Pavlova í fínu formi


Ég hef áður sett hér inn uppskrift af Pavlovu, þeirri dásemdar tertu. Þetta er hins vegar rosalega góð öðruvísi útgáfa af Pavlovu, bökuð af móður minni, gestabloggara dagsins! 🙂 Hér er marengsinn settur í eldfast mót sem getur verið handhægt og sniðugt. Nóa kroppi er svo bætt út í rjómann sem gerir réttinn sérstaklega góðan! Það er líka hægt að nota súkkulaðirúsínur ef maður kýs það frekar. Ofan á rjómann er hægt að nota hvaða ávexti eða ber sem er. Hér notaði mamma jarðaber, vínber og íslensk bláber.

Uppskrift:

  • 8 eggjahvítur
  • 400 gr sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 3 tsk edik
  • 1/2 líter rjómi
  • Nóa kropp eða súkkulaðirúsínur
  • ávextir og/eða ber
  • 100 gr suðusúkkulaði

Eggjahvítur stífþeyttar, sykri bætt smám saman út í ásamt edik og salti. Marengsinn settur í eldfast mót og bakaður við 175 gráður í 30 mínútur, þá er lækkað niður í 135 gráður og bakað í 30 mínútur til vibótar. Eftir það er slökkt á ofninum og marengsinn látin kólna í ofninum, helst yfir nóttu. Rjómi þeyttur, Nóa kroppi bætt út í og rjómanum síðan smurt yfir marengsinn. Skreytt með berjum og eða ávöxtum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, kiwi eða ástaraldin. Að lokum er suðusúkkulaði brætt og dreift yfir berin og ávextina. Það er hægt að dreifa brædda súkkulaðinu yfir réttinn með skeið. En það er líka hægt að setja súkkulaðið í lítin poka, klippa örlítið gat á eitt hornið og sprauta því svo yfir (það má þó ekki vera það heitt að það bræði pokann).

Tacobaka


Ég er alltaf á höttunum eftir góðum nautahakksuppskriftum. Nautahakk er fremur ódýrt hráefni, það er fljótlegt í matreiðslu og það er hægt að gera úr því margskonar ólíka matrétti. Í gærkvöldi bjó ég til tacoböku sem var býsna góð. Uppskriftina fann ég á sænskri uppskriftasíðu. Ég reyndar breytti henni töluvert, bætti meðal annars við maís, papriku, kotasælu og lauk ásamt því að gera fleiri breytingar. Í uppskriftinni er jalapeños sem er sterkt en mér finnst það afar gott í þennan rétt. En það þarf að kannski að minnka magnið talsvert ef börn borða réttinn, þeim líkar sjaldan sterkur matur. Það er líka sniðugt að setja ekki jalapeños í hakkið heldur raða því ofan á réttinn ásamt tómötum, þá er hægt að skilja eftir horn fyrir börnin án jalapeños.

Uppskrift f. 4

Deig:

  • 2 ½ dl hveiti
  • 125 gr smjör, kalt
  • 2-3 msk kalt vatn

Smjöri og hveiti blandað saman, gott að gera það í matvinnsluvél eða með tveimur göfflum, þar til það er orðið eins og gróft mjöl. Bætið þá vatninu saman við deigið og hnoðið. Fletjið út deigið milli smjörpappírs og setjið það svo í bökuform (eða eldfast mót). Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur (til þess að það dragist ekki saman við baksturinn). Bakið svo við 225 gráður í 10 mínútur.

Tacofylling:

  • 700 gr nautahakk
  • 1 bréf tacokrydd
  • 200 gr kotasæla
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 2 dl maísbaunir
  • 1 dós sýrður rjómi með hvítlauk
  • 2 niðurskornir tómatar
  • jalapeños eftir smekk
  • rifinn ostur

Steikið lauk og papriku á pönnu. Bætið við hakki og þegar það er gegnumsteikt er tacokryddi bætt við ásamt maísbaunum, kotasælu og jalapeños. Látið malla á lágum hita, hrærið í blöndunni öðru hverju. Hellið nautahakkinu í bökuformið. Breiðið ofan á hakkið sýrða rjómanum, leggið tómatsneiðar yfir sýrða rjómann (og jalapeños ef maður kýs þar frekar að dreifa því yfir réttinn fremur en að setja það í hakkið). Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn. Bakið í ofni við 225 gráður í 10-15 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með guacamole, sýrðum rjóma, tómatsalsa og salati.

Frönsk hvít súkkulaðikaka


Ég var búin að spá lengi í þessa köku áður en ég lét verða af því að baka hana. Mér finnst hvítt súkkulaði í desertum mjög gott en bara í hófi. Mér var því hugleikið hvernig frönsk súkkulaðikaka kæmi út eingöngu með hvítu súkkulaði. Hefðbundið brúnt súkkulaði er samsett úr þremur megin hráefnum, kakómassa (fínmaldar kakóbaunir), kakósmjöri og sykri auk bragðefna. Í hvítu súkkulaði er aðeins kakósmjörið frá kakóbauninni notað, ekki sjálfur kakómassinn, auk mjólkurdufts og sykurs. Hvítt súkkulaði er oft bragðbætt með vanillu þar sem að kakósmjörið er næstum því bragð- og lyktarlaust. Til þess að hvítt súkkulaði sé stimplað sem gæðasúkkulaði þarf að vera í því 20% eða hærra innihald af kakósmjöri en stundum er notuð jurtafeiti í stað kakósmjörs. Hvítt súkkulaði er mun viðkvæmara en dökkt þegar það er brætt, jafnvel þó kakósmjörið sé ekta. Það þarf að passa að hafa vatnið vel fyrir neðan suðu og láta það ekki snerta skálarbotninn með súkkulaðinu. Í þessari uppskrift er hvíta súkkulaðið sett út í heitt smjör en mér fannst blandan vilja skilja sig og gerði meira að segja tvær tilraunir við að hræra þessum hráefnum saman, ég hafði smjörið ekki eins heitt í seinna skiptið. En sú tilraun kom alveg eins út, ég notaði því blönduna eins og hún var og það virtist ekki koma að neinni sök.

Pabba fannst þessi kaka ofboðslega góð, alveg í uppáhaldi hjá honum. Mér fannst hún líka mjög góð en ég hefði ekki viljað mjög stóra sneið af henni, meira svona eins og konfektmola með kaffinu enda er hún mjög sæt. Ég fann þessa uppskrift á sænskri vefsíðu og þar fékk kakan mjög góða dóma af þeim fjölmörgu sem höfðu prófað að baka hana. Ég hvet því alla sem eru hrifnir af hvítu súkkulaði að prófa!  Þegar ég baka þessa köku næst þá mun ég gera eina breytingu. Ég myndi prófa að sleppa glassúrinu og í staðinn bera fram með henni hindberjasósu. Hér er uppskrift af slíkri sósu. Ég held að það væri ákaflega gott að fá svolítið súra berjasósu á móti sætu kökunni.

Uppskrift:

  • 250 gr hvítt gott súkkulaði
  • 200 gr smjör
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk koníak (fyrir þá sem ekki vilja koníak sem bragðefni er hægt að nota 2 tsk vanillusykur í staðinn)
  • 2 dl hveiti

Glassúr:

150 gr hvítt súkkulaði
1/2 dl rjómi

Aðferð:

Stillið ofninn á 175 gráður. Bræðið smjörið í potti á meðalhita. Takið pottinn af hellunni og bætið súkkulaðinu út í, hrærið saman þar til súkkulaðið er bráðnað. Þeytið egg og sykur þar til blandan er létt og ljós. Hrærið út í súkkulaði, koníaki og blandið svo sigtuðu hveiti varlega út í blönduna í lokin. Hellið deiginu í smurt form með lausum botni (ca. 24 cm) og bakið neðarlega í ofni í ca. 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna og setjið hana svo í ísskáp. Glassúr: Saxið súkkulaðið, hellið rjóma í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni, bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til það er bráðnað. Látið glassúr stífna aðeins í ísskáp, í ca. 5 mínútur. Smyrjið glassúr yfir kökuna og setjið í kæli, kakan er best borin fram daginn eftir. Berið fram með þeyttum rjóma (og hindberjasósu, ég er viss um að það sé súper gott!)

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu


þorskur

Þessi fiskréttur er einn sá besti sem við höfum bragðað, svo einfalt er það!  Bragðgóður fiskurinn með ljúffengu pistasíusalsanu, sætu kartöflumúsinni með mildu chili og límónubragði og svo sósunni sem er hnossgæti, gerð úr meðal annars smjöri og sojasósu, vá hvað þetta kom á óvart! Þetta var eins og að snæða fiskrétt á einhverjum frábærum veitingastað! Það hljómar núna eins og ég sé að mæra eldamennskuna hjá mér í bak og fyrir en það er uppskriftin sem er svona frábær, það getur hver sem er eldað þennan rétt! Enn og aftur undrast maður yfir því hvað hægt er að galdra fram dásamlega bragðgóða rétti með fremur fáum og einföldum hráefnum. Sósan var algjör snilld! Sem betur fer tvöfaldaði ég uppskriftina því sósan var hreinlega sleikt upp úr skálinni, sem og fiskurinn og kartöflumúsin. Næst ætla ég að prófa þessa sósu með laxi, það er örugglega líka meiriháttar gott. Með þessum rétti sauð ég nýtt og ferskt brokkolí. Ég sýð það afar stutt, það er ekki gott að borða mauksoðið brokkolí auk þess sem þá fara öll næringarefni úr því!

Sumum finnst erfitt að tímasetja matargerð og setja því kannski fyrir sig að það þarf að útbúa þrenns konar uppskriftir fyrir þennan rétt. En það er auðvelt. Best er að byrja á kartöflunum, afhýða þær, skera niður og byrja á að sjóða þær. Þegar þær eru komnar í pottinn er fiskurinn útbúinn og gerður tilbúinn fyrir ofninn. Eina sem er viðkvæmt fyrir biðinni er fiskurinn, maður vill bera hann á borð þegar hann er nýkominn úr ofninum. Þess vegna er best að setja hann í ofninn þegar kartöflurnar eru komnar vel á stað og jafnvel sósan líka. Kartöflumúsin er stöppuð, hrærð og bragðbætt í potti og þá þarf að skerpa á henni en það er hægt að gera hvenær sem er þannig að hún þolir vel að bíða.

Uppskrift f. 3

Sætkartöflumús
  • ca 5-600 gr sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita
  • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • ca 1 msk smjör
  • salt og pipar

Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.

Þorskur með pistasíusalsa:
  • ca  600 gr þorskhnakkar eða þorskflök
  • salt og pipar
  • 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar (má líka nota furuhnetur)
  • 3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • ca 1 dl fersk steinselja, söxuð
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað

Ofninn hitaður í 220 gráður. Þorskflökin skorin í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

 Sojasmjörsósa

  • 3 msk smjör
  • 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 2-3 msk sojasósa
  • 1 msk steinselja, söxuð smátt

Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!

14031Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með franska hvítvíninu Arthur Metz Pinot Gris. Lýsing: Roðagult. Meðalfylling, hálfþurrt, mild sýra. Hýði, reykur.

Döðlueftirréttur


DöðlueftirrétturHugsa sér að það sé þegar kominn september! Börnin eru komin á kaf í skólann, íþróttir, tónlistaskólann og allt sem því fylgir. Ég er að vinna að meistararitgerðinni minni sem er 30 einingar (jafngildir heilli önn) sem fjallar um rafbækur og rafbókavæðingu á Íslandi, ásamt því að vinna hlutastarf í rannsóknarverkefni á Landspítalanum. Auk þess er ég að reyna að vera dugleg að mæta í ræktina og skokka, það geri ég eingöngu til að geta borðað meiri mat! Eftir á að hyggja hefði verið snjallt af mér að reyna að tengja efni meistararitgerðar minnar þessum bloggskrifum. Ég hefði örugglega getað tengt bloggið við námið mitt á einhvern hátt þar sem að ég er í upplýsingafræði sem er afar vítt svið. Þá hefði ég allavega afsökun fyrir því að ritgerðaskrifin endi oft þannig að ég sé að skoða uppskriftir á netinu! 😉

En uppskrift dagsins er einkar ljúffengur eftirréttur sem er bæði fljótlegur og auðveldur. Þetta er líka efttirréttur sem hentar vel að bera fram fyrir marga. Ekki hræðast áfengið í réttinum. Ég er lítið fyrir eftirrétti með miklu líkjörsbragði og notaði því bara rúmlega eina matskeið af líkjörnum, það gaf afar milt og gott bragð. Ég átti ekki Bailey’s en notaði Grand Marnier í staðinn sem kom vel út.

Í upprunalegu uppskriftinni voru mælieiningarnar í bollum sem mér finnst alveg óþolandi! Ég meina, veit einhver hver þessi bolli er? Er það kaffibolli, tebolli, espressobolli…?? Og þá hvaða stærð? Ég er löngu hætt að nenna að engjast um yfir þessu vandamáli, sérstaklega eftir að ég braut uppáhaldsbollann minn við það að mæla hveiti eitt sinn (sem sannaði það að bollar eiga bara alls ekki heima í hveitidöllum!) Núna skoða ég alltaf töflur þar sem bollum er breytt yfir í grömm en það er auðvitað mjög misjafnt eftir hráefninu hversu mörg grömm eru í bolla. Þið þurfið því ekki að hárreyta ykkur yfir þessu vandamáli þar sem að ég gef mælieiningarnar upp í óvéfengjanlegum grömmum! 🙂

Uppskrift f. 4

  • 300 gr döðlur, skornar í litla bita
  • 100 gr. suðusúkkulaði, saxað
  • 2 græn epli, flysjuð og skorin í bita
  • Bailey’s líkjör

Saxið döðlur, súkkulaði og epli í meðalstóra bita og setjið í skál. Hellið Bailey’s líkjörnum yfir og látið standa í kæli í um það bil 1 klukkustund.

Karamellusósa:

  • 200 gr sykur
  • 50 gr smjör
  • 2 1/2 dl rjómi

Bræðið sykur og smjör saman á pönnu við fremur háan hita. Hellið rjómanum saman við og hrærið þar til að sósan þykknar.

Hellið karamellusósunni yfir ávextina. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.

Kjúklingapasta með pestó


Ég kaupi voða sjaldan orðið tilbúið pestó í krukkum, mér finnst heimatilbúið pestó svo mikið betra. En svo fékk ég líka eiginlega nóg af krukkupestói á tímabili, mér fannst það ofnotað hráefni, bæði af mér sjálfri og öðrum. Þessi réttur hefur því verið í ónáðinni hjá mér í nokkur ár. En á tímibili var þetta uppáhaldsréttur allra í fjölskyldunni og sá réttur sem hvað oftast var eldaður ef gesti bar að garði. Undanfarið hef ég hins vegar verið að hugsa um þennan rétt og í gærkvöldi hleypti ég honum inn úr kuldanum og lét verða af því að elda hann aftur eftir nokkra ára hlé! Þegar ilmurinn af matnum tók að berast um húsið kviknuðu minningar um Stokkhólm, þar sem við bjuggum þegar ég eldaði þennan rétt hvað oftast. Og þegar maturinn var snæddur rifjaðist upp fyrir mér af hverju þessi réttur var í svona miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta er ákaflega bragðgóður réttur, hann hugnast bæði börnum og fullorðnum og svo er hann einfaldur að matreiða. Ég nota yfirleitt tvenns konar pestó þó það sé bara gert ráð fyrir einni tegund í uppskriftinni. Að þessu sinni notaði ég pestó frá Jamie Oliver, ,,Italian herbs“ annars vegar og ,,chili & garlic“ hins vegar. Rétturinn varð sterkur fyrir vikið og okkur fullorðna fólkinu fannst það afar gott. En þetta var fullsterkt fyrir yngri krakkana þannig að næst ætla ég að nota grænt pestó og svo papriku- eða tómapestó eins og ég var vön að nota. En það er líka hægt að nota bara eina tegund af pestó eins og í raun er gert ráð fyrir í upprunalegu uppskriftinni.

Uppskrift:

Kjúklingur:

  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 3-4 msk. gott pestó (ég blanda yfirleitt grænu og svo papriku eða tómatpestó)
  • 2-4 hvítlausksrif
  • nokkrir stönglar ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað
  • 1 ½ msk hvítvíns eða sítrónuedik
  • 1 kjúklingatengingur leystur upp í 3 dl af vatni
  • 4 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið pestó í botninn á eldföstu móti. Saxið hvítlauk smátt og dreifið yfir pestóið. Skerið bringurnar í tvennt og leggið í mótið (Ég hef þær í heilu, finnst þær verða meira djúsí þannig en þá þarf líka að hafa þær aðeins lengur í ofninum en gefið er upp).

Blandið saman ediki og kjúklingasoði og hellið yfir kjúklinginn. Dreypið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Vökvinn á að ná u.þ.b. upp að miðjum bringum, þannig soðnar kjötið að neðan og bakast að ofan.

Bakið í 15 mínútur, takið út og hrærið í soðinu. Leggið svo álpappír eða lok yfir mótið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

Berið fram með pestópasta:

Uppskrift:

  • 250 gr. saxaðir sveppir
  • 1-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 msk. gott pestó
  • 6 msk ólífuolía
  • 500 gr. tagliatelle
  • parmesan ostur

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Steikið sveppi á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir fá góða steikingarhúð. Lækkið hitann á pönnunni, bætið hvítlauk og pestó út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur. Blandið pasta saman við pestósveppina. Gott er að strá ferskum rifnum parmesan osti yfir.

Borið fram með salati og/eða brauði.

Brownie ostakaka með kasjúhnetum og karamellukremi


Þessi kaka heitir á frummálinu ,,brownie-fudge“ ostakaka. Mér finnst vanta frekar mörg orð yfir hráefni og eldamennsku í íslensku. Til dæmis er ekkert íslenskt orð yfir brownies sem hefur náð fótfestu. Stundum er reyndar notað orðið „brúnkur“. ,,Fudge“ þýðir ljós karamella en mér finnst það alls ekki eins lýsandi orð eins og ,,fudge“. En það er allt að gerast í þessari köku þrátt fyrir skort á íslenskum lýsingarorðum! Brownie, saltar hnetur, ostakaka, karamellukrem … blanda sem getur ekki annað en kitlað bragðlaukana. Það er hægt að nota ósaltar kasjúhnetur eða pekanhnetur en best er að nota saltar. Ég hef reyndar ekki fundið saltar pekanhnetur enn, en það er hægt að kaupa kasjúhnetur saltar.

Ostakökublanda

  • 300 gr Philadelphia ostur
  • ¾ dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia osti, sykri og vanillusykri þar til blandan verður slétt. Geymið blönduna.

Brownie deig:

  • 2 egg
  • 100 gr smjör
  • 2 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 dl hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • 1 dl kasjúhnetur eða pekanhnetur, saxaðar gróft

Þeytið egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Setjið smjör og kakó í pott og hitið á vægum hita þar til smjörið er bráðnað og hefur blandast við kakóið, hellið svo smjörblöndunni út í eggjablönduna og hrærið. Sigtið hveiti og lyftiduft út í deigið, bætið við grófsöxuðum hnetunum og blandið varlega saman við.

Hitið bökunarofninn í 180 gráður. Smyrjið bökunarform með lausum botni (gott að nota lítið form, t.d. 20 eða 22 cm). Hellið helmingnum af kökudeiginu í formið og sléttið úr því. Hellið svo varlega ostablöndunni ofan á og sléttið úr henni út í alla kanta. Að lokum er restinni af kökudeginu hellt yfir og dreift vel yfir ostablönduna. Bakið neðarlega í ofninum  við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Karamellukrem

40 gr smjör
1 msk mjólk
1½ dl flórsykur
2 msk kakó
kasjú hnetur eða peacan hnetur til að skreyta með

Bræðið smjör og mjólk saman í potti. Bætið flórsykri og kakó út í. Hrærið og látið malla í 2-3 mínútur. Leyfið kreminu aðeins að kólna og notið síðan sleikju til að dreifa því jafnt yfir kökuna. Skreytið með grófsöxuðum hnetum. Látið kökuna standa í kæli þar til kremið hefur harðnað. Best er að leyfa kökunni að standa í kæli yfir nóttu. Berið fram með þeyttum rjóma.

Núðlur með kjúklingi og sveppum


 

Þessi réttur er einn af þeim sem er í uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, meira að segja hjá yngsta barninu sem er líklega á toppi ferils síns í matvendni (vonandi!)! Henni finnst fiskur vondur, allt dökkt kjöt, skyr, jógúrt, bananar, hún er lítið hrifin af brauði, borðar ekki smjör … þetta er svona það sem ég man í svipinn! Hins vegar er það fremur óvenjulegt að hún er hrifin af flestu grænmeti og toppurinn á tilverunni hjá henni er ekki að fara á nammibarinn heldur á salatbarinn í Hagkaup! 🙂 Reglan hér á heimilinu er að enginn er neyddur til að borða en það verður að smakka allan mat, þó ekki sé nema einn bita. Við reynum að eyða ekki mikilli orku í matvendnina, ég hef nefnilega séð þróunina á eldri börnunum. Frá því að þau vilji ekki borða þetta og hitt, að matnum megi ekki blanda saman og svo framvegis þar til að smekkurinn breytist smátt og smátt og þau borði allan mat. En þetta er allavega skotheldur réttur jafnt fyrir matvandna sem og aðra! Ekki skemmir fyrir að hann er mjög fljótlegur.

Uppskrift f. 3

  • 2 msk olía
  • 1 rauðlaukur
  • 2-3 cm bútur af engifer
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 2 kjúklingabringur
  • 250 gr sveppir
  • 2 msk sojasósa
  • 2 pakkar núðlur með nautakjötsbragði (,,instant“ núðlurnar)
  • kryddið úr núðlupökkunum
  • 2 hnefafyllir af spínati

Skerið rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming um sig síðan í þunnar sneiðar. Saxið engifer og hvítlauk mjög smátt. Skerið kjúklingabringurnar í mjög þunnar sneiðar þvert yfir. Skerið sveppina í sneiðar. Hitið pönnu vel og setjið 1 msk af olíu á hana. Steikið rauðlauk, engifer og hvítlauk í 1-2 mínútur við góðan hita en takið það svo af pönnunni með gataspaða og setjið á disk. Bætið 1 msk af olíu á pönnuna. Setjið svo kjúklingasneiðarnar á pönnuna og  steikið þar til þær hafa allar tekið lit og hrærið oft á meðan til að snúa þeim. Bætið sveppunum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur í viðbót. Setjið laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt sojasósunni, stráið kryddinu úr núðlupökkunum yfir, hellið smáskvettu af vatni á pönnuna og látið sjóða við meðalhita í 2-3 mínútur. Á meðan, setjið núðlurnar í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í um 3 mínútur. Hellið þá núðlunum í sigti og látið renna vel af þeim. Setjið spínatið á pönnuna, hrærið og látið standa í mínútu. Hvolfið núðlunum í skál, hellið öllu af pönnunni yfir og blandið vel.

Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

  • 2 dl sykur
  • 2 dl púðursykur
  • 2 egg
  • 170 gr smjör, brætt
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 3 tsk. vanillusykur
  • 1 dl. kakó, sigtað
  • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

  • 150 gr smjör, mjúkt
  • 200 gr flórsykur
  • 4,5 msk kakó
  • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

  • 1 stór dós kotasæla
  • 8 tómatar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1/2 lime
  • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
  • 1 rautt chili, saxað smátt
  • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

  • 2 rauð chili
  • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 100 gr fetaostur
  • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
  • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
  • 8 hveititortillur
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂