Að venju fór fjölskyldan í þjóðhátíðarskrúðgöngu frá Hagatorgi með Ingu frænku. Reyndar þurfti húsfaðirinn að vinna og langt síðan að tvö elstu börnin voru með í för á þessum degi, þetta voru því bara ég og tvö yngstu börnin með Ingu frænku. Ég stakk upp á því að víkja frá hefðinni og sitja ekki á Arnarhóli og horfa á alla misskemmtilegu dagskrána sem er í boði þar. Börnin tóku vægast sagt afar illa í þá hugmynd! Það skyldi setið á hólnum, borðað candyfloss og pylsur á meðan reynt væri að temja alltof stórar gasblöðrur! Við hittum afa og ömmu ásamt Báru Margréti frænku og fjölskyldu.
Jóhanna Inga valdi sér stóra Hello Kitty blöðru sem sprakk svo í árekstri við steinvegg í Hólavallakirkjugarði í lok dagsins þegar leiði ömmu Villu var vitjað. Það var staðsetning við hæfi til að gefa upp öndina á!
Þegar heim var komið var ráðist í grillun á hamborgurum. Fyrst grillaði ég grænmeti til að setja á hamborgarana, rauða papriku, rauðlauk og sveppi. Að auki grillaði ég beikonið. Mér finnst langbest að grilla það á útigrillinu, þannig verður það bragðgott, aukafitan lekur af og maður sleppur við bræluna inni! Ég grilla það á hæsta hitanum, fylgist vel með því og sný við þörfum (já eða skipti mér af því hvernig yfirgrillarinn gerir þetta! 🙂 ).
Þá er komið að hamborgurunum. Ég kaupi hamborgara úr 100% kjöti, þeir eru bæði bragðbetri og hollari. Ég krydda hamborgarana með salti og pipar og set bæði ost og Gullost ofan á þá á grillinu.
Ofan á hamborgarana setjum við ferska basiliku, hunangsdijon sinnep, tómatsósu, kál, gúrku, tómata ásamt beikoninu og grillaða grænmetinu.
Það er alltaf svo gott veður og skjólsælt í garðinum okkar að við gátum borðað úti. Hrefna vinkona Jóhönnu borðaði með okkur og Jóhanna vildi fá drauga andlitsmálningu eins og hún! Húsfaðirinn nýtti sér hins vegar tæknina og var með boltann á kantinum! 🙂
Bestu hamborgararnir! Nammi namm
Girnilegt!
Svo er alveg frábært að búa til sína eigin hamborgara og ótal margir möguleikar þar í boði – hef notað töluvert uppskrift sem ég sá einu sinni í Gestgjafanum með m.a. furuhnetum og þurrkuðum apríkósum og spiskummin, get alveg mælt með þeim (kallast Ævintýrahamborgarar hérna hjá okkur)…
Bkv, I.
Bakvísun: Kjúklingapottréttur | Eldhússögur
Bakvísun: Pavlova í formi með lakkrískurli og súkkulaðirúsínum | Eldhússögur