Maríukaka


Maríukaka

Í dag er frábæra mamma mín sextug – til hamingju elsku mamma! 🙂 Í tilefni þess var mamma með brunch í gær fyrir nánustu vini og fjölskyldu.

mamma afmæli2

Hér erum við mamma í dag og fyrir fjörtíu árum! 🙂

Tvær blómarósir í afmælinu, yngstu barnabörnin Bára Margrét 4 ára og Jóhanna Inga 8 ára.

IMG_0027Og dásamlega fallegar bóndarósir sem mamma fékk á afmælinu.

IMG_0087

Ég útbjó þrennt á brunch borðið. Það voru eggja- og beikonmúffurnar sem ég setti inn uppskrift af í gær.

IMG_9924

Auk þess sem ég gerði tvær tegundir af kökum. Kökurnar skar ég í litla bita sem henta vel á svona smáréttahlaðborð. Annars vegar gerði ég franska súkkulaðiköku með súkkulaðikremi. Skotheld uppskrift sem klikkar aldrei, þessa uppskrift er að finna hér. Uppskriftina gerði ég tvöfalda og þá smellpassaði hún í venjulega ofnskúffu og gaf 80 litla kökubita.

IMG_9896

Þar sem súkkulaðikakan er fremur blaut er gott að setja hana í kæli í smá tíma áður en hún er skorin.

IMG_9953Með því að skera kökuna kalda verða bitarnir fallegri.

IMG_9956Það er líka gott að hafa í huga að láta jarðaberin eins seint og hægt er ofan á kökuna því jarðaber verða fljótt slepjuleg ofan á kökum og smita þá vökva út frá sér.

Hins vegar gerði ég köku sem mamma lét mig fá uppskrift að, Maríuköku. Þetta er ljúffeng kaka með pekanhnetum og karamellubráð. Ég gerði þessa uppskrift tvöfalda og þá passaði hún í ofnskúffu. Ég skar bitana aðeins stærri en af súkkulaðikökunni og fékk um það bil 55 bita.

IMG_9919Mamma útbjó veglegt og gómsætt brunch-borð en á því var að finna meðal annars:

IMG_9947

IMG_9998

Eins og ég sagði þá tvöfaldaði ég Maríukökuna og bakaði hana í stórri ofnskúffu. Hér að neðan gef ég hins vegar upp einfalda uppskrift sem passar í venjulegt 24 cm smelluform.

IMG_9920

Maríukaka – uppskrift:

  • 3 egg
  • 1 dl sykur
  • 4 msk smjör
  • 100 g gott dökkt súkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 1/2 dl hveiti

ofan á kökuna:

  • 4 msk smjör
  • 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk rjómi
  • 1 pk pecanhnetur
  • 100 g gott dökkt súkkulaði, saxað (ég sleppti því reyndar í þetta skiptið)

IMG_9851

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt vel saman. Á meðan er súkkulaði og smjör brætt varlega saman í potti, blanda er svo kæld dálítið. Því næst er henni bætt út eggjablönduna og þeytt vel saman. Að lokum eru þurrefnin sigtuð út í blönduna og blandað varlega saman við.  24 cm smelluform smurt að innan og deiginu hellt í formið. Bakað við 175° í 17 mínútur.

Á meðan er smjör, púðursykur og rjómi hitað í potti þar til blandan fer að „bubbla“ og þykkist dálítið. Þegar kakan hefur bakast í 17 mínútur er hún tekin út úr ofninum og pekanhnetum dreift yfir hana, annað hvort í heilu eða saxaðar. Þá er karamellubráðinni hellt yfir kökuna og bakað í 17 mínútur til viðbótar. Um leið og kakan kemur út úr ofninum er súkkulaðinu stráð yfir kökuna.

IMG_9854

IMG_9858

IMG_9921

Eggja- og beikonmúffur


Eggja- og beikonmúffur

Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram eða á Facebook sáu að ég setti inn myndir í vikunni sem birtust einmitt í Vikunni! Ég var nefnilega beðin um að vera matgæðingur Vikunnar og gefa þrjár uppskriftir. Mér fannst þetta spennandi verkefni og ákvað að gefa nýjar uppskriftir sem ég hef ekki sett inn á bloggið enn.

Vikan2-001

Ein þeirra er ofsalega ljúffeng og góð tælensk kjúklinga- og sætkaröflusúpa. Þetta er bragðmikil og einkar bragðgóð súpa sem er ákaflega einföld og fljótlegt að búa til. Önnur uppskriftin var að blautri súkkulaðiköku með glóaldini, það er dásamleg súkkulaðikaka með appelsínubragði, minnir á kattartungurnar góðu. Þriðja uppskriftin er af einum þeim besta laxarétti sem ég hef smakkað! Sojamaríneraður lax með mangó/avókadósalsa og smjörsteiktu spínati. Þennan rétt tekur engan tíma að elda en maður minn hvað hann er góður! Samsetningin er skotheld, ljúffengur laxinn með bragðgóðu maríneringunni og dásamlega góða meðlætið – það er bara skylda fyrir laxaunnendur að prófa þennan rétt! Tölublaðið af Vikunni með ofantöldum uppskriftum kom út fyrir helgi, ég hvet ykkur til þess að næla ykkur í eintak!

Vikan1-001

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift af ekki síður góðum mat. Þetta eru eggja- og beikonmúffur sem slógu í gegn í sextugsafmæli mömmu (meira um afmælisveitingarnar í næstu færslu! 😉 ). Þar sómdu múffurnar sér einstaklega vel á brunch-borðinu.

IMG_9925

Múffurnar eru ákaflega ljúffengar og afar einfaldar að útbúa. Það eina sem krefst er að vera með gott möffinsform. Ég prófaði að gera þær í einnota möffinsformum en þær festust of mikið við formin fyrir minn smekk. Ég notaði því „non stick“ möffinsform sem tekur 24 múffur í einu, þetta er svona míní-möffinsform. Ég fékk það í Hagkaup á 2990 kr. Múffurnar losnuðu mjög auðveldlega úr forminu, ég þurfti ekki einu sinni að smyrja það að innan. Það er afar gaman að bera þessar múffur fram á til dæmis „brunch“ borði því þær eru svo fallegar. Eins er svo skemmtilegt að með þessum múffum fær maður morgunverðinn allan í einum litlum gómsætum bita – egg, beikon og ost!

IMG_0094Svona líta múffurnar út að innan

Það er auðvitað líka hægt að nota þessa uppskrift venjuleg möffinsform sem eru stærri (taka þá oft átta eða tólf múffur í einu). Þá þarf bara að auka aðeins við bökunartímann.

Uppskrift (passar í eitt möffinsform sem tekur 24 mínímúffur eða form sem tekur 12 venjulegar múffur):

  • 10 egg
  • 150 g rifinn ostur (ég notaði mozzarella)
  • 3/4 dl rjómi
  • ca 140 gr beikon
  • sléttblaða steinselja, skorin smátt (ég notaði ca. 1 dl), líka hægt að nota graslauk
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • það er hægt að bæta við öðrum hráefnum eftir smekk, t.s. spínati, eins er hægt að gera múffurnar meira „spicy“ með t.d. með því að krydda þær með chiliflögum.

IMG_9864

 Ofn er hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Beikonið er steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það skorið í litla bita. Eggin er þeytt létt saman í skál. Því næst er rifna ostinum, rjómanum, steinseljunni og kryddinu bætt út í. Blöndunni er því næst ausið með skeið ofan í möffinsformið. Gæta þarf að fara vel ofan í botninn á skálinni með skeiðinni og þannig sjá til þess að beikonið og osturinn dreifist jafnt ofan í hvert hólf. Best er að sléttfylla hólfin.

IMG_9870

Þá eru múffurnar bakaðar við 180 gráður í 15 mínútur. Á meðan bakstri stendur rísa múffurnar vel upp úr forminu en falla síðan dálítið niður eftir að þær eru teknar út.

IMG_9911Svona líta múffurnar út í lok bökunartímans

IMG_9898Hér eru múffurnar byrjaðar að falla saman eftir baksturinn – það er alveg eðlilegt.

Hjá mér voru múffurnar alveg lausar í forminu og auðvelt reyndist að fær þær upp á disk með gaffli. Gott er að bera múffurnar fram heitar en það er líka hægt að bera þær fram kaldar.

IMG_9905

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Súkkulaðifrauð


Súkkulaðimousse

Eins og ég sagði frá í gær þá var ég með matrétti um helgina sem henta LKL mataræðinu. Það hefur nú varla farið fram hjá mörgum að þetta mataræði er orðið afar vinsælt hér á landi. Mataræðið inniheldur mjög lítið magn kolvetna en mikið af próteinum og síðast en alls ekki síst, fitu! Það getur verið dálítið flókið að sneiða hjá kolvetnum en kosturinn við þetta mataræði er að það er margt gott leyfilegt. Eftirrétturinn sem ég hafði um helgina var gómsæt súkkulaðimousse eða súkkulaðifrauð. 70-80% súkkulaði er leyfilegt til hátíðabrigða á LKL matarræðinu. Þetta súkkulaðifrauð er afar einfalt en ákaflega ljúffengt í því er einungis dökkt súkkulaði, eggjarauður og þeyttur rjómi. Dásamlega einfalt og gott! Ég hef áður bloggað um súkkulaðifrauð hér. Þar kemur einmitt fram að súkkulaðifrauðin eru til í allskonar útgáfum. Það er af og frá að þetta LKL – súkkulaðifrauð sé einungis fyrir þá sem eru á lágkolvetnismataræði, það er sannarlega fyrir alla aðra sælkera líka! 🙂

IMG_9756

Uppskrift f. 4-6:

  • 100 g dökkt súkkulaði, helst 80%
  • 2 eggjarauður
  • 3 dl rjómi
  • einhverskonar bragðbætir, td. koníak (ég sleppti slíku)

Súkkulaðið er brytjað niður og brætt yfir vatnsbaði við vægan hita, látið kólna dálítið. Því næst er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið einu í senn og blandað vel saman við súkkulaðið. Rjóminn er þeyttur og dálitlum hluta af honum, ca. 1/2 dl., bætt saman við súkkulaðiblönduna og hrært þar til að allt er vel blandað saman. Þá er restinni af rjómanum bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Blöndunni er skipt í glös og látin stífna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hún er borin fram. Gott er að bera fram þeyttan rjóma með súkkulaðifrauðinu og jafnvel skreyta með jarðaberjum eða hindberjum – þau eru leyfileg í LKL!

Hér eru dásamlegu Lattebollarnir frá Cup Company notaðir undir súkkulaðimúsina! 🙂

IMG_9753

Ofnbakað eggaldin með tómötum og osti


IMG_9744

Dásamlega löng og notaleg helgi er að lokum komin. Hápunktur helgarinnar var að sjálfsögðu Euorvision keppnin þar sem Eyþór og félagar voru okkur til mikils sóma! 🙂 Við fengum matargesti og hér var Eurovision veðmál tekið mjög alvarlega. Keppt var í yngri og eldri flokki þar sem yngri flokkurinn keppti um sælgætispott en sá eldri keppti um léttvínspott!

IMG_9747

Eftirsóttur pottur! 

IMG_9750

Hluti af hópnum, allir spenntir og tilbúnir með listann (börnin mín urðu auðvitað að gretta sig framan í myndavélina)!

IMG_9752

Smá vínsopi til að kynda undir keppnisskapið!

IMG_9787

Katla var alveg með’etta og vann nammipottinn! 

IMG_9795

Sigurjón var ekki bara með topplistann á hreinu heldur giskaði hann líka rétt á í hvaða sæti Ísland myndi lenda! Ég læt hann velja lottó-tölurnar mínar næst! 🙂

Hluti af gestunum er á LKL mataræði, eða lágkolvetnis lífsstíl. Mér fannst spennandi að finna matrétti sem pössuðu inn þetta mataræði. Í aðalrétt var ég með grillaða sirloin nautasteik, beint af býli, dásamlega gott og meyrt. Meðlætið var bearnaise sósa, sveppasósa, falskt kartöflusalat (með kúrbít), ferskt salat, ofnbakað eggaldin með tómötum og osti auk kartaflna fyrir ekki LKL-ista! Í eftirrétt var súkkulaðifrauð sem passar fyrir LKL. Snakkið var grænmeti og ídýfa, saltaðar Macadamia hnetur en þær hafa lágt kolvetnisinnihald (fást í Kosti), heimatilbúið snakk úr parmesan osti og fleira. Uppskriftirnar af öllum framantöldu munu koma inn á síðuna næstu daga. Ég ætla að byrja á ofnbökuðu eggaldin með tómötum og osti. Frábærlega einfalt og gott meðlæti sem hentar fyrir alla, hvort sem þeir eru á LKL eða ekki! 🙂 Minnir dálítið á þetta meðlæti sem er dásamlega gott líka.

Uppskrift:

  • 2 eggaldin, skorin langsum í skífur
  • 1 tsk salt
  • 2-3 msk olífuolía
  • 4 þroskaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1 knippi sléttblaða steinselja, söxuð smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • rifinn mozzarellaostur, ca 60 g
  • salt og nýmalaður svartur pipar

IMG_9713

Ofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Eggaldinskífurnar eru lagðar á bretti og saltinu dreift yfir þær. Það er látið liggja á í ca. 10 mínútur til að draga úr beiskjunni í eggaldinu. Þá er vökvinn sem myndast hefur á yfirborðinu, ásamt saltinu, þerraður með eldhúsrúllublöðum. Eggaldin skífurnar eru því næst steiktar upp úr olíu á pönnu þar til þær eru mjúkar. Svo eru þær lagðar í eldfast mót, helst sem minnst ofan á hvor aðra.  Tómatarnir eru steiktir á pönnu í olífuolíu, steinselju og hvítlauk bætt við og leyft að malla um stund. Þá er rifna ostinum bætt út í tómatblönduna og blandað saman þar til osturinn er bráðnaður. Pannan er þá tekin af hellunni og kryddað með salti og pipar. Blöndunni er svo dreift yfir eggaldinið og bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

IMG_9728

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum


Nautahakksrúlla með beikoni og eplum

Vinsælasta nautahakksuppskriftin hér á Eldhússögum er nautahakksrúlla með brokkolí og osti. Það er skemmtileg útfærsla á nautahakki og tilbreyting frá hefðbundum nautahakksuppskriftum, en ekki síst, afar góður réttur. Ég hef lengi hugsað mér að gera þessa rúllu í annarri útfærslu og lét verða af því í vikunni. Ég var ekki alveg viss um hvað ég ætlaði að gera en ég byrjaði á því að steikja beikon, lauk og sveppi. Á þeim tímapunkti fékk ég þá hugljómun að nota epli líka. Eplin voru búin þannig að Elfar var sendur út í búð eftir eplum eins og svo oft áður þegar mig vantar skyndilega hráefni í einhvern rétt sem ég er að útbúa. Nautahakksrúllan var rosalega góð, jafnvel betri en sú fyrri. Þessa rúllu er auðvelt að aðlaga að LKL matarræðinu, þá þarf bara að sleppa eplinu og skipta út kartöflumjöli fyrir husk. Sósan er svakalega góð, það má bara ekki sleppa henni! Margir halda að það sé mikið mál að rúlla upp svona nautahakksrúllu en það er ekkert mál og auðvelt að færa hana svo í eldfast mót. Það er allt í lagi þó svo að rúllan opnist aðeins á meðan eldun stendur, hún verður ekkert verri fyrir vikið.

Uppskrift fyrir 3-4:

Hakk:

  • 500 g nautahakk
  • 1 msk kartöflumjöl (2 tsk husk fyrir LKL)
  • 1 egg
  • salt & pipar
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 30 g smjör
  • 2-3 msk soja
  • 1-2 dl rjómi
  • sósujafnari (fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður, þar með þykkist hún. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti, það hjálpar til við þykkingu).

Fylling:

  • 180 g beikon, skorið eða klippt í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 150 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1 lítið grænt epli eða 1/2 stórt, afhýtt og skorið í litla bita (sleppa fyrir LKL)
  • salt & pipar
  • 1 tsk timjan
  • 2 dl rifinn ostur

Ofninn er hitaður í 200 gráður. Nautahakki, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Beikon steikt á pönnu þar til það er að verða stökkt, þá er lauknum bætt á pönnuna og steikt í smástund til viðbótar, svo er sveppunum bætt út í. Þetta er steikt í smá stund og í lokin er eplunum bætt við og kryddað. Blöndunni er svo dreift yfir nautahakkið.

IMG_9695

Rifna ostinum er svo dreift yfir beikonblönduna.

IMG_9697

Með hjálp smjörpappírsins er hakkinu rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Smjör brætt í potti og sojasósu blandað saman við smjörið, blöndunni er hellt yfir rúlluna.

IMG_9701

Hitað í ofni í ca. 35 mínútur við 200 gráður, kannski lengur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott (ég sigtaði vökvann ofan í pottinn) og 1-2 dl af rjóma hellt út í. Sósan er svo þykkt með sósujafnara. Fyrir LKL er ekki hægt að nota sósujafnara. Til þess að fá þykkari sósu þarf að nota aðeins meiri rjóma og leyfa sósunni að sjóða aðeins niður þar til hún þykkist. Það er líka hægt að bæta við 2 msk af rjómaosti út í sósuna, það hjálpar til við þykkingu. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús og salati.

IMG_9705

Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Hjónabandssæla


Hjónabandssæla

Þegar ég bjó í Svíþjóð féll ég fyrir mörgum vörum í Iittala merkinu. Ekki skemmdi fyrir að í Gustavsberg, rétt fyrir utan Stokkhólm, er outlet með Ittala vörum meðal annars. Núna eru komnar svo dásamlega fallegar skálar frá Iittala í merkinu Kastehelmi.

kastehelmi-550x276Litirnir eru líka svo fallegir, skemmtilegt að bera fram eitthvað gómsætt í svona fallegum skálum.

The-Kastehelmi-Bowl-from-Iittala-1Kakan sem ég ætla að gefa uppskrift af er ekkert sérstaklega falleg og passar nú ekki í þessar skálar – en góð er hún! Þegar ég var lítil var tvennt sem ég útbjó reglulega, það var karamella (hver gerði það ekki?) og hjónabandssæla. Uppskriftin sem ég notaði núna er ekki eins og sú sem ég notaði áður fyrr. Satt best að segja þá var ég ekki með neina sérstaka uppskrift í huga þegar ég bakaði hjónabandssæluna að þessu sinni heldur miðaðist hún við það hráefni sem ég átti til. Sykurinn var búinn (já, ég nota hvítan sykur – látið handtaka mig! 😉 ), en ég átti dálítið af muscovado sykri, dálítið af púðursykri, dálítið af kókosmjöli. Ég kláraði úr öllum þessum pokum auk þess sem ég kláraði haframjölið sem ég átti. Ég réð því ekki yfir hlutföllunum sjálf heldur réðust þau af því sem ég átti. Jafnframt hafði ég hugsað með að nota egg í uppskriftina, þó það sé ekki alltaf gert í hjónabandssælu, en gleymdi því. Oftast er notuð rabbabarasulta á hjónabandssælu en ég notaði blandaða berjasultu. Ég renndi því frekar blint í sjóinn með þessa uppskrift og var óviss með hvort hún myndi lukkast vel en … kakan varð stórgóð!

Uppskrift:

  • 220 g haframjöl
  • 250 g hveiti
  • 100 g kókosmjöl
  • 150 g púðursykur
  • 120 g muscovado sykur (eða hrásykur)
  • 250 g smjör
  • blönduð ávaxtasulta (ég notaði ca. 1 -1.5 dl) eða rabbabarasulta

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Öllum hráefnunum blandað í skál, mér finnst best að nota hendurnar, hnoðað í slétt deig. Kökuform, ca. 30×25 cm, er smurt. Um það bil 3/4 af deiginu er þrýst ofan í formið. Sultu smurt yfir kökuskelina. Því næst er restinni af deiginu dreift óreglulega yfir sultuna. Bakað við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_9664

Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu


Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu

Það er nú meiri snilldin að það sé „aftur“ komin helgi eftir bara einn vinnudag! Sérstaklega er ljúft að eiginmaðurinn á líka fríhelgi en þær eru ekki á hverju strái. Í dag fórum við á vortónleika hjá börnunum, í hjólaferð og svo bökuðum við mæðgurnar. Eins og venjulega þegar Jóhanna Inga fær að ráða þá er bökuð eplakaka en hún fær aldrei nóg af eplakökum í allskonar útfærslum. Þó hún sé bara átta ára þá er hún farin að baka hér um bil sjálfstætt og hefur afar gaman af. Í sumar mun hún fara á matreiðslunámskeið sem hún fór á í fyrra líka, hún hlakkar mjög mikið til.

Ég ákvað að elda eitthvað í kvöld úr gúllasinu sem ég fékk þegar ég keypti nautakjötið frá Mýranauti. Einhvern veginn þá vill það kjöt oft verða það sem ég nýti síst. Mig langaði að búa til eitthvað rosalega gott og lagðist yfir uppskriftabækur og netuppskriftir. Ég endaði á því að nýta hugmyndir héðan og þaðan, breyta og bæta. Og vá hvað maturinn varð góður! Meðlætið var frekar óvenjulegt og passaði ákaflega vel saman. Jógúrtsósan er alveg hreint dásamlega góð og ég mun pottþétt gera hana aftur sem allra fyrst! Mest á óvart kom ananasinn! Ég kryddaði hann með cajunkryddi og grillaði. Þetta var himneskt meðlæti með réttinum og sósunni góðu. Það var nú svolítið fyndið að ég ætlaði að krydda ananasinn með karrí en greip óvart cajun kryddið. Hins vegar þá kom það ofsalega vel út, ég mun örugglega halda mig við cajunkryddið þegar ég geri ananasinn aftur! 🙂 En við kolféllum sem sagt öll fyrir þessum himneska rétti og átum á okkur gat – þetta var veisla fyrir bragðlaukana! Gúllasið var meyrt og gott enda var ég með frábært kjöt beint af býli. Ég hugsa að það sé líka mjög gott að nota kjúklingakjöt í þennan rétt. Jógúrtsósan og grillaði ananasinn smellpassa allavega örugglega með kjúklingi. Ég veit ekki hvort þessi matreiðsla virkar flókin en hún er það alls ekki, þvert á móti, þetta var allt ákaflega einfalt og fljótlegt (ég reyndar skellti kjötinu í marineringuna fyrr um daginn). Á meðan kjötið mallaði á pönnunni grillaði ég ananasinn og hrærði í sósuna. Aldrei þessu vant voru ekki einu sinni hrísgrjónin tilbúinn þegar allt hitt var tilbúið, þó hafði ég byrjað á þeim.

IMG_9574

Uppskrift: 

  • 1 kíló nautagúllas (eða kjúklingabitar)
  • ca. 100 g belgbaunir (má sleppa)
  • 200 g sveppir
  • 1/2 tsk nautakraftur

Marinering:

  • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
  • 1.5 dl sojasósa
  • 2 msk sesamfræ
  • 2 tsk sambal oelek (chili mauk)
  • 1 dl ólífuolía
  • ferskmalaður svartur pipar

Hráefninu í marineringuna hrært saman. Kjötið lagt í marineringuna, annað hvort í poka eða skál og látið bíða í ísskáp í minnst 30 mínútur en því lengur því betra. Sveppirnir skornir í bita og steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu, kryddaðir með nautakraftinum. Sveppirnir eru svo veiddir af pönnunni. Kjötið er tekið úr marineringunni og steikt á pönnu í 2-3 mínútur. Þá er restinni af marineringunni bætt á pönnuna ásamt sveppum og belgbaununum. Það er hægt að bæta við dálitlu af vatni til þess að búa til meiri sósu ef með þarf. Látið malla í nokkrar mínútur þar til kjötið er tilbúið. Borið fram með sweet chili – jógúrtsósu, grilluðum cajun-ananas og hrísgrjónum.

IMG_9539

Cajun-ananas:

  • 1/2 – 2/3 ferskur ananas
  • ca 1 tsk cajun krydd

IMG_9568

Ananasinn er skorin í bita. Best er að skera ananasinn á þennan hátt (byrjar við 1.20 mín í myndbandinu). Hann er svo kryddaður með cajun kryddi og grillaður við meðalhita í 2-3 mínútur á báðum hliðum.

IMG_9572

Sweet chili – jógúrtsósa:

  • 2 dl grísk jógúrt
  • 4 tsk sweet chili sósa
  • 1-2 hvítlauksrif, pressað
  • ca. 2 tsk fínsaxaður ferskur kóríander

Öllum hráefnunum blandað vel saman.

IMG_9579

IMG_9588

Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku


Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku

Mér líður eins og það hafi liðið heil helgi síðan ég var í vinnunni í gær. Ég held að það sé vegna þess að í dag var Elfar aldrei þessu vant í fríi líka og svo gerðum við líka svo margt skemmtilegt. Í gærkvöldi fórum við í glæsilegt stórafmæli með fjórrétta máltíð og skemmtun fram á nóttu. Þeir sem eru fylgjendur Eldhússagna á Instagram gátu einmitt séð myndir frá afmælinu. Í dag erum við búin að njóta góða veðursins, dunda okkur við ýmiss verkefni hérna heima og enduðum á kvöldsundi.

Ég er enn að prófa mig áfram með parmesan, brauðteninga, mozzarella og kryddjurta kjúkling! Þetta er bara svo óskaplega gott hráefni og hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr því! Ég hef gert þessa tvo rétti sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, parmesan- kryddjurtakjúklingur og ítalskan parmesankjúkling. Að þessu sinni ákvað ég að nota úrbeinað kjúklingalæri og bæta við parmaskinku. Þessi réttur sló algjörlega í gegn. Heimilisfólkið sagði að þetta væri „Kentucy Fried Chicken mætir ostafylltum kjúklingabringum“! Ég reyndi að útfæra réttinn á sem auðveldasta hátt þannig að hann yrði eins fljótlegur og hægt er. Úrbeinuð kjúklingalæri eru fremur þunn og henta vel til þess að rúlla upp án þess að þurfa að fletja þau út sérstaklega. Rúllan helst þó ekkert sérstaklega vel saman, þess vegna lagði ég þær beint í eldfasta formið og stráði brauðteninga/parmesan mylsnunni yfir í stað þess að velta þeim sérstaklega upp úr mylsnunni. Þetta gerði réttinn afar fljótlegan að útbúa. Útkoman var frábær og þetta er klárlega réttur sem ég mun gera reglulega.

IMG_9507

  • 1200 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • parmaskinka (ég notaði hálfa parmaskinkusneið á hvert læri)
  • ca. 2 dl rifinn mozzarellaostur
  • 1 stk oregano
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dl vatn
  • 50 g smjör
  • 2 hvítlauksrif
  • ca 80 g brauðteningar með osti og hvítlauk
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 teskeið paprikukrydd
  • maldon salt og ferskmalaður svartur pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingalærin eru lögð á bretti (það er hægt að fletja þær aðeins út – banka með kökukefli – ef maður vill þær þynnri) og þau krydduð vel með salti, pipar og oregano. Ofan á hvert læri er svo lögð parmaskinka og rifinn mozzarellaostur. Lærunum er svo rúllað varlega upp og rúllurnar lagðar í smurt eldfast mót með samskeytin niður. Vatn, kjúklingateningur og smjör sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðnað og tengingurinn leystur upp. Blöndunni er hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu. Brauðteningar eru muldir í matvinnsluvél og rifna parmesanostinum er blandað saman við brauðteningamylsnuna ásamt paprikukryddinu, salti og pipar. Þessari blöndu er dreift vel yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_9500

IMG_9502

IMG_9504