Bananakaka með kanilívafi


Bananakaka með kanilívafi

Núna er kominn nóvember og aðventan mun skella á áður en þið vitið af – trúið mér! Í ár hef ég sett sjálfri mér afar háleit markmið varðandi jólin og þetta „búin að öllu fyrir jólin“ dæmi! Þannig er mál með vexti að síðastliðin ár hef ég verið í meistaranámi í háskólanum og ég get staðfest það að þegar húsmóðir þarf að fara í jólapróf, svo ekki sé talað um að skila af sér meistararitgerð fyrir jól auk þess að eiga eiginmann sem er á vöktum sólarhringum saman, þá hefur það býsna slæm áhrif á jólaundirbúninginn – eða réttara sagt andlega heilsu húsmóðurinnar. Ég er svona týpa sem vil ekki slá af neinu, mér dytti til dæmis aldrei í hug að sleppa því að senda út 100 stykki jólakort. Í fyrra var ég að skila af mér meistararitgerðinni minni um jólin, vann við hana nótt og dag og ákvað því að pakka inn jólagjöfunum á mjög einfaldan hátt, þetta varð útkoman.

548770_485563878151708_1794840187_nJá, þið skiljið kannski vandamálið! Fyrir nokkrum árum setti einhver vinur minn á Facebook status á Þorláksmessukvöldi um að viðkomandi væri búinn að öllu og sötraði hvítvínsglas við kertaljós (sem ætti að vera ólöglegur status by the way!). Á þeim tímapunkti sat ég sveitt við jólagjafainnpökkun, þrif og fleira og hét sjálfri mér því að næstu jól þá væri það ég sem sæti með hvítvínsglas á Þorláksmesskvöld við arineld, búin að öllu. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta einfaldlega ekki tekist enn. Hluti af vandamálinu er að ég er með frestunaráráttu í sambland við fullkomnunaráráttu – blanda sem virkar býsna illa verð ég að segja. Í ár mun þetta hins vegar takast hjá mér, ég finn það á mér! Núna er markmiðið mitt að vera búin að pakka inn jólagjöfum, gera jólakort, kaupa jólaföt á börnin og allt þetta sem þarf að gera fyrir jólin, áður en aðventan rennur upp. Svo ætla ég bara að njóta aðventunnar án nokkurra kvaða. Ég ákvað að skrifa þetta hér á alheimsnetið til þess að veita sjálfri mér aðhald! 😉 Í guðanna bænum ýtið við mér þegar aðventan nálgast – ég ætla að standa við þetta í ár! Satt að segja er ég komin vel áleiðis, ég er næstum því búin með jólagjafirnar, búin að kaupa jólafötin á börnin og er að byrja að vinna í jólakortunum!

Þessar jólahugleiðingar eiga svolítið við uppskrift dagsins því í henni er kanill og kanill er jú einstaklega jólalegt krydd. Ég elska kanil, sérstaklega í allskonar bakkelsi. Ég elska líka bananakökur. Það var því meiri snilldin að blanda þessu tvennu saman. Kakan sló í gegn hjá fjölskyldunni, þið verðið bara að prófa hana um helgina! 🙂

IMG_0946

Uppskrift:

  • 130 g smjör
  • 200 g sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 260 g Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk kanill
  • 2 stórir bananar eða 3 litlir, stappaðir

Kanilsykurblanda

  • 1 dl sykur
  • 2 msk púðursykur
  • 3 tsk kanill

Ofn hitaður í 175 gráður og smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært saman þar til að blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er vanillusykri, hveiti, matarsóda og kanil bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast saman. Að lokum er stöppuðum banönum blandað vel saman við deigið. Bökunarformið er smurt að innan og 1/3 af deiginu er smurt yfir botninn á forminu. Hráefnunum í kanilsykurblöndunni er blandað vel saman og 1/3 hennar dreift jafnt yfir deigið.

IMG_0930Þá er helmingnum af deiginu sem eftir er smurt yfir kanilsykurblönduna. Það er allt í lagi þó það náist ekki alveg að dreifa úr deiginu út í alla kanta. Því næst er helmingnum af kanilsykurblöndunni dreift yfir deigið. Að lokum restinni af deiginu smurt ofan á og endað á því að strá restinni af kanilsykurblöndunni yfir. Bakað í ofni við 175 gráður í 45-55 mínútur eða þar til kakan er farin að losna frá köntunum og kökuprjóni sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn út.

IMG_0950

Parmesanristaðar kartöflur


Parmesanristaðar kartöflur

Þetta er svo spennandi tími árs því nú er gósentíð í bókaútgáfu, þegar allar bækurnar koma út fyrir jólin. Þar sem ég starfa á skólabókasafni þá eiga barna- og unglingabækurnar hug minn allan. Ég nota hvert tækifæri til þess að koma við í bókabúð og skoða nýútkomnar bækur. Fyrir utan innihaldið þá skoða ég bækurnar kannski svolítið á annan hátt en aðrir. Til dæmis spái ég í leturgerðina sem er ákaflega mikilvæg í barnabókum. Ég skoða líka myndirnar, til dæmis eru forsíðumyndirnar á barnabókum ótrúlega mikilvægar. Krakkarnir „mínir“ sneiða til að mynda ítrekað framhjá ákveðnum bókaflokki sem er mjög skemmtilegur en með afar óspennandi myndum á forsíðunum. Að auki skoða ég uppsetningu, hvernig bækurnar eru innbundnar og margt annað. Ég horfi líka alltaf á höfundanafnið og út frá því raða ég í huganum viðkomandi bók í rétta hillu á bókasafninu mínu, svona til að átta mig á hvar hún muni eiga heima – pínu nördalegt, ég veit! 🙂 Þó svo að barnabækurnar eigi hug minn allan þá fylgja uppskriftabækurnar þar fast á eftir. Í ár virðist vera ár matarbloggara þegar kemur að útgáfu matreiðslubóka. Um daginn minntist ég einmitt á bókina hans Steingríms sem rekur matarvefinn Vínótek, vissulega ekki beint matreiðslubók en afar fróðleg og falleg bók um vín. Nanna Rögnvaldsdóttir, matarbloggari með meiru, var að gefa út matreiðslubók með kjúklingauppskriftum og von er á matreiðslubók eftir Evu Laufeyju Kjaran.

Í dag var svo útgáfufagnaður fyrir matreiðslubók Ragnars Freys, læknisins í eldhúsinu. Ég held að það sé hægt að fullyrða að hann sé einn af fyrstu íslensku matarbloggurunum (ásamt Nönnu Rögnvalds) en hann byrjaði að blogga fyrir sjö árum. Mér áskotnaðist nýútkomna bókin hans, Læknirinn í eldhúsinu – tími til að njóta.

IMG_1023

Hún er tæplega 500 síður og ákaflega fallega innbundin, augnayndi fyrir uppskriftabókahilluna og happdrættisvinningur fyrir bragðlaukana! 😉 Þetta er svo mikill doðrantur að ég hef ekki enn lesið í gegnum hana alla en vá hvað mér líst vel á þessa bók! Ótrúlega girnilegar og spennandi uppskriftir. Ragnar segir sjálfur í formálanum að honum hafi verið legið á hálsi að vera stundum með of flóknar uppskriftir á blogginu. Matreiðslubókin hins vegar er með afar aðgengilegum og einföldum uppskriftum. Að hverri uppskrift er stuttur inngangur, líkt og á blogginu, sem er gaman að lesa. Oft og tíðum finnst mér galli á uppskriftabókum að í þeim eru bara örfáar uppskriftir sem mann langar til að prófa. Eftir að hafa flett í gegnum lungann af bókinni hans Ragnars þá verð ég að segja að þetta vandamál á ekki við um hans bók, mig langar að prófa hverju einustu uppskrift! 🙂 Ég get sannarlega mælt með þessari bók í jólapakkann og óskar Ragnari Frey innilega til hamingju með þetta stórvirki!

IMG_1030

Uppskriftin sem ég skrái hins vegar hérna á bloggið mitt í dag er að dásamlega góðum parmesan kartöflum sem passa sem meðlæti með flestu. Ég var búin að sjá þessa uppskrift í nokkrum útgáfum á mörgum erlendum bloggum og varð að prófa. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum, þetta er frábær uppskrift.

Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt (eða keyptur rifinn í pokum)
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með).

IMG_0597

Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum.

IMG_0650

Mozzarellafylltar kjötbollur í chili-rjómasósu


IMG_0866

Ég á enn frekar mikið eftir af nautakjötinu sem ég keypti beint af býli síðastliðið vor og er í smá átaki að nýta það góða kjöt. Að þessu sinni horfði ég á girnilegar mozzarellakúlur í ísskápnum og ákvað að sameina þær við nautahakkið sem ég var búin að taka úr frystinum. Eins og svo oft áður þegar ég byrja að vinna með mozzarellaost þá fylgja tómatar og fersk basilika í kjölfarið bara svona ósjálfrátt – það er bara svo góð blanda! Ég átti líka til ljúffenga Philadelphia ostinn með sweet chili en mér finnst bragðbættu Philadelphia ostarnir alltaf gefa ákaflega góðan grunn í sósur. Ég verð að segja að þetta samankurl hjá mér lukkaðist svona ljómandi vel og fjölskyldan var afar ánægð með matinn.

Uppskrift:

  • 1 kíló nautahakkIMG_0855
  • 1 egg
  • 1/2 – 1 tsk chili flögur eða duft (ég notaði chili explosion)
  • grófmalaður pipar
  • salt (ég notaði flögusalt með chili)
  • 1 poki litlar mozzarellakúlur (120g -12 stykki)
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 box Philadelphia ostur með sweet chili (200 g)
  • 3-4 dl léttmjólk eða rjómi – hægt að nota allt þar á milli, t.d. matreiðslurjóma
  • 1/2 -1 dl sweet chili sósa
  • 1 askja kokteiltómatar
  • fersk basilika, söxuð gróft

IMG_0859

Nautahakkinu er blandað vel saman við kryddin og eggið. Því næst eru mótaðar 12 bollur og gerð djúp hola í hverja þeirra. Einni mozzarellakúlu er stungið ofan í hverja bollu og henni lokað þétt og vel. Því næst eru bollurnar steiktar upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu á öllum hliðum þar til þær hafa fengið góða steikingarhúð. Þá er Philadelphia ostinum bætt á pönnuna, hann látinn bráðna ásamt mjólkinni/rjómanum. Þá er sósan bragðbætt með sweet chili sósunni, hrært vel saman. Látið malla undir lokið í ca. 10 mínútur, sósan bragðbætt með pipar og/eða salti ef vill. Þá er kokteiltómötum bætt út í sósuna og allt látið malla í smástund eða þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en bollurnar eru bornar fram er ferskri basiliku dreift yfir. Borið fram með hrísgrjónum.

IMG_0913IMG_0885

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði


Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Nú er ég komin heim úr frábærri Bostonferð. Ekki nóg með að borgin sjálf sé dásamlega falleg og bauð okkur upp á frábært veður, mat, drykk og verslanir heldur var félagsskapurinn ekki af verri endanum. Við vorum saman átta æskuvinkonur, nokkrar okkar hafa meira að segja verið saman í bekk alla tíð síðan í 1. bekk í grunnskóla. Þessi hópur var ávísun upp á viðburðaríka daga og fjörug kvöld. Við gerðum vel við okkur í mat og drykk auk þess sem við versluðum svolítið. Einhverjum fannst það kannski meira en „svolítið“ því það var gengið upp að okkur í verslunarmiðstöðinni og okkur þakkað fyrir að bjarga ekónómíu Bandaríkjanna – grínlaust! Mér tókst að versla hér um bil allar jólagjafirnar og einnig keypti ég allskonar spennandi eldhúsvörur sem ég hlakka til að taka í notkun. Jamm, ég lagði mitt að mörkum fyrir Obama! 😉

Ég er nú enn að jafna mig eftir ferðina tímalega séð. Ég fór í vinnuna beint eftir svefnlaust næturflug og hef verið að berjast við að snúa sólarhringnum við. Helgin var að auki þéttskipuð hjá okkur og lítill tími gefist til að slaka á eða jafnvel taka upp úr töskunum. Ég hafði dregið það lengi að halda upp á afmæli Jóhönnu Ingu fyrir bekkinn hennar. Hún vildi bjóða öllum 23 stelpunum í bekknum og ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að leysa það. Að lokum ákvað ég að leigja sal hjá fimleikafélagi Bjarkar sem var frábær hugmynd. Þar gátu stelpurnar leikið sér í skemmtilegum sal með til dæmis svampi í gryfju sem var afar vinsælt. Svo buðum við upp á pizzur og köku. Jóhanna Inga vildi köku með „Aulanum ég“ þema og ég bjó því til eina slíka. Eins og ég hef skrifað áður þá hef ég mjög gaman af því að baka en er enginn snillingur í skreytingum, eiginlega er ég með þumla á öllum þegar kemur að föndri! Að auki hafði ég varla nokkurn tíma til að útbúa kökuna og varð því að finna fljótlega lausn. Mér fannst þessi útfærsla af sundlaugarköku bæði sniðug og einföld. Ekkert meistaraverk en Jóhanna var afskaplega ánægð með kökuna sína og þá var takmarkinu náð.

IMG_0790

Auk þess sem við héldum upp á afmælið núna um helgina fórum við í veislu, á tónleika, í leikhús og út að borða, það hefur því verið nóg að gera.

Mig langaði í dag að setja inn uppskrift að óskaplega einföldum eftirrétti en frábærlega góðum. Þessi réttur er dálítið í takti við annríki helgarinnar sem var að líða því þetta er réttur sem ég gríp oft til ef ég þarf að útbúa eftirrétt með engum fyrirvara. Það er best að bera fram vanilluís með þessum rétti en toppurinn finnst mér að senda eiginmanninn út í ísbúð á meðan ég útbý réttinn og bera svo fram með honum ljúffengan rjómaís beint úr vél í íssbúðinni!

Uppskrift f. ca. 5-6

  • 500 g jarðaber
  • 2 stórir  bananar
  • 4 kiwi
  • 2 perur (vel mjúkar)
  • 100 – 150 g hvítt súkkulaði
  • grófur eða fínn kókos (má sleppa)

Ofn hitaður í 200 gráður. Grænu laufin skorin af jarðaberjunum og þau skorin í tvennt eða fernt, fer eftir stærð. Bananar skornir í sneiðar. Kíwi afhýdd og skorin í bita. Perurnar eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í bita. Ávöxtum og berjum blandað saman í passlega stórt eldfast mót (líka hægt að setja hæfilegan skammt í lítil form og bera fram fyrir hvern og einn). Hvíta súkkulaðið er saxað niður (eða notaðir hvítir súkkulaðidropar) og dreift yfir ávextina og berin. Ef maður vill er að auki hægt að strá smá kókos yfir í lokin. Hitað í ofni í um það bil 10 – 15 mínútur við 200 gráður eða þar til súkklaðið er bráðnað og hefur fengið smá lit. Borið fram strax heitt með góðum vanilluís.

Gratineraðir ávextir og ber með hvítu súkkulaði

Baunaspírur


Baunaspírur

Ég má til með að deila einni snilld með ykkur. Fyrir nokkru síðan fór ég í Nettó og þar var verið að kynna svo góðar baunaspírur. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifin af alfalfaspírum og nota þær mikið ofan á brauð og í salöt. Þessar spírur fannst mér einstaklega ferskar og góðar, ég skrifaði einmitt um það í þessari bloggfærslu. Framleiðandinn er Ecospira í Hafnarfirði og ég var yfir mig spennt um daginn þegar ég sá að þeir eru farnir að selja spírurnar í áskrift.

Núna er ég sem sagt orðin áskrifandi af brakandi ferskum baunaspírum sem ég fæ einu sinni í viku. Í pakkanum er 200 gröm af blönduðum spírum, til dæmis brokkolíspírur, alfalfaspírur og radísuspírur. Allar þessar spírur er víst ofurhollar og stútfullar af vítamínum og andoxnarefnum. Núna langar mig að finna fleiri notkunarmöguleika á spírunum. Ef þið lumið á góðum uppskriftum þar sem allskonar baunaspírur eru notaðar þá endilega deilið þeim með mér! 🙂

Hér er blandan sem ég fékk í þessari viku.

Baunaspírur

  • Radísuspírur, grænar með rauðum stilk, dálítið beittar.
  • Blaðlauksspírur, grænar, langar og mjóar með svörtu á endunum.
  • Alfalfaspírur, ljósgrænar með ljósbrúnu hismi á, smágerðar og mildar.
  • Brokkólí- & smáraspírur, grænar smágerðar, milt grænmetisbragð og örlítið stökkar.
  • Blanda dagsins, blanda af mungbaunum, kjúklingabaunum, rauðum linsum og grænum ertum.

Þessi blanda kostar bara 1000 krónur sem mér finnst mjög gott verð. Ég hef líka séð að spírurnar eru til í flestum matvöruverslunum.

IMG_0735

Í dag fékk ég mér nýbakað og gómsætt gróft brauð. Ég setti fyrst á brauðið hreinan Philadelphia ost, þá alfalfaspírur og svo tómat-avokado salsa. Ég dreifi síðan yfir þetta allt örlítið af grófmöluðum svörtum pipar og smá maldon salti – ljúffengt!

IMG_0742

Núna ætla ég að einbeita mér af því að verða frísk fyrir morgundaginn en ég er að fara til Boston með saumaklúbbnum mínum, ferð sem við höfum safnað fyrir og skipulagt í nokkur ár! Það má því með sanni segja að spennan sé í hámarki núna í kvöld! 🙂 Ég nældi mér hins vegar í kvef og ljótan hósta, alveg hreint óþolandi tímasetning á veikindum. Það er ekki í boði að taka með þessi veikindi til Boston og ég ætla því að borða mikið af þessum hollu baunaspírum í kvöld og skola þeim niður með tei! 😉

Það mun væntanlega ekki gerast mikið á blogginu á næstu dögum þegar ég verð erlendis. En í næstu viku kem ég endunærð heim úr þessari menningarferð (*hóst*) og þá fer bloggið aftur á fullt, meðal annars með skemmtilegum leik þar sem þessi spennandi verðlaun munu koma við sögu.

IMG_0544

Piparsteiktur þorskur á núðlubeði


Piparsteiktur þorskur á núðlubeðiÞað er kannski ekki hefðbundið að hafa núðlur með þorski en maður minn hvað þessi réttur var góður. Ég notaði þorskhnakka sem voru svo þykkir og djúsí. Ég hef skrifað um það áður hve hrifin ég er af þorski, mér finnst hann svo mikið betri en ýsan til dæmis. Ég verð að segja að þessi réttur kom mér skemmtilega á óvart og samsetningin var frábær, þetta er eiginlega eins og hálfgerð núðlusúpa borin fram með fiski. Ég ætla samt að passa mig betur á piparnum næst, mér fannst fiskurinn verða of sterkur fyrir minn smekk – enda sést það nú á myndunum að ég hafði ekki sparað piparinn! 🙂 Elfar hins vegar sem er afar hrifinn af piparsteikum, piparsósum og almennt öllu sterku, fannst fiskurinn alveg mátulega kryddaður og var afar hrifinn af fisknum svona vel pipruðum.

Uppskrift:

  • 800 g þorskur (ég notaði fiskhnakka), skorin í hæfilega stór stykki
  • maldon salt (ég notað Saltverks salt)
  • 3 tsk heil piparkorn
  • 1 tsk rósapipar
  • 3 stórar gulrætur, skornar í þunna stafi
  • 1 stór rauðlaukur, skorin í strimla
  • 1 stór paprika, skorin í strimla
  • 5 dl fiskikraftur
  • 1,5 msk sojasósa
  • 1,5 ts worchesters sósa
  • 1-2 ts sítrónusafi
  • ca. 1 msk balsamedik
  • núðlur
  • ólífuolía
IMG_0148
Dásamlega gott – mæli samt með að þið notið aaaðeins minna af pipar á ykkar fisk! 

Ofn hitaður í 180 gráður. Piparkornin eru ristuð á pönnu þar til þau byrja að „poppa“ aðeins. Þá eru þau mulin í morteli (eða með hnífsskafti) og sett á disk. Fiskurinn er kryddaður með dálitlu maldon salti og annarri hliðinni síðan þrýst létt á piparinn. Farið mjög varlega í piparinn og sleppið honum jafnvel fyrir börn og viðkvæma. Það er líka bara gott að salta og pipra fiskinn létt á hefðbundinn hátt. Því næst er piparhliðin steikt á pönnu upp úr smjöri þar til myndast hefur góð steikingarhúð. Svo er fiskurinn lagður í smurt eldfast mót með piparhliðina upp og bakaður í ofni við 180 gráður í ca. 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn – tíminn fer að sjálfsögðu eftir þykkt fisksins.

Á meðan er grænmetið steikt upp úr smjöri og/eða olíu í nokkrar mínútur. Best er að byrja á gulrótunum, svo bæta við lauknum og paprikunni. Því næst er fiskikrafti, sojasósu, worchesterssóu og sítrónusafa blandað saman í lítin pott og hitað upp, smakkað til með balsamedik og salti (ef með þarf). Núðlurnar eru soðnar samkvæmt leiðbeiningum og svo blandað við grænmetið á pönnuna. Borið strax fram. Best er að bera fram réttinn með því að nota djúpan disk, byrja á því að leggja núðlur og grænmeti á diskinn, þá fiskinn og ausa svo sósunni yfir.

IMG_0154

Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese


Hakkpanna með eggjumÉg hef tekið eftir því að á hverjum einasta sunnudegi eru mest skoðuðu uppskriftirnar á Eldhússögum hægeldaða lambalærið og pönnukökurnar hennar ömmu. Augljóslega eru hefðirnar sterkar hjá mörgum, pönnukökur í sunnudagskaffinu og svo lambalæri í sunnudagsmatinn. 🙂 Enda getur sunnudagurinn ekki klikkað með svona góðum mat.

Í dag set ég hins vegar inn ótrúlega fljótlega og auðvelda uppskrift með nautahakki. Hún byggist á ítalskri fyrirmynd, „Uova al Purgatorio“ en það er réttur þar sem egg eru soðin á pönnu í tómatsósu. Ekki nóg með það heldur reyndi ég að gefa uppskriftinni ítalskan titil þrátt fyrir að ég kunni ekki stakt orð í ítölsku – jamm, hér er metnaður á ferðinni skal ég segja ykkur! 😉 Ég bætti sem sagt nautahakki við þessa klassísku ítölsku uppskrift og úr varð dýrindismáltíð á örskömmum tíma. Þessi uppskrift passar afar vel við LKL (lágkolvetna lífstílinn) en fyrir okkur hin á kolvetnakúrnum þá er dásamlega gott að borða með réttinum gott nýbakað brauð. Mér finnst eiginlega enn betra að rista brauðið með réttinum.

Hakkpanna með eggjum

Uppskrift:

  • 1 stór laukur, saxaður smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 100 g sveppir, saxaðir smátt
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • ca 900 g nautahakk
  • salt & pipar
  • chiliflögur eða duft
  • góð ítölsk kryddblanda (ég notaði Best á allt frá Pottagöldrum)
  • 1 tsk nautakraftur
  • 2 dósir tómatar í dós (400 g dósin – ég notaði tómata með chili)
  • 6-8 egg
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • ferskar kryddjurtir, t.d. basilika eða flatblaða steinselja, saxað

IMG_0717

Laukur, hvítlaukur og sveppir steikt á pönnu. Þegar laukurinn hefur mýkst og sveppirnir tekið lit er hakkinu bætt út á pönnuna og það steikt. Kryddað með salti, pipar, chili, ítölsku kryddi og nautakrafti. Þegar hakkið er steikt er tómötunum bætt út á pönnuna og látið malla í um það bil 5 mínútur, hrært í öðru hvoru. Þá eru gerðar litlar holur í hakkið hér og þar og eitt egg sett í hverja holu. Hitinn er lækkaður og allt látið malla í ca. 5-8 mínútur undir loki. Áður en hakkpannan er borinn fram er stráð vel yfir af grófmöluðum svörtum pipar, parmesan osti og ferskum kryddjurtum. Borið fram með auka rifnum parmesan osti og nýju góðu brauði eða ristuðu brauði.
IMG_0681IMG_0708

Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki


Sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmaukiUm helgina bjó ég til súpergott meðlæti með sunnudagssteikinni. Mér finnst sætar kartöflur svo góðar og mig langaði að búa til eitthvað nýtt úr þeim. Úr varð að ég gerði sætar kartöfluskífur með karamellíseruðu kryddmauki. Mér fannst það koma svo vel út að ég hefði alveg getað haft þær í aðalrrétt! 🙂

IMG_0632

Uppskrift

  • 700 g sætar kartöflur (gott að reyna að velja fremur ílangar til að sneiðirnar verði fleiri og minni)
  • 2 msk púðursykur
  • 1 tsk sjávarsalt (t.d. frá Saltverk)
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk paprika
  • 1 tsk chili flögur eða duft (ég notaði chili explosion)
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • ca 1/2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 3 msk smjör, brætt
  • 3 msk olía

 Sætu kartöflurnar eru skrældar og skornar í sneiðar, ca 1 og 1/2 cm á þykkt. Vatn er sett í pott, saltað og suðan látin koma upp. Þá eru sætu kartöflusneiðarnar settar út í og látnar sjóða þar til þær fara að mýkjast, í ca. 10-12 mínútur. Ofn er hitaður í 200 gráður. Kryddunum ásamt púðursykrinum er blandað saman í litla skál. Brædda mjörinu og olíunni er blandað saman. Þegar kartöflusneiðarnar eru farnar að mýkjast eru þær veiddar upp úr pottinum, gott að raða þeim á grind, þeim leyft að kólna aðeins og þerraðar með eldhúspappír (þær þurfa að vera þurrar til að karamellíserast í ofninum).

IMG_0600

Kartöfluskífunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, hliðin sem snýr upp á skífunum er smurð vel með helmingnum af smjör-olíublöndunni. Því næst er helmingnum af kryddblöndunni dreift yfir kartöfluskífurnar og þrýst dálítið ofan í smjörblönuna. Þá er skífunum snúið við og þetta endurtekið á þeirri hlið með afgangnum af smjör- og kryddblöndunni.

IMG_0611

Sett inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan hefur tekið góðum lit og er farin að karamellíseras. Þá er platan tekin út, kartöfluskífunum snúið við og sett aftur inn í ofn í 10-15 mínútur þar til kryddblandan þeim megin hefur einnig tekið lit og bráðnað vel. Borið fram sem meðlæti með til dæmis grilluðu lambakjöti, kjúklingi eða hverju því sem hugurinn girnist.

IMG_0624Ekki verra að bera þær fram með grilluðum lambalundum með bearnaise sósu.

IMG_0642

Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas


Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas

Ég veit að þetta er klisjukennt en ég get svarið það, mér finnst stöðugt vera helgi – tíminn líður svo hratt! Núna eru haustveikindi skollin á hérna í Kleifarselinu. Greyið Vilhjálmur minn fékk yfir 40 stiga hita í marga daga og það kom í ljós að hann var kominn með bæði lungnabólgu og eyrnabólgu. Nú krossleggjum við fingur að restin af fjölskyldunni sleppi við svona leiðindarveikindi. Eiga ekki einmitt kjúklingasúpur að vera svo góðar fyrir veikt fólk? Ég bjó til svo góða kjúklingasúpu í vikunni sem leið. Þó svo að hún hafi ekki náð ein og sér að lækna lungnabólgu þá nutu allir fjölskyldumeðlimar þessarar ljúffengu súpu. Súpan er dálítið sterk (styrkleikinn fer þó eftir smekk) og þá finnst mér afar gott að hafa eitthvað sætt með í súpunni, að þessu sinni notaði ég epli og ananas í súpuna og fannst það súpergott!

IMG_0522

Uppskrift:

  • ca 700 g kjúklingur (lundir, bringur eða úrbeinuð læri), skorinn í litla bita
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 1 msk karrí
  • 1  meðalstór rauðlaukur, saxaður fínt
  • 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla bita
  • lítil dós ananashringir (227 gramma dós), skornir í litla bita + safinn
  • 1/2 -1 rauður chili pipar, saxaður fínt (gott að prófa sig áfram með magnið, chili piparinn getur verið misstór og missterkur)
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (411 g – ég notaði frá Hunts með basilku, hvítlauk og oregano)
  • 1 dós kókosmjólki (400 ml)
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 msk + 1/2 msk kjúklingakraftur
  • ferskt kóríander, saxaður(má sleppa)
  • sýrður rjómi til að bera fram með súpunni

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur upp úr smjöri á pönnu. Á meðan hann er steiktur er 1/2 msk af kjúklingakrafti dreift yfir kjúklinginn. Hann er svo steiktur þar til hann hefur náð góðum steikingalit. Þá er hann tekinn af pönnunni og settur til hliðar. Smjör og/eða olía er set í stóran pott. Eplabitar, ananasbitar, laukur, karrí og chili pipar sett út í pottinn og steikt á meðlahita þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er tómötum í dós, kókosmjólk, ananassafanum og rjóma ásamt 1 msk af kjúklingakrafti bætt út í og súpan látin malla í 10 mínútur. Í lokinn er kjúklingnum bætt út og súpan smökkuð til með salti og pipar (og jafnvel chilidufti eða flögum fyrir þá sem vilja sterkari súpu). Súpan er borin fram með ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Ekki er verra að bera fram með súpunni nýbakað Naanbrauð!

IMG_0530

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku


Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basiliku

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift inn fyrr í vikunni en þurfti að leysa úr dálitlu vandamáli áður. Vandamál sem var fyrirsjáanlegt um leið og ég eignaðist nýju Canon EOS 7D myndavélina mína sem er dásamleg í alla staði. Ég var samt ekkert svo glöð þegar ég sá að í þessum vélum er ný tegund af minniskortum sem passa ekki í kortalesarann á tölvunni. Ég vissi að fyrr en seinna myndi ég mæta því vandamáli að finna ekki snúruna á milli myndavélar og tölvu og það var einmitt það sem gerðist núna í vikunni. Snúran týndist, aðrar snúrur virkuðu ekki, og ég gat ekki sett myndirnar inn á tölvuna. Ótrúlega pirrandi því ég var einmitt svo spennt að deila með mér þessari uppskrift. Það væri gaman að heyra frá þeim sem eru með svipaðar myndavélar hvort að utanáliggjandi kortalesarar séu kannski málið?

En allavega, ræðum frekar um mat! Á nokkrum vikum hefur þessi nautahakksrúlla orðið hástökkvari á síðunni minni.

IMG_9626

Uppskriftin hefur verið skoðuð meira en 25 þúsund sinnum, er núna önnur mest skoðaða uppskriftin á Eldhússögum, Snickerskakan hefur þó enn vinninginn en naumlega þó. Það sem er svo skemmtilegt við þessa rúllu er að þarna er komin nýstárleg leið til að elda úr hakki og það er hægt að útfæra rúlluna á svo marga vegu. Ég hef sjálf bara eldað þessa rúllu einu sinni – ég er alltaf svo upptekin við að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Ég reyndar gerði aðra útfærslu af rúllunni hér sem var alveg jafngóð og þessi fyrsta, ef ekki betri. Eftir að hafa tekið eftir þvi að nautahakksrúllan tróndi vikum saman á toppnum yfir mest skoðuðu uppskriftirnar hjá mér varð ég ansi spennt að elda hana aftur sjálf og þá í nýrri útfærslu. Að þessu sinni gerði ég rúllu með mozzarella, basiliku og tómötum og maður minn hvað það var gott! Allir í fjölskyldunni borðuðu á sig gat og fannst þetta besta útfærslan hingað til. Þið ættuð að prófa! 🙂

IMG_0576

Uppskrift f 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 125 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum) – ekki verra að nota 2 kúlur
  • ca 3 stórir tómatar
  • ca 20 g fersk basilika
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Tómatar eru skornir í tvennt og innvolsið tekið úr þeim – það er ekki notað. Restin af tómötunum eru skornir niður í bita. Mozzarella osturinn er skorinn niður í þunnar sneiðar.  Mozzarella ostinum er raðað á nautahakkið, basilikublöðunum er raðað yfir ostinn. Því næst er tómötunum dreift yfir. Gott er að strá grófmöluðum svörtum pipar yfir allt í restina. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu.

IMG_0571

Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum eða blómkálshrísgrjónum* , salati og rifsberjahlaupi.

* Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram.

IMG_0585