Ég verð að deila með ykkur uppskrift að svo dásamlega góðri tertu. Ég fór með hana í stórt fjölskylduboð um daginn og þar var fólk hreinlega að missa sig yfir þessar tertu. Ég er að baka hana aftur núna í kvöld og ætla að fara með hana á kökuhlaðborð í skóla barnanna á morgun. Ég er meira að segja að hugsa um að baka hana aftur fyrir aðventuboð á sunnudaginn. Ég náði nefnilega bara að smakka örlítinn bita af þessari ljúffengu tertu í boðinu um daginn og er búin að dreyma um að baka hana aftur við fyrsta tækifæri. Ég held að ég geti fullyrt að þessi tertuuppskrift sé alveg skotheld! 🙂
Uppskrift:
Greinasafn eftir: Eldhússögur
Hafradraumur með súkkulaði og döðlum
1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! 🙂 Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.
Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! 🙂 Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. 
Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)
- 230 g smjör, við stofuhita
- 200 g púðursykur
- 60 g sykur
- 2 egg
- 2 tsk vanillusykur
- 220 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- ½ tsk salt
- 270 g haframjöl
- 200 g döðlur, saxaðar smátt
- 150 g suðusúkkulaðidropar
Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð.

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu

Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum.
Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! 🙂
Uppskrift f. 4
- 150 g Digestive kex
- 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
- 1 poki Dumle go nuts (175 g)
- 2 ½ dl rjómi
- 4 msk rjómi
Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts.


Jólamolar með karamellu Pippi
Seint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! 😉
Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.
Uppskrift:
- 120 g smjör (við stofuhita)
- 100 g púðursykur
- 100 g sykur
- 2 egg
- 2 tsk vanillusykur
- 6 msk bökunarkakó
- 280 g hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- ¼ – ½ tsk salt
- 200 g Pipp með karamellu
- 150 g hvítt súkkulaði
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.
Lambaborgarar
Um helgina kom umfjöllun á mbl.is varðandi markaðssetningu á lambakjöti og þar var sérstaklega tekið fyrir hversu hrifnir matarbloggarar virðast vera af kjúklingi á kostnað lambakjöts. Málinu til stuðnings voru uppskriftir taldar á matarbloggum og þar kom í ljós að lambakjötsuppskriftir voru býsna fáar miðað við kjúklingauppskriftir. Ég er einn þeirra matarbloggara sem er „sek“ um að vera með fáar lambakjötsuppskriftir á síðunni minni. Í kjölfarið fór ég að hugleiða hvers vegna svo væri.
Ég er eiginlega handviss um að sú staðreynd, að hér á blogginu mínu séu kjúklingauppskriftir í meirihluta en fáar lambakjötsuppskriftir, endurspegli hversdagslegan raunveruleika margra barnafjölskyldna hér á landi. Gott lambakjöt er dýrt, kostar ca. 3-5 þúsund krónur kílóið (læri, prime, file og slíkt) – fyrir mér eru þetta kjöt sparimatur, eiginlega í flokki með nautakjöti. Aðrir ódýrar bitar sem boðið er upp á er t.d. súpukjöt og oftast annað lambaköt á beini. Mér finnst grillað eða hægeldað lambakjöt best, það er tímafrekt og tilheyrir frekar helgarmatargerðinni á mínu heimili. Þegar keypt er lambakjöt á beini þá þarf líka oft að vinna það meira (skera frá beini) eða elda það lengur, hvort tveggja er tímafrekt og tímafrek eldamennska virkar engan veginn í miðri viku fyrir venjulegar barnafjölskyldur. Stór þáttur í lambakjötsmálinu er einnig að yngstu börnunum mínum finnst lambakjöt alls ekki gott. Það er mjög algengt að börnum finnst lambakjötið of fitumikið og bragðsterkt en sem betur fer lagast þetta oftast með aldrinum. Annar stór þáttur í þessu er að í hefðbundnum matvöruverslunum er lítið úrval af góðu lambakjöti. Til þess að kaupa gott lambakjöt þarf helst að fara í kjötverslun eða matvöruverslun með kjötborði, það krefst tíma og fyrirhafnar sem fæstar fjölskyldur hafa í miðri viku.
Að þessu öllu sögðu þá býð ég að sjálfsögðu upp á gómsæta lambakjötsuppskrift í dag!
Minnug þess, í öllum þessum lambakjötspælingum, að stundum hef ég getað keypt ferskt lambahakk í Þinni verslun (sem ég er svo heppin að hafa í hverfinu og þar er gott kjötborð), kom ég þar við í dag. Lánið lék við mig og ég fékk gott lambahakk úr kjötborðinu (einungis 990 kr kílóið!) og gat því búið til lambaborgarana sem eg hef hugsað um lengi. Ég notaði hamborgarapressu sem gefur 200 gramma borgara, ég mæli með slíkri græju. Þó svo að yngsta barnið hafi ekki látið plata sig til þess að borða lambakjöt þótt það hafi verið dulbúið sem hamborgrari þá ætla ég sannarlega að vera duglegri að nota lambahakkið, það er æðislega gott og ekki spillir hversu ódýrt það er. Þessir borgarar sem sagt slóu í gegn hjá öllum í fjölskyldunni nema þessari yngstu! 🙂
Uppskrift (5 x 200 gramma borgarar):
- 1 kíló lambahakk
- 120 g fetaostur (ekki í olíu heldur kubbur)
- ca. 30 g kóríander og/eða flatblaða steinselja, saxað.
- 1 sítróna – hýðið fínrifið
- 2 msk ólífuolía
- 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð fínt
- gott salt og ferskmalaður svartur pipar
Fetaostur mulinn í skál. Kryddjurtum, rifnu sítrónuhýði, ólífuolíu og hvítlauki blandað saman við og kryddað með salti og pipar. Látið standa í nokkrar mínútur. Þá er blöndunni blandað saman við lambahakkið og hamborgarar mótaðir. Gott er að nota hamborgarapressu. Grillað eða steikt á pönnu við meðalhita þar til borgararnir eru hæfilega steiktir. Borið fram með salatblöðum, tómötum, rauðlauk ásamt fetaostasósu með avókadó
Fetaostasósa með avókadó:
- 1 dós sýrður rjómi (180 g)
- 130 fetaostur (kubbur, ekki í olíu)
- 1 þroskað avókadó
- 1 msk sítrónusafi
- 1 hvítlauksrif
- salt og pipar
Bananamuffins með Dumle karamellum

Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara út að borða og hér í Reykjavík eru ákaflega margir góðir veitingastaðir – gæðin eru í raun ótrúleg miðað við okkar litla land. Það hefur komið fyrir að mér hafi verið boðið að borða á veitingastöðum gegn því að ég fjalli um það hér á síðunni, en þeim boðum hef ég alltaf hafnað. Ég vil ekki mæla með neinu nema það komi beint frá mínu eigin hjarta. Að því sögðu þá langar mig að mæla með nýjum veitingastað sem við hjónin fórum á með vinahjónum okkar um daginn. Þetta er veitingastaðurinn Restó á Rauðarárstíg (þar sem Madonna var áður). Við snæddum þar fimm rétta dásamlega góða máltíð á sanngjörnu verði. Í eftirrétt var svokölluð „ananassúpa með kókos og myntu“. Þetta er eftirréttur sem mér hefði líklega aldrei dottið í hug að panta mér að fyrra bragði en maður minn hvað hann var góður! Svo var hægt að fá vínflöskur á eðlilegu verði (á sumum veitingastöðum eru vínflöskur á fáránlega uppsprengdu verði finnst mér), staðurinn er mjög hlýlegur og kósý og síðast en ekki síst góð þjónusta. Ég er alltaf á höttunum eftir því að heyra um góða veitingastaði og langaði því einfaldlega að deila þessu með ykkur! 🙂
Þó það sé langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á síðuna hef ég síður en svo verið löt í eldhúsinu. Ég tók að mér það verkefni að búa til nokkrar uppskriftir með Dumle karamellum. Það var sko ekki leiðinlegt verkefni og fjölskylda mín, sem fórnaði sér í smökkunina af lífi og sál, var heldur ekkert ósátt! 🙂 Það er býsna skemmtilegt að lauma inn mjúkri súkkulaðihúðaðri karamellu inn í eftirrétti og kökur. Eftir að ofninn hafði verið stöðugt í gangi tvær helgar í röð þá varð þetta niðurstaðan.
Ég verð að segja að ég var býsna ánægð með allar þessar uppskriftir og hlakka til að deila þeim öllum með ykkur. Þó það sé nú bara mánudagur get ég ekki staðist að setja inn eina af uppskriftunum í dag! 🙂
Sú fyrsta eru súpereinfaldar og æðislegar góðar bananamuffins með Dumle. Ég prófaði bæði með venjulegu Dumle og dökku. Flestum í dómnefndinni minni fannst ljósu karamellurnar tóna betur með bananabragðinu en þær dökku fengu líka atkvæði, þær eru líka mjög góðar – með sterkara súkkulaðibragði.
Bananamuffins með Dumle karamellum (15 stk)
- 130 g smjör
- 2 egg
- 150 g sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 200 g hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk kanill
- 3 þroskaðir bananar, stappaðir
- 1 poki Dumle orginal eða Dumle Dark
Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið brætt og kælt dálítið. Egg og sykur hrært þar til blandan verður létt og ljós, þá er brædda smjörinu bætt út smátt og smátt. Vanillusykri, hveiti, lyftidufti og kanil blandað út í en þess gætt að hræra ekki lengi. Að lokum er stöppuðum banönum blandað út í deigið. Deiginu er skipt á milli 15 muffins-forma (fyllt um það bil 2/3) og einni Dumle karamellu þrýst létt ofan í deigið í hverju formi. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kökurnar hafa tekið góðan lit. Best er að bera kökurnar fram volgar.
Dandalakjúklingaréttur
Það eru til ótal kjúklingauppskriftir sem í er mangó chutney enda gerir mangómaukið sósuna með kjúklingnum ómótstæðilega. Ég er með þónokkrar slíkar uppskriftir á hér á síðunni og hér að neðan bætist ein afbragðsgóð í safnið. Ég skírði hana „dandalakjúklingarétt“ bara svona af því að orðið „dandala“ er svo skemmtilegt! 🙂 Á Austfjörðum (og kannski á fleiri stöðum?) talar fólk um dandalaveður þegar það er bongóblíða. Vissulega var ekki beint dandalaveður í dag en þó, börnin voru býsna glöð yfir snjónum og léku sér úti í allan dag. Ég bakaði hins vegar smákökur og játa blygðunarlaust að ég hlustaði á nokkur jólalög með MIchael Bublé á meðan – þetta lá bara einhvern veginn í loftinu í dag og svo eru nú bara 63 dagar til jóla! 🙂
Dandalakjúklingaréttur f. 3
- 700 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
- saltflögur og ferskmalaður svartur pipar
- ólífuolía til steikingar
- 1 msk fljótandi kjúklingakraftur (eða 1 teningur)
- 1 msk sojasósa
- 1-2 tsk minced hot chili frá Blue Dragon eða annað chilimauk
- 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
- 1 paprika (til dæmis rauð og/eða gul) skorin í bita
- 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
- 3 msk mango chutney
Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Þá er hann steiktur upp úr olíu á pönnu þar til hann hefur tekið góðan lit. Því næst er sojasósu, kjúklingakrafti, chilimauki bætt út í, lok sett á pönnuna og látið malla við vægan hita í u.þ.b. 10 mínútur. Að lokum er púrrlauk, papriku, mango chutney og sýrðum rjóma bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
Súkkulaðirúlluterta með hnetu-Nizza og banönum
Nói og Siríus efndu til samkeppni um bestu uppskriftina fyrir árlega bæklinginn sinn. Ég var svo heppin að vinna annað árið í röð! 🙂 Í fyrra vann ég með þessa uppskrift en í ár var ég með útfærslu af þessari uppskrift sem var vinningsuppskriftin. Endilega verðið ykkur úti um þennan flotta bækling, ég held að hann sé rétt ókominn í búðir. Ég fékk veglegan vinning, gjafabréf út að borða, leikhúsmiða og körfu með allskonar bökunarvörum frá Nóa og Siríus.
Um helgina skruppum við í sunnudagskaffi til foreldra minna og eins og svo oft áður ákvað ég að búa til eitthvað gott á kaffiborðið og eins og svo oft áður var ég á síðustu stundu – mér er bara ekki viðbjargandi með það! 🙂 En 45 mínútum áður en ég var mætt heim til foreldra minna var ég ekki enn búin að ákveða hvað ég ætti að baka, það kom ekki að sök því kakan sem ég ákvað að baka er einstaklega fljótleg í bakstri. Ég mundi eftir girnilega hnetusmjörinu í gjafakörfunni og á mettíma varð þessi dásamlega góða kaka tilbúin!
Uppskrift:
- 3 egg
- 1,5 dl sykur
- 50 g smjör, brætt
- 2 msk mjólk
- 2 msk kakó
- 2 msk kartöflumjöl
- 5 msk hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- ca. 1/2 dós Nizza hnetusmjör frá Nóa og Siríus
- 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir, skornir í þunnar sneiðar.
Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nizza kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nizza kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna og bananasneiðunum raðað yfir, er henni rúllað upp.
,,Rocky road“ brúnkur
Ég veit ekki hvað það var með mig í gær en frá því að ég kom heim úr vinnunni langaði mig svo óskpalega mikið að baka mjög gómsæta köku. Því fór svo, að þegar ég tók lasagna úr ofninum á kvöldmatartímanum, fór kaka inn í heitan ofninn. Ég ákvað að baka köku sem ég hef haft augastað á lengi en uppskriftin kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu. Ég reyndar breytti uppskriftinni dálítið, til dæmis minnkaði sykurinn töluvert án þess að það kæmi að sök. Kremið er afar ljúffengt og það er gefið upp að notað skuli 70% súkkulaði. Það er þó ekki öllum sem geðjast slíkt súkkulaði, það er því hægt að nota hefðbundið suðusúkkulaði í staðinn eða 56% súkkulaði. Ég notaði stóra sykurpúða sem ég klippti niður en best og fallegast er að nota mini-marshmallows. Þeir fást hins vegar á fáum stöðum, það er helst að ég hafi séð þá í Söstrene Grene. Þegar kakan var tilbúin dugði mér alveg lítill biti til þess að seðja kökulöngunina. Ég ákvað því að drífa mig með kökuna í vinnuna í morgun svo að þessi ómótstæðilega kaka myndi ekki standa bara og freista mín stöðugt! 🙂
Uppskrift (í 26×38 cm form)
- 350 g mjúkt smjör
- 4.5 dl sykur
- 3 dl kakó
- 1 dl ljóst síróp
- 1/2 tsk salt
- 6 lítil eða meðalstór egg
- 3 dl hveiti
Karamelluglassúr:
- 2 dl rjómi
- 1 dl mjólk
- 3/4 dl ljóst síróp
- 300 g suðusúkkulaði eða 56%-70%, saxað
Rocky Road:
- 1 poki Dumle karamellur (120 g), skornar eða klipptar í þrennt
- ca. 1.5 dl pistasíur og/eða kasjúhnetur
- ca. 2 dl salthnetur
- nokkrir sykurpúðar klipptir niður eða mini-marshmallows
Ofn stilltur á 175 gráður og stórt form (ca. 26×38 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært þar til það verður létt og ljóst. Kakói, sírópi og salti bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að síðustu er hveitinu blandað út í. Deiginu er því næst hellt í bökunarformið og bakað í miðjum ofninum við 175 gráður í 30-35 mínútur, kakan á að vera fremur blaut í miðjunni. Þá er kakan látin kólna á meðan glassúrinn er búin til.
Rjómi, mjólk og síróp er sett saman í pott og hrært í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Þegar suðan hefur komið upp er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út í, hrært þar til það hefur bráðnað. Þá er glassúrnum (ath. að blandan á að vera þunn) dreift jafnt yfir kökuna. Því næst eru hnetum, Dumle karamellum og sykurpúðum dreift jafnt yfir kremið. Kakan er sett í ísskáp í ca. tvo tíma eða þar til kremið hefur stífnað.
Dásamlega fallega blúndustellið frá Green Gate
Ostakökudesert með hindberjasósu
Ég er búin að setja inn þónokkuð af uppskriftum að ostakökum undanfarið enda finnst mér þær hnossgæti! 🙂 Eini ókosturinn við ostakökur er að þær þarf að búa til með smá fyrirvara. Þegar við komum heim frá Bandaríkjunum í ágúst ákvað ég að hafa matarboð strax daginn eftir lendingu. Við vorum búin að vera í heilan mánuð erlendis og farin að sakna vina okkar. Elfar byrjar yfirleitt á því að fara beint á vakt þegar við komum heim úr fríi en aldrei þessu vant fékk hann helgarfrí áður en hann þurfti að mæta til vinnu. Ég ýtti því bara ferðatöskunum út í horn og blés til matarboðs. Mig langaði helst að hafa ostaköku í eftirrétt en hafi ekki tíma til þess að búa hana til. Það varð því úr að ég setti saman þennan eftirrétt á örstuttum tíma. Ótrúlega góður og ekki spillir fyrir hversu einfaldur og fljótlegur hann er.- 2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
- 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
- 1 dl rjómi
- 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
- 2 tsk vanillusykur
- 1/2 dl flórsykur
- 300 g Digestive kex
- 300 g frosin hindber, afþýdd
- 1.5 msk sykur
- ber til skreytingar (t.d. hindber og bláber)
- fersk myntublöð (má sleppa)























