Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu


Við erum nýkomin úr bústaðarferð og þar var ansi mikið gott sett á grillið eins og sést á uppskriftunum undanfarna daga! 🙂 Eitt kvöldið grilluðum við lambafille (úr versluninni Til sjávar og sveita). Ég kryddaði það bara vel með nýmöldum pipar og prófaði að salta það eftir grillun á meðan það jafnaði sig með reyktu maldon salti en það kom vel út.

 Fyrr um daginn höfðum við heimsótt garðyrkjustöðina Engi á Laugarási. Þar var býsna margt girnilegt og eftir að hafa prófað völundarhúsið og skoðað gróðurhúsin heldum við aftur í bústaðinn með tvo fulla poka af grænmeti og kryddjurtum. Við komum svo aftur við þar á leiðinni heim úr bústaðnum nokkrum dögum seinna og keyptum fleiri kryddjurtir!

 Í grænmetisgrindina þetta kvöldið lenti því margt gott grænmeti. Það var kúrbítur, sveppir, paprika, brokkolí og svo glænýtt chili frá Engi! Það þarf að fræhreinsa það vel og gæta þess að það sé vel grillað svo það verði ekki of sterkt. Grænmetisgrindin sem ég nota er frá Weber, frábær til að grilla grænmeti í og mikið notuð á heimilinu. Satt best að segja þá flytum við hálft eldhúsið með okkur þegar við förum í bústað! Það eru teknir með grillaukahlutir, espressovélin, blenderinn, soda stream til að búa til sódavatn og svo hálfur búrskápurinn svo hægt sé að elda og baka! 🙂

 Auk grillaðs grænmetis bjó ég til ferskt salat úr blönduðu salati, klettasalati og spínati ásamt kokteiltómötum, hunangsmelónu og fetaosti. Einnig gerði ég Hasselback kartöflur sem eru mjög vinsælar á heimilinu! Uppskrift af þeim er ég með hér.

Með kjötinu bjó ég til sveppasósu. Það er líka gott að nota heimatilbúna bearnaise sósu og uppskrift af henni er ég með hér.

Sveppasósa

  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • smjör
  • nokkrir sveppir
  • 2 tsk. nautakraftur
  • 1/2 piparostur
  • 3 msk. rjómaostur
  • 4 dl. rjómi (eða matreiðslurjómi)
  • 2 tsk. rifsberjahlaup
  • 2 tsk. soyjasósa
  • sósujafnari
  • salt og pipar

Laukur og hvítlaukur saxað smátt, sveppir sneiddir og allt steikt í potti upp úr smjöri. Nautakrafti bætt við. Hiti lækkaður aðeins og piparosti og rjómaosti bætt út og látið bráðna. Rjóma bætt út í ásamt rifsberjahlaupi og soyjasósu og suðan látin koma upp. Sósujafnara bætt út og sósan látin malla á vægum hita þar til að hún þykknar (sósulit bætt út í til að fá dekkri lit). Sósan smökkuð til með kryddi, rifsberjahlaupi, sojasósu og/eða nautakrafti.

Grillaðar Harissa kjúklingabringur með kúskúsi, salati með bökuðum kokteiltómötum og myntujógúrtsósu


Harissa er afar ljúffengt kryddmauk upprunnið frá Norður Afríku. Það er búið til meðal annars úr chili, hvítlauk, cumin fræjum, kúmen fræjum, fennel fræjum, kóríander fræjum, grilluðum paprikum og ólífuolíu. Það kunn vera best heimatilbúið en ég á eftir að prófa það. Harissa er hægt að nota á margskonar hátt. Til dæmis út í súpur, sem kryddmauk á kjöt, í sósur, í pottrétti eða út í kúskús. Ég hef fengið Harissa maukið í Hagkaup og Nettó en það fæst örugglega víðar. Hér bjó ég til dásamlega góðan grillsósu fyrir kjúkling úr maukinu, mæli með þessu! 🙂

Grillaðar Harissa kjúklingabringur

  • 6 kjúklingabringur
  • 2/3 krukka Harissa
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 hvitlauksrif, hökkuð smátt
  • 1 msk. ólífuolía

Blandið saman hráefnunum og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið þeim vel upp úr sósunni og geymið í kæli. Því lengur því betra en yfirleitt liggur manni á (allavega mér!) þannig að 10-15 mínútur duga alveg! 🙂 Grillið svo á útigrilli þar til bringurnar eru tilbúnar. Einnig hægt að setja bringurnar inn í ofn í eldföstu móti því þá nýtist sósan enn betur þar sem að sósan verður eftir á botni mótsins. Hitið þá við 200 gráður í 30-35 mínútur eða þar til bringurnar eru tilbúnar.

Kúskús

Ég kaupi oft hreint kúskús, það er án krydds. Ég elda þá kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakkanum en í stað þess að bæta við smjöri í lok eldunartímans eins og sagt er til um þá nota ég kryddolíu af fetaosti, helli vænni bunu af henni út i kúskúsið og hræri. Þannig fær kúskúsið bæði olíu og krydd.

Salat með bökuðum kokteiltómötum

  • 1 askja kokteiltómatar
  • 2 msk. Harissa
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 msk. balsamedik
  • maldon salt og pipar

Hitið bakarofn í 80 gráður. Setjið tómatana í lítið eldfast mót. Blandið Harissa, ólífuolíu, balsamedik saman, hellið yfir tómatana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Kryddið með salti og pipar. Setjið í ofn í 35-40 mínútur.

Blandið heitum tómötunum saman við blandað salat, klettasalat og fetaost.

Harissa er frekar bragðsterkt en samt ekki of, börnin eru til dæmis mjög hrifin af þessum rétti. En það er afar gott og eiginlega nauðsynlegt að bera fram með réttinum milda og frískandi myntujógúrtsósu en uppskrift af henni er að finna hér (gleymdist að setja sósuna á diskinn í myndartökunni!). Með þessu bar ég einnig fram grillaða sveppi á teini. Mæli alveg með þessum rétti! 🙂

Grillaður lax með sætum kartöflum og tzatziki-engifer sósu


Lax er vinsæll hjá næstum því öllum í fjölskyldunni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er þó ekki hrifin! Henni finnst almennt fiskur ekki góður og hefur meira að segja reynt að fá móður sína til að boða til fundar með kennurum sínum til þess að segja þeim að hún eigi barasta alls ekki borða fisk í skólanum! 🙂 En varðandi laxinn, oftast ofnbaka ég laxinn eða grilla á útigrili á álbakka. Það eru til allskonar góðar mareneringar og sósur til að elda laxinn í en mér finnst hann eiginlega bestur ,,hreinn”, það er bara með kryddi.

Grillaður lax

Laxaflak lagt á álbakka, kryddað með sítrónupipar, nýmöluðum pipar og maldon salti ásamt steinselju og grillaður á útigrilli.

Sætar kartöflur með tómötum og klettasalati

Bakarofn hitaður í 210 gráður. Sætar kartöflur skornar í teninga og lagðar í ofnskúffu. Dálítið af ólívuolíu skvett yfir ásamt salti, pipar, rósmarin, basiliku og oregano. Sett inn í ofn í 20 mínútur. Þá eru kokteiltómatar skornir í helminga og þeim bætt við sætu kartöflurnar, blandað saman við og hitað í 10 mínútur í viðbót eða þar til sætu kartöflurnar eru tilbúnar. Sett í skál og klettasalati bætt við.

Ég er engin sérfræðingur þegar kemur að ólífuolíum. En um daginn áskotnaðist eignmanninum gjafakarfa með ýmisskonar matvælum. Í henni leyndist meðal annars  Tenuta A Deo ólífuolía. Hún er framleidd á ólífubúgarði í Lucca hæðum Tuscana héraðs á Ítaliu. Þangað flutti íslensk fjölskylda árið 2008, keypti þennan búgarð og framleiðir nú áðurnefnda A Deo ólífuolíu. Á pakkningunni stendur:  ,,Margir telja Lucca hérað besta ólífuhérað heims. Olían er bragðmikil en þó létt, auðþekkjanleg af blómaangan og ávaxtakeim með örlítili beiskju í undirtón.“ Ég bragðaði á þessari ólífuolíu eintómri (sem maður gerir kannski ekki mikið af svona almennt! ) og vá hvað hún er ljúffeng! Mig dreymir um að fara í matar- vín og menningarferð til Tuscana! Þessi íslensku ólífubændur leigja út þetta hús, það væri nú ekki slæmt að dvelja þar! 🙂 A Deo ólífuolían fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup, mörgum sérvöruverslunum og kjötbúðum.

Ferskt salat

Blandað salat, hunangsmelóna, tómatar, rauð paprika og fetaostur.

Tzatziki-engifersósa

Uppskriftina er að finna hér.

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu


Á afmælisdaginn óskaði eiginmaðurinn sér nautasteikur með piparsósu sem hann auðvitað fékk! Fyrir valinu urðu vænir sirloin bitar úr versluninni ,,Til sjávar og sveita“ í Ögurhvarfi. Kjötið var marinerað í pipar/papriku marerningu og grillað á útigrilli. Meðlætið var: Grillað grænmeti (gulrætur, zuccini, sveppir og paprika) sem var saltað og piprað og aðeins skvett á það ólivuolíu. Að grillun lokinni bætti ég út í kokteiltómötum, rifnum Parmesan osti, ferski basiliku og steinselju.

Ofnsteiktar sætar kartöflur með olivuolíu, ferskri basiliku, steinselju og oreganó ásamt Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Piparsósa:

  • 400 ml. nautasoð (helst heimatilbúið, líka hægt að panta það í kjötverslunum en einnig hægt að nota tilbúinn ,,Tasty pipar sósugrunnur“.
  • 1.5 dl. rjómi
  • 1 tsk. koníak
  • 1-2 tsk. piparkorn (ég nota blönduð piparkorn, svört, græn og rósapipar, grófmöluð og heil)
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. soyasósa

Nautasoð sett í pott ásamt soyasósu og koníaki og piparkornum og suðan látin koma upp, hrært í á meðan. Þessu leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og leyfið sósunni að malla á lágum hita í dágóðan tíma. Ef sósan er of þykk, bætið við meiri rjóma, ef hún er of þunn, þykkið með sósujafnara. Ferskt salat: salatblöð, spínat, klettasalat, kokteiltómatar, gúrka, mango, avokado  og fetaostur.

Það eru fleiri góðar sósur sem passa vel með nautakjöti. Hér er ég með uppskrift af ljúffengri heimagerðri bearnaise sósu. Svo er hér uppskrift af góðri sveppasósu.

Kjötið var afar meyrt og gott og allir sáttir við afmælismatinn, ekki síst eiginmaðurinn! 🙂 Jóhanna Inga fékk sér forrétt! Hún er á matreiðslunámskeiði þessa vikuna hjá matreiðslukennaranum í Laugarnesskóla. Fyrsta daginn eldaði hún tómatsúpu, bakaði brauðbollur og útbjó ís! Hún var býsna sátt við þetta námskeið! Best fannst henni að þau fengu að gera allt sjálf, brjóta eggin, hræra í heitum pottum, skera niður lauk og svo framvegis. Mín reynsla er að krakkar geta eiginlega gert flest í matargerð mjög snemma. Jóhanna hefur til dæmis bakað sjálf undir leiðsögn frá því að hún var 4-5 ára, brotið eggin, mælt hráefni, hrært og saxað. En allavega, þá fékk hún sér tómatsúpu og brauð í forrétt og allir fengu að smakka, afar ljúffengt hjá henni! 🙂

Varðandi afmælistertuna, ef einhver ætlar að prófa hana þá er hún margfalt betri daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig svolítið ….. það get ég vitnað um (tékkaði sko nokkrum sinnum á því! ;)) Endilega bakið hana því daginn áður en hún er borin fram!

Þjóðhátíðardagur og grillaðir hamborgarar!


Að venju fór fjölskyldan í þjóðhátíðarskrúðgöngu frá Hagatorgi með Ingu frænku. Reyndar þurfti húsfaðirinn að vinna og langt síðan að tvö elstu börnin voru með í för á þessum degi, þetta voru því bara ég og tvö yngstu börnin með Ingu frænku. Ég stakk upp á því að víkja frá hefðinni og sitja ekki á Arnarhóli og horfa á alla misskemmtilegu dagskrána sem er í boði þar. Börnin tóku vægast sagt afar illa í þá hugmynd! Það skyldi setið á hólnum, borðað candyfloss og pylsur á meðan reynt væri að temja alltof stórar gasblöðrur! Við hittum afa og ömmu ásamt Báru Margréti frænku og fjölskyldu.

I

Jóhanna Inga valdi sér stóra Hello Kitty blöðru sem sprakk svo í árekstri við steinvegg í Hólavallakirkjugarði í lok dagsins þegar leiði ömmu Villu var vitjað. Það var staðsetning við hæfi til að gefa upp öndina á!

Þegar heim var komið var ráðist í grillun á hamborgurum. Fyrst grillaði ég grænmeti til að setja á hamborgarana, rauða papriku, rauðlauk og sveppi. Að auki grillaði ég beikonið. Mér finnst langbest að grilla það á útigrillinu, þannig verður það bragðgott, aukafitan lekur af og maður sleppur við bræluna inni! Ég grilla það á hæsta hitanum, fylgist vel með því og sný við þörfum (já eða skipti mér af því hvernig yfirgrillarinn gerir þetta! 🙂 ).

 Þá er komið að hamborgurunum. Ég kaupi hamborgara úr 100% kjöti, þeir eru bæði bragðbetri og hollari. Ég krydda hamborgarana með salti og pipar og set bæði ost og Gullost ofan á þá á grillinu.

grill

Ofan á hamborgarana setjum við ferska basiliku, hunangsdijon sinnep, tómatsósu, kál, gúrku, tómata ásamt beikoninu og grillaða grænmetinu.

Það er alltaf svo gott veður og skjólsælt í garðinum okkar að við gátum borðað úti. Hrefna vinkona Jóhönnu borðaði með okkur og Jóhanna vildi fá drauga andlitsmálningu eins og hún! Húsfaðirinn nýtti sér hins vegar tæknina og var með boltann á kantinum! 🙂

Kjúklingur með heimagerðu pestói í pönnukökum


Þetta er einn af fáum réttum sem er í uppáhaldi hjá öllum fjölskyldumeðlimum, þar með talin afkvæmin fjögur frá 7-24 ára en það er býsna óvenjulegt að þeim öllum líki sami rétturinn!

Hugmyndina fékk ég frá uppskrift í Gestgjafanum en hef breytt henni töluvert.

Hráefni:

  • Kjúklingabringur (kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum).
  • Tortillur
  • Ferskur Mozzarella ostur
  • Sveppir
  • Rauðlaukur
  • Rauð paprika
  • Spínat
  • Klettasalat (Ruccola)
  • Basilika
  • Steinselja
  • Hvítlaukur
  • Ólivuolía
  • Furhnetur (eða kasjúhnetur)
  • Salt og Pipar

Aðferð:

Rauðlaukur, sveppir og paprika skorin niður, krydduð með pipar og salti og steikt á pönnu eða grilluð. Ég er með sérstaka grillgrind fyrir grænmeti sem ég nota mikið í stað þess að steikja grænmeti á pönnu.

Kjúklingabringur kryddaðar með „Best á allt“ frá Pottagöldrum, uppáhalds kjúklingakryddinu mínu! En þetta er blanda af meðal annars salti, pipar, kryddjurtum og smá púðursykri sem ég held að geri gæfumuninn! Kjúklingurinn er grillaður en það má líka hita bringurnar í ofni. Ég grilla bringurnar á háum hita, í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Tek þær svo af grillinu rétt áður en þær eru tilbúnar, vef inn í álpappír og leyfi þeim að klára að eldast í eigin hita, þannig verða þær lungnamjúkar

Pestó útbúið, hráefni sett í matvinnsluvél. Ég nota oftast nær blöndu af ferskri basiliku, steinselju, spínati og klettasalati og prófa mig bara áfram hvaða magn ég nota af hverju. En fyrir 8 tortillur nota ég oftast 2/3 af spínatpoka, hálfan klettasalatpoka, nokkra steinseljukvisti og 2/3 af basiliku í boxi, 3-4 hvítlauksrif, 1 til 1 ½ dl. ólivuolíu, 4 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur ásamt salti og pipar. Strangt til tekið á að vera ferskur Parmesan ostur í heimatilbúnu Pestói (ca. 4 msk fyrir þessa uppskrift) en ég sleppi honum oft fyrir þennan rétt og finnst það eiginlega bara betra.

Mozzarellaostur er skorinn niður í sneiðar auk þess sem kjúklingurinn er skorinn niður í sneiðar þegar hann hefur fengið að jafna sig í nokkrar mínútur eftir eldun. Það er líka hægt að nota venjulegan rifinn ost í stað Mozzarella, eitt barnanna minna til dæmis kann ekki gott að meta og vill ekki Mozzarella! 🙂

Þá er komið að því að útbúa pönnukökurnar. Pestói er smurt á hálfa Tortilla köku, kjúklingi raðað á pönnukökuna, því næst er Mozzarella osti raðað á kjúklinginn og að lokum sett grillað grænmeti yfir og pönnukökunni lokað.

Pönnukökurnar settar á ofnplötu og hitaðar í ofni við 180 gráður í ca. 7-8 mínútur eða þar til að osturinn er farin að bráðna og Tortilla kakan farin að taka smá lit. Það er líka hægt að grilla pönnukökuna á útigrilli, nokkrar mínútur á hvorri hlið en ég er farin að nota auðveldu leiðina og skelli þeim bara öllum í ofninn!

Borið fram strax með fersku salati.