Kladdkaka með karamellukremi


IMG_7460Ég hef sett inn áður uppskrift af sænskri klessuköku (kladdkaka), þessari hérna. Kladdkökurnar eru í ætt við brownies, blautar og bragðgóðar. Þessi kladdkaka fer í hæstu hæðir með einstaklega ljúffengu karamellukremi. Ég ætla ekki einu sinni að segja frá því hversu fljótt hún kláraðist hér heima! Þetta er afskaplega hentug kaka til að bjóða í eftirrétt og þá er ofsalega gott að bera fram með henni ís og/eða þeyttan rjóma auk ferskra berja og ávaxta. Þetta er ákaflega einföld kaka að baka og það er hægt að búa hana til með góðum fyrirvara. Það er heldur ekkert mál að frysta hana með karamellukreminu á. Þessi fær toppeinkunn frá öllum fjölskyldumeðlimunum, þið verðið að prófa! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • hnífsoddur salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjörið brætt. Restin af hráefninu sett í skál og brædda smjörinu bætt út, hrært þar til að deigið hefur blandast vel saman. Bakað í smurðu lausbotna formi (ca.22 – 24 cm) eða sílikonformi við 175 gráður í 20 mínútur. Kökunni leyft að kólna í ca 10 mínútur.

IMG_7423

Karamellukrem:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör

IMG_7439

IMG_7434

Öll hráefnin, fyrir utan smjörið, sett í pott. Hrært í blöndunni og suðan látin koma upp. Blandan látin malla þar til að hún þykknar, tekur ca. 10 mínútur, gott að hræra í svolítið á meðan. Þá er potturinn tekin af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Ég lét kremið standa um stund til þess að það yrði aðeins þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Borin fram með þeyttum rjóma og/eða ís, og jafnvel góðri blöndu af berjum.

img_7456

Key lime baka


IMG_7288Í dag er stóra stelpan okkar 19 ára! Tíminn líður svo ótrúlega hratt, það hljómar eins og klisja en er þó svo satt. Maður er svo önnum kafin við uppeldið þegar börnin eru lítil að tíminn líður án þess að eftir því sé tekið. Skyndilega einn daginn eru litlu börnin horfin og í staðinn komnar fullorðnar manneskjur! Ótrúlegt og dásamlegt en kannski örlítið tregafullt líka! 🙂

Að vanda fær afmælisbarnið á heimilinu að velja uppáhaldsmatinn sinn, að auki er boðið upp á köku, pakka og afmælissöng. Það kom mér ekki á óvart að Ósk valdi sushi í afmælismatinn.

IMG_7224Það kom mér heldur ekki á óvart að hana langaði hvorki í köku né eftirrétt, hún er ekkert hrifin af sætmeti. Algjör synd því mér finnst skemmtilegast að búa til eftirrétti og baka kökur! Ég lét það þó ekki á mig fá og notaði tækifærið að búa til böku sem ég er búin að horfa til lengi. Þó svo að afmælisbarnið vildi ekki böku þá komu amman og afinn í heimsókn og nutu góðs af henni með okkur fjölskyldunni. Og það má með sanni segja að þessi baka hafi slegið í gegn! Að vísu fannst yngstu krökkunum hún ekkert sérstök en okkur hinum fannst hún svo afskaplega ljúffeng, hún fór til dæmis strax á topp fimm kökulistann hjá Alexander. Þið verðið að prófa þessa dásemd!

IMG_7258

Þessi baka kemur líka úr uppskriftabók Hummingbird bakaríisins eins og ostakökubrownie kakan. „Key lime pie“ er bandarískur eftirréttur gerður úr limesafa, eggjarauðum og niðursoðinni sætmjólk. Ofan á bökuna er settur þeyttur rjómi en upprunalega var sett þeytt eggjahvíta ofan á bökuna, sem sagt marengs. Nafnið er dregið af Keys í Florída eftir límónunum (lime) sem vaxa þar. Þær eru talsvert minni (þarf að nota ca 12 á móti 4 venjulegum) og beiskari en þessar hefðbundnu límónur sem við þekkjum. Key límónurnar hafa einstaka sinnum verið til í Hagkaup. Í þessari uppskrift er gert ráð fyrir hefðbundnum límónum. Ég er ekkert mikið fyrir rétti með miklum sítrusi en þessa böku á ég klárlega eftir að búa til aftur, hún er dásamlega fersk og góð. Kjörin eftirréttur til dæmis eftir þunga máltíð. Næst er ég spennt fyrir því að prófa hana með marengs þó svo að þeytti rjóminn passi líka afar vel við bökuna.

sætmjólkVarðandi sætu niðursoðnu mjólkina þá fæst hún í Kosti, Melabúðinni, búðum sem selja asískar vörur og stundum í Hagkaup. Hafið þið kannski séð hana í fleiri búðum? Þegar ég fór í Kost síðast fann ég ekki þessa sætu mjólk og þurfti að spyrja um hana. Þá var hún falin einhverstaðar á bakvið. Stúlkan sagði að þeir mættu í raun ekki lengur selja hana. Mér skilst að þetta snúist um hvernig þessi mjólk er tolluð. Ég keypti allavega nokkuð margar dósir, það er svo mikið af skemmtilegum réttum sem hægt er að nota þessa sætu niðursoðnu mjólk í. Ég tala nú ekki um að búa til gómsæta karamellusósu úr henni!

Nýjasta græjan í eldhúsinu kom sér vel við eftirréttagerðina í dag. Inga frænka gaf okkur þetta Microplane úr Kokku í jólagjöf, alveg magnað áhald við til dæmis rif á sítrónum og límónum. Mæli sannarlega með því!

IMG_7201

Sushi kvöldsins kom frá Tokyo sushi, við erum mjög hrifin af því, frábært sushi á mjög góðu verði.

IMG_7223

En þá að uppskriftinni af þessari ljúffengu límónuböku!IMG_7257Uppskrift Key Lime baka:

Botn:
400 g Digestive kex (1 pakki)
200 g brætt smjör

Fylling:
8 eggjarauður
1 dós sæt niðursoðin mjólk (condensed milk)
safi af 4 límónum (lime)
4 dl rjómi, þeyttur

Ofninn stilltur á 175 gráður, undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við brædda smjörið. Blandan sett í bökunarform með lausum botni eða bökuform og henni þrýst i í botninn og upp í hliðarnar á forminu. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur. Þá er bökubotninn kældur. Þar sem mér liggur alltaf á setti ég hann út í smástund þar til hann var orðin nægilega kaldur til að fara í ísskáp. Botninn þarf að vera alveg kaldur þegar fyllingin er sett á hann.
Ofninn lækkaður í 150 gráður. Athugið, þegar fyllingin er blönduð saman á að nota venjulegan þeytara ekki rafmagnsþeytara eða hrærivél. Eggjarauðum, niðursoðnu sætu mjólkinni og safanum frá límónunum (lime) blandað saman í skál og þeytt með handafli í smá stund þar til blandan þykkist örlítið. Þá er fyllingunni hellt ofan á kaldan botninn og bakað í ofni í 20-35 mínútur (ég bakaði bökuna í 25 mínútur). Kælt í ísskáp í minnst klukkutíma, helst lengur. Áður en bakan er borin á borð er þeytti rjóminn settur yfir bökuna (ég notaði rjómasprautu), gjarnan skreytt með dálítlum fínrifnum límonuberki. Njótið! 🙂

IMG_7281

Ostakökubrownie með hindberjakremi


Ostakökubrownie með hindberjakremi

Hummingbird bakaríið í London opnaði í Notting Hill árið 2004 og sérhæfir sig í amerískum kökum og bakkelsi. Nú hefur bakaríið opnað fleiri útibú og er orðið afar vinsælt og þekkt. humrecipeHummingbird bakaríið hefur einnig gefið út vinsælar uppskriftabækur. Í annarri bókinni er uppskrift af þessari dásamlegu köku, Ostakökubrownies með hindberjakremi. Þessi kaka er þekkt í matarbloggsheiminum í mörgum löndum og ég gat auðvitað ekki annað en prófað hana líka.

Í gærkvöldi var kjörið tækifæri til þess, matarboð fyrir fjölskylduna sem var eiginlega fyrirfram þrettándaboð. Þar sem við vorum tæplega tuttugu ákvað ég að hafa kjúklingasúpuna góðu og prófa þessa köku í eftirréttt. Ég átti að skila því hér frá matarboðsgestunum að þessi kaka fengi fullar fimm stjörnur af fimm! 🙂 Ég get nú ekki annað en verið sammála, þetta er ótrúlega góð kaka. Ef þið ætlið bara að prófa eina köku af síðunni minni þá er þetta mögulega sú kaka! Sjálf browniekakan er ótrúlega bragðgóð og passlega blaut, þá kemur bökuð amerísk ostakaka sem er afskaplega ljúffeng. Frísklegt og flauelsmjúkt hindberjakremið bindur svo saman kökuna, algjört hnossgæti! Ég þarf að baka þessa aftur fljótt og taka betri myndir af henni, matarmyndartaka fer oft fyrir ofan garð og neðan þegar maður er með stórt matarboð!

Athugið að í upphaflegu uppskriftinni eru hinberin maukuð og svo hrærð saman við 100 gr af flórsykri, því næst er blöndunni bætt við þeytta rjómann. Ég sá hins vegar á sumum matarbloggum að mörgum fannst kremið verða of linnt. Ég breytti því uppskriftinni og blandaði hindberjunum við sultusykur í staðinn sem gerir það að verkum að kremið hleypur betur en er samt kremkennt. Mér fannst það koma mjög vel út og held mig við þá útfærslu. En ef einhver prófar að nota flórsykurinn þá væri gaman að heyra hvernig það kemur út! 🙂

IMG_7132

Brownie
  • 200 g dökkt súkkulaði (ég notaði blöndu af suðusúkkulaði, 56% og 70% súkkulaði)
  • 200 g smjör
  • 250 g flórsykur
  • 3 egg
  • 110 g hveiti

IMG_7100Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Flórsykur og smjör er hrært í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er hveitinu bætt út í smá saman. Í lokin er brædda súkkulaðinu bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Deiginu er hellt í ferkantað brownie-form, sem er annað hvort mjög vel smurt að innan eða klætt bökunarpappír (ca 33×23 cm), og slétt vel úr því með spaða eða sleikju. Þá þarf að búa til ostakökudeigið.

Ostakaka:

  • 400 g rjómaostur (ég notaði Philadelphia)
  • 150 g flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 egg

Bakarofn hitaður í 170 gráður. Rjómaostur, flórsykur og vanillusykur hrært saman í hrærivél á fremur lágum hraða þar til blandan er orðin jöfn og slétt. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært á meðan þar til blandan er orðin jöfn og kremkennd. Það getur verið gott að nota sleikju öðru hvoru til þess að losa blönduna úr hliðum skálarinnar. Það er gott að hafa hrærivélina á lágum hraða í lokin til þess að osturinn skilji sig ekki.

IMG_7107Ostablöndunni hellt varlega ofan á browniedeigið. Dreift úr jafnt úr blöndunni með spaða eða öðru hentugu áhaldi. Það er mikilvægt að reyna að slétta jafnt úr bæði browniedeiginu og ostakökublöndunni til þess að útkoman verði sem best.

Kakan er bökuð í miðjum ofni við 170 gráður í 30-40 mínútur eða þar til ostakakan er orðin ljós í miðjunni, kantarnir orðnir ljósgylltir og hafa losnað aðeins frá brúnunum. Kælið kökuna alveg. Setjið svo plastfilmu yfir kökuna og setjið í kæli í minnst tvo tíma (gjarnan yfir nóttu). Þá er komið að hindberjakreminu.

Hindberjakrem: 
  • 300 gr. frosin hindber sem búið er að afþýða
  • 1 dl sultusykur með pektíni
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi

Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota og sett í pott ásamt sultusykrinum, suðan látin koma upp. Blandan tekin af hitanum og vanillusykri bætt við, blandan látin bíða. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan er orðin köld og farin að stífna, en rennur þó lítilsháttar enn til er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjakreminu er svo dreift yfir ostabrowniekökuna. Kakan skorin í ferkantaða bita sem eru gjarnan skreytir með ferskum hindberjum og myntublöðum.

Það kemur fram að vel sé hægt að geyma kökuna í ísskáp í allavega tvo daga en það mun ekki reyna á það hjá okkur ….

IMG_7136

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði


IMG_6307

Piparkökubrownies með hvítu súkkulaði …. nafnið segir allt! Þessi brownie er ótrúlega blaut og djúsí með innslagi af piparkökum og hvítu súkkulaði. Í raun þrennskonar gúmmelaði sem kemur saman í einastaklega jólalegri og gómsætri köku. Þið verðið bara að prófa þessa!

En ég verð eiginlega að setja inn mynd fyrst af ótrúlega krúttulegu jólaskrauti (sem getur reyndar hangið uppi allt árið um kring) sem þjónar göfugum tilgangi. Þetta fallega hjarta er hægt að hengja á tré úti í garði til skrauts en samtímis sjá smáfuglunum fyrir smá góðgæti. Mér finnst þetta ægilega sniðugt og sætt! 🙂

IMG_6280

Svo verð ég að viðurkenna að ég verð alltaf barnslega glöð þegar ég sé vitnað í Eldhússögur. 🙂 Í dag þegar ég fletti Fréttablaðinu sá ég að þar var gefin upp uppskriftin af piparkökunum með gráðosti og valhnetum í hunangi héðan frá Eldhússögum, skemmtilegt!

IMG_6300En varðandi piparkökubrownie kökurnar þá er ég búin að gera nokkrar tilraunir með þær. Fyrst notaði ég hvíta súkkulaðidropa en mér fannst þeir of litlir og hakkaði því núna hvítt súkkulaði í aðeins stærri bita. Síðast gerði ég litlar kúlur úr piparkökudeiginu og stakk þeim meira ofan í deigið. Núna skar ég piparkökudeigið í skífur og lagði ofan á kökuna þannig að þær urðu meira eins og sér piparkökur ofan á kökunni og urðu stökkar. Hvor tveggja er gott en ég held að ég dýfi piparkökudeginu meira ofan í kökuna næst. 12-17 mínútur virðist vera afar stuttur tími en treystið tímanum. Ég bakaði þessa köku í tæpar 16 mínútur og mér fannst hún of mikið bökuð, það er enn betra að hafa hana meira blauta. Þegar kakan er tekin út virðist hún vera lítið bökuð en þegar hún fær að kólna svolítið kemur í ljós að hún er meira bökuð en maður hélt. Næst ætla ég að miða við 13-14 mínútur í mesta lagi.

Uppskrift

200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
4 egg
2 dl sykur
2½ dl hveiti
örlítið salt
100 gr hvítt súkkulaði, saxað frekar smátt
piparkökudeig að vild (ég notaði ca. 120 gr)
IMG_6294
IMG_6295
Bakarofn hitaður í 200 gráður (undir og yfirhita). Smjörið er brætt í potti og suðusúkkulaðinu bætt út í og það brætt í smjörinu. Sykur og egg þeytt létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni hellt út í og hrært saman. Því næst er hveiti og salti  hrært saman við. Deiginu er hellt í lausbotna, ca 24 cm, smurt bökunarform. Þá er hvíta súkkulaðinu dreift yfir deigið. Piparkökudeigið er rifið niður í litla bita og þeim stungið hér og þar niður i deigið eða lagt ofan á deigið í þunnum skífum ef maður vill það frekar. Bakað við 200 gráður í ca 12 – 17 mínútur, gott að hafa kökuna vel blauta og þá nægja yfirleit 12-14 mínútur. Borin fram heit eða köld, gjarnan með þeyttum rjóma eða ís.
IMG_6306

Kanilkaka


IMG_1488Við fjölskyldan fórum aftur í kvöldsund núna í vikunni, það er svo notarlegt að fara í heitan pott í myrkri og kulda! Þá borðum við klukkan sex og drífum okkur svo í Árbæjarlaugina. Þar leika krakkarnir sér og við Elfar náum að spjalla í rólegheitunum í nuddpottinum. Æðislegt, mæli með því! Fyrr þann sama dag bakaði ég köku sem ég ætla að gefa uppskriftina af. Þannig var nefnilega mál með vexti að Jóhanna Inga kom heim úr skólanum þann daginn og var svo ægilega svöng. Það kom svo í ljós að hún var ekki venjulega svöng heldur kökusvöng! 😉 Ég hafði beðið eftir tækifæri til þess að baka köku sem ég fann uppskrift af fyrir nokkru, kanilköku með haframjöli. Ég er mjög hrifin af öllu bakkelsi með kanil og var nokkuð viss um að mér þætti þessi kaka góð. Við mægður skelltum því í eina kanilköku og hún var rosalega einföld og góð. Hættulega góð á meðan hún er enn heit, nýkomin út úr ofninum!

Uppskrift

  • 4 dl sykur
  • 150 g smjör, brætt
  • 2 stór egg eða 3 lítil
  • 3 dl mjólk
  • 7 dl hveiti
  • 4 tsk vanillusykur
  • 3 tsk lyftiduft

Ofn hitaður í 225 gráður (undir og yfirhiti). Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu og einu í senn. Því næst er mjólkinni bætt við og að lokum þurrefnunum. Deiginu helt í smurt kökuform (ég notaði form sem er 26 cm x 39 cm).

Stökkur kanil/hafratoppur

  • 200 gr smjör
  • 2 dl. sykur
  • 4 tsk kanil
  • 3 dl haframjöl

Smjörið brætt í potti. Potturinn tekinn af hellunni og restinni af hráefnunum bætt út í. Þá er blandað hituð og blandað saman. Blöndunni er síðan dreift yfir kökuna. Bökuð í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur. Látið ykkur ekki bregða þó að yfirborðið á kökunni verði hæðótt, þannig á það að vera!

IMG_1484

Bananakaka með hvítu súkkulaðikremi


Nú er aðventan að bresta á og fyrsta jólaljósið er komið í gluggann hjá okkur. Ég féll fyrir þessari jólastjörnu í verslun í gær og hengdi hana upp í stofunni um leið og ég kom heim. Nú get ég get ekki beðið eftir því að ná í allt hitt jóladótið um helgina. Elfar er í ljósadeildinni á heimilinu. Hann leggur sig alltaf í lífshættu við að setja seríu í stóra grenitréið okkar sem er líklega orðið einir fimm, sex metrar á hæð eða jafnvel hærra. Nú bar svo við að serían bilaði auk þess sem hann þurfti að skreppa til Svíþjóðar og er svo að fara í nokkra daga til Barcelona á morgun. Ég er því orðin afar óþolinmóð yfir því að fá ljósin í tréið en ég þarf víst að bíða róleg í nokkra daga í viðbót.

Við mæðgur bökuðum þessa sjúklega góðu köku í dag, við mælum virkilega með henni! 🙂 Þetta er kaka sem batnar bara með tímanum, hún er best geymd í kæli yfir nóttu og borin fram daginn eftir.

Uppskrift bananakaka:

  • 2 stórir bananar, mjög vel þroskaðir, stappaðir
  • 100 gr sýrður rjómi
  • 2 stór egg
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 170 gr púðursykur
  • 1 dl matarolía
  • 170 gr hveiti
  • 30 gr maizenamjöl
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt

Bakarofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Stappaðir bananar og sýrður rjómi þeytt. Eggjum bætt við einu í senn ásamt vanillusykri. Því næst er púðursykrinum bætt út og hrært í ca. eina mínútu. Svo er olíu bætt við smátt og smátt, þá er hveiti, maizenamjöli, matarsóda, lyftidufti og salti bætt út í og þeytt í smá stund þar til deigið hefur blandast vel saman.

Deiginu hellt í bökunarform og kakan bökuð í miðjum ofninum í ca. 40-45 mínútur við 175 gráður, fer eftir stærð bökunarformsins. Því næst er kakan látin kólna áður en kremið er settt á.

Hvítt súkkulaðikrem:

  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 100 gr. rjómaostur (gjarnan Philadelphia), við stofuhita
  • 30 gr. smjör, skorið í litla bita
  • nokkrir sítrónudropar (má sleppa)

Hvítt súkkulaði brætt við vægan hita yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er næstum því bráðnað er það tekið af hitanum og hrært rólega í því þar til það er alveg bráðnað. Nú er það látið kólna þar til það er ekki heitt lengur en þó enn í fljótandi formi. Þá er því helt í skál ásamt restinni af hráefnunum og þeytt þar til kremið er orðið slétt.  Kremið er borið á kalda kökuna. Best er að leyfa kreminu að stífna með því að geyma kökuna í ísskáp.

Brownie-kaka með hindberjarjóma í Kökublaði Vikunnar


Kökublað Vikunnar var að koma út, spennandi blað eins og venjulega með allskonar köku uppskriftum, þið sjáið ekki eftir því að fjárfesta í eintaki! 🙂 Ég var beðin um að gefa uppskrift af einni köku sem ég gerði auðvitað með glöðu geði. Ég bakaði Brownieköku með hindberjarjóma. Ástæðan fyrir því var einföld, þessi kaka er himnesk! Súkkulaði og hindber er tvenna sem er ómótstæðileg í mínum huga. Ég get sjaldan horft framhjá uppskriftum sem í er hvort tveggja og ég varð því að prófa þessa köku þegar ég sá hana á sænskri netsíðu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta varð strax ein af mínum uppáhaldskökum. Þetta er fullkomin blanda af sætu og seigu súkkulaði á móti léttum og frískum hindberjarjóma. Að auki er afar auðvelt að búa kökuna til sem er alltaf kostur. Ég hef gert aðra útfærslu af henni fyrir eftirrétt. Þá baka ég botninn, skipti honum í eftirréttaskálar og set svo hindberjarjómann yfir ásamt þeyttum rjóma og ferskum hindberjum. Þá er komin ljúffengur og fallegur eftirréttur. Myndirnar í blaðinu eru teknar af ljósmyndara Vikunnar, sem sést að störfum hér fyrir neðan, en ég tók myndirnar í þessari færslu.

Ég breytti uppskriftinni (get aldrei hamið mig!) en upphaflega var í hindberjarjómanum pektín sultusykur en þá fannst mér hindberjarjóminn ekki hlaupa nógu vel, hann varð ekki nógu fallegur. Ég breytti því yfir í venjulegan sykur og matarlím, þannig varð kakan miklu fallegri.

Uppskrift

Brownie-botn

  • 120 gr suðusúkkulaði
  • 100 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 egg
  • 1 ½ msk vanillusykur
  • ¼ tsk salt
  • 1 ½ dl hveiti

Hindberjarjómi

  • 300 gr. frosin hindber, afþýdd
  • 1 dl sykur
  • 4 blöð matarlím
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 dl rjómi
  • þeyttur rjómi til skreytingar
  • fersk hindber til skreytingar

Brownie-botn: Bakarofn hitaður í 175°C. Smelluform (ca. 22 cm.) smurt að innan, bökunarpappír sniðinn og klipptur eftir botninum á forminu og lagður ofan á botninn. Súkkulaði og smjör sett í skál og brætt yfir vatnsbaði. Þegar blandan er bráðnuð er hún tekin af hitanum og sykri bætt út í. Hrært þar til blandan er slétt. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er vanillusykri og salti hrært út í. Að lokum er hveitið sigtað út í, blandað varlega saman með sleikju og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 175°C í um það bil 30 mínútur (athugið að kakan á að vera blaut). Kakan látin kólna. Því næst er smelluforminu smellt af og kökunni hvolft á kökudisk. Þá er auðvelt að fjarlægja bæði botninn á kökuforminu og bökunarpappírinn. Því næst er smelluforminu smellt aftur utan um kökuna á kökusdisknum til þess að halda við hindberjarjómann sem kemur ofan á.

Hindberjarjómi: Hindber maukuð í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Maukinu er síðan hellt í fínt sigti og fræin þannig síuð frá og þeim hent. Matarlímsblöð lögð eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látin liggja þar í 5-7 mínútur. Hindberjamauk, sem nú er laust við fræ, er sett í pott ásamt sykrinum og suðan látin koma upp.  Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk og þykk eru þau tekin upp úr skálinni, vatnið kreist úr þeim og þeim svo bætt út í hindberjamaukið í pottinum og hrært þar til blöðin eru uppleyst. Potturinn er tekinn af hitanum og vanillusykri þá bætt við (vanillusykri má aldrei blanda við sjóðandi vökva, þá verður hann beiskur) , blandan svo látin bíða þar til hún kólnar. Rjóminn þeyttur. Þegar hindberjablandan hefur kólnað er henni blandað saman við þeytta rjómann. Hindberjarjómanum er því næst dreift yfir kaldan brownie-botninn (formið látið sitja áfram utan um kökuna). Kakan kæld í minnst þrjá klukkutíma, gjarnan yfir nóttu. Skreytt með þeyttum rjóma og ferskum hindberjum.

Kladdkaka með banana og sykurpúðum


Kladdkaka er ein vinsælasta kakan í Svíþjóð. ,,Kladd“ þýðir ,,klístrug“ og lýsir því hversu blaut og þétt kakan er. Hún er án lyftidufts/matarsóda, það gefur henni þessa ljúffengu áferð og hún er í raun ekkert ólík brownies kökum. Klassíska kladdkakan er súkkulaðikaka og er oftast nær borin fram með þeyttum rjóma eða ís. Hér er aðeins öðruvísi útgáfa af kladdkökunni. Í hana er búið að bæta banana og sykurpúðum. Ótrúlega góð og djúsí kaka!Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi hafa mikið af sykurpúðum og klippti því þá niður í frekar litla bita. Ég held að ég hafi þá stærri og fleiri næst, þeir gefa svo ofsalega gott bragð og áferð.

Uppskrift:
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 100 gr smjör, brætt og kælt dálítið
  • 1/4 tsk salt
  • 1,5 dl hveiti
  • 5 msk kakó
  • 1 banani, maukaður
  • sykurpúðar eftir smekk

Ofn hitaður í 175 gráður (undir og yfirhiti). Egg og sykur hrært saman (ekki þeytt). Hveiti og kakó sigtað út í og ásamt restinni af hráefninu, fyrir utan sykurpúðana. Hrært vel. Smelluform (ca 24 cm) smurt vel og deiginu hellt í formið. Sykurpúðunum stungið ofan í deigið að vild. Bakað við 175 gráður í 30 mínútur. Kakan borin fram volg með þeyttum rjóma eða ís. Líka góð köld!

Banana-súkkulaðikaka


Ég fékk um daginn þessa rausnarlegu gjafakörfu frá Nóa og Siríus í uppskriftasamkeppni sem var á þeirra snærum. Í henni leyndist allskonar góðgæti sem hefur satt best að segja gengið ágætlega á! Í gær átti ég á þrjá banana sem voru orðnir ansi brúnir og ég ákvað að ég yrði að nýta þá í eitthvað gott. Ég gramsaði síðan ofan í gjafakörfunni, sem enn hefur að geyma ýmisskonar gúmmelaði og fann þar poka af suðusúkkulaðidropum frá Nóa og Siríus. Afraksturinn af samrunanum sem átti sér stað í framhaldinu var snilldin ein! Banana-súkkulaðikaka sem er afskaplega auðveld að baka og dásamlega ljúffeng.  Kakan var enn volg þegar ég bar hana fram og hún var auðvitað afar ljúffeng þannig. En ég náði að smakka síðasta bitann þegar hún var orðin köld og þá var hún eiginlega betri! Með dálitlum þeyttum rjóma þá er orðin til afar gómsætur eftirréttur.  Þið bara verðið að prófa þessa! Næst ætla ég að blanda bæði hvítu og dökku súkkulaði í kökuna.

Annars drógum við krakkarnir fram í dag ,,jól í skókassa“ kassann okkar. Ég vona að flestir þekki til þessa verkefnis, en KFUM og KFUK standa fyrir því frábæra framtaki árlega. Verkefnið snýst um að safna jólagjöfum í skókassa fyrir fátæk og munaðarlaus börn í Úkraínu. Ég safna hlutum (og stórum skókössum!) allt árið fyrir þetta verkefni og í dag drógum við krakkarnir fram allt góssið til að skoða hvað vantaði upp á. Lokaskiladagur er 10. nóvember og ég vona innilega að sem flestir taki þátt í þessu þarfa og þakkláta verkefni!

Uppskrift:

  • 75 gr smjör
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk mjólk
  • 1/4 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 2-3 þroskaðir bananar (ég notaði 3 litla)
  • 150 gr suðusúkkulaðidropar eða suðusúkkulaði, saxað smátt
  • 2 1/2 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi

Aðferð

  1. Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin aðskilin og eggjahvítan þeytt þar til hún verður stíf.
  2. Smjör brætt í potti við vægan hita, kælt dálítið.
  3. Sykur, mjólk, salt og vanillusykur sett í skál ásamt brædda smjörinu og hrært.
  4. Eggjarauðunum bætt út í.
  5. Bananar stappaðir og þeim hrært út í deigið ásamt súkkulaðinu.
  6. Hveiti og matarsóda blandað út í og hrært
  7. Að síðustu er eggjahvítunum bætt varlega út í með sleikju.
  8. Deiginu hellt í smurt tertuform (smelluform eða sílíkonform, ca. 24 cm) og bakað í ofni við 175 gráður í 30-40 mínútur. Best er ef kakan er enn dálítið blaut í miðjunni þegar hún er tekin út úr ofninum. Kakan er dásamlega góð borin fram með þeyttum rjóma eða ís og hún er ekki síðri þegar hún er orðin köld, jafnvel betri!

Kókoskúlur – Jóhanna og Katla gestablogga!


Kókoskúlur eru auðvitað bara klassískar og eiga heima í öllum uppskriftasöfnum. Í vetrarfríinu kom Katla vinkona Jóhönnu í heimsókn og fékk að gista. Næsta dag langaði þær stöllur að baka eitthvað gott. Ég var að reyna að vinna í ritgerðinni minni og stakk því upp á einföldum kókoskúlum. Sú tillaga féll vel í kramið og vinkonurnar gátu útbúið þær alveg sjálfar. Jóhanna varð stórhneyksluð þegar hún komst að því að ég væri ekki með uppskrift af kókoskúlum hér inni á blogginu og krafðist þess að við myndum bjarga því! Hún skrifaði upp uppskriftina og svo hófust þær vinkonur handa. Þær veltu helmingnum upp úr kókosmjöli og hinum helmingnum upp úr sænskum perlusykri. Því miður virðist ekki hægt að fá sænskan perlusykur hér á landi. Sá perlusykur sem fæst hér er í sömu umbúðum og sá í Svíþjóð en innihaldið er ekki það sama. Hér á myndinni sést munurinn, þessi til vinstri (glær) fæst hér á landi en þessi til hægri (hvítur) fæst í Svíþjóð. Ég kaupi því minn perlusykur í Svíþjóð.

Uppskrift:

  • 100 g smjör
  • 1 dl sykur
  • 3 dl haframjöl
  • 2 msk. kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • 1 msk síróp
  • kókosmjöl og/eða perlusykur til að velta kúlunum upp úr

Allt sett saman í skál og hrært. Rúllað í litlar kúlur og þeim velt upp úr perlusykri eða kókosmjöli. Kókoskúlurnar settar í kæli í smá tíma áður en þær eru bornar fram.