Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku


Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku

Mér líður eins og það hafi liðið heil helgi síðan ég var í vinnunni í gær. Ég held að það sé vegna þess að í dag var Elfar aldrei þessu vant í fríi líka og svo gerðum við líka svo margt skemmtilegt. Í gærkvöldi fórum við í glæsilegt stórafmæli með fjórrétta máltíð og skemmtun fram á nóttu. Þeir sem eru fylgjendur Eldhússagna á Instagram gátu einmitt séð myndir frá afmælinu. Í dag erum við búin að njóta góða veðursins, dunda okkur við ýmiss verkefni hérna heima og enduðum á kvöldsundi.

Ég er enn að prófa mig áfram með parmesan, brauðteninga, mozzarella og kryddjurta kjúkling! Þetta er bara svo óskaplega gott hráefni og hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr því! Ég hef gert þessa tvo rétti sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, parmesan- kryddjurtakjúklingur og ítalskan parmesankjúkling. Að þessu sinni ákvað ég að nota úrbeinað kjúklingalæri og bæta við parmaskinku. Þessi réttur sló algjörlega í gegn. Heimilisfólkið sagði að þetta væri „Kentucy Fried Chicken mætir ostafylltum kjúklingabringum“! Ég reyndi að útfæra réttinn á sem auðveldasta hátt þannig að hann yrði eins fljótlegur og hægt er. Úrbeinuð kjúklingalæri eru fremur þunn og henta vel til þess að rúlla upp án þess að þurfa að fletja þau út sérstaklega. Rúllan helst þó ekkert sérstaklega vel saman, þess vegna lagði ég þær beint í eldfasta formið og stráði brauðteninga/parmesan mylsnunni yfir í stað þess að velta þeim sérstaklega upp úr mylsnunni. Þetta gerði réttinn afar fljótlegan að útbúa. Útkoman var frábær og þetta er klárlega réttur sem ég mun gera reglulega.

IMG_9507

  • 1200 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • parmaskinka (ég notaði hálfa parmaskinkusneið á hvert læri)
  • ca. 2 dl rifinn mozzarellaostur
  • 1 stk oregano
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dl vatn
  • 50 g smjör
  • 2 hvítlauksrif
  • ca 80 g brauðteningar með osti og hvítlauk
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • 1 teskeið paprikukrydd
  • maldon salt og ferskmalaður svartur pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingalærin eru lögð á bretti (það er hægt að fletja þær aðeins út – banka með kökukefli – ef maður vill þær þynnri) og þau krydduð vel með salti, pipar og oregano. Ofan á hvert læri er svo lögð parmaskinka og rifinn mozzarellaostur. Lærunum er svo rúllað varlega upp og rúllurnar lagðar í smurt eldfast mót með samskeytin niður. Vatn, kjúklingateningur og smjör sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðnað og tengingurinn leystur upp. Blöndunni er hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu. Brauðteningar eru muldir í matvinnsluvél og rifna parmesanostinum er blandað saman við brauðteningamylsnuna ásamt paprikukryddinu, salti og pipar. Þessari blöndu er dreift vel yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_9500

IMG_9502

IMG_9504

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269

Marineraður sítrónukjúklingur


IMG_9351

Eftir að hafa eldað fyrir árshátíðina síðastliðinn laugardag þá langaði mig ekkert mikið til að standa í eldhúsinu á sunnudeginum. Ég átti afgang af kartöflugratíni, fetaostasósunni góðu auk þess sem ég átti ferskar kjúklingabringur. Þetta hráefni kallaði á afar einfalda eldamennsku af minni hálfu en með ljúffengri útkomu. Grillaðar kjúklingabringur í marineringu er skotheldur matur, einfaldur en dásamlega góður. Það er mikilvægt að ofgrilla ekki bringurnar, ég (eða réttara sagt læt grillmeistarann!) grilla þær þar til þær eru hér um bil tilbúnar. Þá tek ég þær af grillinu, vef ég þeim snöggt inn í álpappír og klára eldunina þannig í álpappírnum einum saman (ekki á grillinu). Það tryggir afar meyrar og safaríkar kjúklingabringur. Eina sem ég þurfti að gera var að búa til salat með þessum ljúffenga mat. Alltaf þægilegt að komast auðveldlega frá kvöldmatnum endrum og sinnum! 🙂 Ég missti mig aftur í að mynda fallega Green gate stellið. Þegar ég skoðaði myndirnar eftir á þá átti ég erfitt með að finna myndir sem sýndu matinn almennilega, þetta voru aðallega nærmyndir af fallega munstrinu á Dora white stellinu, elska’ða! 🙂

IMG_9343Ég hef gefið þessa uppskrift af fetaostasósunni ansi oft upp á síðkastið, en góð vísa er aldrei of oft kveðin! 🙂 Hér er uppskriftin!

IMG_9345Uppskrift:

  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 skarlottulaukur, fínsaxaður
  • 1/2 sítróna, safi og fínrifið hýði
  • 1/2 lime, safi og fínrifið hýði
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 1 tsk sinnep
  • pipar
  • ferskar kryddjurtir, t.d. steinselja, kóríander, timjan eða það sem hendi er næst, saxað fínt
  • 3-4 kjúklingabringur

Öllum hráefnunum í marineringuna blandað saman. Kjúklingabringurnar eru svo settar í góðan poka ásamt marineringunni og látið bíða í ísskáp í minnst 1 tíma, helst yfir nóttu.

IMG_9349

Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu


Beikonvafinn kjúklingur í balsamiksósu

Ég sá að enn ein uppskriftin á Eldhússögum er farin yfir eitt þúsund Facebook deilingar. Að þessu sinni var það hægeldaða lambalærið en í gær var það langmest lesna uppskriftin á blogginu. Ég verð alltaf svo forvitin þegar ég sé einhverja gamla uppskrift frá mér fara á flug og ég veit ekkert hverjir eru að deila henni eða af hverju. Vonandi hefur fólk verið að prófa uppskriftina, er ánægt með hana og langar að deila henni áfram. En hvað veit ég, kannski er fólk bara að vara við skelfilegri uppskrift! 😉 Mér finnst eiginlega með ólíkindum að það séu mörg þúsund manns að lesa síðuna mína daglega og eiginlega finnst mér þessar tölur svo óraunverulega háar að ég hugsa ekkert um þær. En nú er svo komið að ég fer varla á mannamót nema að Eldhússögur komi til tals. Ég fæ margar góðar kveðjur bæði beint og óbeint í gegnum vini, ættingja og ókunnuga. Margir segjast nota síðuna mikið og afsaka að þeir hafi aldrei skrifað á síðuna. Mér finnst afskaplega gaman að fá allar þessar góðu kveðjur. En af því að það er alltaf svo gaman að fá viðbrögð við póstunum sem ég set inn þá þætti mér ákaflega gaman að heyra hvers vegna þið duttuð inn á Eldhússögur í fyrsta sinn. Það er auðvelt að skrifa í hér að neðan í „komment“, ég hvet ykkur sem aldrei hafið hafið skrifað fyrr, að prófa! 🙂

Ég setti á Instagram um daginn (ég heiti „eldhussogur“ á Instagram, endilega fylgist með!) mynd af kjúklingarétti sem ég prófaði nýverið. Þessi réttur var afar einfaldur, fljótlegur og mjög ljúffengur. Ég notaði að þessu sinni úrbeinuð kjúklingalæri, það er ofsalega góður hluti af kjúklingnum. Kjötið er meyrt og gott og svolítið dekkra en kjúklingabringurnar. Vissulega er líka hægt að nota bringur en þá er best að lengja eldunartímann í ofninum. Þessi réttur er í grunninn eins og Oregano kjúklingarétturinn sem ég setti inn hér fyrir löngu, ég mæli með þeim báðum!

IMG_9231

Uppskrift:

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 4 tsk oregano krydd
  • 150 g beikon
  • 3 dl rjómi
  • 3 msk balsamedik
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingurinn kryddaður vel með salti, pipar og oregano. Þá er hann steiktur upp úr smjöri á pönnu á öllum hliðum. Því næst er hvert kjúklingalæri vafið með beikoni og þau lögð í eldfast mót. Rjóma, balsamedik, kjúklingakrafti og hvítlauk hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Hitað í miðjum ofni í ca. 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Með þessu bar ég fram ferskt salat og perlukúskús.

IMG_9238

Salat með sesamkjúklingi


Salat með sesamkjúklingi

Ég tók mér ekki bara frí frá blogginu í gær heldur eldamennskunni líka þar sem að ég átti afmæli. Eiginmaðurinn ákvað að það væri kominn tími til að hann eldaði fyrir mig! 🙂 Hann grillaði líka þessa dýrindis steik með gómsætu meðlæti. Maturinn var eiginlega hættulega góður hjá honum og líkurnar á því að hann verð sendur oftar í eldhúsið stórjukust eftir gærdaginn!

Það var svo margt skemmtilegt um að vera um síðustu helgi. Auk þess sem við hjónin fórum á Hótel Glym þá fórum við líka í stóra og glæsilega fertugsafmælisveislu hjá einni vinkonu minni úr saumaklúbbnum. Á sunnudagskvöldinu hélt ég svo saumaklúbb til þess að við stelpurnar gætum nú gert upp skemmtunina kvöldið áður! 🙂 Ég hafði fengið óskir um að hafa Snickerskökuna, að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk. Að auki bjó ég til kjúklingasalat og þessar bruschetta snittur nema að þessu sinni skipti ég út mozzarella fyrir gullost og basiliku fyrir kóríander og steinselju. Kjúklingasalatið var samanblanda af hinu og þessu og var afskaplega ljúffengt. Að minnsta kosti þorðu stelpurnar ekki að segja neitt annað við mig þessar elskur! Mér fannst dressingin einstaklega góð og mun klárlega nýta þá uppskrift fyrir fleiri salöt. Magnið af hráefninu í kjúklingasalatið og hlutfallið á milli þeirra fer eftir smekk.

IMG_9295

Uppskrift:

  • kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • kjúklingakrydd
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • maple síróp
  • sesamfræ
  • spínat
  • klettasalat
  • grænt salat
  • kokteiltómatar, skornir til helminga
  • avókadó, skorið í bita
  • mangó, skorið í bita
  • jarðarber, skorin í bita
  • nachos flögur, muldar gróft
  • beikon
  • fetaostur með olíu en olían síuð frá

IMG_9289

Kjúklingabringur eru skornar í fremur litla bita og þeir kryddaðir með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Steikt á pönnu þar til kjúklingabitarnir hafa náð góðum lit. Þá er sírópi og sesamfræum bætt út á pönnuna, hrært vel saman við kjúklinginn, og látið krauma í dálitla stund (þar til enginn vökvi er eftir á pönnunni). Ég notaði 1 kíló af kjúklingabringum og ca. 1/2 dl af maple sírópi og 1/3 dl af sesamfræum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann látin til hliðar og leyft að kólna.

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til bitarnir verða stökkir. Þá er öllum hráefnunum blandað saman og salatdressingunni dreift yfir salatið.

IMG_9291

Salatdressing:

  • 1/2 dl olífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 cm ferskur engifer, rifinn fínt
  • nokkrar greinar fersk steinselja, söxuð fínt
  • ca 1 msk sesamfræ
  • maldon salt
  • 1/2 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur grænmetiskraftur

Öllum hráefnunum blandað vel saman og dressingunni dreift yfir salatið.

Sætkartöflusúpa með kjúklingi


IMG_8803

Við áttum góða helgi með frábærri fermingarveislu, ljúfum kvöldverði með góðum vinum á veitingastaðnum Mar og sundferð. Svo slökuðum við bara almennt vel á í dásamlega veðrinu sem hér hefur verið undanfarið og ekkert lát er á. Ósk er hins vegar á ferðalagi um Þýskaland og Pólland með Versló. Hún er í valáfanga sem heitir Helförin og þau eru að skoða útrýmingarbúðir meðal annars í Auschwitz. Þetta er örugglega einstök upplifun fyrir krakkana.

Ég rak augun í að Snickerskakan hér á síðunni er komin yfir tvö þúsund deilingar, „2K“, það er alveg með ólíkindum! Það er klárt mál að vinsælustu uppskriftirnar á síðunni minni eru alltaf girnilegar kökuuppskriftir. Ég ætla nú samt „bara“ að koma með uppskrift af súpu í dag! Þessi súpa er svolítið skemmtileg því hún er búin til úr kjúklingaleggjum. Grunnurinn er hollur og góður úr meðal annars sætum kartöflum og gulrótum. Þetta er afar bragðgóð og saðsöm súpa sem sló gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

  • 6 kjúklingaleggir (ca. 600 g)
  • 1 stór kartafla, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 gulur laukur, skorin í litla bita
  • 5 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), afhýdd og skorin í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í bita
  • ferskur engifer, ca. 3 cm, skorin í litla bita
  • ca. 1 líter vatn
  • smjör
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 kjúklingatengingar
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk Ground Cumin
  • 1/2 stk hvítlauksduft
  • 1 tsk meiram (marjoram) – krydd
  • 1 tsk oregano
  • salt og pipar

IMG_8799

Góður biti af smjöri bræddur í stórum potti og karrí, cumin og hvítlaukskryddi bætt út í þannig að það steikist í örstutta stund. Þá er kjúklingaleggjunum bætt út í og þeir steiktir í smástund þar til kryddin fara að ilma dásamlega, hrært vel í þeim á meðan. Þá er öllu grænmetinu bætt út í fyrir utan hvítlaukinn og steikt í stutta stund. Því næst er vatni hellt út í pottinn þannig að það nái yfir grænmetið og kjúklinginn, ég notaði ca. 1.2 líter. Þá er hvítlauknum bætt út ásamt engiferbitunum auk þess sem oregano og meiram er bætt út í ásamt kjúklingateningum. Látið malla þar til kjúklingurinn fer að losna af beinunum (þá má bæta við vatni ef súpan verður of þykk).

Þá eru kjúklingaleggirnir veiddir upp úr og kjötið losað frá beinunum og það skorið í minni bita ef með þarf.  Súpan með grænmetinu er maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt og bitalaus. Þá er kjúklingabitunum bætt út í ásamt rjómanum og súpunni leyft að malla í smástund í viðbót. Smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef þarf.  Súpan er borin fram með grófsöxuðu kóríander eða steinselju.

IMG_8805

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Djúpsteiktir kjúklingaleggir með súrsætri sósu og heimagerðu hrásalati


IMG_8640

Við fjölskyldan fórum fyrr í kvöld út í norðurljósaskoðun í fimbulkulda. Himinn var einstaklega fallegur í kvöld, við keyrðum aðeins út fyrir borgina horfðum á frábæra norðurljósasýningu og stjörnubjartan himinn. Yngstu krakkarnir voru afar hrifin, sérstaklega Jóhanna Inga sem er mjög hrifnæm, hún var uppnumin yfir þessu litla kvöldævintýri. Ég er nú engin myndasnillingur en við reyndum að festa á filmu brot af ljósasýningunni. Það er samt ekki hægt að taka almennilega mynd af norðurljósum nema með betri græjum, myndavélastatív og slíku.

IMG_8677

Að allt öðru, þegar ég útskrifaðist um daginn fékk ég margar fallegar og góðar gjafir. Ég fékk nokkrar góðar bækur sem pössuðu mínum bókasmekk einstaklega vel, mínir nánustu þekkja mig greinilega! 🙂 Kannski er það skrítin blanda en ég hef gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og uppskriftabókum. Ég fékk eina góða uppskriftabók sem ég hlakka til að prófa, Dagbók Elku og ástarljóð Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Núna ég að lesa Dagbók Elku af áfergju, frábær bók sem veitir einstaka innsýn í líf alþýðukonu í Reykjavík fyrir einni öld. Ég fékk líka ofsalega fallegan disk og diskakúpu, skreyttan með fallegri slaufu, með heimagerðu konfekti frá Hafliða Ragnarssyni. Frábær hugmynd af fallegri gjöf.

Útskrift7

Núna er allt konfektið löngu búið, mikið var það gott! Nú bíður diskurinn eftir eftir einhverju öðru gúmmelaði eða jafnvel einhverju fallegu páskaskrauti. Kannski fer ég að skoða heimilisblogg og leita mér að  páska-innblæstri! 🙂

IMG_8670

Takk Sólveig og Gabríela fyrir fallegu túlípanana í dag! 🙂

En svo ég víki að aðalatriðinu, mat! Síðan ég djúpsteikti fiskinn hennar Gwynnu um daginn hefur mig dagdreymt um að djúpsteikja eitthvað annað, það gekk nefnilega svo óskaplega vel að djúpsteikja fiskinn og hann var svo góður! Ég ákvað um helgina að djúpsteikja kjúklingaleggi. Ég var eitthvað að velkjast með hvað ég ætti að hafa með þessu og endaði á því að hafa hrísgrjón (soðin í kjúklingasoði), heimatilbúið hrásalat og súrsæta sósu í anda asískra veitingastaða. Þetta heppnaðist allt mjög vel og var voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég forsauð kjúklinginn svo það þyrfti ekki að djúpsteikja hann eins lengi. Þetta er aðferð sem er mikið notuð í amerískum kjúklinga uppskriftum. Það er líka mikilvægt að krydda kjúklinginn vel. Ég notaði mikið af Tabasco sósu, kjúklingum er velt upp úr sósunni sem er blandað við egg, kjúklingurinn verður ekkert sterkur en sósan gefur gott og mikið bragð. Það var mjög gott að sjóða hrísgrjónin upp úr kjúklingasoðinu og kryddi, það gaf þeim afar gott bragð. Hrásalatið er afar einfalt en ofsalega gott, ég er með grunnuppskrift af því hér en að þessu sinni bætti ég líka við gulrótum. Þegar ég djúpsteiki þá er ég alltaf með eldvarnarteppið við hliðina á mér tilbúið til notkunnar!

IMG_8642

Djúpsteiktur kjúklingur:

  • 16 kjúklingaleggir
  • salt & pipar
  • paprikukrydd
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 egg
  • 80 ml vatn
  • ca 1/2 flaska Tabasco sósa
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk pipar
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk hvítlaukskrydd
  • 2 tsk paprikukrydd
  • olía til djúpsteikingar  (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)

Vatn er sett í pott sem passar fyrir alla kjúklingaleggina, út í vatnið er blandað vel af salti, pipar og paprikukryddi auk þess sem kjúklingateningarnir eru leystir upp í vatninu. Suðan er látin koma upp og þá er leggjunum bætt út í pottinn og þeir soðnir í ca. 6 mínútur. Þá eru þeir veiddir upp úr pottinum (ekki hella soðvatninu!) og kældir snöggt undir köldu vatni. Soðvatnið er notað til þess að sjóða hrísgrjónin í. Olía er sett í djúpsteikingarpott eða í stóran, víðan pott, (ég notaði alla olíuna úr flöskunni) og hitað upp í ca. 190 gráður. Ef ekki er notaður hitamælir þá er hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt og það „bubblar“ í kringum hann er olían tilbúin. Egg og vatn hrært saman auk Tabasco sósunnar. Í annarri skál er hveiti og kryddum blandað vel saman. Þegar olían er tilbúin er kjúklingaleggjum velt vel upp úr eggjablöndunni og svo hveitiblöndunni. Nokkrir leggir eru djúpsteiktir í einu, passa verður að hafa ekki of þröngt um þá, þess vegna er gott að nota víðan pott. Ég djúpsteikti kjúklingaleggina í ca. 6 mínútur, þá snéri ég leggjunum varlega við og steikti í 6 mínútur í viðbót. Þetta dugði hjá mér en maður verður að prófa sig áfram, skera í einn legg til að kanna hvort að hann er tilbúinn eftir þennan tíma. Kjúklingurinn er svo lagður á eldhúspappír eftir steikingu. Ef maður djúpsteikir kjúklingaleggina í mörgum hollum er hægt að hafa þá inni í ofni við ca. 100 gráður til að halda þeim heitum. Olíun er kæld, hellt aftur í flöskuna og hún geymd á köldum og dimmum stað, hana er hægt að nota nokkrum sinnum til djúpsteikingar.

IMG_8657

Súrsæt sósa

  •  1 tsk olía
  • 1 msk gulur laukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 ananas-hringur, skorinn smátt
  • ½ gulrót, skorin í litla teninga
  • 3 dl kjúklingakraftur
  • 1 dl sykur
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 3 tsk kartöflumjöl

Olían er hituð í potti og laukurinn steiktur ásamt hvítlauknum í smá stund án þess að hann taki lit þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er ananas og gulrótum bætt út í og steitk í stutta stund til viðbótar. Því næst er kjúklingakrafti hellt út í auk tómatpúrrunnar, sykri og hvítvínsedik. Þetta er látið malla í 5 mínútur. Þá er kartöflumjöli hrært út í dálítið vatn og blandað hægt og rólega út í sósuna og hrært í á meðan. Því næst er potturinn tekin af hellunni og sósan smökkuð til með meiri sykri ef þarf, ef hún er of þykk er hún þynnt með ananassafa og/eða vatni.

IMG_8645

Heimatilbúið hrásalat:

  • ca. 1/2 hvítkálshaus
  • 3 gulrætur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið og gulræturnar er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman.
IMG_8648