Laxaborgarar með mangósósu og sætum frönskum kartöflum


Fyrir löngu síðan fór ég með nokkrum frábærum stelpum úr líkamsræktarhópnum mínum í kraftgöngu vestur á Seltjarnarnes sem endaði svo með notalegri máltíð á Nauthól. Þá voru þeir með á matseðlinum gómsæta laxaborgara með ,,sætkartöflufrönskum“! Þetta var svo ljúffengur matur að ég hef oft hugsað um að endurgera réttinn heima og lét loksins verða af því í kvöld. Namm namm … þetta var svo gott! Meira að segja krakkarnir elskuðu þennan rétt. Það er mjög fljótgert að búa til borgarana, ég setti bara allt hráefnið í matvinnsluvél. En ef maður vill grófari borgara er hægt að mauka hráefnið saman með gaffli. Ég las mér til í sænskri uppskriftabók að það væri mikið betra að sjóða laxinn örstutt áður en búnir eru til borgarar úr þeim, þannig héldust þeir safaríkari. Ég gerði það og borgararnir voru afar safaríkir en ég hef svo sem ekkert viðmið. Ég bar laxaborgarana fram í hamborgarabrauði en þess þarf ekkert endilega. Það er líka gott að bera þá fram með grænmeti, sósu og sætkartöflufrönskum og þá er hægt að kalla þetta laxabuff! Sósan var rosalega góð, ég notaði blöndu af frosnu og fersku mangói en það er hægt að nota bara annað hvort. Þessa sósu er örugglega gott að nota líka með til dæmis grilluðum kjúklingi. En laxaborgararnir og meðlæti er ofsalega ferskur og bragðgóður réttur, mæli með honum!

Laxaborgarar (ca 5-6 borgarar, fer eftir stærð):

 • 1 kíló laxaflök
 • 1/2 – 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1 dl brauðmylsna
 • 2 egg
 • 1 tsk Sambal Oelek (chilimauk) eða 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað smátt (meira ef maður vill sterka borgara)
 • 1 dl ferskt kóríander, saxað (hægt að nota steinselju í staðinn)
 • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • börkur af einni límónu (lime), gróft rifinn
 • salt og pipar

Aðferð:

Léttsaltað vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Laxinn soðinn í ca. 4 mínútur, síðan er hann veiddur upp úr og roðið tekið af. Öll hráefnin í borgarana sett í matvinnsluvél og keyrt þar til blandan er maukuð saman, ekki of lengi samt, best er að hafa hráefnið í borgarana gróft og ef hráefnið er hrært of lengi geta þeir orðið seigir. Það má líka píska hráefnin saman með gaffli, þá verða borgararnir grófari. Olía og smá smjör sett á pönnu og borgararnir steiktir í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Borið fram með laxaborgurunum:

 • hamborgarabrauð
 • klettasalat
 • salat
 • gúrka
 • tómatar
 • avókadó
 • mangósósa
 • sætar franskar kartöflur

Mangósósa:

 • 2 dl grísk jógúrt
 • 2 dl mangó (frosið eða ferskt)
 • 3 msk mango chutney
 • safi úr 1/2 límónu (hægt að nýta límónuna úr laxaborgara uppskriftinni)
 • salt og pipar

Öllu hráefninu blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Gott að smakka sósuna til með meiri límónusafa, mangó, mangó chutney og/eða salti og pipar eftir þörfum.

Sætar franskar kartöflur:

Sætar kartöflur skornar í aflangar sneiðar eins og franskar kartöflur. Þeim er svo velt upp úr ólífuolíu, maldon salti, grófum pipar og góðri kryddjurtablöndu, til dæmis Best á allt frá Pottagöldrum. Kartöflurnar bakaðar við 220 gráður í ca. 30 mínútur.

Kjúklingur í himneskri sósu


Ég bjó eiginlega til þennan rétt með hálfum hug. Ég er nefnilega ekkert of hrifin af sólþurrkuðum tómötum, finnst þeir bara góðir ef þeir eru ekki of afgerandi í uppskriftunum. Þetta er afsakaplega einfaldur réttur, mjög fljótlegt að búa hann til og það kom mér síðan skemmtilega á óvart hvað hann var góður! Elfari fannst hann afar góður líka en það sem kom kannski mest á óvart var að Alexander fannst þetta vera besti rétturinn sem ég hef nokkurn tíma gert! Það er reyndar býsna auðvelt að elda fyrir hann, honum finnst allt gott sem ég geri! 🙂 En sósan var sem sagt sú bragðbesta sem hann hefur borðað hingað til, ekki slæm einkunn það! Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að nota krydd sem heitir ungversk paprika, það er sætara paprikukrydd en þetta hefðbundna. Það er til frá Pottagöldrum en ég átti það ekki til og notaði því bara hefðbundið paprikukrydd.

Uppskrift:

 • 4 kjúklingabringur
 • salt & pipar
 • ungversk paprika eða venjulegt paprikukrydd

sósa:

 • 6-8 sólþurrkaðir tómatar + 2 msk af olíunni
 • 1-2 dl vatn
 • 1 msk balsamedik
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 msk sojasósa
 • 1 msk nautakraftur
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1-2 dl rjómi
 • salt & pipar
 • sósujafnari (eða maizenamjöl)
 • 1/2- 2/3 poki af ferskri steinselju

Kjúklingabringurnar eru skornar í 3 bita og kryddaðar paprikukryddi, salti og pipar. Kjúklingabitarnir eru svo steiktir á pönnu upp úr smjöri og olíu þar til að þeir hefur náð lit á öllum hliðum. Kjúklingurinn er því næst veiddur af pönnunni og vatninu þeytt saman við feitina, sem eftir var á pönnunni, með písk. Sólþurrkuðu tómatarnir saxaðir smátt og bætt út á pönnuna ásamt tveimur matskeiðum af olíunni af sólþurrkuðu tómötunum. Því næst er tómatpúrru, sojasóusu, nautakrafti, sýrðum rjóma og rjóma bætt út í og sósan smökkuð til með salti, pipar og paprikukryddi. Dálítið af sósujafnara bætt út í til að þykkja sósuna. Kjúklingurinn er nú settur aftur út í sósuna (og safinn sem mögulega hefur runnið af honum á meðan hann beið) og látið malla í 10-15 mínútur. Steinselja er söxuð smátt og bætt út í rétt áður en rétturinn er borinn fram.  Ég bar fram með réttinum ofnsteiktar kartöflur og sætar kartöflur ásamt fersku salati. Það er örugglega líka gott að bera fram hrísgrjón eða kúskús með réttinum.

Apríkósukaka með karamellukókos


Ég prófaði að baka þessa köku í fyrsta sinn í gær og tók hana með mér í saumó. Hún var svakalega góð þó hún væri svolítið blaut þegar hún var enn heit, hún varð bara meira djúsí við það. Ég held ástæðan fyrir því að hún var blaut var að ég notaði aðeins of stórt form þannig að kakan náði ekki nógu mikillri hæð, apríkósurnar hefðu þurft að vera þaktar betur með deigi. Það kom samt ekkert að sök, kakan var guðdómlega góð! Ég var með form sem er 25×35 sem er aðeins of stórt, það er betra að nota bökunarform sem er 20×30, nú eða auðvitað að stækka bara uppskriftina fyrir stærra form. Það væri ekkert vitlaust að tvöfalda uppskriftina og setja hana í ofnskúffu, þetta er svo góð kaka að hún klárast alltof fljótt! Mæli virkilega með henni með laugardagskaffinu á morgun! 🙂

Uppskrift:

 • 2 egg
 • 4 dl sykur
 • 6 dl hveiti
 • 4 tsk lyftiduft
 • 3 dl mjólk
 • 200 g smjör
 • 250 g niðursoðnar apríkósur
 • 2-3 msk kókós (f. kökuformið)

Karamellukókos:

 • 4 msk smjör, brætt
 • 1 dl rjómi
 • 3 dl ljóst síróp
 • 200 gr kókosmjöl

Ofninn stilltur á 200. gráður. Bökunarform, ca. 20×30 cm, þakið bökunarpappír og ca. 2-3 matskeiðum af kókosmjöli stráð yfir. Apríkósurnar þerraðar og skornar í litla bita. Smjörið brætt í potti og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Hveiti og lyftidufti bætt út í ásamt mjólkinni og brædda smjörinu. Helmingnum af deiginu er hellt í bökunarformið, dreift úr því út í öll horn. Apríkósunum dreift jafnt yfir deigið og svo restinni af deiginu hellt yfir. Bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Á meðan er karamellukókos útbúið. Öllum hráefnunum hellt í pottinn og látið malla í 10 mínútur. Kakan er tekin út eftir 15 mínútur og karamellukókos dreift yfir kökuna og hún svo bökuð í 10-15 mínútur í viðbót. Gott er að bera kökuna fram heita með þeyttum rjóma eða vanilluís. Hún er líka ægilega góð köld!

Ostakjötbollur með pasta og mjúkri tómatsósu


Þessi réttur er ofsalega mildur og bragðgóður auk þess að vera einstaklega barnvænn! Engin óvinsæll laukur eða sterk krydd en samt voru kjötbollurnar bragðmiklar með piparostinum og sósan mjúk og bragðgóð. Rétturinn fékk 11 í einkunn af 10 mögulegum hjá yngstu börnunum, ,,sjúklega gott“ hljómaði dómurinn! Ég var að fara í saumaklúbb hjá glæsilega matarbloggaranum henni Svövu vinkonu minni og ég ætlaði sko ekki að mæta södd þangað! 🙂 En börnin þurftu eitthvað að borða (bæði stór og smá!) og ég ákvað að búa til eitthvað sem þeim yngri þætti reglulega gott. Jóhanna Inga var búin að tala um að sig langaði í kjötbollur. Ég átti hakk og bjó til þennan rétt úr því hráefni sem ég átti í ísskápnum og það heppnaðist afar vel.

Kjötbollur:

 • 700 gr hakk piparostur
 • 1 box rifinn piparostur
 • 1 dl brauðmylsna
 • 1 egg
 • 1 tsk basilika
 • salt og pipar
 • smjör eða olía til steikingar

Sósa:

 • 1 ferna eða dós „passerade“ tómatar (þessir sem eru alveg fínmaukaðir, eins og þykkur tómatsafi)
 • 2 dl rjómi eða matargerðarjómi
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 msk tómatsósa
 • 1/2 msk sojasósa
 • 1/2 tsk kjötkraftur
 • salt og pipar
 • annað krydd, t.d. steinselja, origano og basilika (má sleppa)

Pasta: soðið eftir leiðbeiningum

Öllum hráefnunum í kjötbollurnar blandað saman (ég reyndi að mauka ostinn vel með höndunum) og litlar kjötbollur mótaðar. Olía eða smjör, eða blanda af hvor tveggja, sett á pönnu og bollurnar steiktar við fremur háan hita þar til þær eru nærri því gegnumsteiktar, bollunum snúið við þörfum. Tómatþykkninu („passerade“ tómatar) hellt út á pönnuna ásamt, rjóma, tómatpúrru, tómatsósu, sojasósu, kjötkrafti og kryddi. Sósunni leyft að malla þar til kjötbollurnar eru eldaðar í gegn. Áður en sósan er borin fram er hún smökkuð til með  til dæmis kryddi og sojasósu. Ef maður vill þykkari sósu er hægt að nota dálítinn sósujafnara eða maizenamjöl. Borið fram með pasta.

Haframúffur með banönum


Samkvæmt skilgreiningu Nönnu Rögnvaldar sem var að gefa út nýja og girnilega múffubók þá er munurinn á bollakökum og múffum eftirfarandi. Bollakökur eru dísætar en múffur er eitthvað sem maður getur hugsað sér að borða í morgunmat. Ég veit ekki alveg með þessar múffur, þær eru alls ekki dísætar, enda með haframjöli í. En maður myndi seint kannski bjóða upp á þær í morgunmat! Þetta er eitthvað millistig þarna á milli, kannski múffukökur! Þetta eru einfaldar ,,múffukökur“, mjúkar og afar góðar, allavega voru þær allar horfnar örstuttu eftir að ég bakaði þær! Formin sem ég notaði fékk ég í Svíþjóð og eru meira eins og lítil kökuform. En það er auðvitað hægt að nota venjuleg múffuform undir þær. Deigið er frekar blautt þannig að formin þurfa að vera vel stíf.

Uppskrift, ca. 15-20 múffur

 • 60 gr mjúkt smjör
 • 1 dl púðursykur
 • 1 dl sykur
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl mjólk eða súrmjólk
 • 1 1/2 dl haframjöl
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk negull
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 bananar, mjög vel þroskaðir

Ofninn stilltur á 225 gráður. Smjör, sykur og púðursykur hrært þar til blandan verður létt og ljós. Eggjum bætt út í, einu í senn, því næst er mjólkinni bætt út í. Haframjöli, hveiti, lyftidufti, negul og vanillusykri er því næst hrært við blönduna. Að lokum eru bananar stappaðir og þeim bætt út í blönduna.  Múffuform eru fyllt að 3/4 hluta. Bökuð við 225 gráður í 15-20 mínútur.

Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏


 
Þorskur með balsamik-lauk og sellerímús‏
Ég hef sett inn uppskrift af þorskrétti áður sem er himneskt góður! Þá uppskrift er að finna hér. Í kvöld prófaði ég aðra uppskrift af þorskrétti sem er svipað uppbyggð en með allt öðrum hráefnum. Þessi réttur var dásamlega góður! Látið ekki laukinn hræða ykkur í burtu! Ég til dæmis borða alls ekki hráan lauk, finnst hann hræðilega vondur. En hér er búið að meðhöndla laukinn þannig að hann verður algjört hnossgæti. Það er mikilvægt að gefa sósunni smá tíma, leyfa balsamikedikinu að sjóða vel niður og líka að smakka sósuna vel til. Sellerí- kartöflumúsin er rosalega góð, skemmtileg tilbreyting að fá bragð af sellerírótinni með kartöflunum. Ég fékk sellerírót í Nettó en hún er líka stundum til í Bónus minnir mig. Svo er líka hægt að svissa aðeins í uppskriftunum, nota t.d. sætukartöflumúsina úr hinum þorksréttinum sem ég minntist á, með þessum rétti.
 

Þorskur:

 • 800 gr þorskflök, skorinn í bita
 • salt og pipar

Balsamik-laukur

 • 14-16 skarlottulaukar
 • ólífuolía
 • 2 msk sykur
 • 2 dl balsamedik
 • 2 dl fiskisoð (vatn+fiskikraftur)
 • 2 msk ósaltað smjör

Sellerí- og kartöflumús 

 • 1 sellerírót, skorin í teninga
 • 8-10 kartöflur
 • 2 msk smjör
 • mjólk
 • sykur
 • salt og pipar
Sellerírót afhýdd og skorin í tenginga sem settir eru í pott. Kartöflur einnig settar í pott, hvort tveggja soðið þar til orðið mjúkt (í sitt hvorum pottinum). Vatninu hellt af, kartöflur afhýddar. Sellerírót og kartöflum stappað saman og smjöri bætt út í. Bragðbætt með salti, pipar og sykri (ef maður kýs að gera hana sætari). Einnig er hægt að bæta örlítið af mjólk út í.
 
Ofninn hitaður í 180 gráður. Þorskurinn saltaður og pipraður, skorinn í hæfilega bita og lagður í eldfast mót. Bakaður í ofni við 180 gráður í ca 15-20 mínútur. Fiskurinn tekinn úr ofninum, álpappír lagður yfir hann í ca. þrjár mínútur áður en hann er borinn á borð.
 
Skarlottulaukurinn afhýddur og ef hann er stór er gott að skera hann í tvennt á lengdina. Laukurinn látinn malla í olíu í potti, á fremur lágum hita, þar til hann er orðinn vel mjúkur. Sykri bætt út í og hann látinn bráðna. Því næst er balsamedik bætt út í og látinn malla þar til að það er vel soðið niður (verður næstum því að sírópi). Þá er fiskisoðinu bætt út í og soðið niður þar til sósan er orðin fremur seigfljótandi. Það er mikilvægt að smakka sósuna til, ef hún er til dæmis of súr þarf að bæta við sykri, ef hún er of sölt (fiskikrafturinn) þarf að bæta við örlitlu vatni. Smjörinu er svo bætt við rétt áður en sósan er borin fram.
img_9239-1