Gratíneraður plokkfiskur


PlokkfiskurÁ meðan langri búsetu okkar fjölskyldunar stóð erlendis, kveiknaði oft nostalgísk löngun í íslenskan mat. Ég steikti kleinur, bakaði rúllutertur, bjó til kjötsúpu, fiskibollur og aðra íslenska matrétti um leið og tækifæri gafst. Það var þegar vinir og ættingjar komu í heimsókn með fullar töskur af matvörum af Fróni, matvörur sem maður kaupir alla jafna ekkert endilega mikið af þegar maður býr á Íslandi. Ísskápurinn okkar er að minnsta kosti í dag sjaldan fylltur af flatkökum, hangikjöti, palmín feiti og pítusósu! 🙂 En ennþá hellist samt yfir mig löngun í gamaldags íslenskan mat öðru hvoru. Um daginn voru það fiskibollur, í dag var það plokkfiskur. Mér finnst plokkfiskur agalega góður en bý hann ekki oft til, þyrfti eiginlega að gera hann oftar. Sumir færa plokkfisk í nútímabúning með t.d. hvítlauk, bearnise sósu, krydda með karrí eða öðrum nýjungum. Mér finnst hann bestur hefbundinn eins og maður fékk hann hjá mömmu. Ég hef bara breytt einu, ég set hann inn í ofn með osti. Glænýtt rúgbrauð er bráðnauðsynlegt með plokkfisknum og ekki bara hvaða rúgbrauð sem er. Það þarf að vera rúgbrauð frá Kökugerð HP, það er langbest!

Uppskrift fyrir ca 3:

  • 1/2 laukur, smátt saxaður
  • 50 gr smjör
  • 1/2 -1 dl hveiti
  • 500 gr kartöflur, soðnar
  • 500 gr þorskur eða ýsa, soðinn
  • ca 4 dl mjólk og fiskisoð
  • rifinn ostur
  • salt
  • pipar
  • Nóg af rúgbrauði og smjöri!

img_0546Ofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur soðnar, að því loknu eruð þær flysjaðar. Vatn soðið í stórum potti, salti og pipar (svartur) bætt út í þegar suðan kemur upp. Þá er fisknum bætt út í vatnið, lok sett yfir og potturinn tekinn af hellunni. Fiskurinn veiddur upp úr eftir 5-6 mínútur. Soðið geymt. Smjör og laukur sett í pott og látið malla í smá stund, salt og pipar bætt út í. Hveiti hrært saman við  og þynnt með mjólk og fiskisoði (ég nota ca. 1/3 fiskisoð, 2/3 mjólk).  Þegar jafningurinn er hæfilega þykkur er fisk og kartöflum bætt út í (líka hægt að bera kartöflurnar fram sér og sleppa því að bæta þeim út í plokkfiskinn) og hrært lauslega saman. Kryddað með salti og vel af hvítum pipar. Á þessum tímapunkti er hægt að bera fram plokkfiskinn en það er gott að baka hann í smástund í ofni með rifnum osti. Þá er plokkfisknum hellt í eldfast mót og rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni þar til osturinn hefur bráðnað, í ca. 15 mínútur. Borið fram með rúgbrauði og smjöri. img_0512

Krydduð eplabaka


Mér finnst eiginlega allt gott sem er með eplum eða eplabragði. Samt er ég ekkert sérstaklega hrifin af eintómum eplum, mér finnst ég nefnilega alltaf fá svengdartilfinningu eftir að hafa borðað epli! En ég slepp alveg við svoleiðis vandamál eftir að hafa borðað þessa eplaböku! 😉 Það sem er sérlega ljúffengt við hana er að hún er með bragðgóðum kryddum eins og kanel og engifer. Svo eru í henni heslihnetur sem gera bökuna enn betri. Ég tók þessa með mér í saumaklúbb og stelpunum fannst hún voða góð. Annars eru þær nú svo sætar í sér að þær myndu auðvitað aldrei segja neitt annað! Jóhanna Inga deilir ást minni á eplabakelsi og lá á bæn að ég myndi koma heim með afgang. Það var það fyrsta sem hún spurði um þegar hún vaknaði daginn eftir og var ekkert lítið glöð að heyra að ég hefði geymt smá skammt fyrir hana. Þetta er afar fljótleg baka og auðvelt að búa hana til á meðan kvöldmaturinn er eldaður og bera hana fram heita og ljúffenga með ís eða þeyttum rjóma í eftirrétt!

Uppskrift

  • 4 epli
  • 1/2 dl sykur
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk engifer
  • 1/2 tsk múskat

Deig:

  • 150 gr kalt smjör
  • 1 dl heslihnetur, grófsaxaðar
  • 3 dl hveiti
  • 1/2 dl sykur
  • Þeyttur rjómi eða ís

Aðferð:

Ofninn stilltur á 225 gráður. Smjörið skorið niður í litla bita og blandað við hveiti, sykur og heslihnetur. Best að nota hendurnar til að mylja þetta saman, þannig úr verður eins konar mulningur. Epli afhýdd og rifinn gróft. Sykri og kryddum blandað við rifnu eplin. Eplablandan sett í eldfast smurt mót (ég notaði bökuform sem er ca. 23 cm) og deiginu dreift yfir. Bakað við 225 gráður í ca. 20 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða ís.

Ostafylltar kjúklingabringur í rósapiparsósu


Seinni partinn í gær voru bæði Jóhanna Inga og Vilhjálmur að spila á tónleikum í tónskólanum sínum. Vilhjálmur er búinn að læra á píanó í nokkur ár og Jóhanna var að byrja í forskóla tónlistarskólans þar sem hún æfir á blokkflautu. Henni finnst afskaplega gaman í tónskólanum og hefur náð ótrúlega góðu valdi á flautunni á stuttum tíma. Hún var lengi vel ákveðin í að læra svo á harmónikku! Síðan breyttist það í fiðlu en núna kemur ekkert annað til greina en rafmagnsgítar! Það verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu næsta vetur! 🙂 Vilhjálmur heldur sig við píanóið og er einstaklega duglegur, ég held að hann hafi aldrei spilað eina einustu feilnótu á tónleikum. Þau stóðu sig auðvitað bæði með prýði á tónleikunum í gær og bæði amma og Inga frænka komu til að horfa á.

Vegna tónleikana komum við seint heim og ég útbjó kjúklingarétt sem tekur bara örfáar mínútur að búa til, svo bara eldar hann sig sjálfur í ofninum, svoleiðis réttir eru svo þægilegir! Þetta var alveg ný uppskrift og ég var dálítið efins með hana í fyrstu, en í henni eru fá hráefni sem ég nota ekki oft. Það er gráðostur, rósapipar og estragon krydd. Ég hefði nú ekki þurft að hafa áhyggjur því rétturinn sló í gegn hér heima! Ekki hræðast gráðostinn í réttinum, jafnvel þótt þið borðið hann ekki almennt. Alexander til dæmis er ekki hrifinn af gráðosti en fannst þessi ostafylling svo frábærlega góð. Gráðosturinn verður einhvern veginn mildari þegar hann er eldaður á þennan hátt og kemur svo saman við sósuna. Ég notaði þennan hefðbunda gráðost. Hins vegar er sniðugt að nota Bláan Kastala ef maður vill enn mildara ostabragð. Ég reyndar setti bara venjulegan rifinn ost í kjúklingabringurnar hjá yngstu krökkunum. Sósan var afskaplega bragðgóð, estragon og rósapipar eiga afar vel saman. Rósapipar er ekkert skyldur hvítum, svörtum eða grænum pipar heldur eru þetta lítil ber frá trópísku tré. Rósapipar er seldur þurrkaður (til frá t.d. Pottagöldrum og Prima) og minnir bragðið einna helst á einiber og kóríander, bragðið er svolítið mildara og sætara en þó með smá ,,sting“. Ég notaði matreiðslurjóma og mér fannst sósan skilja sig svolítið. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég notaði ekki hefðbundinn rjóma eða hvort það gerðist þegar gráðosturinn bráðnaði og blandaðist við sósuna. En það kom ekki að sök, sósan var ákaflega bragðgóð. Ég mæli með þessum rétti!

Uppskrift f. 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 125 gr gráðostur (Blár kastali ef maður vill mildari tegund)
  • 2-3 tsk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk estragon krydd
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 tsk rósapipar, mulin t.d. í morteli eða kvörn
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt og skorinn vasi í hlið hverrar kjúklingabringu sem er svo fyllt með gráðosti. Bringunum er svo lokað með því að þrýsta þeim saman. Fylltar kjúklingabringurnar lagðar í eldfast mót og þær penslaðar með sojasósu og estragon kryddinu stráð yfir. Muldum rósapipar hrært saman við rjómann sem er svo hellt yfir bringurnar. Sett inn í 200 gráður heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.
Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Þorskur með chorizo-salsa og blómkálsmauki


Ég held að margar barnafjölskyldur kannist við það vandamál að erfitt reynist að finna matrétti sem hugnast öllum fjölskyldumeðlimum jafn vel. Yngstu krakkarnir okkar, þá sérstaklega Jóhanna Inga, eru alls ekki hrifin af fisk. Þau þurfa samt að smakka allavega einn bita af því sem er í matinn en það er voðalega leiðinlegt að vera með kvöldmat sem hluti af fjölskyldunni borðar ekki. Þess vegna er ég mikið sjaldnar með fisk í matinn en ég kysi sjálf. Í kvöld ákvað ég að prófa dálítið ,,fullorðinslegan“ fiskrétt sem ég vissi svo sem fyrirfram að krakkarnir yrðu ekki hrifin af. Auk þess höfðu þau fengið fisk í hádegismatinn í skólanum. Ég útbjó því einfaldan pastarétt sem þau gæddu sér á, afar ánægð, á meðan ég útbjó fiskréttinn fyrir restina af fjölskyldunni. Í fiskréttinum var chorizo pylsa. Ég átti einmitt leið framhjá Pylsumeistaranum á Hrísateigi í dag og fór inn í þá verslun í fyrsta sinn. Ég hef ekki verið dugleg að nota slíkar pylsur áður og þekki almennt lítið til sterkra pylsa. Í boði voru spænskar og mexíkóskar chorizo pylsur og ég valdi þær fyrrnefndu, þær eru mildari. Rétturinn var góður en óvenjulegur þar sem að hráefnin voru önnur en ég er vön að nota. Fiskurinn er bragðmildur og blómkálsmaukið einnig en chorizo pylsan bragðsterk og hún gefur því mesta bragðið í réttinn. Rétturinn ætti því að slá í gegn hjá unnendum slíkra pylsa.

Uppskrift f. 4

Þorskur

  • 800 gr þorskur
  • ólífuolía
  • sítrónusafi
  • salt og pipar
Blómkálsmauk:
  • 1-2 blómkálshausar, skornir í bita
  • 2-3 kartöflur, afhýdda og skornar til helminga
  • salt
  • 1-2 msk smjör
  • 1-2 msk sýrður rjómi
  • salt og pipar
Chorizosalsa:
  • 3-4 msk furuhnetur eða saxaðar kasjúhnetur
  • ca 1 dl olífuolía
  • ca 150 gr chorizo pylsa, skorin í litla bita
  • 2-4 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð eða fínsöxuð
  • ca 1/4 rauður chili, fínsaxaður
  • 3 sólþurrkaðir tómatar, fínsaxaðir
  • sítrónusafi
  • ferskt timjan, fínsaxað

Best er að byrja á því að saxa og skera hráefnið í chorizosalsað.

Þorskurinn: Þorskurinn penslaður með blöndu af sítrónusafa og ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Fiskurinn er bakaður í ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.

Blómkálsmauk: Kartöflurnar og blómkálið er soðið í ósöltuðu vatni þar til hvor tveggja er orðið mjúkt, ca. 10-15 mínútur. Soðvatninu hellt af og smjöri stappað saman við kartöflurnar og blómkálið. Fyrir fínna mauk er hægt að nota töfrasprota eða matvinnsluvél. Maukið er smakkað til með sýrðum rjóma, salti og pipar.

Chorizosalsa: Furuhneturnar (eða kasjúhnetur) ristaðar á þurri pönnu og þær síðan lagðar til hliðar. Olíu bætt á pönnuna ásamt chorizo pylsu og hún látin malla í ca. eina mínútu. Þá er skarlottulauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og chili bætt út (magn eftir smekk). Þetta er látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur. Að síðustu er hnetunum bætt út í ásamt timjan og salsað smakkað til með sítrónusafa.

Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum


Helgin leið hratt eins og reyndar allir dagar um þessar mundir. Ég hlakka ekkert lítið til þegar ég verð búin með meistararitgerðina mína! Hún hangir yfir mér eins og mara alla daga. Það verður lítill munur á virkum dögum og helgum þegar svona verkefni bíður stöðugt eftir manni í tölvunni og mér finnst ég alltaf vera að svíkjast um ef ég geri eitthvað annað en að skrifa. Fyrir utan það að hafa skrifað meira og minna alla helgina þá voru hápunktar helgarinnar þrír, þegar ég bakaði þessa dásamlegu banana-súkkulaðiköku. Namm, ég þarf að halda aftur að mér að baka hana ekki alveg strax aftur! Á laugardagskvöldinu gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni og við hjónin skruppum í bíó á James Bond og tókum Vilhjálm með okkur. Ég hefði aldrei nennt að fara á frumsýningarhelgi ef ekki væri fyrir Kringlubíó þar sem hægt er að kaupa miða í númeruð sæti. Ég skil ekki af hverju það eru ekki númeruð sæti í öllum bíóhúsum þannig að maður þurfi ekki að lenda í troðning og látum eins og oft vill verða. Mér finnst vera til lítils að kaupa bíómiða fyrirfram á netinu ef maður þarf svo hvort sem er að mæta snemma og troðast áfram til að ná sæmilegum sætum. Ok, Svíinn í mér hefur lokið máli sínu um þetta málefni! 🙂 Jú annars, eitt enn, myndin var mjög góð! Þriðji hápunkturinn var svo heimsókn til ömmu og afa sem var orðið alltof langt síðan að við höfðum hitt. Reyndar má nú kalla sunnudagsmatinn fjórða hápunktinn! Grillað lamabafille með góðu meðlæti. En gott grillað lamba- eða nautakjöt er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Uppskrift:

  • Lambafille
  • olía
  • rósmarín
  • timjan
  • salt
  • pipar
  • hvítlauksrif, pressuð

Kryddi, hvítlauk og olíunni blandað saman, lambafille velt upp blöndunni, pakkað þétt í plastfilmu og látið bíða í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Kjötið svo tekið út og látið ná stofuhita áður en það er grillað. Yfirgrillarinn sá um að grilla kjötið en mér skilst að hann grilli það við fremur háan hita í ca. 6-7 mínútur með fituhliðina niður, 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Þetta fer þó auðvitað eftir þykkt bitanna. Það er þykk fiturönd á kjötinu, það þarf því að fylgjast vel með kjötinu og færa það til við þörfum svo það brenni ekki.

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 4 dl matreiðslurjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Kryddkartöflur með sesamfræjum

  • 1 kíló kartöflur
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk kóríander krydd (ég notaði líka ferskt)
  • 1 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sítrónusafi

Kartöflurnar soðnar og afhýddar. Sesamfræin þurrristuð á pönnu þar til þau fá lit, þá eru þau lögð til hliðar. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Olía hituð á pönnu og cumin ásamt hvítlauk bætt út á pönnuna þar til það hefur fengið lit en má ekki brenna. Kartöflunum bætt út á pönnuna og steikt, hrært í varlega öðru hvoru. Kryddað með kóríander, pipar, cayenne pipar, salti og sítrónusafa. Sesamfræunum bætt við og allt steikt nokkrar mínútur í viðbót, hrært í varlega öðru hvoru.

Banana-súkkulaðikaka


Ég fékk um daginn þessa rausnarlegu gjafakörfu frá Nóa og Siríus í uppskriftasamkeppni sem var á þeirra snærum. Í henni leyndist allskonar góðgæti sem hefur satt best að segja gengið ágætlega á! Í gær átti ég á þrjá banana sem voru orðnir ansi brúnir og ég ákvað að ég yrði að nýta þá í eitthvað gott. Ég gramsaði síðan ofan í gjafakörfunni, sem enn hefur að geyma ýmisskonar gúmmelaði og fann þar poka af suðusúkkulaðidropum frá Nóa og Siríus. Afraksturinn af samrunanum sem átti sér stað í framhaldinu var snilldin ein! Banana-súkkulaðikaka sem er afskaplega auðveld að baka og dásamlega ljúffeng.  Kakan var enn volg þegar ég bar hana fram og hún var auðvitað afar ljúffeng þannig. En ég náði að smakka síðasta bitann þegar hún var orðin köld og þá var hún eiginlega betri! Með dálitlum þeyttum rjóma þá er orðin til afar gómsætur eftirréttur.  Þið bara verðið að prófa þessa! Næst ætla ég að blanda bæði hvítu og dökku súkkulaði í kökuna.

Annars drógum við krakkarnir fram í dag ,,jól í skókassa“ kassann okkar. Ég vona að flestir þekki til þessa verkefnis, en KFUM og KFUK standa fyrir því frábæra framtaki árlega. Verkefnið snýst um að safna jólagjöfum í skókassa fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu. Ég safna hlutum (og stórum skókössum!) allt árið fyrir þetta verkefni og í dag drógum við krakkarnir fram allt góssið til að skoða hvað vantaði upp á. Lokaskiladagur er 10. nóvember og ég vona innilega að sem flestir taki þátt í þessu þarfa og þakkláta verkefni!

Uppskrift:

  • 75 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk mjólk
  • 1/4 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 2-3 þroskaðir bananar (ég notaði 3 litla)
  • 150 gr suðusúkkulaðidropar eða suðusúkkulaði, saxað smátt
  • 2 1/2 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi

Aðferð

  1. Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin aðskilin og eggjahvítan þeytt þar til hún verður stíf.
  2. Smjör brætt í potti við vægan hita, kælt dálítið.
  3. Sykur, mjólk, salt og vanillusykur sett í skál ásamt brædda smjörinu og hrært.
  4. Eggjarauðunum bætt út í.
  5. Bananar stappaðir og þeim hrært út í deigið ásamt súkkulaðinu.
  6. Hveiti og matarsóda blandað út í og hrært
  7. Að síðustu er eggjahvítunum bætt varlega út í með sleikju.
  8. Deiginu hellt í smurt tertuform (smelluform eða sílíkonform, ca. 24 cm) og bakað í ofni við 175 gráður í 30-40 mínútur. Best er ef kakan er enn dálítið blaut í miðjunni þegar hún er tekin út úr ofninum. Kakan er dásamlega góð borin fram með þeyttum rjóma eða ís og hún er ekki síðri þegar hún er orðin köld, jafnvel betri!

Mexíkóskt burritogratín


Mexíkóskur matur er alltaf jafn vinsæll heima hjá okkur. Ég gerði þetta burritogratín í nýrri útgáfu. Ástæðan var einföld, ég uppgötvaði að hrísgrjónin voru búin en hins vegar átti ég perlukúskús. Það er eins og kúskús en kúlulaga, stærra og þykkara, með eins og pastaáferð. Afskaplega gott og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, sérstaklega krökkunum. Það kom afar vel út að nota perlukúskús í þennan rétt, ég held að ég taki það fram yfir hrísgrjónin. Perlukúskús er til í Hagkaup, Þinni verslun, hjá Tyrkneskum bazar og örugglega í fleiri verslunum en ég hef hvorki séð það í Krónunni eða Bónus enn.

Uppskrift:

  • 8 burrito eða tortilla pönnukökur
  • 1 krukka fajitasósa eða önnur salsasósa
  • 2-3 rauðar paprikur, skornar í bita
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 500 gr kjúklingabringur, eða kjöt af heilsteiktum kjúkling
  • 2 dl hrísgrjón, ósoðin (ég notaði perlukúskús)
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 lítil dós gular maísbaunir
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 tsk sambal oelek
  • salt og pipar
  • paprikukrydd

Hrísgrjónin soðin. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingabringur skornar í litla bita. Kjúklingur, rauðlaukur og paprika steikt á stórri pönnu. Því næst eru soðnu hrísgrjónunum, maísbaunum, sambal oelek og salsasósunni bætt út í og látið malla í smá stund.

Pressuðum hvítlauk bætt við sýrða rjómann og hann bragðbættur með salti, pipar og parprikukryddi. Sýrðum rjóma smurt á hverja tortillu eða burrito pönnuköku fyrir sig. Því næst er ríflega helmingnum af kjúklingasósunni skipt á milli pönnukakanna, þeim rúllað upp og raðað í eldfast mót. Afgangnum af kjúklingasósunni er dreift yfir og ef afgangur er af sýrða rjómanum er honum dreift yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn og hann bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og tekið lit. Borið fram með góðu salati. Einnig hægt að bjóða með réttinum meiri salsasósu, sýrðan rjóma og/eða guacamole.

Kókoskúlur – Jóhanna og Katla gestablogga!


Kókoskúlur eru auðvitað bara klassískar og eiga heima í öllum uppskriftasöfnum. Í vetrarfríinu kom Katla vinkona Jóhönnu í heimsókn og fékk að gista. Næsta dag langaði þær stöllur að baka eitthvað gott. Ég var að reyna að vinna í ritgerðinni minni og stakk því upp á einföldum kókoskúlum. Sú tillaga féll vel í kramið og vinkonurnar gátu útbúið þær alveg sjálfar. Jóhanna varð stórhneyksluð þegar hún komst að því að ég væri ekki með uppskrift af kókoskúlum hér inni á blogginu og krafðist þess að við myndum bjarga því! Hún skrifaði upp uppskriftina og svo hófust þær vinkonur handa. Þær veltu helmingnum upp úr kókosmjöli og hinum helmingnum upp úr sænskum perlusykri. Því miður virðist ekki hægt að fá sænskan perlusykur hér á landi. Sá perlusykur sem fæst hér er í sömu umbúðum og sá í Svíþjóð en innihaldið er ekki það sama. Hér á myndinni sést munurinn, þessi til vinstri (glær) fæst hér á landi en þessi til hægri (hvítur) fæst í Svíþjóð. Ég kaupi því minn perlusykur í Svíþjóð.

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 1 dl sykur
  • 3 dl haframjöl
  • 2 msk. kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 msk síróp
  • kókosmjöl og/eða perlusykur til að velta kúlunum upp úr

Allt sett saman í skál og hrært. Rúllað í litlar kúlur og þeim velt upp úr perlusykri eða kókosmjöli. Kókoskúlurnar settar í kæli í smá tíma áður en þær eru bornar fram.

Pastagratín með nautahakki og ostasósu


Ég var búin að finna spennandi uppskrift af pastagratíni með nautahakki sem mig langaði að prófa. Í gærkvöldi átti ég hakk og ákvað að prófa réttinn. En þá uppgötvaði ég að eiginlega ekkert annað var til sem þurfti í uppskriftina! Mér finnst alltaf dálítið spennandi að reyna að spinna úr hráefnum sem ég á til þannig að ég réðst í breyta réttinum í samræmi við þau hráefni sem ég fann í ísskápnum. Ég notaði til dæmis pepperoní í stað chorizo pylsu, bjó til rjómaostasósu í stað þess að nota sýrðan rjóma og gerði ýmsar aðrar breytingar. Þetta varð eiginlega eins og lasagna ,,with a twist“! Rétturinn kom mjög vel út, hann fékk hæstu einkunn hjá öllum í fjölsksyldunni. Ekki síst yngstu krökkunum, ég held að Vilhjálmur hafi fengið sér allavega þrisvar eða oftar á diskinn!

Uppskrift:

  • 400 gr pasta
  • 800 gr nautahakk
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 1 teningur eða 1 msk nautakraftur
  • 1 bréf pepperóni
  • salt & pipar
  • heitt pizzukrydd eða annað gott krydd
  • rifinn ostur

Ostasósa: 

  • 40 gr smjör
  • 40 gr hveiti
  • ca 4-5 dl mjólk
  • 100 gr rjómaostur
  • 1-2 dl rifinn ostur
  • múskat
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk og hvor tveggja steikt á pönnu upp úr olíu. Því næst er hakkinu bætt á pönnuna og það steikt. Pepperóni er skorið niður í bita og því bætt út á pönnuna ásamt nautakrafti, niðursoðnum tómötum og tómatpúrru bætt út í. Kjjötsósan krydduð eftir smekk (mér finnst gott að krydda hana vel!) og hún svo látin malla á vægum hita, á meðan er ostasósan útbúin.

Ostasósa: Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti og rjómaosti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar.

Ostasósan sett á botninn á eldföstu móti, því næst er pasta dreift yfir, þá kjötsósunni og svo koll af kolli. Endað á kjötsósu og ostasósu (pastað verður hart ef það lendir efst) og þá er rifnum osti dreift yfir og rétturinn bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað.

Kanilsnúðar með vanillukremi


Jóhanna Inga er búin að tala um sænsku snúðana með vanillu- og rjómaostakremi hér um bil daglega síðan ég bakaði þá síðast. Þeir eru í algjöru uppáhaldi hjá henni og reyndar okkur hinum líka. Ég lofaði Jóhönnu að baka snúða um síðustu helgi en langaði svo að prófa nýja spennandi kanilsnúða uppskrift sem ég sá á sænskum uppskriftavef. Það reyndist vera góð ákvörðun þar sem allir á heimilinu kolféllu fyrir þessum nýju snúðum! Dómurinn frá Alexander var að þetta væru ,,snúðar á öðru leveli en allir aðrir snúðar!“. Vilhjálmi fannst þeir ,,geðveikt góðir“ og ég held að ég taki undir með þeim báðum. Vanillukremið setti sannarlega punktinn yfir i-ið!  Deigið var afar þægilegt að vinna með, ekkert mál að fletja það út. Ég var eiginlega áhyggjufull yfir því að snúðarnir yrðu ekki nógu mjúkir þar sem að deigið var ekkert blautt en snúðarnir urðu lungnamjúkir. Venjulega hef ég brætt smjör og kanilsykur í fyllinguna þegar ég baka kanilsnúða. En í þessari uppskrift er notað smjör við stofuhita sem er hrært við kanilsykur og vanillusykur. Þetta er snilldarfylling sem er mjög auðvelt og fljótlegt að dreifa yfir deigið og afar bragðgóð. Ég mun örugglega nota hana áfram í framtíðinni þegar ég geri kanilsnúða. Vanillukremið gerir svo snúðana sérstaklega ljúffenga. Þetta er stór uppskrift af vanillukremi og það er gott að reyna að nota hana alla. Mikilvægt er að sprauta kreminu þétt inn í snúðana, byrja að sprauta alveg á botni plötunnar og fylla snúðana vel af kremi. Það verða 6 eggjahvítur afgangs af þessari uppskrift og þær er tilvalið að nota í þennan einfalda en ljúffenga eftirrétt. Ég notaði þær reyndar í að útbúa stóra og girnilega eggjaköku (bætti við tveimur heilum eggjum) í hádegismat.

Vanillukrem:

  • 1 vanillustöng
  • 5 dl mjólk
  • 8 msk sykur, 3+5
  • 6 eggjarauður
  • 1 dl maizenamjöl

Vanillustöngin er klofin á lengdina og fræin skafin úr. Mjólk, vanillukornin og þrjár matskeiðar af sykrinum sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Eggjarauður og fimm matskeiðar af sykri þeytt saman ásamt maizenamjölinu þar til blandan verður létt. 1/3 af heitu mjólkurblöndunni sigtað út í og þeytt þar til blandan verður slétt. Þár er restinni af mjólkurblöndunni bætt út í og þeytt áfram þar til blandan verður slétt. Blöndunni hellt aftur í pott og hún hituð við vægan til miðlungs hita og hrært stöðugt í á meðan þar til kremið þykknar. Þá er það tekið af hellunni og kælt.

Fylling:

  • 150 gr smjör við stofuhita
  • 1 1/3 dl sykur
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 1/2 msk kanill

Öllum hráefnunum hrært saman.

Snúðar:

  • 50 gr ferskt ger eða 1 bréf þurrger (bréfið er yfirleitt 12-15 grömm)
  • 5 dl volg mjólk
  • 2 1/3 dl sykur
  • 1 tsk salt
  • 200 gr smjör við stofuhita, skorið í bita
  • ca 17-18 dl hveiti
  • smör til að smyrja formið með

Ofninn stilltur á 200 gráður. Ger leyst upp í mjólkinni í skál og sykri bætt út í. Því næst er smjöri, salti og hveiti bætt út í. Deigið hnoðað þar til það verður slétt og samfellt, ca. 5 mínútur í vél eða ca. 10 mínútur í höndunum. Dálitlu hveiti stráð á borðið og deigið flatt út, ca. 34×60 cm. Fyllingunni smurt á deigið og því rúllað saman (frá lánghliðinni) í lengju eins og rúllutertu. Lengjan skorin í ca. 2 cm breiða sneiðar. Ofnskúffa smurð að innan og snúðunum raðað fremur þétt á plötuna, plastfilma breidd yfir snúðana og þeir látnir hefast í 1-2 klukkutíma. (Það urðu þrír snúðar afgangs sem ég kom ekki í ofnskúffuna og ég setti þá í muffinsform og bakaði þá í ca. 12 mínútur).  Þegar snúðarnir hafa hefast nægilega er vanillukremið sett í rjómasprautu, henni er þrýst í gegnum miðjuna á hverjum snúð og kreminu sprautað í. Best er að byrja að sprauta niðri við plötu og færa sprautuna hægt upp á meðan sprautað er. Svo mikilu kremið skal sprautað í snúðana að það þrýstist upp á yfirborðið. Snúðarnir eru bakaðir neðarlega við 200 gráður í ca. 25 mínútur. Bestir eru snúðarnir bornir fram heitir en eftir það er gott að hita þá örlítið upp í örbylgjuofni áður en þeir eru bornir fram.