst fórum við  fjölskyldan Íkea og skelltum okkur í sund á meðan maturinn mallaði á lágum hita í ofninum. Ósk var reyndar heima, ég hefði líklega verið hálfstressuð að skilja matinn eftir í ofninum annars. En mikið var gott að koma heim svangur úr sundi rétt fyrir matmálstíma og taka tilbúinn út úr ofninum þennan dásamlegan mat með engri fyrirhöfn! Það eina sem ég þurfti að gera var að búa til sósu og salat. Við kláruðum hér um bil heilt læri sem var 2.7 kíló! Reyndar kom Inga frænka til okkur í mat (hún er nú samt matgrönn! 😉 ). En það sem kom mest á óvart var að Jóhanna borðaði kjöt og sósu eins og enginn væri morgundagurinn! Hún sem venjulega borðar ekki lambakjöt, fékk sér fjórum eða fimm sinnum á diskinn, henni fannst kjötið svo gott! Það kom mér líka á óvart að grænmetið sem ég setti með lærinu í steikarpottinn var alveg mátulega eldað, ég hélt að það yrði ofeldað eftir allan þennan tíma í vökva í ofninum. En bæði kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar og góðar. Þetta er frábær og einföld aðferð til þess að fá lungamjúkt og gott lambalæri, mæli með því! 🙂

IMG_7403

Uppskrift:

  • 1 lambalæri, ca. 3 kíló
  • ólífuolía
  • lambakjötskrydd
  • salt og pipar
  • 2 sætar kartöflur
  • 12 kartöflur
  • 6 gulrætur
  • 1 paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
  • piparkorn
  • 600 ml vatn

Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

IMG_7407

Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.

Sósa:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

  • 40 g smjör
  • 40 g hveiti
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk sojasósa
  • sósulitur
  • salt og pipar

Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

00135Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir eindregið með spænska rauðvíninu Campo Viejo Reserva með lambalærinu.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, krydd, vanilla.

IMG_7416

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090

Fiskisúpa með kókos og karrí


IMG_6710Á milli jóla og nýárs voru tveir virkir dagar og ég var með matarboð báða dagana! Ég er búin að hlakka svo til að losna við ritgerðina af bakinu, geta átt eitthvað félagslíf aftur og boðið fólki í mat! Annað kvöldið komu bræður mínir tveir og mágkonur í mat og við spiluðum fram eftir nóttu. Ég ákvað að hafa fiskisúpu eftir þungar máltíðir jólanna. Þó ég sé ekki súpumanneskja þá var ég svo hrifin af fiskisúpunni að vestan að ég ákvað að reyna að útfæra einhverja svipaða uppskrift. Ég keypti inn hráefni sem ég taldi að pössuðu vel saman og mallaði svo súpuna. Mér fannst súpan verða rosalega góð og það hljómaði á gestunum að þeir væru sammála mér. 🙂 Ég hripaði niður það sem ég gerði, ég vona að ég geti komið því sæmilega skýru frá mér þannig að hægt sé að endurtaka leikinn. Ég notaði skötusel og lúðu en það er hægt að nota hvaða fisk sem er, helst þó fisk sem er þéttur í sér.

Talandi um fiskisúpuna að vestan þá átti ég leið framhjá veitingastað um daginn sem selur súpu og brauð í hádeginu. Í glugganum á veitingastaðnum blasti við mér þetta stóra plakat með svona líka girnilegri súpu og brauði!

súpa og brauðVeitingastaðurinn hefur greinilega ákveðið að fá myndina mína ,,lánaða“ og prenta hana á auglýsingaspjald á þess að spyrja kóng, prest né mig! Ég átta mig á að þegar myndir eru settar á netið getur hver sem er notað þær og ég hef ekkert á móti því að fólk nýti sér myndir frá síðunni minni til persónulegra nota í tengslum við uppskriftirnar. Hins vegar dreg ég mörkin við að myndirnar séu notaðar í auglýsingagerð án þess að ég sé spurð leyfis. Mér finnst slík notkun vera lélegir viðskiptahættir. Ef fyrirtæki nota ekki eigin myndir við auglýsingagerð þá er venjan að þau nýti sér myndabanka og greiði fyrir notkun mynda þaðan. Ég reikna allavega fastlega með að ég fái vel matreidda fiskusúpa að vestan á þessum veitingastað endurgjaldslaust hvenær sem er! 🙂

Uppskrift f. 8

  • 600 g skötuselur, skorin í munnbita
  • 600 g lúða, skorin í munnbita
  • 500 g rækjur
  • 1 líter fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn)
  • 2 dl hvítvín (eða Mysa)
  • 3-5 dl rjómi
  • 3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
  • smjör til steikingar
  • 1 púrrlaukur, saxaður meðalgróft
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 3-4 gulrætur, skorin í bita
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 3 tsk madraskarrí (eða venjulegt karrí)
  • 2 msk tómatmauk
  • fersk basilika, söxuð meðalgróft
  • ferskur graslaukur, saxaður fínt
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 dósir kókósmjólk
  • Salt og pipar
Fiskisoði, hvítvíni og rjóma hellt í stóran pott, skarlottulauk og hvítlauk bætt út í. Suðan látin koma upp og leyft að malla í ca. 10-15 mínútur. Á meðan er smjör sett á pönnu og grænmetið steikt á pönnunni ásamt karríinu og tómatmaukinu. Grænmetinu er svo bætt út í súpupottinn ásamt kókosmjólkinni, graslauk og basiliku. Bragðbætt með salti, pipar og meira karrí ef vill, einnig er hægt að bæta út í meiri fiskikrafti ef með þarf. Leyft að malla í dálitla stund. Þá er fisknum bætt út í og hann látin malla í súpunni í örfáar mínútur eða þar til hann er soðin í gegn. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjunum bætt út í. Þegar súpan er borin fram er fersku kóríander stráð yfir súpuna.
IMG_6707