Hjónabandssæla


Hjónabandssæla

Þegar ég bjó í Svíþjóð féll ég fyrir mörgum vörum í Iittala merkinu. Ekki skemmdi fyrir að í Gustavsberg, rétt fyrir utan Stokkhólm, er outlet með Ittala vörum meðal annars. Núna eru komnar svo dásamlega fallegar skálar frá Iittala í merkinu Kastehelmi.

kastehelmi-550x276Litirnir eru líka svo fallegir, skemmtilegt að bera fram eitthvað gómsætt í svona fallegum skálum.

The-Kastehelmi-Bowl-from-Iittala-1Kakan sem ég ætla að gefa uppskrift af er ekkert sérstaklega falleg og passar nú ekki í þessar skálar – en góð er hún! Þegar ég var lítil var tvennt sem ég útbjó reglulega, það var karamella (hver gerði það ekki?) og hjónabandssæla. Uppskriftin sem ég notaði núna er ekki eins og sú sem ég notaði áður fyrr. Satt best að segja þá var ég ekki með neina sérstaka uppskrift í huga þegar ég bakaði hjónabandssæluna að þessu sinni heldur miðaðist hún við það hráefni sem ég átti til. Sykurinn var búinn (já, ég nota hvítan sykur – látið handtaka mig! 😉 ), en ég átti dálítið af muscovado sykri, dálítið af púðursykri, dálítið af kókosmjöli. Ég kláraði úr öllum þessum pokum auk þess sem ég kláraði haframjölið sem ég átti. Ég réð því ekki yfir hlutföllunum sjálf heldur réðust þau af því sem ég átti. Jafnframt hafði ég hugsað með að nota egg í uppskriftina, þó það sé ekki alltaf gert í hjónabandssælu, en gleymdi því. Oftast er notuð rabbabarasulta á hjónabandssælu en ég notaði blandaða berjasultu. Ég renndi því frekar blint í sjóinn með þessa uppskrift og var óviss með hvort hún myndi lukkast vel en … kakan varð stórgóð!

Uppskrift:

 • 220 g haframjöl
 • 250 g hveiti
 • 100 g kókosmjöl
 • 150 g púðursykur
 • 120 g muscovado sykur (eða hrásykur)
 • 250 g smjör
 • blönduð ávaxtasulta (ég notaði ca. 1 -1.5 dl) eða rabbabarasulta

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Öllum hráefnunum blandað í skál, mér finnst best að nota hendurnar, hnoðað í slétt deig. Kökuform, ca. 30×25 cm, er smurt. Um það bil 3/4 af deiginu er þrýst ofan í formið. Sultu smurt yfir kökuskelina. Því næst er restinni af deiginu dreift óreglulega yfir sultuna. Bakað við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_9664

Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu


Asískur pottréttur með grilluðum ananas og sweet chili-jógúrtsósu

Það er nú meiri snilldin að það sé „aftur“ komin helgi eftir bara einn vinnudag! Sérstaklega er ljúft að eiginmaðurinn á líka fríhelgi en þær eru ekki á hverju strái. Í dag fórum við á vortónleika hjá börnunum, í hjólaferð og svo bökuðum við mæðgurnar. Eins og venjulega þegar Jóhanna Inga fær að ráða þá er bökuð eplakaka en hún fær aldrei nóg af eplakökum í allskonar útfærslum. Þó hún sé bara átta ára þá er hún farin að baka hér um bil sjálfstætt og hefur afar gaman af. Í sumar mun hún fara á matreiðslunámskeið sem hún fór á í fyrra líka, hún hlakkar mjög mikið til.

Ég ákvað að elda eitthvað í kvöld úr gúllasinu sem ég fékk þegar ég keypti nautakjötið frá Mýranauti. Einhvern veginn þá vill það kjöt oft verða það sem ég nýti síst. Mig langaði að búa til eitthvað rosalega gott og lagðist yfir uppskriftabækur og netuppskriftir. Ég endaði á því að nýta hugmyndir héðan og þaðan, breyta og bæta. Og vá hvað maturinn varð góður! Meðlætið var frekar óvenjulegt og passaði ákaflega vel saman. Jógúrtsósan er alveg hreint dásamlega góð og ég mun pottþétt gera hana aftur sem allra fyrst! Mest á óvart kom ananasinn! Ég kryddaði hann með cajunkryddi og grillaði. Þetta var himneskt meðlæti með réttinum og sósunni góðu. Það var nú svolítið fyndið að ég ætlaði að krydda ananasinn með karrí en greip óvart cajun kryddið. Hins vegar þá kom það ofsalega vel út, ég mun örugglega halda mig við cajunkryddið þegar ég geri ananasinn aftur! 🙂 En við kolféllum sem sagt öll fyrir þessum himneska rétti og átum á okkur gat – þetta var veisla fyrir bragðlaukana! Gúllasið var meyrt og gott enda var ég með frábært kjöt beint af býli. Ég hugsa að það sé líka mjög gott að nota kjúklingakjöt í þennan rétt. Jógúrtsósan og grillaði ananasinn smellpassa allavega örugglega með kjúklingi. Ég veit ekki hvort þessi matreiðsla virkar flókin en hún er það alls ekki, þvert á móti, þetta var allt ákaflega einfalt og fljótlegt (ég reyndar skellti kjötinu í marineringuna fyrr um daginn). Á meðan kjötið mallaði á pönnunni grillaði ég ananasinn og hrærði í sósuna. Aldrei þessu vant voru ekki einu sinni hrísgrjónin tilbúinn þegar allt hitt var tilbúið, þó hafði ég byrjað á þeim.

IMG_9574

Uppskrift: 

 • 1 kíló nautagúllas (eða kjúklingabitar)
 • ca. 100 g belgbaunir (má sleppa)
 • 200 g sveppir
 • 1/2 tsk nautakraftur

Marinering:

 • 4 hvítlauksrif, fínsöxuð eða pressuð
 • 1.5 dl sojasósa
 • 2 msk sesamfræ
 • 2 tsk sambal oelek (chili mauk)
 • 1 dl ólífuolía
 • ferskmalaður svartur pipar

Hráefninu í marineringuna hrært saman. Kjötið lagt í marineringuna, annað hvort í poka eða skál og látið bíða í ísskáp í minnst 30 mínútur en því lengur því betra. Sveppirnir skornir í bita og steiktir á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu, kryddaðir með nautakraftinum. Sveppirnir eru svo veiddir af pönnunni. Kjötið er tekið úr marineringunni og steikt á pönnu í 2-3 mínútur. Þá er restinni af marineringunni bætt á pönnuna ásamt sveppum og belgbaununum. Það er hægt að bæta við dálitlu af vatni til þess að búa til meiri sósu ef með þarf. Látið malla í nokkrar mínútur þar til kjötið er tilbúið. Borið fram með sweet chili – jógúrtsósu, grilluðum cajun-ananas og hrísgrjónum.

IMG_9539

Cajun-ananas:

 • 1/2 – 2/3 ferskur ananas
 • ca 1 tsk cajun krydd

IMG_9568

Ananasinn er skorin í bita. Best er að skera ananasinn á þennan hátt (byrjar við 1.20 mín í myndbandinu). Hann er svo kryddaður með cajun kryddi og grillaður við meðalhita í 2-3 mínútur á báðum hliðum.

IMG_9572

Sweet chili – jógúrtsósa:

 • 2 dl grísk jógúrt
 • 4 tsk sweet chili sósa
 • 1-2 hvítlauksrif, pressað
 • ca. 2 tsk fínsaxaður ferskur kóríander

Öllum hráefnunum blandað vel saman.

IMG_9579

IMG_9588

Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku


Ostafylltur kjúklingur með parmaskinku

Mér líður eins og það hafi liðið heil helgi síðan ég var í vinnunni í gær. Ég held að það sé vegna þess að í dag var Elfar aldrei þessu vant í fríi líka og svo gerðum við líka svo margt skemmtilegt. Í gærkvöldi fórum við í glæsilegt stórafmæli með fjórrétta máltíð og skemmtun fram á nóttu. Þeir sem eru fylgjendur Eldhússagna á Instagram gátu einmitt séð myndir frá afmælinu. Í dag erum við búin að njóta góða veðursins, dunda okkur við ýmiss verkefni hérna heima og enduðum á kvöldsundi.

Ég er enn að prófa mig áfram með parmesan, brauðteninga, mozzarella og kryddjurta kjúkling! Þetta er bara svo óskaplega gott hráefni og hægt að gera svo marga mismunandi rétti úr því! Ég hef gert þessa tvo rétti sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur, parmesan- kryddjurtakjúklingur og ítalskan parmesankjúkling. Að þessu sinni ákvað ég að nota úrbeinað kjúklingalæri og bæta við parmaskinku. Þessi réttur sló algjörlega í gegn. Heimilisfólkið sagði að þetta væri „Kentucy Fried Chicken mætir ostafylltum kjúklingabringum“! Ég reyndi að útfæra réttinn á sem auðveldasta hátt þannig að hann yrði eins fljótlegur og hægt er. Úrbeinuð kjúklingalæri eru fremur þunn og henta vel til þess að rúlla upp án þess að þurfa að fletja þau út sérstaklega. Rúllan helst þó ekkert sérstaklega vel saman, þess vegna lagði ég þær beint í eldfasta formið og stráði brauðteninga/parmesan mylsnunni yfir í stað þess að velta þeim sérstaklega upp úr mylsnunni. Þetta gerði réttinn afar fljótlegan að útbúa. Útkoman var frábær og þetta er klárlega réttur sem ég mun gera reglulega.

IMG_9507

 • 1200 g úrbeinuð kjúklingalæri
 • parmaskinka (ég notaði hálfa parmaskinkusneið á hvert læri)
 • ca. 2 dl rifinn mozzarellaostur
 • 1 stk oregano
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 dl vatn
 • 50 g smjör
 • 2 hvítlauksrif
 • ca 80 g brauðteningar með osti og hvítlauk
 • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
 • 1 teskeið paprikukrydd
 • maldon salt og ferskmalaður svartur pipar

Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingalærin eru lögð á bretti (það er hægt að fletja þær aðeins út – banka með kökukefli – ef maður vill þær þynnri) og þau krydduð vel með salti, pipar og oregano. Ofan á hvert læri er svo lögð parmaskinka og rifinn mozzarellaostur. Lærunum er svo rúllað varlega upp og rúllurnar lagðar í smurt eldfast mót með samskeytin niður. Vatn, kjúklingateningur og smjör sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðnað og tengingurinn leystur upp. Blöndunni er hellt yfir kjúklinginn í eldfasta mótinu. Brauðteningar eru muldir í matvinnsluvél og rifna parmesanostinum er blandað saman við brauðteningamylsnuna ásamt paprikukryddinu, salti og pipar. Þessari blöndu er dreift vel yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 200 gráður í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_9500

IMG_9502

IMG_9504

Súkkulaði- og bananakaka


Súkkulaði- og bananakaka

Ég get ekki annað en komið mér beint á efninu í dag! Ég bakaði svo svakalega góða köku að það hálfa væri nóg! Hún var svo góð að þegar ég mundaði myndavélina skömmu eftir að kakan kom úr ofninum þá var bara 1/4 eftir af henni! Ef ég reyni að lýsa þessari köku þá er botninn dásamlega djúsí og blautur súkkulaðikökubotn. Bananakakan sem liggur ofan á súkklaðibotninum er mátulega sæt og pínulítið stökk, með ferskum og suðrænum bananakeim, þessi blanda gerir þetta eina þá bestu köku sem ég hef bragðað! Það er svo gott við þessa köku að hún er ekki massív og er líka svo passlega sæt. Það er sko vel hægt að fá sér þrjár sneiðar – hverja á eftir annarri … ekki það að ég hafi gert það samt! Ókei, ókei, ég viðurkenni það!! Ég var satt best að segja búin að halda mér frá sætindum í viku áður en ég, grunlaus um hvað í vændum væri, bakaði þessa köku! Eins og lög gera ráð fyrir varð ég auðvitað að smakka pínulítinn bita af kökunni. Fyrir bloggið sjáið þið til. Áður en ég vissi af var ég búin með þrjár sneiðar, ég gat bara ekki hamið mig, kakan er algjört sælgæti! Þar með var sætindisbindindið rofið með stæl- takk blogg!!

IMG_9531

Athugið að kakan (þ.e. súkkulaðibotninn) er mjög blaut, hún á að vera það. Það er því hálfvonlaust að ætla að færa kökuna á kökudisk. Ég er reyndar svo heppin að eiga frábært kökuform sem er eins og kökudiskur sem smelluforminu er smellt beint á (sést hér). Formið mitt er 26 cm, þess vegna varð kakan hjá mér frekar þunn. Mér fannst það ekkert koma að sök. En ef þið viljið þykkari köku þá er betra að nota 22 cm eða 24 cm form. Þá þarf jafnvel líka að bæta við örfáum mínútum við bökunartímann. Það er líka mikilvægt að hræra, ekki þeyta, deigið í kökuna. Það þýðir að nota á hrærarann á hrærivélina, ekki þeytarann.

IMG_9530

Nú er ég búin að mæra kökuna svo mikið að þið eruð væntanlega komin með miklar væntingar! 🙂 Ég held að kakan standi undir þessum væntingum því allir fjölskyldumeðlimir á okkar heimili kolféllu fyrir kökunni. Pabbi kom í heimsókn og fékk þá eina sneið (hann var sem sagt aaaðeins viljasterkari en ég!) ásamt kaffi (borið fram á sjúklega sæta stellinu frá Cup Company) og hann slóst samstundis í aðdáendalið okkar hinna! Nú þurfa allir að skella í eina svona köku og láta svo vita hvað ykkur finnst! 🙂

Uppskrift:

 • 150 g smjör, brætt
 • 0.5 dl olía (ekki ólívuolía)
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 3 dl hveiti
 • 1/4 tsk salt
Súkkulaðikrem:
 • 2 1/2 msk kakó
 • 1 tsk vanillusykur
Bananakrem
 • 1 þroskaður banani, stappaður
 • 1 tsk vanillusykur
Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Egg, sykur, olía og brætt smjör hrært saman. Því næst er hveiti og salti bætt út í og hrært saman við deigið. Þá er deiginu skipt í tvo jafna hluta. Kakói og vanillusykri er sigtað út í annan hlutann og blandað varlega saman við deigið. Banana og vanillusykri er bætt út hinn hlutann og blandað vel saman við deigið.

IMG_9515
Smelluform, 24 cm, er smurt og súkkulaðideiginu er hellt í formið, því er smurt vel út í kantana á forminu og jafnað út. Þá er banankreminu hellt varlega yfir súkkulaðideigið og breitt varlega úr því með sleikju án þess að það blandist saman við súkkulaðideigið. Bakað við 200 gráður í ca. 20 mínútur, kakan á að vera blaut. Borin fram með þeyttum rjóma eða ís – við komumst reyndar aldrei svo langt! 🙂

IMG_9532

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

 • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
 • 100 g rifinn parmesan ostur
 • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
 • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
 • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
 • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
 • salt & pipar
 • 2 egg, pískuð saman með gaffli
 • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
 • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

 • 2 sætar kartöflur
 • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
 • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
 • góð olía
 • grófmalaður svartur pipar
 • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Vinningshafi í Facebook leik Eldhússagna


IMG_9454

Jimundur minn hvað ég er spennt að tilkynna vinningshafann í fyrsta leik, en örugglega ekki síðasta, leik Eldhússagna! Ég held að flestum okkar líði alltaf eins og við vinnum aldrei neitt en núna snérist allavega lukkan við hjá einum af þeim 58 sem tóku þátt í leiknum. Ég vildi hafa þetta svolítið alvöru, draga nafnið upp úr potti (eða Margarethu skál réttara sagt – hún var fallegri en pottur! 😉 ). Ég fékk hann Vilhjálm minn með mér í verkið og Óliver vinur hans var regluvörður. Ég ákvað að prófa að setja inn myndband af útdrættinu, ég vona að það virki!

Gjafabréf í heilsumat hjá Heilsuborg hlýtur Áslaug Bragadóttir! Til hamingju Áslaug! 🙂 Ég mun hafa samband við þig í gengum Facebook. Nú getur Áslaug heimsótt Heilsuborg og fengið heilsumat hjá því frábæra fagfólki sem þar starfar! 🙂

IMG_9457

Hráfæðis brownies og leikur á Facebook


Hráfæðis brownies

Svo bregðast krosstré sem önnur tré … nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði … og svo framvegis! Ég fór sem sagt í eldhúsið og bakaði hráfæðisköku! Eitthvað sem hefur aldrei gerst áður og ég veit ekki hvort það gerist aftur. En ég verð þó að viðurkenna að það var auðvelt að búa til þessa köku (að „baka“ er ofsögum sagt því kakan er jú óbökuð), mjög fljótlegt og jú, hún var bara rosalega góð! Kakan kom á óvart, ég get ekki sagt annað.

Þessi uppskrift af góðri og hollri hráfæðisköku er í stíl við leikinn sem Eldhússögur hrindir úr vör í kvöld og stendur yfir fram til kl. 12 á hádegi á laugardag 4. maí. Einn heppinn lesandi Eldhússagna hlýtur gjafabréf upp á heilsumat (verðmæti 6.900 kr.) í líkamsræktarstöðinni Heilsuborg – bestu líkamsræktarstöðinni í bænum, ég get vottað það! 🙂

Hvað er heilsumat? Heilsumat er góð byrjun þegar einstaklingar hyggjast breyta um lífsstíl en vita ekki hvar eða hvernig er best að byrja. Viðkomandi fyllir út spurningarlista rétt fyrir tímann og í framhaldinu er veitt vönduð ráðgjöf hjúkrunar- eða næringarfræðings um heilsufar, hreyfingu og næringu. Innifalin er mæling í líkamsgreiningartæki, mældur er blóðþrýstingur sem og fleiri mælingar. Mælingar á þyngd og samsetningu líkamans eru gerðar með viðnámsmæli. Mælt er fitumagn og vöðvamagn líkamans sem og grunnorkuþörf hvers og eins. 

Reglur:

Það þarf ekki að deila einu né neinu til þess að taka þátt í leiknum (nema auðvitað að ykkur langi til að deila uppskriftinni, það má það alveg! 😉 ). Það eina sem þarf að gera til þess að taka þátt í leiknum er að fara á Facebook síðu Eldhússagna hér: Eldhússögur á Facebook og skrifa smá kveðju undir hráfæðis brownies færsluna sem er þar. Vinningshafi verður svo dregin út næstkomandi laugardag.

Uppskrift (12 litlir bitar eða 6 stærri)

 • 2 dl valhnetur
 • 2 dl ferskar döðlur (án steins)
 • 1/2 dl gott kakó
 • 1 msk möndlu- eða jarðhnetusmjör
 • hnífsoddur salt
 • 1-2 tsk vatn

Valhneturnar eru settar í matvinnsluvél og hneturnar maldar í mjöl. Þá er restinni af hráefnunum, fyrir utan vatnið, bætt út í og keyrt þar til allt loðir saman og myndar deig. Ef þarf er örlitlu vatni bætt út í til þess að binda degið saman. Kökuform (ég notaði brauðform 25cm x 11cm) er klætt með bökunarpappír og deiginu er þrýst vel ofan í formið. Það er svo sett inn í frysti á meðan kremið er útbúið.

Súkkulaðikrem

 • 1 vel þroskað avókadó
 • Fræ úr einni vanillustöng
 • 3 msk agave síróp
 • 1 msk kókosolía
 • 3 msk gott kakó

Öllu blandað saman vel í matvinnsluvél þar til kremið er orðið kekkjalaust og silkimjúkt. Þá er kökuformið tekið úr frystinum og kreminu smurt ofan á kökuna. Sett aftur inn í frysti í ca. 20 mínútur. Þá er kakan losuð úr forminu og skorin í 12 litla bita eða sex stærri bita. Geymist vel í ísskáp eða í frysti.

IMG_9404