Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

  • 1 msk smjör til steikingar
  • 1 lítill laukur, saxaður fínt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
  • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
  • 3 tsk karrí
  • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 900 gr kjúklingabringur
  • hvítur pipar
  • salt
  • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.

Kjúklingabaka


Um daginn þegar við héldum fjölskylduafmæli fyrir hana Jóhönnu okkar á þá gerði ég þessa böku fyrir veisluna. Mér finnst hún voða góð og bakan er líka skemmtileg tilbreyting frá þessum hefðbundnu heitu brauðréttum. Það er ekkert flóknara að gera bökuna en að gera heitan brauðrétt. Ég notaði kjúklingabringur en það er líka hægt að kaupa tilbúinn heilan kjúkling og rífa hann niður. Smjördeigið sem ég nota er frá Findus, það er frosið en þiðnar fljótt. Degið er í fimm plötum, þeim er raðað þannig að brúnirnar leggjast örlítið ofan á hvor aðra og síðan flatt út með kökukefli. Það er ekkert mál að fletja smjördeigið út en það verður að hafa dálítið hveiti, bæði undir og ofan á deiginu, annars klessist það. Þessa böku er sniðugt að bera fram í veislum en það er líka hægt að nota hana sem aðalrétt og bera þá fram með henni gott salat.

Uppskrift:

  • 500 g smjördeig
  • 300 g sveppir
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 stk. rauð paprika
  • 300 g kjúklingur, steiktur
  • 200 g goudaostur
  • 50 g fetaostur í kryddlegi
  • 1 dós sýrður rjómi

Hitið ofn í 200 gráður. Fletjið smjördeigið út og setjið í eldfast form. Sneiðið sveppina niður og steikið þá upp úr smjöri á pönnu. Kryddið með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Skerið paprikuna niður í teninga, bætið henni út á pönnuna og hitið með í restina. Rífið steiktan kjúkling niður og blandið honum saman við ásamt goudaosti og fetaosti. Kælið áður en sýrða rjómanum er hrært saman við. Hellið blöndunni yfir smjördeigið í forminu, bakið við 200°C í um 25 mín, eða þar til brúnirnar á smjördeiginu hafa tekið góðan lit.

Kjúklingapasta með pestó


Ég kaupi voða sjaldan orðið tilbúið pestó í krukkum, mér finnst heimatilbúið pestó svo mikið betra. En svo fékk ég líka eiginlega nóg af krukkupestói á tímabili, mér fannst það ofnotað hráefni, bæði af mér sjálfri og öðrum. Þessi réttur hefur því verið í ónáðinni hjá mér í nokkur ár. En á tímibili var þetta uppáhaldsréttur allra í fjölskyldunni og sá réttur sem hvað oftast var eldaður ef gesti bar að garði. Undanfarið hef ég hins vegar verið að hugsa um þennan rétt og í gærkvöldi hleypti ég honum inn úr kuldanum og lét verða af því að elda hann aftur eftir nokkra ára hlé! Þegar ilmurinn af matnum tók að berast um húsið kviknuðu minningar um Stokkhólm, þar sem við bjuggum þegar ég eldaði þennan rétt hvað oftast. Og þegar maturinn var snæddur rifjaðist upp fyrir mér af hverju þessi réttur var í svona miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta er ákaflega bragðgóður réttur, hann hugnast bæði börnum og fullorðnum og svo er hann einfaldur að matreiða. Ég nota yfirleitt tvenns konar pestó þó það sé bara gert ráð fyrir einni tegund í uppskriftinni. Að þessu sinni notaði ég pestó frá Jamie Oliver, ,,Italian herbs“ annars vegar og ,,chili & garlic“ hins vegar. Rétturinn varð sterkur fyrir vikið og okkur fullorðna fólkinu fannst það afar gott. En þetta var fullsterkt fyrir yngri krakkana þannig að næst ætla ég að nota grænt pestó og svo papriku- eða tómapestó eins og ég var vön að nota. En það er líka hægt að nota bara eina tegund af pestó eins og í raun er gert ráð fyrir í upprunalegu uppskriftinni.

Uppskrift:

Kjúklingur:

  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 3-4 msk. gott pestó (ég blanda yfirleitt grænu og svo papriku eða tómatpestó)
  • 2-4 hvítlausksrif
  • nokkrir stönglar ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað
  • 1 ½ msk hvítvíns eða sítrónuedik
  • 1 kjúklingatengingur leystur upp í 3 dl af vatni
  • 4 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið pestó í botninn á eldföstu móti. Saxið hvítlauk smátt og dreifið yfir pestóið. Skerið bringurnar í tvennt og leggið í mótið (Ég hef þær í heilu, finnst þær verða meira djúsí þannig en þá þarf líka að hafa þær aðeins lengur í ofninum en gefið er upp).

Blandið saman ediki og kjúklingasoði og hellið yfir kjúklinginn. Dreypið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Vökvinn á að ná u.þ.b. upp að miðjum bringum, þannig soðnar kjötið að neðan og bakast að ofan.

Bakið í 15 mínútur, takið út og hrærið í soðinu. Leggið svo álpappír eða lok yfir mótið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

Berið fram með pestópasta:

Uppskrift:

  • 250 gr. saxaðir sveppir
  • 1-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 msk. gott pestó
  • 6 msk ólífuolía
  • 500 gr. tagliatelle
  • parmesan ostur

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Steikið sveppi á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir fá góða steikingarhúð. Lækkið hitann á pönnunni, bætið hvítlauk og pestó út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur. Blandið pasta saman við pestósveppina. Gott er að strá ferskum rifnum parmesan osti yfir.

Borið fram með salati og/eða brauði.

Núðlur með kjúklingi og sveppum


 

Þessi réttur er einn af þeim sem er í uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, meira að segja hjá yngsta barninu sem er líklega á toppi ferils síns í matvendni (vonandi!)! Henni finnst fiskur vondur, allt dökkt kjöt, skyr, jógúrt, bananar, hún er lítið hrifin af brauði, borðar ekki smjör … þetta er svona það sem ég man í svipinn! Hins vegar er það fremur óvenjulegt að hún er hrifin af flestu grænmeti og toppurinn á tilverunni hjá henni er ekki að fara á nammibarinn heldur á salatbarinn í Hagkaup! 🙂 Reglan hér á heimilinu er að enginn er neyddur til að borða en það verður að smakka allan mat, þó ekki sé nema einn bita. Við reynum að eyða ekki mikilli orku í matvendnina, ég hef nefnilega séð þróunina á eldri börnunum. Frá því að þau vilji ekki borða þetta og hitt, að matnum megi ekki blanda saman og svo framvegis þar til að smekkurinn breytist smátt og smátt og þau borði allan mat. En þetta er allavega skotheldur réttur jafnt fyrir matvandna sem og aðra! Ekki skemmir fyrir að hann er mjög fljótlegur.

Uppskrift f. 3

  • 2 msk olía
  • 1 rauðlaukur
  • 2-3 cm bútur af engifer
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 2 kjúklingabringur
  • 250 gr sveppir
  • 2 msk sojasósa
  • 2 pakkar núðlur með nautakjötsbragði (,,instant“ núðlurnar)
  • kryddið úr núðlupökkunum
  • 2 hnefafyllir af spínati

Skerið rauðlaukinn í tvennt og hvorn helming um sig síðan í þunnar sneiðar. Saxið engifer og hvítlauk mjög smátt. Skerið kjúklingabringurnar í mjög þunnar sneiðar þvert yfir. Skerið sveppina í sneiðar. Hitið pönnu vel og setjið 1 msk af olíu á hana. Steikið rauðlauk, engifer og hvítlauk í 1-2 mínútur við góðan hita en takið það svo af pönnunni með gataspaða og setjið á disk. Bætið 1 msk af olíu á pönnuna. Setjið svo kjúklingasneiðarnar á pönnuna og  steikið þar til þær hafa allar tekið lit og hrærið oft á meðan til að snúa þeim. Bætið sveppunum á pönnuna og steikið í 1-2 mínútur í viðbót. Setjið laukblönduna aftur á pönnuna, ásamt sojasósunni, stráið kryddinu úr núðlupökkunum yfir, hellið smáskvettu af vatni á pönnuna og látið sjóða við meðalhita í 2-3 mínútur. Á meðan, setjið núðlurnar í skál, hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í um 3 mínútur. Hellið þá núðlunum í sigti og látið renna vel af þeim. Setjið spínatið á pönnuna, hrærið og látið standa í mínútu. Hvolfið núðlunum í skál, hellið öllu af pönnunni yfir og blandið vel.

Núðlusúpa með kjúklingi


Þessi núðlusúpa er ekki bara dásamlega góð heldur er hún líka afar fljótgerð sem er alltaf kostur í hversdagsamstrinu. Ef maður er búinn að skera allt hráefnið áður þá er hægt að elda þessa súpu á innan við 10 mínútum!  Súpan er afar bragðgóð, ekki of sterk og fór því vel ofan í alla meðlimi fjölskyldunnar. Reyndar eru Ósk og Alexander ekki enn komin að utan. Mér varð einmitt hugsað til þeirra í gærkvöldi, þetta er réttur sem hefði fallið þeim mjög vel í geð! Ég þarf að elda þessa súpu fyrir þau þegar þau eru komin heim en nú eru bara örfáir dagar í heimkomu þeirra beggja. Ég er ekki enn komin í þann gír að elda bara fyrir okkur fjögur og elda alltaf of mikinn mat, ég gerði t.d. þessa uppskrift tvöfalda sem var auðvitað of mikið. Hins vegar finnst mér voða gott að eiga afganga, þeir fara aldrei til spillis hér á heimilinu! Nú getum við hjónin hlakkað til að fá okkur þessa súpu í hádeginu í dag!

Uppskrift f. 3-4

  • 500 gr kjúklingabringur, skornar í strimla
  • 150 – 200 gr eggjanúðlur (bæði hægt að nota svona flatar eggjanúðlur eins og á myndinni en líka þessar hefðbundu, ég nota oftast ,,medium egg noodles“ frá Blue Dragon)
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 2 vorlaukar, skornir í þunnar skífur
  • 1 hvítlauksrif, fínsaxað
  • 1/2 – 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1 tsk ferskt engifer, rifið fínt
  • 1,2 lítrar vatn
  • 1 dl soyasósa
  • 6 msk sæt chilisósa
  • 1 msk sesamolía
  • 1/2 límóna (lime)
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • salt og pipar
  • sesamfræ, ristuð á þurri steikarpönnu

Skerið kjúkling og grænmeti eins og segir til í uppskriftinni. Snöggsteikið kjúklinginn í smjöri eða olíu þar til að hann tekur dálítinn lit. Kjúklingurinn á ekki að vera steiktur alveg í gegn.

Hellið vatninu og soyasósunni í stóran pott og látið suðuna koma upp. Setjið eggjanúðlur (ósoðnar), grænmeti, engifer og chili út í og látið sjóða í 2 mínútur. Bætið þá kjúklingnum út í ásamt chilisósu, sesamolíu, safanum úr límónunni, salti og pipar.  Látið súpuna malla í 3-4 mínútur í viðbót eða þar til núðlurnar eru tilbúnar. Stráið yfir ristuðum sesamfræum og söxuðu kóríander og berið fram strax.

Kjúklingavefjur með beikoni, mangósalsa og avókadósósu


Ég átti afgang af hráefninu frá því að ég bjó til guacamole auk þess að eiga þroskað mangó. Þar sem að mér finnst þetta afar ljúffeng hráefni, mangó og avókadó, langaði mig að gera eitthvað dásamlega gott í kvöldmatinn úr því. Ég leitaði að uppskriftum en fann ekkert spennandi nema auðvitað mangó/avókadó salsa eins og ég bjó til um daginn en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Að lokum ákvað ég að spinna bara eitthvað gott úr þessu ásamt því að grilla kjúkling. Úr þeirri tilraun spruttu þessar ljúffengu kjúklingavefjur.

Uppskrift:

Mangósalsa:

  • 1 mangó, skorið í bita
  • 1-2 rauð chili-aldin, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr 1/2 lime

Öllu blandað saman í skál.

Avókadósósa:

  • 1 stórt avókadó eða 2 lítil
  • 3 dl. grísk jógúrt
  • 1-2 hvítlauksrif
  • safi úr 1/2 lime

Öllu maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Geymt í ísskáp í minnst 15 mínútur.

Annað hráefni í vefjurnar:

  • tómatar, skornir smátt
  • salatblöð
  • klettasalat
  • rauðlaukur, saxaður (má sleppa)
  • steikt beikon
  • grillaðar kjúklingabringur, kryddaðar með Kjúklingakryddi frá Pottagöldrum.
  • tortillas pönnukökur

Avókadósósan og mangósalsa er undirbúið á meðan kjúklingurinn er grillaður. Auk þess sem beikonið er steikt á pönnu þar til það verður stökkt, lagt á eldhúspappír og umfram fita látin renna af því. Tómatar eru skornir smátt, salat rifið niður og tortilla pönnukökurnar hitaðar á pönnu. Þegar kjúklingabringurnar eru hér um bil alveg grillaðar í gegn eru þær settar á disk og vafðar þétt inn í álpappír með hröðum handtökum. Þá haldast þær áfram að eldast hægt í eigin hita (sem kemur í veg fyrir að þær verði ofgrillaðar og þurrar) og verða safaríkar og lungnamjúkar. Þegar bringurnar hafa fengið að jafna sig eru þær sneiddar niður.

Inn í tortillas pönnukökuna er svo settur kjúklingur, mangósalsa, avókadósósa, beikon og grænmeti, það er gott að setja mikið af avókadósósunni og mangósalsanu! Það var afgangur þannig að ég útbjó vefjur og geymdi í álpappír í ísskáp. Ég held svei mér þá að þær hafi verið jafnvel enn betri kaldar daginn eftir, allavega jafn góðar!

Kjúklingur í sweet chili sósu


Það er gott að vera komin heim og í rútínu. Eða reyna að komast í rútínu allavega, ég er greinilega ekki alveg komin í gírinn! Mig langaði að elda kjúklingarétt með sweet chilisósu í kvöldmat í gærkvöldi og skoðaði ótal slíkar uppskriftir. Ég fann nokkrar sem mér leist vel á og ákvað að slá saman því besta úr þremur uppskriftum og búa til mína eigin. Ég skrifaði samviskusamlega innkaupalista en kom svo heim með bara hluta af því sem ég ætlaði að kaupa, heilinn enn í sumarfríi! Það átti því sér stað enn meiri spuni í eldhúsinu í gærkvöldi en áætlað var frá upphafi. Hins vegar lukkaðist þetta bara ljómandi vel og úr varð hinn ágætis kjúklingaréttur! Ég stefni hins vegar á að vera skipulagðari í matseðlagerð fyrir vikuna og í innkaupum. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð skipulagði ég alltaf vikumatseðil og verslaði inn fyrir vikuna. Hér á Íslandi er ég óduglegri við það. Ég held að það sé aðallega útaf tvennu, fjölskyldan er orðin svo stór (og það er seint hægt að segja að við séum matgrönn!) að vikuinnkaup kæmust aldrei fyrir í ísskápnum! Að auki þá kaupi ég allt öðruvísi inn hér en úti. Hér fer ég í fiskbúð einu sinni eða tvisvar í viku, kaupi kjöt í kjötbúðum og svo þarf ég oft að fara í margar verslanir til að fá þær vörur sem mig vantar. En ég reyni þó oftast að kaupa inn fyrir tvær eða þrjár kvöldmáltíðir í einu. Fyrstu sjö árin okkar í Svíþjóð vorum við blönk og áttum ekki bíl. Þá þurftu matarinnkaupin að komast í fjóra poka (svo allt kæmist undir barnavagninn), maturinn duga í viku og ekki kosta meira en 500 sek! 🙂 Það var mjög góður skóli í sparnaði og útsjónarsemi! Ég ætla sem sagt að hrista rykið af þeirri lexíu og markmiðið fyrir veturinn verður að skipuleggja matarinnkaupin betur!

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur eða einn teningur
  • 1 rauðlaukur, skorin smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • engifer, rifið, ca. 5 cm bútur
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 kúrbítur, skorinn í bita
  • 3-4 gulrætur, sneiddar
  • 2 dl sweet chilisósa
  • 1 tsk chilimauk
  • 1 ferna matargerðarjómi
  • 1 dós sýrður rjómi

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu, bætið við kjúklingakrafti, salti og pipar. Bætið lauk og hvítlauk út í ásamt papriku, kúrbít og gulrótum, chilimauki og engifer og steikið áfram. Þegar kjúklingur og grænmetið hefur tekið lit er hvor tveggja fært yfir í stóran pott (nema notuð sé þess stærri panna). Þá er matargerðarjóma, sýrðum rjóma og chilisósu bætt út í. Leyfið réttinum að malla í 15 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús.

Kjúklingapottréttur með mango chutney


Nú fer sumarfríið að líða undir lok, mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt! Við höfum gert afar margt skemmtilegt í sumarfríinu. Meðal annars eyddum við einni viku á Patreksfirði með stórfjölskyldunni, foreldrum mínum, ömmu og afa, bróður mínum og fjölskyldu hans ásamt Ingu frænku. Þar fengum við afnot af stóru, frábæru húsi og áttum afar góða viku saman. Fórum að Látrabjargi, Rauðasandi, í Selárdal og heimsóttum firðina í kringum Patró. Ég fékk það verkefni að elda á kvöldin ofan í okkur tólf sem mér fannst mjög skemmtilegt! Frábært að geta einbeitt sér að því að elda og þurfa aldrei að vaska upp né ganga frá! 🙂 Ég var löngu áður búin að setja niður matseðilinn og verslaði sem betur fer allt hráefnið í bænum en matvöruverðið á Patró var hræðilega hátt! Að auki var hvorki hægt að fá þar ferskan fisk né lambakjöt. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar ekki er hægt að kaupa ferskan fisk í útgerðabæjum! Á matseðlinum þessa viku var lasagna, lambalæri, fiskisúpa, lambafille, grillaður lax, hamborgarar og svo þessi kjúklingapottréttur. Ég hafði aldrei gert hann áður en rétturinn sló í gegn hjá öllum aldurshópum, mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. 4-5

  • 800 gr. kjúklingabringur kryddaðar með t.d. Best á allt, Töfrakryddi eða öðru góðu kjúklingakryddi (líka hægt að nota tilbúinn grillaðan kjúkling).
  • olía og smjör til steikingar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, skorin í bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð smátt
  • 2 græn epli, skræld og skorin í bita
  • lítil dós ananas, skorin í bita
  • 250 gr sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1.5 dl mangó chutney
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk sambal oelek (eða annað chilimauk)
  • 2-3 tsk karrý
  • 1/2 tsk chilipipar
  • 1 tsk  paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 4-5 dl hrísgrjón
  • rifinn ostur
  • kokteiltómatar

Aðferð

Hrísgrjónin soðin og þau látin kólna aðeins. Kjúklingabringur skornar í bita, steikar á pönnu og kryddaðar með kjúklingakryddi, lagðar til hliðar. Ef notaður er tilbúinn grillaður kjúklingur er kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í bita.

Smjör brætt í stórum potti, lauk, hvítlauk, púrrlauk, sveppum, eplum og papriku bætt út í ásamt karrý og steikt þar til grænmetið hefur mýkst.

Rjóma, sýrðum rjóma, kókosmjólk, sambal oelek, tómatpúrru, mangó chutney, ananas, paprikukryddi, chilipipar, paprikukryddi, salti og pipar bætt út í og látið krauma á vægum hita í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum út í og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Smakkið til og bætið við kryddi ef með þarf. Hellið hrísgrjónum í eldfast mót og dreifið úr þeim, hellið kjúklingasósunni yfir. Dreifið yfir rifnum osti og kokteiltómötum. Hitið í ofni við 200 gráður í ca 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Berið fram með salati og góðu brauði.

Mexíkósk tortilluterta


Þessi uppskrift kemur frá sænsku matarbloggi en ég hef aðeins breytt henni. Krakkarnir eru afar hrifnir af þessum rétti og rukka mig reglulega um hann. Vinkona Jóhönnu heyrði að það yrði tortilluterta í matinn hjá okkur og fannst það hljóma voða vel að það yrði terta í kvöldmatinn hjá okkur! 🙂 Ég nota extra stórar tortillukökur en þær fást hjá Tyrkneskum bazar Síðumúla og líka í Kosti. En það er hægt að nota allar stærðir af tortillum í þessa uppskrift, þegar ég er með minnstu gerðina geri ég tvær tertur en ef ég er með millistærð geri ég eina tertu en þá verður hún bara hærri. Ég ber fram með tortillutertunni ferskt salat, en ég er orðin sjálfbær núna í salatinu, allt þetta græna á myndinni kemur úr garðinum! Venjulega hef ég líka með þessu sýrðan rjóma, ferskt guacamole og salsa. En á meðan ég eldaði þessa stóru tertu týndist út úr húsi hver fjölskyldumeðlimurinn á fætur öðrum, alltaf svo magt skemmtilegt að gera hjá öllum í góða veðrinu! Á endanum sat ég því ein eftir þegar tertan var tilbúin og ég lét mér því bara nægja salatið að sinni sem meðlæti.

Uppskrift f. 4:

  • 5-6 st meðalstórar tortillakökur
  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 1/2-1 bréf burrito kjúklingakrydd
  • 1 gulur laukur
  • 1 púrrlaukur
  • 250 gr. sveppir
  • 1 rauð paprika
  • smjör til steikingar
  • 1 krukka Thick´n Chunky Salsa
  • 200 rjómaostur
  • svartar ólífur, saxaðar
  • rifinn ostur
  • salt og pipar

Stillið ofninn á 225 gráður. Skerið kjúklingabringurnar í litla teninga, saxið laukinn, skerið púrrlaukinn í strimla, sneiðið sveppina og skerið paprikuna í bita. Steikið kjúklinginn í smjörinu og kryddið með burrito kryddinu, bætið sveppum, papriku, lauk og púrrlauk við og steikið í nokkrar mínútur. Bætið út í salsaósunni og rjómaosti og látið malla þar til að rjómaosturinn hefur bráðnað. Smakkið til með salti og pipar.

Setjið smjörpappír á ofnplötu og eina tortillaköku á plötuna. Breiðið kjúklingasósu yfir kökuna, þá rifnum osti, leggið yfir aðra tortilluköku yfir og þannig koll af kolli. Endið á kjúklingasósu, stráið ólífum yfir og að lokum rifnum osti.  Hitið í ofninum í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og gullinbrúnn.

Berið fram með salati, sýrðum rjóma, fersku guacamole og salsasósu.

Gómsætt kjúklingasalat


Þetta kjúklingasalat hefur slegið í gegn hjá fjölskyldunni. Það er óvenjulegt að því leyti að þegar dressingin er undirbúin leggst fnykur yfir heimilið í stað ljúffengs ilms en það er þegar balsamedik og sykur er soðið niður í síróp. Ekki er nóg með það heldur er dressingin brún og býsna ógirnileg í útliti – en dæmið ekki af lyktinni og útlitinu! Þegar dressingunni er blandað við salatið verður það nefnilega afar gómsætt. Í upphaflegu uppskriftinni er meira af majónesi en ég hef minnkað magnið, hver þarf á auka majónesi að halda?! 🙂 Ég hef líka bætt við nokkrum af uppáhalds hráefnum mínum í uppskriftina, mangó, avókadó og mozzarella. Reyndar er auðveldara að vinna í lottói en að fá samtímis mangó og avókadó sem er hvor tveggja fullkomlega þroskað! Það er hins vegar til mjög gott ráð til að hraða þroska þeirra. Setjið bæði mangó og avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða þroskuðum banönum og geymið á hlýjum stað. Epli og bananar gefa frá sér etýlen gas sem hraðar mjög fyrir þroska bæði avókadó og mangó

Uppskrift f. 5

  • 5 kjúklingabringur vel kryddaðar með ,,Best á allt“ frá Pottagöldrum eða með öðru góðu kjúklingakryddi).
  • 1 stórt beikonbréf (ca. 200 g)
  • ¼-1/2 rauðlaukur
  • 1 fetaostskrukka – olían ekki notuð (krukkan er 325 g með olíu)
  • 1 mangó
  • 1 avokado
  • 1 askja kirsuberjatómatar (ca. 250 g)
  • 1 kúla mozzarella ostur (125 g)
  • blandað salat (salat, spínat, ruccola), nota mikið af því!
  • karamelliseraðar pekanhnetur eftir smekk (má sleppa)

Dressing

  • 100 ml majónes
  • 200 ml sýrður rjómi
  • 75 ml balsamik edik
  • 40 ml sykur

Aðferð:

  • Kryddið kjúklingabringur vel með ,,Best á allt” og grillið eða hitið í ofni, skerið í bita.
  • Steikið beikonið þar til það er stökkt, kælið og myljið í bita.
  • Skerið laukinn smátt
  • Skerið mangó, kokteiltómata, mozzarella og avókadó í bita
  • Blandið öllu saman við salat og fetaost

Dressing:

  • Blandið saman sýrðum rjóma og majónesi, saltið og piprið
  • Setjið edikið og sykurinn í lítinn pott og látið sjóða þar til þykknar örlítið, í ca. 3 mínútur. Kælið (þegar blandan kólnar þykknar hún, látið hana bíða passlega lengi þannig hún verði ekki alltof þykk) og blandið síðan smátt og smátt saman við sýrða rjómann/majónesið.

Blandið dressingunni saman við salatið og dreifið yfir karamelliseruðum pecanhnetum. Berið fram með góðu brauði.

Ég myndi ekki sleppa karamelliseruðu pekanhnetunum, þær eru sjúklega góðar og það auðvelt að útbúa þær:

  • 1/2 dl. púðursykur
  • 1 tsk síróp
  • 1 tsk smjör
  • 1 1/2 dl pekanhnetur

Setjið púðursykur, síróp og smjör á pönnu og stillið á fremur háan hita þar til það koma loftbólur í karamelluna. Setjið þá hneturnar út í og hrærið vel þar til þær eru þaktar karamellu, haldið hitanum háum án þess þó að hneturnar brenni og hrærið stöðugt í til að halda hnetunum aðskildum. Haldið áfram að hræra í 5-7 mínútur þar til hneturnar eru orðnar gullinbrúnar og ristaðar. Setjið hneturnar á bökunarpappír (ég tók eina í einu með eldhústöng) og kælið.