Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu


Heilsteiktur kjúklingur með kryddjurtarjómasósu

Mikið var nú gott að fá svona milt og fallegt veður um helgina, vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal nú síðhausts. Í gærkvöldi kom stórfjölskyldan saman með ömmu og afa til þess að fagna 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra. Allir lögðust á eitt að útbúa margrétta veislumáltíð sem var dásamlega góð. Í forrétt var salat með risarækjum sem við erum afar hrifin af, uppskriftin er hér. Í aðalrétt var grillað lambaribeye með kartöflugratíni, sveppasósu, grilluðu grænmeti og fersku salati. Í eftirrétt var dásamlega góður daimréttur sem ég var ekki lengi að fá uppskriftina að og ætla að setja hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri.

IMG_0280

Hér er ég að vinna í risarækjuforréttinum með líka svona fína svuntu! 🙂

 Í dag fórum við á barnaleikritið Hættuför í Huliðsdal í Þjóðleikhúsinu. Afar skemmtileg sýning og ákaflega hugvitsamleg og sniðug sviðsmynd. Leikritið virðist vera sýnt í stuttan tíma þannig að endilega drífið ykkur að kaupa miða, þetta er leiksýning sem við mælum sannarlega með.

Uppskriftin sem ég ætla að gefa að sinni er mjög einföld en ofsalega góð. Mér finnst helsteiktur kjúklingur svo góður og passa svo vel sem sunnudagsmatur. Ég hef verið að nota heila kjúklinginn frá Rose Poultry, hann er mjög safaríkur og góður en svo hentar stærðin líka svo vel því hann er svo stór, ca. 1.6 kíló. Ég prófaði mig áfram með sósu með kjúklingnum og þessi sem ég gef uppskrift að hér að neðan sló í gegn hjá fjölskyldunni og hún var bókstaflega sleikt innan úr skálinni. Auk kjúklingsins og sósunnar útbjó ég ferskt salat og ofnbakaðar kartöflur og gulrætur – einföld og ljúffeng veislumáltíð!

Uppskrift: 

  • 1 heill kjúklingur frá Rose Poultry
  • kjúklingakrydd frá Pottagöldrum

Ofn er hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Gott er að taka kjúklinginn úr frysti kvöldið fyrir eldun og leyfa honum að þiðna inni í ísskáp. Ef skammur tími er til stefnu er hægt að þýða kjúklinginn (í umbúðunum) með því að láta hann liggja í köldu vatni sem skipt er um reglulega – það tekur um það bil 3 til 4 tíma. Þegar kjúklingurinn hefur þiðnað er hann skolaður og þerraður með eldhúspappír. Því næst er hann kryddaður vel með kjúklingakryddi. Kjúklingurinn er lagður í steikarpott eða í steikarpoka og steiktur í ofni við 200 gráður í um það bil klukkustund eða þar til hann er eldaður í gegn.

IMG_6846

Kryddjurtarjómasósa f. ca. 4:

  • soðið sem fellur til af kjúklingnum (um það bil 1-2 dl)
  • 2 dl rjómi
  • 1 msk sojasósa
  • ca 120 g Philadelphia ostur með hvítlauk og kryddjurtum
  • salt og pipar eftir smekk (gætið þess að sojasósan er sölt)
  • sósujafnari (ef með þarf)

Soðið af kjúklingnum og sojasósan sett saman í pott og suðan látin koma upp. Þá er rjómanum og Philadelphia osti með hvítlauk og kryddjurtum bætt út í og leyft að malla í um það bil 10 mínútur á meðalhita. Sósan er smökkuð til með pipar og salti. Sósan þykkist vel á meðan hún mallar en ef hún er of þunn er hægt að bæta út í hana sósujafnara.

Ofnsteiktar kartöflur og gulrætur

  • kartöflur
  • gulrætur
  • ólífuolía
  • flögusalt (Falksalt með hvítlauki)
  • grófmalaður svartur pipar
  • ítalskt krydd eða kryddblanda (til dæmis basilika, rósmarín og oregano)

Kartöflur eru þvegnar og skornar í bita. Gulrætur eru flysjaðar og skornar í svipað stóra bita og kartöflurnar. Hvort tveggja er sett í ofnskúffu og ólífuolíu ásamt kryddi dreift yfir, blandað vel saman. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_6869

Einfaldur kjúklingapottréttur í rjómasósu


Einfaldur kjúklingaréttur

Þá er enn eitt haustið runnið upp. Að vanda hef ég setið sveitt með stundaskrár barnanna og reynt að púsla saman skipulaginu. Eftir vinnu þarf að fara í píanótíma, gítartíma, tónfræði, sænsku, fermingafræðslu, badmington og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa leyst úr nokkrum árekstrum í stundatöflunni er allt orðið niðurnjörvað, prentað út, plastað og komið upp á ísskáp! Þó svo að það sé alltaf gott að komast í rútínu þá sakna ég þess að hafa ekki fengið almennilegt sumar í ár. Þá er nú gott að geta hlakkað til tveggja utanlandsferða í nánustu framtíð.

Þessi kjúklingaréttur sem ég ætla að setja inn uppskrift að í dag er feykilega einfaldur en svo dæmalaust góður. Mér líkar svo vel við svona fljótlega matrétti þar sem allt fer á eina pönnu og mallar þar. Yfirleitt forðast ég sólþurrkaða tómata því mér finnst bragðið af þeim oft verða of ríkjandi. Í þessum rétti njóta þeir sín hins vegar vel. Hér notaði ég fryst úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry og satt best að segja tók ég þau úr frystinum rétt áður en ég fór að elda. Ég setti þau inn í örbylgjuofn í nokkrar mínútur allra lægsta hitann, þannig fór mesta frostið úr þeim án þess þó að kjötið færi að eldast. Það er mjög þægilegt að skera niður kjúklingakjöt hálffrosið og það er líka allt í lagi að steikja bitana þó það sé smá frost í þeim enn.

IMG_6741

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • ólífuolía eða smjör til steikingar
  • 2 msk sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir frá Paradiso
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk mango chutney frá Patak’s
  • 2 dl vatn
  • 2 msk fljótandi kjúklingakraftur frá Oscars
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (10% eða 18%)
  • 1 msk rifið engifer
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Kjúklingurinn er skorinn í bita, saltaður og pipraður og því næst steiktur  á pönnu upp úr smjöri og/eða ólífuolíu. Sólþurrkuðum tómötum (gott að taka svolítið með af olíunni sem þeir liggja í), hvítlauksrifjum og mango chutney er blandað vel saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er svo bætt út á pönnuna ásamt rjóma, sýðrum rjóma, engifer og kjúklingakrafti. Látið malla í um það bil 10 mínútur. Gott er að bera réttinn fram með kúskús eða hrísgrjónum, fersku salati og brauði.

IMG_6744

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos


Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Í kvöld bjó ég til dæmalaust góðan kjúklingarétt úr uppáhalds hráefnunum mínum, kjúklingi og sætum kartöflum. Ég fékk hugmyndina á erlendri uppskriftasíðu en þá var uppistaðan kjúklingur í einhverskonar barbecue sósu. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af barbecue sósum en hins vegar finnst mér kjúklingur í karrí og kókos fjarskalega góður. Ég ákvað því að útfæra réttinn eftir mínu höfði og er harla sátt við útkomuna. Það voru skiptar skoðanir við matarborðið hvort það þyrfti sósu með réttinum. Ég gerði raita-jógúrtsósu sem mér fannst koma sérlega vel út með þessum rétti en það er smekksatriði hvort þess þarf. Með því að nota sætar kartöflur verður ægilega mikið úr hráefninu, þó svo að í réttinum sé bara 700 grömm af kjúklingi þá myndi ég segja að hálf fyllt sæt kartafla dugi flestum þannig að rétturinn ætti að duga fyrir sex manns. Það eru kannski ekki allir hrifnir af þeirri tilhugsun að  borða hýðið af sætum kartöflum. Það er þó algengt, sumir nota meira að segja hýðið með í sætkartöflumús. Í þessari uppskrift er það skrúbbað vel og bakað með salti og pipar þar til það verður stökkt og gott, endilega prófið! 🙂

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Uppskrift fyrir 5-6:

  •  3 sætar kartöflur ca 500 g stykkið
  • 700 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í fremur litla bita
  • 1 stór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 msk ólífuolía + ólífuolía til penslunar og steikingar
  • saltflögur (ég notaði Falksalt)
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2-4 msk Thai red curry paste frá Blue dragon
  • Litil dós kókosmjólk frá Blue Dragon (165 ml)
  • 200 g rifinn ostur (ég notaði rifinn maribo á móti rifnum mozzarella osti)

IMG_6795

Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Sætu kartöflurnar eru skrúbbaðar og þvegnar vel. Því næst eru þær skornar í tvennt langsum. Kartöflurnar eru settar á ofnplötu með flötu hliðina niður í 200 gráðu heitan ofn í um það bil 20 – 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Á meðan er ein matskeið af ólífuolíu sett á pönnu eða í pott og laukurinn látinn malla við vægan hita í ca 20 mínútur (ég var með helluna á 4 af 9) þar til laukurinn hefur karamelluserast, hrærið í honum öðru hvoru á meðan.

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu þar til hann hefur fengið góða húð. Þá er rauða karrímaukinu bætt út á pönnuna, best er að prófa sig áfram með magnið. Ef notaðar eru 2 matskeiðar verður rétturinn fremur mildur. Þá er kókósmjólkinni bætt út á pönnuna. Látið malla í um það bil 5 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær teknar úr ofninu og þegar þær eru nógu kaldar að hægt sé að koma við þær eru kartöflurnar skafnar innan úr hýðinu, gott er að skilja eftir um það bil 5 cm kant. Hýðið er sett aftur á ofnplötuna þannig að það snúi upp. Hýðið er penslað með ólífuolíu og kryddað með saltflögum og pipar. Sett aftur inn í ofn í ca. 12 mínútur.

IMG_6796

Á meðan eru kartöflurnar stappaðar létt og kryddaðar með salti og pipar. Því næst er tæplega helmingnum af rifna ostinum bætt út í kartöflublönduna ásamt kjúklingnum og lauknum. Öllu er blandað saman. Þá er blöndunni deilt á milli kartöfluhýðanna og afgangnum af rifna ostinu dreift yfir.

IMG_6801

IMG_6803

Bakað áfram í ofninum í ca. 12-15 mínútur. Undir lokin er hægt að stilla ofninn á grill til þess að ná góðum lit á ostinn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Afar gott er að bera fram með þessu ferskt salat og raita jógúrtsósu.

Raita jógúrsósa:

  • 2 dl hrein jógúrt eða grísk jógúrt
  • 1 lítil gúrka
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  •  fersk mynta, söxuð smátt – ég notaði ca. 2 msk
  • 1 tsk fljótandi hunang
  • salt og svartur pipar

Gúrkan er skoluð og rifin niður með rifjárni. Mesti vökvinn er pressaður úr gúrkunni. Henni er svo blandað saman við jógúrt, hvítlauk, myntu og hunang. Sósan er svo smökkuð til með salti og pipar. Ef notuð er grísk jógúrt er sósan þynnt með dálitlu vatni, ca. 1/2 dl, sósan á að vera fremur þunn.

Kjúklinga- og ostafylltar sætar kartöflur með karrí og kókos

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL


Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Fyrr í sumar, á einum af þeim alltof fáu sólardögum sem við fengum, var ég með matarboð úti á palli fyrir vini sem eru á LKL matarræðinu. LKL þýðir lágkolvetnis lífstíl og gengur út á að lágmarka kolvetni verulega mikið í matarræðinu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Mér finnst lítið mál að finna matrétti sem henta LKL. Þar sem fæðið á að vera fituríkt þá er hægt að gera svo margt gott sem byggir á fitu og próteini. Hins vegar er aðeins flóknara að búa til eftirrétti fyrir LKL. Sykurinn er útilokaður í þessum lífsstíl en hann er jú að finna í flestum hefðbundnum eftirréttum. Hins vegar má nota rjóma og ákveðnar tegundir af berjum og 70% súkkulaði (í hófi). Ég bjó til LKL eftirrétt um daginn sem var ákaflega góður og einfaldur, súkkulaðifrauð, uppskriftin er hér. Að þessu sinni bjó ég til pannacotta sem er eftirréttur upprunninn frá Ítalíu.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Pannacotta  er vanillubúðingur en nafnið þýðir ,,soðinn rjómi” á ítölsku. Yfirleitt er pannacotta borið fram með berum eða ávöxtum. Það er líka hægt að bragðbæta búðinginn með til dæmis kaffi, kanel, kakó, súkkulaði eða kardimommu. Kjúklingarétturinn sem ég gerði fyrir matarboðið var samrunni nokkurra kjúklingarétta héðan af síðunni sem heppnaðist býsna vel.

Hindberjapannacotta f. 4-6

  • 5 dl rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 2  blöð matarlím
  • ½ dl sukrin sætuefni (fæst í Krónunni m.a)

Hindberjasósa:

  • 200 g hindber (ég notaði frosin)
  • 1 msk vatn
  • 3 tsk sukrin
  • örlítill sítrónusafi (ein sprauta úr gulu sítrónubrúsunum) – má sleppa

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í 5 mínútur. Vanillustöngin er klofin og fræin sett í pott ásamt stönginni og rjómanum. Blandan er soðin í 1-2 mínútur án þess að rjóminn brenni við. Þá er potturinn tekinn af hellunni. Mesta bleytan er kreist úr matarlíminu og því bætt út í pottinn ásamt sukrini. Hrært þar til hvor tveggja er uppleyst, þá er vanillustönginn veidd upp úr og blöndunni er hellt í 4-6 skálar. Látið kólna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hindberasósan er sett á.

Hindberjasósan: Hindberin (afþýdd) eru sett í pott ásamt sukrin og vatni, blandan látin ná suðu, hrært vel á meðan. Sítrónusafa bætt út í. Það er hægt að gera sósuna sléttari með því að nota töfrasprota. Ef maður vill þá er hægt að sigta sósuna til þess að losna við hindberjafræin. Sósan er látin kólna dálítið og henni er því næst hellt yfir pannacotta búðinginn og sett í ísskáp í dálitla stund áður en rétturinn er borinn fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og myntublöðum.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Beikonvafinn kjúklingur í bergmyntusósu LKL

  • ca. 900 g kjúklingabringur eða úrbeinuð kjúklingalæri
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 1 bréf beikon
  • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 4 dl rjómi
  • 2 tsk kjúklingakraftur
  • 30 g fersk bergmynta (oregano), blöðin söxuð smátt
  • 1 msk. balsamic edik
  • salt og pipar
  • Best á allt frá Pottagöldrum
  • oregano krydd

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar, Best á allt og oregano. Því næst er hann vafinn með beikoni og steiktur á pönnu þar til beikonið hefur náð ágætum lit. Því næst er kjúklingurinn færður í eldfast mót. Ólífuolíu og/eða smjöri er bætt á pönnuna. Þá er sveppum og lauk bætt á pönnuna og steikt í smástund, hvítlauk bætt við. Því næst er rjóma bætt út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti, balsamic edik og bergmyntunni. Leyft að malla í 1-2 mínútur og smakkað til með kryddunum. Að lokum er sósunni hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu og hitað við 200 gráður í ca. 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Ég bar kjúklinginn fram með blómkáls- og brokkolígratíni, uppskriftin er hér.

IMG_9308

Auk þess smjörsteikti ég spínat, sú uppskrift er hér.

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKLNjótið! 🙂

Hindberjapannacotta og kjúklingaréttur að hætti LKL

Rósmarínkjúklingur með parmaskinku


Rósmarínkjúklingur með parmaskinku

Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.

IMG_1733

Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.

Uppskrift: 

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
  • 1 bréf parmaskinka
  • ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
  • 1 knippi ferskt rósmarín
  • 1 knippi fersk salvía
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl balsamedik
  • flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
  • grófmalaður svartpipar

IMG_1709

 Ofn hitaður í 180 gráður. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti og pipar. Ein lítil grein af salvíu og ein lítil grein af rósmarín er lögð inn í hvert læri og lærið hálfvafið utan um kyddjurtirnar. Því næst er parmaskinku vafið utan um kjúklinginn. Kjúklingurinn eru lagður í eldfast mót. Þá er ólífuolíunni og balsamedik blandað saman. Ég notaði dálítið af olíunni sem hvítlaukurinn lá í á móti ólífuolíunni. Blöndunni er dreift yfir kjúklinginn og því næst er hvítlauknum dreift yfir. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
IMG_1734
Athugið að þegar kjúklingsins er neytt þá eru kryddjurtirnar teknar frá.

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu


t´oðu

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu

Núna erum við loksins öll komin í sumarfrí nema auðvitað stóru krakkarnir sem vinna eins og hestar í allt sumar. Ég er aðeins að reyna að halda mig frá tölvunni til þess að njóta frísins betur. Það er nefnilega afar tímafrekt að halda úti svona uppskriftabloggi ef vel á að vera. Til dæmis er eiginmaðurinn farinn að kalla bloggið mitt „Kvöldsögur“ þar sem að lunginn af kvöldunum fara oft í að blogga! 🙂 Ég gat samt ekki hamið mig að kíkja hér inn og gefa ykkur uppskrift af dásamlega góðum kjúklingavefjum. Við fórum í skemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja núna fyrir helgi og ég útbjó þessar vefjur til þess að taka með í nesti (ég setti inn myndir frá þeim degi á Instagram, endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram!). Þessar vefjur eru frábært nesti í ferðalög, þær eru hollar, ákaflega góðar og jafngóðar heitar sem kaldar. Það er svo lítið mál að útbúa þessar vefjur og skella þeim í kælibox. Þá sleppur maður við að koma við í óspennandi vegasjoppum og eyða háum fjárhæðum í oft og tíðum óhollan og lítt gómsætan mat.

IMG_1760

En og aftur er hægt að undrast yfir hvað hægt er að útbúa ljúffengan mat úr fáum hráefnum og með lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hjónaband kjúklingsins, mangósósunnar, cashew hnetanna og ferska mangósins sem gerir vefjurnar svona gómsætar. Þessar vefjur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1771Kaldar kjúklingavefjur – tilbúnar í ferðalagið!

Uppskrift fyrir 4 vefjur:

  • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði salt, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion)
  • kál
  • klettasalat
  • tómatar, skornir í bita
  • gúrka, skorin í bita
  • ferskt kóríander, saxaður gróft
  • 1 stór ferskur mangó, skorinn í bita
  • cashew hnetur, saxaðar gróft
  • tortilla pönnukökur
  • mangósósa
mangósósa uppskrift:
  • 200 g grísk jógúrt
  • 3 msk mango chutney
  • 1 tsk karrí
  • 1 vænn biti ferskt mangó – (líka hægt að nota nokkra bita af frystu mangói)
  • salt og pipar eftir smekk

IMG_1746

Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman í matvinnsluvél. Smakkað til með salti, pipar og meira karrí ef með þarf.

Kjúklingalundirnar eru skornar í hæfilega stóra bita og kryddaðar eftir smekk. Ég kryddaði þær með salti, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion). Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Tortillurnar eru hitaðar og á þær eru settar kál og klettasalat, tómatar, gúrkur og mangó ásamt kjúklingnum. Ofan á þetta allt er svo dreift cashew hnetum, kóríander og vel af mangósósu. Vefjunni er svo rúllað upp. Bæði hægt að bera vefjurnar fram kaldar og heitar.

IMG_1775

Grilluð tikka masala kjúklingapizza


Grilluð tikka masala pizza

Ég er ákaflega spennt að setja inn þessa uppskrift en í henni mætast tveir gómsætir matarheimar, sá ítalski annars vegar og hins vegar sá indverski. Þeir sem hafa prófað að grilla venjulega pizzu á útigrilli vita hversu góðar slíkar pizzur eru. Hér nota ég naan-brauð sem botn og ofan á þennan indversk ættaða pizzubotn bjó ég til gómsæta indversk/ítalska pizzusósu og  karamelluseraðan lauk. Einnig setti ég á naan-pizzuna papriku, mozzarella ost og tikka masala kjúkling auk tandoori kjúklings. Með þessum fáu hráefnum og einföldu matargerð skapaði ég himneskar naan-pizzur sem bæði börn og fullorðnir á heimilinu kolféllu fyrir. Naan pizzurnar eru ljúfengar á bragðið og það kemur á óvart hversu vel passar að nota naan brauðin sem pizzubotn. Með því að grilla brauðin fæst gómsætur botn sem er passlega mjúkur í miðjunni, með mátulega stökkum köntum og smellpassar við áleggið. Ég prófaði að nota bæði tikka masala kjúkling og tandoori kjúkling.

IMG_1573Hráefnið í Tandoori pizzuna

Hvor tveggja var ákaflega gott, mér fannst fyrrnefnda útgáfan aðeins betri en það voru skiptar skoðanir í fjölskyldunni hvor sósan væri betri. Það tekur smá tíma að karamellusera laukinn en það er alveg þess virði, bragðið af honum verður svo sætt og gott.

IMG_1632Tandoori kjúklingapizza

Ég er mikið búin að nota innfluttan frosinn kjúkling frá Rose Poultry undanfarið. Þegar ég bjó í Svíþjóð notaði ég alltaf frystan kjúkling og fannst hann afar bragðgóður en umfram allt meyr. Mér finnst kjúklingurinn frá Rose Poultry í sambærilegum gæðaflokki, hann er ofsalega mjúkur og meyr. Svo finnst mér æðislega þægilegt að eiga alltaf frystar kjúklingalundir, úrbeinuð innanlæri eða aðra kjúklingabita tilbúna í frystinum. Kjúklingalundirnar þiðna á örskömmum tíma og þær smellpassa á þessar gómsætu naan-pizzur.

kjúklingur1

Uppskrift fyrir 4-5:
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði 1 poka af frystum kjúklingalundum frá Rose Poultry)
  • 1/2 krukka Tandoori paste eða Tikka masala paste frá Patak’s
  • 1/2 dós grísk jógúrt (eða ca. 170 g)
  • ca 1 1/2 msk ólífuolía
  • 2/3 tsk salt
  • 1 stór laukur
  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar (ca. 200 g)
  • 1/2 rauð paprika
  • ca. 200 g rifinn mozzarella ostur
  • 3 Naan brauð (ég notaði „garlic & coriander“ naan brauð frá Patak’s)
  • ólífuolía til að pensla naan brauðið
Kjúklingalundirnar eru afþýddar og skornar í hæfilega stóra bita. Tandoori eða tikka masala maukið og gríska jógúrtin eru hrærð saman í skál og kjúklingnum blandað út í. Látið standa við stofuhita á meðan laukurinn er skorinn í sneiðar og paprikan skorin í fremur þunna strimla. Ólífuolía er sett á pönnu eða í pott við meðalhita og lauknum og saltinu bætt út í. Laukurinn er látinn malla við vægan hita í ca. 20-30 mínútur. Lauknum er snúið reglulega, hann á að brúnast en ekki brenna. Olíu er bætt við ef með þarf og jafnvel örlitlu vatni. Á meðan laukurinn mallar er kjúklingurinn í sósunni steiktur upp úr ólífuolíu á pönnu þar til hann er steiktur í gegn. Þá er kjúklingurinn veiddur af pönnunni en eins mikið af sósunni og hægt er, skilin eftir á pönnunni. Tómötunum er bætt út á pönnuna og þeir hrærðir vel saman við sósuna. Sósan er látin malla við meðalhita í nokkrar mínútur þar til hún hefur þykknað dálítið. Naan brauðið er smurt með ólífuolíu á báðum hliðum og sett á grillið í 2-3 mínútur á hvora hlið við góðan hita eða þar til grillrenndur eru komnar í brauðið.
Þá er brauðið tekið af grillinu og það er smurt með sósunni. Því næst er sett dálítið af rifnum osti, þá er kjúklingnum dreift yfir, því næst lauki og papriku og endað á rifna ostinum.
Naan-bauðið er sett aftur á grillið og slökkt undir þeim brennara sem er beint undir brauðinu en annar og/eða þriðji brennarinn stilltur á fremur háan hita. Grillinu er lokað og naan-pizzan grillað í um það bil 8-10 mínútur. Fylgast þarf með hitanum og færa bauðið til ef það fer að verða of dökkt. Njótið!
IMG_1650
Tikka masala kjúklingapizza
Hér er smá myndasería af pizzugerðinni:
IMG_1583
Naan-brauðið grillað
IMG_1596
Smurt með tikka masala sósu
IMG_1584eða tandoori sósu
IMG_1605
Rifnum osti dreift yfir sósuna og því næst kjúklingnum
IMG_1607Þá er lauk og papriku dreift yfir (gott að hafa meiri lauk en á myndinni).
IMG_1593Það er endað á rifnum osti
IMG_1645
Grillað við óbeinan hita í ca. 10 mínútur
IMG_1658
Njótið vel!

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Tælensk kjúklinga- og sætkartöflusúpa


IMG_9654

Ég tók eftir því um daginn að nú býður WordPress upp á að setja inn skoðanakannanir hingað á síðuna. Ég er dálítið veik fyrir svoleiðis! Ég vissi svo sem ekkert hvað ég átti að kanna en ég varð samt að prófa. Nú getið þið sagt til um hvaða uppskriftir þið viljið sjá á síðunni, það er hægt að krossa við fleiri en einn valmöguleika.

Ég er voðalega spennt að setja þessa uppskrift inn í dag. Þessi tælenska kjúklinga- og sætkartöflusúpa er algjört æði! Ein sú einfaldasta súpa sem ég hef gert en með þeim allra bestu. Ég mæli algjörlega með þessari! 🙂

IMG_9651

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1200 ml kjúklingasoð (gert úr 3 kjúklingateningum)
  • 1 dós kókosmjólk
  • ca. 800 g sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 800 g kjúklingabringur, skornar í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • grófmalaður svartur pipar

IMG_9644

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er kjúklingasoði, kókosmjólk og sætu kartöflunum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Þá er súpan maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er mjúk og kekklaus.  Svo er kjúklingnum bætt út í súpuna og hún látin malla þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er kóríander bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar.

IMG_9652

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822