Svíþjóðarkaka


Þessi kaka er þekkt í Svíþjóð og kallast því viðeigandi nafni,,Sverigekaka“ eða Svíþjóðarkaka. Hún er líka þekkt undir, að mínu mati, meira óviðeigandi nafni, það er ,pensionärskaka“ eða lífeyrisþegakaka … nokkuð augljóst væntanlega af hverju ég kýs fyrrnefnda nafnið! Voða lítið girnilegt við síðarnefnda nafnið! Þetta afar auðveld kaka að baka en hún þarf að bíða ísskáp í nokkra tíma eða yfir nóttu áður en hún er borin fram. Það er til þess að kremið stífni. Ég bakaði þessa köku að kvöldi og setti hana í kæli yfir nóttu. Daginn eftir komu þrjár vinkonur Jóhönnu Ingu með henni heim úr skólanum. Þær fengu sér allar væna kökusneið og ein þeirra sagði ,,rétt upp hönd sem finnst þetta besta kaka í heimi“! Þær réttu allar upp hönd þannig að kakan fékk háa einkunn í aldurshópnum 7-8 ára! 🙂 Fleirum í fjölskyldunni þótti hún greinilega góð því að skömmu seinna var hún horfin. Það er því óhætt að mæla með Sverigekökunni!

Botn:

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl sjóðandi heitt vatn

Krem:

  • 1 dl mjólk
  • 125 gr smjör
  • 3 msk vanillusykur
Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smelluform (ca 24 cm) smurt. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Þurrefnunum blandað út í ásamt heita vatninu. Deiginu hellt í bökunarformið og kakan bökuð við 175 gráður í 30-40 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað er hún klofin í tvennt. Ég á svona skurðaráhald úr Íkea sem kemur sér vel þegar maður sker ójafnt eins og ég geri!
Krem: Smjör og mjólk soðið saman, hitinn lækkaður og vanillusykri bætt út í. Hrært við vægan hita þar til sykurinn hefur leyst upp (má ekki sjóða eftir að vanillusykurinn fer út í, þá verður kremið beiskt). Leyfið blöndunni að kólna aðeins og hellið henni svo jafnt yfir neðri botn kökunnar. Kremið á að vera í vökvaformi. Efri hluti kökunnar lagður yfir botninn. Plastfilma sett yfir kökuna og hún sett í kæli í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Flórsykur er sigtaður yfir kökuna áður en hún er borin fram og stundum er settur yfir hana glassúr.