Salat með lambafille og piparrótarsósu


Nú eru loksins allir í fjölskyldunni komnir heim eftir ævintýri sumarsins. Alexander var í löngu og skemmtilegu ferðalagi um Japan en Ósk var á Krít og í Stokkhólmi. Báðum systkinunum langaði í eitthvað sérstaklega gott í kvöldmatinn eftir langa fjarveru. Mest langaði Alexander í gott kjöt enda búinn að lifa á hrísgrjónum, sushi og innmat (Japanir eru víst voða hrifnir af lifrum, hjörtum, görnum, nýrum og öðru slíku góðgæti!) síðastliðinn mánuð. Ég er búin að hugsa lengi um að gera einhvern góðan rétt úr lambalundum eða lambafille og nú var komið gott tækifæri til að láta verða úr því. Ég dró fram nokkur ,,Bestu uppskriftir Gestgjafans“ blöð en þau eru í uppáhaldi hjá mér! Til dæmis nota ég blaðið frá 2003 afar mikið, þar eru margar mjög góðar uppskriftir. Þessa uppskrift fann ég hins vegar í blaðinu frá 2009.

Að vanda fylgdi ég nú ekki uppskriftinni út í ystu æsar. Ég notaði minna af balsamik edik og olíu en uppgefið var og útbjó í staðinn piparrótarsósu til að bera fram með réttinum. Hér í fjölskyldunni eru sósur flokkaðar með drykkjarföngum og því ekkert sérstaklega vinsælt að bera fram kjöt án vænnar sósuslettu! Ég notaði líka ristaðar kasjúhnetur í stað furuhneta en ég er eiginlega alveg hætt að nota furuhnetur. Ég hef nefnilega tvisvar lent í ,,pine mouth syndrome“ sem er afar hvimleitt að lenda í. Það lýsir sér þannig að einum degi eftir að hafa borðað furuhnetur finnur maður málkennt, vont bragð í munni af öllum mat, drykk og meira að segja tannkreminu! Þetta getur varað í allt að fjórar vikur. Ég lagðist í rannsóknarvinnu um þetta vandamál og komst að því að það er algengt. Það er ekki enn búið að finna ástæðuna en samkvæmt rannsóknum matvælastofnun Svíþjóðar virðist þetta tengjast uppskerubresti á furuhnetum í Asíu. Þá fóru ræktendur að notast við aðra tegund af furuhnetum sem geta haft þessi áhrif. Ég vil ekki taka áhættuna að lenda í þessu aftur og nota því varla furuhnetur lengur! Ég breytti tvennu til viðbótar í uppskriftinni, ég notaði klettasalat til viðbótar við spínatið og lambasalatið. Að auki notaði ég grillaðar paprikur frá Sacla í stað bakaðra tómata. Þetta heppnaðist býsna vel og öllum fannst rétturinn ljúffengur!

Uppskrift f. 3-4

  • 2 lambafille eða lambaprime
  • 2 msk olía
  • salt og pipar

Penslið lambið með olíunni. Grillið á útigrilli ca. 5-7 mínútur á hvorri hlið. Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu þannig að það verði ekki ofgrillað. Það þarf einnig að hafa í huga að kjötið heldur áfram að steikjast í eigin hita eftir að það er tekið af grillinu. Þegar kjötið er tekið af grillinu er það saltað og piprað og leyft að jafna sig áður en það er skorið. Eldun í ofni: Hitið ofninn í 175 gráður. Penslið lambið með olíunni og steikið á pönnu þar til það er brúnað á öllum hliðum. Setjið í ofninn í 10 mínútur. Saltið og piprið.

  • 2 eggaldin
  • 2-3 msk olía
  • 1 tsk salt
  • 200 gr lambasalat
  • 150 gr ferskt spínat
  • 1 krukka bakaðir tómatar frá Sacla (Oven Rosted Tomatoes) eða grilluð paprika (Char-Grilled Capsicum)
  • 2-3 msk furuhnetur, ristaðar (eða kasjúhnetur)
  • 2-3 msk basilika, smátt söxuð
  • 6 msk góð ólifuolía
  • 2 msk hindberja- eða balsamedik

Skerið eggaldin í ca 2 cm þykkar sneiðar og steikið í olíunni eða grillið þar til þær eru vel brúnaðar, saltið. Leggið lambasalat og spínat á fat. Skerið eggaldin í minni bita og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið þar ofan á. Dreifið tómötum (eða papriku), furuhnetum og basiliku yfir. Blandið saman olíu og hindberjaediki og dreifið yfir salatið. Saltið og piprið með nýmöldum pipar.

Í piparrótarsósuna er notað piparrótarmauk. Það er yfirleitt að finna hjá kryddunum í verslunum og lítur svona út:

Piparrótarsósa: 

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 msk majónes
  • 1 pakki piparrótarmauk
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt

Kjúklingavefjur með beikoni, mangósalsa og avókadósósu


Ég átti afgang af hráefninu frá því að ég bjó til guacamole auk þess að eiga þroskað mangó. Þar sem að mér finnst þetta afar ljúffeng hráefni, mangó og avókadó, langaði mig að gera eitthvað dásamlega gott í kvöldmatinn úr því. Ég leitaði að uppskriftum en fann ekkert spennandi nema auðvitað mangó/avókadó salsa eins og ég bjó til um daginn en mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Að lokum ákvað ég að spinna bara eitthvað gott úr þessu ásamt því að grilla kjúkling. Úr þeirri tilraun spruttu þessar ljúffengu kjúklingavefjur.

Uppskrift:

Mangósalsa:

  • 1 mangó, skorið í bita
  • 1-2 rauð chili-aldin, kjarnhreinsuð og söxuð smátt
  • safi úr 1/2 lime

Öllu blandað saman í skál.

Avókadósósa:

  • 1 stórt avókadó eða 2 lítil
  • 3 dl. grísk jógúrt
  • 1-2 hvítlauksrif
  • safi úr 1/2 lime

Öllu maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Geymt í ísskáp í minnst 15 mínútur.

Annað hráefni í vefjurnar:

  • tómatar, skornir smátt
  • salatblöð
  • klettasalat
  • rauðlaukur, saxaður (má sleppa)
  • steikt beikon
  • grillaðar kjúklingabringur, kryddaðar með Kjúklingakryddi frá Pottagöldrum.
  • tortillas pönnukökur

Avókadósósan og mangósalsa er undirbúið á meðan kjúklingurinn er grillaður. Auk þess sem beikonið er steikt á pönnu þar til það verður stökkt, lagt á eldhúspappír og umfram fita látin renna af því. Tómatar eru skornir smátt, salat rifið niður og tortilla pönnukökurnar hitaðar á pönnu. Þegar kjúklingabringurnar eru hér um bil alveg grillaðar í gegn eru þær settar á disk og vafðar þétt inn í álpappír með hröðum handtökum. Þá haldast þær áfram að eldast hægt í eigin hita (sem kemur í veg fyrir að þær verði ofgrillaðar og þurrar) og verða safaríkar og lungnamjúkar. Þegar bringurnar hafa fengið að jafna sig eru þær sneiddar niður.

Inn í tortillas pönnukökuna er svo settur kjúklingur, mangósalsa, avókadósósa, beikon og grænmeti, það er gott að setja mikið af avókadósósunni og mangósalsanu! Það var afgangur þannig að ég útbjó vefjur og geymdi í álpappír í ísskáp. Ég held svei mér þá að þær hafi verið jafnvel enn betri kaldar daginn eftir, allavega jafn góðar!

Grillað lambalæri með kartöflugratíni


Það er algengt að lambalæri séu vafin inn í álpappír og þau grilluð á þann hátt en þá kemur ekki alvöru grillbragð af kjötinu. Til þess að halda grilluðu lambalæri safaríku en jafnframt að fá gott grillbragð af því er til skotheld leið, grillun við óbeinan hita! Þá eru engir logar hafðir beint undir kjötinu og bara haft kveikt á brennurum í kringum lærið. Með lærinu bar ég fram að þessu sinni kartöflugratín. Flestir eru hrifnir af kartöflugratíni en ókosturinn við það er að það tekur afar langan tíma í ofninum og verður oft of dökkt að ofan en kartöflurnar samt ekki fulleldaðar. Ég er hins vegar með mjög góða og einfalda leið til að elda stórt form af kartöflugratíni á ca 35 mínútum en samt er öruggt að kartöflurnar verða mjúkar og fulleldaðar!

Læri – uppskrift f. 6

    • 1 lambalæri, 2.5 kg, vel hangið
    • 8 hvítlauksgeirar
    • 1 msk ólífuolía
    • Kryddblandan ,,Best á lambið“ eða önnur blanda af kryddum

Aðferð:

Ég keypti lærið í versluninni Til sjávar og sveita í Ögurhvarfi. Það var ókryddað og búið að hanga vel. Ég geymdi lærið svo í ísskáp í 4 daga og þar með var ég viss um að það væri orðið meyrt og gott. Mikilvægt er að taka lærið út nokkru áður en það er grillað þannig að það nái stofuhita.

Kveikið á grillinu og hitið það vel. Fitusnyrtið lærið, gerið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með hnífsoddi og stingið hvítlauksgeirum inn í það. Nuddið ólífuolíu vel á lærið (til að kryddblandan festist betur) og kryddið með ,,Best á lambið“ og núið vel á allt lærið. Slökkvið á öðrum brennaranum á gasgrilli. Setjið lærið á grillið þar sem ekki er eldur undir og lokið síðan, sá sem kveikt er á er stilltur frekar lágt, ofnlokið hjá mér sýndi 120 gráður, það getur þó verið misjafnt milli grilla. Ef það eru þrír brennarar á grillinu, setjið lærið í miðjuna, slökkvið undir þeim brennara og hafið brennarana sitt hvorum megin við í gangi. Grillið lærið í 1 klst og 50 mínútur miðað við læri sem er 2.5 kíló. Það er líka hægt að stinga kjöthitamæli í vöðvann þar sem hann er þykkastur, hann sýnir 60°C fyrir meðalsteikt, 70°C fyrir gegnsteikt. Snúið lærinu tvisvar eða þrisvar en opnið grillið annars sem allra minnst. Ef óskað er eftir dekkri skorpu má færa það yfir eldinn seinustu mínúturnar og fylgjast þá vel með því. Leyfið lærinu að standa undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið, gjarnan lengur. Kjötið varð einstaklega meyrt og safaríkt með þessari aðferð.

Kartöflugratín f. ca. 10-12

  • ca 1,3 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 grænmetisteningar
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Aðferð:

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

Með þessu bar ég fram ofnbakað ferskt grænmeti. Það er: sætar kartöflur, gulrætur, kúrbít og brokkolí. Grænmetið skorið í bita (ég hef til dæmis sætu kartöflurnar smátt skornar þar sem þær eru lengi að bakast, en brokkolíið í stærri bitum þar sem það bakast fljótt) sett á ofnplötu, velt upp úr dálítilli ólífuolíu og kryddi, bakað í ofn í ca. hálftíma (fer eftir stærð grænmetisins). Veltið grænmetinu 2-3svar á meðan bökun stendur. Sósan sem ég notaði að þessu sinni var sveppasósa, uppskrift er að finna hér.

Heimatilbúin tómatsósa og Food network!


Mér finnst voða gott að stússast í eldhúsinu seinni hluta dags og undirbúa kvöldmat. Það er undartekning ef ég elda ekki á kvöldin enda erum við sex í fjölskyldunni, stóru krakkarnir (sem eru nú varla krakkar lengur!) taka með sér afganga í vinnu og skóla, það krefst stöðugrar framleiðslu á mat! Ég elda því alltaf eins og fyrir minnst átta manns þar sem að markmiðið er að eiga afganga í nesti næsta dag. Í eldhúsinu er lítið sjónvarp með ótal rásum en ég horfi yfirleitt bara á eina rás yfir eldamennskunni, Food network auðvitað!

Þar eru margir mjög góðir þættir, uppskriftalega séð finnst mér „Barefood contessa“ vera best, hún er með mjög evrópskar og góðar uppskriftir. Ég er alltaf með annað augað á skjánum og fæ fullt af góðum hugmyndum, punkta þær niður á skrifblokk í eldhúsinu og fer svo á netið til að skoða þær betur. Ég fékk hugmyndina af heimatilbúinni tómatsósu frá grillþætti á Food network. Mér hafði aldrei dottið í hug að gera slíka sósu áður, ég nota venjulega tómatsósu ekki mikið nema á pylsur og finnst hún ekkert sérstök. En eins og ameríkönum er einum lagið þá mærðu þáttastjórnendur þessa sósu í bak og fyrir, hún væri víst ómissandi með grillmat! Ég skoðaði uppskriftir á netinu, fann þessa uppskrift frá snillingnum Paul Løwe og  prófaði. Og viti menn, heimatilbúin tómatsósa er ljúffeng! 🙂 Ég myndi segja að munurinn á heimatilbúinni tómatsósu og þessari venjulegu sé svipaður og munurinn á til dæmis ferskum og niðursoðnum ananas! Hún er sérstaklega góð á grillaða hamborgara en það er hægt að nota hana með öllum grilluðum mat. Það er lítið mál að gera þessa sósu, eina vinnan er eiginlega að skera laukinn, svo mallar hún bara sjálf á pönnunni. Tómatsósan geymist vel í kæli í þéttri flösku (fæst í Søstrene Grene). 

Uppskrift:

  • 1 dós góðir niðursoðnir heilir tómatar (ég notaði niðursoðna kirsuberjatómata)
  • 1 lítill gulur laukur
  • 2 msk ólífuolía
  • 1-2 msk tómatpúrra
  • 2 dl púðursykur
  • 1 dl eplacider-edik
  • salt

Niðursoðnir tómatar settir í matvinnsluvél og hrært þar til blandan verður jöfn. Fínsaxið laukinn og steikið í olíunni þar til laukurinn verður mjúkur. Tómötum, tómatpúrru, eplacider-edik og púðursykri bætt við (smakkið sósuna til). Það er hægt að fínhakka hálfan rauðan chili og setja út í tómatana fyrir þá sem vilja sterkari útgáfu af sósunni. Látið blönduna malla á lágum hita, án loks, þar til hún þykknar eða í ca. einn klukkutíma. Smakkið hana til með salti. Setjið blönduna alla í matvinnsluvél og hrærið í smá stund. Kælið og hellið í krukku eða flösku með þéttu loki eða tappa. Tómatsósan geymist í ísskáp í vel lokuðu íláti í allt að þrjár vikur. Berið fram með grillmat, t.d. grilluðum hamborgurum.

Jóhönnu Ingu fannst þessi tómatsósutilraun afar spennandi og vildi útbúa sína eigin flösku sem hún gerði með glæsibrag! 🙂

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa


Ég eldaði þennan laxarétt í fyrsta sinn í fyrradag. Ég vissi svo sem að hann hlyti að vera góður þar sem að uppistaðan í réttinum eru nokkur af uppáhaldshráefnunum mínum, lax, mangó og avókadó. En vá hvað þetta er bragðgóður, léttur og ljúffengur réttur, þið bara verðið að prófa! Mikilvægt er að vera með vel þroskað mangó og avókadó, ég skrifaði ráð hér hvernig hægt er að hraða fyrir þroska þeirra. Ég átti avókadó sem ég hafði geymt á þennan hátt og var orðið rétt þroskað. Síðan var ég svo heppin að finna fullkomlega þroskað mangó í Nettó. Ég keypti síðan ljúffengan lax hjá Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni en ég kaupi allan fisk af þeim. Þetta er ekki erfiður réttur að útbúa og hann er fljótlegur, það þarf bara að gefa sér tíma fyrir mareneringuna. Þessi uppskrift dugir fyrir þrjá sem aðalréttur en fyrir sex sem forréttur. Ég var með hann í aðalrétt og bar fram með honum naanbrauð með smjöri og salti, uppskriftina er að finna hér.

Límónumarineruð laxaspjót

  • 900 gr. ferskur lax, skorinn í teninga (ca 2,5 x 2,5 cm)
  • 1/2 dl ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1/2 límóna (lime), safi og börkur
  • 1/4 tsk sykur
  • salt og pipar
  • kóríander, saxað smátt (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Blandið saman hráefnunum fyrir mareneringuna. Laxinn skorinn í eins jafna teninga (ca. 2.5 cm x 2.5 cm) og hægt er og hann settur í plastpoka. Mareneringunni helt yfir og laxinum velt varlega upp úr henni, geymið í ísskáp í minnst einn tíma, lengur ef hægt er.

Þrír til fimm laxateningar þræddir upp á grillspjót. Ef þið notið tréspjót, leggið þá spjótið í bleyti í ca. hálftíma fyrir notkun til þess að þau brenni ekki. Grillið spjótinn á meðalhita þar til þau eru tilbúin. Reynið að snúa þeim sjaldan til að koma í veg fyrir að laxinn losni af spjótunum. Það þarf að leyfa spjótunum að grillast vel í byrjun áður en þeim er snúið fyrst, þá er lítið mál að snúa þeim eftir það.

Mangó- og avókadósalsa

Á meðan laxinn er að marinerast er salsað útbúið:

  • 1 stórt mangó, skorið í teninga
  • 2 avókadó, skornir í teninga
  • 1/2-1 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1/2-1 rautt chili, kjarnhreinsað og fínsaxað
  • 1/2 límóna (lime)
  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 msk hvítvínsedik
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, saxað (hægt að nota flatblaða steinselju í stað kóríanders)

Mangó, avókadó og lauk blandað varlega saman. Chili bætt við ásamt safanum úr límónunni, ólífuolíu og hvítvínsediki. Kryddið með salt, pipar og kóríander og blandið öllu varlega saman. Geymið í ísskáp.

Berið fram grilluðu laxaspjótin á mangó- og avókadósalsanu, kreystið smá límónusafa yfir og njótið gjarnan með vínsglasi!

Grillað Naan brauð eða bakað


Þvílíkur dásemdar sumardagur í gær! Ég þurfti bara að vinna fram að hádegi og fór því heim og útbjó brunch úti á palli fyrir krakkana og þá vini sem voru í húsinu. Jóhönnu og Gyðu vinkonu hennar fannst svo heitt að það urðu að nota „sól“hlíf á á meðan þær snæddu! Síðan var uppblásna sundlaugin dregin fram ásamt vatnsslöngunni, afar vinsæl afþreying á heitum degi. Á brunch borðinu var ég meðal annars með crousant sem maður kaupir frosið og óbakað (fæst í Bónus). Crousantin eru bökuð í ofni og borin fram heit og fersk, hrikalega góð, öll tíu stykkin hurfu eins og dögg fyrir sólu! Hvet ykkur til að kippa með einum svona poka í næstu Bónus ferð!

Um kvöldið var að sjálfsögðu grillað eins og heyrir til á svona góðum degi. Meðal þess sem rataði á grillið var uppáhaldsbrauð fjölskyldunnar, naan brauð. Þetta brauð baka ég oft á hefðbundinn hátt en eftir að hafa verið kynnt fyrir grilluðu naanbrauði af góðum vinum okkar, matgæðingunum Frissa og Jóhönnu, grillum við yfirleitt naan brauðið á sumrin. Þetta er afar einföld og góð uppskrift. Krakkarnir elska þetta brauð, ég geri oft tvöfalda uppskrift en samt klárast brauðið á mettíma! Það er best að bera það fram nýbakað og rjúkandi heitt en það helst mjög safaríkt lengi. Í uppskriftinni er hrein jógúrt en ég hef notað ab-mjólk með góðum árangri og núna notaði ég gríska jógúrt sem kom mjög vel út. Hér að neðan fylgir uppskrift af brauðinu bæði grilluðu og bökuðu á hefðbundinn hátt.

Nanbrauð (10 stykki) 

200 ml. mjólk
2 msk sykur
1 poki þurrger
600 gr hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. ólífuolía
1 dós hrein jógúrt (180 gr við stofuhita, má líka nota ab-mjólk eða gríska jógúrt)

Ofan á brauðið:

1 msk. maldon salt
1 msk indversk kryddblanda (garam masala)
25 gr. smjör (brætt)
1-2 hvítlauksrif
ferskt kóríander (má sleppa)

Setjið ger og sykur saman í skál og hellið volgri mjólk yfir, pískið létt saman. Látið standa í 15 mín. Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið degið þar til að það verður mjúkt. Látið deigið hefast í skál í klukkustund við stofuhita. Hitið ofninn í 275 gráður. Blandið kryddinu og saltinu saman á disk. Skiptið deiginu í 10 hluta og hnoðið kúlur úr þeim. Fletjið síðan kúlurnar nokkuð þunt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna. Raðið brauðunum á plötu sem er klædd bökunarpappír og bakið þau í 5-7 mínútur. Bræðið smjörið í potti, setjið pressaðan hvítlaukinn saman við smjörið og dreypið því strax á heit brauðin. Klippið kóríander síðan yfir brauðin ef þið viljið. Berið fram strax á meðan brauðin eru heit.

Ef brauðin eru grilluð er kryddblandan sett á eftir grillun Það er lítið mál að grilla brauðin í stað þess að baka þau í ofni. Það þarf að smyrja þau með ólífuolíu á báðum hliðum. Einnig þarf að passa að hafa brauðin ekki of stór og hafa þau vel flöt þannig að þau nái að bakast í gegn. Þau geta nefnilega verið mjög stutt á grillinu áður en þau byrja að brenna að utan, ca. 1-3 mínútur á hvorri hlið á háum hita. Fylgist bara með þeim mjög vel, um leið og þau fara að dökkna mikið þarf að snúa þeim við. Það er svo hægt að pensla brauðin strax eftir grillun með smjör- og kryddblöndunni, leyfa þeim að jafna sig í nokkrar mínútur og bera þau svo fram. Ég nota oft bara smjör, hvítlauk og salt og sleppi kryddinu eða jafnvel bara smjör og salti.

Grillsósa


Ég er ekki sérstaklega hrifin af tilbúnum barbecue sósum í flöskum með þessu týpíska reykta barbecue bragði. En um daginn fann ég uppskrift af grillsósu sem mér fannst líta girnilega út og ákvað að prófa. Þessi sósa passar mjög vel með ljósu kjöti, til dæmis kjúkling og svínakjöti. Ég prófaði hana á grilluðum kjúkling og okkur öllum fannst hún afar ljúffeng. Eiginlega hefði ég þurft að gera helmingi stærri uppskrift til að geta borið fram meiri sósu með kjúklingnum , ég ætla að gera það næst!

Uppskrift:

  • 1 lítill laukur, fínsaxaður (ég átti skarlottulauka og notaði nokkra svoleiðis í staðinn)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 dl tómatsósa
  • 2-3 tsk hunang
  • 2-3 tsk balsamedik
  • 2-3 tsk Dijon sinnep
  • salt og pipar

Steikið laukinn í olíu þar til að hann er orðinn mjúkur. Bætið við hinu hráefninu. Smakkið ykkur fram þar til að það er komið gott jafnvægi milli sæta og súra bragðins. Sósan látin krauma þar til hún þykknar.

Kælið sósuna. Penslið kjötið með sósunni og bætið við sósu á kjötið á meðan grillun stendur. Berið fram afganginn af sósunni með kjötinu. Passið ykkur á að halda aðskilinni þeirri sósu sem þið dýfið penslinum ofan í og berið á hrátt kjötið og þeirri sósu sem þið berið fram með kjötinu. Grillsósuna er hægt að geyma í allt að þrjár vikur í ísskáp ef hún er í lofttæmdri krukku eða flösku.


Lambakjötbollur með gulrótar-tzatziki sósu


Þetta byrjaði allt með þessari eins kílóa fötu af tyrkneskri jógúrt sem ég keypti í versluninni Tyrkneskur bazar í Síðumúla. Tyrknesk jógúrt er dásamlega kremkennd með mildu bragði. Ég fór að skoða hvað hægt væri að gera úr jógúrtinni og fann uppskrift af spennandi gulrótar-tzatziki sósu. Þá varð mér hugsað til Tyrklandsferðar fjölskyldunnar síðastliðið sumar. „Kebab, kebab!“ hrópuðu kokkarnir hver í kapp við annan þar sem þeir stóðu sveittir við hótelgrillið og grilluðu ýmiskonar ljúfengt kjöt ofan í sólbrennda hótelgesti. Kebab þýðir í raun bara grillað kjöt á grillpinna. Köfte Kebab er gert úr lambahakki með ýmiskonar kryddjurtum, til dæmis myntu og steinselju og bragðaðist dásamlega með tyrkneskri jógúrtsósu. Með þetta í huga ákvað ég því að kaupa lambahakk í fyrsta sinn á ævinni! Mér datt í hug að útbúa hakkið sjálf úr lambavöðva (er oft full vantrausts á tilbúið hakk) en þegar ég fann lambahakk í Þinni verslun á aðeins 890 krónur kílóið sem leit mjög vel út ákvað ég að kaupa það tilbúið. Þeir sem ekki vilja lambahakk geta notað nautahakk í staðinn og í stað tyrkneskrar jógúrtar er hægt að nota gríska jógúrt sem fæst í öllum matvöruverslunum. Ég fylgdi ekki ákveðinni uppskrift af bollum en þetta er sirka það sem ég gerði:

Lambakjötbollur:

  • 1 kíló lambahakk (hægt að nota nautahakk)
  • 1 dl. fetaostur (mulin niður)
  • 1 ½ dl. rifnar gulrætur
  • 1 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk)
  • 1 egg
  • 1 tsk. chilimauk
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • fersk mynta, steinselja og basilika söxuð niður. (Má sleppa basiliku, ég notaði hana bara af því að ég átti hana til!)
  • salt, pipar og cayenne pipar ásamt öðru kryddi eftir smekk (t.d. steinselja, oregano, paprika)

Öllu blandað vel saman og mótaðar meðalstórar bollur (eða meira eins og buff, auðveldara að grilla). Penslið grillið vel með olíu. Grillað á háum hita þar til bollurnar eru eldaðar í gegn, sirka í 10 mínútur, snúið við þörfum. Það er auðvitað líka hægt að steikja bollurnar á pönnu fyrir þá sem vilja það frekar. Ég skar einnig niður kúrbít, penslaði með ólífuolíu, kryddaði með salti og pipar og grillaði.

Það er ofureinfalt að búa til gulrótar-tzatziki.

Uppskrift:

  • 4 dl. tyrknesk jógúrt (eða grísk jógúrt)
  • 200 gr. rifnar gulrætur
  • 2 hvítlauksgeirar saxaðir mjög smátt
  • salt og pipar

Öllu blandað saman, plastfilma sett yfir og sett inn í ísskáp í minnst korter áður en sósan er borin fram.

Grillbrauð


Síðasta kvöldið í sumarbústaðnum ákvað ég að reyna nýta afganga í kvöldmatinn. Fyrir utan ávexti og grænmeti átti ég einn pylsupakka en ekkert pylsubrauð. Ég ákvað því að búa til brauðdeig:

Uppskrift
 
6 dl hveiti
3 dl vatn
1 pk þurrger
2 msk ólífuolía
1 tsk sykur
1 tsk salt

Deig 
Hafið vatnið fingurvolgt. Olían sett út í volgt vatnið í skál, þurrgeri, sykri og salti blandað vel saman við hveitið og þurrefnunum loks hrært saman við vökvann. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og samfellt. Látið deigið í hveitistráða skál og látið það lyfta sér á hlýjum stað í 1 klst. eða þar til það hefur tvöfaldað umfang sitt.

Bakstur 
Hnoðið deigið aftur og skiptið því í tvo hluta. Skiptið hvorum deighluta í 5-6 hluta og búið til pylsu úr hverjum þeirra sem síðan er vafið utan um grillspjót. Stráið örlitlu hveiti yfir deigspjótin og látið hvíla í 20 mín. á bakka eða plötu. Raðið deigspjótum á grillið og látið bakast þar til þau eru fallega steikt. Snúið spjótunum nokkrum sinnum þannig að úr verði 3-4 hliðar á hverju brauði. Bökunartíminn fer eftir glóðarhitanum í grillinu en þau eru fljót að bakast, u.þ.b. 2 mín. á hverri hlið við meðalhita. Úr uppskriftinni fást 10-12 smábrauð. Ég vafði sumum deighlutum upp á spjót en öðrum utan um pylsurnar. Einnig setti ég ólífur í sum brauðin.

Það þarf bara að passa að hafa grillið ekki á of háum hita, fylgjast vel með brauðinu og snúa því reglulega.

Úr þessu varð alveg ágætis máltíð! 🙂

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku


Ég keypti nautaribeye í versluninni Til sjávar og sveita. Þar sem að við voru að fara í bústað í eina viku þá lét ég þá vakúmpakka því kjöti sem ég keypti. Þá geymist það í kæli í allavega viku. Kjötið var í heilum bita en það er mikið betra að skera kjötið sjálfur í sneiðar og ná þannig öllum sneiðunum jafn þykkum. Mikilvægt er að taka kjötið úr kæli nokkru áður en það er grillað þannig að það sé við stofuhita. Ég kryddaði kjötið með pipar, grillaði við frekar háan hita og leyfði því svo að jafna sig dálitla stund og kryddaði það með maldon salti.

Með kjötinu gerði ég bearnaise sósu. Það er í raun ekki flókið að gera heimatilbúna bearnaise sósu. Tvennt er mikilvægt: að hafa smjörið ekki það heitt að ekki sé hægt dýfa fingri ofan í það og að hella smjörinu út í eggjarauðurnar hægt í mjórri bunu og hræra stöðugt í á meðan. Eins má alls ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði. Ég notaði  Bernaise Essence sem er seldur í litlum glösum í flestum verslunum. Það er líka hægt að búa til sitt eigið „essence“ úr meðal annars hvítvínsediki, skarlottulauk, tarragon og kryddi.

Uppskrift f. 4

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • Salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við (í sveitinni átti ég bara steinselju og bjargaði mér með henni, það slapp alveg!). Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf.

Með þessu var ég með grillað grænmeti og chilikartöflur með papriku en uppskrift af þeim er hér. Þær eru svolítið sterkar og koma þvi vel út með mildri bearnais sósunni og kjötinu. Þetta var býsna gott þó ég segi sjálf frá! 🙂

08451Sævar vínþjónn mælir með rauðvíninu Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon frá Chile með þessum rétti. Það er dökkrúbínrautt. Eiginleikar: Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Bragð: sólber, jörð, minta, vanilla, tóbak, eik.