Mangókjúklingur


MangókjúklingurÉg hvet ykkur sem hafið áhuga á kökum, tertum og eftirréttum (hver hefur það ekki?) að skoða Fréttatímann vel í fyrramálið. Þar munu birtast nokkrar uppskriftir frá mér sem ég get lofað að valda sælkerum ekki vonbrigðum! 🙂

Í dag ætla ég hins vegar að setja inn klassíska uppskrift, kjúkling og mango chutney! Það mætti kannski halda að borið væri í bakkafullan lækinn með slíkri uppskrift en ég fæ bara ekki nóg af þessari samsetningu, kjúklingur og mangó er svo ákaflega gott saman. Þessi uppskrift hefur verið að flakka um á mörgum sænskum vefsíðum í mismunandi útgáfum og hér er mín útgáfa.

Uppskrift:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry, skornar í bita
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 dl vatn
  • 0,5 msk sojasósa
  • 1/2 – 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 1 púrrlaukur, skorinn í strimla
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 3 msk mango chutney
  • 1 dós 36% sýrður rjómi
  • 1 lítið ferskt mangó, skorið í bita
  • salt og pipar

Kjúklingurinn saltaður og pipraður og því næst steiktur á pönnu upp úr smjöri og/eða olíu. Vatni, kjúklingateningi, sojasósu og sambal oelek er þá bætt út á pönnuna og látið malla í 10 -15 mínútur (helst undir loki).  Því næst er sýrðum rjóma bætt út á pönnuna ásamt púrrlauk og papriku, látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Að lokum er mangóbitunum bætt út í. Borið fram með hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði. 

Mangókjúklingur

Kjúklingaspjót í tælenskri grillsósu


IMG_4400

Í dag fórum við í fermingarveislu til dóttur Önnu æskuvinkonu minnar, hennar Önnu Daggar.

Önnur Ég útbjó kjúkling fyrir veisluna og notaði uppskrift sem birtist frá mér í fermingarblaði Fréttatímans nýverið. Í þeirri uppskrift þræddi ég kjúklinginn upp á spjót og grillaði þau.

IMG_4382Fyrir fermingarveisluna í dag hafði ég bitana staka og eldaði þá í ofni. Svo voru bitarnir bornir fram stakir með pinnum í og heit sósan til að dýfa þeim í. Hafa ber í huga að þegar þessi uppskrift er margfölduð þá þarf ekki að margfalda magnið á sósunni jafnmikið. Til dæmis gerði ég fjórfalda sósuuppskrift (og hefði getað haft þrefalda) fyrir veisluna í dag en sjöfaldaði magnið af kjúklingnum. Ég notaði sem sagt sex kíló af kjúklingbringum frá Rose Poultry sem gaf mér um það bil 320 fremur stóra bita.

ferming

Veislan í dag var frábær, góðar veitingar og fallega skreyttur salurinn. Fermingarstúlkan, Anna Dögg, er bæði í handbolta og skátum og þau áhugamál hennar komu inn sem þema í veisluna. Hún er líka búin að vera í myndlistaskóla og eftir hana liggja mörg leirlistaverk sem skreyttu gestaborðin.

borðin Það var mjög sniðugt að Anna Dögg valdi sér og pantaði m&m frá Bandaríkjunum í sérstökum litum með áritunum. Það kom skemmtilega út og Rice krispies kransakakan var skreytt með því. Hér er hægt að panta svona skemmtileg M&M en ég held að þeir sendi ekki til Íslands, Anna lét senda þetta til ættingja sinna sem búa í Bandaríkjunum (tók ca. 1 viku).

kaka

Anna vinkona hefur verið ótrúlega öflug í gegnum tíðina að búa til minningabækur fyrir börnin sín. Ég held að fáir komist með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum! 🙂

albúmEn hér er uppskriftin af gómsæta kjúklingnum.

Uppskrift (um það bil 14 grillspjót með 4-5 bitum hvert):

  • 4 msk Huntz tómatpúrra
  • 4 msk púðursykur
  • 4 msk Blue Dragon sojasósa
  • 2 tsk cumin (krydd)
  • 2 tsk saxað kóríander í krukku frá Blue Dragon
  • 4 msk Blue Dragon sweet chilli sósa
  • 5 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 dós Blue Dragon kókosmjólk (400 ml)
  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry
  • grillspjót (tréspjót þarf að leggja í bleyti í 30 mínútur fyrir notkun)

Öllum hráefnunum í sósuna, fyrir utan hvítlauk og kókosmjólk, er blandað saman í pott. Á meðan suðan kemur upp er hrært stöðugt í blöndunni þar til púðursykurinn er búinn að leysast upp. Þá er hvítlauknum og kókosmjólkinni bætt út pottinn og sósan látin ná suðu. Því næst er potturinn tekinn af hellunni og sósan látin kólna.

Kjúklingabringurnar eru skornar niður í hæfilega stóra bita. Kjúklingabitunum er blandað saman við tæplega helminginn eða 2/3 af sósunni og sett í kæli í nokkrar klukkustundir, helst yfir nóttu. Kjúklingabitarnir eru því næst þræddir upp á grillspjót og þau grilluð við meðalháan hita í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjötið er grillað í gegn – tíminn er breytilegur eftir grillum. IMG_4366  Það er líka hægt að grilla kjúklingaspjótin í bakarofni við 225 gráður. Spjótin eru borin fram heit eða köld með restinni af heitri sósunni.

IMG_4408

KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu


KFC kjúklingur með sætkartöflumús og sinnepsjógúrtsósu

Milli þess sem ég skipulegg fermingarveisluna sem nálgast óðfluga þarf víst fjölskyldan að borða líka. Í kvöld langaði mig að hafa það sem Kaninn kallar ”comfort food”. Ég er ekki hrifin af KFC en samt er eitthvað ávanabindandi við þann kjúkling, allavega fæ ég stundum löngun í KFC þó svo að ég viti innst inni að mér finnist eiginlega ekkert varið í hann – skrítið! Ég gerði í kvöld mikið betri kjúkling sem fær samt að heita KFC – „Kleifarsels Fried Chicken”. Kjúklingurinn var ákaflega meyr og bragðgóður og féll sannarlega vel í kramið hjá öllum í fjölskyldunni. Ég ætlaði að hafa sætkartöflu franskar með kjúklingnum en það breyttist á síðustu stundu í sætkartöflumús, ég er bara með æði fyrir henni þessa dagana! Það er svo lítið mál að búa hana til, að þessu sinni skrældi ég sætkartöflur og skar í bita. Sauð bitana í vatni þar til þeir voru orðnir mjúkir, stappaði og bætti smá naturel Philapelphia osti út í ásamt Philadelphia með sweet chili) og kryddaði með chiliflögum. Það er líka hægt að nota til dæmis smjör í stað rjómaosts.

IMG_4533

Uppskrift:

  • 6 -7  kjúklingabringur (ég nota kjúkling frá Rose Poultry)
  • ca. 24 Ritz kex kökur
  • 2 bollar Corn Flakes
  • 2 msk sesamfræ
  • 1/4 -1/2 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 2 eggjahvítur
  • 1 dós jógúrt án ávaxta
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1/2 tsk salt
  • ólífuolía

Ofn er hitaður í 200 gráður. Ofnplata er klædd bökunarpappír og pappírinn smurður eða spreyjaður með ólífuolíu. Kornflex og Ritzkex er mulið í matvinnsluvél og blöndunni síðan blandað saman við cayanne pipar, hvítlaukskryddið og sesamfræin. Í annarri skál er eggjahvítum, dijon sinnepi, jógúrti og salti blandað saman. Kjúklingabringunum er dýft vel ofan í jógúrt blönduna og svo velt upp úr kornfleks-blöndunni þannig að kjötið sé alveg þakið. Kjúklingabringunum er raðað á ofnplötuna, þær penslaðar með smá ólífuolíu og bakaðar í ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Athugið að tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á bringunum, ef þær eru litlar þarf jafnvel að taka þær út fyrr. Borið fram með sætkartöflu frönskum eða sætkartöflumús og sinnepsjógúrtssósu.

IMG_4539

Sinnepsjógúrtsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt
  • ca. 1 msk dijon sinnep
  • ca. 1/2 tsk ítölsk hvítlauksblanda frá Pottagöldrum
  • 1.5 tsk hunang

Öllu blandað vel saman með gaffli eða skeið.

IMG_4532

 

 

 

Teriyaki kjúklingur frá Eldum rétt


IMG_4312Enn ein helgin er liðin. Núna líður senn að fermingu hjá Vilhjálmi mínum og það er að mörgu að huga. Ég er enn ekki alveg búin að ákveða hvað ég mun bjóða upp á í fermingunni, núna er ég að einbeita mér að boðskortunum, fötunum og slíku.

Í gærkvöldi vorum við með matarboð og ég hægeldaði nautalund. Við gæddum okkur á afgöngunum núna í kvöld, kjötið var lungnamjúkt og gómsætt, alveg finnst mér nauðsynlegt að gæða mér á góðri nautasteik öðru hvoru! Teriyaki kjúklingur frá Eldum réttEldum rétt“ vikunni lauk hjá okkur fyrir helgi og ég þarf að huga að hversdagsmatnum aftur sjálf – lúxusinn er búinn! 🙂 Síðasti rétturinn í hjá Eldum rétt í síðustu viku var ofureinfaldur og ljúffengur Teriyaki kjúklingur. Það var sniðugt í uppskriftinni að hrísgrjónin voru steikt á pönnunni eftir að rétturinn var tekinn af henni. Þannig fengu þau gott bragð og skemmtilega áferð.

IMG_4321

Uppskrift f. 4: 

  • 700 g kjúklingalundir
  • olía
  • salt & pipar
  • 4 dl hrísgrjón
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í grófa strimla
  • 1 -2 paprikur, skornar í grófa strimla
  • 60 g strengjabaunir, skornar í tvennt
  • 2 laukar, skornir í grófa strimla
  • ca. 2,5 dl Teriyaki sósa

IMG_4309Hrísgrjón eru sett í pott ásamt 8 dl af vatni og smá salti bætt við. Soðið í 12-15 mínútur þar til nánast allt vatn er gufað upp. Þá eru hrísgrjónin tekin af hitanum og látin standa í 3-4 mínútur með lokinu á. Að lokum eru þau skoluð með köldu vatni og lögð til hliðar.

Grænmetið er steikt á pönnu, byrjað á gulrótunum í 1-2 mínútur og svo restinni af grænmetinu bætt út á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur þar til grænmetið fer að brúnast. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður. Þá er gert pláss á pönnunni (ef pannan er lítil er grænmetið tekið af á meðan) og kjúklingalundirnar steiktar þar til þær hafa brúnast á öllum hliðum. Að lokum er teriyaki sósunni bætt út á pönnuna með kjúklingnum og grænmetinu og látið krauma í 3-4 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.  Rétturinn er settur á fat en hrísgrjónunum bætt út á sömu pönnu (án þess að hún sé þvegin á milli) og þau steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Borið fram með því að setja hrísgrjónin á disk og teriyakikjúklinginn ofan á.

IMG_4320

Kjúklingur í satay sósu með sætkartöflumús


Kjúklingur í satay sósu með sætkartöflumúsÉg er ákaflega spennt fyrir matargerðinni í næstu viku en þá ætla ég að takast á við nýtt og spennandi verkefni sem ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur hér á blogginu. Í dag ætla ég hins vegar að færa hér inn óskaplega einfalda og góða uppskrift sem fæddist í eldhúsinu hjá mér í dag. Ég nýtti mér þau hráefni sem ég átti í ísskápnum og úr þessu varð dýrindis máltíð. Ég er sjúk í sætar kartöflur, fæ bara ekki nóg af þeim. Mögulega verða þær enn betri þegar þeim er breytt í sætkartöflumús! Ég passa mig á því að hafa alltaf mjög ríflegt hráefni í sætkartöflumúsina því ég get ekki hamið mig við eldamennskuna – ég er stöðugt að „smakka hana til“! 😉

Þeir sem fylgjast reglubundið með blogginu mínu hafa eflaust tekið eftir því að ég nota danska Green gate matarstellið. Það eru til ótal litir og munstur í stellinu, hvert öðru fallegra. Núna var að koma nýtt munstur fyrir sumarið sem er ó svo dásamlega fallegt, blúndumatarstell! Ég get bara ekki hætt að dást að þessum myndum:

1891255_306443302837966_1993056472_n

Hvað segið þið – er þetta ekki með því fallegra sem þið hafið séð?!

1958517_306444522837844_1817628945_nÞað sem er svo skemmtilegt við þetta stell að það er hægt að blanda öllum tegundunum saman. Hér að ofan eru til dæmis þrenns konar mismunandi stell. Einnig eru komin svo dásamlega falleg glös í stíl við nýja stellið sem heitir Lace Warm Gray. Hér á landi er þetta stell selt hjá Cupcomapny. Ég mæli með að þið kíkið en vara ykkur við, maður fær valkvíða! 🙂

En hér kemur uppskriftin að gómsæta kjúklingaréttinum sem ég lofaði:

IMG_4116

Uppskrift:

  • 700 g kjúklingur (ég notaði úrbeinuð læri frá Rose Poultry), skorinn í bita
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1 dós satay sósa (440 g)  IDShot_225x225
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 100 g ferskt spínat
  • 150 g fetaostur í olíu
  • ca. 1 dl salthnetur, grófsaxaðar
  • IMG_4104

Laukur og paprika steikt á pönnu þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er kjúklingnum bætt út á pönnuna og hann steiktur þar til bitarnir hafa brúnast. Því næst er sósunni bætt út á pönnuna og látið malla í 15 mínútur. Þá er spínatinu hrært út í og látið malla í 5 mínútur til viðbótar. Áður en rétturinn er borinn fram er fetaosti (án olíunnar) og salthnetum dreift yfir. Borið fram með sætkartöflumús.

Sætkartöflumús:

  • ca. 800 g sætar kartöflur
  • 3 msk smjör
  • salt & pipar
  • chili flögur (ég notaði chili explosion krydd)

Sætu kartöflurnar eru afhýddar og skornar í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við smjör og krydd í potti við lágan hita.

IMG_4117

Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Kjúklinga „stir fry“ með kasjúhnetum


Kjúklinga "stir fry" með kasjúhnetumEnn ein helgin flogin hjá. Ég ætla að gera svo mikið um helgar en ég held að ég sé alltaf að misreikna hversu langar þær eru í raun og veru. Ég afrekaði þó ýmislegt skemmtilegt þessa helgina. Hún byrjaði með frábærri vasaljósagöngu seinnipartinn á föstudag þar sem bekkjarfélagar Jóhönnu Ingu ásamt foreldrum fóru upp á Vatnsenda í myrkrinu með vasaljós og krakkarnir leituðu að földum endurskinsmerkjum, drukku heitt kakó og borðuðu piparkökur. Um kvöldið þjófstörtuðum við aðventunni með jólamynd. Við fjölskyldan höfum þá hefð að horfa saman á jólabíómynd á föstudagskvöldum yfir aðventuna.

Aldrei þessu vant var Elfar í helgarfríi og í gær fórum í miðbæinn með krakkana og upplifðum jólastemmninguna þar. Ég var mjög spennt að komast í ráðhúsið á bókamessuna og skoða allar nýju barnabækurnar fyrir bókasafnið mitt. Jóhanna Inga var ekkert lítið glöð að hitta þar fyrir Gunnar Helgason og fá hjá honum áritað eintak af Rangstæður í Reykjavík. Þó svo að hún hafi engan áhuga á fótbolta þá finnst henni þessar bækur frábærar og hún hefur hlustað á hljóðbókina af Aukaspyrnu á Akureyri örugglega meira en tíu sinnum! Um kvöldið fór ég með vinkonum út að borða á Vegamót og svo sáum við leiksýninguna Hús Bernhörðu Ölbu.  Í dag fórum við í notalegt kaffiboð til ömmu og afa þar sem við fengum pönnukökurnar hennar ömmu, mæli með þeim! Sem sagt, margt skemmtilegt brallað um helgina á milli hefðbundnu heimilisverkanna.

Helginni var lokið með sérlega góðum kjúklingarétti. Mér finnst voðalega gott að fá mér svona „stir fry“ rétti á asískum stöðum með kjúklingi, fullt af grænmeti og kasjúhnetum. Í kvöld ákvað ég að reyna að búa til eigin útgáfu af slíkum rétti og mér fannst takast afar vel til. Fjölskyldan var voðalega ánægð með þennan rétt og lofaði hann bak og fyrir. Enn og aftur sannast að það þarf ekki að vera flókið að búa til holla, einfalda og ljúffenga rétti. Ég mæli með því að þið prófið þessa uppskrift við fyrsta tækifæri! 🙂

Uppskrift f. ca. 4-5

  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frystar frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsað og saxað smátt
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, skornir í sneiðar
  • 1 meðalstór haus brokkolí, skorið í bita
  • 1 meðalstór haus blómkál, skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur, skornar í sneiðar
  • 150 g kasjúhnetur
  • 1.5 dl hoisinsósa
  • 1 tsk fiskisósa
  • 1.5 dl vatn
  • salt & pipar
  • chili flögur (má sleppa)

Kasjúhneturnar eru ristaðar á heitri og þurri pönnu þar til þær fá lit og þær lagðar til hliðar. Kjúklingur er skorinn í bita. Góð sletta af ólífuolíu er sett á pönnu og hitað. Þá er chili og hvítlauk bætt út á pönnuna í stutta stund. IMG_1520 Því næst er kjúklingnum bætt við og hann steiktur í 3-4 mínútur, saltað og piprað.

IMG_1529 Svo er öllu grænmetinu bætt út á pönnuna (olíu bætt við ef þarf) og steikt þar til grænmetið fer að mýkjast, hrært í reglulega. Þá er hoisinsósu, fiskisósu og vatni bætt út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur. Að lokum er ristuðu kasjúhnetunum bætt út í réttinn. IMG_1536Ef maður vill hafa réttinn sterkari er hægt að krydda hann aukalega með chiliflögum. Borið fram með hrísgrjónum eða núðlum. Njótið!

IMG_1553

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu


Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Mér finnst alveg einstaklega gaman að tína hráefni úr ísskápnum og pússla þeim saman í matrétt. Svo ekki sé talað um ef útkoman heppnast vel. Í síðustu viku gerði ég kjúklingarétt sem mér fannst sérdeilis góður. Ég átti mikið af ferskri basiliku sem ég þurfti að koma út, einn poka af úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry í frystinum auk rjómaosts og mozzarella osts. Fá og einföld hráefni skapa oft á tíðum bestu réttina! Ég dundaði mér við að setja saman þennan rétt á meðan landsleikurinn var í sjónvarpinu og bauð karlmönnunum í fjölskyldunni upp á réttinn í hálfleik, stelpurnar voru ekki heima, og þeim fannst hann framúrskarandi góður. Sjálf horfði ég bara á leikinn með öðru auganu, mér finnst bara svo leiðinlegt að horfa á fótbolta. Ég verð meira að segja að viðurkenna að ég skipti öðru hvoru yfir á Food Network! 🙂

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Uppskrift

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • 1 egg
  • salt og pipar
  • ca 1 tsk basilika (krydd)
  • hnífsoddur cayanne pipar
  • 1/2 poki brauðteningar með osti og hvítlauki (ca 70 g)
  • 100 g Philadelphia rjómaostur
  • ca. 15 g fersk basilika
  • ca 400 g góð pastasósa (ég notaði Premium Hunts pasta sauce með Herbs & Garlic)
  • 1 kúla ferskur mozzarellaostur (þessi í bláu pokunum – 120 g)
  • spaghettí

Ofn hitaður í 220 gráður og botninn á eldföstu móti smurt. Úrbeinuðu kjúklingalærin snyrt og krydduð með salti og pipar. Eggið er sett í skál og pískað upp með gaffli. Brauðteningarnir eru settir í matvinnsluvél og fínhakkaðir, cayanne pipar og basilikukryddi blandað saman við. Hvert læri er smurt með góðri klípu af rjómaosti og fersku basilikublöðunum raðað þétt á rjómaostinn. IMG_1173 Lærunum er rúllað upp og þeim dýft í eggjahræruna og því næst velt upp úr brauðteningablöndunni. Þau eru síðan lögð í eldfasta mótið með samskeytin niður. Mér tókst að halda rúllunum saman á meðan ég velti þeim upp úr blöndunni en það er líka hægt að nota tannstöngla til þess að halda þeim saman. IMG_1174Sett inn í ofn í um það bil 20 mínútur. Mozzarellaosturinn er skorinn í sneiðar, jafnmargar og kjúklingalærin segja til um. Þá er eldfast mótið tekið úr ofninum. IMG_1177 Pastasósunni er skipt í tvennt, öðrum helmingnum er skipt ofan á hverja rúllu. Þar ofan á er sett ein sneið af mozzarellaostinum á hverja rúllu. IMG_1180 Eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað dálítið. Afgangurinn af pastasósunni er hituð upp. Kjúklingarúllurnar eru bornar fram með spaghettí og upphituðu pastasósunni. Njótið! 🙂

Mozzarellakjúklingur með basiliku- og rjómaostafyllingu

Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas


Kjúklingasúpa með karrí, eplum og ananas

Ég veit að þetta er klisjukennt en ég get svarið það, mér finnst stöðugt vera helgi – tíminn líður svo hratt! Núna eru haustveikindi skollin á hérna í Kleifarselinu. Greyið Vilhjálmur minn fékk yfir 40 stiga hita í marga daga og það kom í ljós að hann var kominn með bæði lungnabólgu og eyrnabólgu. Nú krossleggjum við fingur að restin af fjölskyldunni sleppi við svona leiðindarveikindi. Eiga ekki einmitt kjúklingasúpur að vera svo góðar fyrir veikt fólk? Ég bjó til svo góða kjúklingasúpu í vikunni sem leið. Þó svo að hún hafi ekki náð ein og sér að lækna lungnabólgu þá nutu allir fjölskyldumeðlimar þessarar ljúffengu súpu. Súpan er dálítið sterk (styrkleikinn fer þó eftir smekk) og þá finnst mér afar gott að hafa eitthvað sætt með í súpunni, að þessu sinni notaði ég epli og ananas í súpuna og fannst það súpergott!

IMG_0522

Uppskrift:

  • ca 700 g kjúklingur (lundir, bringur eða úrbeinuð læri), skorinn í litla bita
  • smjör til steikingar
  • salt og pipar
  • 1 msk karrí
  • 1  meðalstór rauðlaukur, saxaður fínt
  • 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og skorið í litla bita
  • lítil dós ananashringir (227 gramma dós), skornir í litla bita + safinn
  • 1/2 -1 rauður chili pipar, saxaður fínt (gott að prófa sig áfram með magnið, chili piparinn getur verið misstór og missterkur)
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (411 g – ég notaði frá Hunts með basilku, hvítlauk og oregano)
  • 1 dós kókosmjólki (400 ml)
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 msk + 1/2 msk kjúklingakraftur
  • ferskt kóríander, saxaður(má sleppa)
  • sýrður rjómi til að bera fram með súpunni

Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og steiktur upp úr smjöri á pönnu. Á meðan hann er steiktur er 1/2 msk af kjúklingakrafti dreift yfir kjúklinginn. Hann er svo steiktur þar til hann hefur náð góðum steikingalit. Þá er hann tekinn af pönnunni og settur til hliðar. Smjör og/eða olía er set í stóran pott. Eplabitar, ananasbitar, laukur, karrí og chili pipar sett út í pottinn og steikt á meðlahita þar til laukurinn er orðin mjúkur. Þá er tómötum í dós, kókosmjólk, ananassafanum og rjóma ásamt 1 msk af kjúklingakrafti bætt út í og súpan látin malla í 10 mínútur. Í lokinn er kjúklingnum bætt út og súpan smökkuð til með salti og pipar (og jafnvel chilidufti eða flögum fyrir þá sem vilja sterkari súpu). Súpan er borin fram með ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Ekki er verra að bera fram með súpunni nýbakað Naanbrauð!

IMG_0530

Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi


IMG_0431

Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.

IMG_0485Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.

IMG_0457Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.

IMG_0467

Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!

IMG_0474 IMG_0476Gott að bera smjör á heitt brauðið

Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!

IMG_0448Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.

Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.

IMG_0424

Ferskt og gott hráefni

Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar –  þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.

IMG_0488

Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂

IMG_0497

Auður Ögn, Shabana og ég

Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.

IMG_0483

Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.

Korma kjúklingur:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
  • olía til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4-5 cm bútur engifer
  • 8 stórir hvítlauksgeirar
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli AB-mjólk
  • 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
  • salt eftir smekk

Kryddblanda:

  • 2 msk kóríander duft
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
  • 1 tsk Garam Masala
  • 1 tsk chiliflögur eða duft
  • 1 tsk svartur pipar

Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.

Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauðiraita sósu og banana og gúrkusalati.

IMG_0499

Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)

  • 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
  • 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
  • 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
  • 25 g gróft malaðar hnetur
  • 1-2 tsk kókos
  • 1/2 – 1 tsk sykur
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.

Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.

IMG_0436

Blómkáls- og kartöfluréttur: 

  • 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
  • 300 g kartöflur
  • olía til steikingar
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
  • 1 msk heil cummin fræ
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk turmerik
  • 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
  • 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
  • salt og pipar eftir smekk
  • ferskt kóríander

Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.

Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast,  því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.

Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.

IMG_0482