Ofnbökuð svínalund með beikoni og sveppum


IMG_0378

Mér er tíðrætt um þessa blessuðu ritgerð mína enda er hún efst í huga mínum alla daga og tekur allan minn tíma. Núna sé ég hins vegar loks fyrir endann á þessu verkefni og mun senda hana í prófarkalestur í næstu viku … jejj!!

Í gær átti Alexander 25 ára afmæli, 12.12.12! Það er fjölskylduhefð hjá okkur að afmælisbarnið fái að velja kvöldmatinn. Alexander lagðist yfir þetta blogg og skipti um skoðun nokkrum sinnum. Ég var frekar spennt að vita hvað hann myndi velja og valið kom mér dálítið á óvart. Hann valdi laxaborgara með sætum kartöflum. Ekki það að þeir séu ekki rosalega góðir en ég vissi bara ekki að þeir væru efstir á vinsældalistanum hans. Hann er sérstaklega hrifinn af mangósósunni enda er hún stórgóð og passar örugglega vel með öllum fiski og kjúklingi. Í eftirrétt valdi Alexander franskar crepes með Nutella og banönum sem er hættulega gott! Ósk er ekki hrifin af kökum og eftirréttum (nei, hún er ekki ættleidd) en henni finnst þessar crepes hrikalega góðar og í raun eini eftirrétturinn sem henni finnst góður.

En uppskrift dagsins er svínakjötsréttur. Þetta er í fyrsta sinn sem ég set inn svínakjötsuppskrift inn á þetta blogg. Ég er frekar lítið fyrir svínakjöt en svo finnst mér það alltaf betra en mig minnti þá sjaldan sem ég matreiði úr svínakjöti. Þessi réttur var allavega afskaplega góður og ég get vel hugsað mér að elda hann aftur.

IMG_0304

  • 600 gr svínalund
  • 3 tómatar
  • 1 pakki beikon
  • 250 gr sveppir, skornir í bita
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 2 msk dijon sinnep
  • 1 hvítlauksrif
  • svínakraftur
  • rifinn ostur
Beikon steikt og þerrað vel á eldhúspappír, skorið eða klippt í litla bita. Sveppir steiktir þar til þeir verða brúnir, þá eru þeir teknir af pönnunni. Því næst er svínalundin skorin í ca 2 cm sneiðar, saltaðar og pipraðar og steiktar á báðum hliðum i smjöri þar til þær hafa tekið dálítinn lit. Pannan ekki þvegin.
Tómatar sneiddir og þeim raðað á botninn á eldföstu móti. Þá er svínalundssneiðunum raðað yfir tómatana og sveppunum dreift yfir að lokum.
Nú er rjómanum helt út á pönnuna sem svínalundin var steikt á og sinnepi, hvítlauk og svínakrafti bætt út í. Suðan látin koma upp á meðan hrært er í sósunni, beikoni bætt út í.
Sósunni hellt yfir svínakjötið í eldfasta mótinu og loks er rifna ostinum dreift yfir. Hitað í ofni við 225 gráður í ca 20 mínútur. Borið fram með hrísgrjónum og salati.
IMG_0352

Fylltar kjúklingabringur með basiliku, mozzarella og parmaskinku


IMG_6222

Ég er með nokkrar girnilegar jólauppskriftir í handraðanum sem ég ætla setja hér inn á bloggið en ætla samt að setja inn smá hollustu núna í kvöld, svona til að vega upp á móti sætindunum sem eru á leiðinni! Svo ætlaði líka þjálfarinn minn í ræktinni að kíkja á bloggið mitt (hæ Árndís!) og þá lítur betur út fyrir mig að hafa færslu með kjúklingi og kúskús frekar en einhverju gúmmelaði! Annars er hætta á að ég verði sett í að hlaupa upp og niður tröppurnar í ræktinni oftar en hinar í hópnum! 🙂

Þennan rétt hámuðum við í okkur fyrr í kvöld áður en við fórum í kvöldsund. Ég setti saman hitt og þetta sem mér finnst gott og útkoman varð rosalega góð verð ég að segja. Enda eru þetta hráefni sem geta ekki klikkað saman. Eins og ég hef sagt áður er ég ekki mjög hrifin af sólþurrkuðum tómötum en í þessum rétti njóta þeir sín mjög vel.

IMG_6229

Uppskrift

  • 8 kjúklingabringur
  • 125 g sólþurrkaðir tómatar
  • ca. 1-2 dl rifinn ostur
  • 1 mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum, 120 g)
  • fersk basilika (ég notað heilt box frá Náttúru, 30 g)
  • 8 sneiðar parmaskinka
  • 1.5 dl ólívuolía
  • 2 msk balsamedik
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 tsk dijon sinnep
  • salt og pipar

Ofninn stilltur á 210 gráður. Kjúklingabringurnar lagðar á bretti með sléttu hliðina niður annað hvort í litlum plastpokum eða plastfilma lagt yfir þær. Svo eru þær flattar dálítið út með kjöthamri eða kökukefli (ég barði þær nú bara með kökukeflinu!), því næst eru þær saltaðar og pipraðar.

Rifinn ostur, mozzarellaostur, sólþurrkaðir tómatar og basilika sett í matvinnsluvél og keyrt í ca 10 sekúndur eða þar til blandan er grófmaukuð. Fyllingin sett inn í kjúklingabringurnar og einni parmaskinku vafið þétt utan um hverja bringu. Gott er að nota tannstöngla til að loka bringunni enn betur. Bringunum er svo raðað í eldfast mót, ekki alveg þétt upp við hvor aðra því það lengir eldunartímann. Ólífuolíu, balsamedik, hvítlauksrifum og sinnepi hrært saman og dreift yfir bringurnar. Ég átti smá afgang af fyllingunni og bætti henni út í sósuna áður en ég dreifði henni yfir kjúklinginn. Bakað í ofni við 210 gráður í ca. 30 mínútur þar til að kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_6237

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
  • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
  • 1 búnt steinselja
  • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
  • 500 g smjör, við stofuhita
  • 1 msk maldonsalt
  • reykt paprikuduft á hnífsoddi
  • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
  • 2 kg humar, helst stór eða millistór
  • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
  • 1.5 dl hvítvín
  • 1.5 dl rjómi
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.

Ostafylltur kjöthleifur


Um daginn gerði ég þessa nautahakksrúllu sem sló í gegn hér heima og ég sé að þetta er vinsæl uppskrift hér á blogginu. Ég er búin að horfa á nýjan ost frá Philadelphia úti í búð í nokkurn tíma. Þetta er Philadelphia með sweet chili, hljómar mjög girnilega. Ég hef verið að hugsa um hvernig ég geti nýtt hann í einhvern góðan matrétt. Í kvöld ákvað ég að gera útfærslu af nautahakksrúllunni og nota þennan ost. Þó það sé chili í honum þá er hann ekki sterkur, enda er þetta sweet chili, og hann er afar bragðgóður. En það er líka hægt að nota ost með til dæmis hvítlauksbragði, það er örugglega mjög gott líka. Þessi kjöthleifur sló í gegn, sérstaklega hjá elstu krökkunum sem stóðu í hörðum samningaviðræðum yfir því hvernig afgangnum yrði skipt í matarboxin þeirra og þá ekki síst sósunni! 🙂

  • 600-700 g nautahakk 
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  •  ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • ca. 150 gr Philadelphia ostur með Sweet Chili (eða með öðru bragði)
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari
  • 2 tsk rifsberjahlaup
Ofn stilltur á 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Hakki, lauk, eggi, brauðmylsnu, mjólk og kryddi blandað vel saman. Helmingnum af kjötblöndunni sett ofan í eldfast mót og hún mótuð í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum og hún fyllt með Philadelphia osti. Raufinni lokað vel, afgangnum af kjötblöndunni lagður ofan á og haldið áfram að móta hleifinn. Hann er gerður vel þéttur svo osturinn leki ekki út. Smjör brætt í potti og sojasósu bætt út í. Sósunni er því næst hellt yfir kjöthleifinn og hann bakaður í ofni í 40-50 mínútur, fer eftir þykktinni. Þegar kjöthleifurinn er eldaður í gegn er hann tekinn úr eldfasta mótinu og settur undir álpappír. 2-3 dl af vatni er hellt út í eldfasta mótið sem er sett aftur inn í ofninn og hann stilltur á grill. Þegar vökvinn fer að sjóða eftir nokkrar mínútur er honum hellt yfir í pott og 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt með hveitijafningi (smá vatn og hveiti hrist eða hrært saman) eða sósujafnara. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis hrísgrjónum og soðnu grænmeti.

Himneskir kjúklingaleggir með rjómasósu


Í kvöld eldaði ég nýjan kjúklingarétt sem varð á svipstundu einn af uppáhaldsréttum fjölskyldunnar! Börnin linntu ekki látum fyrr en ég lofaði að hafa þennan rétt allavega vikulega. Okkur Elfari fannst rétturinn líka ofsalega góður og að auki er hann mjög auðveldur að matreiða og frekar ódýr þar sem að kjúklingaleggir eru fremur ódýrt kjöt. Ég set hann því með glöðu geði á listann yfir uppáhaldsrétti. Það má nú deila um hollustu sósunnar sem inniheldur bæði smjör, rjóma og rjómaost en hún er ó svo hrikalega góð!! Það, að láta smör og sojasósu malla saman í safa af kjöti, gefur afskaplega góðan grunn í sósur. Kjúklingaleggirnir verða líka svo ofsalega bragðgóðir í þessari marineringu og meyrir við eldunina. Ég gerði satt að segja tvöfalda uppskrift hér að neðan, notaði sem sagt tvö kíló af kjúklingaleggjum! En við vorum sex í mat og svo var að auki afgangur sem dugði í þrjú matarbox, eitthvað sem gleður elstu krakkana mikið, þá þurfa þau ekki að eyða pening í mat í skólanum á daginn.
Uppskrift fyrir 4:
  • 1 kíló kjúklingaleggir
  • 25 gr smjör
  • ½ dl ólífuolía
  • 3 msk sojasósa
  • salt og pipar
  • Knorr kjöt & grill krydd (eða annað gott krydd, t.d. Töfrakrydd frá Pottagöldrum)
  • ½ dl vatn
  • 100 gr rjómaostur (jafnvel enn betra að nota Philadelpia með hvítlauk og kryddjurtum)
  • 3 dl rjómi
Ofninn stilltur á 200 gráður. Kjúklingaleggjunum er raðað í stórt eldfast mót eða í ofnskúffu, fer eftir fjölda leggja. Smjörið brætt og sojasósunni ásamt ólífuolíunni bætt út í. Blöndunni síðan hellt yfir kjúklingaleggina og þeim velt vel upp úr henni. Leggirnir eru því næst kryddaðir á alla kanta mjög vel með kjöt & grill kryddinu ásamt salti og pipar. Settir inn í 200 gráðu heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til leggirnir eru eldaðir í gegn. Kjúklingaleggirnir eru því næst lagðir á fat og vatni pískað út í sósuna í eldfasta mótinu, henni er síðan hellt yfir í pott. Rjómaosti er svo bætt út í og sósan látin malla þar til hann er bráðnaður. Þá er rjómanum bætt út í og sósan bragðbætt með salti og pipar ef þarf. Sósan látin malla í nokkrar mínútur og þykkt af vild með sósujafnara.
Kjúklingaleggirnir eru bornir fram með sósunni, hrísgrjónum og salati.

Ostafylltar kjúklingabringur í rósapiparsósu


Seinni partinn í gær voru bæði Jóhanna Inga og Vilhjálmur að spila á tónleikum í tónskólanum sínum. Vilhjálmur er búinn að læra á píanó í nokkur ár og Jóhanna var að byrja í forskóla tónlistarskólans þar sem hún æfir á blokkflautu. Henni finnst afskaplega gaman í tónskólanum og hefur náð ótrúlega góðu valdi á flautunni á stuttum tíma. Hún var lengi vel ákveðin í að læra svo á harmónikku! Síðan breyttist það í fiðlu en núna kemur ekkert annað til greina en rafmagnsgítar! Það verður spennandi að sjá hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu næsta vetur! 🙂 Vilhjálmur heldur sig við píanóið og er einstaklega duglegur, ég held að hann hafi aldrei spilað eina einustu feilnótu á tónleikum. Þau stóðu sig auðvitað bæði með prýði á tónleikunum í gær og bæði amma og Inga frænka komu til að horfa á.

Vegna tónleikana komum við seint heim og ég útbjó kjúklingarétt sem tekur bara örfáar mínútur að búa til, svo bara eldar hann sig sjálfur í ofninum, svoleiðis réttir eru svo þægilegir! Þetta var alveg ný uppskrift og ég var dálítið efins með hana í fyrstu, en í henni eru fá hráefni sem ég nota ekki oft. Það er gráðostur, rósapipar og estragon krydd. Ég hefði nú ekki þurft að hafa áhyggjur því rétturinn sló í gegn hér heima! Ekki hræðast gráðostinn í réttinum, jafnvel þótt þið borðið hann ekki almennt. Alexander til dæmis er ekki hrifinn af gráðosti en fannst þessi ostafylling svo frábærlega góð. Gráðosturinn verður einhvern veginn mildari þegar hann er eldaður á þennan hátt og kemur svo saman við sósuna. Ég notaði þennan hefðbunda gráðost. Hins vegar er sniðugt að nota Bláan Kastala ef maður vill enn mildara ostabragð. Ég reyndar setti bara venjulegan rifinn ost í kjúklingabringurnar hjá yngstu krökkunum. Sósan var afskaplega bragðgóð, estragon og rósapipar eiga afar vel saman. Rósapipar er ekkert skyldur hvítum, svörtum eða grænum pipar heldur eru þetta lítil ber frá trópísku tré. Rósapipar er seldur þurrkaður (til frá t.d. Pottagöldrum og Prima) og minnir bragðið einna helst á einiber og kóríander, bragðið er svolítið mildara og sætara en þó með smá ,,sting“. Ég notaði matreiðslurjóma og mér fannst sósan skilja sig svolítið. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég notaði ekki hefðbundinn rjóma eða hvort það gerðist þegar gráðosturinn bráðnaði og blandaðist við sósuna. En það kom ekki að sök, sósan var ákaflega bragðgóð. Ég mæli með þessum rétti!

Uppskrift f. 4

  • 4 kjúklingabringur
  • 125 gr gráðostur (Blár kastali ef maður vill mildari tegund)
  • 2-3 tsk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk estragon krydd
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 tsk rósapipar, mulin t.d. í morteli eða kvörn
Ofn hitaður í 200 gráður. Eldfast mót smurt og skorinn vasi í hlið hverrar kjúklingabringu sem er svo fyllt með gráðosti. Bringunum er svo lokað með því að þrýsta þeim saman. Fylltar kjúklingabringurnar lagðar í eldfast mót og þær penslaðar með sojasósu og estragon kryddinu stráð yfir. Muldum rósapipar hrært saman við rjómann sem er svo hellt yfir bringurnar. Sett inn í 200 gráður heitan ofn í 30-40 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.
Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Grillað lambafille með sveppasósu og kryddkartöflum með sesamfræjum


Helgin leið hratt eins og reyndar allir dagar um þessar mundir. Ég hlakka ekkert lítið til þegar ég verð búin með meistararitgerðina mína! Hún hangir yfir mér eins og mara alla daga. Það verður lítill munur á virkum dögum og helgum þegar svona verkefni bíður stöðugt eftir manni í tölvunni og mér finnst ég alltaf vera að svíkjast um ef ég geri eitthvað annað en að skrifa. Fyrir utan það að hafa skrifað meira og minna alla helgina þá voru hápunktar helgarinnar þrír, þegar ég bakaði þessa dásamlegu banana-súkkulaðiköku. Namm, ég þarf að halda aftur að mér að baka hana ekki alveg strax aftur! Á laugardagskvöldinu gisti Jóhanna Inga hjá vinkonu sinni og við hjónin skruppum í bíó á James Bond og tókum Vilhjálm með okkur. Ég hefði aldrei nennt að fara á frumsýningarhelgi ef ekki væri fyrir Kringlubíó þar sem hægt er að kaupa miða í númeruð sæti. Ég skil ekki af hverju það eru ekki númeruð sæti í öllum bíóhúsum þannig að maður þurfi ekki að lenda í troðning og látum eins og oft vill verða. Mér finnst vera til lítils að kaupa bíómiða fyrirfram á netinu ef maður þarf svo hvort sem er að mæta snemma og troðast áfram til að ná sæmilegum sætum. Ok, Svíinn í mér hefur lokið máli sínu um þetta málefni! 🙂 Jú annars, eitt enn, myndin var mjög góð! Þriðji hápunkturinn var svo heimsókn til ömmu og afa sem var orðið alltof langt síðan að við höfðum hitt. Reyndar má nú kalla sunnudagsmatinn fjórða hápunktinn! Grillað lamabafille með góðu meðlæti. En gott grillað lamba- eða nautakjöt er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Uppskrift:

  • Lambafille
  • olía
  • rósmarín
  • timjan
  • salt
  • pipar
  • hvítlauksrif, pressuð

Kryddi, hvítlauk og olíunni blandað saman, lambafille velt upp blöndunni, pakkað þétt í plastfilmu og látið bíða í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Kjötið svo tekið út og látið ná stofuhita áður en það er grillað. Yfirgrillarinn sá um að grilla kjötið en mér skilst að hann grilli það við fremur háan hita í ca. 6-7 mínútur með fituhliðina niður, 3-4 mínútur á hinni hliðinni. Þetta fer þó auðvitað eftir þykkt bitanna. Það er þykk fiturönd á kjötinu, það þarf því að fylgjast vel með kjötinu og færa það til við þörfum svo það brenni ekki.

Sveppasósa

  • smjör
  • 200 gr sveppir
  • 2-3 tsk nautakraftur
  • 1 piparostur
  • 4 dl matreiðslurjómi
  • 2 dl mjólk
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Sveppir sneiddir og þeir steiktir í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti bætt út og hann látin bráðna. Rjóma og mjólk bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í ef maður vill fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Kryddkartöflur með sesamfræjum

  • 1 kíló kartöflur
  • 1 1/2 msk sesamfræ
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk kóríander krydd (ég notaði líka ferskt)
  • 1 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sítrónusafi

Kartöflurnar soðnar og afhýddar. Sesamfræin þurrristuð á pönnu þar til þau fá lit, þá eru þau lögð til hliðar. Hvítlaukurinn saxaður smátt. Olía hituð á pönnu og cumin ásamt hvítlauk bætt út á pönnuna þar til það hefur fengið lit en má ekki brenna. Kartöflunum bætt út á pönnuna og steikt, hrært í varlega öðru hvoru. Kryddað með kóríander, pipar, cayenne pipar, salti og sítrónusafa. Sesamfræunum bætt við og allt steikt nokkrar mínútur í viðbót, hrært í varlega öðru hvoru.

Nautahakksrúlla með osti og brokkolí


Ég gerði þennan ljúffenga og sniðuga hakkrétt fyrr í vikunni. Rúllan er skemmtileg tilbreyting frá því sem maður gerir venjulega úr nautahakki og öllum fjölskyldumeðlimum fannst hún ofboðslega góð.  Það er fljótlegt að búa til þessa nautahakksrúllu og svo er henni bara skellt inn í ofn. Mér finnst svoleiðis matur alltaf svo þægilegur, þá getur maður gengið frá í eldhúsinu eða gert eitthvað annað á meðan maturinn eldast. Sósan er frábærlega góð, það má alls ekki sleppa henni. Svo er hægt að leika sér með innihaldið í rúllunni, nota til dæmis rifinn piparost, fetaost eða gráðost í stað venjulegs ostar. Það er líka hægt að nota annað grænmeti líkt og papriku, lauk og/eða sveppi og ekki er verra að bæta við beikoni.

Hér hef ég gert aðrar góðar útfærslur af nautahakksrúllunni:

Nautahakksrúlla með mozzarella, tómötum og basilku

IMG_0576

Nautahakksrúlla með beikoni, eplum og sveppum

IMG_9706

Mexíkósk nautahakksrúlla

IMG_1104

Það er ákaflega einfalt að aðlaga nautahakksrúlluna með osti og brokkolí að LKL – lágkolvetna mataræðinu – og ég setti leiðbeiningar hvernig fara á að því inn í uppskriftina. Fyrir LKL fólk væri sniðugt að bera fram með rúllunni til dæmis blómkálshrísgrjón. Þau eru gerð með því að rífa niður blómkál (ekki stilkana, bara blómin) á grófu rifjárni. Það er svo sett út í sjóðandi vatn sem er saltað (vatnið á rétt að fljóta yfir þau) í 3 mínútur. Það þarf svo að láta leka vel af blómkálshrísgrjónunum, þau eiga að verða alveg vatnslaus, áður en þau eru borin fram. Það er hægt að gera stóran skammt og geyma í ísskáp í nokkra daga.

Uppskrift f. 4

  • 600 gr nautahakk
  • 1 msk nautakraftur
  • 1 msk kartöflumjöl (2 msk husk fyrir LKL-vænan rétt)
  • 1 tsk salt
  • pipar
  • 1 egg
  • 200-300 gr ferskt brokkolí, skorið smátt
  • ½ dl steinselja, söxuð smátt
  • 3-4 dl rifinn ostur
  • 2-3 msk sojasósa
  • 30 gr smjör, brætt
  • 1-2 dl rjómi eða mjólk (fyrir LKL er rjómi bestur)
  • 1 msk hveiti eða sósujafnari (sleppa fyrir LKL)
  • 2 tsk rifsberjahlaup (sleppa fyrir LKL)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Nautahakki, nautakrafti, kartöflumjöli, salt, pipar og eggi hrært saman í skál. Hakkið flatt út í ferning á smjörpappír. Gott er að leggja smjörpappír ofan á hakkið og fletja það svo út með kökukefli.

IMG_9693

Brokkolí, steinselju og rifnum osti dreift yfir. Með hjálp smjörpappírsins undir hakkkinu er því rúllað upp eins og rúllutertu. Rúllan er færð yfir í eldfast mót.  Bræddu smjöri og sojasósu blandað saman og helt yfir rúlluna. Hitað í ofni í ca. 40 mínútur, fer allt eftir þykkt rúllunnar. Þegar rúllan er elduð í gegn er hún tekin úr eldfasta mótinu og sett undir álpappír. Vökvinn úr eldfasta forminu er síaður í gegnum sigti í pott, 2 dl af vatni bætti út í og suðan látin koma upp. Þá er 1-2 dl af rjóma eða mjólk hellt út í. Sósan er svo þykkt sósujafnara. Fyrir LKL- væna sósu er best að nota rjóma og leyfa sósunni að malla dálítið, við það þykkist hún og þá þarf ekki sósujafnara. Það er líka hægt að bæta ca. 2 msk af rjómaosti út í sósuna til að hjálpa til við þykkingu. Rifsberjahlaupi er að lokum bætt út í sósuna (ekki fyrir LKL) og hún smökkuð til með salti og pipar. Borið fram með til dæmis kartöflumús, salati og rifsberjahlaupi.

Kotasæluklattar


Í dag er fyrsti skóladagurinn hjá yngstu börnunum. Ég er eiginlega ekki tilbúin, mér finnst sumrinu vera lokið þegar skólarnir byrja og ég er enn að sætta mig við hvað sumrin hér á Íslandi eru stutt! Þegar við bjuggum í  Svíþjóð fannst mér vera þar sumar frá apríl og alveg fram í lok september. En það er nú reyndar ekki hægt að kvarta yfir þessu dásamlega sumri sem við fengum á Íslandi í ár, það mætti bara vera lengra! 🙂

En eftir allar matarveislur sumarsins er kannski tími til komin að huga að hollustu! Mér finnst reyndar voðalega leiðinlegt að pæla allt of mikið í svoleiðis hlutum og reyni að forðast öfga í mataræðinu. Ég elda mat úr ferskum og fjölbreyttum hráefnum, nota mikið grænmeti, forðast unna matvöru og finnst það vera heilbrigð hollusta. Ég er ekki hlynnt algjörlega kolvetnislausu fæði en ég finn samt að það gerir mér gott að sneiða hjá miklum kolvetnum. Ég byrjaði því núna síðsumars að minnka brauðát. Það getur verið snúið að finna eitthvað í stað brauðsins. Ég fæ mér oft eggjaköku í hádeginu og borða með henni ávexti og grænmeti, finnst það  afskaplega gott. En fyrir nokkru síðan sá ég uppskrift af kotasæluklöttum sem eru meira og minna kolvetnislausir. Það sem stoppaði mig í að prófa uppskriftina var að í henni er ,,fiberhusk“. Ég vissi að þetta var einhverskonar trefjaviðbætir til að halda saman deiginu, sem er án hveitis, en fann það ekki í hefðbundnum búðum. Ég komst svo að því að þetta trefja husk fæst til dæmis í Heilsuhúsinu, í apótekum og í mörgum heilsuhornum frá Now meðal annars. Þá var ekkert því til fyrirstöðu að prófa klattana. Mér fannst dálítið erfitt að steikja klattana fyrst um sinn, deigið virtist afar linnt og það var eins og klattarnir næðu ekki að steikjast almennilega. Ég þurfti að ,,sópa“ þeim svolítið saman með steikarspaðanum til að þeir héldu forminu. En eftir smátíma og eftir að ég hækkaði aðeins hitann á pönnunni gekk þetta betur og ég fékk þessa fínu kotasæluklatta.

Uppskrift (2 klattar):

  • 125 gr. kotasæla
  • 3/4 msk trefjahusk  (mér skilst að hægt sé að nota 1.5 msk af muldu haframjöli í staðinn – hef ekki prófað það sjálf).
  • 1 egg
  • örlítið salt
  • 1 msk olía til steikingar, gott að nota kókosolíu

Maukið allt hráefnið saman með töfrasprota og látið standa í mínútu eða tvær. Setjið feiti á pönnuna, best er að nota teflonpönnu. Hitið olíuna á fremur háum hita á pönnunni, ausið svo deiginu á pönnuna í tvær ,,hrúgur“. Lækkið hitann niður í meðalhita (ég steikti á 5 af 9). Steikið í nokkrar mínútur og ýtið klöttunum saman með steikarspaðanum öðru hvoru ef þeir renna mikið til. Steikið þar til klattarnir eru orðnir nægilega stökkir þannig að hægt sé að snúa þeim við. Ég snéri þeim síðan við nokkrum sinnum, setti svo á milli þeirra mozzarella og skinku og leyfi því aðeins að bráðna saman við klattana á pönnunni. Ekki er verra að bæta líka við ferskri basiliku og tómötum og grilla svo klattasamlokuna í samlokugrilli!

Eggjakaka frá smálöndum og Svíþjóðartal!


Síðastliðna nótt komum við heim úr frábærri tveggja vikna Svíþjóðarferð með yngstu börnunum tveimur og Ingu frænku. Ósk var líka í Stokkhólmi með íslenskum vinkonum sínum fyrstu vikuna en er núna með sænskum vinkonum á Krít og fer svo aftur til Stokkhólms í viku! Ekki nóg með það heldur þá er Alexander á ferðalagi um Japan! Lukkunnar pamfílar! 🙂

Við erum sem sagt búin að vera þrjár vikur að heiman, því vikuna fyrir Svíþjóðarferðina vorum við á Patró. Ég byrjaði að blogga hér fyrir tveimur mánuðum, þar af hef ég bloggað í tæpan mánuð annarsstaðar en að heiman. Það hefur verið áskorun! Ég hef eldað í eldhúsum sem eiga ekki kryddin mín eða áhöld sem ég er vön að nota og notað eldavélar sem ég þekki ekki inn á. Netsamband á Vestfjörðum, í sumarbústað á suðurlandi, í Stokkhólmi eða í smálöndum Svíþjóðar hefur verið skrikkjótt, hægvirkt og stundum alls ekkert. Eitt sinn hrundi þessi vefsíða þegar ég breytti útlitinu og það var ekki hægt að setja inn færslur og í annað sinn þurfti ég að nota lánstölvu sem var ekki hægt að stilla inn á íslenskt letur (ctrl-c og ctrl-p mikið notað í þeirri færslu)! Ég er því frekar ánægð með að hafa tekist að blogga daglega þrátt fyrir allt. 🙂

En Svíþjóðarferðin var frábær! Við búum svo vel að eiga marga góða íslenska vini í hverfinu í Stokkhólmi þar sem við bjuggum í rúm 15 ár. Við fengum því bæði lánsíbúð og lánsbíl og gátum dvalið í gamla hverfinu okkar. Stokkhólmur er dásamleg borg sem hefur upp á feykimargt skemmtilegt að bjóða, sérstaklega fyrir börn. Í meistaranámi mínu í bókasafns-og upplýsingafræði fékk ég verkefni þar sem ég átti að forrita heimasíðu. Á heimasíðunni þurfti ég að setja fram 15 tengla um ákveðið efni eftir ákveðnum reglum. Ég valdi auðvitað tengla um Stokkhólm og forritaði þessa síðu hér! Reyndar held ég að einhverjir tenglar séu úreldir en þarna eru samt einhverjar upplýsingar um borgina.

Það sem stóð upp úr hjá krökkunum í ferðinni og var efst á þeirra óskalista var tívolíið Gröna Lund, Tom Tit vísindasafnið sem er algjörlega frábært og engin barnafjölskylda ætti að láta framhjá sér fara í Stokkhólmsheimsókn. Einnig er tónlistarsafnið einstaklega barnvænt og skemmtilegt, við höfum heimsótt það reglulega og gerðum það einnig í þessari ferð. Að þessu sinni var líka fjórvíddarbíóið Cosmonova í Náttúrfræðisafninu sótt heim við mikla hrifningu auk Fiðrildahússins í Hagagarðinum.

Við fórum líka í mörg matarboð bæði til íslenskra og sænskra vina, í bátsferð um skerjagarðinn með Elfari frænda og svo var auðvitað verslað svolítið! Toppurinn á ferðinni var svo ferðalag í dýragarðinn Kolmården sem er sá stærsti á Norðurlöndunum og í smálöndin þar sem garðurinn ,,Astrids Lindgrens värld” var heimsóttur. Þetta var líklega í fimmta sinn sem við förum í svona ferð þar sem við tvinnum saman dýragarðsferð og Vimmerby, en það er alltaf jafn gaman! Það tekur einn og hálfan tíma að keyra til Kolmården frá Stokkhólmi en það þarf að mæta við opnun og vera til lokunnar til þess að ná að skoða allan garðinn sem er afar stór og flottur. Um kvöldið keyrðum við svo til Vimmerby, fæðingarbæjar Astridar Lindgren. Daginn eftir dvöldum við allan daginn í Astrids Lindgrens värld sem er stórkostlegur garður í Vimmerby, byggður á flestum sögum Astridar.

Við heimsóttum þennan garð fyrst árið 1998 þegar Ósk og Alexander voru lítil og það er gaman að sjá hvað hann verður flottari með ári hverju. Í garðinum er allt morandi af leikurum í hlutverkum söguhetja Astridar. Sá yngsti var líklega ekki meira en 6 ára, það var ”Lillebror” vinur Kalla á þakinu, og það var dásamlegt að sjá samspil hans og Kalla en leikararnir fara aldrei úr karakter. Reglulega sýna leikararnir æfð leikrit en þess á milli eru þeir í karakter meðal gesta garðsins og spinna með þeim í anda sinna persóna. Leikritin eru afar metnaðarfull og umgjörðin verður flottari með hverju árinu. Til dæmis er Matthíasarborg Ronju Ræningjadóttur orðin stórglæsileg og í leikritinu kemur alvöru elding, kastalinn klofnar raunverulega í tvennt og myndar Helvítisgjánna. Jafnframt ríða ræningjarnir á lifandi hestum, alvöru þoka læðist yfir svið og áhorfendur auk snjókomu. Einnig stíga rassálfar, grádvergar og skógarnornir á stokk. Gestir garðsins geta svo leikið sér í húsum og umhverfi söguhetjanna, milli þess sem þar eru sýnd leikrit, og átt í samskiptum við söguhetjurnar. Þarna er líka alvöru Ólátagata þar sem kvikmyndin um Lottu var tekin upp. Þar er hægt að skoða húsið hennar  Lottu og Tant Berg. Ég gæti endalaust haldið áfram að tala um þennan garð en ég hvet alla aðdáendur Astridar, jafnt börn sem fullorðna að heimsækja Astrids Lindgrens värld! Ég mæli samt með því að fara ekki í júlí því þá er ofsalega mikið af fólki í garðinum.

Við höfum prófað nokkra gistimöguleika í Vimmerby. Hótel Ronja er ágætis íbúðarhótel, við vorum þar fyrir þremur árum og vorum mjög sátt við það. Núna gistum við í Smålandsbyn (áður Pippis hotell en afkomendur Astridar hafa lagt eignarhald á það nafn og þeir fá ekki að heita það lengur né nefna húsin sín eftir söguhetjum hennar!). Þetta er rétt fyrir utan Vimmerby, þaðan tekur bara 5 mínútur að keyra í garðinn. Þarna er skemmtilegt safn húsa í eftirlíkingu húsa söguhetja Astridar og með frábæru leiksvæði fyrir börn. Stóra gula húsið er hótel en við bjuggum útaf fyrir okkur í Maddittar húsi (bláa húsinu) með góða aðstöðu og húsið var afar snyrtilegt og hlýlegt. Mæli með þessum gistimöguleika! Athugið að gistingu í Vimmerby yfir hásumar þarf að bóka með margra mánaða fyrirvara, ég pantaði með hálfs árs fyrirvara. Og fyrst ég er byrjuð á þessu þá mæli ég líka með veitingastaðnum Brygghuset í Vimmerby sem er í veitingastaður Åbro verksmiðjunnar, afar góður matur þar!

Og þá er ég komin að því sem ég ætlaði að skrifa um áður en þessi færsla breyttist í færslu um hvað væri hægt að gera skemmtilegt með börnum í Svíþjóð og í Stokkhólmi! 🙂 Í húsinu þeirra Madditar og Betu (sem var mín uppáhaldssaga þegar ég var lítil og er núna uppáhalds hjá Jóhönnu minni!) eldaði ég sem sagt eggjaköku! Ég hef mjög sjaldan eldað eggjakökur í gegnum árin en þegar við vorum í Tyrklandi fyrir ári síðan var allur matur innifalinn á hótelinu og góður var hann! Á morgnana var hlaðborð með allskonar morgunmat en þar sem ég er lítið fyrir að borða morgunmat þá átti ég erfitt með að finna eitthvað sem ég hafði lyst á. Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði kokkana sem stóðu í einu horninu og elduðu eggjakökur eftir pöntun að ég fór hreinlega að hlakka til að borða morgunmat! Eftir að hafa horft á kokkana elda gómsæta eggjaköku ofan í mig daglega í tvær vikur fór ég heim til Íslands og hef eldað sambærilega eggjaköku ótal sinnum síðan þá. Ég get meira að segja snúið henni við í loftinu eins og kokkarnir gerðu! 😉 En eiginmaðurinn var ekki nógu viðbragðssnöggur til að ná því á filmu þannig að þið verðið bara að taka mig trúanlega! 🙂

Eggjakaka er afar fitusnauður, saðsamur og góður matur. Það er hægt að nota næstum því hvaða grænmeti sem er, hvaða álegg sem er og hvaða ost sem er í eggjakökuna. Ég nota meira af eggjahvítum en rauðum, kakan verður hollari og próteinríkari þannig. Það er mjög sniðugt að kaupa eggjahvítur á brúsa eins og er seldur í matvöruverslunum, þær geymast í 7 daga í kæli en má frysta og því hægt að frysta þær í litlum, passlegum skömmtum.

Uppskrift:

  • 2 egg
  • 3 eggjahvítur
  • 2/3 dl mjólk (vill maður gera vel við sig er hægt að nota matreiðslurjóma eða rjóma!)
  • sveppir
  • skinka
  • ferskt brokkolí
  • rifinn ostur (líka hægt að nota ferskan mozzarella ost eða brie ost, skorið í bita)
  • smör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk basilka
  • 1/2 tsk oregano
  • salt og pipar

Aðferð:

Setjið egg og eggjahvítur í skál ásamt mjólk, pískið þessu létt saman, bætið kryddinu út í. Skerið sveppina fremur gróft og steikið þá á pönnu. Því næst er eggjahrærunni hellt út á pönnuna. Skinkan er skorin niður í bita ásamt brokkolíi og hvoru tveggja bætt út í ásamt ostinum Látið eggjakökuna malla á meðalhita, gætið þess að hafa hann ekki of háan þannig að eggjakakan brenni ekki. Pikkið í hræruna á meðan hún er að þykkna til að flýta fyrir.

Þegar kakan hefur stífnað vel er henni snúið við og hún steikt á hinni hliðinni í nokkrar mínútur. Það er hægt að snúa við kökunni til hálfs (í hálfmána) ef maður treystir ekki til að snúa henni við í heilu. Einnig er hægt að sleppa því að snúa henni við, setja lok á pönnuna og fullelda eggjakökuna þannig á annarri hliðinni. Einnig er gott að klára eldunina inni í bakarofni í nokkrar mínútur ef pannan kemst inni í ofn.