Ostafylltar kjúklingabringur í rósapiparsósu


Seinni partinn í gær voru bæði Jóhanna Inga og Vilhjálmur að spila á tónleikum í tónskólanum sínum. Vilhjálmur er búinn að læra á píanó í nokkur ár og Jóhanna var að byrja í forskóla tónlistarskólans þar sem hún æfir á blokkflautu. Henni finnst afskaplega gaman í tónskólanum og hefur náð ótrúlega góðu valdi á flautunni á stuttum tíma. Hún var lengi vel ákveðin í að læra svo á harmónikku! Síðan breyttist það í fiðlu en núna kemur ekkert annað til greina en rafmagnsgítar! Það verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu næsta vetur! 🙂 Vilhjálmur heldur sig við píanóið og er einstaklega duglegur, ég held að hann hafi aldrei spilað eina einustu feilnótu á tónleikum. Þau stóðu sig auðvitað bæði með prýði á tónleikunum í gær og bæði amma og Inga frænka komu til að horfa á.

Vegna tónleikana komum við seint heim og ég útbjó kjúklingarétt sem tekur bara örfáar mínútur að búa til, svo bara eldar hann sig sjálfur í ofninum, svoleiðis réttir eru svo þægilegir! Þetta var alveg ný uppskrift og ég var dálítið efins með hana í fyrstu, en í henni eru fá hráefni sem ég nota ekki oft. Það er gráðostur, rósapipar og estragon krydd. Ég hefði nú ekki þurft að hafa áhyggjur því rétturinn sló í gegn hér heima! Ekki hræðast gráðostinn í réttinum, jafnvel þótt þið borðið hann ekki almennt. Alexander til dæmis er ekki hrifinn af gráðosti en fannst þessi ostafylling svo frábærlega góð. Gráðosturinn verður einhvern veginn mildari þegar hann er eldaður á þennan hátt og kemur svo saman við sósuna. Ég notaði þennan hefðbunda gráðost. Hins vegar er sniðugt að nota Bláan Kastala ef maður vill enn mildara ostabragð. Ég reyndar setti bara venjulegan rifinn ost í kjúklingabringurnar hjá yngstu krökkunum. Sósan var afskaplega bragðgóð, estragon og rósapipar eiga afar vel saman. Rósapipar er ekkert skyldur hvítum, svörtum eða grænum pipar heldur eru þetta lítil ber frá trópísku tré. Rósapipar er seldur þurrkaður (til frá t.d. Pottagöldrum og Prima) og minnir bragðið einna helst á einiber og kóríander, bragðið er svolítið mildara og sætara en þó með smá ,,sting“. Ég notaði matreiðslurjóma og mér fannst sósan skilja sig svolítið. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég notaði ekki hefðbundinn rjóma eða hvort það gerðist þegar gráðosturinn bráðnaði og blandaðist við sósuna. En það kom ekki að sök, sósan var ákaflega bragðgóð. Ég mæli með þessum rétti!

Uppskrift f. 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 125 gr gráðostur (Blár kastali ef maður vill mildari tegund)
  • 2-3 tsk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk estragon krydd
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 tsk rósapipar, mulin t.d. í morteli eða kvörn
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt og skorinn vasi í hlið hverrar kjúklingabringu sem er svo fyllt með gráðosti. Bringunum er svo lokað með því að þrýsta þeim saman. Fylltar kjúklingabringurnar lagðar í eldfast mót og þær penslaðar með sojasósu og estragon kryddinu stráð yfir. Muldum rósapipar hrært saman við rjómann sem er svo hellt yfir bringurnar. Sett inn í 200 gráður heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.
Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Mexíkóskt burritogratín


Mexíkóskur matur er alltaf jafn vinsæll heima hjá okkur. Ég gerði þetta burritogratín í nýrri útgáfu. Ástæðan var einföld, ég uppgötvaði að hrísgrjónin voru búin en hins vegar átti ég perlukúskús. Það er eins og kúskús en kúlulaga, stærra og þykkara, með eins og pastaáferð. Afskaplega gott og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, sérstaklega krökkunum. Það kom afar vel út að nota perlukúskús í þennan rétt, ég held að ég taki það fram yfir hrísgrjónin. Perlukúskús er til í Hagkaup, Þinni verslun, hjá Tyrkneskum bazar og örugglega í fleiri verslunum en ég hef hvorki séð það í Krónunni eða Bónus enn.

Uppskrift:

  • 8 burrito eða tortilla pönnukökur
  • 1 krukka fajitasósa eða önnur salsasósa
  • 2-3 rauðar paprikur, skornar í bita
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 500 gr kjúklingabringur, eða kjöt af heilsteiktum kjúkling
  • 2 dl hrísgrjón, ósoðin (ég notaði perlukúskús)
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 lítil dós gular maísbaunir
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 tsk sambal oelek
  • salt og pipar
  • paprikukrydd

Hrísgrjónin soðin. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingabringur skornar í litla bita. Kjúklingur, rauðlaukur og paprika steikt á stórri pönnu. Því næst eru soðnu hrísgrjónunum, maísbaunum, sambal oelek og salsasósunni bætt út í og látið malla í smá stund.

Pressuðum hvítlauk bætt við sýrða rjómann og hann bragðbættur með salti, pipar og parprikukryddi. Sýrðum rjóma smurt á hverja tortillu eða burrito pönnuköku fyrir sig. Því næst er ríflega helmingnum af kjúklingasósunni skipt á milli pönnukakanna, þeim rúllað upp og raðað í eldfast mót. Afgangnum af kjúklingasósunni er dreift yfir og ef afgangur er af sýrða rjómanum er honum dreift yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir réttinn og hann bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og tekið lit. Borið fram með góðu salati. Einnig hægt að bjóða með réttinum meiri salsasósu, sýrðan rjóma og/eða guacamole.

Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni


Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því  á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!

Uppskrift f. 5

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
  • 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
  • 300 gr rjómaostur
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 msk mango chutney
  • pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.

Kjúklinganúðlur í satay-hnetusósu


 

Ég finn pressuna magnast vegna meistararitgerðarinnar minnar! Það gengur svo sem ágætlega að skrifa en afar hægt. Elfar var að vinna alla helgina en ég náði samt að vinna í ritgerðinni fyrripartinn í gær. Seinni partinn fór ég með Jóhönnu og vinkonu hennar í Krakkahöllina. Ég ætlaði að vera voða sniðug, nýta tímann og setja saman vikumatseðil á meðan ég beið á eftir þeim. Hins vegar kom í ljós að Krakkahöllin býður ekki upp á netsamband. Ég fór því í Bónus fremur illa undirbúin en var þó með óljósar hugmyndir um hina og þessa rétti sem ég keypti í fyrir vikuna. Mér finnst reyndar gaman að reyna að elda úr því hráefni sem ég á til, það verður því skemmtileg áskorun að setja saman rétti og spinna úr því sem ég keypti í gær. Ég er búin að hugsa lengi um að búa til einhvers konar rétt úr Satay hnetusósu. Ég hef skoðað á netinu uppskriftir af slíkri sósu en í Bónus rakst ég á nýja tilbúna gerð Satay sósu sem ég ákvað að prófa. Það átti bara að bæta við vatni en ég ákvað að bæta frekar við kókosmjólk auk vorlauks, hvítlauks, engifers, spínats og papriku. Þetta var afar fljótlegur réttur og góður.

Uppskrift f. 4 

  • 6-800 gr kjúklingalundir eða kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • góður bútur af engifer, saxað smátt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 búnt vorlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauð paprika, skorin í þunnar strimla
  • 2 pakkar Satay sósa (sjá mynd), líka hægt að nota satay sósu í krukku
  • 2 dl kókosmjólk (það er hægt að nota alla dósina en þá verður hnetusósan bragðminni og meira kókosbragð)
  • 1/3 poki spínat
  • 250 gr eggjanúðlur

 

Eggjanúðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum (passa þarf að ofsjóða þær alls ekki) Vorlaukur, hvítlaukur og engifer saxað smátt og steikt upp úr olíu á pönnu í ca. 1 mínútu án þess að það brenni. Blandan er svo veidd upp úr og lögð til hliðar. Kjúklingur steiktur á pönnunni þar til að hann hefur náð góðum lit og paprikunni bætt við. Því næst er laukblöndunni bætt aftur út í (ef pannan er lítil gæti verið gott að færa allt yfir í pott) Sósunni hellt út á ásamt kókosmjólkinni og látið malla í ca. 5 mínútur. Í lokin er spínatinu bætt út í. Kjúklingasósunni er svo blandað við eggjanúðlurnar og borið strax fram (ég stráði dálítið af söxuðum pistasíuhnetum yfir réttinn)

 

Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni


Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni

 

Um daginn gerði ég mangókjúkling með kasjúhnetum og kókos. Hann er afar gómsætur en tekur smá tíma að útbúa. Í kvöld þurfti ég að búa til eitthvað fljótlegt og fyrir valinu varð réttur sem ég sá inni á sænsku matarbloggi. Sósan er ekkert ósvipuð í grunninn og sú í mangókjúklingaréttinum en þessi réttur er mun einfaldari og afskaplega fljótgerður. Í hann er notaður tilbúinn grillaður kjúklingur og í sósuna eru notuð frekar fá hráefni. Þó það sé ekkert dúllað við að rista kókoshnetur og kókos í þessum rétti er hann samt afar bragðgóður. Ef maður fær ekki tilbúinn kjúkling út í búð (hann á það oft til að vera búinn einmitt þegar maður er seint á ferðinni og þarf að gera eitthvað fljótlegt í matinn!) þá er hægt að kaupa einn bakka af kjúklingabringum, skera þær niður í bita og snöggsteikja. Ég átti svo mikið af gulrótum að ég ákvað að prófa að gera uppskrift sem ég sá á netinu um daginn, að karamellusera gulræturnar upp úr smjöri og hrásykri með ferskum, rifnum engifer. Það var afskaplega gott en passar örugglega enn betur með til dæmis með lambalæri.

Uppskrift f. 3-4:

  • 1 grillaður kjúklingur, kjötið hreinsað af beinunum og skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur smátt
  • smjör til steikingar
  • 3 dl matargerðarjómi eða kaffirjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2-3 msk mango chutney
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • salt & pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur lagður í eldfast mót. Púrrlaukur steiktur í smjöri þar til hann er orðinn mjúkur. Mango chutney, rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og nautakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp og sósan smökkuð til með salti og pipar. Sósunni síðan hellt yfir kjúklinginn og hitað í ofni í 15-20 mínútur þar til rétturinn er orðinn heitur í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

 

img_9796

Kjúklingur í himneskri sósu


Ég bjó eiginlega til þennan rétt með hálfum hug. Ég er nefnilega ekkert of hrifin af sólþurrkuðum tómötum, finnst þeir bara góðir ef þeir eru ekki of afgerandi í uppskriftunum. Þetta er afsakaplega einfaldur réttur, mjög fljótlegt að búa hann til og það kom mér síðan skemmtilega á óvart hvað hann var góður! Elfari fannst hann afar góður líka en það sem kom kannski mest á óvart var að Alexander fannst þetta vera besti rétturinn sem ég hef nokkurn tíma gert! Það er reyndar býsna auðvelt að elda fyrir hann, honum finnst allt gott sem ég geri! 🙂 En sósan var sem sagt sú bragðbesta sem hann hefur borðað hingað til, ekki slæm einkunn það! Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að nota krydd sem heitir ungversk paprika, það er sætara paprikukrydd en þetta hefðbundna. Það er til frá Pottagöldrum en ég átti það ekki til og notaði því bara hefðbundið paprikukrydd.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • ungversk paprika eða venjulegt paprikukrydd

sósa:

  • 6-8 sólþurrkaðir tómatar + 2 msk af olíunni
  • 1-2 dl vatn
  • 1 msk balsamedik
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1-2 dl rjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari (eða maizenamjöl)
  • 1/2- 2/3 poki af ferskri steinselju

Kjúklingabringurnar eru skornar í 3 bita og kryddaðar paprikukryddi, salti og pipar. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu upp úr smjöri og olíu þar til að þeir hefur náð lit á öllum hliðum. Kjúklingurinn er því næst veiddur af pönnunni og vatninu þeytt saman við feitina, sem eftir var á pönnunni, með písk. Sólþurrkuðu tómatarnir saxaðir smátt og bætt út á pönnuna ásamt tveimur matskeiðum af olíunni af sólþurrkuðu tómötunum. Því næst er tómatpúrru, sojasóusu, nautakrafti, sýrðum rjóma og rjóma bætt út í og sósan smökkuð til með salti, pipar og paprikukryddi. Dálítið af sósujafnara bætt út í til að þykkja sósuna. Kjúklingurinn er nú settur aftur út í sósuna (og safinn sem mögulega hefur runnið af honum á meðan hann beið) og látið malla í 10-15 mínútur. Steinselja er söxuð smátt og bætt út í rétt áður en rétturinn er borinn fram.  Ég bar fram með réttinum ofnsteiktar kartöflur og sætar kartöflur ásamt fersku salati. Það er örugglega líka gott að bera fram hrísgrjón eða kúskús með réttinum.

Cesar salat


Cesar salatið er klassískt og hrikalega gott! Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og sagan segir að salatið hafi orðið til á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna árið 1924. Það var svo mikið að gera á veitingastaðnum hjá Cesari að hráefnin kláruðust og síðustu gestir kvöldsins fengu þetta salat sem hann gerði úr þeim hráefnum sem eftir voru í eldhúsinu.

Í dag er Cesar salatið til í ótal útgáfum. En upprunalega uppskriftin er með romansalati, brauðteningum, parmesan osti og dressingu. En svo er oft bætt við við kjúklingi, beikoni og einnig hefur ansjósum verið bætt í dressinguna nú á síðari tímum og mörgum finnst þær gefa ómissandi bragð.

Mér finnst mikilvægast að nota rétt salat og búa til brauðteningana sjálf, þeir verða svo ljúffengir að hægt er að borða þá eintóma! En auðvitað er líka hægt að kaupa þá tilbúna líka.

Þegar kemur að dressingunni er, eins og áður var sagt, mjög algengt að nota ansjósur. Ég hef ekki notað þær fyrr en í þetta sinn. Ég verð að viðurkenna að þessi litlu kvikindi eru ekki girnileg að sjá! Ég held að ég hafi notað aðeins of mikið af þeim því mér fannst ansjósu bragðið verða of yfirgnæfandi (ég minnkaði magnið í uppskriftinni hér að neðan). Svo fannst mér þær svo ólystugar í útliti að ég held að það hafi haft áhrif á upplifununni á dressingunni! En ansjósur fást í t.d. Hagkaup, þær eru í kæli hjá síldinni og kavíarnum (í litlum pakkninum eins og niðursoðnar sardínur). Cesar salat er auðvelt að búa til og einstaklega ljúffengt!

Uppskrift:

  • kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • romansalat (ég fann það ekki í Hagkaup og keypti íssalat sem er þykkt og stökkt og kom því vel út), rifið niður gróft
  • parmesan ostur, rifinn gróft t.d. með ostaskera eða grófu hliðinni á rifjárni
  • beikon, steikt þar til það verður stökkt, skorið í bita
  • brauðteningar
  • salatdressing

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

Kjúklingabringur:

Kjúklingabringur eru kryddaðar með salti, pipar og jafnvel kjúklingakryddi (ég notaði Best á allt) og grillaðar á útigrilli eða snöggsteiktar á pönnu og svo settar í ofn þar til þær eru eldaðar í gegn. Þegar bringurnar hafa jafnað sig eftir eldun eru þær sneiddar niður.

Salatdressing:

  • 1.5 dl góð ólívuolía
  • 1 fersk eggjarauða
  • 2-3 ansjósur (má sleppa)
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir mjög smátt
  • 1 msk Worchestershire-sósa
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 sítróna, safinn pressaður
  • 2 tsk hvítvínsedik (má sleppa)
  • salt og pipar

Öll hráefni, fyrir utan ólífuolíu, eru sett í matvinnsluvél eða mixer. Ólífuoíunni er hellt út í með mjórri bunu á meðan hrært er. Dressingin verður þá þykk og góð.

Salatið er sett í skál og dressingunni bætt saman við. Brauðteningum og rifna parmesan ostinum er bætt saman við og loks er kjúklingi og beikoni dreift yfir.

Mangókjúklingur með kasjúhnetum og kókos


Mig langaði til að útbúa kjúklingarétt í anda kjúklingasúpunnar góðu en sem væri meira eins og pottréttur. Ég ákvað að nota hráefni sem mér þykir gott, setti „dash“ af þessu og hinu og útkoman varð dásamlega góð! Ég reyndi þó að mæla hvað ég setti í réttinn því ég lendi oftar en ekki í vandræðum hér blogginu þegar ég þarf að skrifa nákvæmlega upp mælieiningar og aðferðir á réttum sem ég bý til. Hér voru nokkrir vinir barnanna í mat þannig að við vorum níu sem borðuðum og að auki varð afgangur. Ég gef hins vegar upp magn hér að neðan sem er fyrir færri, kannski 4-5. Hér lendi ég aftur í vandræðum, mér finnst mjög erfitt að áætla hvað réttirnir duga fyrir marga! Einn vinur okkar hjóna segir að ég eldi alltaf eins og fyrir heilt kínverskt þorp! 🙂 Það eru nú kannski ýkjur en við, fullorðni hlutinn af fjölskyldunni allavega, borðum öll eins og hestar! 😉 Að auki er mín versta martröð að maturinn dugi ekki fyrir þá sem borða! Þið sem prófið réttina megið því gjarnan skilja eftir skilaboð hvað magnið dugar fyrir marga hjá ykkur!

Uppskrift f. ca. 5

  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 kíló kjúklingabringur eða kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 púrrlaukur, saxaður
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 epli, flysjuð og skorin í bita
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk kjúklingakraftur (eða 1/2 tengingur)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 dl matreiðslurjómi (líka hægt að nota kaffirjóma eða hefðbundinn rjóma)
  • 4-5 msk mango chutney
  • 1 bréf beikon (ég notaði extra þykkt frá Ali)
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd eftir smekk
  • sósujafnari (eða maizena mjöl)
  • 1-2 dl kasjúhnetur, gróft saxaðar
  • 1-2 dl kókosmjöl

Beikoni er raðað á ofngrind með ofnplötu beint undir, þannig rennur umframfita á ofnplötuna. En ef manni langar ekki að skrúbba ofngrind og ofnplötu er hægt að raða beikoninu á ofnplötu með smjörpappír undir. Þá rennur fitan ekki af beikoninu og því þarf að þerra það mjög vel þegar það er tilbúið. Bakað í ofni á blástri við 200 gráður í ca. 12-14 mínútur eða þar til beikonið er mátulega stökkt. Þá er það tekið úr ofninum, raðað á eldhúspappír og meiri eldhúspappír settur ofan á. Pappírnum er þrýst vel ofan á beikonið og öll umfram fita þerruð í burtu. Beikonið er svo skorið, klippt eða rifið í bita. Auðvitað má líka steikja beikonið á pönnu. Mér finnst ofn-aðferðin samt mikið þægilegri og þá er hægt að byrja á því að útbúa sjálfan kjúklingaréttinn á meðan beikonið er í ofninum.

Gróft saxaðar kasjúhnetur eru ristaðar á þurri pönnu við háan hita, hrært stöðugt í þeim,  þar til þær hafa náð lit, þá er þeim hellt í skál.

Kókosmjöl er ristað á þurri pönnu við háan hita, stöðugt hrært í kókosmjölinu, þar til það hefur náð góðum lit, þá er því hellt í skál.

Setjið olíu eða klípu af smjör á pönnu og steikið púrrlauk og hvítlauk í stutta stund, gætið þess að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið kjúklingi út í, saltið og piprið, kryddið með karrí og kjúklingakryddi. Steikið þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit, bætið eplunum út í og steikið í ca. mínútu í viðbót. Ef pannan er lítil er gott á þessum tímapunkti að færa réttinn frá pönnunni yfir í stóran pott. Þá er bætt út í mango chutney, kókosmjólk, rjóma, sýrðum rjóma auk kjúklingakrafts. Að auki er beikoni (sem hefur verið steikt og skorið í bita) bætt út í. Réttinum leyft að malla í ca. 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Sósan smökkuð til með salti, pipar og/eða karrí. Til að þykkja sósuna er hægt að nota sósujafnara eða hræra smá maizena mjöl út í vatn, hella því svo út í sósuna og láta suðuna koma upp, leyfa svo réttinum að malla í dálitla stund í viðbót þar til sósan hefur þykknað. Rétturinn er borinn fram með ristuðu kókosmjöli, ristuðum kasjúhnetum (jafnvel líka sýrðum rjóma) auk hrísgrjóna eða kúskús (ég notaði kúskús). Gott er einnig að bera fram ferskt salat sem inniheldur ferskt mangó.

Chilikjúklingur með chorizo pylsu, kirsuberjatómötum og rótargrænmeti


Um síðustu helgi buðum við foreldrum mínum í mat og ég ákvað að prófa kjúklingarétt sem ég hef haft augastað á. Í honum er chorizo pylsa en ég hef lítið sem ekkert notað slíkar pylsur. Til dæmis hef ég ekki enn fundið hjá mér hvöt til að fara í verslunina Pylsumeistarann á Hrísateigi þó svo að ég hafi heyrt að það eigi að vera ægilega mikið gourmet og hámóðins hjá öllum matgæðingum! Ég hefði auðvitað átt að fara þangað til að tryggja að ég notaði hágæða pylsu í réttinn en ég lét mér duga að kaupa chorizo pylsu frá Ali í Þinni Verslun. Og þessi pylsa kom reglulega á óvart, passaði vel við réttinn og meira að segja krakkarnir voru sólgnir í hana. Rétturinn sjálfur er afar einfaldur að útbúa og reglulega góður, jafnvel krakkarnir hámuðu hann í sig af bestu lyst. Þó svo að í réttinum væri chilimauk fannst engum rétturinn vera of bragðsterkur, hvorki foreldrum mínum né börnunum. Ég skellti í eitt svona brauð til að bera fram með réttinum, en splæsti í sunnudagsútgáfuna, notaði bara hveiti og sesamfræ! Að auki bar ég fram með réttinum ferskt salat.

Uppskrift f. 3-4:

  • 4-6 stórar kartöflur, skornar í báta
  • 2 stórar gulrætur, skornar í þykkar skífur
  • 1 sæt kartafla, skorin í fremur stóra teninga
  • 8 skarlottulaukar, skornir í tvennt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 4 kjúklingabringur, skornar í 3-4 bita hver
  • 1 dl hvítvín (eða kjúklingasoð)
  • 1 dós niðursoðnir kirsuberjatómatar (fást í Krónunni)
  • 1-2 tsk sambal oelek (má nota aðra tegund af chilimauki)
  • 100-150 gr chorizo pylsa, skorin í bita
  • maldonsalt og pipar
  • ferskt timjan (ég fékk það ekki og notaði þurrkað)

Stillið ofn á 225 gráður. Skrælið kartöflur, sæta kartöflu og gulrætur og skerið eins og uppskriftin segir til um. Dreifið grænmetinu í eldfast mót ásamt skarlottulauknum og hvítlauknum. Hellið yfir dálítið af ólífuolíu og kryddið með maldonsalti og pipar. Hitið í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að grænmetið er næstum því tilbúið.

Á meðan grænmetið er í ofninum er kjúklingur kryddaður með maldonsalti og pipar. Kjúklingurinn er brúnaður í smjör og ólífuolíu þar til að hann hefur fengið lit. Því næst er kjúklingurinn lagður ofan á grænmetið ásamt chorizo pylsubitunum, kokteiltómötunum (vökvinn líka notaður) og grófsöxuðu timjan.

Að lokum er hvítvíni/kjúklingasoði blandað saman við chilimaukið og því hellt yfir réttinn. Rétturinn er aftur settur inn í ofn í um það bil 15-20 mínútur eða þar til bæði kjúklingur og grænmeti er tilbúið. Borið fram með brauði og góðu salati. Ekki skemmdi rauðvínsglasið fyrir!

Eggjanúðlur með kjúklingi og wok steiktu grænmeti


IMG_0340

Ég eldaði þennan kjúklingarétt fyrir okkur Elfar í kvöld. Börnin langaði svo ofsalega mikið í Dominos pizzur en við hjónin erum ekki hrifin af þeim. Svo enduðu krakkarnir nú öll á því að laumast aðeins í réttinn, þrátt fyrir pizzurnar, enda er hann afskaplega góður. Mér finnst oft erfitt að finna góða sósu með svona núðlukjúlingaréttum. En þessi sósa er rosalega góð! Það er hægt að nota frosið wok grænmeti en auðvitað er mikið betra að hafa það ferskt. Þessi réttur er ekki bara góður heldur afar fljótlegur að elda. Ég var jafnlengi að búa til þennan rétt eins og stóru krakkarnir voru að sækja pizzurnar, ca. 15 mínútur. Frábær réttur sem er svo gott að grípa í þegar maður vill búa til fljótlegan er samt rosalega góðan kvöldmat! 🙂

Uppskrift:

  • 600 gr kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2-3 gulrætur
  • góður biti af hvítkálshaus
  • 250 gr sveppir
  • lítill brokkolí haus
  • ferskt engifer, fingurstór biti
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 pakki soðnar eggjanúðlur (250 gr)
  • 3-4 msk ólifuolía
  • 2 tsk sesamolía
  • 2 msk oystersauce
  • 5-6 msk góð sojasósa
  • 1 msk hoisin-sósa
  • 1 tsk sykur

IMG_0334

Afhýðið engifer og hvítlauk og saxið fínt. Skerið kjúklinginn í þunnar sneiðar (gott að skera hann hálffrosin). Skerið hvítkálið og gulrætur í strimla, sneiðið sveppina og skerið brokkolí í passlega bita. Hrærið saman sesamolíuna, ostron sósuna og hoisin sósuna, sojasósuna og sykur. Sjóðið núðlurnar eins og gefið er upp í leiðbeiningum.
Hitið ólífuolíuna á pönnu (wok pönnu ef þið eigið hana til) og steikið engifer og hvítlauk í örstutta stund á háum hita, bætið svo kjúklingnum út í og steikið þar til hann hefur fengið lit. Þá er hvítkáli, gulrótum og sveppum bætt út í.  Ef pannan er of lítil þá er hægt að færa allt yfir í stóran pott. Bætið nú við sósunni ásamt soðnu núðlunum og steikið saman í nokkrar mínútur þar til rétturinn er gegnumheitur.
IMG_0331