Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti


IMG_7549Á meðan ég sat yfir ritgerðinni minni þá dagdreymdi mig um ýmiss verkefni hér heima fyrir sem mig langaði svo mikið meira að gera en að sitja og skrifa alla daga. Ég dundaði mér við að búa til „to do“ lista yfir öll þessi geysispennandi verkefni. Efst á þeim lista var að fara í gegnum alla fataskápa heimilisins. Ég get staðfest það hér með að þetta verkefni var mun meira spennandi í dagdraumum mínum en í veruleikanum! Ofarlega á lista var líka endurskipulag á barnaherbergjunum. Ég hef því undanfarið verið að selja gamlar hillur og slíkt sem henta ekki lengur þar sem að krakkarnir hafa elst, dótinu fækkað og það breyst. Í kjölfarið hafa ófáar ferðir verið farnar í Íkea undanfarið. Ósk fékk líka dálitla yfirhalningu á sínu herbergi og um helgina fann ég þetta fallega stafrófs-sængurver sem var punkturinn yfir i-ið í herberginu hennar. Það er úr nýrri, tímabundinni línu hjá Íkea, Fjälltåg, margt skemmtilegt í þeirri línu hjá þeim.

Fjalltag

En að uppskrift dagsins. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég með þetta gómsæta hægeldaða lambalæri. Það var svo gott að ég ákvað að endurtaka leikinn að hluta til með því að hægelda lambahrygg í gær. Ekki var það síðra en lærið! Að þessu sinni var ég með rauðvín í ofnpottinum sem gaf góðan grunn í sósuna.

IMG_7540

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 4-5:

  • 1 lambahryggur (2 kíló)
  • 2 dl rauðvín
  • 1 laukur, afhýddur og skorinn í stóra bita
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • 4 tómatar, skornir í tvennt
  • 5 lárviðarlauf
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. rósmarín (ég notaði Best á allt frá pottagöldrum)

Ofninn er hitaður í 100 gráður. Hryggurinn er snyrtur ef þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hann, nuddaður með ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Rauðvíni er hellt í ofnpottinn og hryggurinn settur ofan í ásamt, lauk, hvítlauk, tómötum og lárviðarlaufum. Því næst er kryddað yfir allt með rósmarín eða Best á allt. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 5 tíma fyrir 2 kílóa hrygg. Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 62-65 gráður. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin.

IMG_7561

Sósa:

  • vökvinn úr ofnpottinum
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 tsk sojasósa
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 tsk hunang
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Vökvinn úr ofnpottinum er sigtaður og tær vökvinn settur í pott. Mesta fitan er veidd ofan af vökvanum. Suðan látin koma upp og vökvinn látinn malla kröfuglega í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann hefur soðið niður um allavega 1/3. Þá er restinni af hráefnunum bætt út og suðan látin koma aftur upp, sósan látin malla þar til hún er hæfilega þykk. Þá er sósan smökkuð til með kryddum.
riojaSævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með spænska rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessum rétti og svona er því lýst: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.

Hunangsgljáð grænmeti:

  • 6-8 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1/2 ferskur brokkolí-haus, skorin í bita
  • 150 gr sveppir, skornir í bita
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör eða olía til steikingar
  • grænmeti frá steikarpottinum
  • 1 msk hunang
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sesamfræ

Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Gulrætur og brokkolí sett út í vatnið og látið sjóða í örfáar mínútur þar til það er hálfsoðið. Sveppir steikir á pönnu upp úr smjöri/olíu og nautakrafti, ásamt papriku. Þá er hálfsoðna brokkolíinu og gulrótunum bætt út á pönnuna ásamt lauknum og tómötunum úr steikarpottinum. Hunangi bætt út í og kryddað örlítið með salti og pipar auk þess sem sesamfræum er stráð yfir. Grænmetinu leyft að malla í nokkrar mínútur við meðalhita.

IMG_7542

Hummus á hrökkbrauði með tómötum og avókadó


IMG_7515Hummus er mauk búið til úr kjúklingabaunum. Kjúklingabaunir, sem einnig eru nefndar kíkertur á íslensku, eru fræ af runnanum Cicer arietinum og hafa því ekkert með kjúkling að gera.  Á ensku nefnist baunin chickpea en þaðan er heitið komið úr frönsku, chiche, sem er dregið af latneska heitinu. Enska orðið chick er meðal annars yfir kjúkling og aðra fuglsunga og þess vegna hefur þýðingin kjúklingabaun orðið til á íslensku.

IMG_7506Tahini er notað í hummus. Það verður til þegar sesamfræ eru notuð til að búa til sesamsmjör, líkt og hnetur eru notaðar til að búa til hnetusmjör. Það eru til tvær gerðir af Tahini, hvítt og dökkt. Hvíta tahinið er búið til með því að mauka sesamfræin, eftir að þau hafa verið lögð í bleyti yfir nótt og þau létt marin til að opna þau, þar til þau eru orðin að þykkni eða smjöri. Dökkt tahini er búið ti á sama hátt nema þá hafa sesamfræin verið ristuð áður, það er því aðeins bragðmeira. Tahini er mjög góður kalkgjafi og næringarríkt. Tahini er hægt að nota ofan á brauð í staðin fyrir smjör eða hnetusmjör. Ef það er sett í blandara með vatni fæst úr því sesammjólk. Það er líka hægt að nota tahini í buffdeig eða bökur sem bindiefni í staðin fyrir egg og hveiti og í pottrétti í stað kókosmjólk til að mýkja og þykkja. Að auki er það notað í hummus.

Þetta hummus er rosalega gott, sérstaklega á hrökkbrauð ásamt avókadó og tómötum og örlitið af grófmuldum svörtum pipar. Eða sem grænmetisídýfa, Jóhönnu Ingu finnst það gott!

IMG_7536

  • 1 dós (240 g án vökvans) soðnar/niðursoðnar kjúklingabaunir/kíkertur
  • 1-2 msk vökvi frá baununum
  • 2 límónur (lime)
  • 1 msk Tahini
  • 2 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð gróft
  • 4-6 msk ólífuolía
Vökvanum er hellt af kjúklingabaununum og honum haldið til haga. Hýðið rifið af annarri límónunni. Kjúklingabaunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hýðinu af límónunni, safanum úr báðum límónunum, hvítlauk, steinselju, tahini og ólífuolíu. Öllu blandað saman þar til orðið að mauki. Þá er vökvanum frá kjúklingabaununum bætt út í þannig að maukið verði passlega þykkt.
IMG_7510

Beikonvafinn kjöthleifur


IMG_7483Ég fann þessa uppskrift á sænskum vef en endaði á því að breyta henni mjög mikið. Það er einmitt einn kosturinn við uppskriftir á netinu. Þar myndast oft spjall og athugasemdir við uppskriftirnar sem gera það að verkum að maður getur nýtt sér hvernig hinir og þessir hafa betrumbætt uppskriftirnar. Þetta hafa netuppskriftir fram yfir uppskriftabækur finnst mér. Ég les allavega alltaf athugasemdir við netuppskriftir af miklum áhuga. Í þessari uppskrift voru nokkrir sem sögðust hafa bætt við hvítlauk og steinselju við kjöthleifinn en slíkt var ekki í upprunalegu uppskriftinni. Ég gerði það líka auk þess að bæta við fleiri kryddum, nautakrafti og beikoni. Ég átti ekki brauðmylsnu og ristaði því brauð sem ég muldi niður, sem er líka eiginlega betra en að nota brauðmylsnu úr pakka. Kjöthleifurinn var ákaflega safaríkur (eins og sést á myndinni hér fyrir neðan), bragðmikill og góður einnig var sósan ljúffeng. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir! 🙂

IMG_7485

Uppskrift f. 6:

  • 1 kíló nautahakk
  • 1 gulur laukur, saxaður fínt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 2 egg
  • 1 dl brauðmylsna (ég ristaði brauð þar til það varð dökkt og muldi það niður)
  • 1.5 dl mjólk
  • 1 dl rjómi (hægt að skipta út fyrir mjólk)
  • 2 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum (ég notaði það krydd sem mér fannst henta best, þetta er með chili, hvítlauk og fleiru sem mér fannst passa vel en það er hægt að nota það krydd sem manni hugnast best)
  • ferskar kryddjurtir, saxaðar, t.d. steinselja, basilika og/eða kóríander. Ég átti dálítið af öllum fyrrnefndum kryddjurtum sem voru að verða slappar, tilvalið til að nota í svona rétti. Líka hægt að nota þurrkuð krydd.
  • 50 g smjör
  • 1 msk sojasósa
  • 1 pakki beikon
  • 2.5 dl vatn

IMG_7470

Sósa

  • ca. 30 g smjör
  • soðið frá kjöthleifnum
  • 0,5 – 1 dl hveiti
  • 2-3 dl mjólk eða matreiðslurjómi
  • salt og pipar
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • matarlitur

IMG_7472
Bakarofn hitaður í 200 gráður. Öllu hráefninu í kjöthleifnum, fyrir utan smjör, sojasósu, beikon og vatn, er blandað vel saman (ég gerði það í höndunum). Stórt eldfast mót smurt að innan og mótaður kjöthleifur ofan í forminu. Smjörið er brætt og sojasósunni bætt út í. Kjöthleifurinn er smurður með soja-smjörblöndunni (allt í lagi þó það leki niður í formið). Því næst er beikoni vafið utan um kjöthleifinn. Vatninu hellt ofan í formið og kjöthleifurinn bakaður við 200 gráður í 50 mínútur. Ef vökvinn minnkar mikið á meðan eldun stendur er gott að bæta dálitlu vatni út í formið.

Þegar ca 10 mínútur eru eftir af eldunartímanum er steikarvökvanum hellt af kjöthleifnum  og hann settur aftur inn í ofn. Fitan er veidd ofan af steikarvökvanum og dálítið af honum settur í pott ásamt smjörinu og það bakað upp með hveitinu. Þá er restinni af steikarvökvanum hellt út í smátt og smátt og hrært í pottinum á meðan. Því næst er mjólkinni/rjómanum bætt út í og sósan krydduð með sojasósu, nautakrafti og rifsberjahlaupi og látin malla um stund. Ef sósan er of þykk er meiri mjólk bætt út í, ef hún er of þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara. Fallegra er að dekkja sósuna með sósulit. Sósan smökuð til með kryddum, sojasósu og rifsberjahlaupi.

IMG_7489
.

Lax með geitaosti


IMG_7331Geitaostur er ekki allra! Mér finnst geitaostur frábærlega góður í allskonar matrétti þó ég borði hann ekki eintóman. Ég sakna þess verulega frá Svíþjóð að geta keypt geitaost úti í venjulegri matvöruverslun á eðlilegu verði. Hér er til geitaostur í Hagkaup sem er frekar dýr en þar fyrir utan er hann bara til í ostabúðum og ég held að kílóaverðið sé í kringum sjö þúsund kall! Hvað er málið með það, ég veit ekki betur en það séu nokkur hundruð geitur á Íslandi, þarf osturinn að vera svona dýr?

Ég ákvað samt að vera ægilega góð við mig og mína og keypti bæði lax og geitaost! Geitaostinn keypti ég í Hagkaup. Hann er innfluttur, franskur og kemur í 125 gramma boxum, kostar í kringum 600 krónur minnir mig. Mig hefur nefnilega lengi langað að gera laxarétt sem ég gerði oft úti í Stokkhólmi og er svo æðislega góður. Þetta er ákaflega einfaldur réttur að matbúa og með fáum hráefnum. Ég bar fram með honum sætar ofnbakaðar kartöflur, klettasalat og hvítlauksbrauðið hennar Ínu, nammm! Á myndinni sést að hluti af laxinum er bara kryddaður, ekki með geitaostablöndu, það er vegna þess að allra yngstu börnin kunna ekki gott að meta! 🙂

Uppskrift:

  • 1 laxaflak
  • 125 geitaostur
  • 1,5 dl sýrður rjómi
  • 2-3 msk hunang
  • salt og pipar

Bakarofn hitaður í 200 gráður undir-og yfirhita. Geitaosturinn mulinn niður og blandað saman við sýrðan rjóma með gafli. Hunangi, salti og pipar bætt út í. Laxaflakið lagt í eldfast mót og geitaostablöndunni hellt yfir flakið. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Borið fram með kartöflum og/eða sætum kartöflum, salati og góðu brauði.

IMG_7298

Indverskur kjúklingur í jógúrtkarrísósu


IMG_7443Mér finnst indverskur matur afskaplega góður en ég er frekar ódugleg við að búa til slíka rétti frá grunni. Það er aðallega langur hráefnislisti sem fælir mig frá og þá oft að í uppskriftunum eru hráefni sem ég á ekki til. Þennan rétt fann ég í Gestgjafanum og mér fannst hann frekar einfaldur að sjá, ég átti meira að segja allt í hann fyrir utan negulnagla og kardimommur.

IMG_7425

Það var skemmtilegt og auðvelt að laga réttinn og ilmurinn var dásamlegur. Ekki var bragðið síðra, ofsalega ljúffengur réttur. Sósan er kölluð karrísósa þó svo að í henni sé ekkert karrí. Nanna Rögnvaldar skýrir þetta svona út:

„Karríduft er kryddblanda sem er reyndar fundin upp á Vesturlöndum en fékkst ekki á Indlandi hér áður fyrr að minnsta kosti því allir notuðu bara sína eigin kryddblöndu. Ég man satt að segja aldrei eftir að hafa rekist á karríduft í alvöru indverskri uppskrift. Karrí – kari á tamílamáli – þýðir eiginlega kássa (grænmetis- eða kjötkássa) með sterku kryddi eða í kryddsósu.“ Í þessari kjúklinga-karrí uppskrift er því ekkert karríduft en hins vegar ýmis krydd sem eru gjarna notuð í slíka rétti (og í karríkryddblöndur) eins og kardimommur, negulnaglar, kanill og chili.

Uppskrift f. 3-4

  • 2-3 tsk olía (t.d. kókosolía)
  • 2 laukar, saxaðir gróft
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 negulnaglar
  • 2 kanilstangir
  • 4 svört piparkorn
  • 3 kardimommur, heilar
  • 1 bakki kjúklingalundir (ca. 600 g)
  • 3 tsk garam masala (krydd)
  • ca. 2 cm engiferrót, rifin
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð gróft eða rifin
  • 1-2 tsk salt
  • 1/2-1 tsk chiliduft
  • 1/2 – 1 dl möndluflögur
  • 1 dós hrein jógúrt (180 g)
  • 2 græn epli, afhýdd og skorin í grófa bita
  • ferskur kóríander

IMG_7426Hitið olíuna á pönnu og setjið út á pönnuna lárviðarlauf, negulnagla, kanilstangir, piparkorn og kardimommur í smástund. Bætið lauknum út í og steikið við vægan hita í 3-5 mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins en er ekki byrjaður að brúnast. Bætið kjúklingalundunum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur, bætið olíu á pönnuna ef með þarf. Setjið Garam masala, engiferrót, hvítlauk, salt, chiliduft og möndluflögur úr í og steikið í 2-3 mínútur. Lækkið hitann og hellið jógúrt út á og hrærið í nokkrar mínútur. Bætið eplunum saman við og látið malla undir loki í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Skreytið með ristuðum möndluflögum og ferskum kóríander. Berið fram með hrísgrjónum, fersku salati og Nanbrauði.

IMG_7447

Kladdkaka með karamellukremi


IMG_7460Ég hef sett inn áður uppskrift af sænskri klessuköku (kladdkaka), þessari hérna. Kladdkökurnar eru í ætt við brownies, blautar og bragðgóðar. Þessi kladdkaka fer í hæstu hæðir með einstaklega ljúffengu karamellukremi. Ég ætla ekki einu sinni að segja frá því hversu fljótt hún kláraðist hér heima! Þetta er afskaplega hentug kaka til að bjóða í eftirrétt og þá er ofsalega gott að bera fram með henni ís og/eða þeyttan rjóma auk ferskra berja og ávaxta. Þetta er ákaflega einföld kaka að baka og það er hægt að búa hana til með góðum fyrirvara. Það er heldur ekkert mál að frysta hana með karamellukreminu á. Þessi fær toppeinkunn frá öllum fjölskyldumeðlimunum, þið verðið að prófa! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • hnífsoddur salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til að deigið hefur blandast vel saman. Bakað í smurðu lausbotna formi (ca.22 – 24 cm) eða sílikonformi við 175 gráður í 20 mínútur. Kökunni leyft að kólna í ca 10 mínútur.

IMG_7423

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

IMG_7439

IMG_7434

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Ég lét kremið standa um stund til þess að það yrði aðeins þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Borin fram með þeyttum rjóma og/eða ís, og jafnvel góðri blöndu af berjum.

img_7456

Hægeldað lambalæri


IMG_7414Í gær var ég með hægeldað lambalæri í sunnudagsmatinn. Það var dásamlega meyrt og gott, hreinlega bráðnaði í munni! Að auki var fyrirhöfnin næstum engin. Ég setti lærið ásamt kartöflum og grænmeti í steikarpott á hádegi. Því næst fórum við  fjölskyldan Íkea og skelltum okkur í sund á meðan maturinn mallaði á lágum hita í ofninum. Ósk var reyndar heima, ég hefði líklega verið hálfstressuð að skilja matinn eftir í ofninum annars. En mikið var gott að koma heim svangur úr sundi rétt fyrir matmálstíma og taka tilbúinn út úr ofninum þennan dásamlegan mat með engri fyrirhöfn! Það eina sem ég þurfti að gera var að búa til sósu og salat. Við kláruðum hér um bil heilt læri sem var 2.7 kíló! Reyndar kom Inga frænka til okkur í mat (hún er nú samt matgrönn! 😉 ). En það sem kom mest á óvart var að Jóhanna borðaði kjöt og sósu eins og enginn væri morgundagurinn! Hún sem venjulega borðar ekki lambakjöt, fékk sér fjórum eða fimm sinnum á diskinn, henni fannst kjötið svo gott! Það kom mér líka á óvart að grænmetið sem ég setti með lærinu í steikarpottinn var alveg mátulega eldað, ég hélt að það yrði ofeldað eftir allan þennan tíma í vökva í ofninum. En bæði kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar og góðar. Þetta er frábær og einföld aðferð til þess að fá lungamjúkt og gott lambalæri, mæli með því! 🙂

IMG_7403

Uppskrift:

  • 1 lambalæri, ca. 3 kíló
  • ólífuolía
  • lambakjötskrydd
  • salt og pipar
  • 2 sætar kartöflur
  • 12 kartöflur
  • 6 gulrætur
  • 1 paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
  • piparkorn
  • 600 ml vatn

Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

IMG_7407

Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.

Sósa:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

  • 40 g smjör
  • 40 g hveiti
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk sojasósa
  • sósulitur
  • salt og pipar

Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

00135Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir eindregið með spænska rauðvíninu Campo Viejo Reserva með lambalærinu.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, krydd, vanilla.

IMG_7416

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

  • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

  • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
  • tómatar, skornir í sneiðar
  • basilikublöð
  • salt og svartur grófmalaður pipar
  • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
  • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

  • parmaskinka
  • brie ostur eða annar góður mygluostur,
  • chilisulta
  • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

  • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
  • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
  • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
  • klettasalat
  • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371

Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

  • burritos eða tortillas pönnukökur
  • ólífuolía
  • maldon salt
  • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 4 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 4 hvítlauksrif
  • 1.5 líter kjúklingasoð
  • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
  • 1 tsk broddakúmen (krydd)
  • 1 tsk kóríander (krydd)
  • salt og pipar
  • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363

Hvítlauksbrauð Ínu


IMG_7329Ég hef sagt frá því áður hvað mér finnst gaman að horfa á Food Network og ég haldi mest upp á þáttinn Barefood Contessa. Þar er Ina Garten við völd með frábærar uppskriftir. Ég fór að hugsa það um daginn að þó hún hafi veitt mér ýmisskonar innblástur þá hef ég ekki beint prófað uppskriftirnar hennar. Ég fór því á stúfana að skoða uppskriftirnar hennar Ínu. Ég á engar uppskriftabækur eftir hana en það kemur ekki að sök þar sem þær eru örugglega allar á netinu. Netið er algjör himnasending þegar kemur að uppskriftum (og öllu öðru!)! Ég var með gómsætan lax í matinn og fann uppskrift af girnilegu hvítlauksbrauði frá Ínu sem ég sá í hendi mér að myndi smellpassa með laxinum. Þetta er svolítið svindl brauð því það er ekki ekki heimabakað en svakalega er það gott! Það er auðvitað líka bara himnasending að fá svona gott brauð með hér um bil engri fyrirhöfn. Í uppskrift Ínu mælir hún með því að nota Ciabatta brauð. Ég keypti hins vegar birkibrauð sem kom afar vel út því það er með stökkum hjúp og er mjúkt og ljóst að innan. Ég mæli svo mikið með þessu hvítlauksbrauði sjóðandi heitu og ljúffengu með einhverjum góðum matrétti!

IMG_7317

Uppskrift:

  • 6 hvítlauksrif, söxuð
  • 30 g steinselja (ítölsk, þessi með flötu blöðunum)
  • 30 g oregano blöð (bergmynta) ég notaði kóríander í staðinn og það kom vel út
  • 1/2 tsk maldon salt salt (ég notaði líka Parmesan/basil saltið sem mér áskotnaðist í jólagjafapakkarugli í saumó – takk Laufey!)
  • svartur nýmalaður pipar
  • 40 g ólífuolía
  • 1 brauðhleifur, t.d. ciabatta brauð (hér notaði ég birkibrauð)
  • 1 1/2 tsk mjúkt smjör

IMG_7314

Bakarofn hitaður í 160 gráður. Hvítlaukurinn settur í matvinnsluvél þar til hann er fínhakkaður. Þá er oreganoblöðum, steinseljublöðum, salti og pipar bætt út í og vélin látin ganga nokkrum sinnum þar til þau eru grófhökkuð. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að fínhakka allt með hníf.

Olían hituð á pönnu við meðalhita og lauk/kryddjurtablöndunni bætt út, steikt í örstutta stund á vægum hita og svo er pannan tekin af hellunni. Brauðið er skorið langsum og smjörinu smurt á neðri helminginn. Þá er blöndunni á pönnunni dreift yfir neðri helming brauðsins. Mér fannst reyndar gott að smyrja blöndunni á báða helminga brauðsins, þá er jafnvel hægt að bera það fram í tveimur helmingum í stað þess að vera lagt saman. Því næst er brauðið lagt saman, því pakkað inn í álpappír og það hitað í ofni við 160 gráður í 5 mínútur. Þá er álpappírinn tekin af brauðinu og það bakað í 7-10 mínútur til viðbótar.

IMG_7321