Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

  • burritos eða tortillas pönnukökur
  • ólífuolía
  • maldon salt
  • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 4 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 4 hvítlauksrif
  • 1.5 líter kjúklingasoð
  • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
  • 1 tsk broddakúmen (krydd)
  • 1 tsk kóríander (krydd)
  • salt og pipar
  • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090

Kjúklingapasta með grillaðri paprikusósu


IMG_9476Þessa vikuna hef ég verið á endasprettinum í ritgerðinni minni og trúi því varla að ég hafi loksins verið að senda frá mér 33 þúsund orða meistararitgerð í prófarkalestur, ótrúlegt að þessari lotu sé að ljúka! *klappa sjálfri mér á öxlina* 😉 Ég hef því varla stigið inn í eldhús síðastliðna daga (ekki nema til þess að sækja mér koffein!) og því síður verið að undirbúa jólin. Ekki seinna vænna en að bretta upp ermarnar núna og fara í jólaundirbúning! Ég hlakka eiginlega mest til að taka húsið í gegn en það hefur verið verulega vanrækt síðustu þrjá mánuðina í þessari ritgerðavinnu!

Hann Vilhjálmur minn kom heim með svo frábæra skál sem hann bjó til í smíði í skólanum. Hún er svo dásamlega sæt að ég verð eiginlega að setja inn mynd af henni hér, þetta er uppáhaldsskálin mín núna!

IMG_6413Ég rakst á uppskrift í myndasafninu mínu frá því fyrr í haust sem ég var ekki enn búin að setja inn á bloggið. Þetta er voða góður pastaréttur með grillaðri papriku. Það er með ólíkindum hvað paprika breytist ef hún er grilluð, hún verður svo sæt og góð og frábær í sósur til dæmis. Þeir sem ekki nenna að standa í því að grilla paprikurnar (það er samt lítið mál!) geta keypt tilbúnar grillaðar paprikur i krukku. Ég var með brauð með pastaréttinum sem var afar einfalt og mjög fljótlegt að gera. Ég setti  saman í matvinnsluvél einn mozzarellaost, þrjá litla tómata, ferska basiliku, ólífuolíu, salt og pipar. Ég keyrði matvinnsluvélina stutt þannig að hráefnin maukuðust ekki saman heldur fóru í litla bita. Ég setti blönduna ofan á snittubrauð og hitaði i ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur.

IMG_9488Ofsalega gott og einfalt! En hér kemur pastauppskriftin.

Uppskrift:

  • 4-5 rauðar paprikur (ég notaði reyndar blandaða liti í þetta sinn en rauðar eru bestar)
  • 3 msk furuhnetur
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 lítill gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaði smátt
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 2-3 kjúklingabringur
  • chilikrydd
  • salt
  • fersk steinselja
  • rifinn parmesan ostur
  • 500 gr pasta

IMG_9479Paprikur grillaðar á útigrilli eða í ofni á háum hita og þeim snúið reglulega. Þegar þær eru alveg orðnar svartar eru þær settar í lokaðan poka í smá stund til að jafna sig. Því næst er svarta grillhúðin tekin af, paprikurnar skornar í sundur og kjarninn fjarlægður.
Furuhnetur léttristaðar á pönnu. Furuhnetur og paprika maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota

Pasta soðið eftir leiðbeiningum

Kjúklingur skorin í bita, kryddaður með góðu kjúklingakryddi og steiktur á pönnu. Einnig er hægt að grilla hann í heilu á grilli og skera hann svo í bita.

Ólífuolíu hellt í stóran pott, laukur og hvítlaukur steiktur við miðlungshita þar til mjúkt, þá er paprikumaukinu bætt við út í pottinn, saltað vel og kryddað með chilikryddi eftir smekk. Því næst er rjómanum hrært út í. Sósan smökkuð til og krydduð eftir smekk. Þá er pasta og kjúklingabitunum bætt út í og öllu blandað saman. Borið fram með ferskri steinselju og rifnum parmesan osti.

IMG_9492

Fylltar kjúklingabringur með basiliku, mozzarella og parmaskinku


IMG_6222

Ég er með nokkrar girnilegar jólauppskriftir í handraðanum sem ég ætla setja hér inn á bloggið en ætla samt að setja inn smá hollustu núna í kvöld, svona til að vega upp á móti sætindunum sem eru á leiðinni! Svo ætlaði líka þjálfarinn minn í ræktinni að kíkja á bloggið mitt (hæ Árndís!) og þá lítur betur út fyrir mig að hafa færslu með kjúklingi og kúskús frekar en einhverju gúmmelaði! Annars er hætta á að ég verði sett í að hlaupa upp og niður tröppurnar í ræktinni oftar en hinar í hópnum! 🙂

Þennan rétt hámuðum við í okkur fyrr í kvöld áður en við fórum í kvöldsund. Ég setti saman hitt og þetta sem mér finnst gott og útkoman varð rosalega góð verð ég að segja. Enda eru þetta hráefni sem geta ekki klikkað saman. Eins og ég hef sagt áður er ég ekki mjög hrifin af sólþurrkuðum tómötum en í þessum rétti njóta þeir sín mjög vel.

IMG_6229

Uppskrift

  • 8 kjúklingabringur
  • 125 g sólþurrkaðir tómatar
  • ca. 1-2 dl rifinn ostur
  • 1 mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum, 120 g)
  • fersk basilika (ég notað heilt box frá Náttúru, 30 g)
  • 8 sneiðar parmaskinka
  • 1.5 dl ólívuolía
  • 2 msk balsamedik
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 tsk dijon sinnep
  • salt og pipar

Ofninn stilltur á 210 gráður. Kjúklingabringurnar lagðar á bretti með sléttu hliðina niður annað hvort í litlum plastpokum eða plastfilma lagt yfir þær. Svo eru þær flattar dálítið út með kjöthamri eða kökukefli (ég barði þær nú bara með kökukeflinu!), því næst eru þær saltaðar og pipraðar.

Rifinn ostur, mozzarellaostur, sólþurrkaðir tómatar og basilika sett í matvinnsluvél og keyrt í ca 10 sekúndur eða þar til blandan er grófmaukuð. Fyllingin sett inn í kjúklingabringurnar og einni parmaskinku vafið þétt utan um hverja bringu. Gott er að nota tannstöngla til að loka bringunni enn betur. Bringunum er svo raðað í eldfast mót, ekki alveg þétt upp við hvor aðra því það lengir eldunartímann. Ólífuolíu, balsamedik, hvítlauksrifum og sinnepi hrært saman og dreift yfir bringurnar. Ég átti smá afgang af fyllingunni og bætti henni út í sósuna áður en ég dreifði henni yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 210 gráður í ca. 30 mínútur þar til að kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_6237

Heilsteiktur kjúklingur með karrí- og eplasósu


IMG_0194Ég er smátt og smátt að fara í gegnum gömlu uppskriftabókina mína og færa uppskriftirnar þaðan yfir á þetta blogg. Þennan kjúklingarétt eldaði ég fyrir nokkuð löngu síðan en gleymdi að setja hann inn á bloggið þá. Ég hef ekki eldað þennan kjúklingarétt oft eftir að við fluttum til Íslands en þegar við bjuggum úti í Svíþjóð eldaði ég hann reglulega. Heilir kjúklingar eru ákaflega ódýrir í Svíþjóð og ég notaði hann því mikið. Hér eru reyndar heilir kjúklingar á frekar góðu verði líka, ég ætti því eiginlega að vera duglegri að elda úr heilum kjúklingi. Auk þess fær maður bringur, leggi og læri sem hentar mjög vel fyrir stóra fjölskyldu, krakkarnir vilja leggi, mér finnst lærin best og öðrum líkar best við bringurnar. Mér finnst sósan passa rosalega vel með kjúklingum. Þessi blanda, karrí, epli og ananas fer svo vel saman. Ég elda kjúkling mjög oft í steikarpokum, mér finnst hann verða svo safaríkur og meyr við það. Hins vegar er talað um að pensla kjúklinginn reglulega með mareneringu í þessari uppskrift og þá er ekki hægt að nota steikarpoka, betra að nota steikarpott. Ég sleppti reyndar að þessu sinni mareneringunni, kryddaði kjúklinginn vel með kjúklingakryddi og steikti í steikarpoka. Marineringin er samt rosalega góð, mæli með henni.

IMG_0166 Uppskrift:

  • 1 kjúklingur
  • salt og pipar
  • 1 msk olía
  • 30 g smör, brætt
  • 1 msk hunang
  • 1 msk soja
  • 1 gulur laukur, skorinn í bita
  • 2 epli, afhýdd og skorin í bita
  • 5 ananashringir, skornir í bita
  • 5 dl kjúklingasoð (gerður úr kjúklingakrafti og sjóðandi vatni)
  • 1,5 tsk karrí
  • 1 tsk kartöflumjöl eða maísenamjöl (hægt að sleppa)
  • salt og pipar
  • 2 msk smjör

IMG_0203

Ofinn settur á 200 gráður. Kjúklingurinn saltaður og pipraður. Smjöri, hunangi og sojasósu blandað saman og kjúklingurinn smurður með blöndunni. Kjúklingurinn lagður í eldfast mót og grillaður í ofni í 50-60 mínútur við 200 gráður, fer eftir stærð. Kjúklingurinn smurður reglulega með mareneringunni á meðan. Laukur, epli og ananas steiktur í smjöri í stutta stund án þess að það taki lit, þá er karrí stráð yfir og steikt í 1 mínútu til viðbótar. Kjúklingakraftinum hellt út í, suðan látin koma upp og kartöflumjöli eða maísenamjöli bætt út í til að þykkja sósuna (ath. sósan er gerð úr kjúklingakrafti og verður alltaf fremur þunn). Sósan látin malla í nokkrar mínútur, í lokin er smjöri bætt út í sósan smökkuð til með salti og pipar. Kjúklingurinn og sósan borin fram með hrísgrjónum.

IMG_0167

Kjúklingapasta með ostasósu


Þennan pastarétt geri ég þegar ég vil afla mér vinsælda hjá yngstu krökkunum og ef ég vil vita fyrirfram að þau munu háma í sig kvöldmatinn af bestu lyst! 🙂 Yngstu börnin eru ekki alltaf ánægð með skólamatinn, enda eru skólakokkarnir ekki öfundsverðir af því fjármagni sem þeir hafa úr að spila til þess að búa til mat fyrir mörg hundruð mismatvandna krakka. Þau eru ákaflega hrifin af einum rétti sem skólakokkurinn gerir, það er pasta í ostasósu og Jóhanna hefur kvartað yfir því að ég geri ekki jafngóða ostasósu. Ég tók nú ekki þeirri kvörtun léttvægt og hef verið að þróa ostasósuna þar til að ég sló skólaréttinum við! 😉 Þessi pastaréttur er mjög einfaldur, enda finnst krökkunum best að sleppa öllum óþarfa eins og til dæmis grænmeti! Toppurinn yfir i-ið er að bera fram þennan pastarétt með hvítlauksbrauði.

Uppskrift

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • smjör til steikingar
  • 100 gr rjómaostur
  • 1 piparostur
  • 2 dl rifinn ostur
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • salt og pipar
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og það skorið í litla bita. Því næst er smjörið og kjúklingurinn sett á pönnu, kjúklingurinn saltaður og pipraður og hann síðan steiktur í örskamma stund. Þá er matreiðslurjóma og mjólk hellt út á, piparostur skorinn í litla bita og honum bætt út í ásamt rjómaosti og rifnum osti. Þá er kjúklingakrafti bætt út í. Látið malla á vægum hita og hrært í sósunni öðru hvoru þar til osturinn er bráðnaður. Þá er sósan smökkuð til með kryddi og henni svo blandað saman við pastað. Borið fram með hvítlauksbrauði.

Karríkjúklingur með sætum kartöflum


Við erum búin að borða þennan ljúffenga rétt tvö kvöld í röð! Ég eldaði mjög stóran skammt í fyrrakvöld og í gærkvöldi fengum við okkur afganginn snemma og drifum okkur svo í kvöldsund með krakkana. Jemundur minn hvað það var notalegt! Ég er búin að sitja í svo margar vikur og skrifa ritgerðina mína að ég endaði á því að fá þursabit í bakið. Ég hef aldrei fengið svona í bakið áður, það er ákaflega óþægilegt og algjört vesen þegar maður þarf að sitja við tölvu allan daginn. Ég var svo glöð að uppgötva að Árbæjarlaugin er opin til klukkan 22 núna, en þeir voru búnir að draga svo úr opnunartímanum fyrr í ár. Ekki nóg með það heldur var kominn glænýr heitur pottur með allskonar nuddtækjum! Ég kom heim stálslegin og allt önnur í bakinu og krökkunum fannst dásamlegt að fara í kvöldsund. Við ætlum að reyna að gera þetta reglulega.

En að uppskrift dagsins! Mér finnst kjúklingur ákaflega góður, eins er ég afar hrifin af sætum kartöflum og mér finnst karrí mjög gott. Þegar ég fann uppskriftina af þessum rétti var ég viss um að mér myndi líka hann vel. Í réttinum eru fá hráefni en öll þessi ofangreindu sem mér finnst svo góð, hann er mjög einfaldur að matreiða og dásamlega litríkur. Það kom á daginn að mér líkar ekki bara rétturinn, ég elska hann! 🙂 Ég get varla beðið eftir því að búa hann til aftur og er strax farin að hugleiða hverjum ég á að bjóða í mat í þennan rétt! Ég var ekki ein um að falla fyrir þessum rétti, öllum í fjölskyldunni fannst hann ofsalega góður, meira að segja yngstu krökkunum. Ég notaði,,mild curry paste“ sem ég fann í Þinni verslun, ég fann ekkert slíkt á hraðferð minni í gegnum Bónus. Rétturinn var því mjög mildur en einkar bragðgóður. Ég átti ekki nóg af kókosmjólk en hins vegar átti ég rjóma þannig að ég setti ca. 1/3 rjóma í stað kókosmjólkur en það er líka hægt að nota bara kókosmjólk. Þessi réttur minnir dálítið á Massaman curry réttinn sem byggist einmitt upp á kartöflum, kjöti, curry paste, kókosmjólk og fleira hráefni. Sá réttur er ofsalega góður en mér finnst þessi eiginlega betri út af sætu kartöflunum og hann er klárlega mildari og einfaldari að útbúa.

Uppskrift:
  • 800 gr sætar kartöflur
  • 2 msk olía
  • salt og pipar
  • 2-3 msk curry paste (grænt, milt, sterkt – eftir smekk)
  • 1 msk olía
  • 700 gr kjúklingabringur eða lundir
  • 1 dl kröftugt kjúklingasoð (kjúklingakraftur + sjóðandi vatn)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 límóna (lime), safinn + fínrifinn börkur
  • kóríander, grófsaxað

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Sætar kartöflur skrældar, skornar í bita og dreift í ofnskúffu. Olíu, salt og pipar bætt við og hitað við 220 gráður í ca. 20 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn skorinn í bita. Olíunni (1 msk) hellt á pönnu og curry paste bætt út á pönnuna. Látið malla í ca. 2 mínútur, hrært í á meðan. Kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og steikt þar til þeir hafa náð lit á öllum hliðum. Þá er kókosmjólk, kjúklingasoði, safa og berki frá límónunni bætt út og látið malla í ca. 10 mínútur. Þegar sætu kartöflurnar eru hér um bil eldaðar í gegn er þeim bætt út í kjúklingaréttinn (allt fært í stóran pott ef pannan er of lítil) og leyft að malla með kjúklingnum í nokkrar mínútur í viðbót. Borið fram með hrísgrjónum og fersku kóríander stráð yfir réttinn.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrí


Ég er að berjast við löngunina að skrifa ekki karrí með ý! Karrí er víst skrifað með venjulegu i í íslensku en einhvern vegin finnst mér karrý líta betur út á prenti, ætli það sé ekki enskuvæðingunni að kenna! En burtséð frá því þá er tælenskur kjúklingur í grænu karrí ákaflega góður réttur! 🙂 Þó svo að ég leitist yfirleitt við að elda allan mat frá grunni þá er ég líka alltaf á höttunum eftir fljótlegum, einföldum og góðum matréttum eins og örugglega flestar aðrar uppteknar fjölskyldur. Sérstaklega þessa dagana þegar ég er að skrifa ritgerðina mína bókstaflega dag og nótt. Ég ákvað að prófa green curry mix frá Santa Maria og blanda því við kjúkling, bætti svo bara við lauk, hvítlauk og papriku ásamt kókosmjólk. Gæti ekki verið einfaldara og rétturinn sló í gegn hér heima. Það sem kom mér mest á óvart var að yngstu krakkarnir hámuðu í sig matinn og fannst hann svo góður! Rétturinn er bragðmikill en samt ekki of sterkur. Ég spurði þau einmitt hvort þeim þætti hann ekkert of sterkur, en svo var ekki! Það er líka til rautt karrí mix sem ég ætla að prófa næst.

Uppskrift:

  • 3-4 kjúklingabringur, skornar í litla bita
  • 1 bréf Green Curry Spice Mix
  • 1 dós kókosmjólk
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1/2 -1 laukur, saxaður í þunnar sneiðar
  • 1 rauð paprika, söxuð í þunnar sneiðar
  • smjör til steikingar

Laukur, hvítlaukur og paprika steikt upp úr smjörinu í þar til það verður mjúkt. Þá er kjúklingnum bætt út í og hann steiktur á öllum hliðum. Því næst er kryddinu bætt út í blandað vel. Þá er kókosmjólk hellt út á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum.

Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti


Í dag birtist þessi uppskrift í helgarblaði Fréttablaðsins, Lífið. Það var ekki pláss til að setja inn myndir af þessum gómsæta rétti í blaðið þannig að ég ætla að setja inn uppskriftina og myndir hér á bloggið. Ég prófaði þetta lasagna í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum en er búin að elda það allavega þrisvar síðan! Krakkarnir eru sólgnir í þetta lasagna og okkur Elfari finnst það líka æðislegt. Ég eldaði það um daginn fyrir stórfjölskylduna, 16 manns, og öllum fannst það frábærlega gott. Meira að segja Bára Margrét litla frænka sem er þriggja ára borðaði skammt á við fullorðinn! 🙂 Það er einmitt svo skemmtileg hvað yngstu krökkunum finnst þetta gott en þau þykjast samt ekki borða spínat og fetaost! Ef ég á ferskt kóríander og/eða steinselju set ég dálítið af því líka út í tómatsósuna ásamt basilikunni, hún verður bara enn betri þannig. En ef maður á ekki matvinnsluvél eða töfrasprota er vel hægt að nota maukaða tómatsósu („passerade tomater“) í staðinn og fínsaxa bara basiliku út í. Uppskrift f. 5-6 

  •  900 gr kjúklingabringur, skornar í litla bita
  •  ólífuolía til steikingar
  •  salt og pipar
  •  1 rauðlaukur, saxaður smátt
  •  2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  •  2 dósir niðursoðnir tómatar
  •  1 box fersk basilika (miðað við boxin frá Náttúru sem eru 30 gr.)
  •  2 tsk þurrkuð basilika (krydd)
  • chili krydd (ég nota Chili explosion frá Santa Maria)
  •  150-200 gr ferskt spínat
  •  150-200 gr fetaostskubbur
  •  lasagnaplötur
  •  rifinn ostur

Ostasósa:

  • 40 gr smjör
  •  4 msk hveiti
  •  ca 5-6 dl mjólk
  •  2 dl rifinn ostur (líka mjög gott að nota rifinn piparost)
  •  múskat
  •  pipar

Bakarofn stilltur á 220 gráður. Tómötum í dós og ferskri basiliku blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til tómatsósan verður slétt og kekklaus. Kjúklingur steiktur upp úr olíu á pönnu og kryddaður með pipar og salti (athugið að fetaosturinn í uppskriftinni er fremur saltur). Rauðlauk og hvítlauk bætt út á pönnuna og steikt með kjúklingnum í nokkrar mínútur til viðbótar. Tómatsósunni er því næst hellt út á pönnuna og kryddað með basiliku kryddinu og chili kryddinu og smakkað til.

Ostasósa: smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við þar til sósan er hæfilega þykk, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar. Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti og því næst er lasagna plötum raðað yfir ostasósuna. Þá er kjúklingasósa sett yfir lasagnaplöturnar og ofan á hana er dreift spínati og að auki er muldum fetaosti stráð yfir. Þetta er gert í tvær eða þrjár umferðir, endað á ostasósu og loks er rifnum osti dreift yfir. Bakað við 220 gráður í ca. 20-25 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.

Himneskir kjúklingaleggir með rjómasósu


Í kvöld eldaði ég nýjan kjúklingarétt sem varð á svipstundu einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar! Börnin linntu ekki látum fyrr en ég lofaði að hafa þennan rétt allavega vikulega. Okkur Elfari fannst rétturinn líka ofsalega góður og að auki er hann mjög auðveldur að matreiða og frekar ódýr þar sem að kjúklingaleggir eru fremur ódýrt kjöt. Ég set hann því með glöðu geði á listann yfir uppáhaldsrétti. Það má nú deila um hollustu sósunnar sem inniheldur bæði smjör, rjóma og rjómaost en hún er ó svo hrikalega góð!! Það, að láta smör og sojasósu malla saman í safa af kjöti, gefur afskaplega góðan grunn í sósur. Kjúklingaleggirnir verða líka svo ofsalega bragðgóðir í þessari marineringu og meyrir við eldunina. Ég gerði satt að segja tvöfalda uppskrift hér að neðan, notaði sem sagt tvö kíló af kjúklingaleggjum! En við vorum sex í mat og svo var að auki afgangur sem dugði í þrjú matarbox, eitthvað sem gleður elstu krakkana mikið, þá þurfa þau ekki að eyða pening í mat í skólanum á daginn.
Uppskrift fyrir 4:
  • 1 kíló kjúklingaleggir
  • 25 gr smjör
  • ½ dl ólífuolía
  • 3 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • Knorr kjöt & grill krydd (eða annað gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum)
  • ½ dl vatn
  • 100 gr rjómaostur (jafnvel enn betra að nota Philadelpia með hvítlauk og kryddjurtum)
  • 3 dl rjómi
Ofninn stilltur á 200 gráður. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót eða í ofnskúffu, fer eftir fjölda leggja. Smjörið brætt og sojasósunni ásamt ólífuolíunni bætt út í. Blöndunni síðan hellt yfir kjúklingaleggina og þeim velt vel upp úr henni. Leggirnir eru því næst kryddaðir á alla kanta mjög vel með kjöt & grill kryddinu ásamt salti og pipar. Settir inn í 200 gráðu heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til leggirnir eru eldaðir í gegn. Kjúklingaleggirnir eru því næst lagðir á fat og vatni pískað út í sósuna í eldfasta mótinu, henni er síðan hellt yfir í pott. Rjómaosti er svo bætt út í og sósan látin malla þar til hann er bráðnaður. Þá er rjómanum bætt út í og sósan bragðbætt með salti og pipar ef þarf. Sósan látin malla í nokkrar mínútur og þykkt af vild með sósujafnara.
Kjúklingaleggirnir eru bornir fram með sósunni, hrísgrjónum og salati.