Súkkulaði- og bananakaka


Súkkulaði- og bananakaka

Ég get ekki annað en komið mér beint á efninu í dag! Ég bakaði svo svakalega góða köku að það hálfa væri nóg! Hún var svo góð að þegar ég mundaði myndavélina skömmu eftir að kakan kom úr ofninum þá var bara 1/4 eftir af henni! Ef ég reyni að lýsa þessari köku þá er botninn dásamlega djúsí og blautur súkkulaðikökubotn. Bananakakan sem liggur ofan á súkklaðibotninum er mátulega sæt og pínulítið stökk, með ferskum og suðrænum bananakeim, þessi blanda gerir þetta eina þá bestu köku sem ég hef bragðað! Það er svo gott við þessa köku að hún er ekki massív og er líka svo passlega sæt. Það er sko vel hægt að fá sér þrjár sneiðar – hverja á eftir annarri … ekki það að ég hafi gert það samt! Ókei, ókei, ég viðurkenni það!! Ég var satt best að segja búin að halda mér frá sætindum í viku áður en ég, grunlaus um hvað í vændum væri, bakaði þessa köku! Eins og lög gera ráð fyrir varð ég auðvitað að smakka pínulítinn bita af kökunni. Fyrir bloggið sjáið þið til. Áður en ég vissi af var ég búin með þrjár sneiðar, ég gat bara ekki hamið mig, kakan er algjört sælgæti! Þar með var sætindisbindindið rofið með stæl- takk blogg!!

IMG_9531

Athugið að kakan (þ.e. súkkulaðibotninn) er mjög blaut, hún á að vera það. Það er því hálfvonlaust að ætla að færa kökuna á kökudisk. Ég er reyndar svo heppin að eiga frábært kökuform sem er eins og kökudiskur sem smelluforminu er smellt beint á (sést hér). Formið mitt er 26 cm, þess vegna varð kakan hjá mér frekar þunn. Mér fannst það ekkert koma að sök. En ef þið viljið þykkari köku þá er betra að nota 22 cm eða 24 cm form. Þá þarf jafnvel líka að bæta við örfáum mínútum við bökunartímann. Það er líka mikilvægt að hræra, ekki þeyta, deigið í kökuna. Það þýðir að nota á hrærarann á hrærivélina, ekki þeytarann.

IMG_9530

Nú er ég búin að mæra kökuna svo mikið að þið eruð væntanlega komin með miklar væntingar! 🙂 Ég held að kakan standi undir þessum væntingum því allir fjölskyldumeðlimir á okkar heimili kolféllu fyrir kökunni. Pabbi kom í heimsókn og fékk þá eina sneið (hann var sem sagt aaaðeins viljasterkari en ég!) ásamt kaffi (borið fram á sjúklega sæta stellinu frá Cup Company) og hann slóst samstundis í aðdáendalið okkar hinna! Nú þurfa allir að skella í eina svona köku og láta svo vita hvað ykkur finnst! 🙂

Uppskrift:

  • 150 g smjör, brætt
  • 0.5 dl olía (ekki ólívuolía)
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1/4 tsk salt
Súkkulaðikrem:
  • 2 1/2 msk kakó
  • 1 tsk vanillusykur
Bananakrem
  • 1 þroskaður banani, stappaður
  • 1 tsk vanillusykur
Ofn hitaður í 200 gráður við undir og yfirhita. Egg, sykur, olía og brætt smjör hrært saman. Því næst er hveiti og salti bætt út í og hrært saman við deigið. Þá er deiginu skipt í tvo jafna hluta. Kakói og vanillusykri er sigtað út í annan hlutann og blandað varlega saman við deigið. Banana og vanillusykri er bætt út hinn hlutann og blandað vel saman við deigið.

IMG_9515
Smelluform, 24 cm, er smurt og súkkulaðideiginu er hellt í formið, því er smurt vel út í kantana á forminu og jafnað út. Þá er banankreminu hellt varlega yfir súkkulaðideigið og breitt varlega úr því með sleikju án þess að það blandist saman við súkkulaðideigið. Bakað við 200 gráður í ca. 20 mínútur, kakan á að vera blaut. Borin fram með þeyttum rjóma eða ís – við komumst reyndar aldrei svo langt! 🙂

IMG_9532

Hráfæðis brownies og leikur á Facebook


Hráfæðis brownies

Svo bregðast krosstré sem önnur tré … nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði … og svo framvegis! Ég fór sem sagt í eldhúsið og bakaði hráfæðisköku! Eitthvað sem hefur aldrei gerst áður og ég veit ekki hvort það gerist aftur. En ég verð þó að viðurkenna að það var auðvelt að búa til þessa köku (að „baka“ er ofsögum sagt því kakan er jú óbökuð), mjög fljótlegt og jú, hún var bara rosalega góð! Kakan kom á óvart, ég get ekki sagt annað.

Þessi uppskrift af góðri og hollri hráfæðisköku er í stíl við leikinn sem Eldhússögur hrindir úr vör í kvöld og stendur yfir fram til kl. 12 á hádegi á laugardag 4. maí. Einn heppinn lesandi Eldhússagna hlýtur gjafabréf upp á heilsumat (verðmæti 6.900 kr.) í líkamsræktarstöðinni Heilsuborg – bestu líkamsræktarstöðinni í bænum, ég get vottað það! 🙂

Hvað er heilsumat? Heilsumat er góð byrjun þegar einstaklingar hyggjast breyta um lífsstíl en vita ekki hvar eða hvernig er best að byrja. Viðkomandi fyllir út spurningarlista rétt fyrir tímann og í framhaldinu er veitt vönduð ráðgjöf hjúkrunar- eða næringarfræðings um heilsufar, hreyfingu og næringu. Innifalin er mæling í líkamsgreiningartæki, mældur er blóðþrýstingur sem og fleiri mælingar. Mælingar á þyngd og samsetningu líkamans eru gerðar með viðnámsmæli. Mælt er fitumagn og vöðvamagn líkamans sem og grunnorkuþörf hvers og eins. 

Reglur:

Það þarf ekki að deila einu né neinu til þess að taka þátt í leiknum (nema auðvitað að ykkur langi til að deila uppskriftinni, það má það alveg! 😉 ). Það eina sem þarf að gera til þess að taka þátt í leiknum er að fara á Facebook síðu Eldhússagna hér: Eldhússögur á Facebook og skrifa smá kveðju undir hráfæðis brownies færsluna sem er þar. Vinningshafi verður svo dregin út næstkomandi laugardag.

Uppskrift (12 litlir bitar eða 6 stærri)

  • 2 dl valhnetur
  • 2 dl ferskar döðlur (án steins)
  • 1/2 dl gott kakó
  • 1 msk möndlu- eða jarðhnetusmjör
  • hnífsoddur salt
  • 1-2 tsk vatn

Valhneturnar eru settar í matvinnsluvél og hneturnar maldar í mjöl. Þá er restinni af hráefnunum, fyrir utan vatnið, bætt út í og keyrt þar til allt loðir saman og myndar deig. Ef þarf er örlitlu vatni bætt út í til þess að binda degið saman. Kökuform (ég notaði brauðform 25cm x 11cm) er klætt með bökunarpappír og deiginu er þrýst vel ofan í formið. Það er svo sett inn í frysti á meðan kremið er útbúið.

Súkkulaðikrem

  • 1 vel þroskað avókadó
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • 3 msk agave síróp
  • 1 msk kókosolía
  • 3 msk gott kakó

Öllu blandað saman vel í matvinnsluvél þar til kremið er orðið kekkjalaust og silkimjúkt. Þá er kökuformið tekið úr frystinum og kreminu smurt ofan á kökuna. Sett aftur inn í frysti í ca. 20 mínútur. Þá er kakan losuð úr forminu og skorin í 12 litla bita eða sex stærri bita. Geymist vel í ísskáp eða í frysti.

IMG_9404

 

Súkkulaðikaka með „fudge“ kremi


Súkkulaðikaka með "fudge" kremi

Eldhússögur óska lesendum sínum gleðilegs sumars með algjörri bombu! Það verður sannarlega hægt að njóta þessarar köku oft í sumar eftir góðar grillmáltíðir! 🙂 Langvinsælustu kökurnar á blogginum mínu eru Snickerskakan, kladdkakan með karamellukremi og súkkulaðikaka með Pippkaramellukremi. Þessi kaka gott fólk, mun kláralega komast léttilega í þá vinsældarklíku! Hún er dálítil blanda af öllum ofangreindum kökum. Hún er gerð í potti eins og Pippkakan og er því afskaplega einfalt að baka hana. Síðan er kremið er karamellukennt eins og kremið í kladdkökunni. Þetta er auðvitað blanda sem getur ekki klikkað!

IMG_9260

Það eru bara tveir ókostir og þá er ég ekki beinlínis að vísa í sjálfa kökuna. Annað er að nafnið „fudge“ er bara ekki til í íslensku, hvað er málið með það?! Fudge er einhverskonar mjúk súkkulaðikaramella en mér finnst sú skýring ekki jafn lýsandi og orðið „fudge“. Ég skrifaði einmitt um þetta karamelluvandamál í íslenskunni í þessari færslu um banana-karamellubökuna (ef þið hafið ekki prófað hana enn þá eruð þið að missa af miklu! 🙂 ). Hitt vandamálið fer nú samt meira í taugarnar á mér! Í gær var ég með matarboð og um daginn var ég að laga til og undirbúa boðið. Ég tók rafhlöðuna úr myndavélinni minni og ætlaði að setja það í hleðslu. Samtímis var ég að gera hundrað aðra hluti eins og okkur konum er einum lagið. Þegar ég ætlaði að smella rafhlöðunni í hleðslutækið var ég skyndilega ekki lengur með það í hendinni. Til að gera langa sögu stutta þá finn ég ekki rafhlöðuna! Ég er búin að leita út um allt, líka í ruslinu, en rafhlaðan finnst hvergi! Ég þurfti því að taka myndir á litlu myndavélina mína. Ég var alveg viss um að þær myndir myndu ekki gera kökunni nógu góð skil. En ég tók nokkrar myndir í dag (átti smá afgang af kökunni) í dagsbirtunni og ég verð að segja að Canon Powershot vélin er nú alveg ótrúlega góð miðað við að þetta sé bara lítil sjálfvirk vél. Ég læt allavega þessar myndir alveg flakka og held áfram að leita að þessari blessuðu rafhlöðu! Í gærkvöldi þegar ég bauð kökuna var hún bara búin að bíða í ísskáp í um það bil þrjá tíma. Þá var kremið ekki alveg harðnað og hún leit svona út.

IMG_9234Vissulega djúsí og hrikalega góð. En í dag var kremið alveg stífnað og hver kökubiti eins og fullkomin blanda af seigri súkkulaðimjúkri karamellu (þ.e. fugde! ). Ég mæli því eindregið með að þið gerið þessa köku deginum áður en þið berið hana fram! Dásamlega stellið mitt frá Cup Company heldur áfram að lyfta matnum og kökunum sem ég elda og baka á hærra plan! 🙂

IMG_9261

Uppskrift:

  • 150 g smjör
  • 3 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 2 dl hveiti

Fudge-krem

  • 1,5 dl rjómi
  • 2 msk smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g mjólkursúkkulaði

Ofninn stilltur á 175 gráður undir- og yfirhita. Smjörið brætt í potti og potturinn tekinn af hellunni. Þá er sykri, kakói og vanillusykri bætt út í og hrært vel. Eggjum bætt út í, einu í senn og hrært. Að lokum er hveitinu bætt út í pottinn og hrært saman við deigið. 24 cm smelluform smurt og deiginu hellt í formið. Bakað í ca. 18-20 mínútur við 175 gráður (ekki blástur). Kakan á að vera vel blaut. Á meðan kakan kólnar er kremið útbúið en smelluformið er ekki tekið af kökunni.

Rjóma hellt í pott og suðan látin koma upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út , hrært þar til það er bráðnað. Að síðustu er smjörinu bætt út í. Kreminu er hellt yfir kökuna þegar hún hefur kólnað dálítið. Athugið að kremið er það þunnt að kakan þarf að vera í kökuforminu þar til kremið hefur stífnað. Kakan er látin inn í ísskáp í minnst þrjá tíma, helst yfir nóttu, þar til kremið hefur stífnað.

IMG_9255

Klessukaka með Daimrjóma


Klessukaka með daimrjómaÉg er loksins komin út úr ákveðinni matargerðarlægð sem ég hef verið í undanfarið. Ég hef prófað mig áfram með hina og þessa matrétti án þess að ég hafi verið nægilega sátt við útkomuna. Ég set ekkert hingað inn á bloggið nema það sem ég er mjög ánægð með og get hugsað mér að elda/baka aftur. Venjulega hef ég haft um margt að velja til að setja inn á bloggið en upp í síðkastið hef ég sem sagt verið að lenda í því að hafa bara ekkert fram að færa á blogginu. En sem betur fer þá held ég að þetta tímabil sé yfirstaðið og núna er ég með nokkrar spennandi uppskriftir sem bíða birtingar! 🙂

Sænsku klessukökurnar halda áfram að fara sigurför á heimilinu! Þessa bakaði ég um helgina og hún er auðvitað löngu búin! Grunndeigið er afskaplega gott. Í því er suðusúkkulaði en oftast nær er bara kakó í sænskum klessukökum (kladdköku). Fyrir þá sem vilja ekki daimrjómann er hægt að baka bara kökuna og skreyta hana með berjum eða sáldra bara yfir hana flórsykri og bera fram með hindberjasósu og vanilluís. Sjálf kakan er algjört gúmmelaði og Daimrjóminn er punkturinn yfir i-ið!IMG_8594

Uppskrift:

  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hveiti

Daimrjómi:

  • 3 dl rjómi
  • 1/2 – 1 msk kakó
  • 1 1/2 msk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 tvöfaldar pakkningar af Daim (56 g stk), samtals ca. 110 g

Ofn hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smelluform (ca 24 cm) smurt að innan. Smjörið og súkkulaðið brætt varlega saman í potti. Egg og sykur þeytt þar til létt og ljóst. Þá er súkkulaðiblöndunni bætt út í. Að lokum er hveitinu bætt út í. Deiginu hellt í kökuformið og kakan bökuð við 200 gráður í ca 18-20 mínútur.  Kakan er þá kæld og gott er að láta hana svo standa í kæli í nokkra tíma áður en rjóminn er settur á og kakan borin fram.IMG_8603

Daimrjómi: Rjóminn er þeyttur ásamt kakói, vanillusykri og flórsykri sem hefur verið sigtað út í. Þá er Daimsúkkulaðið saxað og bætt út í þeytta rjómann með sleikju (það er gott að skilja smá eftir til að skreyta með) og Daimrjómanum því næst dreift yfir kökuna.IMG_8619

Snickerskaka


IMG_8101Í gær buðum við foreldrum mínum í hægeldað lambalæri. Við fórum í barnaafmæli seinnipartinn og komum ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat. En þegar maður er með svona læri og meðlæti í ofninum sem sér um sig sjálft þá er lítið mál að bjóða í mat þó lítill tími sé til eldamennsku. Ég bakaði köku í eftirrétt sem var algjört hnossgæti. Í raun er þetta sænsk „kladdkaka“ með hnetu- og súkkulaðikremi. Sænsku klessukökurnar eru ákaflega góðar, til dæmis er þessi sænska klessukaka ein sú vinsælasta á blogginu mínu. Öllum fannst okkur Snickerskakan jafngóð þeirri köku og sumum fannst hún meira að segja enn betri! Eins og með margar kökur þá var hún enn betri daginn eftir. Í gærkvöldi náði ég ekki að kæla hana alveg í tvo tíma með kreminu á þannig að kremið var enn mjúkt. En núna var ég að smakka þessa sneið sem myndin er af hér að neðan, kremið var þá orðið stökkt og kakan búin að brjóta sig …. namm, þvílíkt sælgæti! Eitt er allavega víst að það verður ekki hafin megrun hér á bæ á þessum mánudegi! 🙂 Þessa köku þurfa allir sælkerar að prófa!

IMG_8135

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 4,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 8 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Pipp súkkulaði með karamellu (má sleppa)

Krem:

  • 2 dl salthnetur
  • 200 g rjómasúkkulaði

IMG_8080

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og ca 26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti hrært út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og pippmolunum þrýst ofan í deigið hér og þar. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í 30 til 40 mínútur, kakan á að vera blaut í miðjunni.

(Í mínum ofni dugði 30 mínútna bökunartími en hjá sumum hefur kakan verið of blaut eftir 30 mínútur – það þarf að finna út rétta tímann fyrir hvern og einn ofn og fylgjast vel með kökunni. Athugið að hitinn er gefinn upp fyrir undir- og yfirhita, sami hiti á blæstri er í raun hærri hiti.)

Á meðan er rjómasúkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hnetunum bætt út í þegar súkkulaðið hefur bráðnað. Þegar kakan er komin úr ofninum og hefur kólnað dálítið er kreminu hellt yfir kökuna og hún kæld í minnst tvo tíma áður en hún er borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_8091IMG_8105

Sænskar rjómabollur


IMG_4186

Bolludagurinn er að bresta á. Í Svíþjóð er líka bolludagur en þeir hafa eitthvað misskilið þetta (eða við!) því bolludagurinn þeirra er á sprengidag og kallast fettisdagen. Nafnið er dregið af „fet“ og „tisdag“, þ.e. feitur þriðjudagur! Svíarnir taka „fettisdagen“ ekki jafn hátíðlegan og við tökum bolludaginn. Þeir eru með um það bil mánaðartímabil þar sem bollur eru til sölu í matvöruverslunum, bakaríum og á kaffihúsum.  Sænsku bollurnar kallast semlor og eru gerdeigsbollur. Á þær er settur „mandelmassa“ eða möndlumassi auk rjóma og yfir bollurnar er stráð flórsykur. Eftir að hafa búið í Svíþjóð í 15 ár er ekki í boði á okkar heimili að baka bara vatnsdeigsbollur. Vilhjálmur minn er sérstaklega hrifinn af sænsku bollunum, þær eru með því því besta sem hann veit! Ég bakaði því um helgina bæði sænskar „semlor“og íslenskar vatnsdeigsbollur. Möndlumassinn er seldur tilbúinn í sænskum verslunum en hann fæst ekki hér á landi (stöku sinnum í Íkea samt). Það er mjög einfalt að búa hann til og heimatilbúni möndlumassinn er mikið betri en sá tilbúni. Það er líka hægt að nota bara venjulegt Odense marsípan til að flýta fyrir sér og til dæmis finnst honum Vilhjálmi mínum það alveg jafn gott. Í þessum sænsku bollum er kardimomma en ef maður vill gera hefðbundnar íslenskar gerdeigsbollur þá er bara hægt að sleppa kardimommunum, setja sultu og rjóma ásamt glassúr eða súkkulaði á toppinn – þar með eru komnar íslenskar bollur!

Sænskar rjómabollur

Uppskrift, ca. 18 bollur:

  • 1 msk kardimommukjarnar (sleppa ef gera á íslenskar gerbollur)
  • 3 dl mjólk
  • 1 pakki þurrger
  • 1 1/2 dl sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 150 g mjúkt smjör við stofuhita
  • 1 egg
  • 10-12 dl hveiti

Sænskar rjómabollur

Fylling:

  • ca. 400 g möndlumassi (líka hægt að nota hefðbundið Odense Marsípan sem er rifið niður og blandað við ca. 1-2 dl af mjólk þar til marsípanið verður mjúkt)
  • 8 dl rjómi
  • egg til að pensla með
  • flórsykur

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi:

  • 250 g möndlur (afhýddar)
  • 2 1/2 dl sykur
  • mjólk, ca. 1 msk

Aðferð:

Bollurnar: Kjarnarnir úr kardimommunum maldir fínt í morteli. Mjólkin sett í pott, muldu kardimommurnar út í og hitað upp í 37 gráður. Gerið sett í skál og það leyst upp með mjólkinni, smjöri, sykri, salti og eggi. Þá er hveitinu bætt út í smátt og smátt og deigið hnoðað þar til það verður slétt og sprungulaust. Því næst er deigið látið hefast undir klút á hlýjum stað í 40-60 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast. Þá eru hnoðaðar ca. 18 bollur sem er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Bollunum er leyft að hefast undir klút í ca. 45-60 mínútur til viðbótar. Því næst eru þær penslaðar með eggi og bakaðar við 200 gráður í um það bil 10 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Bollurnar eru þá látnar kólna á grind.

Sænskar rjómabollur

Möndlumassi: Möndlunar er maldar mjög fínt í matvinnsluvél. Þá er sykri bætt út í og blandan keyrð í matvinnsluvél í ca. 5-7 mínútur þar til massinn verður sléttur. Þá er smá skvettu af mjólk bætt út í þannig að massinn verði dálítið blautur og haldist saman. Sumir taka aðeins innan úr bollunum og bæta því út í möndlumassann.

Í stað þess að gera möndlumassa er líka gott að nota 400 g af marsípani rifið niður og blandað við ca. 1 dl mjólk.

Toppurinn er skorinn af bollunum og skorin smá dæld í neðri hluta bollunnar. Þar er settur möndlumassi, því næst er settur þeyttur rjómi, bollunni lokað og flórsykur sigtaður yfir.

Sænskar rjómabollur

Eplakaka með karamelliseruðum eplum


IMG_7974Við Jóhanna bökuðum þessa gómsætu eplaköku í vikunni. Jóhanna er svo hrifin af eplakökum að hún er alltaf að ítreka við mig að hún vilji ekki súkkulaði afmælisköku heldur eplaköku á afmælinu sínu – hún á afmæli í ágúst! 🙂 Þessi kaka er dásamlega mjúk og bragðgóð. Uppskriftin er frekar stór, hún passar í form sem er ca. 25 x 35 cm. Hún var hrikalega góð sjóðandi heit en ég ákvað að taka myndir af kökusneiðinni þegar hún væri orðin köld og auðveldara væri að skera hana. Þessi ákvörðun varð til þess að ég náði ekki neinni mynd af stakri kökusneið! Nokkrum tímum eftir að við mæðgur bökuðum kökuna og ég ætlaði að mynda hana var kakan hér um bil búin! Það má því með sanni segja að fjölskyldan hafi verið ánægð með kökuna, Vilhjálmur sagði til dæmis að þetta væri besta eplakakan sem hann hefði smakkað! Það gerir hana sérstaklega góða að nota eplabáta sem hafa verið karamelliseraðir áður.

IMG_7961

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 4 dl + 4 msk sykur
  • 200 g + 1 msk smjör
  • 2 msk púðursykur (má líka nota sykur)
  • 2 dl mjólk
  • 6 dl hveiti
  • 4 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • ca 5 epli
  • 4 tsk kanill

Ofninn er hitaður í 200 gráður undir/yfirhita. Smjörið er brætt í potti, hann svo tekinn af hellunni, smjörinu leyft að kólna örlítið og mjólkinni svo bætt út í. Epli eru afhýdd, kjarnhreinsuð, skorin í báta og þeim svo velt upp úr 4 msk sykri og 4 tsk kanilssykri. Þá er 1 msk smjör og púðursykur hitað á pönnu þar til blandan hefur bráðnað. Því næst er eplunum bætt út í og þeim velt vel upp úr heitu sykurblöndunni við meðalhita þar til eplabátarnir hafa náð góðri karamelliseringu. Egg og 4 dl sykur þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, vanillusykri og lyftidufti bætt út í og því næst mjólkinni og smjörinu. Deigið sett í smurt stórt bökunarform (mitt form er 25 x 35 cm). Eplabátunum er raðað ofan í deigið og kakan bökuð í ca. 20-25 mínútur í miðjum ofni við 200 gráður. Ég stráði dálítið af perlusykri yfir kökuna en því er vel hægt að sleppa.

IMG_7967

Nutella rúlluterta


IMG_7895Það var svo dásamlegt veður hér í höfuðborginni í dag. Þegar sólin skín líkt og í dag þá finn ég alltaf hversu niðurdrepandi myrkrið og skammdegið í raun og veru er. Það er því dásamlegt að daginn sé að lengja og sólin farin að skína! 🙂 Um helgina skellti ég í þessa einföldu rúllutertu. Það er gaman að baka köku sem tekur svona stuttan tíma í undirbúningi og bakstri. Ég held að það hafi liðið um það bil korter frá því að ég byrjaði að baka þar til að kakan var tilbúin. Fyrir þá sem eru hrifnir af Nutella þá er þessi kaka „must“! Ef einhver veit ekki hvað Nutella er, þá er það heslihnetusúkkulaðimauk, algjört nammi! Mér datt í hug að það væri gott að skera niður bananabita ofan á Nutella kremið! Ég held að það geti verið rosalega gott og ætla sannarlega að prófa það næst!

Nutella

Uppskrift:

  • 3 egg
  • 1,5 dl sykur
  • 50 g smjör, brætt
  • 2 msk mjólk
  • 2 msk kakó
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 5 msk hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ca. 1/2 dós Nutella
  • (bananar? ég held að það gæti verið gott að skera niður bananabita ofan á nutella kremið! 🙂 )

IMG_7834

Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á sykurstráðan bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nutella kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nutella kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna (mér finnst gott að hafa kremið fremur þunnt) er henni rúllað upp.

IMG_7838

Pecanböku-ostakaka


IMG_7826Vinur okkar hjóna kom í mat til okkar í vikunni. Hann er mikill matgæðingur og góður kokkur, ég gat því ekki boðið honum upp á neitt slor! 😉 Ég hafði í aðalrétt ofnbakaða þorskinn með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu. Þetta er orðinn svona „my go to“ réttur þegar mig langar að bjóða upp á gómsætan aðalrétt í matarboðum. Ég er búin að skoða svo margar góðar uppskriftir af eftirréttum undanfarið að ég var í dálitlum vandræðum með hvað ég ætti að velja. Og þó – ég var langspenntust fyrir þessari köku! Þeir sem hafa smakkað pecanpæ og bakaða ostaköku þurfa ekki að spyrja hvers vegna! Það er greinilega eitthvað þema hjá mér að blanda saman ostakökum við aðrar kökur samanber brownie-ostakökuna sem ég er með uppskrift af hér. En að þessu sinni er  pekanböku blandað saman við ostaköku sem er þvílíka snilldin! Þetta er algjört sælgæti sem er skemmtilegt að baka og enn skemmtilegra að borða!

IMG_7771

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex
  • 150 g smjör
Pecanböku-fylling:
    • 200 g sykur
    • 200 g síróp
    • 80 g smjör, brætt
    • 2 egg
    • 150 g pecan-hnetur, saxaðar gróft
    • 1 tsk vanillusykur
Ostakaka:
  •  600 g rjómaostur
  • 130 g púðursykur
  • 2 msk hveiti
  • 4 egg
  • 150 ml rjómi
  • 1 tsk vanillusykur

Ofninn stilltur á 180 gráður undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna á meðan pecanböku-fyllingin er búin til.

Öllum hráefnunum fyrir pecanböku-fyllinguna blandað saman í pott og látið ná suðu. Látið blönduna malla á meðalhita þar til hún hefur þykknað. Hrært í stöðugt á meðan, þetta tekur 8-10 mínútur. Blöndunni er hellt yfir kexbotninn. Þá er ostaköku blandan útbúin.

IMG_7781

Rjómaostur hrærður í hrærivél eða með rafmagnsþeytara á meðalhraða þar til hann er orðin mjúkur. Þá er púðursykri og hveiti bætt út í þar til blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við einu og einu í senn og þeytt vel, en þó ekki of lengi. Að síðustu er rjómanum og vanillusykrunum bætt út í og hrært á meðan. Þá er ostakökublöndunni hellt yfir pecanbökuna. Bakað í miðjum ofni við 180 gráður í klukkustund. Þá er slökkt á ofninum og kökunni leyft að bíða í ofninum í klukkustund í viðbót. Þá er kakan kæld í minnst 4 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7815

Epla- og hindberjabaka


IMG_7602Ég er svo hrifin af pæjum eða bökum, þó sérstaklega og aðallega eplabökum. Mér finnst líka hindber sjúklega góð, ég er því búin að horfa lengi á þessa uppskrift og ætla að prófa hana. Þessi baka var ofsalega góð og krökkunum fannst hún himnesk! Svona bökur eru svo þægilegar að gera, þær eru fljótlegar og oftast á maður allt hráefnið til. Ég mæli með þessari fyrir bóndann á morgun! 🙂

Uppskrift:

  • 100 g smjör, skorið í teninga
  • 100 g muscovadosykur eða púðursykur
  • 75 g haframjöl
  • 100 g pecan hnetur, saxaðar smátt
  • 1 tsk vanillusykur
  • ½ tsk kanill

IMG_7599

Fylling:

  • 4-5 epli, afhýdd og skorin í litla jafnstóra teninga
  • ca 2 dl hindber (hægt að nota fryst hindber sem hafa verið afþýdd)
  • Safi úr 1/4-1/2 sítrónu

Eplin eru sett í bökuform ásamt hindberjunum og sítrónusafanum dreift yfir. Þá er restinni af hráefnunum blandað saman í höndunum og dreift yfir eplin og hindberin. „Crumble“-ið (hvað kallast það á íslensku??) er hægt að gera með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp. Bakan er bökuð í miðjum ofni við 180 gráður í 20-25 mínútur. Borið fram heitt með þeyttum rjóma eða vanilluís.

IMG_7603