Hjónabandssæla


Hjónabandssæla

Þegar ég bjó í Svíþjóð féll ég fyrir mörgum vörum í Iittala merkinu. Ekki skemmdi fyrir að í Gustavsberg, rétt fyrir utan Stokkhólm, er outlet með Ittala vörum meðal annars. Núna eru komnar svo dásamlega fallegar skálar frá Iittala í merkinu Kastehelmi.

kastehelmi-550x276Litirnir eru líka svo fallegir, skemmtilegt að bera fram eitthvað gómsætt í svona fallegum skálum.

The-Kastehelmi-Bowl-from-Iittala-1Kakan sem ég ætla að gefa uppskrift af er ekkert sérstaklega falleg og passar nú ekki í þessar skálar – en góð er hún! Þegar ég var lítil var tvennt sem ég útbjó reglulega, það var karamella (hver gerði það ekki?) og hjónabandssæla. Uppskriftin sem ég notaði núna er ekki eins og sú sem ég notaði áður fyrr. Satt best að segja þá var ég ekki með neina sérstaka uppskrift í huga þegar ég bakaði hjónabandssæluna að þessu sinni heldur miðaðist hún við það hráefni sem ég átti til. Sykurinn var búinn (já, ég nota hvítan sykur – látið handtaka mig! 😉 ), en ég átti dálítið af muscovado sykri, dálítið af púðursykri, dálítið af kókosmjöli. Ég kláraði úr öllum þessum pokum auk þess sem ég kláraði haframjölið sem ég átti. Ég réð því ekki yfir hlutföllunum sjálf heldur réðust þau af því sem ég átti. Jafnframt hafði ég hugsað með að nota egg í uppskriftina, þó það sé ekki alltaf gert í hjónabandssælu, en gleymdi því. Oftast er notuð rabbabarasulta á hjónabandssælu en ég notaði blandaða berjasultu. Ég renndi því frekar blint í sjóinn með þessa uppskrift og var óviss með hvort hún myndi lukkast vel en … kakan varð stórgóð!

Uppskrift:

  • 220 g haframjöl
  • 250 g hveiti
  • 100 g kókosmjöl
  • 150 g púðursykur
  • 120 g muscovado sykur (eða hrásykur)
  • 250 g smjör
  • blönduð ávaxtasulta (ég notaði ca. 1 -1.5 dl) eða rabbabarasulta

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Öllum hráefnunum blandað í skál, mér finnst best að nota hendurnar, hnoðað í slétt deig. Kökuform, ca. 30×25 cm, er smurt. Um það bil 3/4 af deiginu er þrýst ofan í formið. Sultu smurt yfir kökuskelina. Því næst er restinni af deiginu dreift óreglulega yfir sultuna. Bakað við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_9664