Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingur í osta- og tómatsósu


IMG_8389Kjúklingur er eitt af mínum uppáhaldshráefnum. Það er svo ótrúlega margt gott hægt að gera úr kjúklingi. Um daginn bjó ég til þennan rétt, Cacciatore kjúklingarétt, sem við vorum öll svo hrifin af. Núna gerði ég aðra útfærslu af svipuðum rétti. Að þessu sinni var papriku bætt út í tómatsósuna ásamt fersku chili. Auk þess er í réttinum ostasósa sem fór ákaflega vel með heimatilbúnu tómatsósunni. Þetta er einfaldur og ljúffengur réttur.

Uppskrift:

  • 800 g kjúklingabringur
  • kjúklingakrydd
  • smjör og/eða olía til steikningar

Tómatsósa:

  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 3 msk tómatpúrra
  • ½ gul paprika eða 1 lítil
  • ½ rauð paprika eða 1 lítil
  • ½ rautt chili, ferskt
  • 3 hvítlauksrif
  • salt & pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g rifinn ostur (bragðmikill)
  • salt & pipar

Að auki:

  • 2 st skarlottulaukar, saxaðir fínt
  • 1-2 dl kasjúhnetur (má sleppa)
  • 30 g fersk basilika, söxuð gróft

IMG_8382

Ofninn stilltur á 225 gráður undir/yfir hita.

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi. Þá er hann snöggsteiktur á pönnu í stutta stund (ekki eldaður í gegn heldur bara látinn taka smá lit). Kjúklingurinn er svo settur í eldfast mót, pannan er ekki þvegin. Því næst er paprikan skorin í bita, chili er fræhreinsað og saxað auk þess sem hvítlaukurinn er saxaður. Allt er sett í matvinnsluvél ásamt tómötunum og keyrt í ca. 10 sekúndur. Þá er tómatsósunni hellt á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á og henni leyft að malla á meðalhita í ca. 10 mínútur. Í lok tímans er 2/3 af basilikunni bætt út í tómatsósuna.

Á meðan tómatsósan mallar er ostasósan búin til. Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts. Osti bætt út í og allt hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með salti og pipar.

Þá er tómatsósunni hellt yfir kjúklingabitana og svo er ostasósunni hellt yfir tómatsósuna. Að lokum er skarlottulauknum og kasjúhnetunum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Restinni af basilikunni dreift yfir réttinn og hann borinn fram með til dæmis hrísgrjónum, kúskúsi eða pasta og fersku salati.

IMG_8384

Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu og útskriftarveisla


IMG_8352Útskriftardagurinn minn í gær var frábær! Mér fannst gaman að vera viðstödd athöfnina í Háskólabíói, hún var hátíðleg og passlega löng. Mér leist reyndar ekkert á blikuna þegar kom í ljós að ég var sú fyrsta sem átti að stíga á svið! En mér tókst að komast frá þessu skammarlaust og gera allt rétt! Svona eftir á að hyggja er ég nú bara frekar stolt yfir því að hafa klárað þetta meistaranám með stóra fjölskyldu og fremur annasamt líf. Ég er eiginlega langstoltust af því að hafa tekist að klára meistararitgerðina mína á einni önn en slíkar ritgerðir eru oft flöskuháls í svona framhaldsnámi. Mér virðist líka hafa tekist vel upp með ritgerðina því ég fékk 9 fyrir hana í einkunn og náði þar með 8.98 í meðaleinkunn. Ég er reyndar pínu svekkt samt að vera bara 0.02 frá því að ná 1. einkunn! 🙂 Seinni partinn í gær var svo útskriftarveisla hér heima og í boði voru smáréttir frá Marentzu Poulsen sem starfar nú hjá Cafe Flóru í Laugardal. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með matinn, hann var rosalega góður og hráefnið afar vandað. Ég mæli sannarlega með veislumatnum hennar Marentzu.

IMG_8212Útskrift1

ÚtskriftÚtskrift2Útskrift3Útskrift5

Útskrift6

Í kvöld eldaði ég einfaldan en afar góðan kjúklingarétt. Ég notaði til tilbreytingar leggi og læri af kjúklingnum en það er mjúkt og bragðgott kjöt. Ekki spillir fyrir að þeir bitar eru ódýrir.

Uppskrift: 

  • 1 kíló kjúklingaleggir og læri
  • salt & pipar
  • 4 tsk oregano
  • beikon
  • 4-5 dl matreiðslurjómi
  • 2-3 msk balsamik edik
  • 1.5 msk kjúklingakraftur
  • 4 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • smjör og/eða olía til steikingar

Ofninn hitaður í 225 gráður. Kjúklingurinn kryddaður með salti, pipar og oregano. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu þar til þeir ná lit. Þá er beikoni vafið utan um bitana og þeir settir í eldfast mót. Rjóma, balsamik edik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í ofninum í ca. 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_8347IMG_8355

Kjúklingaleggir í sweet chili marineringu með satay sósu


Kjúklingaleggir með satay sósuTveggja daga vetrarfríið mitt hefur verið annasamt. Í gær var bókamarkaðurinn opnaður fyrir skólabókasöfnin og ég fór því í bókainnkaup fyrir safnið mitt. Ég starfa enn við rannsóknarverkefnið á Landspítalanum sem ég tók að mér meðfram náminu mínu við Háskólann og í gær þurfti ég að hitta nokkrar sjúklinga í tengslum við það. Kvöldmaturinn í gær var bara samloka á hlaupum því að lokinni vinnu á sjúkrahúsinu brunuðum við hjónin í Borgarleikhúsið og þar sem yngstu börnin biðu með ömmu, afa og Ingu frænku. Við sáum þar seinni forsýningu á Mary Poppins. Það má með sanni segja að við öll höfum verið uppnumin enda stórkostleg sýning, hvert atriðið öðru glæsilegra. Ég held að þetta sé ein flottasta sýning sem ég hef séð hér á landi með tilliti til leikmyndar, búninga, tæknibrella auk söng- og dansatriða. Jóhanna Inga er harður gagnrýnandi og við förum á allar barnaleiksýningar sem sýndar eru hér í leikhúsunum. Fram að hléi sagði hún að þetta væri frábær sýning en að sér þætti Óliver enn besta sýningin. En að lokinni sýningu var hún með stjörnur í augum og sagði að þetta væri besta leiksýning sem hún hefði nokkurn tíma séð og vildi vita hvort hún mætti sjá sýninguna aftur! 🙂 Í dag hef ég verið á fullu við að þrífa og taka til. Á morgun er útskriftin mín og það verður dálítið boð hér heima í tilefni þess. Ég ákvað að gefa sjálfri mér frí í eldhúsinu og pantaði smárétti frá Marentzu Poulsen. Bestu smáréttir sem ég hef bragðað hafði hún útbúið fyrir brúðkaup vinkonu minnar fyrir nokkrum árum. Ég hef því miklar væntingar og er spennt að gæða mér á veitingunum á morgun! 🙂 En uppskrift dagsins er ljúffengur kjúklingur sem ég bjó til um daginn.

Kjúklingaleggir með sweet chilimarineringu:

  • 16 kjúklingaleggir
  • 1 dl sweet chili sósa
  • 1 dl olía
  • 1 dl sojasósa

Öllum hráefnunum er blandað saman. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót og marineringunni helt yfir, kjúklingnum er velt vel upp úr marineringunni. Gott er að láta kjúklinginn standa í klukkutíma í ísskáp í marineringunni. Ofninn er stilltur á 200 gráður og grill og kjúklingurinn eldaður í 20-30 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn. Það þarf að passa að hann brenni ekki.

Satay sósa

  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 100 g jarðhnetur
  • 1 dós kókosmjólk
  • salt & pipar
  • olía

Laukurinn, hvítlaukur og chili steikt á pönnu upp úr olíu. Helmingurinn af hnetunum er sett í matvinnsluvél, hinn helmingurinn saxað gróft með hníf. Hnetunum er bætt út á pönnuna. Því næst er kókosmjólkinni bætt út í, saltað og piprað. Látið malla á vægum hita í ca. 15 mínútur. Borið fram með kjúklingnum, hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_7996

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 
1 egg, hrært
  • 
1 1/2 dl brauðmylsna
  • ca 100 g sesamfræ
  • salt & svartur grófmalaður pipar
  • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

  • kartöflur
  • brauðmylsna
  • ólífuolía
  • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk smjör
  • 1/2 msk rósapipar, mulinn
  • 400 ml kjúklingasoð
  • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Ítalskur parmesan kjúklingur


IMG_7887Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!

IMG_7881

Uppskrift:0007764490040_300X300

  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • chili krydd eftir smekk
  • pipar & salt
  • 6 kjúklingabringur
  • 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)chathamvillage_croutons_largecut_cheese_garlic_5oz
  • fersk basilka, söxuð gróft
  • 300 g rifinn mozzarella ostur
  • 150 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 poki brauðteningar með hvítlauk

IMG_7873IMG_7879

Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

IMG_7884

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Kjúklingur með sætum kartöflum og mangósósu


IMG_7576Ég las langt fram yfir háttatíma Jóhönnu í kvöld og er loksins sest núna fyrir framan tölvuna. Við vorum að klára bókina Steinskrípin, hún var svo spennandi á endasprettinum að við gátum ekki hætt! Frábær bók, bæði spennandi og frumleg, við mæðgur mælum með henni!

Í gærkvöldi bjó ég til rétt sem sló í gegn hjá allri fjölskyldunni, „geðveikt gott“ var samdóma álit okkar allra. Þar sem ég bý alltaf til svo mikinn mat þá gerði ég tvær útfærslur af réttinum í gær, í sitt hvoru eldfasta mótinu, til að prófa mig áfram. Ég tók bara myndir af fyrri útfærslunni en gef uppskrift af þeirri seinni því mér fannst hún aðeins betri. Þá blandaði ég jógúrt við mangó chutney sósuna.

Uppskrift f. 6

  • 2 sætar kartöflur (ca. 400 g stykkið)
  • 6 kjúklingabringur
  • ólífuolía
  • 1 dós fetaostur í olíu
  • ca 3/4 dl balsamedik
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 3-4 cm engiferrót
  • 100 gr spínat
  • 2 dl mango chutney
  • 2 dl grísk jógúrt (eða hrein jógúrt)
  • salt og pipar
  • fræblanda (t.d. hörfræ, furuhnetur, graskersfræ eða önnur tilbúin fræblanda)

IMG_7565Olíunni af fetaostinum blandað saman við balsamedikið og kjúklingabringunum velt vel upp úr blöndunni. Bringurnar látnar liggja í blöndunni á meðan sætu kartöflurnar eru útbúnar, helst lengur ef tími gefst. Bakarofn hitaður í 200 gráður. Sætar kartöflur afhýddar og skornar í bita, þær lagðar stórt eldfast mót eða ofnskúffu og góðri skvettu af ólífuolíu blandað saman við. Saltað og piprað. Sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar steiktar á pönnu. Reynið að veiða sem mest af vökvanum sem bringurnar liggja í, á pönnuna með þeim. Bringurnar steiktar nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til þær eru hálfeldaðar. Eldfasta mótið með sætu kartöflunum er tekið út úr ofninum eftir ca. 20-25 mínútur, hvítlaukur og engifer rifið (með rifjárni eða í matvinnsluvél) eða saxað smátt og því blandað vel saman við kartöflurnar ásamt spínatinu. Kjúklingabringurnar lagðar ofan á kartöflunnar. Jógúrt og mangó chutney er hrært saman og dreift yfir bringurnar. Því næst er fetaostinum dreift yfir ásamt fræblöndunni. Allt sett aftur inn í ofn í ca. 15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með mangósósu og fersku salati.

IMG_7578

Mangósósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
  • 3 msk mango chutney
  • safi úr 1/2 límónu (lime)
  • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Indverskur kjúklingur í jógúrtkarrísósu


IMG_7443Mér finnst indverskur matur afskaplega góður en ég er frekar ódugleg við að búa til slíka rétti frá grunni. Það er aðallega langur hráefnislisti sem fælir mig frá og þá oft að í uppskriftunum eru hráefni sem ég á ekki til. Þennan rétt fann ég í Gestgjafanum og mér fannst hann frekar einfaldur að sjá, ég átti meira að segja allt í hann fyrir utan negulnagla og kardimommur.

IMG_7425

Það var skemmtilegt og auðvelt að laga réttinn og ilmurinn var dásamlegur. Ekki var bragðið síðra, ofsalega ljúffengur réttur. Sósan er kölluð karrísósa þó svo að í henni sé ekkert karrí. Nanna Rögnvaldar skýrir þetta svona út:

„Karríduft er kryddblanda sem er reyndar fundin upp á Vesturlöndum en fékkst ekki á Indlandi hér áður fyrr að minnsta kosti því allir notuðu bara sína eigin kryddblöndu. Ég man satt að segja aldrei eftir að hafa rekist á karríduft í alvöru indverskri uppskrift. Karrí – kari á tamílamáli – þýðir eiginlega kássa (grænmetis- eða kjötkássa) með sterku kryddi eða í kryddsósu.“ Í þessari kjúklinga-karrí uppskrift er því ekkert karríduft en hins vegar ýmis krydd sem eru gjarna notuð í slíka rétti (og í karríkryddblöndur) eins og kardimommur, negulnaglar, kanill og chili.

Uppskrift f. 3-4

  • 2-3 tsk olía (t.d. kókosolía)
  • 2 laukar, saxaðir gróft
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 negulnaglar
  • 2 kanilstangir
  • 4 svört piparkorn
  • 3 kardimommur, heilar
  • 1 bakki kjúklingalundir (ca. 600 g)
  • 3 tsk garam masala (krydd)
  • ca. 2 cm engiferrót, rifin
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð gróft eða rifin
  • 1-2 tsk salt
  • 1/2-1 tsk chiliduft
  • 1/2 – 1 dl möndluflögur
  • 1 dós hrein jógúrt (180 g)
  • 2 græn epli, afhýdd og skorin í grófa bita
  • ferskur kóríander

IMG_7426Hitið olíuna á pönnu og setjið út á pönnuna lárviðarlauf, negulnagla, kanilstangir, piparkorn og kardimommur í smástund. Bætið lauknum út í og steikið við vægan hita í 3-5 mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins en er ekki byrjaður að brúnast. Bætið kjúklingalundunum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur, bætið olíu á pönnuna ef með þarf. Setjið Garam masala, engiferrót, hvítlauk, salt, chiliduft og möndluflögur úr í og steikið í 2-3 mínútur. Lækkið hitann og hellið jógúrt út á og hrærið í nokkrar mínútur. Bætið eplunum saman við og látið malla undir loki í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Skreytið með ristuðum möndluflögum og ferskum kóríander. Berið fram með hrísgrjónum, fersku salati og Nanbrauði.

IMG_7447