Kjúklingapottréttur með mango chutney


Nú fer sumarfríið að líða undir lok, mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt! Við höfum gert afar margt skemmtilegt í sumarfríinu. Meðal annars eyddum við einni viku á Patreksfirði með stórfjölskyldunni, foreldrum mínum, ömmu og afa, bróður mínum og fjölskyldu hans ásamt Ingu frænku. Þar fengum við afnot af stóru, frábæru húsi og áttum afar góða viku saman. Fórum að Látrabjargi, Rauðasandi, í Selárdal og heimsóttum firðina í kringum Patró. Ég fékk það verkefni að elda á kvöldin ofan í okkur tólf sem mér fannst mjög skemmtilegt! Frábært að geta einbeitt sér að því að elda og þurfa aldrei að vaska upp né ganga frá! 🙂 Ég var löngu áður búin að setja niður matseðilinn og verslaði sem betur fer allt hráefnið í bænum en matvöruverðið á Patró var hræðilega hátt! Að auki var hvorki hægt að fá þar ferskan fisk né lambakjöt. Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar ekki er hægt að kaupa ferskan fisk í útgerðabæjum! Á matseðlinum þessa viku var lasagna, lambalæri, fiskisúpa, lambafille, grillaður lax, hamborgarar og svo þessi kjúklingapottréttur. Ég hafði aldrei gert hann áður en rétturinn sló í gegn hjá öllum aldurshópum, mæli virkilega með honum!

Uppskrift f. 4-5

  • 800 gr. kjúklingabringur kryddaðar með t.d. Best á allt, Töfrakryddi eða öðru góðu kjúklingakryddi (líka hægt að nota tilbúinn grillaðan kjúkling).
  • olía og smjör til steikingar
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, skorin í sneiðar
  • 1 laukur, skorin í bita
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð smátt
  • 2 græn epli, skræld og skorin í bita
  • lítil dós ananas, skorin í bita
  • 250 gr sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1.5 dl mangó chutney
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk sambal oelek (eða annað chilimauk)
  • 2-3 tsk karrý
  • 1/2 tsk chilipipar
  • 1 tsk  paprikukrydd
  • salt og pipar
  • 4-5 dl hrísgrjón
  • rifinn ostur
  • kokteiltómatar

Aðferð

Hrísgrjónin soðin og þau látin kólna aðeins. Kjúklingabringur skornar í bita, steikar á pönnu og kryddaðar með kjúklingakryddi, lagðar til hliðar. Ef notaður er tilbúinn grillaður kjúklingur er kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í bita.

Smjör brætt í stórum potti, lauk, hvítlauk, púrrlauk, sveppum, eplum og papriku bætt út í ásamt karrý og steikt þar til grænmetið hefur mýkst.

Rjóma, sýrðum rjóma, kókosmjólk, sambal oelek, tómatpúrru, mangó chutney, ananas, paprikukryddi, chilipipar, paprikukryddi, salti og pipar bætt út í og látið krauma á vægum hita í nokkrar mínútur. Bætið kjúklingnum út í og látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Smakkið til og bætið við kryddi ef með þarf. Hellið hrísgrjónum í eldfast mót og dreifið úr þeim, hellið kjúklingasósunni yfir. Dreifið yfir rifnum osti og kokteiltómötum. Hitið í ofni við 200 gráður í ca 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Berið fram með salati og góðu brauði.

Heimsins bestu Brownies


Ég hef áður minnst á muscovado sykur og hvað hann sé góður í tertur og kökur. Muscovado sykur er hrásykur, unninn úr sykurreyr en ekki hreinsaður. Þó að hann sé ekki beint hollur þá inniheldur hann b-vítamín og ýmis önnur næringarefni sem eru ekki í hreinsuðum sykri. Það er ákveðið lakkrís/karmellubragð af honum og hann hentar því afar vel í ýmsar kökur, sælgæti, karamellusósur auk heitra drykkja. Þegar muscovado sykur er notaður í kökur verða þær bragðmeiri og rakari en ef að notaður er venjulegur sykur eða púðursykur þar sem að muscovado heldur svo vel í sér raka. Þess vegna hentar hann vel í brownies því þær eiga að vera svolítið rakar og næstum klesstar. Mér finnst þessar brownies feykigóðar og einfaldar að baka. Þegar ég er með matarboð skelli ég oft í eina uppskrift á meðan ég elda matinn og býð upp á nýbakaðar og gómsætar brownies í eftirrétt!

Uppskrift:

200 gr. suðusúkkulaði
225 gr. smjör
3 egg
225 Muscovado sykur (dökkur)
80 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 gr. grófhakkaðir valhnetukjarnar, líka hægt að nota pekanhnetur.
200 gr. mjólkursúkkulaði, grófbrytjað

Hitið ofnin í 180 gráður og smyrjið ferkantað form (ca. 20×30 cm). Brjótið suðusúkkulaðið í bita og setjið í pott ásamt smjörinu, bræðið við mjög vægan hita. Takið pottinn af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan slétt. Þeytið saman egg og Muscovado sykur þar til létt og ljóst. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, valhnetum og mjólkursúkkulaði varlega saman við. Hellið í formið og bakið neðarlega í ofni í 30-40 mín, eða þar til skorpa hefur myndast ofan á en kakan er enn mjúk. Leyfið kökunni að kólna dálítið í forminu áður en hún er skorin í bita. Berið bitana fram volga með vanilluís eða þeyttum rjóma, berjum og jafnvel heitri karamellusósu!

Karmellusósa:

120 g smjör
115 g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi

Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í 3-5 mínútur. Hærið stöðugt í á meðan.
Berið sósuna fram heita með kökunni

Pepperóni pasta


Ein af ástæðunum fyrir því að ég opnaði þetta matarblogg var sú að ég vildi safna uppskriftunum mínum á einn aðgengilegan stað. Alexander ætlar að flytja að heiman á næsta ári og hann hefur oft talað um að þá þurfi hann að fá uppskriftir af hinum og þessum réttum sem ég geri. Núna þarf hann ekkert nema nettengingu til þess að ná í þessar uppskriftir! 🙂 Þessi uppskrift er sérstaklega sett inn fyrir hann en þessi réttur hefur verið hans uppáhalds síðan hann var lítill. Öllum hinum í fjölskyldunni finnst þessi pastaréttur afar góður líka og yngri börnin borða alltaf vel af þessum rétti.

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr pasta, soðið eftir leiðbeiningum
  • 1 ½ áleggsbréf af pepperóní
  • 250 gr sveppir
  • 2 dósir niðursoðnir hakkaðir tómatar, gott að nota þessa bragðbættu, t.d. með basiliku.
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 msk tómatsósa
  • 1 peli rjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk basilika
  • 1 tsk kjötkraftur
  • salt og pipar
  • ólifuolía til steikingar

Aðferð:

Sveppir sneiddir frekar gróft og steiktir á pönnu ásamt kjötkrafti. Pepperóni skorið í bita og bætt út í. Niðursoðnum tómötum ásamt tómatpúrru og tómatsósu bætt við og kryddað með oregano, basiliku, salti og pipar. Að lokum er rjóma og mjólk bætt við. Sósunni leyft að malla í dálitla stund, því lengur sem hún fær að malla því betri verður hún en fyrir þá sem eru í tímaþröng þá duga 10 mínútur, á meðan er pasta soðið. Ef sósan verður of þykk þá er hægt að þynna hana með meiri mjólk. Sósan er svo smökkuð til og krydduð meira við þörfum, því næst blandað saman við pastað. Borið fram með salati og góðu brauði.

Ís með heimatilbúnu frönsku núggati og súkkulaðisoðnum perum


Ég stenst fáar freistingar þegar kemur að eftirréttum en eitt af því fáa sem ég stenst auðveldlega er ís. Þess vegna var ég alveg hissa hvað ég kolféll fyrir þessum heimatilbúna ís. En það er franska núggatið í ísnum sem gerir útslagið, það er alveg svakalega gott! Það er ekkert flókið að búa það til. Mér finnst best að nota grófsaxaðar, afhýddar möndlur. Eftir að þær hafa verið karamelluseraðar og látnar kólna er gott að saxa þær niður enn frekar en þær límast líka svolítið saman við kælinguna. Eins finnst mér flest sem inniheldur perur eða epli gott og ekki verður það verra súkkulaðisoðið! Ég mundi það of seint að það átti að súkkulaðisjóða perurnar heilar og skera þær eftir suðu en ég gerði það einmitt í fyrra þegar ég prófaði þennan rétt í fyrsta sinn. Núna skar ég þær í báta fyrir suðu en ég mæli með hinu fyrrnefnda, perurnar halda meira perubragði og eru í betra jafnvægi við súkkulaðið ef þær eru soðnar heilar. Það er líka gott að hafa bara heitu súkkulaðisósuna ef manni finnst of mikið umstang að hafa perurnar líka.

Uppskrift f. 6

Núggat:

  • 80 gr afhýddar möndlur, saxaðar gróft
  • 90 gr sykur

Hitið afhýddar möndlur og sykur á pönnu þar til sykurinn verður gullinbrúnn og hjúpar möndlurnar vel. Hellið blöndunni á smjörpappír og látið kólna. Saxið möndlurnar frekar smátt.

Núggatís:

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk sykur
  • 5 dl rjómi, léttþeyttur
  • 1 tsk vanilludropar (ég notaði eina vanillustöng í staðinn, stöngin klofin og fræin skafin innan úr)
  • núggatið

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanilludropum (eða vanillufræum) og núggati út í og blandið vel saman. Frystið.


Súkkulaðisoðnar perur:

  • 3/4 lítri vatn
  • 1 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 1/2 vanillustöng
  • 4 perur, afhýddar

Sjóðið vatn, sykur, kakó og vanillustöng saman. Bætið perum út í og látið sjóða við vægan hita í 1 klukkustund, hreyfið við þeim öðru hvoru. Látið perurnar kólna í leginum. Skerið þær í báta áður en þær eru bornar fram.

Heit súkkulaðisósa:

  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 30 gr smjör
  • 2 msk síróp
  • 1 dl rjómi

Setjið allt í pott og bræðið saman.

Ísinn má laga með tveggja vikna fyrirvara. Perurnar geymast í 2-3 daga í kæli og súkkulaðisósan geymist í eina viku í kæli.

Sushi salat


Ég hef verið á leiðinni að búa til ægilega gott sushi salat og setja inn á bloggið. Ég fékk þessa uppskrift í fyrra, fannst salatið svo gott að ég ofnotaði það næstum því á stuttum tíma! Mér finnst nefnilega sushi rosalega gott en hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega sushigerð enn, ég hef bara skoðað myndbönd á netinu og gert einföldustu bitana. En svo uppgötvaði ég þetta salat við urðum alveg vitlaus í það enda auðveld leið til að njóta fágaðs sushi á villtan evrópskan hátt! 🙂 Sérstaklega voru elstu krakkarnir hrifnir af þessu salati og ég sem sagt gerði það oft á tímabili. En núna er langt um liðið og ég var á leiðinni að búa til þetta salat þegar það vildi svo vel til að Halla Dóra vinkona mín bauð okkur upp á þetta gómsæta salat í forrétt í frábæru matarboði hjá Heiðu og Halldóri í Stokkhólmi. Í raun ættu Heiða og Brynja að fá sínar eigin færslur líka með dásemdar aðalrétt og eftirréttum (í fleirtölu!) sem þær sáu um! En gestabloggari dagsins er listakokkurinn doktor Halla Dóra!

Halla Dóra sleppti noriblöðunum í salatinu að þessu sinni en það eru ekki allir hrifnir af þeim. Svo minnir Halla á að þegar fiskur er notaður hrár, eins og laxinn í þessu tilfelli, þarf að frysta hann áður við -20 gráður í minnst sólarhring.

Uppskrift:

  • 500 g sushi hrísgrjón
  • 75 ml hrísgrjónaedik + 3 msk
  • 4 msk sykur
  • 1-2 msk sesamfræ (ristuð)
  • 3 msk grænmetis olía
  • 4-5 vorlaukar skornir fínt
  • 5 gulrætur skornar fínt
  • 1 gúrka kjarnhreinsuð og skorin í litla bita
  • 1 avocado skorið í litla bita
  • 300 g ferskur lax skorin í fínar sneiðar, líka hægt að nota túnfisk
  • 4 nori blöð klippt í ræmur eða ferninga
  • sultaður engifer
  • soya sósa
  • wasabi

Hrísgrjón soðin, tekin til hliðar og edik, sykur og salt soðið saman, látið “bráðna” saman og sett yfir volg grjónin. Grænmetið skorið og sett saman við grjónin. Þrjár matskeiðar af edik og olía sett út í og að lokum fiskurinn, sesamfræin og nori-blöðin. Halla dreifði sesamfræunum yfir salatið í lokin sem kom vel út.

Wasabi, soya sósa og sultað engifer borið fram með salatinu.

Brauðréttur og rúllutertubrauð


Hér á Íslandi er varla haldin afmælisveisla án þess að bjóða upp á góðan brauðrétt eða tvo. Fyrir afmælisveislur geri ég vanalega venjulegan brauðrétt í eldföstu móti, rúllutertubrauð og svo einn annan brauðkynsrétt, til dæmis tortillur, ostasalat, skonsutertu eða annað slíkt. Ég er alltaf á höttunum eftir góðum uppskriftum af brauðréttum. Í framhaldi af því er ég búin að þróa mína eigin uppskrift af brauðrétti í eldföstu móti sem ég er ánægð með.

Brauðréttur í eldföstu móti:

  • 250 gr. sveppir
  • 1 búnt ferskt brokkolí
  • 1 stk. stór rauð paprika
  • 1 blaðlaukur
  • ca 200 gr skinka, skorin í stimla
  • 1 piparostur, skorin í litla bita
  • 1 brieostur eða camembert, rifinn niður
  • 1-2 pelar rjóma
  • smjör
  • grænmetiskraftur, 1-2 teningar
  • kryddblanda, t.d. Best á allt eða Töfrakryddið frá Pottagöldrum
  • brauð, ca. 2/3 af heimilisbrauði
  • hunangs dijon sinnep
  • rifinn ostur

Búið til samlokur úr brauðinu, smurðar með dijon snnepi, gætið þess að nota ekki of mikið af sinnepinu. Skerið skorpuna af (má halda henni) og rífið samlokurnar eða skerið í litla ferninga. Setjið brauðið í botninn á eldföstu smurðu móti. Skerið sveppi, papriku, brokkolí og púrrlauk í litla bita og steikið ásamt skinkunni í smjöri á pönnu. Bætið piparostinum, brieostinum og grænmetiskraftinum útí, kryddið og látið ostin bráðna. Rjóminn er settur út í að síðustu og athugið að sósan á að vera þunn. Hellið sósunni yfir brauðið og stráið rifnum osti yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn. Þessi uppskrift passar í mjög stórt eldfast form eða tvö minni.

Uppskriftina af rúllutertubrauðinu sem ég geri hér kemur, að mig minnir, upphaflega úr brauðréttabók Hagkaup en ég gerði smá breytingar á henni. En í brauðréttabókinni eru margar góðar uppskriftir. Þar er til dæmis líka uppskrift af rúllutertubrauði með pepperóní sem er líka mjög góð.

Rúllutertubrauð

  • 1 stk. rúllutertubrauð
  • 1 stk. beikon smurostur
  • 2 msk. rjómi
  • 4 msk. majónes
  • 250 g beikon skinka
  • 4-6 lúxus beikonsneiðar
  • 1/2 dós grænn aspas
  • 100 gr sveppir skornir smátt
 Steikið beikonið og þerrið. Steikið sveppina í smjöri. Lækkið hitann og setjið smurostinn með smá aspassafa út á pönnuna og hrærið í þar til osturinn er orðinn mjúkur. Bætið rjómanum og majónesinu út í og blandið vel saman. Skerið beikonið og skinkuna í bita og blandið saman við ásamt aspasnum. Hellið blöndunni yfir rúllutertubrauðið og rúllið upp. Smyrjið rúllutertubrauðið með majonesi og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í um 20 mín. eða þar til osturinn hefur fengið góðan lit.

Pannacotta með hvítu súkkulaði og ástaraldin


Pannacotta er ljúffengur eftirréttur upprunninn frá Ítalíu. Þetta er nokkurskonar vanillubúðingur en pannacotta þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Þetta er einfaldur eftirréttur, rjómi, sætuefni og vanilla er soðið saman ásamt matarlími og síðan kælt. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó eða kardimommu en hér nota ég hvítt súkkulaði. Þessi blanda, rjómi, ekta vanilla, hvítt súkkulaði og ástaraldin, gerir eftirréttinn skotheldan fyrir alla sælkera!

 Uppskrift f. 4

  •  5 dl rjómi
  • 1 msk hunang
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 vanillustöng, vanillukornin skafin innan úr stönginni
  • 80 gr. hvítt súkkulaði, saxað
  • 2 plötur matarlím
  • 4 ástaraldin (passion fruit)

Matarlímsplötur settar í kalt vatn í minnst 5 mínútur. Vanillustöng klofin í tvennt, kornin innan úr báðum helmingunum skafinn úr með beittum hníf. Rjómi, hunang, vanillusykur og hvítt súkkulaði ásamt vanillukornunum sett í pott, hitað að suðu og hrært í á meðan. Þegar blandan er komin að því að sjóða er potturinn tekinn af hellunni. Mestur vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum og þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau eru bráðin saman við blönduna. Hellt í skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 3 klukkutíma. Áður en pannacottað er borið fram eru ástaraldinin skorin í tvennt, innvolsið skafið úr og dreift yfir.

Fetaosts- og chilisósa


Þessi kalda sósa er upplögð með allskyns grillmat. Hér notaði ég hana með grilluðum kjúklingabringum með þessari heimatilbúnu grillsósu.

Uppskrift:

  • 200 gr fetaostur (kubbur, ekki þessi í olíu)
  • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • ca ¼-½ rauður chili, saxaður
  • dálítið af steinselju, söxuð
  • 2-3 msk sýrður rjómi

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og blandið vel. Setjið í skál og skreytið gjarnan með chili og steinselju. Berið fram með grillmat.

Boozt


Hér á heimilinu er búið til boozt á hverjum degi en flest okkar drekka skyrboozt í morgunmat. Á milli mála geri ég oft spínatboozt, okkur stelpunum finnst það sérstaklega gott, strákarnir eru meira í skyrbooztinu. Það er þvílíkur munur á boozt gerðinni eftir að við fengum okkur almennilegan blender en fram af því höfðum við brætt úr nokkrum slíkum gripum! Blenderinn okkar ræður við hér um bil allt en fyrir þessa hefðbundnu blendera þá er mikilvægt að setja vökva fyrst, setja blenderinn af stað og leyfa klökum og frystum berjum eða ávöxtum að detta niður á hnífinn á meðan blenderinn er í gangi. Það má ekki setja frosið hráefni á botninn og setja svo blenderinn af stað, það er svona eins og að keyra bíl af stað í fjórða gír! 

Það er sérstaklega gaman að gera spínatboozt á sumrin þegar grænmetisræktunin er farin að gefa af sér. Núna þarf ég ekki að kaupa spínat heldur get náð mér í það úr garðinu daglega.

Uppskrift:

  • handfylli spínat
  • frosið mangó
  • vænn bútur af engifer
  • ávaxtasafi, ég nota Heilsusafa
  • banani


Elfar er sá sem drekkur mest af skyrboozti, hann byrjar alltaf daginn eldsnemma með boozti og tvöföldum espresso. Hann býr til stóran skammt af booztinu og gerir auka ,,to go“ glas fyrir mig. Ég er engin morgunmanneskja og þess síður morgunverðamanneskja! Þess vegna hentar mér mjög vel að taka glasið með mér í ræktina á morgnana, drekka helminginn á leiðinni á æfingu og restina eftir æfingu. Við notum ávallt og eingöngu hreint skyr en mismunandi frosin ber og ávexti. Til að þynna skyrbooztið notum við ávaxtasafa. Elfar hefur hins vegar verið að prófa sig áfram með annað, t.d. vatn eða mjólk til að minnka kolvetnin í drykknum.

Uppskrift: 

  • hreint skyr
  • frosin ber eða ávexti, t.d. jarðarber, bláber, hindber, mangó eða brómber.
  • banani
  • ávaxtasafi

Pastasalat


Ég er svo heppin að þekkja marga matgæðinga, ein þeirra er Heiða, doktor í tannlækningum með meiru og gott efni í matarbloggara! 🙂 Hún gaf mér uppskriftina af þessu pastasalati þegar við bjuggum báðar í Stokkhólmi og ég hef reglulega gert þetta salat síðan þá. Þetta pastasalat er meðal annars með pepperóni, ólífum og klettasalati. En það sem gerir það sérstaklega gott er maukið sem er útbúið og blandað við salatið. Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik og hlynsíróp gerir dásamlega góða dressingu/mauk sem gefur salatinu gómsætt bragð. Þetta er upplagt salat til að taka með sér á til dæmis hlaðborð eða aðra viðburði eða fara með í lautarferð! Yngstu börnin á heimilinu eru mjög hrifin af þessu salati.

Uppskrift:

  • 300 gr pasta
  • 4 msk sólþurrkaðir tómatar
  • gott búnt af basiliku
  • búnt af steinselju
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 1 dl jómfrúar ólífuolía
  • 2 msk balsamic edik
  • 1 tsk hlynsíróp
  • 4 msk furuhnetur, ristaðar á þurri pönnu
  • 80 g pepperóní, skorin í þunnar sneiðar
  • 2 msk ólífur, skornar í bita
  • 2-3 msk rifinn parmesan ostur
  • slatti af ruccola salati
  • salt og pipar úr kvörn


Pasta soðið eftir leiðbeiningum og kælt (Mikilvægt að ofsjóða það ekki). Sólþurrkaðir tómatar, basilika, steinselja, hvítlaukur, balsamic edik, ólífuolía og hlynsíróp sett í matvinnsluvél, keyrt nokkra hringi og grófsaxað saman. Blandað saman við pastað. Furuhnetum, pepperoní, ólífum, parmesan osti og klettasalati bætt við, kryddað með salti og pipar. Borið fram með góðu brauði.