Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni


Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því  á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!

Uppskrift f. 5

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
  • 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
  • 300 gr rjómaostur
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 msk mango chutney
  • pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.

Mjúk piparkaka


Ég verð að viðurkenna að ég varð dálítið spennt yfir því að jóladótið væri komið í Íkea! Ég hefði sko margfalt heldur viljað fara þangað í dag í stað þess að hanga yfir ritgerðinni! Reyndar var ég afskaplega þakklát fyrir ritgerðina mína í dag eftir að hafa lent í óskemmtilegu ævintýri. Tölvan mín nefnilega slökkti á sér á fimmtudagskvöldið og ég gat ekki kveikt á henni, það var bara eins og hún hefði krassað. Ég var alveg viss um að ritgerðin mín væri horfin og var ekki ánægð með sjálfa mig þegar ég uppgötvaði að síðasta afrit sem ég hafi gert var 10 daga gamalt … 10 daga vinna farin í súginn! Og hverjar eru líkurnar á því að aðeins mánaðargömul Macbook talva krassi og að eigandinn sé ákkurat vinna í lokaritgerð? Held að það séu afskaplega litlar líkur á því og týpískt að ég skuli lenda í svoleiðis ævintýri. Ég varð ekki glaðari þegar mér var tjáð daginn eftir að það tæki þrjár vikur bara áður en Eplið gæti skoðað tölvuna! Á þessum tímapunkti var ég alvarlega að íhuga að hætti þessum ritgerðarskrifum! En með hjálp góðs fólks í bland við íslenska fyrirbærið ,,maður þekkir mann“ fékk ég tölvuna tilbaka samdægurs, búið að gera við hana og gögnin í lagi! Nú tek ég afrit á nokkra tíma fresti! 🙂 En í stað þess að skoða jóladótið í Íkea í dag þá ákvað ég í einni skriftarpásunni að skella mjúkri piparköku í ofninn sem leiddi af sér dásamlegan piparkökuilm um allt hús … kannski dálítið ótímabæran en dásamlegan samt! Þetta er afar einföld og fljótleg kaka sem er yndislega góð. Sérstaklega þegar hún er nýkomin úr ofninum, enn volg! Í uppskriftinni er Lingonsylt (týtuberjasulta) sem fæst einmitt í Íkea (góð afsökun fyrir Íkeaferð!). Ég veit ekki hvort hún fæst annars staðar en það er hægt að nota til dæmis sólberjasultu í staðinn.

Uppskrift:

  • 2 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1,5 tsk kanill
  • 1,5 tsk matarsódi
  • 2 dl mjólk
  • 1 msk síróp
  • 2-3 msk týtuberjasulta (fæst í Íkea – lingon sylt) eða sólberjasulta
  • 100 gr smjör

Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin þeytt. Á meðan er mjólk, síróp, týtuberjasulta og smjör sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Blöndunni leyft að kólna dálítið áður en henni er bætt út í eggin ásamt sykri, hveiti, kanil og matarsóda. Kakan bökuð í 24 cm smelluformi eða í kringlóttu sandkökuformi frekar neðarlega við 175 gráður í 30-40 mínútur.

Ofnbakaður tacoréttur


Eins og hjá flestum barnafjölskyldum er taco afar vinsæll matur á okkar heimili. Hins vegar er alltaf dálítið vesen að borða tacoskeljar! Ég geri stundum því stundum vinsælan tacorétt í staðinn sem er einfaldur og góður. Mér finnst samt eiginlega eins og ég sé að brjóta einhver foreldralög að nota snakk í kvöldmatinn! Það er einhvern veginn prentað í mann að snakk sé svo óhollt og ég forðast að kaupa það svona almennt. En í upphaflegu uppskriftinni er gert ráð fyrir því að nota mjög stóran tortillupoka, sem er yfir 400 gr (þetta er reyndar fremur stór uppskrift). Ég átti bágt með að nota svona mikið og minnkaði snakkið aðeins en setti á móti taco skeljar sem ég braut gróft. En reyndar er nú föstudagskvöld og þá má leyfa sér svolítið! 🙂

Uppskrift f. ca. 6

  • 1 poki Tortilla eða Nachos flögur, ca. 3-400 gr.
  • 1 kg nautahakk
  • 2 bréf tacokrydd
  • 1 msk nautakraftur
  • 3 dl vatn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 askja Philadelphia ostur
  • 4-5 tómatar, sneiddir
  • 1 ½ paprika, skorin í bita
  • 1 dós gular maísbaunir
  • 1 púrrlaukur, sneiddur
  • rifinn ostur
Bakarofn stilltur á 225 gráður. Flögunum dreift á botninn á ofnskúffu. Nautahakk steikt og tacokryddinu bætt út í. Því næst er vatni bætt við ásamt nautakrafti. Hakkið látið malla þar til vökvinn er soðinn niður. Þá er hakkinu dreift yfir flögurnar. Rjómaosti og sýrðum rjóma (báðum dósunum) hrært saman og dreift yfir hakkið. Því næst er grænmetinu dreift yfir og að lokum rifna ostinum. Bakað í ofni í ca. 12 mínútur. Ég stillti á grill síðustu mínúturnar til að osturinn tæki betri lit frekar er en að lengja bökunartímann því þá myndu tortilla flögurnar ekki haldast eins stökkar. Borið fram með salati, guacamole, sýrðum rjóma og salsasósu.

Svíþjóðarkaka


Þessi kaka er þekkt í Svíþjóð og kallast því viðeigandi nafni,,Sverigekaka“ eða Svíþjóðarkaka. Hún er líka þekkt undir, að mínu mati, meira óviðeigandi nafni, það er ,pensionärskaka“ eða lífeyrisþegakaka … nokkuð augljóst væntanlega af hverju ég kýs fyrrnefnda nafnið! Voða lítið girnilegt við síðarnefnda nafnið! Þetta afar auðveld kaka að baka en hún þarf að bíða ísskáp í nokkra tíma eða yfir nóttu áður en hún er borin fram. Það er til þess að kremið stífni. Ég bakaði þessa köku að kvöldi og setti hana í kæli yfir nóttu. Daginn eftir komu þrjár vinkonur Jóhönnu Ingu með henni heim úr skólanum. Þær fengu sér allar væna kökusneið og ein þeirra sagði ,,rétt upp hönd sem finnst þetta besta kaka í heimi“! Þær réttu allar upp hönd þannig að kakan fékk háa einkunn í aldurshópnum 7-8 ára! 🙂 Fleirum í fjölskyldunni þótti hún greinilega góð því að skömmu seinna var hún horfin. Það er því óhætt að mæla með Sverigekökunni!

Botn:

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl sjóðandi heitt vatn

Krem:

  • 1 dl mjólk
  • 125 gr smjör
  • 3 msk vanillusykur
Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smelluform (ca 24 cm) smurt. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Þurrefnunum blandað út í ásamt heita vatninu. Deiginu hellt í bökunarformið og kakan bökuð við 175 gráður í 30-40 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað er hún klofin í tvennt. Ég á svona skurðaráhald úr Íkea sem kemur sér vel þegar maður sker ójafnt eins og ég geri!
Krem: Smjör og mjólk soðið saman, hitinn lækkaður og vanillusykri bætt út í. Hrært við vægan hita þar til sykurinn hefur leyst upp (má ekki sjóða eftir að vanillusykurinn fer út í, þá verður kremið beiskt). Leyfið blöndunni að kólna aðeins og hellið henni svo jafnt yfir neðri botn kökunnar. Kremið á að vera í vökvaformi. Efri hluti kökunnar lagður yfir botninn. Plastfilma sett yfir kökuna og hún sett í kæli í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Flórsykur er sigtaður yfir kökuna áður en hún er borin fram og stundum er settur yfir hana glassúr.

Pizzufiskur (eða þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella!)


Ef ég fengi að ráða nafninu á þessum ljúffenga rétti þá myndi það vera ,,þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella“. Yngri krakkarnir þvertóku hins vegar fyrir það, þau sögðu að nafnið pizzufiskur myndi gera réttinn girnilegan í augum allra barna! Þau eru hvorugt fyrir fisk en þegar hann er kominn í þessar umbúðir þá er ekki annað hægt en að klára af disknum sínum. Þetta er ótrúlega einfaldur réttur að matreiða og afar gómsætur. Ég kaupi varla ýsu lengur, finnst þorskurinn svo mikið betri. Í þetta sinn fékk ég mjög þykkt þorskflak og þurfti þess vegna að bæta við bökunartímann. Annars sakna ég dagsbirtunnar ógurlega mikið á kvöldmatartíma þessa dagana. Þegar ég byrjaði að blogga var júní og alltaf bjart. Ég kann ekkert í ljósmyndun er er búin að reka mig á grunnatriðið núna, það er dagsbirtan! Það er svo mikið leiðinlegra að taka matarmyndirnar þegar orðið er dimmt og það þarf að nota flass. Það jákvæða er hins vegar að ég er komin í kapphlaup við dagsbirtuna og er farin að hafa matinn fyrr, upp úr klukkan 18, helst fyrr. En ókosturinn er reyndar sá að oft sit ég ein við matarborðið til að byrja með, Elfar vinnur alltaf frameftir og oft eru eldri krakkarnir að stússast í tómstundum, íþróttum eða vinnu á þeim tíma. En hér kemur uppskriftin af pizzufisknum ( … eða þorsknum í miðjarðarhafssósunni með mozzarella!)

Uppskrift f. 4-5

  • 500 gr. tómatsósa með hvítlauk og/eða kryddjurtum (ég notað þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)
  • fersk basilika
  • 1 kíló þorskur eða ýsa
  • pipar og salt
  • 1 msk olía
  • svartar ólífur
  • 1-2 kúlur ferskur mozzarella

Ofninn hitaður í 200 gráður. Sósan hituð í potti, basilika söxuð gróft og bætt út í sósuna. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki og kryddaður með salti og pipar. Eldfast mót smurt með olíu, fisknum raðað í formið og sósunni hellt yfir. Að lokum er ólífunum dreift yfir. Álpappir breiddur yfir mótið og það sett í ofninn í ca. 10-15 mínútur. Mozzarella osturinn skorinn í sneiðar. Eldfasta mótið tekið úr ofninum og hitinn hækkaður í 215 gráður. Álpappírinn fjarlægður og ostinum raðað ofan á. Eldfasta mótið sett aftur inn í ofninn og bakað í ca. 10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati, jafnvel góðu brauði líka.

Kjúklinganúðlur í satay-hnetusósu


 

Ég finn pressuna magnast vegna meistararitgerðarinnar minnar! Það gengur svo sem ágætlega að skrifa en afar hægt. Elfar var að vinna alla helgina en ég náði samt að vinna í ritgerðinni fyrripartinn í gær. Seinni partinn fór ég með Jóhönnu og vinkonu hennar í Krakkahöllina. Ég ætlaði að vera voða sniðug, nýta tímann og setja saman vikumatseðil á meðan ég beið á eftir þeim. Hins vegar kom í ljós að Krakkahöllin býður ekki upp á netsamband. Ég fór því í Bónus fremur illa undirbúin en var þó með óljósar hugmyndir um hina og þessa rétti sem ég keypti í fyrir vikuna. Mér finnst reyndar gaman að reyna að elda úr því hráefni sem ég á til, það verður því skemmtileg áskorun að setja saman rétti og spinna úr því sem ég keypti í gær. Ég er búin að hugsa lengi um að búa til einhvers konar rétt úr Satay hnetusósu. Ég hef skoðað á netinu uppskriftir af slíkri sósu en í Bónus rakst ég á nýja tilbúna gerð Satay sósu sem ég ákvað að prófa. Það átti bara að bæta við vatni en ég ákvað að bæta frekar við kókosmjólk auk vorlauks, hvítlauks, engifers, spínats og papriku. Þetta var afar fljótlegur réttur og góður.

Uppskrift f. 4 

  • 6-800 gr kjúklingalundir eða kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • góður bútur af engifer, saxað smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 búnt vorlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauð paprika, skorin í þunnar strimla
  • 2 pakkar Satay sósa (sjá mynd), líka hægt að nota satay sósu í krukku
  • 2 dl kókosmjólk (það er hægt að nota alla dósina en þá verður hnetusósan bragðminni og meira kókosbragð)
  • 1/3 poki spínat
  • 250 gr eggjanúðlur

 

Eggjanúðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum (passa þarf að ofsjóða þær alls ekki) Vorlaukur, hvítlaukur og engifer saxað smátt og steikt upp úr olíu á pönnu í ca. 1 mínútu án þess að það brenni. Blandan er svo veidd upp úr og lögð til hliðar. Kjúklingur steiktur á pönnunni þar til að hann hefur náð góðum lit og paprikunni bætt við. Því næst er laukblöndunni bætt aftur út í (ef pannan er lítil gæti verið gott að færa allt yfir í pott) Sósunni hellt út á ásamt kókosmjólkinni og látið malla í ca. 5 mínútur. Í lokin er spínatinu bætt út í. Kjúklingasósunni er svo blandað við eggjanúðlurnar og borið strax fram (ég stráði dálítið af söxuðum pistasíuhnetum yfir réttinn)

 

Nautahakksrúlla með osti og brokkolí


Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð.  Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn. Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast. Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Hér hef ég gert aðrar góðar útfærslur af nautahakksrúllunni:

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

IMG_0576

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

IMG_9706

Mexíkósk nautahakksrúlla

IMG_1104

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina. Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón. Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram. Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.

Uppskrift f. 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
  • ½ dl steinselja, söxuð smátt
  • 3-4 dl rifinn ostur
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. Vökvinn úr eldfasta forminu er síaður í gegnum sigti í pott, 2 dl af vatni bætti út í og suðan látin koma upp. Þá er 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis kartöflumús, salati og rifsberjahlaupi.

Heimatilbúið múslí


Ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur, til dæmis jógúrt, súrmjólk og slíkt. Þegar ég bjó í Stokkhólmi fann ég hins vegar afar góða hunangsmelónujógúrt og dásamlega gott sænskt múslí sem ég borðaði alltaf í morgunmat. Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt á Íslandi og fór þess vegna að prófa mig áfram með múslígerð. Núna er ég komin niður á múslí sem mér finnst dásamlega gott. Krakkarnir elska þetta múslí og segja það vera nammi! Eftir að ég fór að gera þetta múslí þarf alltaf að vera til AB mjólk í ísskápnum, eitthvað sem engin vildi borða áður, en múslíið gerir AB mjólkina að hátíðarmat! Það er afar einfalt að búa múslíið til. Það tekur bara nokkrar mínútur að mæla í blönduna. Eina sem þarf að gera er síðan að hræra reglulega í múslíinu þegar það er í ofninum til þess að það brenni ekki. Ég bý oft múslíið til á meðan ég er að elda kvöldmatinn ef ég þarf ekki að nota ofninn í annað. Gróflega reiknað kostar ca. 2 þúsund að kaupa allt hráefnið í blönduna. En ég get notað margt af því allt að 5-6 sinnum eða oftar. Eina sem þarf að fylla á oftar eru tröllahafrarnir og hneturnar, það dugir ca tvisvar til þrisvar sinnum. Þannig að hver skammtur af múslíinu er ekki dýr þó um sé að ræða gæðahráefni. Mér finnst bráðnauðsynlegt að setja svo dálítið af rúsínum út á múslíið og AB mjólkina eða skera niður eina eða tvær döðlur og setja út á, dásamlega gott!

Uppskrift:

  • 5 dl haframjöl
  • 2 dl sólblómafræ
  • 1 dl hörfræ
  • 1 dl kókosflögur
  • hrásykur (ég nota ca. 1/2-1/3 dl)
  • 1/2 poki saxaðar heslihnetur
  • 2 dl vatn
  • 4-5 msk matarolía
Öllu hráefninu, fyrir utan vatn og matarolíu, blandað saman. Vatni og matarolíu blandað saman og blandað við múslí blönduna. Ristað í ofni við 200 gráður í ca 30-35 mínútur. Hrært oft í blöndunni svo hún brenni ekki við. Það er á mörkunum að kókosflögurnar ráði við þennan tíma þannig að oft set ég þær ekki út í blönduna strax heldur bæti þeim þegar ca. 10-15 mínútur af bökunartímanum er liðinn. Á þessari mynd voru þær reyndar með allan bökunartímann (30 mínútur).

Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni


Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni

 

Um daginn gerði ég mangókjúkling með kasjúhnetum og kókos. Hann er afar gómsætur en tekur smá tíma að útbúa. Í kvöld þurfti ég að búa til eitthvað fljótlegt og fyrir valinu varð réttur sem ég sá inni á sænsku matarbloggi. Sósan er ekkert ósvipuð í grunninn og sú í mangókjúklingaréttinum en þessi réttur er mun einfaldari og afskaplega fljótgerður. Í hann er notaður tilbúinn grillaður kjúklingur og í sósuna eru notuð frekar fá hráefni. Þó það sé ekkert dúllað við að rista kókoshnetur og kókos í þessum rétti er hann samt afar bragðgóður. Ef maður fær ekki tilbúinn kjúkling út í búð (hann á það oft til að vera búinn einmitt þegar maður er seint á ferðinni og þarf að gera eitthvað fljótlegt í matinn!) þá er hægt að kaupa einn bakka af kjúklingabringum, skera þær niður í bita og snöggsteikja. Ég átti svo mikið af gulrótum að ég ákvað að prófa að gera uppskrift sem ég sá á netinu um daginn, að karamellusera gulræturnar upp úr smjöri og hrásykri með ferskum, rifnum engifer. Það var afskaplega gott en passar örugglega enn betur með til dæmis með lambalæri.

Uppskrift f. 3-4:

  • 1 grillaður kjúklingur, kjötið hreinsað af beinunum og skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur smátt
  • smjör til steikingar
  • 3 dl matargerðarjómi eða kaffirjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2-3 msk mango chutney
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • salt & pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur lagður í eldfast mót. Púrrlaukur steiktur í smjöri þar til hann er orðinn mjúkur. Mango chutney, rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og nautakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp og sósan smökkuð til með salti og pipar. Sósunni síðan hellt yfir kjúklinginn og hitað í ofni í 15-20 mínútur þar til rétturinn er orðinn heitur í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

 

img_9796

Fiskibollur með karrísósu


Ég er búin að vera lengi á leiðinni að búa til fiskibollur. Heimatilbúnar fiskibollur með karrísósu er svo dásamlega góður matur. Í margumtalaða skemmtilega ræktarhópnum mínum í Heilsuborg (sem er besta heilsuræktarstöðin í bænum! ) var einmitt rætt um fiskibollur í gær. Það kemur svo sem ekkert á óvart þar sem við tölum mjög mikið um mat á meðan við æfum! Ein í hópnum sagðist hafa verið að leita að góðri uppskrift af fiskibollum á netinu, ég tók það auðvitað beint til mín og dreif mig í fiskibollugerðina! 😉 Mér finnst langbest að nota hefðbundna, gamla og góða fiskibollu uppskrift frá mömmu. Ég hélt kannski að þetta væri uppskrift upphaflega frá ömmu en svo var ekki. Mamma gróf upp uppskriftina sína til að kanna uppruna hennar, það kom í ljós að þetta er úrklippa úr Vísi frá árinu 1981. Þar gefur Kristín Andrésdóttir hústjórnarkennari þessa uppskrift af fiskibollum. Reyndar ber hún þær fram með steiktum lauk og brúnni sósu en á okkar heimili er karrísósan vinsælust. Þessi uppskrift af karrísósu er sænsk, hún er rosalega góð og afar auðveld. Það tekur jafnlanga stund að laga þessa sósu eins og að búa til pakkasósu en hún er svo margfalt betri! Mér finnst bæði gott að hafa kartöflur og hrísgrjón með réttinum en vel oftar hrísgrjón því þau fara svo vel með sósunni.

Ég á ekki hakkavél á hrærivélina mína og notaði þvi bara matvinnsluvélina til að búa til deigið í bollurnar. Fiskibollurnar verða þéttari þannig, mér finnst þær betri ef notuð er hakkavél en það er ekkert sem kemur að sök samt. Ég gef upp stóra uppskrift, mér finnst ekki taka því að búa bara til nokkrar bollur, best er að búa til eins stóran skammt og maður  nennir og frysta afganginn. Frábært að geta gripið í fiskibollur úr frystinum. Þessi uppskrift gaf 22 fiskibollur, þær voru líklega í stærri kantinum.

Uppskrift:

  • 1.2 kíló ýsa eða þorskur (ég notaði þorsk)
  • 2 tsk salt
  • dálítill pipar
  • 4 msk hveiti
  • 3 msk kartöflumjöl
  • 2 egg
  • 1 laukur
  • ca 4 dl mjólk
  • smjör til steikingar

Fiskurinn hakkaður ásamt lauknum. Hveiti, karöflumjöli, salti, pipar og eggjum bætt út í fiskhakkið. Að lokum er mjólkinni bætt út í. Bollur mótaðar og þær steiktar upp úr smjörinu á pönnu. Þegar fiskibollurnar hafa náð góðum lit set ég þær í eldfast mót í ofn í við ca. 170 gráður á meðan ég bý til karrísósuna.

Karrísósa:

  • 3 msk smjör
  • 1 tsk karrí
  • 3 msk hveiti
  • ca. 4.5 dl vökvi (hægt að nota vatn, mjólk eða rjóma), ég notaði 1 dl matargerðarrjóma og restina léttmjólk.
  • 1 tsk eða teningur hænsnakraftur

Smjörið brætt og karrí bætt út í og það steikt í smjörinu í stutta stund. Hveitinu bætt út í og blandan pískuð á fremur háum hita þar til hún verður þykk. Þá er vökvanum bætt út í og á meðan er hrært stöðugt í sósunni með písk. Þá er hænsnakraftinum bætt út í. Sósan látin malla í 3-5 mínútur.