Geggjuð mexíkósk ídýfa


IMG_5392

Já, ég ætla hreinlega að kalla þessa uppskift ”geggjuð mexíkósk ídýfa” því það lýsir henni langbest! Þegar ég var að undirbúa útskriftarveisluna hennar Óskar þá bauðst Anna Sif vinkona til að gera mexíkóska ídýfu sem hún hafði fengið uppskrift að hjá vinkonu sinni. Ég þáði boðið og skemmst er að segja frá því að þetta var eiginlega sá réttur sem hlaut mestu athyglina á hlaðborðinu. Þessi ídýfa er nefnilega svo geggjað góð að það hálfa væri nóg!! Það báðu eiginlega allir um uppskriftina og ég hef verið á leiðinni að setja hana hingað inn í allt sumar. Í gærkvöldi fór Anna vinkona með þessa ídýfu í boð og hún sendi mér skilaboð í dag um að ég yrði að drífa þessa uppskrift inn á alnetið því það voru allir að missa sig yfir ídýfunni og vantaði aðgang að uppskriftinni. Ég bar ídýfuna fram í Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) en það er líka rosalega gott að bera hana fram með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

Hérna kemur uppskriftin og ég segi það og skrifa, þið verðið elskuð af öllum þeim sem fá að smakka þessa sjúklega góðu ídýfu hjá ykkur! 🙂

IMG_5378

 Uppskrift:

Fyrir meðalstórt eldfast mót

  • 200 g rjómaostur
  • 1-2 dósir (fer eftir stærð mótsins) maukaðar pintóbaunir (refried beans) frá t.d. Old el paso eða Santa Maria
  • 1 krukka jalapeno (ca. 100 g án vökva), minna fyrir mildari ídýfu, saxað smátt
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1/2 bréf af taco kryddblöndu
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn smátt
  • ca 300 g rifinn ostur
  • 2 krukkur (fer eftir stærð mótsins) taco sósa
  • ca 200 g (án vökva) svartar olífur , skornar í sneiðar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, blöðin söxuð

Rjómaosti er smurt á botn eldfasta mótsins. Þá er niðursoðnu bauninum dreift jafnt yfir rjómaostinn. Jalapeno er saxað smátt og dreift yfir baunirnar. Þá er sýrðum rjóma blandað saman við hálft bréf af taco kryddi og blöndunni dreift yfir jalapenos. Því næst er smátt söxuðum rauðlauk dreift yfir sýrða rjómablönduna. Síðan er rifna ostinum dreift yfir rauðlaukinn. Þá er rifni osturinn þakinn með taco sósu. Því næst er söxuðum svörtum ólífum dreift yfir taco sósuna og loks er söxuðum kóríander blöðum dreift yfir ólífurnar.

Borið fram í t.d. Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) eða með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

IMG_5393IMG_5391

 

Rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum & basilku og ný espresso vél


IMG_5538IMG_5129

*færsla í samstarfi við Heimilistæki*

Þar til fyrir stuttu drakk ég ekki kaffi og hafði satt best að segja óbeit á öllu sem var með mokka- eða kaffibragði. Þetta breyttist allt fyrir tveimur árum. Þá vorum við stödd í Toskana á Ítalíu í dásamlega fallegu umhverfi og umvafin góðum hráefnum úr héraðinu; parmaskinku, melónu, baguette brauði, ljúfu víni og auðvitað … espresso kaffi. Mér fannst ég þá knúin til að prófa mig meira áfram með kaffi, verandi í þessu landi kaffiunnenda. Elfar minn er mikill espresso maður og þegar við ferðumst saman þá er til dæmis alltaf hluti af ferðinni tileinkuð því að finna besta espresso bolla viðkomandi lands. Í Toskana dvöldum við í frábæru húsi (sjá hér) og þar var auðvitað espresso kaffivél að ítölskum sið. Ég bað Elfar á hverjum morgni að útbúa fyrir mig espresso kaffibolla. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist þeir sérstaklega góðir en ég drakk samt einn bolla á hverjum morgni í garði  fallega hússins sem við dvöldumst og naut ótrúlegs útsýnis yfir Toskana héraðið með espresso bolla í hönd. Í lok dvalarinnar fórum við til Rómar þar sem ég pantaði mér cappuccino á kaffihúsi. Þá gerðist eitthvað, allt í einu fannst mér bollinn ákaflega ljúffengur. Upp frá því hef ég drukkið einn bolla af cappuccino á hverjum morgni og nýt þess til hins ýtrasta! Fyrst fannst mér dálítið skrítið að drekka heitan drykk daglega, ég var ekki vön því. Mér leið eins og ég þyrfti alltaf að fá mér ristað brauð með bollanum, því það var svo mikil kakó tilfinning yfir svona heitum drykk. Núna drekk ég kaffibollann minn yfirleitt stakan en stundum fæ ég mér ristaða beyglu með honum en beyglur eru í miklu eftirlæti hjá mér.

Síðastliðin ár höfum við átt fallega, bláa espresso vél sem hefur þjónað okkur rosalega vel því bæði elstu börnin eru kaffifólk eins og pabbi sinn og vélin því mjög mikið notuð. Nú þegar ég bættist í kaffidrykkjuhópinn þá fannst mér hins vegar vera kominn tími til að uppfæra vélina, aðallega vegna þess að gamla vélin flóaði ekki mjólkina nógu vel en það er grundvallaratriði fyrir cappuccino bollann minn! Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá vinn ég heimavinnuna mína vel þegar á að kaupa tæki til heimilisins. Ég er mikill grúskari og kaupi engin tæki nema vera búin að vega og meta kosti og galla allra mögulegra tækja sem koma til greina! Eftir mikið Internet grúsk þá varð þessi vél fyrir valinu, Sage by Heston Blume the barista express sem fæst í Heimilistækjum.

IMG_5565

Ekki er þetta bara frábær vél heldur er hún líka falleg. Þetta er eina vélin sem ég hef uppi við í eldhúsinu, hin tækin eru í tækjaskáp, og það kom því ekki til greina að kaupa einhverja ljóta vél! 😉  Mér finnst eitthvað svo fallegt retró útlit á henni. Jú og svo fékk nú kaffikallinn minn að segja eitthvað til um þetta líka. Hann veit meira en ég um þrýstinginn, mölunina og slíkt sem svona vélar eru með og þessi vél slapp líka í gegnum hans nálarauga.

IMG_5543

Við vorum satt best að segja áköf eins og lítil börn þegar vélin kom í hús!

IMG_5515

Elfar var svo spenntur að prófa kaffiið til, stilla mölunina og slíkt að hann drakka fjóra espresso bolla í röð og varð frekar ofvikur fyrir vikið þann daginn! 🙂

IMG_5551IMG_5547IMG_5548IMG_5573

Ég var auðvitað spenntust fyrir capuccino bollanum mínum. Þegar mjólk er flóuð fyrir cappuccino þá er langbest að nota G-mjólk. Munurinn á Cappuccino og Café latte er að í latte er mjólkin flóuð, engar loftbólur eiga að vera í drykknum og hlutfallið milli kaffisins og mjólkur er 1:4. En í Cappuccino er mjólkin freydd og hlutfallið er 1/3 kaffi, 1/3 heit mjólk og 1/3 mjólkurfroða. Þegar mjólkin er flóuð þarf að nota stálkönnu sem er fyllt einum þriðja og mikilvæg er að mjólkin sé köld, sumir kæla líka könnuna sjálfa. Gott er að halla könnunni til að fá sem mest yfirborð. Þegar mjólkin er flóuð fyrir latte þarf að gæta þess að ná góðri hringrás í mjólkina, án þess að hún myndi stórar loftbólur. Ekki má flóa mjólkina of lengi, hún á ekki að vera heitari en 65-75 gráður og hægt er að nota hitamæli til að vera nákvæmur.

IMG_5579IMG_5580IMG_5553IMG_5562IMG_5542

Dásamlega gott og þvílíkur lúxus að fá kaffihúsa-cappucino heima hjá sér .. eða eiginlega bolla sem er betri en á kaffihúsum!  Mér finnst svo gott að fá mér ristaða beyglu með kaffinu og um daginn bjó ég til eiginlega hættulega góða rjómaostahræru sem passar svo ákaflega vel ofan á ristaða beyglu, þið verðið bara að prófa!

IMG_5139

Uppskrift:

  • 200 g rjómaostur
  • ca. 6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt.
  • fersk basiliku blöð (gott að nota ca. helming af 30 g pakka)
  • ferskmalaður svartur pipar
  • salt

Sólþurrkuð tómatarnir saxaðir smátt og basilika er söxuð smátt. Þessu er hrært vel saman við rjómaostinn og smakkað til með salti og pipar. Borið fram t.d. með ristuðum beyglum .. og góðum cappuccino bolla! 😉

IMG_5170

Kladdkaka með kókoskaramellu


 

IMG_5317

Við stórfjölskyldan, sem er reyndar ekkert svo ofsalega stór, höfum þá hefð að hittast í sunnudagskaffi hvern einasta sunnudag. Oftast er kaffiboðið heima hjá foreldrum mínum og þangað mæta amma og afi, bræður mínir og fjölskyldur þeirra ásamt mér og mínum. Þetta er þó engin kvöð, þeir mæta bara sem geta, yfirleitt mæta þó flestir. Þetta finnst mér góð hefð því oft er það þannig að fjölskyldur eru alltaf á leiðinni að hittast en ekkert verður úr því allir eru svo uppteknir og tíminn þýtur síðan áfram án samverustunda. Stundum breytum við til og borðum saman kvöldmat á sunnudögum, þá sé ég um matargerðina. Mamma ber hins vegar hitann og þungann af kaffiboðunum þó svo að við hin komum stundum með eitthvað smávægilegt á kaffiborðið. Um daginn gerði ég þessa ljúffengu köku fyrir sunnudagskaffið sem sló í gegn og mamma meira að segja óskaði eftir því að ég bakaði hana aftur fyrir afmælið sitt skömmu seinna. Þessi kaka er algjört sælgæti, ég mæli með að þið prófið! 🙂

IMG_5320

Uppskrift:

  • 180 g mjúkt smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 ½ dl bökunarkakó
  • ½ dl ljós síróp
  • 3 egg
  • 1 ½ dl hveiti

Ofn hitaður í 175 gráður við undir/yfirhita. Smjör og sykur hrært þar til létt og ljós. Þá er kakói og sírópi bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að lokum er hveitinu hrært saman við. Form (ca. 25cm x 35cm) er klætt bökunarpappír og deiginu hellt í formið og dreift úr því jafnt. Þá er kakan bökuð við 175 gráður í um það bil 30 mínútur, kakan á að vera dálítið klesst. Kakan er látin kólna á meðan kókoskaramellan er útbúin.

kókoskaramella:

  • 75 g smjör
  • 1 ½ dl ljóst síróp
  • ¾ dl rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 dl sykur
  • 200 g gróft kókosmjöl

Smjörið er brætt í potti ásamt sírópi, rjóma og sykri og látið malla í um það bil 5 mínútur. Þá er kókosmjöli bætt út í og blandan látin ná suðu. Þá er blöndunni hellt yfir kökuna (þegar hún hefur kólnað vel) og bakað áfram í 10 mínútur við 175 gráður.

IMG_5322IMG_5305

Skyr parfait og útskriftarveisla


IMG_5350IMG_5365

Í júnímánuði héldum við útskriftarveislu fyrir Óskina okkar sem var að útskrifast úr lögfræði með frábærum árangri. Við héldum veislu fyrir ættingja og vini kl. 17 en síðar um kvöldið var Ósk með partý fyrir vini sína.

19727265_10154738954713017_153126284_o

Ég bjó til hina ýmsa smárétti og keypti nokkra tilbúna. Mér finnst stóru rækjurnar úr Costco reglulega góðar (sjá umfjöllun hér) og bauð upp á þær með nokkrum tegundum af sósum, sojasósu, chili-majósósu og súrsætri sósu. Ég bjó líka til kjúklingaspjót og notaði þessa uppskrift. Þar sem nokkuð margir gestanna borða ekki kjöt keypti ég litlar grænmetis-vorrúllur úr Costco sem ég bar fram með súrsætri sósu ásamt Falafel bollum sem ég bar fram með tzasiki sósu. Einnig var ég með kotasælusalsað, sem við fáum bara ekki nóg af, og ég bý til hér um bil fyrir allar veislur. Það falla allir fyrir þessu einfalda, holla og bragðgóða salsa. Mér finnst ómissandi að bera það fram í Tostitos skálunum (fást oftast í Hagkaup). Anna vinkona bjó líka til rosalega góða mexíkóska ídýfu sem allir voru vitlausir í og ég held að hér um bil allir gestir hafi beðið um uppskriftina, ég mun setja hana hingað inn mjög fljótlega. Ég hægeldaði jafnframt nautalund, skar hana mjög þunnt, lagði hana á disk með smá klettasalati og gestir gátu svo dýft kjötsneiðunum í bernaisesósu. Það var mjög vinsælt og auðveldur réttur að útbúa á svona hlaðborð. Ég gerði einnig bruchetturnar góðu sem ég er með uppskrift að hér. Ég var svo heppin að stóri góði Brie osturinn var til í Costco og hann rataði því líka á veisluborðið ásamt kexi, sultu og berjum.

IMG_5355

IMG_5382

IMG_5387

Við buðum upp á rauðvín og hvítvín. Fyrir svona veislur finnst mér mjög sniðugt að bjóða upp á vínið í kössum. Gæði kassavína eru orðin ákaflega góð og þau eru einkar handhæg í stórum veislum. Það fer dálítið eftir eðli veislna hversu miklu víni þarf að reikna með, en í hverjum kassa eru um það bil 24 glös (fer dálítið eftir stærð glasanna). Við buðum líka upp á bjór og mér finnst skemmtilegt og einhvern veginn aðeins meira „fancy“ að bjóða upp á bjórinn í flöskum. Í fyrra þegar Alexander útskrifaðist úr læknisfræði fékk hann klaka úr fiskvinnslu til þess að fylla heita pottinn með og bauð þannig upp á ískaldan bjór alla veisluna.

IMG_3647_4

Að þessu sinni notuðum við bala með klökum og þannig helst bjórinn kaldur alla veisluna. Það er gott ráð að binda upptakarann í spotta við balann svo hann fari ekki á flakk. Eins er sniðugt að hafa smá þurrku við balann til þess að geta strokið mögulega bleytu af  bjórnum. Ég keypti þennan skemmtilega vatnsdunk úr gleri í Costco. Það er gaman og ferskt að setja í hann ískalt vatn, klaka og límónur. Ég tók eftir því að það fór mun minna af gosi fyrir vikið.

IMG_5345IMG_5348

Auður tengdadóttir okkar útskrifaðist með stæl úr sálfræði í júní og þá útbjó hún svona skyr parfait eftirrétti fyrir sína veislu sem ég var svo hrifin af. Ég ákvað því að búa líka til þannig eftirrétt fyrir Óskar veislu. Á eftirrétta borðinu var ég jafnframt með rosalega flottan bakka með kranskakökum sem faðir Auðar útbjó en hann er bakari. Að auki var ég með makkarónukökur og ísfylltar vatnsdeigsbollur.

IMG_5374IMG_5367

Skyr parfait (þó svo að þetta sé ekki beint ”parfait“ samkvæmt tæknilegum skilgreiningum) er mjög skemmtilegur réttur að bjóða fram á smáréttaborði en það er vissulega líka hægt að setja hann í stórt form og bera hann fram þannig við önnur tækifæri. Ekki skemmir fyrir að þetta er réttur sem er besta að búa til daginn áður en hann er borinn fram. Ég skreytti glösin með bláberjum annars vegar og ástaraldin hins vegar, en það er hægt að nota ýmiss önnur ber. Uppskriftin hér að neðan dugar í meðalstórt eldfast mót eða um það bil 50 lítil einnota staupglös (5 cl). Skeiðarnar eru úr Söstrene grene.

IMG_5352

Uppskrift:

  • 1 stór dós vanilluskyr (500 ml)
  • 1/2 l rjómi
  • 1 vanillustöng
  • 260 g Lu kanilkex
  • 200 g frosin hindber
  • 1 msk sykur
  • Bláber (eða önnur ber) og/eða ástaraldin til skreytinga
  • 50 stk 5 cl einnota staup og skeiðar

Vanillustöngin er klofin og vanillufræin skafin úr. Rjóminn er þeyttur og þegar hann er hér um bil fullþeyttur er skyrinu, ásamt vanillufræjunum, bætt út og þeytt í smá stund til viðbótar eða þar til skyrið hefur blandast vel við rjómann. Lu kexið er mulið fínt í matvinnsluvél. Hindberin látin þiðna og síðan hituð potti, sykri blandað vel saman við. Blandan látin kólna. Því næst er skyrblöndunni komið fyrir í sprautupoka. Dálítil kexmylsna er sett með teskeið í botninn á hverju glasi. Því næst er skyrblöndu sprautað í glasið, um það bil til hálfs. Næst er sett dálitið hindberjamauk ofan í glasið, þá kexmylsna, aftur skyrblanda og loks er skreytt með smá kexmylsnu og bláberi eða ástaraldin. Best er að geyma glösin í kæli yfir nóttu og bera fram daginn eftir.

IMG_5323IMG_5326IMG_5328IMG_5332

 

Fljótlegt brauð með rósmarín og flögusalti


IMG_4971

*Unnið í samstarfi við Urtu*

Eitt af því besta sem ég veit er nýbakað brauð. Þó svo að heimabökuð brauð séu fljótleg að búa til þá tekur alltaf dálítinn tíma að láta gerdeig hefa sig. Mér finnst því alltaf gott að geta gripið til einhvers sem er fljótlegt en þó jafngott og nýbakað brauð. Þessi uppskrift lætur kannski lítið yfir sér við lestur en maður verður bara að prófa til að fatta hversu ljúffengt þetta brauð er! 😉 Ótrúlega einfalt en sjúklega gott. Frábær leið til að bjóða upp á heitt, stökkt og djúsí brauð með matnum á mettíma! Ég nota hér þara hvítlaukssaltið frá Urtu og það fæst Hagkaup, Kringlunni.

IMG_4961

Uppskrift

  • 400 g tilbúið pítsadeig
  • 3-4 msk ólífuolía
  • ca. 1 msk fersk rósmarín, saxað
  • Þara hvítlaukssalt eða annað gott flögusalt

IMG_4946

 Pítsadeiginu er rúllað út og skorið í ferninga. Olía hituð á pönnu og þegar hún er orðin mjög vel heit eru fjórar sneiðar af deiginu settar á pönnuna og þær steiktar á fremur háum hita, um það bil 1 mínútu á hvorri hlið eða þar til þær verða gullinbrúnar. Gott er að þrýsta deiginu dálítið niður á pönnuna með spaða. Um leið og brauðið er tekið af pönnunni er rósamaríni og þara hvítlaukssalti dreift yfir brauðið. Meiri olíu er bætt á pönnuna við þörfum og restin af brauðinu steikt á saman hátt. Mikilvægt er að hita olíuna mjög vel áður en brauðið er steikt. Borið fram heitt.

IMG_4959IMG_4968IMG_4954

Costco kjúklingasalat

Tilvitnun


Ekki láta hráefnin í þessari uppskrift fæla ykkur frá! Við erum ekki vön kjúkling úr dós, margir eru lítið hrifnir af selleríi og þurrkuð trönuber eru ný fyrir okkur. Hins vegar verður þessi blanda geggjuð, ég lofa! Costco úttektin mín heldur sem sagt áfram og að þessu sinni með hjálp vinkonu sem býr í Bandaríkjunum og þekkir vörurnar í Costco vel en öll þessi hráefni fást í Costco – þetta er þó ekki kostuð færsla! 🙂

Það var nú dálítið skondið hvernig vinkonu minni áskotnaðist uppskriftin að þessu gómsæta kjúklingasalati. Það er selt i veitingasölunni í líkamsræktarstöðinni sem hún sækir (eigum við ekki að slá því föstu að þetta hljóti því að vera voðalega hollt salat?! 😉 ). Svo þegar bensínkostnaðu hennar, vegna akstur á líkamsræktarstöðina, var orðinn of hár miðað við þyngdartap (en í ágætu sambandi við þyngdaraukinguna!) þá sá hún sig tilneydda til að verða sér út um þessa uppskrift. Sá vandi var hins vegar fyrir höndum að þetta var vinsælasta uppskrift staðarins og háleynileg. Vinkona mín gerði sér lítið fyrir og vingaðist við konuna sem starfaði við þrif á staðnum, þær pukruðust úti í horni með viðskiptin og uppskriftin rataði þannig til vinkonu minnar .. og nú ykkar! 🙂
Ég var dálítið efins þegar ég prófaði þessa uppskrift í fyrsta sinn og ákvað að nota vinnufélaga Elfars sem tilraunadýr. Hann fór með salatið á morgunverðarborðið í vinnunni og mér skilst að salatið hafi slegið rækilega í gegn og margir viljað uppskrift. Ég var líka með þetta salat í afmælisveislu pabba í gær og þar var sama sagan, ykkur ætti því að vera algjörlega óhætt að prófa! 🙂


Þetta er hrikalega gott salat og skemmtileg tibreyting frá túnfisk- og rækjusalatinu. Mér fannst dálítið skrítið fyrst að vera nota kjúkling úr dós en áferðin minnir mikið á túnfisk í dós. Þurrkuðu trönuberin gefa skemmtilega sætt bragð og það er líka gott að nota þau út í allskyns annarskonar salöt.

Það er gott að smakka sig dálítið áfram með magn hráefnis í uppskriftina en hér eru hlutföllin sem ég nota.

Uppskrift:

  • 250 ml majónes (ég notaði Hellmans)
  • 25-30 g sykur
  • 1 msk edik (helst eplaedik en annarskonar ljóst edik er í lagi)
  • salt og pipar
  • 1 dós kjúklingur – 345 g (rifinn niður fínt)
  • 1-2 sellerístangir, saxaðar mjög fínt
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður mjög fínt
  • ca. 60 g þurrkuð trönuber (Craisins – dried cranberries)
  • 50 g valhnetur, saxaðar (má sleppa)

Majónes, sykur og edik hrært saman og kryddað með salti og pipar.
Kjúklingur er rifinn niður smátt (gott að vera í einnota hönskum og gera það í höndunum) og smátt söxuðu sellerí, smátt söxuðum rauðlauk og þurrkuðum trönuberjum ásamt valhnetum (ég hef sleppt þeim) er blandað saman út í majónesið. Borið fram með kexi, hrökkbrauði eða góðu brauði.

Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti


IMG_5280

Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂

IMG_5271

Uppskrift f. 5:

  • 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
  • 700 g Biffi Napoletana sósa
  • 750 g ferskur aspas
  • 80 g smjör
  • 50 g ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
  • Sítrónusafi
  • Parmesan ostur
  • Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)

Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.

IMG_5273

Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.

IMG_5281

Tillögur að páskamáltíðum


páskaNúna er páskarnir að ganga í garð. Ég held mikið upp á páskana, yndislega birtan komin aftur, vor í loftinu og gott, kvaðalaust frí. Það eina sem maður þarf að gera er að borða góðan mat og mikið súkkulaði, dásemdin ein! 🙂

Hér eru tillögur að góðum aðalréttum fyrir páskana. Svo vill til að þetta er hér um bil allt hægeldað kjöt. Það er nú ekki nein tilviljun því þannig verður kjötið svo afskapalega meyrt og gott. Eins höfum við nægan tíma um páskana til að leyfa matnum að malla hægt. Hér er svo hægt að finna uppskriftir að kartöflum á 10 vegu. Svo er ekki úr vegi að skrolla niður þennan lista og finna þar einhverja góða eftirrétti til að njóta um páskana! Gleðilega páska!

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli.

IMG_0954

Hægeldað lambalæri

IMG_7414

Hægelduð nautalund

img_7387

Kalkúnn

IMG_0796

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa

þorskur

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu

ofnbakaðar1

Kartöflur á 10 vegu


Um daginn ákváðum við nokkrir matarbloggarar að hittast og fara út að borða saman. Auk mín var það Albert hjá Albert eldar, Berglind hjá Gulur, rauður, grænn og salt, Ragnar Freyr hjá Læknirinn í eldhúsinu, Svava hjá Ljúfmeti, Thelma hjá Freistingar Thelmu og Eva Laufey hjá EvaLaufeyKjaran. Þið getið rétt ímyndað ykkur valkvíðann þegar sjö matarbloggarar ætla að ákveða veitingastað, matur skiptir okkur nefnilega frekar miklu máli! 🙂 Fljótlega kom MAT BAR upp í umræðunni, nýr veitingastaður sem hefur bæst við nýkomnu veitingahúsaflóruna á Hverfisgötu. Albert hafði farið þangað áður, en hann er duglegur að taka út veitingahús bæjarins. Þegar hann sagði okkur að þessi veitingastaður hefði strax farið upp í topp þrjú sætin í hans bókum þá gátum við ekki beðið eftir að prófa! Það er skemmst frá því að segja að við áttum frábæra kvöldstund saman. Það er æðisleg stemmning á Matbar, staðurinn sérstaklega vel heppnaður í hönnun en það allra mikilvægasta, maturinn stórkostlegur! Hér er hægt að lesa nánari úttekt hjá Alberti um þennan frábæra stað. Það er svo skemmtilegt hvernig Hverfisgatan er að verða ein mest spennandi og besta veitingahúsagata borgarinnar, ekki hefði mann grunað það fyrir nokkrum árum! 🙂 Næst á dagskrá hjá hópnum er að hittast seinna í vor í eldhúsi læknisins, honum Ragnari Frey, og elda saman. Það verður eitthvað! 🙂

Desktop

Recently Updated

Frábær matur í yndislegum félagsskap!

Hér að neðan hef ég tekið saman 10 góðar kartöfluuppskriftir. Ég elska kartöflur og finnst alltaf gaman að breyta til í matreiðslunni á þeim. Manni hættir oft til að festast í sama meðlætinu og matreiða það á sama hátt. Hér eru tíu tillögur að gómsætum kartöflum sem gætu  sæmt sér vel með hátíðarmatnum um páskana sem færast óðfluga nær! 🙂

Krumpaðar kartöflur

krumpaðar 

 Uppskrift:

  • 60 gr. smjör
  • 1 kg kartöflur
  • maldon salt
  • nýmalaður svartur pipar.

Þvoið kartöflurnar vel með hýðinu á. Hitið smjörið í potti. Látið kartöflurnar út í og steikið í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa hitann ekki of háan. Kryddið með salti og pipar. Lækkið hitann og látið steikjast áfram í um það bil 40 mín undir loki (fer eftir stærð og fjölda), hristið pottinn vel öðru hverju.

Kartöflur í kryddi

 kryddaðar

 Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 búnt basilika
  • 1 búnt steinselja
  • 1 tsk. salt
  • 2 msk ólífuolía

Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 20 mín og sigtið síðan. Setjið hnetur, krydd og olíu í matvinnsluvél og maukið. Blandið svo saman heitar kartöflurnar. Einnig má blanda saman við brytjaðar kartöflur og baka í ofni í 45 mín.

  

Parmesanristaðar kartöflur

 parmesan

 Uppskrift:

  • 700 g kartöflur
  • 3 msk ólífuolía
  • 60 g ferskur parmesan, rifinn fínt
  • ca 1 1/2 tsk maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 1 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar þvegnar vel og skornar í bita á þennan hátt (mér finnst best að hafa hýðið með). Parmesan osti og kryddi blandað saman. Kartöflunum er velt upp úr olíunni og svo blandað vel saman við parmesanblönduna. Kartöflunum er síðan raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír, dreift vel úr þeim. Bakað í ofni í 30-40 mínútur, mikilvægt er að snúa við kartöflunum 2-3svar á meðan þær eru í ofninum. 

Hasselback kartöflur

hasselback

 Uppskrift:

  • 8 stórar kartöflur
  • 50 gr. smjör + 25 gr. bætt við þegar kartöflurnar eru í ofninum
  • 2 msk. ólífuolía
  • Maldon salt.

Hitið bakarofn í 220 gráður. Kartöflur þvegnar eða skrældar (ég mæli með að hafa hýðið á, mikið betra!) Raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili. Skera skal djúpt niður en þó ekki þannig að kartaflan detti í sundur. Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið Maldon salti yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur, fer eftir stærð kartaflanna, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar bökunartímin er rúmlega hálfnaður hafa kartöflurnar opnað sig aðeins og þá er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Chili kartöflur með papriku

 papriku

 Uppskrift:

  • 2 rauðar paprikur sneiddar gróft
  • 600 gr. kartöflur
  • 2 hvítlauksgeirar, hakkaðir fínt
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1 tsk. Sambal Oelek (chilimauk)
  • 1 tsk. paprikuduft
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Bakarofn hitaður í 220 gráður. Kartöflur skrældar eða þvegnar og því næst skornar í helminga (eða báta ef þær eru mjög stórar) og lagðar í eldfast mót með paprikunni. Sambal oelek, ólífuolíu og hvítlauk hrært saman og dreift yfir. Kryddað með salti og pipar og smá skvettu af ólífuolíu helt helt yfir. Hitað í ofni í ca. 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru tilbúnar.

 

Brúnaðar kartöflur

 brúnaðar

Uppskrift:

  • 35 gr smjör
  • 100 gr sykur
  • 0,25 dl rjómi
  • 1 kíló kartöflur

Kartöflur soðnar og afhýddar. Smjör og sykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað og dökknað þá er kartöflunum bætt út í. Rjómanum bætt við og kartöflunum vellt upp úr bráðinni á fremur háum hita þar til þær eru allar sykurhúðaðar jafnt. 

 

Kartöflugratín f. 8-10

gratíngratíngratín1

 Uppskrift:

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (gott að hafa hýðið á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

 

Kartöflustappa með beikoni

stappa

Uppskrift:

  • 1 kg kartöflur
  • 200 g beikon
  • 3 dl matreiðslurjómi eða nýmjólk
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Kartöflurnar eru soðnar, flysjaðar, settar í pott og stappaðar vel. Beikonið er skorið í litla bita og steikt þar til það er stökkt.  Við vægan hita er smjöri, rjóma (eða mjólk) hrært saman við stöppuna ásamt 200 g af steiktum beikonbitum. Kryddað með salti og pipar.

 

Ofnbakaðar kryddjurtakartöflur

ofnbakaðarofnbakaðar1 

Uppskrift:

  • 1 kíló meðalstórar kartöflur (af svipaðri stærð)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk smjör
  • 15 g fersk basilika
  • 15 g fersk flatblaða steinselja
  • maldon salt og nýmalaður pipar

Ofn hitaður í 220 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflurnar eru þvegnar, þerraðar og skornar í tvennt. Þá er þeim velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Ofnplata smurð með smjöri og kartöflunum raðað á plötuna með skornu hliðina niður. Því næst eru þær hitaðar í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og hafa tekið góðan lit. Á meðan er basilika og steinselja söxuð smátt og sett í skál ásamt 1 matskeið af smjöri. Þegar kartöflurnar koma úr ofninum eru þær strax settar í skálina og blandað vel saman við smjörið og kryddjurtirnar. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.

  

Steiktar kartöfluskífur:

skífur 

Uppskrift:

  • kartöflur
  • smjör og ólífuolía
  • salt & pipar
  • annað krydd (t.d. rósmarín, timjan)

Kartöflurnar þvegnar vel (ekki afhýddar) og skornar í fremur þykkar skífur. Skífurnar eru forsoðnar í nokkrar mínútur og vatnið látið renna vel af skífunum. Smjörið og ólífuolían hituð á pönnu og kartöflurnar steiktar upp úr kryddinu og olíunni við meðalhita og þeim snúið oft þar til allar skífurnar eru steiktar í gegn.

Brownies með söltu karamellukremi og lakkrís


IMG_4899

Ég hef undanfarið verið að vinna nokkrar uppskriftir fyrir lítið fjölskyldufyrirtæki sem heitir Urta. Þau eru staðsett í fallegu og sjarmerandi húsi í hjarta Hafnarfjarðar, Gömlu matarbúðinni, þar sem þau eru að búa til skemmtileg sölt, te, jurtasýróp og kryddsultur úr íslenskum jurtum. Vörurnar þeirra fást í Gömlu matarbúðinni og  í Hagkaup í Kringlunni.

IMG_4913

Ég má til með að setja hér í safnið mitt uppskriftina af svo himneskum brownies sem ég gerði með ”fugde” seigu karamellukremi, gerðu úr Marabou súkkulaði með saltlakkrís. Ofan á kremið er svo stráð skemmtilega svörtu lava salti sem vegur ákkurat passlega vel upp á móti sæta súkkulaðinu. Þetta eru algjörlega ómótstæðilegar brownies sem fjölskyldan gat ekki hætt að borða, þær eru  hættulega góðar! 🙂

IMG_4922

Uppskriftin er fyrir fremur stórt form en það er hægt að hafa hana helmingi minni og nota þá minna form, jafnvel hringform.

Uppskrift

  • 250 g smjör
  • 
4.5 dl sykur
  • 
2 dl kakó
  • 
4 tsk vanillusykur
  • 
4 egg
  • 
3 dl hveiti

saltað “fudge” karamellukrem með lakkrís

  • 1 ½ dl rjómi
  • 200 g Marabou súkkulaði með saltlakkrís (eða suðusúkkulaði)
  • ½ tsk smjör
  • Svart lava flögusalt (frá Urtu)

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Sykri, kakó, vanillusykri og eggjum bætt út í pottinn og hrært með písk. Loks er hveiti bætt út og hrært þar til deigið er orðið slétt. Ferkantað kökunarform sem er um það bil 35 x 25 cm er smurt að innan (gott að klæða formið með bökunarpappír) og deiginu hellt í formið. Bakað við 175 gráður í um það bil 20-25 mínútur (kakan á að vera dálítið blaut þegar hún er tekin út), kakan er látin kólna í forminu.

Kremið: Rjóminn er settur í pott og látinn ná suðu, þá er slökkt undir pottinum. Súkkulaðinu og smjörinu er bætt út í pottinn og látið bráðna, hrært í pottinum á meðan. Þá er kreminu hellt í skál og kælt í ísskáp þar til kremið er passlega þykkt (tekur um það bil 1-2 klukkustundir). Kreminu er dreift yfir kökuna og hún sett í kæli ef að kremið þarf að stífna meira. Áður en kakan er borin fram er saltflögunum stráð yfir hana. Þessi kaka er helst góð nokkra daga.

IMG_4896IMG_4921IMG_4930