Þetta er færsla númer tvöhundruð á matarblogginu mínu! Það þýðir að ég er komin með alveg hreint ágætissafn af uppskriftum. Þó svo að ég hafi alltaf eldað og bakað töluvert mikið þá hafa síðastliðnir átta mánuðir frá því að ég stofnaði þetta blogg verið einstakir. Síðan þá hef ég sjaldan eldað sama réttinn tvisvar því ég er alltaf með hugann við að bæta við uppskriftasafnið hér á síðunni. Þessa kjúklingauppskrift prófaði ég í fyrsta sinn í kvöld og hún sló í gegn hér á heimilinu. Mjúkur kjúklingur í bragðgóðri sósu með stökkum hjúpi umvafinn dásamlegum ostum – getur varla orðið betra! Rétturinn er ekki bara einstaklega góður heldur barnslega einfaldur að útbúa! Þessa uppskrift verðið þið bara að prófa!
- 2 msk ólífuolía
- 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
- chili krydd eftir smekk
- pipar & salt
- 6 kjúklingabringur
- 4-500 gr. tómatsósa með basiliku (ég notaði þessa sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni og örugglega á fleiri stöðum, sjá mynd)

- fersk basilka, söxuð gróft
- 300 g rifinn mozzarella ostur
- 150 g parmesan ostur, rifinn
- 1 poki brauðteningar með hvítlauk
Ofn hitaður í 180 gráður. Olíunni dreift í botninn á stóru eldföstu móti. Hvítlauk, chilikryddi, pipar og salti dreift yfir. Þá eru kjúklingabringurnar lagðar þar ofan á. Því næst er tómatsósunni hellt yfir kjúklinginn. Því næst er basilikunni dreift yfir tómatsósuna. Svo er helmingnum af mozzarella ostinum dreift yfir ásamt helmingnum af parmesan ostinum. Svo er brauðteningunum dreift yfir og loks restinni af mozzarella ostinum og parmesan ostinum. Bakað í ofni við 180 gráður í ca. 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og salati.




















