Bananakaka með kanilívafi


Bananakaka með kanilívafi

Núna er kominn nóvember og aðventan mun skella á áður en þið vitið af – trúið mér! Í ár hef ég sett sjálfri mér afar háleit markmið varðandi jólin og þetta „búin að öllu fyrir jólin“ dæmi! Þannig er mál með vexti að síðastliðin ár hef ég verið í meistaranámi í háskólanum og ég get staðfest það að þegar húsmóðir þarf að fara í jólapróf, svo ekki sé talað um að skila af sér meistararitgerð fyrir jól auk þess að eiga eiginmann sem er á vöktum sólarhringum saman, þá hefur það býsna slæm áhrif á jólaundirbúninginn – eða réttara sagt andlega heilsu húsmóðurinnar. Ég er svona týpa sem vil ekki slá af neinu, mér dytti til dæmis aldrei í hug að sleppa því að senda út 100 stykki jólakort. Í fyrra var ég að skila af mér meistararitgerðinni minni um jólin, vann við hana nótt og dag og ákvað því að pakka inn jólagjöfunum á mjög einfaldan hátt, þetta varð útkoman.

548770_485563878151708_1794840187_nJá, þið skiljið kannski vandamálið! Fyrir nokkrum árum setti einhver vinur minn á Facebook status á Þorláksmessukvöldi um að viðkomandi væri búinn að öllu og sötraði hvítvínsglas við kertaljós (sem ætti að vera ólöglegur status by the way!). Á þeim tímapunkti sat ég sveitt við jólagjafainnpökkun, þrif og fleira og hét sjálfri mér því að næstu jól þá væri það ég sem sæti með hvítvínsglas á Þorláksmesskvöld við arineld, búin að öllu. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta einfaldlega ekki tekist enn. Hluti af vandamálinu er að ég er með frestunaráráttu í sambland við fullkomnunaráráttu – blanda sem virkar býsna illa verð ég að segja. Í ár mun þetta hins vegar takast hjá mér, ég finn það á mér! Núna er markmiðið mitt að vera búin að pakka inn jólagjöfum, gera jólakort, kaupa jólaföt á börnin og allt þetta sem þarf að gera fyrir jólin, áður en aðventan rennur upp. Svo ætla ég bara að njóta aðventunnar án nokkurra kvaða. Ég ákvað að skrifa þetta hér á alheimsnetið til þess að veita sjálfri mér aðhald! 😉 Í guðanna bænum ýtið við mér þegar aðventan nálgast – ég ætla að standa við þetta í ár! Satt að segja er ég komin vel áleiðis, ég er næstum því búin með jólagjafirnar, búin að kaupa jólafötin á börnin og er að byrja að vinna í jólakortunum!

Þessar jólahugleiðingar eiga svolítið við uppskrift dagsins því í henni er kanill og kanill er jú einstaklega jólalegt krydd. Ég elska kanil, sérstaklega í allskonar bakkelsi. Ég elska líka bananakökur. Það var því meiri snilldin að blanda þessu tvennu saman. Kakan sló í gegn hjá fjölskyldunni, þið verðið bara að prófa hana um helgina! 🙂

IMG_0946

Uppskrift:

  • 130 g smjör
  • 200 g sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 stór egg
  • 260 g Kornax hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk kanill
  • 2 stórir bananar eða 3 litlir, stappaðir

Kanilsykurblanda

  • 1 dl sykur
  • 2 msk púðursykur
  • 3 tsk kanill

Ofn hitaður í 175 gráður og smelluform (22-24 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært saman þar til að blandan verður létt og ljós. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn, hrært á milli. Því næst er vanillusykri, hveiti, matarsóda og kanil bætt út í og hrært þar til allt hefur blandast saman. Að lokum er stöppuðum banönum blandað vel saman við deigið. Bökunarformið er smurt að innan og 1/3 af deiginu er smurt yfir botninn á forminu. Hráefnunum í kanilsykurblöndunni er blandað vel saman og 1/3 hennar dreift jafnt yfir deigið.

IMG_0930Þá er helmingnum af deiginu sem eftir er smurt yfir kanilsykurblönduna. Það er allt í lagi þó það náist ekki alveg að dreifa úr deiginu út í alla kanta. Því næst er helmingnum af kanilsykurblöndunni dreift yfir deigið. Að lokum restinni af deiginu smurt ofan á og endað á því að strá restinni af kanilsykurblöndunni yfir. Bakað í ofni við 175 gráður í 45-55 mínútur eða þar til kakan er farin að losna frá köntunum og kökuprjóni sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn út.

IMG_0950

Súkklaðikaka með lakkrís og karamellukremi


Súkkulaðikaka með lakkrís

Núna erum við hjónin komin heim úr hreint út sagt dásamlegri ferð. Við dvöldum 6 nætur á Rhodos þar sem Elfar sótti ráðstefnu. Mikið var yndislegt að komast í sólina, slaka á og auðvitað borða góðan mat. Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram hafa getað fylgst með myndum úr ferðinni en það er líka hægt að skoða þær hér á síðunnni, velja forsíðu og þar er hægra meginn á síðunni dálkur merktur „Eldhússögur á Instagram“. Eftir frábæra daga í Grikklandi var ákaflega gott að koma heim aftur til barnanna og alls hér heima. Næstu vikur eru þéttskipaðar með allskonar skemmtilegum viðburðum. Einn af þeim er í næstu viku. Þá fer ég á námskeið hjá Salt eldhúsi í indverskri matargerð. Ég hef heyrt svo margt gott um námskeiðin þarna. Eldhúsið sjálft er rómað fyrir það hversu fallegt það er og hve góður andi er þar inni. Ég meina, hvern langar ekki til þess að elda og borða í þessu fallega umhverfi?

Salt

Það eru mjög mörg spennandi námskeið í boði og erfitt að velja bara eitt! Ég endaði á því að velja þetta námskeið, Töfrar indveskrar matargerðar. Mér finnst indverskur matur svo góður en ég hef miklað það fyrir mér að gera hann frá grunni. Shabana Zaman sem hefur búið hér um árabil kennir á námskeiðinu og mér fannst svo ótrúlega spennandi að læra um indverska matargerð hjá einhverjum sem kemur frá landinu og er sérfræðingur í matargerð.  Ég er því ekkert lítið spennt fyrir þessu námskeiði og vona að ég geti deilt með mér hér á síðunni indverskri snilld að því loknu!

En svo ég víki að uppskrift dagsins. Nói og Siríus efndu til uppskriftasamkeppni nú á dögunum. Ég hafði í nokkurn tíma hugleitt hvort ekki væri hægt að baka súkkulaðiköku með lakkrís. Súkkulaði og lakkrís eru jú þjóðarréttur okkar Íslendinga! 🙂 Mér fannst því upplagt að reyna að baka þannig köku fyrir uppskriftasamkeppnina. Ég gerði nokkrar tilraunir og endaði á því að leggja fram þessa uppskrift í samkeppnina að ljúffengri súkkulaði-lakkrísköku með karamellukremi sem sló í gegn hjá fjölskyldunni.

IMG_0033

Uppskrift:

  • 4 egg
  • 3,5 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk kakó
  • 3 dl hveiti
  • 200 g smjör, brætt
  • 100 g Nissa með lakkrís (hægt að nota meira)

Ofninn hitaður í 175 gráður, undir- og yfirhita, og 24-26 cm smelluform smurt að innan. Smjörið brætt og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt saman. Því næst er vanillusykri, kakói, bræddu smjöri og hveiti bætt út í. Deiginu er hellt í bökunarformið og Nizzamolunum er þrýst ofan í deigið hér og þar, einum í einu. Því næst er kakan bökuð í miðjum ofni við 175 gráður (undir- og yfirhita) í ca. 30 mínútur kakan á að vera blaut í miðjunni.

Karamellukrem:

  • 1/2 dl rjómi
  • 1/2 dl síróp
  • 100 g pippsúkkulaði með karamellu
  • 50 g smjör

Rjómi, síróp og pippsúkkulaði sett í pott og látið malla í nokkrar mínútur við meðalhita þar til að blandan þykknar. Gott að hræra í blöndunni öðru hvoru á meðan. Þá er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í. Hrært þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að láta kremið standa í smá stund til að fá það þykkara. Þá er kreminu hellt yfir kökuna og hún látin kólna í ísskáp í ca. 2-3 tíma. Skreytt með lakkrís og borin fram með þeyttum rjóma.

IMG_0136

Eplakaka með rjómaosti


Eplakaka með rjómaosti

Jóhanna Inga dóttir mín er ekkert sérstaklega hrifin af súkkulaðikökum. Helst vill hún þá bara hafa kökuna án súkkulaðikrems. Það kom því ekki annað til greina á afmælinu hennar um daginn en að baka líka uppáhaldskökuna afmælisbarnsins, eplaköku. Við mæðgur deilum þessari ást á eplakökum. Reyndar þá finnst mér eplakökur og flestar aðrar kökur sem byggðar eru á einhverskonar sandkökugrunni ekkert henta sérstaklega vel á afmælishlaðborð. Slíkar kökur eru hins vegar himneskar einar og sér sem til dæmis sunnudagskaka eða til þess að bjóða í kaffiboði þar sem bara ein eða tvær kökur eru á borðum. Í afmælisboðum er ég hrifnari af því að vera með marengstertur, súkkulaðikökur, ostakökur og aðrar slíkar kökur sem eru meira svona gúmmelaði. Ég tek líka eftir því að þær kökur eru vinsælli í afmælum heldur en sandkökur. Þessari eplaköku var reyndar gerð afar góð skil í afmælinu. Að þessu sinni prófaði ég að gera hana rjómaosti og það gerði hana ákaflega safaríka og mjúka.

IMG_6984

Uppskrift:

  • 2 dl sykur
  • 120 ml olía
  • 1 tsk vanillusykur
  • 200 g rjómaostur
  • 2 stór egg
  • 2 dl hveiti
  • 1.5 tsk lyftiduft
  • kanelsykur
  • 3 epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í báta

Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita og ca. 24 cm smelluform smurt að innan. Sykur, olía, vanillusykur og rjómaostur er hrært vel saman. Þá er eggjunum bætt út í, einu í senn og hrært vel. Því næst er hveiti og lyftidufti bætt út í og hrært við lágan hraða þar deigið hefur blandast vel saman. Deiginu er svo hellt í smurt formið. Eplabátunum er velt vel upp úr kanelsykri og því næst stungið hér og þar ofan í deigið. Að síðustu er dálítið af kanelsykrinu stráð yfir kökuna. Bakað í ofni í ca 50-60 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn í miðjunni og farin að losna frá forminu. Ef kakan fer að verða dökk í ofninum áður en hún er bökuð í gegn er gott að setja álpappír yfir hana. Best borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_7078

Bökuð ostakaka með hindberjum


Bökuð ostakaka með hindberjum

Ég hef sett inn nokkrar uppskriftir að ostakökum hingað á síðuna og talað um hver munurinn sé á bökuðum og óbökuðum ostakökum. Uppistaðan í óbökuðum ostakökum er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér prófaði ég mig áfram með bakaða ostaköku með hindberjum. Ég ákvað að nota grunnuppskrift að bakaðri ostaköku, setja í hana hindber auk þess sem ég bjó til hindberjakrem ofan á kökuna. Að þessu sinni notaði ég hindberin ósigtuð, þ.e. þá voru fræin með. En ef maður vill þá er hægt að sigta fræin frá og hafa kremið slétt. Mér fannst þetta koma dásamlega vel út, bökuð ostakaka er svo ofsalega góð! Ekki spillir þegar uppáhaldsberin mín, hindber, ganga í hjónaband með þessari ljúfu köku!

IMG_6977

Uppskrift:

Botn:

  • 300 g Digestive kex (ca. 20 kexkökur)
  • 150 g smjör

Ofn stilltur á 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.

Ostakaka:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 g rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 300 g frosin hindber (afþýdd)
  • 2 msk sykur
  • 2 blöð matarlím

IMG_6928

Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkend. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki mjög lengi. Rjómanum smátt og smátt bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í að lokum. Blöndunni hellt yfir kexbotninn og ca. 10-15 hindberjum stungið ofan í deigið hér og þar. Bakað við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin heldur getur hún ,,dansað” svolítið í miðjunni þó hún sé tilbúin. Síðan sígur kakan dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt og skiptir litlu. Ostakan er látin kólna í forminu og hindberjakremið er útbúið. Matrlímið er lagt í skál með köldu vatni í ca. 5 mínútur. Restin af hindberjunum eru sett í pott á samt sykrunum og þau hituð upp, hrært í þeim á meðan með gaffli þar til þau verða að mauki. Þegar blandan er orðin heit er mesta vatnið kramið úr matarlíminu og því bætt út í hindberjablönduna. Þegar blandan hefur kólnað aðeins er dreift úr henni yfir kalda ostakökuna (enn í forminu). Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.

IMG_7065

Súkkulaðiterta með bananakremi


Súkkulaðiterta með bananakremi

Ég get varla beðið eftir því að setja inn uppskriftina af þessari tertu hingað á síðuna! Ég held að flestar fjölskyldur eigi í handraðanum uppskrift að tertu eða köku sem hefur fylgt þeim lengi og er bökuð við hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni. Árið 1971 fékk mamma þessa uppskrift frá bekkjarsystur sinni í þáverandi Fósturskóla Íslands. Þessi terta hefur verið bökuð við ófáar skírnir, fermingar og afmæli í fjölskyldunni okkar í meira en 40 ár og er alltaf jafn vinsæl. Það er langt síðan ég hef bakað tertuna en ég hafði hana í afmælinu hennar Jóhönnu Ingu um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér hversu dásamlega góð mér þykir hún! Ég skreyti tertuna alltaf eins og mamma gerði ávallt – með rjóma úr rjómasprautu og niðursoðnum perum. Mér finnst það alveg ómissandi! 🙂 Þessa tertu verðið þið bara að prófa!

Súkkulaðiterta með bananakremi

Uppskrift, botnar:

  • 4 egg
  • 200 g. sykur
  • 1 dl hveiti
  • 2 msk kakó
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 tsk lyftiduft

 Ofn hitaður í 180 gráður við blástur. Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum blandað varlega saman við með sleikju. Tvö smelluform (24 cm) smurð að innan. Deiginu er skipt á milli formanna tveggja og bakað við 180 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kantarnir á botnunum eru farnir að losna aðeins frá formunum. Botnarnir eru látnir kólna alveg áður en bananakremið er sett á milli botnanna.

 Bananakrem:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 70 g. flórsykur
  • 4 bananar, stappaðir

Smjör og flórsykur er þeytt saman þar til blandan verður létt. Þá er stöppuðum banönum bætt út í. Gott er að kæla kremið dálítið áður en það er sett á milli botnanna.

Súkkulaðikrem ofan á:

  • 100 g. smjör (mjúkt)
  • 100 g. flórsykur
  • 120 g. suðusúkkulaði
  • 1 egg
  • 1 tsk. vanillusykur

Til skreytingar:

  • þeyttur rjómi
  • niðursoðnar perur

 Smjöri, flórsykri og egg þeytt saman. Súkkulaðið er brætt og kælt aðeins áður en því er hellt saman við blönduna. Kreminu er smurt ofan á tertuna og á hliðarnar. Það er fallegt að skreyta tertuna með þeyttum rjóma og niðursoðnum perum.

IMG_7068

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi


Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremiAfmælisveisluþema: froskurinn Kermit!

Afmælisveisla og muffins með vanillusmjörkremi

Í dag héldum við upp á níu ára afmæli yngsta barnsins á heimilinu. Við þau tímamót áttaði ég mig á því að það eru ekki svo mörg ár eftir hjá mér í barnaafmælisgeiranum sem er dálítið skrítin tilfinning eftir að hafa verið í 20 ár í þeim geira!

IMG_7014

Jóhanna Inga er afar hrifin af Prúðuleikurunum og langaði að hafa Kermit þema í afmælinu.

IMG_6946

Ég fann enga slíka afmælisdiska en það er líka miklu skemmtilegra að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn (*hóst* þ.e. gúggla!). Ég notaði einfalda græna plastdiska og skeiðar úr Partíbúðinni með litlum hvítum servíettum. Ég keypti líka glös í stíl en notaði þau sem poppílát fyrir hvern og einn gest. Glösin skreytti ég með grænum kreppappír sem var klipptur út eins og kraginn hjá Kermit – Elfar er svo góður með skærin að hann var settur í það verkefni.

IMG_6952

Þegar ég ætlaði að nota sama kreppappírinn til þess að klæða appelsínflöskurnar var Jóhanna ekki nógu sátt því hún taldi þetta alls ekki rétta litinn á Kermit. Mamma vinkonu Jóhönnu sem er kjólameistari og snillingur á saumavélina bjargaði okkur með því að sauma svona fínan strokk úr teygjuefni utan um flöskurnar í rétta græna litnum (samkvæmt Kermit-sérfræðingnum, afmælisbarninu!). Jóhanna Inga klippti svo út augu, teiknaði á þau og límdi á strokkinn. Heliumskorturinn var liðinn hjá og við keyptum nokkrar grænar og hvítar blöðrur með helíum í partíbúðinni.

IMG_7004

Veitingarnar voru auðvitað líka í stíl við Kermit. Ég bjó til afmælisköku með mynd af Kermit (kökuuppskriftin hér).

IMG_6969

Pabbinn á heimilinu útbjó ávaxtaspjót og bjó til Kermit úr epli. Hann notaði sykurpúða fyrir augu sem Jóhanna Inga teiknaði á með matarlitapenna úr Allt í köku í Ármúla og jarðaber fyrir munn.

IMG_6947

IMG_6955

Einnig bakaði ég muffins með grænu kremi. Ég notaði Mentos fyrir augu og Jóhanna Inga teiknaði á það augu matarlitarpennanum. Afar auðvelt í framkvæmd en gefur skemmtilegar muffins.

IMG_6948

IMG_7092

Að auki voru pizzasnúðar í boði og svo auðvitað eplakaka sem er í miklu uppáhaldi hjá Jóhönnu fyrir utan hinar kökurnar og brauðréttina fyrir fullorðna fólkið.

IMG_6994

Ég veit varla hvaða uppskrift ég ætti að setja hér inn fyrst en ég byrja á muffins kökunum. Þær eru afskaplega einfaldar en mjög bragðgóðar. Þetta er góður muffinsgrunnur sem hægt er að nota einan og sér eða bæta við t.d. eplabitum sem velt hefur verið upp úr kanelsykri, bláberjum eða öðrum berjum, súkkulaðibitum eða hverju því sem hugurinn girnist. Kremið er afskaplega hentugt fyrir lituð krem og býsna gott, galdurinn við hvað það er bragðgott held ég að sé sírópið!

Uppskrift (gefur 20 muffins):

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 dl mjólk

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið er brætt og látið kólna, þá er mjólkinni bætt út í. Egg og sykur er þeytt þar til blandan verður létt og ljós. Þá er hveiti, lyftidufti og vanillusykri blandað saman. Þessari þurrblöndu er blandað smátt og smátt út í eggjablöndunum á víxl við smjör/mjólkurbönduna. Deiginu er skipt á milli um það bil 20 muffins forma (fer eftir stærð) en formin eiga að vera fyllt til 2/3. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Smjörkrem með vanillu:

  • 150 g smjör (við stofuhita)
  • 200 g flórsykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk síróp
  • matarlitur

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Ef kremið á að hafa lit er matarlitnum bætt út í að síðustu. Smyrjið kreminu á kaldar muffins. Ef útbúa á frosk líkt og á myndunum þá er, grænn matarlitur settur í kremið og hvítt Mentos notað fyrir augu. Það er teiknað á augum með svörtum matarlits penna úr Allt í köku, Ármúla.

IMG_7098

IMG_7075

Brownie-terta með ástaraldinfrauði


Brownie-terta með ástaraldinfrauði

Þegar bróðir minn kvæntist fyrir 10 árum buðu nýgiftu hjónin upp á dásamlega góða brúðartertu (frá Sandholt bakaríi að mig minnir) í brúðkaupsveislunni sinni. Mér hefur oft verið hugsað til þessarar köku síðan þá. Já, ég veit, það er smá klikkun en svona er ég með mat og kökur stöðugt á heilanum! 🙂 Ég var veislustjóri í veislunni þeirra og hafði lítinn tíma til að spá í tertuna en í henni var einhverskonar ástaraldinfrauð, súkkulaðibotn og fleira. Mér finnst ástaraldin ákaflega góð og nýti þau gjarnan í tertur og ýmisskonar eftirrétti. Ég man ekki eftir að hafa séð þau í Krónunni né í Bónus en yfirleitt eru þau til í Hagkaup og Nettó meðal annars. Þegar velja á ástaraldin þá á að velja þau aldin sem eru orðin dálítið krumpuð og dökkfjólublá. Ef ástaraldinið er slétt og ljóst þá er það ekki nægilega þroskað enn. 

ÁstaraldinÞegar ég sá uppskriftina af þessari tertu þá minnti hún mig á brúðartertuna forðum og ég bara varð að prófa. Botninn er browniekaka, því næst kemur frauð sem minnir mikið á ostaköku. Efsta lagið er ljúffengt hlaup gert úr ástaraldini. Þessi samsetning er gómsæt og ekki skemmir fyrir hvað tertan er litrík og falleg. Næst ætla ég að prófa að setja líka ferskt ástaraldin í sjálft frauðið, ég held að það sé afar gott.

IMG_1669

Brownie botn:

  • 110 g smjör
  • 2 1/4 dl sykur
  • 1 msk síróp
  • 2 egg
  • 1 1/2 dl hveiti
  • 0,5 tsk salt
  • 1 1/2 tsk vanillusykur
  • 1 dl kakó

Frauð:

  • 6 matarlímsblöð
  • 1 1/4 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 eggjarauður
  • 250 g mascarpone ostur
  • 4 dl rjómi
  • 1/2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 1 stórt eða 2 lítil ástaraldin

Ástaraldinhlaup:

  • 3 stór eða 4 lítil ástaraldin
  • 2 dl hreinn suðrænn safi (Brazzi)
  • 3 matarlím

IMG_1679

Botn:

Ofn hitaður í 175 gráður. Smjör, sykur og síróp er þeytt þar til það verður létt og ljóst. Eggjum bætt við einu í einu. Þá er hveiti, salti, vanillusykri og kakó bætt út og blandað vel saman við deigið. Smelluform (ca. 24 cm) er smurt að innan og deiginu helt í formið. Bakað í 20 mínútur og kakan látin kólna.

Frauð:

Sex matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan er rjóminn þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er eggjarauðum, sykri og vanillusykri þeytt saman og svo er mascarpone ostinum bætt út og öllu vel blandað saman. Ávaxtasafinn er hitaður á vægum hita í potti. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er vökvanum bætt út í eggjablönduna. Að lokum er aldininu innan úr ástaraldininu ásamt rjómanum bætt út í og öllu hrært saman. Blöndunni er því næst dreift yfir kaldan brownie botninn. Mikilvægt er að ná yfirborðinu jöfnu með spaða. Kakan er sett í kæli þar til frauðið hefur stífnað.

Ástaraldinhlaup:

Þrjú matarlímsblöð eru lögð í kalt vatn í fimm mínútur. 1/2 dl af safanum er settur í pott og hitaður við vægan hita. Matarlímsblöðin eru tekin upp úr vatninu, mesti vökvinn kreystur úr þeim og þeim bætt út í pottinn, einu og einu í senn. Þegar matarlímsblöðin eru uppleyst er afgangnum af safanum hellt út í pottinn. Ástaraldin ávextirnir eru skornir í tvennt, aldinið skafið innan úr með skeið og sett í skál. Vökvanum úr pottinum er því næst hellt í skálina og hrært saman. Hlaupið er látið kólna (tekur ca. 20-30 mínútur) áður en því er hellt yfir stífnað frauðið. Tertan er geymd í kæli í minnst fjóra tíma áður en hún er borin fram.

IMG_1671Njótið! 🙂

IMG_1684

Rabarbara- og perubaka með stökkum hafrahjúpi


Rabarbara- og perubaka með stökkri mylsnu

Ég er afar veik fyrir pæjum eða bökum eins og þau kallast á íslensku. Svíar eru mikið bökufólk, það eru alltaf til góðar bökur á kaffihúsunum þar í landi, til dæmis eplabökur og hindberjabökur. Það tók mig nokkur ár að taka í sátt að Svíar bera alltaf fram vanillusósu með bökunum (og eplakökum) en núna finnst mér vanillusósan óskaplega góð – sem minnir mig á að ég þarf að setja inn hingað uppskrift af slíkri sósu! Ég hef sett inn hingað á síðuna nokkrar góðar bökuuppskriftir. Til dæmis þessa uppskrift af kryddaðri eplaböku með hnetum, hún er ákaflega einföld og dásamlega gómsæt:

Krydduð eplabakaKrydduð eplabaka 

Ef þið hafið ekki enn prófað Key lime bökuna þá eruð þið að missa af miklu, hún er hnossgæti!

Key lime bakaKey lime baka

Þessi epla- og hindberjabaka er mjög fljótleg og yndislega góð.

Epla- og hindberjabaka

Epla- og hindberjabaka

Banana-karamellubakan er ein af mínum uppáhalds, ég mæli sannarlega með þessari dásemd

Banana-karamellukaka

Banana-karamellubaka

Að síðustu verð ég að nefna góðu berjabökuna hennar Jóhönnu Ingu, hún er ljúfmeti!Berjabaka

Berjabaka

Að þessu sinni ætla ég að setja inn uppskrift af feykigóðri rabarbaraböku með perum. Mér finnst voðalega gott að setja eitthvað sætt með í rabarbarabökurnar, það gefur svo gott jafnvægi við súran rabarbarann. Stundum set ég hindber með en að þessu sinni notaði ég perur, það kom ofsalega vel út. Ef þið eruð hrifin af hvítu súkkulaði þá er sannarlega ekki verra að strá yfir rabarbarabökuna dálítið af hvítum súkkulaðidropum. Hafrahjúpurinn ofan á bökunni er meðal annars með púðursykri og sírópi sem gefur henni stökka áferð og karamellukennt bragð – ljúffengt!

IMG_1944

Uppskrift:

  • 500 g rabarbari, skorinn í bita
  • 2 stórar perur, afhýddar og skornar í bita
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 dl sykur + 1 msk
  • 1 dl púðursykur
  • 2 dl haframjöl
  • 2 dl hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk vanillusykur
  • 1/2 dl ljóst síróp
  • 125 g smjör
  • 1/2 dl rjómi

Ofninn er stilltur á 150 gráður undir- og yfirhita. Rabarbaranum og perunum er dreift í smurt form og 1 msk af sykri og kartöflumjöli er stráð yfir. Smjörið er brætt í potti ásamt rjómanum. Þurrefnunum er blandað saman í skál ásamt sírópinu og brædda smjörinu og rjómanum er svo hrært út í. Blöndunni er því næst dreift jafnt yfir rabarbarann og perurnar. Bakað í ofni við 150 gráður í ca. 40 – 50 mínútur. Bakan er borin fram heit með þeyttum rjóma eða ís.

IMG_1948

Sænsk prinsessuterta


IMG_1528

Það er eiginlega skandall að ég, sem hef sænskan ríkisborgararétt (auk þess íslenska auðvitað), hafi ekki bloggað enn um sænsku prinsessutertuna! Hins vegar er varla hægt að velja betri dag en í dag, 17. júlí, til þess að birta uppskrift að hátíðartertu á síðunni minni. Í dag eigum við hjónin nefnilega 20 ára brúðkaupsafmæli! Fyrir tuttugu árum gekk ég upp að altarinu í Kópavogskirkju á þessum degi, þá nýorðin 21 árs, og gekk að eiga Elfar minn – mín stærstu gæfuspor í lífinu. ♥ Ég kíkti á færsluna sem ég skrifaði í fyrra á sama degi, hún er hér. Þá hafði ég sett inn uppskrift af dásamlega góðu naan-brauðunum. En það sem vakti athygli mína var yndislega veðrið sem var á sama tíma í fyrra, eitthvað annað en núna!

Ég held að flestir sem eitthvað þekkja til Svíþjóðar kannist við prinsessutertuna. Prinsessuterta er nokkurskonar þjóðar-hátíðarterta Svía. Við hinu ýmsu tímamót sem ber að fagna með tertuáti þá birtist sænska prinsessutertan í allskonar myndum. Sú hefðbundnasta er græna prinsessutertan með bleiku rósinni. Hún fæst í hverju einasta sænska bakaríi. Það er nefnilega afar algengt í Svíþjóð að prinsessutertan sé keypt tilbúin í bakaríum fremur en bökuð heima.

prinsesstarta

En prinsessuterturnar koma líka í ýmsum litum sem hæfa hverju tilefni. Bleikar og bláar fyrir skírnir, hvítar fyrir brúðaup, gular fyrir páskana og svo framvegis. Þessi prinsessuterta var til dæmis til sölu í öllum sænskum bakaríum þegar nýjasta sænska prinsessan, Estelle, var skírð fyrir ári síðan, „skírnarterta Estelle“ kallaðist hún:

estelle skírnarterta

Upprunalega uppskriftin af prinsessutertu kemur úr uppskriftabók frá 1948 eftir sænskan hússtjórnarkennara. Hún kenndi yfirstéttarstúlkum heimilisfræði, meðal annars þáverandi sænsku prinsessunum. Þær voru afar hrifnar af þessari tertu, þaðan kom nafnið.

Tertan er í raun afar einföld. Uppistaðan í henni er svampbotn, sulta (þó ekki alltaf – sumir Svíar telja það landráð að setja sultu í tertuna þar sem hún er ekki í upprunalegu uppskriftinni!), vanillukrem, rjómi og marsípan. Í Svíþjóð er hægt að kaupa þetta allt tilbúð og þá þarf bara að setja tertuna saman. Hér á Íslandi er í raun hægt að gera það líka nema að vanillukremið fæst ekki tilbúið. Það eru líka smá vandræði með tilbúna marsípalokið. Hér er hægt að kaupa tilbúið marsípanlok frá Odense ofan á tertuna en það er bara til í einum óspennandi drapplituðum lit. Í Svíþjóð er hægt að kaupa það grænt og bleikt eins og sést hérna:

marsipanlock í ICA

Það er lítið mál að baka svampbotninn og í raun er ekkert mál að búa til vanillukremið en það eru margir sem hræðast það. Það er alveg óþarfi, það þarf bara passa að það brenni ekki við, það getur gerst hratt þegar maður er til dæmis með spanhellur. Vanillukremið finnst mér sjúklega gott og það gerir prinsessutertuna svona góða. Svo er það bara þessi blanda, mjúkur svampbotn, hindberjasulta, vanillukrem, rjómi og marsípan, hún er einfaldlega svo konunglega góð! 🙂

sænsk prinsessuterta

Þegar við bjuggum í Stokkhólmi þá bjuggum við beint á móti bakaríi/kaffihúsi. Það besta sem Vilhjálmur minn vissi var að setjast niður á kaffihúsinu eftir leikskólann og fá að gæða sér á einni sneið af prinsessutertu. Stundum gerðum við það svona spari! 🙂 Þegar Vilhjálmur átti afmæli um daginn þá stóð prinsessuterta efst á hans óskalista fyrir afmælisveisluna. Ég kaupi oft tilbúna marsípanið í Svíþjóð og tek með mér heim en að þessu sinni átti ég það ekki til og keypti þetta ljósa sem fæst hér. Það er ekkert fallegt á litinn og hálfgegnsætt í þokkabót en það er bragðgott. Svo er auðvitað hægt að búa til sitt eigið marsípan, setja í það matarlit og fletja út – en þar dreg ég mörkin!

Uppskrift:

Svampbotn:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Ofninn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Egg og sykur er þeytt saman þar til það verður létt og ljóst. Kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti bætt varlega út í með sleikju. Deiginu er hellt í smurt smelluform (ca 22 cm) og bakað við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Botninn er látinn kólna.

Á milli botnanna og ofan á tertuna: 

  • 1/2 líter rjómi
  • 150-200 g frosin hindber, afþýdd
  • vanillukrem
  • Odense marsipanlock

Vanillukrem:

2 eggjarauður
3 dl mjólk
3 msk sykur
1 msk kartöflumjöl
1 vanillusöng

Vanillustöngin klofin á lengdina, fræin skafin innan úr stönginni og þau sett í pott ásamt restinni af hráefnunum. Suðan er látin koma varlega upp og á meðan er stöðugt hrært í blöndunni með písk. Athugið að þegar kremið fer að þykkna þá gerist það fremur snöggt. Það þarf einnig að passa að kremið brenni ekki við botninn í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Um leið og vanillukremið er orðið passlega þykkt (þannig að það haldist vel á kökubotni án þess að leka- ekki ósvipað hlaupi) er potturinn tekinn af hellunni og kreminu hellt í skál – látið kólna.

IMG_1387

Tertan sett saman:

Þegar hindberin hafa þiðnað eru þau maukuð saman með gaffli (hægt að bæta við 1 tsk af sykri). Gott er að sía frá svolítið af vökvanum þannig að kökubotninn verði ekki alltof blautur undan hindberjamaukinu. Svampkökubotninn er skorinn í þrennt. Ég nota svona sniðuga græju frá Íkea til þess að skurðurinn verði jafn:

4027323-origpic-806cdc

Hindberjamaukinu er smurt á fyrsta botninn. Þá er næsti botn settur á og vanillukreminu smurt yfir hann. Því næst er síðasti botninn lagður ofan á. Rjómanum er þá dreift yfir alla tertuna, þunnt lag á hliðarnar en mest ofan á botninn. Rjóminn er mótaður keilulaga þannig að mest sé af honum í miðjunni, það kemur fallegast út undir marsípaninu. Að lokum er marsípanið lagt varlega yfir alla tertuna og brotið snyrtilega inn á hliðarnar. Ég skar ræmu af marsípaninu, rúllaði þvi upp og lagði í kringum tertuna til að fela samskeytin. Að síðustu er örlitlum flórsykri sigtað yfir tertuna. Ég skrifaði töluna með gel-lit frá Wilton.

IMG_1422Langt frá því að vera bakarís-falleg en góð er hún! 🙂

Draumaterta með fílakaramellukremi


Draumaterta með fílakaramellukremi

„Hvaða hrúgald er þetta“, gætuð þið réttilega spurt ykkur að – „Draumaterta með fílakaramellukremi!“ svara ég þá! Það mætti halda að við lifðum á tertum í sumarfríinu.  Svona slæmt er þetta nú samt ekki alveg hjá okkur. Ástæðan fyrir öllum kökuuppskriftunum hér á síðunni upp á síðkastið er sú að ég var með afmælisveislu um daginn og prófaði nokkrar nýjar tertur sem mig langar að setja hér í uppskriftasafnið mitt.

Fyrir löngu síðan prentaði ég út tertuuppskrift og setti í uppskriftamöppuna mína. Ég man ekki lengur hvaðan uppskriftin kom en mér leist vel á hana og hafði hugsað mér að prófa þessa tertu við gott tækifæri. Uppskriftin féll hins vegar í gleymskunnar dá þar til ég tók til í eldhússkápunum um daginn . Ég ákvað að prófa tertuna og bjóða hana í afmælisveislunni hans Vilhjálms. En þegar ég hafði bakað botnana þá leist mér ekkert á þá. Mér fannst þeir verða harðir og bakast afar ójafnt. Ég skellti nú samt rjóma á milli botnanna og kreminu ofan á kökuna (ég smakkaði á kreminu og það var ljúffengt!). Svo tilkynnti ég afmælisgestunum að þessi kaka væri alveg misheppnuð (í ofanálag lenti hún í óhappi í ísskápnum og var hálf-löskuð!). Ég sagði gestunum að þeir mættu gjarnan smakka á tertunni, svona til að staðfesta að hún væri misheppnuð, en þyrftu ekki að vera kurteisir og klára hana. Hins vegar fór svo hún var kosin besta tertan (í afar óformlegum kosningum!) á kaffihlaðborðinu! Tertan var það vinsæl að ég náði bara einni pínulítlli sneið, eða ekki einu sinni sneið, meira svona lítilli hrúgu, til þess að taka mynd af. Myndir af þessari tertu eru því bæði af skornum skammti auk þess sem hún var ekkert sérlega falleg! Þið verðið því að taka viljann fyrir verkið og trúa afmælisgestunum mínum þegar þeir segja að tertan hafi verið ljúffeng! 🙂

Uppskrift:

  • 200 g sykur
  • 3 egg
  • 100 g pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g döðlur, saxaðar meðalgróft
  • 100 g suðusúkkulaði, saxað meðalgróft
  • 50 g kornflex
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 líter rjómi

IMG_1379

Fílakaramellukrem:fílakaramella

  • 200 g fílakaramellur
  • 1 dl rjómi

Ofn hitaður í 200 gráður. Egg og sykur þeytt mjög vel saman. Þá er
pecanhnetunum, döðlunum, suðusúkkulaðinu ásamt kornflexinu og lyftidufti bætt út í varlega með sleikju.

IMG_1381

Tvö smelluform (ca. 24 cm) smurð og deiginu skipt á milli þeirra. Bakað við 200 gráður í um það bil 20-30 mínútur. Tíminn getur verið dálítið misjafn eftir ofnum, það þarf að fylgjast með botnunum og meta tímann. Botnarnir eru kældir.
1/2 líter rjómi þeyttur og settur á milli botnanna. Ég skildi dálítið eftir að rjóma til að skreyta tertuna með.

Fílakaramellur settar í pott ásamt rjómanum og hitað við vægan hita þar til karamellurnar eru bráðnaðar og hafa blandast saman við rjómann. Þá er kremið látið kólna þar til það er hæfilega þykkt – það er að það sé hægt að hella því yfir tertuna án þess að það leki of mikið. Eftir að kremið er sett á kökuna er hún geymd í ísskáp þar til að kremið er orðið kalt og stífnað.  Þá er kakan skreytt með afgangnum af þeytta rjómanum. Ég skar niður nokkrar fílakaramellur smátt og dreifði yfir tertuna en ég mæli reyndar ekki með því. Mér fannst karamellurnar of seigar undir tönn til þess að nota þær sem skraut.

IMG_1419