Afmæliskaka


Afmæliskaka

Hann Vilhjálmur minn átti afmæli um daginn og að sjálfsögðu var haldin afmælisveisla fyrir fjölskylduna. Bekkjarafmælið fær að bíða þar til seinna í sumar þegar allir eru komnir úr sumarfríi. Vilhjálmur vildi fá afmælisköku fyllta með Skittles sælgæti og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk.

IMG_1453Fyrir um það bil ári síðan setti ég inn hér uppskrift af skúffuköku. Þessi uppskrift hefur legið lágt og ekki verið mikið deilt. Hins vegar er þetta sú uppskrift á blogginu sem hefur flestar stjörnur og þriðja mest lesna uppskriftin hér á Eldhússögum frá upphafi. Ég er ægilega ánægð með þessa uppskrift sem ég þróaði sjálf og af ummælunum að dæma þá eru fleiri sammála mér. Ég notaði þessa uppskrift til þess að búa til tvöfalda súkkulaðiköku sem óvænt hafði að geyma sælgæti! Það var afar vinsælt. Kökuna skreyttum við með litlum uppblásnum vatnsblöðrum á grillpinnum, nokkuð sem mér fannst afar afmælislegt og skemmtilegt.

IMG_1393

Þegar ég spurði dóttur mína af hverju hún þyrfti endilega að gretta sig á hverri einustu mynd þá svaraði hún því til að það væri kærkomin tilbreyting frá því að brosa alltaf á myndum! 🙂

IMG_1427Fánaborðan fékk ég í Søstrene Grene fyrir nokkru síðan. Okkur fannst hann svo skemmtilegur að hann hékk uppi í þónokkurn tíma eftir afmælið!

IMG_1474Krakkarnir byrjuðu öll á mini-pizzunum, þær eru alltaf jafn vinsælar.

IMG_1475Ávaxtaspjótin eru ómissandi.

IMG_1462Mamma, amma og Inga frænka flottar!

IMG_1495Þessar voru spenntar fyrir litlu blöðrunum og eru báðar „fjögurra ára!“

IMG_1508Uppskriftina af afmæliskökunni hér að neðan er í þeim hlutföllum að hún passar í tvö 24 cm form eða í stóra ofnskúffu.

Uppskrift:

  • 3 dl sykur
  • 3 dl púðursykur
  • 250 g smjör, brætt
  • 3 egg
  • 7 1/2 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk. matarsódi
  • 1 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 1/2 dl vatn, sjóðandi heitt
  • 4 tsk. vanillusykur
  • 1 1/2 dl. kakó, sigtað
  • 3 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • Skittles

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt. Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Hrærið saman öllum hráefnunum, fyrir utan vatnið,  þar til deigið verður slétt. Gætið þess að hræra ekki of lengi. Bætið heita vatninu við og hrærið í þar til það hefur blandast deiginu. Hellið deginu í tvö smurð bökunarform (24 cm) eða ofnskúffu  og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni. Ef notuð eru tvö kökuform og það á að fylla kökuna af sælgæti þá er skorið úr miðju kökunnar og hún fyllt af sælgæti. Kreminu smurt á milli kökubotnanna (bara að sælgætinu) og svo er kreminu smurt utan á kökuna.

IMG_1389

Súkkulaðikrem:

  • 225 smjör, mjúkt
  • 300 g flórsykur
  • 5 msk kakó
  • 3 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.

Afmæliskaka

Ostakaka með crème brûlée


Ostakaka með creme brulee

Ég er afar hrifin af öllum eftirréttum – nema reyndar ís, ég get alveg lifað án hans. Mér finnst líka gaman að prófa mig áfram með ýmsar samsetningar á eftirréttum sem kannski eru ekki fyrirsjáanlegar. Hér er ég til dæmis með uppskrift af pönnukökum í suffle-formi – ofsalega gott!

IMG_9205

Ég hef líka prófað að gera bakaða ostaköku sameinaða með pecanhnetuböku, ljúffengt!

IMG_7826

Annað dæmi um vel heppnað eftirréttahjónaband er ostakaka, brownie og hindberjakrem, þvílíkt lostæti!

img_7125

Browniekakan með hindberjarjómanum er líka æðisleg og margir hafa sent mér póst vegna hennar, hún sló greinilega í gegn á fleiri heimilum en mínu.

IMG_0594

Að þessu sinni gerði ég bakaða ostaköku sem mér finnst lostæti. Ofan á hana setti ég crème brûlée, nokkuð sem var frábærlega vel heppnað. Crème brûlée þýðir brenndur rjómi og er eftirréttur úr nokkurskonar búðingi með karamelluskel. Búðingurinn er oftast með vanillubragði en stundum er bætt við líkjöri, súkkulaði eða ávöxtum. Karamelluskelin er gerð með því að brenna sykur á yfirborði búðingsins með gasbrennara. Venjulega er crème brûlée borið fram í litlum skálum. Í þessari uppskrift hellti ég Crème brûlée búðingnum yfir ostakökuna – hnossgæti! Til þess að búa til stökka karamelluskel notaði ég gasbrennara sem fæst meðal annars í Kokku og Duka.

IMG_1426

Það er hægt að bjarga sér án hans. Þá er kökunni brugðið inn í ofn á grillstillingu í stutta stund til þess að fá stökka yfirborðið á búðinginn. Ef myndin er af kökusneiðinni er skoðuð vel þá er eins og fyllingin sé þrískipt. Ég er ekki alveg viss en ég held að á meðan bökuninni stóð hafi búðingurinn hálfvegis sokkið ofan í ostakökuna. Það er að röndin í miðjunni sé í raun crème brûlée, ég er samt ekki viss. Kakan var allavega dásamlega góð! 🙂 Það væri gaman að heyra hvernig kakan verður hjá ykkur ef þið prófið þessa uppskrift!

IMG_1468

Ég verð að benda ykkur á snilldar kökuform sem fást í Kokku. Þessi form eru eins og kökudiskar þannig að það er hægt að bera kökurnar fram beint á disknum. Það er frábært fyrir til dæmis ostakökur sem annars getur verið erfitt að færa úr bökunarformi yfir á bökunardisk.

2412323

Uppskrift:

Botn
  • 150 g Digestive kex
  • 70 g smjör
  • 60 g púðursykur
  • 1 tsk vanillusykur

Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið, púðursykur og vanillusykur. Sett í smelluform (ca. 24-26 cm) og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu.

Ostakaka:

  • 450 g rjómaostur (ég nota Philadelphia)
  • 60 ml rjómi
  • 2 stór egg
  • 110 g sýrður rjómi
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk maízenamjöl (eða kartöflumjöl)
  • 100 g sykur

Ofn stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rjómaosturinn þeyttur í hrærivél þar til hann verður mjúkur, ca í 2 mínútur. Þá er rjómanum bætt út í og því næst eggjunum, einu í senn. Að lokum er sýrðum rjóma, vanillusykri og maízenamjöli (eða kartöflumjöli) bætt út í og hrært vel saman í stutta stund. Blöndunni er því næst hellt yfir kexbotninn og bakað í ofni við 150 gráður í um það bil 18-20 mínútur á meðan crème brûlée blandan er búin til.

Crème brûlée:

  • 5 dl rjómi
  • 4 msk sykur + ca. 4 msk sykur til viðbótar fyrir karamelluskel
  • 5 stórar eggjarauður
  • 1 vanillustöng

Eggjarauður þeyttar þar til þær verða ljósar og léttar. Rjóminn settur í pott ásamt 4 msk af sykri og hitað að suðu, þá er potturinn tekinn af hellunni. Rjómablöndunni er svo hellt hægt og varlega út í eggjarauðurnar á meðan þær eru þeyttar á lágum hraða. Vanillustönginn er klofin í tvennt og fræin skafinn innan úr stönginni. Þeim er bætt út í blönduna. Blöndunni er síðan hellt yfir ostakökuna (sem hefur fengið að kólna aðeins eftir að hún kemur út úr ofninum). Kakan er svo bökuð áfram í ofninum í 45 mínútur við 150 gráður. Þegar kakan er tekin úr ofninum er henni leyft að kólna vel. Þá er ca. 4 msk af sykri dreift yfir kökuna og hann brenndur með gasbrennara. Ef ekki er til gasbrennari er hægt að setja kökuna í örfáar mínútur undir heitt grill í bakarofni til þess að brenna sykurinn. Kakan er svo geymd í ísskáp, bragðast best daginn eftir.

IMG_1538

Pavlova með marsípani


Pavlova með marsípaniPavlova með marsípani

IMG_1287

Þann 4. júlí varð Vilhjálmur Jón okkar 13 ára! Eins og lög gera ráð fyrir á okkar heimili er afmælisbarnið (táningurinn!) vakið með köku, pökkum og söng og fær síðan að velja kvöldmatinn.

IMG_1273

Val Vilhjálms á mat kom ekki á óvart, hann vildi fara á Hamborgarafabrikkuna enda mikill áhugamaður um hamborgara. Ég verð að segja að ég var ekkert ægilega spennt yfir mínum hamborgara, hann sló allavega ekki út steikarborgaranum (+ bearnaisesósu!) á Búllunni!

5b21fb9ee4ed11e28b8022000aaa0a1f_7Ég spurði Vilhjálm hverjar væru uppáhaldskökurnar hans og hann svaraði marsípantertur og marengstertur. Ég fór því að skoða hinar ýmsu uppskriftir og datt á tilviljun niður á Pavlovu með marsípani, snilld – uppáhaldsterturnar samankomnar í einni! Þetta varð innblásturinn af marsípan Pavlovunni sem Vilhjálmur var vakinn með á afmælisdaginn. Það er óhætt að segja að þessi terta hafi slegið í gegn. Allri fjölskyldunni auk þeirra gesta og gangandi sem smökkuðu á tertunni fannst hún rosalega góð. Þeir sem eru hrifnir af marsípani mega ekki láta þessa tertu fram hjá sér fara! 🙂

IMG_1315

Uppskrift:

  • 4 stk eggjahvítur (stór egg)Odense marsípan
  • 250 g flórsykur
  • 1 tsk hvítvíns edik
  • 160 g Marsípan (Odense ren rå marcipan)

Fylling:

  • 1/2 líter rjómi, þeyttur
  • Fersk ber eða ávextir eftir smekk (t.d. jarðaber, hindber, bláber, blæjuber, rifsber)
  • Rifið suðusúkkulaði og örlítið af flórsykri dreift yfir berin

IMG_1300

Ofninn stilltur á 150 gráður undir- og yfir hita. Eggjahvítur þeyttar á miðlungshraða þar til þær eru vel slegnar, þá er hraðinn aukinn og flórsykrinum blandað smátt og smátt saman við. Hvítvínsediki bætt út í. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar stífþeyttar er marsípanið rifið með grófu rifjárni út í blandað mjög varlega saman við með sleikju. Best er að rífa lítið í einu og blanda marsípaninu þannig smátt og smátt saman við marengsinn annars er hætta að á að það fari í kekki.

Ca. 20 cm hringur teiknaður á bökunarpappír sem settur er á ofnplötu. Marengsinum er dreift á flötinn og kantarnir látnir vera aðeins hærri en miðjan. Bakað í miðjum ofni í um það bil 45 mínútur, þá er slökkt á ofninum og marengsinn látinn kólna í ofninum.

Áður en kakan er borin fram er settur þeyttur rjómi yfir marengsinn og yfir rjómann er dreift berjum, rifnu suðusúkkulaði og að lokum er örlitlum flórsykri sigtað yfir berin.

IMG_1311

Súkkulaðikaka með Pipp bananakremi


IMG_1101

Nú erum við hjónin komin heim úr yndislegri Stokkhólmsferð, eini gallinn var hversu hratt helgin leið! Í gær borðuðum við á veitingastað sem heitir Nybrogatan 38 – sem er líka heimilisfangið – frumlegt! 🙂 Við mælum sannarlega með þeim stað. Við fengum frábærlega góða steik og ljúffengt vín fyrir afar gott verð. Það borgar sig greinilega fyrir mig að fylgjast með bloggum hinna ýmsu Svía!. Ég les alltaf bloggið hjá Pernillu Wahlgren sem er þekkt sænsk söngkona, hún borðar oft þarna og er afar hrifin af staðnum, þannig vissi ég af honum. Ef þið eruð í Stokkhólmi og ætlið að heimsækja þennan stað, eða einhvern annan veitingastað ef því er að skipta, um helgi þá þarf að bóka með dálitlum fyrirvara. Það þýðir lítið að ætla að detta inn á góðan veitingastað í Stokkhólmi um helgar.

StokkhólmurEldhússögur á Instagram – Stokkhólmur og Nybrogatan 38

Við byrjuðum daginn í gær á að ljúka dásamlegu brúðkaupsveislunni með brúðhjónunum og veislugestum heima hjá föður brúðarinnar í kampavínsmorgunverði. Frábær leið til þess að ljúka brúðkaupi. Það var svo gaman að geta hitt alla aftur daginn eftir veisluna. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var auðvitað frábært og því var hægt að eiga góða stund saman í garðinum.

kampavínsmorgunverður

Það var samt ósköp gott að koma heim til barnanna. Ég hlakkaði líka til að koma heim og baka þessa köku sem ég gef uppskrift að í dag. Ég er nefnilega búin að vera með Pipp með bananabragði á heilanum í dálítinn tíma! Ef þið hafið mögulega ekki tekið eftir því þá er sem sagt komið nýtt Pipp í verslanir, með bananabragði. Ég smakkaði einn bita um daginn og vissi strax að úr þessu súkkulaði yrði ég að gera köku! Ég er búin að hugsa um þetta í dálítinn tíma og í flugvélinni í gærkvöldi ákvað ég að gera þessa köku en með banana Pippinu. Ég breytti uppskriftinni þó nokkuð, til dæmis minnkaði ég sykurinn um helming og tók út kaffið. Þessi Pippkaka hefur verið afar vinsæl hér á blogginu, ekki síst fyrir það hversu fljótleg og einföld hún er en þó aðallega fyrir hvað hún er ofsalega góð. Ef það er hægt þá varð þessi kaka enn betri með banana Pippinu og breyttri uppskrift – þið verðið bara að prófa!

pipp-003

IMG_1088

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 150 gr smjör
  •  1 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

IMG_1096

Krem:

  •  25 g smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með bananabragði (selt í 100 gramma plötum)

IMG_1086

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Suðusúkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Sykri og eggjum bætt út í, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 40-50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún á að vera blaut í miðjunni.

IMG_1114

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. blæjuberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_1106

IMG_1111

IMG_1081

 

 

Karamellu marengsterta


Karamellu marengsterta

Í afmælisveislu pabba um daginn var mamma með svo góða marengstertu. Þegar ég fór að spyrjast fyrir um uppskriftina þá kom í ljós að þetta var uppskrift sem hún hafði fengið frá mér! Ég mundi þá allt í einu að þetta var terta sem ég gerði reglulega hér áður fyrr en hafði svo bara gleymt. Það vill nefnilega oft verða þannig með uppskriftir. Þar kemur þetta matarblogg sterkt inn! Hér set ég inn allar góðar uppskriftir sem ég prófa og því engin hætta á því að þær gleymist. Margengstertan góða sem ég hafði gleymt er nú dregin aftur fram í dagsljósið. Ég reyndar breytti uppskriftinni aðeins. Ég er búin að horfa grindaraugum á nýja Nóa kroppið með karamellubragði í verslunum. Ég sá í hendi mér að það myndi smellpassa í þessa köku sem það gerði auðvitað. Reyndar virðist það bara eiga að vera til tímabundið þannig að ef það fæst ekki þá er gamla góða Nóa kroppið líka afar gott í þessa tertu. Venjulega nota ég jarðarber og/eða bláber í rjómafyllinguna líka. Ég gerði það ekki í þetta sinn en ég mæli með því. Mér finnst tertan verða enn betri fyrir vikið og ferskari.

IMG_0652

Uppskrift:

Marengs:

  • 2-3 bollar Rice Krispies (eða Korn Flakes)
  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 4 eggjahvítur

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

IMG_0602

Hringur, ca. 23 cm í þvermál, gerður á bökunarpappír

IMG_0603

Marengsinum skipt í tvennt og hann settur á sitt hvorn hringinn

IMG_0605

Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða.

IMG_0608

Marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum. 

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 200 g Nóa kropp með karamellubragði (eða þetta hefðbundna)
  • 1 askja fersk jarðarber skorin í bita og/eða bláber (má sleppa en ég mæli með því að hafa ber!)

Rjóminn er þeyttur og Nóa kroppinu ásamt berjunum er bætt út í rjómann. Blandan er svo sett á milli marengsbotnanna.

IMG_0612IMG_0619

Rolokrem:

  • ca 2 og 1/2 rúllur af Rolo (ég keypti 3 rúllur í pakka og skreytti tertuna með hálfu rúllunni sem eftir var)
  • 50 g suðusúkkulaði
  • örlítill rjómi til að þynna kremið með

Suðusúkkulaðið brotið niður í skál og Roloinu bætt út í. Brætt yfir vatnsbaði, ef þess þarf þá er hægt að þynna blönduna með dálítið af rjóma. Kreminu er svo hellt yfir tertuna. Það er fallegt að skreyta hana með jarðarberjum eða hindberjum, nokkrum niðurskornum Rolobitum og rifnu suðusúkkulaði. Tertan er geymd í ísskáp og er langbest daginn eftir þegar hún hefur fengið að brjóta sig.

IMG_0627

IMG_0643

Subway smákökur – Jóhanna Inga gestabloggar


Subway smákökur

Á nákvæmlega sama degi fyrir ári síðan sagði ég frá því í þessari færslu þegar Jóhanna Inga fór á matreiðslunámskeið með vinkonum sínum. Í ár var hún afar spennt að fara aftur á námskeiðið og lauk því í síðustu viku. Jóhanna var alveg jafn ánægð með námskeiðið eins og í fyrra og hefði gjarnan viljað vera lengur. Krakkarnir fá að vinna alveg sjálfstætt, þau gera daglega marga rétti úr vönduðu hráefni og fara eftir góðum uppskriftum.

JIE

Nokkrir girnilegir réttir sem Jóhanna Inga matreiddi

IMG_0740

Vinkonurnar Jóhanna Inga og Hrefna Rós að loknu matreiðslunámskeiði.

Í fyrra valdi fjölskyldan þessa berjaböku sem einn besta réttinn sem Jóhanna Inga gerði á námskeiðinu það sumarið. Í ár gerði Jóhanna Inga afar margt gott, meðal annars fiskrétt, mexíkóskan rétt, brauðbollur og fleira en við völdum smákökurnar sem hún bakaði, þær eru í anda vinsælu Subway smákakanna. Ofsalega góðar kökur og Jóhanna Inga segir að þær séu auðvelt að baka. 🙂

IMG_0479

Uppskrift:

  • 150 g smjör (mjúkt)
  • 2 1/3 dl púðursykur
  • 1/2 dl sykur
  • 1 pakki Royal búðingsduft – vanillu eða karamellu
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 egg
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 150 g súkkulaðidropar eða M&M

Stillið ofninn á 180 gráður undir- og yfirhita. Hrærið vel saman smjöri, púðursykri, sykri, búðingsdufti og vanilludropum í hrærivél eða með rafmagnsþeytara. Bætið eggjum út í, einu í senn og hrærið vel á milli. Bætið hveitinu og matarsódanum út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið að lokum súkkulaðidropunum eða M&M sælgætinu saman við með sleif. Búið til frekar stórar kökur með matskeið og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Bakið í 12-17 mínútur (minni kökur 8-10 mínútur). Varist að baka kökurnar lengi, þær eiga að vera seigar en ekki stökkar.

Subway smákökur

Súkkulaðiterta með söltu karamellukremi og afmæli Eldhússagna!


Súkkulaðiterta með saltri karamellu

Í dag er sérstakur dagur. Í fyrsta lagi er pabbi minn 65 ára í dag. En það þýðir líka að það er einmitt eitt ár síðan að ég opnaði þetta matarblogg. Fyrir einu ári síðan settist ég í stutta stund niður við tölvuna áður en ég fór í afmælisveisluna til pabba og stóð upp skömmu seinna sem matarbloggari. Á þeim tímapunkti var ég í fullkomri óvissu um hvað það myndi hafa í för með sér eða hvort ég myndi yfir höfuð endast í meira en einn dag sem matarbloggari!

blogg

Annað hefur komið á daginn, ég er hér enn og hef birt yfir 270 uppskriftir á þessu ári sem liðið er eða rúmlega fimm bloggfærslur í hverri viku. Enn ótrúlegri er sú staðreynd að fullt af fólki virðist hafa áhuga og ánægju af uppskriftunum mínum. Það er nokkuð sem gleður mig ósegjanlega mikið og er mér hvatning í að halda ótrauð áfram. Ég hefði líklega gefist upp fyrir löngu ef ég væri ekki með svona góða og skemmtilega lesendur eins og þið eruð! 🙂

blogg1

Það er líka svo gaman að sjá hversu mikil gróska er komin í íslensk matarblogg. Síðan ég byrjaði að blogga hafa bæst í hópinn mörg fleiri skemmtileg og bitastæð matarblogg hér á WordPress. Ég er sannfærð um að íslensk matarblogg eiga eftir að verða enn fleiri þegar fram líða stundir. Matarblogg bjóða upp á svo marga nýja og spennandi kosti þegar kemur að uppskriftum og mat. Í fyrsta lagi geta allir spreytt sig á matarbloggi, til þess þarf enga kokka- eða bakaramenntun, bara áhuga og vilja. Matarbloggin eru líka lifandi svæði þar sem lesendur geta rætt um matinn og uppskriftirnar, þeir geta deilt með sér ráðum og upplýsingum og þannig í raun stöðugt verið að þróa uppskriftirnar áfram.

blogg2

Í lok fyrsta mánaðarins sem ég bloggaði heimsóttu um það bil 60 lesendur í síðuna mína daglega. Mér fannst það ótrúlega margt fólk og ég skildi ekkert í að 60 manns hefðu fyrir því að heimsækja blogið mitt á hverjum degi. Í dag sækja 6-7000 gestir bloggið mitt daglega en sem mest hafa heimsóknirnar farið upp í 13 þúsund gesti á dag – næstum því jafn margir og kusu flokkinn Bjarta framtíð í síðustu kosningum eða 7% af kosningabærum Íslendingum! 😉 Það er dálítið undarleg tilfinning og óraunverulegt að fara varla á mannamót án þess að ég hitti ókunnugt fólk sem segist lesa bloggið mitt. Bloggið hefur fært mér ótrúlega mörg verkefni sem mig hefði aldrei órað fyrir að mér myndu bjóðast. Uppskriftir frá mér hafa birst í Vikunni, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og að auki er ég með fastan uppskriftaþátt hjá N4 dagskránni sem kemur út vikulega fyrir norðan. Ég hef tekið að mér að elda fyrir 40 manna  árshátíð og núna er ég að vinna að stóru og spennandi verkefni sem kemur út á prenti í náinni framtíð. Bloggið hefur því leitt mig á algjörlega nýjar og spennandi slóðir!

IMG_0281

Í tilefni dagsins finnst mér við hæfi að koma með krassandi uppskrift af afmælisköku! Ég hef beðið spennt eftir rétta tilefninu að birta þessa frábæru uppskrift af einni þeirri bestu tertu sem ég hef smakkað – tilefnið getur ekki orðið betra en í dag! 🙂 Þetta er himnesk súkkulaðiterta með söltu karamellukremi. Kremið er draumkennt marengskrem með dulce de leche saltri karamellu og kakan umvafin þykku og girnilegu súkkulaðikremi. Sjálf kakan er yndislega bragðgóð og er næstum því eins og súkkulaðifrauð. Þið bara verðið að prófa þessa kræsingu! Það lítur kannski út fyrir að kakan sé flókin en hún er það í raun ekki, kannski dálítið tímafrek en algjörlega þess virði!

IMG_0310

IMG_0307

IMG_0304

Uppskrift: 

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

IMG_0273

IMG_0291

Marengskrem með saltri karamellu

  • 160 g eggjahvítur (ca. 5 egg)
  • 200 g sykur
  • 400 g smjör, vel við stofuhita
  • 1/2 tsk maldon salt (eða annað flögusalt)
  • 2 dl dulce de leche karamellusósa (Hér eru upplýsingar um dulce de leche sósuna, hana er hægt að kaupa tilbúna í t.d. Þinni verslun, Hagkaup og fleiri sérverslununum)
  • 1/2 tsk vanillusykur
Eggjahvítur og sykur sett í hrærivélaskálina. Skálin er sett yfir vatnsbað, þ.e. sett ofan í pott með sjóðandi vatni. Blandan er hituð og hrært í stöðugt á meðan með þeytara. Þegar sykurinn er uppleystur og blandan farin að hitna (komin í 65 gráður ef notaður er mælir) er skálin sett á hrærivélina og þeytt þar til blandan er stífþeytt, glansandi og orðin köld (ég þeytti í ca. 10 mínútur). Þá er þeytaranum skipt út fyrir hrærarann. Smjörinu (verður að vera við góðan stofuhita) er bætt út í og hrært á lægstu stillingunni. Á meðan smjörið er að blandast við marengsinn getur litið út fyrir að hann skilji sig en óttist ekki, þetta blandast allt vel saman að lokum! Þegar blandan nær um það bil sömu áferð og majónes má auka hraðan, stilla á millihraða og hræra í smástund til viðbótar. Því næst er slökkt á hrærivélinni og dulce de leche sósunni, saltinu og vanillusykrinum er bætt út í og síðan hrært á lægsta hraða, hækka svo smá saman í millihraða. Nauðsynlegt er að smakka svo til kremið, ég til dæmis bætti við dulce de leche sósu.
Krem

Súkkulaðikrem:

  • 45 g kakó
  • 90 ml sjóðandi vatn
  • 340 g smjör við stofuhita
  • 65 g flórsykur
  • 450 g suðusúkkulaði

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni og leyft að kólna dálítið. Þá er kakó og sjóðandi vatni hrært saman með gaffli þar til blandan er slétt. Smjörið er hrært með flórsykrinum þar til blandan verður létt og ljós, í minnst 5 mínútur. Því næst er súkkulaðinu hrært saman við blönduna og í lokin er kakóblöndunni hrært út í kremið. Ef kremið er þunnt þá er gott að geyma það í kæli í smástund til að það þykkni.

IMG_0312

Tertan sett saman:
Einn kökubotn er lagður á kökudisk og góðu magni af marengskremi er smurt á botninn. Þetta er endurtekið með hina tvo botnana. Í lokin er restinni af kreminu smurt utan um kökuna alla. Þá er kakan sett í kæli í ca. 20 mínútur þar til kremið hefur stífnað dálítið. Því næst er súkkulaðikreminu smurt utan um kökuna og kakan sett í kæli í nokkra tíma (best yfir nóttu) til að brjóta sig. Gott er að taka kökuna út allavega einum tíma áður en hún er
borin fram.
IMG_0294
Súkkulaðiterta með saltri karamellu
IMG_0293

Blaut súkkulaðikaka með glóaldini


súkkulaðikaka með glóaldini

Í æsku þegar ég átti að velja átti appelsínu eða epli í „Fram, fram fylking“ þá valdi ég alltaf epli. Alla gagnfræðiskólagöngu mína, sem var fyrir tíð skólamötuneyta, þá borðaði ég langloku og drakk Svala með eplabragði í hádeginu. Enn þann dag í dag held ég upp allt með eplabragði, hvort sem það eru eplakökur, eplahlaup, epladrykkir, eplasorbet eða annað slíkt og forðast flest með appelsínubragði. Þess vegna hafði ég ekkert of miklar væntingar til þessarar appelsínusúkkulaðiköku. Hins vegar þá hljómar blaut súkkulaðikaka með eplabragði ekkert sérstaklega vel þannig að ég gaf appelsínukökunni séns! Ég sá ekki eftir því! Þessi kaka er algjört sælgæti, hún minnir á gömlu og góðu kattartungurnar. Algjört hnossgæti með þeyttum rjóma! Ég var ekki ein um að finnast þessi kaka góð. Ég smakkaði eina sneið og bauð svo Vilhjálmi og þremur vinum hans upp á köku. Ég hafði varla snúið mér við þegar þeir höfðu klárað alla kökuna og voru afar sælir og sáttir. 🙂

IMG_9596

IMG_9615

Ef ég vík að nafninu á kökunni þá var að finna lítið kver í bókasafni langömmu minnar sem ber heitið „Orð úr viðskiptamáli eftir orðanefnd verkfræðingafélagsins“ og er frá árinu 1927. Þar eru íslenskar kjarnyrtar þýðingar á nýmóðins orðum. Það er gaman að skoða þessa bók, margar þýðingar hafa náð að festast í sessi í málinu okkar, aðrar ekki. Í bókinni fengu ávextir einstaklega fallegar þýðingar sem því miður hafa ekki náð að skjóta rótum í tungumálinu. Dæmi um þetta eru:

  • appelsína: glóaldin
  • mandarína: gullaldin
  • ananas: granaldin
  • banani: bjúgaldin
  • melóna: tröllaepli
  • tómatur: rauðaldin

„Súkkulaðikaka með glóaldini“, er þetta ekki mikið fallegra en „súkkulaðikaka með appelsínu“? 🙂 Önnur orð sem ég er hrifin af úr bókinni eru: marmelaði: glómauk og servíetta: smádúkur eða mundlína. Mér finnst að við ættum að taka okkur saman og innleiða þessi fallegu orð í íslenskuna! 😉 En burtséð frá því þá verða allir súkkulaðiunnendur að prófa þessa dýrðlegu köku!

IMG_9548

Uppskrift

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (bragðlaus)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • safi úr 1 appelsínu (ca. 1 dl)
  • fínrifið hýði af 1 appelsínu
  • 3 dl hveiti
  • 4 1/2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur

IMG_9551

Ofn hitaður i 200 gráður við undir- og yfirhita. Sykur, egg, olía og brædda smjörið hrært vel saman. Því næst er appelsínusafa og appelsínuhýði bætt út í. Gætið þess að rífa hýðið grunnt, ekki taka með hvíta lagið af appelsínunni. Þá er hveiti, kakói og vanillusykri sigtað út í og blandað varlega saman við deigið. Smelluform smurt að innan (ca. 24 cm) og deiginu hellt í formið. Kakan er bökuð við 200 gráður við undir- og yfirhita í um það bil 18-22 mínútur. Athugið að kakan á að vera blaut í miðjunni. Kakan er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_9608

IMG_9604

Maríukaka


Maríukaka

Í dag er frábæra mamma mín sextug – til hamingju elsku mamma! 🙂 Í tilefni þess var mamma með brunch í gær fyrir nánustu vini og fjölskyldu.

mamma afmæli2

Hér erum við mamma í dag og fyrir fjörtíu árum! 🙂

Tvær blómarósir í afmælinu, yngstu barnabörnin Bára Margrét 4 ára og Jóhanna Inga 8 ára.

IMG_0027Og dásamlega fallegar bóndarósir sem mamma fékk á afmælinu.

IMG_0087

Ég útbjó þrennt á brunch borðið. Það voru eggja- og beikonmúffurnar sem ég setti inn uppskrift af í gær.

IMG_9924

Auk þess sem ég gerði tvær tegundir af kökum. Kökurnar skar ég í litla bita sem henta vel á svona smáréttahlaðborð. Annars vegar gerði ég franska súkkulaðiköku með súkkulaðikremi. Skotheld uppskrift sem klikkar aldrei, þessa uppskrift er að finna hér. Uppskriftina gerði ég tvöfalda og þá smellpassaði hún í venjulega ofnskúffu og gaf 80 litla kökubita.

IMG_9896

Þar sem súkkulaðikakan er fremur blaut er gott að setja hana í kæli í smá tíma áður en hún er skorin.

IMG_9953Með því að skera kökuna kalda verða bitarnir fallegri.

IMG_9956Það er líka gott að hafa í huga að láta jarðaberin eins seint og hægt er ofan á kökuna því jarðaber verða fljótt slepjuleg ofan á kökum og smita þá vökva út frá sér.

Hins vegar gerði ég köku sem mamma lét mig fá uppskrift að, Maríuköku. Þetta er ljúffeng kaka með pekanhnetum og karamellubráð. Ég gerði þessa uppskrift tvöfalda og þá passaði hún í ofnskúffu. Ég skar bitana aðeins stærri en af súkkulaðikökunni og fékk um það bil 55 bita.

IMG_9919Mamma útbjó veglegt og gómsætt brunch-borð en á því var að finna meðal annars:

IMG_9947

IMG_9998

Eins og ég sagði þá tvöfaldaði ég Maríukökuna og bakaði hana í stórri ofnskúffu. Hér að neðan gef ég hins vegar upp einfalda uppskrift sem passar í venjulegt 24 cm smelluform.

IMG_9920

Maríukaka – uppskrift:

  • 3 egg
  • 1 dl sykur
  • 4 msk smjör
  • 100 g gott dökkt súkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 1/2 dl hveiti

ofan á kökuna:

  • 4 msk smjör
  • 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk rjómi
  • 1 pk pecanhnetur
  • 100 g gott dökkt súkkulaði, saxað (ég sleppti því reyndar í þetta skiptið)

IMG_9851

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur þeytt vel saman. Á meðan er súkkulaði og smjör brætt varlega saman í potti, blanda er svo kæld dálítið. Því næst er henni bætt út eggjablönduna og þeytt vel saman. Að lokum eru þurrefnin sigtuð út í blönduna og blandað varlega saman við.  24 cm smelluform smurt að innan og deiginu hellt í formið. Bakað við 175° í 17 mínútur.

Á meðan er smjör, púðursykur og rjómi hitað í potti þar til blandan fer að „bubbla“ og þykkist dálítið. Þegar kakan hefur bakast í 17 mínútur er hún tekin út úr ofninum og pekanhnetum dreift yfir hana, annað hvort í heilu eða saxaðar. Þá er karamellubráðinni hellt yfir kökuna og bakað í 17 mínútur til viðbótar. Um leið og kakan kemur út úr ofninum er súkkulaðinu stráð yfir kökuna.

IMG_9854

IMG_9858

IMG_9921

Hjónabandssæla


Hjónabandssæla

Þegar ég bjó í Svíþjóð féll ég fyrir mörgum vörum í Iittala merkinu. Ekki skemmdi fyrir að í Gustavsberg, rétt fyrir utan Stokkhólm, er outlet með Ittala vörum meðal annars. Núna eru komnar svo dásamlega fallegar skálar frá Iittala í merkinu Kastehelmi.

kastehelmi-550x276Litirnir eru líka svo fallegir, skemmtilegt að bera fram eitthvað gómsætt í svona fallegum skálum.

The-Kastehelmi-Bowl-from-Iittala-1Kakan sem ég ætla að gefa uppskrift af er ekkert sérstaklega falleg og passar nú ekki í þessar skálar – en góð er hún! Þegar ég var lítil var tvennt sem ég útbjó reglulega, það var karamella (hver gerði það ekki?) og hjónabandssæla. Uppskriftin sem ég notaði núna er ekki eins og sú sem ég notaði áður fyrr. Satt best að segja þá var ég ekki með neina sérstaka uppskrift í huga þegar ég bakaði hjónabandssæluna að þessu sinni heldur miðaðist hún við það hráefni sem ég átti til. Sykurinn var búinn (já, ég nota hvítan sykur – látið handtaka mig! 😉 ), en ég átti dálítið af muscovado sykri, dálítið af púðursykri, dálítið af kókosmjöli. Ég kláraði úr öllum þessum pokum auk þess sem ég kláraði haframjölið sem ég átti. Ég réð því ekki yfir hlutföllunum sjálf heldur réðust þau af því sem ég átti. Jafnframt hafði ég hugsað með að nota egg í uppskriftina, þó það sé ekki alltaf gert í hjónabandssælu, en gleymdi því. Oftast er notuð rabbabarasulta á hjónabandssælu en ég notaði blandaða berjasultu. Ég renndi því frekar blint í sjóinn með þessa uppskrift og var óviss með hvort hún myndi lukkast vel en … kakan varð stórgóð!

Uppskrift:

  • 220 g haframjöl
  • 250 g hveiti
  • 100 g kókosmjöl
  • 150 g púðursykur
  • 120 g muscovado sykur (eða hrásykur)
  • 250 g smjör
  • blönduð ávaxtasulta (ég notaði ca. 1 -1.5 dl) eða rabbabarasulta

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Öllum hráefnunum blandað í skál, mér finnst best að nota hendurnar, hnoðað í slétt deig. Kökuform, ca. 30×25 cm, er smurt. Um það bil 3/4 af deiginu er þrýst ofan í formið. Sultu smurt yfir kökuskelina. Því næst er restinni af deiginu dreift óreglulega yfir sultuna. Bakað við 200 gráður í ca. 25 mínútur.

IMG_9664