Kókoskúlur eru auðvitað bara klassískar og eiga heima í öllum uppskriftasöfnum. Í vetrarfríinu kom Katla vinkona Jóhönnu í heimsókn og fékk að gista. Næsta dag langaði þær stöllur að baka eitthvað gott. Ég var að reyna að vinna í ritgerðinni minni og stakk því upp á einföldum kókoskúlum. Sú tillaga féll vel í kramið og vinkonurnar gátu útbúið þær alveg sjálfar. Jóhanna varð stórhneyksluð þegar hún komst að því að ég væri ekki með uppskrift af kókoskúlum hér inni á blogginu og krafðist þess að við myndum bjarga því! Hún skrifaði upp uppskriftina og svo hófust þær vinkonur handa. Þær veltu helmingnum upp úr kókosmjöli og hinum helmingnum upp úr sænskum perlusykri. Því miður virðist ekki hægt að fá sænskan perlusykur hér á landi. Sá perlusykur sem fæst hér er í sömu umbúðum og sá í Svíþjóð en innihaldið er ekki það sama. Hér á myndinni sést munurinn, þessi til vinstri (glær) fæst hér á landi en þessi til hægri (hvítur) fæst í Svíþjóð. Ég kaupi því minn perlusykur í Svíþjóð.
- 100 g smjör
- 1 dl sykur
- 3 dl haframjöl
- 2 msk. kakó
- 1 msk vanillusykur
- 1 msk síróp
- kókosmjöl og/eða perlusykur til að velta kúlunum upp úr
Allt sett saman í skál og hrært. Rúllað í litlar kúlur og þeim velt upp úr perlusykri eða kókosmjöli. Kókoskúlurnar settar í kæli í smá tíma áður en þær eru bornar fram.