Ofnbakaður tacoréttur


Eins og hjá flestum barnafjölskyldum er taco afar vinsæll matur á okkar heimili. Hins vegar er alltaf dálítið vesen að borða tacoskeljar! Ég geri stundum því stundum vinsælan tacorétt í staðinn sem er einfaldur og góður. Mér finnst samt eiginlega eins og ég sé að brjóta einhver foreldralög að nota snakk í kvöldmatinn! Það er einhvern veginn prentað í mann að snakk sé svo óhollt og ég forðast að kaupa það svona almennt. En í upphaflegu uppskriftinni er gert ráð fyrir því að nota mjög stóran tortillupoka, sem er yfir 400 gr (þetta er reyndar fremur stór uppskrift). Ég átti bágt með að nota svona mikið og minnkaði snakkið aðeins en setti á móti taco skeljar sem ég braut gróft. En reyndar er nú föstudagskvöld og þá má leyfa sér svolítið! 🙂

Uppskrift f. ca. 6

 • 1 poki Tortilla eða Nachos flögur, ca. 3-400 gr.
 • 1 kg nautahakk
 • 2 bréf tacokrydd
 • 1 msk nautakraftur
 • 3 dl vatn
 • 2 dósir sýrður rjómi
 • 1 askja Philadelphia ostur
 • 4-5 tómatar, sneiddir
 • 1 ½ paprika, skorin í bita
 • 1 dós gular maísbaunir
 • 1 púrrlaukur, sneiddur
 • rifinn ostur
Bakarofn stilltur á 225 gráður. Flögunum dreift á botninn á ofnskúffu. Nautahakk steikt og tacokryddinu bætt út í. Því næst er vatni bætt við ásamt nautakrafti. Hakkið látið malla þar til vökvinn er soðinn niður. Þá er hakkinu dreift yfir flögurnar. Rjómaosti og sýrðum rjóma (báðum dósunum) hrært saman og dreift yfir hakkið. Því næst er grænmetinu dreift yfir og að lokum rifna ostinum. Bakað í ofni í ca. 12 mínútur. Ég stillti á grill síðustu mínúturnar til að osturinn tæki betri lit frekar er en að lengja bökunartímann því þá myndu tortilla flögurnar ekki haldast eins stökkar. Borið fram með salati, guacamole, sýrðum rjóma og salsasósu.

Svíþjóðarkaka


Þessi kaka er þekkt í Svíþjóð og kallast því viðeigandi nafni,,Sverigekaka“ eða Svíþjóðarkaka. Hún er líka þekkt undir, að mínu mati, meira óviðeigandi nafni, það er ,pensionärskaka“ eða lífeyrisþegakaka … nokkuð augljóst væntanlega af hverju ég kýs fyrrnefnda nafnið! Voða lítið girnilegt við síðarnefnda nafnið! Þetta afar auðveld kaka að baka en hún þarf að bíða ísskáp í nokkra tíma eða yfir nóttu áður en hún er borin fram. Það er til þess að kremið stífni. Ég bakaði þessa köku að kvöldi og setti hana í kæli yfir nóttu. Daginn eftir komu þrjár vinkonur Jóhönnu Ingu með henni heim úr skólanum. Þær fengu sér allar væna kökusneið og ein þeirra sagði ,,rétt upp hönd sem finnst þetta besta kaka í heimi“! Þær réttu allar upp hönd þannig að kakan fékk háa einkunn í aldurshópnum 7-8 ára! 🙂 Fleirum í fjölskyldunni þótti hún greinilega góð því að skömmu seinna var hún horfin. Það er því óhætt að mæla með Sverigekökunni!

Botn:

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 dl sjóðandi heitt vatn

Krem:

 • 1 dl mjólk
 • 125 gr smjör
 • 3 msk vanillusykur
Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smelluform (ca 24 cm) smurt. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Þurrefnunum blandað út í ásamt heita vatninu. Deiginu hellt í bökunarformið og kakan bökuð við 175 gráður í 30-40 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað er hún klofin í tvennt. Ég á svona skurðaráhald úr Íkea sem kemur sér vel þegar maður sker ójafnt eins og ég geri!
Krem: Smjör og mjólk soðið saman, hitinn lækkaður og vanillusykri bætt út í. Hrært við vægan hita þar til sykurinn hefur leyst upp (má ekki sjóða eftir að vanillusykurinn fer út í, þá verður kremið beiskt). Leyfið blöndunni að kólna aðeins og hellið henni svo jafnt yfir neðri botn kökunnar. Kremið á að vera í vökvaformi. Efri hluti kökunnar lagður yfir botninn. Plastfilma sett yfir kökuna og hún sett í kæli í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Flórsykur er sigtaður yfir kökuna áður en hún er borin fram og stundum er settur yfir hana glassúr.

Pizzufiskur (eða þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella!)


Ef ég fengi að ráða nafninu á þessum ljúffenga rétti þá myndi það vera ,,þorskur í miðjarðarhafssósu með mozzarella“. Yngri krakkarnir þvertóku hins vegar fyrir það, þau sögðu að nafnið pizzufiskur myndi gera réttinn girnilegan í augum allra barna! Þau eru hvorugt fyrir fisk en þegar hann er kominn í þessar umbúðir þá er ekki annað hægt en að klára af disknum sínum. Þetta er ótrúlega einfaldur réttur að matreiða og afar gómsætur. Ég kaupi varla ýsu lengur, finnst þorskurinn svo mikið betri. Í þetta sinn fékk ég mjög þykkt þorskflak og þurfti þess vegna að bæta við bökunartímann. Annars sakna ég dagsbirtunnar ógurlega mikið á kvöldmatartíma þessa dagana. Þegar ég byrjaði að blogga var júní og alltaf bjart. Ég kann ekkert í ljósmyndun er er búin að reka mig á grunnatriðið núna, það er dagsbirtan! Það er svo mikið leiðinlegra að taka matarmyndirnar þegar orðið er dimmt og það þarf að nota flass. Það jákvæða er hins vegar að ég er komin í kapphlaup við dagsbirtuna og er farin að hafa matinn fyrr, upp úr klukkan 18, helst fyrr. En ókosturinn er reyndar sá að oft sit ég ein við matarborðið til að byrja með, Elfar vinnur alltaf frameftir og oft eru eldri krakkarnir að stússast í tómstundum, íþróttum eða vinnu á þeim tíma. En hér kemur uppskriftin af pizzufisknum ( … eða þorsknum í miðjarðarhafssósunni með mozzarella!)

Uppskrift f. 4-5

 • 500 gr. tómatsósa með hvítlauk og/eða kryddjurtum (ég notað þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)
 • fersk basilika
 • 1 kíló þorskur eða ýsa
 • pipar og salt
 • 1 msk olía
 • svartar ólífur
 • 1-2 kúlur ferskur mozzarella

Ofninn hitaður í 200 gráður. Sósan hituð í potti, basilika söxuð gróft og bætt út í sósuna. Fiskurinn skorinn í hæfilega stór stykki og kryddaður með salti og pipar. Eldfast mót smurt með olíu, fisknum raðað í formið og sósunni hellt yfir. Að lokum er ólífunum dreift yfir. Álpappir breiddur yfir mótið og það sett í ofninn í ca. 10-15 mínútur. Mozzarella osturinn skorinn í sneiðar. Eldfasta mótið tekið úr ofninum og hitinn hækkaður í 215 gráður. Álpappírinn fjarlægður og ostinum raðað ofan á. Eldfasta mótið sett aftur inn í ofninn og bakað í ca. 10 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati, jafnvel góðu brauði líka.

Uppáhalds í eldhúsinu


Ég fór að velta því fyrir mér um daginn hvaða áhöldum og tækjum í eldhúsinu ég gæti ekki verið án þegar kemur að matargerð. Hér er topp 10 listi yfir það sem ég er ánægðust með!

1. Í fyrsta sæti eru klárlega góðir hnífar (og eiginlega þar með skurðarbretti líka). Ég held að það að það gerist hér um bil aldrei að ég byrji ekki matarundirbúning án þess að draga fyrst fram hnífa og skurðarbrettið (plast, þoli ekki tréskurðarbretti, finnst lyktin setjast svo í þau). Við fengum fyrsta Global hnífinn að gjöf frá góðum vinum okkar fyrir sex árum síðan. Það var ekki aftur snúið! Global hnífasafnið okkar samanstendur í dag af fjórum hnífum og svo Global hnífastandinum. Ég er ánægðust með G-2 hnífinn og svo brauðhnífinn, maður kemst mjög langt bara með þessa tvo. Það er líka mikilvægt að eiga demantsbrýni til að halda við skerpunni í hnífunum.   Vissulega kosta hnífarnir töluvert en miðað við notkunina og hvað þeir létta eldhússtörfin mikið þá sú fjárfesting algjörlega þess virði.

2. Spanhelluborð! Ég hefði líklega ekki sett helluborð ofarlega á listann áður en ég eignaðist Siemens spanhelluborðið mitt fyrir fjórum árum. Það er með ólíkindum hvað það er þægilegt að elda á spanhellum, algjörlega hægt að stjórna hitanum og hellurnar hitna til fullnustu á bara sekúndum. Svo er ég með helluborð sem er 80 cm í stað 60 cm sem er algengast, afskaplega gott að hafa svona rúmt pláss. Spanhelluborð, elska’ða!!

3. Teflonpanna. Góðar steikarpönnur eru lífsnauðsynlegar í eldhúsinu. Það er fátt jafn leiðinlegt í eldamennsku og þegar allt festist á pönnunni eða pönnur sem steikja ójafnt! Ég vil líka eiga góða stærð á pönnum þar sem ég elda yfirleitt fyrir marga. En svo er líka gott að eiga minni pönnu fyrir annað, stærðirnar sem ég á eru 26 cm og 32 cm. Ég er ekki með dýran pönnusmekk, finnst fínar þessar venjulegu teflonpönnur frá Tefal.

4. Matarstell. Við keyptum 4 hvíta matardiska í Hagkaup þegar ég var 19 ára og við byrjuðum að búa. Þetta voru svo sem ágætisdiskar frá Arabia. Tveimur árum síðar bjuggum við í Stokkhólmi og áttum von á þremur matargestum. Ég sendi Elfar í Åhlens að kaupa einn disk í viðbót en þeir áttu þetta sama merki. Hann kom heim með eins disk en óvart í næstu stærð fyrir ofan. Í viðbót við allskonar Íkea stell notuðum við þessa fimm matardiska (þar af einn stærri en hinir!) hversdags næstu 15 árin. Þegar við fluttum heim frá Stokkhólmi fyrir fjórum árum ákvað ég að kaupa almennilegt hversdagsstell til að taka með okkur heim til Íslands, stell sem væri í stíl! Ég keypti þetta sænska stell, Blå herrgård, frá Fyrklövern á Blocket (sem er sænska Bland) á afar góðum kjörum, hér um bil ónotað. Inni í því voru 12 matardiskar, 12 djúpir diskar, tarína, kökudiskur á þremur hæðum, kaffistell, skálar, pæform og ótal fleira. Ég er enn í skýjunum með þessi góðu kaup. Þetta er voða sænskt stell og passar vel í litla timburhúsið okkar sem er dálítið í sveitalegum stíl.

4. Ég lét ekki þar við sitja heldur keypti líka á Blocket frá sama merki, Fyrklövern, jólastell, Gammaldags jul heitir það en ég leyfi því að fljóta með í 4. sætið ásamt hversdagsstellinu. Ég lét nægja að kaupa bara jólakaffistell en það er ó svo fallegt! Þetta jólastell verður stellið sem börnin munu rífast yfir eftir minn dag því þeim mun finnast óhugsandi að halda jól öðruvísi en að drekka kakó úr jólabollunum og borða smákökur af jóladiskunum af æskuheimilinu! 🙂

5. Næst er það að sjálfsögðu Kitchen Aid hrærivélin. Hún er auðvitað ómissandi í baksturinn. Eitt af því sem mér líkar hvað best við hana er hnoðarinn. Ég hnoða allt gerdeig í hrærivélinni. Eins er frábært hvað hún er fljót að þeyta. Gallinn við hana er að deigið fer mikið út í hliðarnar á skálinni. En það er bara smávægilegur galli miðað við alla kostina. Mér finnst allar þessar marglitu Kitchain Aid vélar sem eru komnar núna afar fallegar. En við fengum okkar í brúðargjöf frá foreldrum mínum fyrir 19 árum og þá voru ekki margir litir að velja úr. Okkar er hvít en ég held reyndar að ég myndi velja hvíta aftur þrátt fyrir alla fallegu litina sem hægt er að velja úr núna.

6. Ég verð eiginlega að nefna matvinnsluvélina á þessum tímapunkti. Matvinnsluvélin sem við eigum er svo sem ekkert merkilegt merki né sérstaklega öflug en ég nota hana rosalega mikið og þegar ég hugsa um það þá væri ég hreinlega hálf handlama án hennar í eldhúsinu. Ég nota hana oft í viku við allskonar matargerð og bakstur.

7. Nýji blenderinn okkar, Vitamix, kemur næstur þó fyrr hefði verið. Hann er notaður daglega í allskonar boozt gerð. Ég get ekki lýst því hvað það munaði miklu að fara frá venjulegum blender yfir í þessa græju! Hann er vissulega ljótur, hávær og alltof klossaður og stór (týpískt fyrir amerískt tæki) en gerir svo sannarlega sitt gagn. Það þarf ekkert að passa upp á klaka eða frosin ber, hann mylur þetta allt eins og ekkert sé á methraða. Svo er líka mjög þægilegt að þrífa könnuna, annað en glerkönnuna sem við vorum með áður.

8. Næst eru það bökunarform, þau skipta afar miklu máli! Ég nota mjög mikið silikon bökunarform og finnst þau frábær. Það þarf varla að smyrja þau og það er alltaf auðvelt að losa kökuna úr silikon formi. Annað kökuform sem ég er einstaklega ánægð með er kökuform/diskur sem ég fékk í Duka fyrir nokkrum árum. Þetta er hvítur kökudiskur sem þolir bæði ofn og frysti og á hann er hægt að smella kökuformi. Alveg tilvalið til dæmis fyrir ostakökur sem er erfitt að flytja úr formi yfir á kökudisk. Þá er bara hægt að smella forminu af og bera svo fram kökuna beint fram á disknum.

9. Ég verð eiginlega að nefna steikaráhöld. Mér finnst mjög mikilvæg að vera með góða steikarspaða, písk og svo nota ég mikið steikartöng. Ég keypti steikaráhöld frá Fiskars í fyrra í Svíþjóð og ég er afskaplega ánægð með þau áhöld.

10. Ísskápur! Þegar rafmagnið fer af er maður harkalega minntur á hvað ísskápur gegnir veigamiklu hlutverki á heimilinu þegar kemur að mat! Í Svíþjóð er á flestum heimilum heill stór ísskápur og heill stór frystiskápur og yfirleitt gert ráð fyrir því í eldhúsinnréttingum. Ég sakna þess rosalega mikið! Þó ég sé með auka frystiskáp úti í skúr þá er það ekki það sama og að hafa hann inni í eldhúsi. Það að hafa svona gott pláss bæði í frysti og ísskáp gerir manni keyft að kaupa inn mikið skipulegra og hagkvæmar. Þegar við fluttum til Íslands keyptum við hús og gerðum upp meðal annars eldhúsið. Það er fremur lítið og það var sama hvernig ég reyndi, það var ekki möguleiki að koma fyrir heilum íssskáp og heilum frystiskáp. Mér líkar ekki vel við ameríska ísskápa (fyrir utan klakavélina), finnst bæði ísskápurinn og frystirinn í þeim afskaplega mjór og leiðinlegur. En við fórum milliveginn, keyptum 75 cm breiðan Liebherr ísskáp. Hefðbundnir ísskápar eru 60 cm og ég hefði aldrei trúað því hvað það munar miklu um þess 15 cm! Reyndar er ég ekki alveg sátt við ísskápinn þó að Liebherr eigi að vera ægilega gott merki. Mér finnst þeir hlutar af skúffum og hillum sem eru úr plasti inni í ísskápnum vera afar viðkvæmir og það hafa komið svolítið af sprungum í plastið sem mér finnst ekki eðlilegt fyrir svona nýjan ísskáp. En í það heila er ég mjög ánægð með ísskápinn og þá sérstaklega að hafa fengið extra stóran ísskáp þrátt fyrir allt. Ég er lítið gefin fyrir stál enda passar það illa inn í húsið okkar þannig að við völdum hvítan ísskáp.

Þá er ég komin upp í tíu hluti en er sífellt að detta fleira og fleira í hug! Ég gæti alveg bætt við bökunarhorninu mínu sem er með granítplötu, meiraháttar þægilegt til að hnoða deig á og hafa möguleika á að setja heit form úr ofninum beint á granítið. Simenz bakarofninn minn er mjög góður, hann er með frábæra kosti eins og sjálfvirkt hreinsikerfi, hann er einnig með þægilegum tímastillingum og fleira. Eins er það kaffivélin sem ég er svo ánægð með því hún er afskaplega falleg, en þar sem ég drekk ekki kaffi þá fær hún ekki að komast á listann. Margrethe skálarnar eru bæði fallegar og praktískar en kannski ekki lífsnauðsynlegar og komast því ekki á topp 10. Svo eru það lúxustækin, brauðristin, vöfflujárnið, belgíska vöfflujárnið, Crepes pannan, pönnukökupannan og samlokugrillið.  Allt eru þetta tæki sem ég vildi ekki vera án en eru samt ekki nógu mikilvæg til að komast á topplistann. Hvaða tæki/áhöld í eldhúsinu eru í uppáhaldi hjá ykkur?

(Myndirnar í þessu innleggi eru teknar af heimasíðum viðkomandi fyrirtækja, fyrir utan myndina af bökunarforminu sem er tekin af mér.)

Kjúklinganúðlur í satay-hnetusósu


 

Ég finn pressuna magnast vegna meistararitgerðarinnar minnar! Það gengur svo sem ágætlega að skrifa en afar hægt. Elfar var að vinna alla helgina en ég náði samt að vinna í ritgerðinni fyrripartinn í gær. Seinni partinn fór ég með Jóhönnu og vinkonu hennar í Krakkahöllina. Ég ætlaði að vera voða sniðug, nýta tímann og setja saman vikumatseðil á meðan ég beið á eftir þeim. Hins vegar kom í ljós að Krakkahöllin býður ekki upp á netsamband. Ég fór því í Bónus fremur illa undirbúin en var þó með óljósar hugmyndir um hina og þessa rétti sem ég keypti í fyrir vikuna. Mér finnst reyndar gaman að reyna að elda úr því hráefni sem ég á til, það verður því skemmtileg áskorun að setja saman rétti og spinna úr því sem ég keypti í gær. Ég er búin að hugsa lengi um að búa til einhvers konar rétt úr Satay hnetusósu. Ég hef skoðað á netinu uppskriftir af slíkri sósu en í Bónus rakst ég á nýja tilbúna gerð Satay sósu sem ég ákvað að prófa. Það átti bara að bæta við vatni en ég ákvað að bæta frekar við kókosmjólk auk vorlauks, hvítlauks, engifers, spínats og papriku. Þetta var afar fljótlegur réttur og góður.

Uppskrift f. 4 

 • 6-800 gr kjúklingalundir eða kjúklingabringur, skornar í litla bita
 • góður bútur af engifer, saxað smátt
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 búnt vorlaukur, saxaður smátt
 • 1 rauð paprika, skorin í þunnar strimla
 • 2 pakkar Satay sósa (sjá mynd), líka hægt að nota satay sósu í krukku
 • 2 dl kókosmjólk (það er hægt að nota alla dósina en þá verður hnetusósan bragðminni og meira kókosbragð)
 • 1/3 poki spínat
 • 250 gr eggjanúðlur

 

Eggjanúðlurnar soðnar eftir leiðbeiningum (passa þarf að ofsjóða þær alls ekki) Vorlaukur, hvítlaukur og engifer saxað smátt og steikt upp úr olíu á pönnu í ca. 1 mínútu án þess að það brenni. Blandan er svo veidd upp úr og lögð til hliðar. Kjúklingur steiktur á pönnunni þar til að hann hefur náð góðum lit og paprikunni bætt við. Því næst er laukblöndunni bætt aftur út í (ef pannan er lítil gæti verið gott að færa allt yfir í pott) Sósunni hellt út á ásamt kókosmjólkinni og látið malla í ca. 5 mínútur. Í lokin er spínatinu bætt út í. Kjúklingasósunni er svo blandað við eggjanúðlurnar og borið strax fram (ég stráði dálítið af söxuðum pistasíuhnetum yfir réttinn)

 

Nautahakksrúlla með osti og brokkolí


Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð.  Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn. Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast. Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Hér hef ég gert aðrar góðar útfærslur af nautahakksrúllunni:

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

IMG_0576

 

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

IMG_9706

 

 

 

 

 

Mexíkósk nautahakksrúlla

IMG_1104

 

 

 

 

 

 

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina. Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón. Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram. Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.

Uppskrift f. 4

 • 600 gr nautahakk
 • 1 msk nautakraftur
 • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
 • 1 tsk salt
 • pipar
 • 1 egg
 • 200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
 • ½ dl steinselja, söxuð smátt
 • 3-4 dl rifinn ostur
 • 2-3 msk sojasósa
 • 30 gr smjör, brætt
 • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
 • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
 • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40-50 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis kartöflumús (blómkálshrísgrjón fyrir LKL, sjá efst), salati og rifsberjahlaupi.

Heimatilbúið múslí


Ég er ekki mikið fyrir mjólkurvörur, til dæmis jógúrt, súrmjólk og slíkt. Þegar ég bjó í Stokkhólmi fann ég hins vegar afar góða hunangsmelónujógúrt og dásamlega gott sænskt múslí sem ég borðaði alltaf í morgunmat. Ég hef ekki fundið neitt sambærilegt á Íslandi og fór þess vegna að prófa mig áfram með múslígerð. Núna er ég komin niður á múslí sem mér finnst dásamlega gott. Krakkarnir elska þetta múslí og segja það vera nammi! Eftir að ég fór að gera þetta múslí þarf alltaf að vera til AB mjólk í ísskápnum, eitthvað sem engin vildi borða áður, en múslíið gerir AB mjólkina að hátíðarmat! Það er afar einfalt að búa múslíið til. Það tekur bara nokkrar mínútur að mæla í blönduna. Eina sem þarf að gera er síðan að hræra reglulega í múslíinu þegar það er í ofninum til þess að það brenni ekki. Ég bý oft múslíið til á meðan ég er að elda kvöldmatinn ef ég þarf ekki að nota ofninn í annað. Gróflega reiknað kostar ca. 2 þúsund að kaupa allt hráefnið í blönduna. En ég get notað margt af því allt að 5-6 sinnum eða oftar. Eina sem þarf að fylla á oftar eru tröllahafrarnir og hneturnar, það dugir ca tvisvar til þrisvar sinnum. Þannig að hver skammtur af múslíinu er ekki dýr þó um sé að ræða gæðahráefni. Mér finnst bráðnauðsynlegt að setja svo dálítið af rúsínum út á múslíið og AB mjólkina eða skera niður eina eða tvær döðlur og setja út á, dásamlega gott!

Uppskrift:

 • 5 dl haframjöl
 • 2 dl sólblómafræ
 • 1 dl hörfræ
 • 1 dl kókosflögur
 • hrásykur (ég nota ca. 1/2-1/3 dl)
 • 1/2 poki saxaðar heslihnetur
 • 2 dl vatn
 • 4-5 msk matarolía
Öllu hráefninu, fyrir utan vatn og matarolíu, blandað saman. Vatni og matarolíu blandað saman og blandað við múslí blönduna. Ristað í ofni við 200 gráður í ca 30-35 mínútur. Hrært oft í blöndunni svo hún brenni ekki við. Það er á mörkunum að kókosflögurnar ráði við þennan tíma þannig að oft set ég þær ekki út í blönduna strax heldur bæti þeim þegar ca. 10-15 mínútur af bökunartímanum er liðinn. Á þessari mynd voru þær reyndar með allan bökunartímann (30 mínútur).

Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni


Fljótlegur kjúklingaréttur í ofni

 

Um daginn gerði ég mangókjúkling með kasjúhnetum og kókos. Hann er afar gómsætur en tekur smá tíma að útbúa. Í kvöld þurfti ég að búa til eitthvað fljótlegt og fyrir valinu varð réttur sem ég sá inni á sænsku matarbloggi. Sósan er ekkert ósvipuð í grunninn og sú í mangókjúklingaréttinum en þessi réttur er mun einfaldari og afskaplega fljótgerður. Í hann er notaður tilbúinn grillaður kjúklingur og í sósuna eru notuð frekar fá hráefni. Þó það sé ekkert dúllað við að rista kókoshnetur og kókos í þessum rétti er hann samt afar bragðgóður. Ef maður fær ekki tilbúinn kjúkling út í búð (hann á það oft til að vera búinn einmitt þegar maður er seint á ferðinni og þarf að gera eitthvað fljótlegt í matinn!) þá er hægt að kaupa einn bakka af kjúklingabringum, skera þær niður í bita og snöggsteikja. Ég átti svo mikið af gulrótum að ég ákvað að prófa að gera uppskrift sem ég sá á netinu um daginn, að karamellusera gulræturnar upp úr smjöri og hrásykri með ferskum, rifnum engifer. Það var afskaplega gott en passar örugglega enn betur með til dæmis með lambalæri.

Uppskrift f. 3-4:

 • 1 grillaður kjúklingur, kjötið hreinsað af beinunum og skorið í bita
 • 1 púrrlaukur, sneiddur smátt
 • smjör til steikingar
 • 3 dl matargerðarjómi eða kaffirjómi
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 2-3 msk mango chutney
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk nautakraftur
 • salt & pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur lagður í eldfast mót. Púrrlaukur steiktur í smjöri þar til hann er orðinn mjúkur. Mango chutney, rjóma, sýrðum rjóma, sojasósu og nautakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp og sósan smökkuð til með salti og pipar. Sósunni síðan hellt yfir kjúklinginn og hitað í ofni í 15-20 mínútur þar til rétturinn er orðinn heitur í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.

 

img_9796

Fiskibollur með karrísósu


Ég er búin að vera lengi á leiðinni að búa til fiskibollur. Heimatilbúnar fiskibollur með karrísósu er svo dásamlega góður matur. Í margumtalaða skemmtilega ræktarhópnum mínum í Heilsuborg (sem er besta heilsuræktarstöðin í bænum! ) var einmitt rætt um fiskibollur í gær. Það kemur svo sem ekkert á óvart þar sem við tölum mjög mikið um mat á meðan við æfum! Ein í hópnum sagðist hafa verið að leita að góðri uppskrift af fiskibollum á netinu, ég tók það auðvitað beint til mín og dreif mig í fiskibollugerðina! 😉 Mér finnst langbest að nota hefðbundna, gamla og góða fiskibollu uppskrift frá mömmu. Ég hélt kannski að þetta væri uppskrift upphaflega frá ömmu en svo var ekki. Mamma gróf upp uppskriftina sína til að kanna uppruna hennar, það kom í ljós að þetta er úrklippa úr Vísi frá árinu 1981. Þar gefur Kristín Andrésdóttir hústjórnarkennari þessa uppskrift af fiskibollum. Reyndar ber hún þær fram með steiktum lauk og brúnni sósu en á okkar heimili er karrísósan vinsælust. Þessi uppskrift af karrísósu er sænsk, hún er rosalega góð og afar auðveld. Það tekur jafnlanga stund að laga þessa sósu eins og að búa til pakkasósu en hún er svo margfalt betri! Mér finnst bæði gott að hafa kartöflur og hrísgrjón með réttinum en vel oftar hrísgrjón því þau fara svo vel með sósunni.

Ég á ekki hakkavél á hrærivélina mína og notaði þvi bara matvinnsluvélina til að búa til deigið í bollurnar. Fiskibollurnar verða þéttari þannig, mér finnst þær betri ef notuð er hakkavél en það er ekkert sem kemur að sök samt. Ég gef upp stóra uppskrift, mér finnst ekki taka því að búa bara til nokkrar bollur, best er að búa til eins stóran skammt og maður  nennir og frysta afganginn. Frábært að geta gripið í fiskibollur úr frystinum. Þessi uppskrift gaf 22 fiskibollur, þær voru líklega í stærri kantinum.

Uppskrift:

 • 1.2 kíló ýsa eða þorskur (ég notaði þorsk)
 • 2 tsk salt
 • dálítill pipar
 • 4 msk hveiti
 • 3 msk kartöflumjöl
 • 2 egg
 • 1 laukur
 • ca 4 dl mjólk
 • smjör til steikingar

Fiskurinn hakkaður ásamt lauknum. Hveiti, karöflumjöli, salti, pipar og eggjum bætt út í fiskhakkið. Að lokum er mjólkinni bætt út í. Bollur mótaðar og þær steiktar upp úr smjörinu á pönnu. Þegar fiskibollurnar hafa náð góðum lit set ég þær í eldfast mót í ofn í við ca. 170 gráður á meðan ég bý til karrísósuna.

Karrísósa:

 • 3 msk smjör
 • 1 tsk karrí
 • 3 msk hveiti
 • ca. 4.5 dl vökvi (hægt að nota vatn, mjólk eða rjóma), ég notaði 1 dl matargerðarrjóma og restina léttmjólk.
 • 1 tsk eða teningur hænsnakraftur

Smjörið brætt og karrí bætt út í og það steikt í smjörinu í stutta stund. Hveitinu bætt út í og blandan pískuð á fremur háum hita þar til hún verður þykk. Þá er vökvanum bætt út í og á meðan er hrært stöðugt í sósunni með písk. Þá er hænsnakraftinum bætt út í. Sósan látin malla í 3-5 mínútur.

Sebrakaka


Ég gat ekki staðist mátið að prófa þessa köku eftir að ég sá hana á netinu. Tvennt fannst mér afar spennandi, annað var skemmtilegt útlit kökunnar og hitt var að í henni var kók! Ég hef aldrei bakað úr kóki áður þó ég sé nú hrifin af þeim drykk! 🙂 Þetta er í raun tilbrigði við hefðbundna marmaraköku, bara mikið flottari, mýkri og bragðbetri kaka. Ég var nú ekki viss um að ná sebraútlitinu, hélt að það væri kannski afskaplega erfitt. Annað kom þó á daginn, þetta var ægilega auðvelt og skemmtilegt. Jóhönnu Ingu fannst afar gaman að fylgjast með gerð kökunnar og það var hún sem tók myndirnar þegar ég var að setja deigið í kökuformið. Ég notaði svona nestispoka frá Íkea sem hægt er að loka til þess að sprauta deiginu. Smellan helst vel lokuð og pokarnir eru þykkir, það er því lítil hætta á því að deigið fari út um allt. Mikilvægt er að klippa bara örlítið gat á eitt hornið til þess að deigið renni ekki alltof hratt, maður vill geta haft góða stjórn á því. Ég setti til skiptis ljóst og dökkt deig frekar þétt, það er líka hægt að hafa breiðari renndur, setja þá meira af deigi í hverjum skammti. Það kemur líka mjög flott út. Þetta er virkilega góð kaka, það gerir hana afar safaríka að nota kók en það er líka hægt að nota sódavatn til að ná sömu eiginleikum fyrir þá sem ekki vilja nota kók.

Uppskrift:

 • 5½ dl hveiti + 3 msk
 • 3 msk kakó
 • 3 dl sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 4 stór egg
 • 2 dl matarolía, (ekki ólífuolía)
 • 2 dl kók eða sódavatn

Ofninn er stilltur á 160 gráður á blæstri eða 180 gráður á undir og yfirhita. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Vanillusykri bætt út í. Hveiti og lyftidufti sigtað út í og blandað við deigið. Því næst er matarolíunni hellt út í og þá gosdrykknum. Deiginu er skipt jafnt í tvær skálar. Í aðra þeirra er kakói sigtað út í og blandað saman við deigið með sleikju. Út í hina skálina er þremur matskeiðum af hveiti sigtað út í og blandað við deigið með sleikju. Kringlótt smelluform eða silikonform er smurt að innan (ca. 24 cm). Blöndurnar eru settar í sitt hvorn pokann og þeim lokað vel, örlítið gat er klippt á annað hornið á báðum pokunum. Smávegis af ljósa deiginu er sprautað á miðjuna á botn kökuformsins, því næst er dökka deiginu sprautað ofan í það ljósa. Þannig er haldið áfram koll af kolli þar til báðar blöndurnar eru búnar. Miðjan mun færast til út í kantana á bökunarforminu, það er allt í lagi. Það er örugglega líka hægt að hella bara úr skálunum beint í formið en þá eru kannski meiri líkur á því að litirnir blandist ekki alveg eins og maður vill, erfiðara að hafa stjórn á bununum. Bakað við 160 gráður á blæstri (180 gráður undir/yfir hita) í 40-45 mínútur.