Blómkálssúpa með stökkum beikonbitum


IMG_9363

Ég gat ekki hætt að mynda matinn í kvöld. Það var ekki af því að hann væri svona rosalega girnilegur að sjá heldur var það nýja stellið mitt sem ég fæ ekki nóg af! Green gate matarstellin og fylgihlutir er frá Danmörku. Ég sá þau oft í verslunum þegar ég bjó í Svíþjóð og langaði stöðugt í hluti frá þessu merki. Það varð þó aldrei úr neinu, aðallega vegna þess að ég gat ekki ákveðið mig hvað mig langaði í, allt var svo fallegt! Ég meina, flettið þessum sumarbæklingi! Hversu fallegt er ekki bókstaflega allt í þessum lista! 🙂 Ég uppgötvaði nýlega að það er hægt að fá þessar vörur hjá Cup Company hér á Íslandi. Það varð því loksins úr að ég eignaðist nokkrar vörur úr þessu stelli. En ó hvað það erfitt að velja! Að lokum varð úr að ég valdi bara sitt lítið af hverju. Það er nefnilega svo gaman að blanda þessu stelli saman. Ég er búin að handfjatla og dáðst að bollum, diskum og skálum og sveiflast fram og tilbaka í hvað sé uppáhalds hjá mér! Í dag var það þessi skál sem ég bar blómkálssúpu fram í. Hún er dásamlega rómantískt og diskurinn er líka yndislega fallegur! Ég fattaði þegar ég var búin að mynda allt bak og fyrir að ég hafði varla tekið mynd af sjálfri súpunni, maturinn varð allt í einu aukaatriði! 🙂 En súpan er afskaplega einföld og góð, beikonið setur klárlega punktinn yfir i-ið. Saltið í beikoninu gefur súpunni svo gott bragð, það er ómissandi. Fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífstílnum þá fellur þessi súpa beint í  LKL uppskriftaflokkinn.

IMG_9364

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • ólífuolía eða smjör
  • 1 litill gulur laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2 dl 18% sýrður rjómi
  • salt & hvítur pipar
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk
  • beikon, skorið í litla bita og steik þar til það er stökkt

IMG_9361

Blómkálið er skolað og skorið niður í passlega stór blóm. Laukur og hvítlaukur saxað fínt og síðan steikt í potti þar til laukurinn verður mjúkur, hann á ekki að brúnast. Þá er vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetistening og blómklálinu bætt út í. Látið malla þar til blómkálið er orðið mjúkt. Þá er blómkálið mixað með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt. Því næst er súpan smökkuð til með salti, pipar og sambal oelek chilimauki. Súpan er borin fram með stökkum beikonbitum.

IMG_9373Hversu fallegt er svo að komast til botns í súpunni?! 🙂

IMG_9377

Sætkartöflusúpa með kjúklingi


IMG_8803

Við áttum góða helgi með frábærri fermingarveislu, ljúfum kvöldverði með góðum vinum á veitingastaðnum Mar og sundferð. Svo slökuðum við bara almennt vel á í dásamlega veðrinu sem hér hefur verið undanfarið og ekkert lát er á. Ósk er hins vegar á ferðalagi um Þýskaland og Pólland með Versló. Hún er í valáfanga sem heitir Helförin og þau eru að skoða útrýmingarbúðir meðal annars í Auschwitz. Þetta er örugglega einstök upplifun fyrir krakkana.

Ég rak augun í að Snickerskakan hér á síðunni er komin yfir tvö þúsund deilingar, „2K“, það er alveg með ólíkindum! Það er klárt mál að vinsælustu uppskriftirnar á síðunni minni eru alltaf girnilegar kökuuppskriftir. Ég ætla nú samt „bara“ að koma með uppskrift af súpu í dag! Þessi súpa er svolítið skemmtileg því hún er búin til úr kjúklingaleggjum. Grunnurinn er hollur og góður úr meðal annars sætum kartöflum og gulrótum. Þetta er afar bragðgóð og saðsöm súpa sem sló gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

  • 6 kjúklingaleggir (ca. 600 g)
  • 1 stór kartafla, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2-3 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 gulur laukur, skorin í litla bita
  • 5 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla (ca. 400 g), afhýdd og skorin í litla bita
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í bita
  • ferskur engifer, ca. 3 cm, skorin í litla bita
  • ca. 1 líter vatn
  • smjör
  • 3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 kjúklingatengingar
  • 1 tsk karrí
  • 1 tsk Ground Cumin
  • 1/2 stk hvítlauksduft
  • 1 tsk meiram (marjoram) – krydd
  • 1 tsk oregano
  • salt og pipar

IMG_8799

Góður biti af smjöri bræddur í stórum potti og karrí, cumin og hvítlaukskryddi bætt út í þannig að það steikist í örstutta stund. Þá er kjúklingaleggjunum bætt út í og þeir steiktir í smástund þar til kryddin fara að ilma dásamlega, hrært vel í þeim á meðan. Þá er öllu grænmetinu bætt út í fyrir utan hvítlaukinn og steikt í stutta stund. Því næst er vatni hellt út í pottinn þannig að það nái yfir grænmetið og kjúklinginn, ég notaði ca. 1.2 líter. Þá er hvítlauknum bætt út ásamt engiferbitunum auk þess sem oregano og meiram er bætt út í ásamt kjúklingateningum. Látið malla þar til kjúklingurinn fer að losna af beinunum (þá má bæta við vatni ef súpan verður of þykk).

Þá eru kjúklingaleggirnir veiddir upp úr og kjötið losað frá beinunum og það skorið í minni bita ef með þarf.  Súpan með grænmetinu er maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til súpan er slétt og bitalaus. Þá er kjúklingabitunum bætt út í ásamt rjómanum og súpunni leyft að malla í smástund í viðbót. Smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef þarf.  Súpan er borin fram með grófsöxuðu kóríander eða steinselju.

IMG_8805

Tómatsúpa með pasta


IMG_8064Ég sagði frá því í gær að ég hefði gert tvenns konar ljúffengar súpur. Hér kemur uppskriftin af þeirri seinni. Það er pasta í þessari súpu og í raun getur maður spurt sig hvenær slík súpa hættir að vera súpa og er orðin pastaréttur. Grunnurinn er alveg sá sami nema að „sósan“ í súpunni er þynnri og það er meira magn af henni heldur en ef gerður er pastaréttur með svipuðu hráefni. Ég átti töluvert af rjóma eftir bolludaginn og notaði alveg þrjá desilítra af rjóma í súpuna. Kannski ekki það hollasta en ó svo gott! 🙂 Þetta er virkilega góð súpa og ákaflega gott að nota út í hana bæði beikon og fetaost. Ég mæli með þessari!

Uppskrift:

  • 3 dósir tómatar í dós (ég valdi með basilku og oregano)
  • 3 skarlottulaukar, fínsaxaðir (líka hægt að nota hluta úr venjulegum lauk)
  • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía
  • 7 dl vatn
  • 1 dl rjómi (ég notaði notaði reyndar 3, mæli með því!)
  • 2 grænmetisteningar (eða 2 tsk grænmetiskraftur í lausu)
  • 1 1/2 msk sykur
  • salt og pipar
  • cayenne-pipar
  • jurtakrydd eftir smekk (t.d. basilka og oregano)
  • 4 dl pasta (ég notaði makkarónur)
  • beikon, skorið í bita og steik þar til stökkt
  • fetaostur (án olíu), mulið

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin glær. Þá er kryddunum bætt út í og þau látin malla í stutta stund með lauknum ásamt smá hluta af vatninu. Því næst er tómötunum bætt út í, grænmetiskrafti auk sykursins og restinni af vatninu. Súpan er látin malla í hálftíma. Þegar ca. 15-20 mínútur eru liðnar af suðutímanum er súpan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél (hægt að sleppa en mér finnst það betra) og svo er ósoðnu pastanu bætt út í. Í lok suðutímans er súpan smökkuð til með meira kryddi og rjómanum bætt út í. Súpan er borin fram með steiktum beikonbitum og muldum fetaosti.

IMG_8070

Sjóræningjasúpa


IMG_0362Ég veit ekki hvað er að gerast með mig og súpur þessa dagana. Á stuttum tíma hef ég gert tvenns konar súpur sem ég var mjög hrifin af, ég sem er alltaf að tala um að ég sé engin súpumanneskja! Hér gef ég upp uppskriftina af annarri þeirra. Þessi súpa er matarmikil og afar bragðgóð. Brauðteningarnir setja punktinn yfir i-ið og reyndar finnst mér ferski kóríanderinn líka gera það – hann setur alltaf punkt yfir i-ið í hjá mínum bragðlaukum! 🙂 Ég notaði uppskrift sem ég fann á sænskum vef en breytti henni frekar mikið. Til dæmis voru ekki sætar kartöflur í upprunalegu uppskriftinni en mér fannst það koma mjög vel út. Ég var eitthvað að velkjast með nafnið á súpunni, fannst frekar óþjált að kalla hana „súpu með hakki, kartöflum og sætum kartöflum“! Ég ákvað því án mikillar umhugsunar að kalla hana Sjóræningjasúpu, hvers vegna ekki?! 🙂 Líklega var ofarlega í huga mér bókin hans Jóns Gnarrs, Sjóræninginn, sem er ég var að klára að lesa og fannst frábær.

IMG_0385

Uppskrift:

  • 5-8 kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 sæt kartafla, flysjuð og skorin í bita
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía
  • 1.2 líter nautakraftur
  • 1 gul paprika, skorin í bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 500-600 g hakk
  • 1 tsk cumin
  • 2 tsk paprikuduft
  • 2 tsk oregano
  • salt og pipar
  • 2-3 dl tómatasósa (ég notaði Jamie Oliver tómat/basiliku pastasósu, 1 krukku)
  • 2 tsk sambal oelek eða annað chilimauk
  • brauðteningar (t.d. með hvítlauk og osti)
  • ferskt kóríander (má sleppa)

Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr olíu í stórum potti þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er hakkinu bætt út í og það steikt. Því næst er paprikunni bætt út í ásamt tómatsósunni og kryddunum. Svo er nautakraftinum bætt út í. Suðan er látin koma upp og þá er kartöflubitarnir og sætu kartöflubitarnir settir út í og súpan látin malla í ca. 15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar. Súpan er smökkuð til með salti, pipar, sambal oelek og fleiri kryddum ef þarf. Súpan er borin fram með brauðteningum og fersku kóríander.

Fyrir þá sem vilja búa til eigin brauðteninga sem eru auðvitað enn betri en þessir tilbúnu þá er hér uppskrift:

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

IMG_0387

Tælensk gulrótarsúpa


IMG_7868Helgin hefur liðið í rólegheitum. Jóhanna Inga er búin að eyða allri helginni með Kötlu vinkonu sinni, þær gistu saman báðar næturnar. Í gær fóru þær í Krakkahöllina og deginum í dag eyddu þær í snjóhúsagerð ásamt Vilhjálmi. Ég fór hins vegar með skólasystrum mínum út að borða í gærkvöldi, svo sáum við Macbeth og enduðum á bar fram eftir nóttu þar sem mastersgráðunum okkar var fagnað! 🙂

En að uppskrift dagsins, aldrei þessu vant er komið að súpu-uppskrift! Þessi súpa er algjör snilld, hún er hollustusprengja sem hentar vel á flensutímum og er notaleg að gæða sér á í skammdeginu. Í súpunni eru einungis örfá hráefni sem eru fremur ódýr, hverju öðru hollara en síðast en ekki síst er súpan ofsalega bragðgóð. Þessa verðið þið bara að prófa!

Uppskrift f ca. 3-4:

  • 500 g gulrætur
  • 1 gulur laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 rautt chili
  • 2 cm ferskt engifer
  • 400 ml kókosmjólk (1 dós)
  • 6 dl vatn
  • salt & pipar
  • olía til steikingar
  • ferskt kóríander (má sleppa)

Gulrætur flysjaðar og skornar í ca. 1 cm sneiðar. Laukur og hvítlaukur saxaður fínt. Chili fræhreinsað og saxað smátt. Olía sett í pott og laukur, hvítlaukur og chili steikt þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er gulrótum bætt út í ásamt vatninu. Suðan látin koma upp og súpan látin malla þar til gulræturnar verða mjúkar. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súpan maukuð (auðveldast með töfrasprota beint í pottinn en líka hægt að nota matvinnsluvél). Þá er kókosmjólk bætt út í ásamt engifer sem er rifinn með rifjárni. Súpan látin ná suðu og malla í dálitla stund, kryddað vel með salti og pipar. Gott er að bera fram súpuna með grófsöxuðum kóríander.

Brauðið með súpunni er ósköp hversdagslegt en samt svo gott. Ég nota venjulegt heimilisbrauð og dreypi á það dálítilli ólífuolíu, þá set ég tómatsneiðar, því næst rifinn mozzarellaost og að lokum dreifi ég yfir brauðið ítölsku kryddi ásamt grófsöxuðu fersku kóríander og steinselju. Hita í ofni við 230 gráður þar til osturinn er farinn að dökkna.

IMG_7861

Mexíkósk kjúklingasúpa með heimagerðum tortillas flögum


IMG_7362Síðastliðnir tveir sólarhringar hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og annasamir í lífi mínu. Ég tók aftur upp þráðinn í vikunni við ritgerðina eftir að ég fékk hana tilbaka úr prófarkalestri. Smá leiðréttingar og fínpússun er endalaust verk einhvernveginn, ég hefði aldrei trúað því hvað það er tímafrekt. Ég fékk líka ritgerðina seint úr prófarkalestri þannig að þetta endaði með því að ég vakti alla aðfaranótt fimmtudagsins og vann í ritgerðinni til hádegis. Þá brunaði ég vestur í bæ í Háskólaprent og hélt að það yrði fljótleg för. Annað kom á daginn. Ferlið við prentunina er langt og ekki sérlega skemmtilegt, sérstaklega ef maður er ósofinn! Til að gera langa sögu stutta þá var ég þar frá klukkan tvö um daginn til klukkan átta um kvöldið! Það þarf að laga uppsetningu, prenta út, lesa yfir, laga, prenta út, lesa …..! Ég get með sanni sagt að ég var orðin stjörf af þreytu og komin með algjörlega nóg af ritgerðinni minni þegar ég kom heim um kvöldið. En í prentun fór hún blessunin! Dagurinn í gær var ekki síður annasamur. Ég þurfti að taka húsið í gegn, kaupa inn og búa til veitingar fyrir 30 manna afmælispartý Óskar um kvöldið. Síðan þurfti ég að sækja ritgerðina mína úr prenti og skila auk þess sem ég átti að mæta í atvinnuviðtal! Til að gera langa sögu stutta þá vorum við hjónin mætt á Kaffi Rósenberg klukkan hálfníu  í gærkvöldi (okkur var úthýst á meðan partýinu stóð), meistararitgerðinni skilað, húsið í toppstandi, veitingar á borðum og ég komin með vinnu! Ágætis dagsverk það! 🙂

Recently Updated1

Talandi um Kaffi Rósenberg þá verð ég að mæla með þeim stað. Við hittum vinafólk okkar þar og snæddum með þeim kvöldverð. Maturinn kom á óvart, var algjörlega frábær og á mjög sanngjörnu verði. Í kjölfarið hlýddum við á dásamlega tónleika. Þar var í fararbroddi Gunnar Leifsson sem spilar listavel á kontrabassa ásamt ótrúlega hæfileikaríkum gítarleikurum og klarinettleikara. Tónleikarnir eru aftur á dagskrá í kvöld, ég mæli sannarlega með þeim! Við áttum afar skemmtilega kvöldstund með vinum okkar og gátum fagnað því að ég væri búin að skila meistararitgerðinni og komin með starf! Ég fékk starf á skólabókasafni Seljaskóla. Það er ákaflega spennandi og jafnframt áskorun því á safninu hefur enginn fagaðili starfað um langt skeið. Ekki skemmir fyrir að ég er tvær mínútur að ganga í vinnuna!

En að uppskrift dagsins! Þegar ég var að skoða uppskriftirnar frá Inu Garten þá rakst ég á þessa girnilegu mexíkósku kjúklingasúpu. Ég hef ákaflega sjaldan eldað slíka súpu þar sem ég er jú lítið fyrir súpur svona almennt. En þegar ég sá þessa súpu þá voru það flögurnar sem vöktu forvitni mína. Í stað þess að nota nachos þá býr Ína til flögur úr venjulegum tortillas kökum. Það kom ótrúlega vel út, æðislega gott! Súpan var líka rosalega góð en reyndar þá breytti ég henni svo mikið að hún getur ekki kallast súpan hennar Ínu lengur. Þessi uppskrift sló í gegn hér heima, við mælum með henni! 🙂

Uppskrift:

Heimagerðar stökkar tortillas flögur

  • burritos eða tortillas pönnukökur
  • ólífuolía
  • maldon salt
  • reykt papriku krydd eða broddakúmen krydd (Ground Cumin)

IMG_7351

Bakarofn stilltur á grill á 225 gráður. Burritos eða tortilla pönnukökur smurðar á báðum hliðum með ólífuolíu og þær kryddaðar með maldon salti og reyktu paprikukryddi eða broddakúmeni (ég notaði reyndar bæði kryddin). Því næst eru þær skornar í ræmur (ég notaði pizzuhníf). Ræmunum er svo raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og grillað í ofni við 225 gráður þar til þær eru passlega dökkar. Það þarf að fylgjast vel með því ræmurnar dökkna fljótt, tekur bara örfáar mínútur. Þegar þær eru passlega dökkar og stökkar er ofnplatan tekin út og ræmunum snúið við og grillað aftur þar til seinni hliðin er passlega dökk.

IMG_7357

Mexíkósk kjúklingasúpa:

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður fínt
  • 4 gulrætur, skornar í litla bita
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 4 hvítlauksrif
  • 1.5 líter kjúklingasoð
  • 3 dósir niðursoðnir, saxaðir tómatar (ég notaði bragðbætta með basilku og chili)
  • 1 rauður chili, fræhreinsað og fínsaxaður (má sleppa)
  • 3 dl matreiðslurjómi
  • 100 g rjómaostur (ég notaði með sweet chili)
  • 1 tsk broddakúmen (krydd)
  • 1 tsk kóríander (krydd)
  • salt og pipar
  • ferskt kórínder, saxað gróft (má sleppa en mér finnst það ómissandi!)
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Ólífuolía hituð í stórum potti, lauk, papriku, chili og gulrótum bætt út í og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn hefur brúnast er kjúklingnum bætt út í og hann kryddaður með broddakúmeni og kóríander kryddi. Þegar kjúklingurinn er orðin hvítur er hvítlauki bætt út í og steikt í stutta stund til viðbótar. Þá er kjúklingasoði bætt út í pottinn ásamt, tómötum, matreiðslurjóma, rjómaosti, salti og pipar. Súpan látin malla í allavega 20-25 mínútur. Smökkuð til með kryddunum.

Súpan er svo borin fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og heimtilbúnum tortillaflögum að ógleymdu fersku kóríander!

IMG_7363

Fiskisúpa með kókos og karrí


IMG_6710Á milli jóla og nýárs voru tveir virkir dagar og ég var með matarboð báða dagana! Ég er búin að hlakka svo til að losna við ritgerðina af bakinu, geta átt eitthvað félagslíf aftur og boðið fólki í mat! Annað kvöldið komu bræður mínir tveir og mágkonur í mat og við spiluðum fram eftir nóttu. Ég ákvað að hafa fiskisúpu eftir þungar máltíðir jólanna. Þó ég sé ekki súpumanneskja þá var ég svo hrifin af fiskisúpunni að vestan að ég ákvað að reyna að útfæra einhverja svipaða uppskrift. Ég keypti inn hráefni sem ég taldi að pössuðu vel saman og mallaði svo súpuna. Mér fannst súpan verða rosalega góð og það hljómaði á gestunum að þeir væru sammála mér. 🙂 Ég hripaði niður það sem ég gerði, ég vona að ég geti komið því sæmilega skýru frá mér þannig að hægt sé að endurtaka leikinn. Ég notaði skötusel og lúðu en það er hægt að nota hvaða fisk sem er, helst þó fisk sem er þéttur í sér.

Talandi um fiskisúpuna að vestan þá átti ég leið framhjá veitingastað um daginn sem selur súpu og brauð í hádeginu. Í glugganum á veitingastaðnum blasti við mér þetta stóra plakat með svona líka girnilegri súpu og brauði!

súpa og brauðVeitingastaðurinn hefur greinilega ákveðið að fá myndina mína ,,lánaða“ og prenta hana á auglýsingaspjald á þess að spyrja kóng, prest né mig! Ég átta mig á að þegar myndir eru settar á netið getur hver sem er notað þær og ég hef ekkert á móti því að fólk nýti sér myndir frá síðunni minni til persónulegra nota í tengslum við uppskriftirnar. Hins vegar dreg ég mörkin við að myndirnar séu notaðar í auglýsingagerð án þess að ég sé spurð leyfis. Mér finnst slík notkun vera lélegir viðskiptahættir. Ef fyrirtæki nota ekki eigin myndir við auglýsingagerð þá er venjan að þau nýti sér myndabanka og greiði fyrir notkun mynda þaðan. Ég reikna allavega fastlega með að ég fái vel matreidda fiskusúpa að vestan á þessum veitingastað endurgjaldslaust hvenær sem er! 🙂

Uppskrift f. 8

  • 600 g skötuselur, skorin í munnbita
  • 600 g lúða, skorin í munnbita
  • 500 g rækjur
  • 1 líter fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn)
  • 2 dl hvítvín (eða Mysa)
  • 3-5 dl rjómi
  • 3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
  • smjör til steikingar
  • 1 púrrlaukur, saxaður meðalgróft
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 3-4 gulrætur, skorin í bita
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 3 tsk madraskarrí (eða venjulegt karrí)
  • 2 msk tómatmauk
  • fersk basilika, söxuð meðalgróft
  • ferskur graslaukur, saxaður fínt
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 dósir kókósmjólk
  • Salt og pipar
Fiskisoði, hvítvíni og rjóma hellt í stóran pott, skarlottulauk og hvítlauk bætt út í. Suðan látin koma upp og leyft að malla í ca. 10-15 mínútur. Á meðan er smjör sett á pönnu og grænmetið steikt á pönnunni ásamt karríinu og tómatmaukinu. Grænmetinu er svo bætt út í súpupottinn ásamt kókosmjólkinni, graslauk og basiliku. Bragðbætt með salti, pipar og meira karrí ef vill, einnig er hægt að bæta út í meiri fiskikrafti ef með þarf. Leyft að malla í dálitla stund. Þá er fisknum bætt út í og hann látin malla í súpunni í örfáar mínútur eða þar til hann er soðin í gegn. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjunum bætt út í. Þegar súpan er borin fram er fersku kóríander stráð yfir súpuna.
IMG_6707

Ofnbakaður hafragrautur með rabbabara


Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið fyrir hafragraut, eiginlega borða ég hann ekki en öfunda alla þá sem borða hafragraut því hann er svo hollur og staðgóður! Flestum í fjölskyldunni finnst hann góður, þær systur fá sér oft hafragraut á morgnana. En svo sá ég á netinu hugmynd af ofnbökuðum hafragraut sem kveikti áhuga minn á að gera einhverjar skemmtilegar útfærslur af grautnum. Það lítur kannski út fyrir að vera tímafrekt að útbúa grautinn í ofni en svo er alls ekki, ég tók tímann! Ég var 2 mínútur að útbúa grautinn (með forskornum rabbabara úr frysti, aðeins lengur ef epli eru skorin niður), svo er honum bara hent inn í ofn og á meðan er hægt að vekja börnin og hafa alla til á meðan grauturinn bakast í ofninum í ca. 15 -20 mínútur. Það er líka hægt að búa hann til kvöldinu áður og geyma í ísskáp yfir nóttu, setja bara álpappír eða plastfilmu yfir hann. Krökkunum fannst ofnbakaði hafragrauturinn algjört sælgæti! Ósk sagði að grauturinn bragðaðist ekki eins og hafragrautur, meira eins og nammi! Meira að segja Vilhjálmi, sem hefur hingað til ekki verið mjög hrifinn af hafragraut, fannst hann æðislegur. Ég prófaði nokkrar útfærslur af grautnum. Í eitt skiptið notaði ég frosin bláber í botninn, en betra fannst okkur að nota rabbabara eða epli. Við eigum líka eftir að prófa t.d. frosin hindber, það er örugglega ljúffengt! Það er hægt að leika sér enn meira með þennan graut, td. bæta út í hann smá kókosmjöli, döðlum, hnetum eða hunangi. Eins er hægt að bera hann fram og borða með kotasælu, jógúrt eða AB-mjólk. Ef það er afgangur af grautnum þá er hægt að geyma hann í ísskáp og borða seinna um daginn, kaldan eða upphitaðan. Uppskriftin hér að neðan passar fyrir eina svanga sál!

Uppskrift:

  • 1 dl haframjöl
  • 3/4 dl mjólk
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 egg
  • 1/2 tsk kanill
  • 1/2 banani
  • rabbabari eða epli eða hindber eða bláber eða ……

Ofninn er hitaður í 220 gráður. Í botninn á litlu eldföstu móti eða skál er lagður smátt skorinn rabbabari (nú eða smátt skorin epli, líka hægt að skera þau í skífur). Haframjöli, mjólk, eggi, lyftidufti, kanil og banana blandað saman í skál með gaffli (banani stappaður í leiðinni) og helt yfir rabbabarann. Bakað í ofni við 220 gráður í 15-20 mínútur (fer dálítið eftir hvernig formið er og þá hversu þykkt lag af graut er ofan á ávöxtunum, fer líka eftir hversu stökkt yfirborð maður vill)

Laxasúpa


Þessi súpa komst inn í gegnum súpuhliðið hjá mér! Þetta er sem sagt súpa sem mér finnst afar góð þó ég sé kresin á súpur. Laxinn í súpunni kemur rosalega vel út en mikilvægt er að ofelda hann ekki. Eftir að laxinn er kominn ofan í súpuna tekur bara nokkrar mínútur fyrir hann að verða tilbúinn. Fenniku fékk ég í Nettó í Mjóddinni. Ég mæli með því (fyrir þá sem búa réttu meginn í borginni! 🙂 ) að kaupa laxinn í Fiskbúð Hólmgeirs í Mjóddinni og skottast svo yfir í Nettó sem er við hliðina á og kaupa grænmetið og restina af hráefninu þar. Það er yfirleitt mjög gott úrval af grænmeti og ávöxum í þeirri verslun. Þetta er fremur mild súpa, ekkert af hráefninu er sérstaklega bragðsterkt. Ég vil hafa súpur frekar bragðmiklar og notaði því vel af cayanna piparnum en það er smekksatriði, súpuna þarf að smakka til og krydda eins og hentar hverjum og einum.

  • 800 gr laxaflök, roðflett og skorin i teninga
  • 200 gr rækjur (má sleppa)
  • 1-2 stönglar af sellerí, skorið í strimla
  • 2 gulrætur, skornar í strimla
  • 1 fennika, skorin í strimla
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • smjör til steikingar
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 8 dl fiskisoð
  • smá hvítvín (má sleppa)
  • 5 dl matargerðarrjómi
  • Cajanna pipar
  • maizena mjöl og vatn
  • salt 

Skerið allt hráefnið eins og sagt er til um hér að ofan. Reynið að hafa grænmetisstrimlana svipað stóra. Steikið sellerí og gulrætur í smjöri í nokkrar mínútur, bætið svo við fenniku og púrrlauk og steikið í smástund í viðbót. Bætis svo við tómötum, fiskisoðinu, rjómanum og hvítvíni (ef það er notað). Látið súpuna malla þar til að grænmetið er tilbúið. Hristið saman dálítið maizenamjöl og vatn og bætið út í súpuna, látið suðuna koma upp. Því næst er súpan söltuð og pipruð með cayanna pipar og smökkuð til. Laxinum er bætt út í í örfáar mínútur (hann er mjög fljótt tilbúinn), hrærið ekki í súpunni. Bætið svo rækjum út í þegar súpan er borin fram. Súpuna er hægt að skreyta með fersku dilli og gott er að bera hana fram með góðu brauði, til dæmis focaccia brauði eða þessu fljótlega fimmkornabrauði.

Kjúklingasúpa með eplum, karrí og engifer


Ég skrifaði hér á blogginu um daginn að ég væri engin sérstakur aðdáandi súpa. Þannig að ef að ég set uppskrift af súpum hingað inn þá eru þær einstaklega góðar að mínu mati! Fiskisúpan að vestan er til dæmis dásamlega góð og einn af mínum uppáhaldsréttum. Núna bjó ég til súpu sem klárlega kemst með tærnar þar sem fiskisúpan hefur hælana! Þetta er kjúklingasúpa með eplum, karrí, engifer, chili, kókosmjólk, rjóma og fleira góðgæti. Maður sér í hendi sér að þessi blanda getur varla annað en orðið góð. Sú varð líka raunin, allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja yngstu börnin, þetta er dásamlega góð súpa! Mér finnst mikilvægt með súpur að leyfa þeim að malla frekar lengi, lengur en gefið er upp í uppskriftunum venjulega. Ef þær eru bornar fram sjóðandi heitar og hafa bara fengið að malla stutt þá er hráefnið alls ekki farið að njóta sín og súpurnar geta þá stundum verið bragðdaufar. Nokkrir fjölskyldumeðlimir komu seint heim í kvöldmatinn, þá hafði súpan fengið að standa á hellunni, á mjög lágum hita, í hálftíma. Þá var súpan orðin enn betri, bragðið af hráefnunum fékk að njóta sín og hafði bundist góðum böndum og súpan var passlega heit þannig að hægt væri að njóta hennar án þess að brenna sig á tungunni! Ég mæli því með því að leyfa súpunni að standa drjúga stund áður en hún er borin fram. Mér finnst kóríander alltaf betra og betra, eiginlega finnst mér allur matur sem í er kóríander verða að hátíðarmat. Ekki sleppa kóríandernum í súpunni ef þið eruð jafn hrifin af því og ég! Brauðbollurnar eru með gulrótum og kotasælu og uppskriftina er að finna hér.

Uppskrift f. 4 svanga:

  • 1 msk smjör til steikingar
  • 1 lítill laukur, saxaður fínt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1/4 – 1/2 rautt chili, kjarnhreinsað og saxað fínt
  • 1 msk ferskt engifer, saxað fínt
  • 3 gulrætur, rifnar gróft
  • 2  græn epli, flysjuð og rifin gróft
  • 3 tsk karrí
  • 7 dl kjúklingasoð (3 tsk kjúklingakraftur leystur upp í sjóðandi heitu vatni)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan bragðbættir með basiliku)
  • 1 ferna matreiðslurjómi (5 dl)
  • 900 gr kjúklingabringur
  • hvítur pipar
  • salt
  • kóríander, blöðin söxuð gróft

Hráefnið er saxað og rifið eins og gefið er upp hér að ofan. Kjúklingakraftur útbúinn með því að leysa kjúklingakraft upp í sjóðandi heitu vatni. Laukur steiktur upp úr smjöri í stórum potti þar til að hann er orðin mjúkur. Þá er hvítlauk, chili og engifer bætt út í og steikt með lauknum í stutta stund. Því næst er gulrótum, eplum og karrí bætt út og steikt í um það bil mínútu. Nú er kjúklingasoði bætt út í ásamt niðursoðnum hökkuðum tómötum, suðan látin koma upp og súpan síðan látin malla í 10-15 mínútur.

Á meðan eru kjúklingabringur skornar í jafnstóra bita. Kjúklingi, kókosmjólk og matreiðslurjóma er svo bætt við út í súpupottinn, súpan látin ná suðu og síðan leyft að malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Súpan er smökkuð til með karrí, hvítum pipar, salti og jafnvel cayenna pipar eða chili fyrir þá sem vilja sterkari súpu. Áður en súpan er borin fram er kóríander bætt út í.