Gullterta með vanillukremi og hindberjamauki


Amma bakar stundum köku sem hún kallar gulltertu. Það eru tveir svampbotnar bakaðir með marengs ofan á sem eru síðan lagðir saman með rjóma á milli. Mér hefur alltaf fundist þetta svo góð terta og hef verið að hugsa um það undanfarið að baka svipaða tertu. Ég ákvað að bæta við tveimur hráefnum sem eru afar sænsk, það er vanillukrem annars vegar og hindberjamauk hinsvegar. Vanillukrem og vanillusósur eru eiginlega uppstaðan í bakelsi hjá Svíum. Þessi svampbotn afar gómsætur og ekkert líkur svampbotnum sem hægt er að kaupa tilbúna. Það þarf að skipta honum í þrjá hluta en ég er ægilegur klaufi að skera beint! Það kom sér því vel að ég hafði keypt fyrir nokkru voða sniðugt og einfalt tæki til þess einmitt að skera tertubotna (í Íkea) og það þrælvirkaði. Mér fannst þessi terta ljúffeng og mér skilst að sama hafi átt við um þá sem nutu hennar með mér!

Uppskrift:

Svampbotn:

  • 3 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl kartöflumjöl
  • 1 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í 175 gráður. Þeytið saman egg og sykur þar til það verður létt og ljóst. Bætið við kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti. Hellið deginu í smurt smelluform (ég notaði 20 cm form til að fá hæð í kökuna) og bakið við 175 gráður í ca. 35 mínútur. Látið botninn kólna og skiptið honum svo í þrjá hluta.

Vanillukrem:

Heimatilbúið vanillukrem á sænska vísu er hrikalega gott og til margvíslegra nota. Kremið er afar einfalt að búa til, það mikilvægasta er að láta það ekki sjóða eða brenna við botninn.

  • 2 eggjarauður
  • 3 dl mjólk
  • 3 msk sykur
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 vanillustöng

Kljúfið vanillustöng í tvennt, skafið fræin innan úr og setjið í lítinn pott. Bætið í restinni af hráefnunum út í pottinn. Pískið stöðugt á meðan suðan kemur upp og kremið er að þykkna. Kremið má alls ekki sjóða og það þarf að passa að það brenni ekki við botninn. Þegar passlegri þykkt er náð (þannig að kremið sé hægt að setja á kökubotn án þess að það leki) er kreminu helt úr pottinum og það látið kólna. Þetta vanillukrem er hægt að nota á kökur, í tertur og í snúða svo eitthvað sé nefnt.

Hindberjamauk:

  • 3 dl hindber (afþýdd)
  • 2 msk flórsykur
  • 1 msk kartöflumjöl

Setjið öll hráefnin í pott á meðalhita og hrærið þar til að blandan er orðin að föstu mauki. Látið kólna.

Marengs:

  • 3 eggjahvítur
  • 1/2 tsk edik
  • 1/2 tsk salt
  • 1 dl sykur
  • +1 peli rjómi, þeyttur

Skiptið svampbotninum í þrjá hluta. Setjið vanillukremið á neðsta botninn og setjið miðjubotninn yfir. Ofan á hann er svo sett hindberjamaukið. Ofan á hindberjamaukið er settur þeyttur rjómi. Eggjahvíturnar eru þeyttar ásamt ediki og salti. Sykri bætt við smátt og smátt og þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Efsti hluti svampbotnsins er lagður á ofnplötu með smjörpappír á og marengsinn er settur yfir botninn. Gerið toppa í marengsinn hér og þar. Bakið í ofni við 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til marengsinn hefur fengið smá lit. en hann á að vera mjúkur í miðjunni. Þegar marengsbotninn hefur kólnað er hann lagður ofan á tertuna. Þetta er terta sem er jafnvel enn betri daginn eftir.

Ostakaka með mangó og ástaraldin


Ég setti inn um daginn uppskrift af bakaðri ostaköku. Þá talaði ég um að mér þætti þær eiginlega betri en óbakaðar ostakökur en ég veit ekki lengur, ég get bara ekki gert upp á milli þeirra! Ég prófaði nefnilega óbakaða ostaköku með mangó og ástaraldin og hún var afar ljúffeng! Ég sló saman tveimur uppskriftum af ostakökum. Annars vegar úr sænsku kökubókinni Lomelinos Tårtor, sú ostakaka er borin fram frosin og þess vegna ekki með matarlími. Mér finnst hins vegar frekar snúið að bera fram frosnar tertur í veislum, oft eru þær of frosnar og harðar í byrjun veislunnar en orðnar of linar í lokin. Mér fannst hins vegar mjög spennandi í þessari uppskrift hvernig mangói var blandað við sjálfa ostakökuna (já, ég elska mangó!). Hins vegar notaði ég uppskrift af óbakaðri ostaköku (með matarlími) sem borin er fram með ástaraldin (sem mér finnst næstum því jafn gott og mangó!). Þó ég segi sjálf frá þá var ég nú bara býsna ánægð með útkomuna af þessum samankurli úr tveimur uppskriftum!

Stundum, þegar þeyttur rjómi er í uppskrift, finnst fólki óljóst hvaða mælieiningu er um að ræða. Ef í uppskriftinni er einn desilíter rjómi, þeyttur, er það þá óþeyttur desilíter eða þeyttur? Það magn sem gefið er upp í uppskriftum er alltaf óþeyttur rjómi (nema annað sé tekið fram). Í þessari uppskrift er einn peli rjómi og þá er sem sagt verið að tala um einn pela af óþeyttum rjóma sem verður svo auðvitað meira magn að umfangi þegar búið er að þeyta hann.

Uppskrift:

Botn:

  • 250 gr Digestive kex
  • 100 gr smjör
  • 1 msk sykur

Fylling

  • 300 gr Philadelphia rjómaostur
  • 250 gr. ricotta ostur (má nota rjómaost)
  • 1 peli rjómi
  • 50 gr sykur
  • 3 msk appelsínusafi (eða annar safi)
  • 4 stk matarlím
  • 250 gr mangó (ferskt eða frosið)
  • 6 stk ástaraldin (passion fruit)

Aðferð:

  1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið og sykur. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
  2. Þeytið rjóma og geymið í ísskáp.
  3. Vinnið Philadelphia ost, ricotta ost og sykur þar til osturinn er orðinn mjúkur.
  4. Leggið matarlímsblöðin eitt í einu í skál með vel köldu vatni og látið liggja í 5-10 mínútur. Þegar tíminn er liðinn eru blöðin orðin mjúk og þykk. Takið þau úr vökvanum og kreistið vatnið úr þeim. Hitið ávaxtasafann í potti eða örbylgjuofni, setjið matarlímið út  í heitan vökvann. Hrærið þar til matarlímið hefur bráðnað saman við og hellið matarlímsblöndunni út í ostablönduna. Því næst er þeytta rjómanum bætt út í.
  5. Ef notað er frosið mangó þá er það afþýtt. Mangó er maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið mangómaukinu saman við ostablönduna, en bara lauslega þannig að það myndist marmaraáferð í ostablöndunni.
  6. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn og kælið vel í 4-6 tíma, en best er kakan daginn eftir.
  7. Ástaraldin skorin í tvennt, aldinið skafið innan úr þeim og því dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Heit súkkulaðikaka með mjúkri miðju


Í gær átti ,,litla barnið“ okkar afmæli, Jóhanna Inga varð átta ára gömul! Samkvæmt fjölskyldusið var hún vakin í morgunsárið með köku, söng og gjöfum. Jóhanna Inga hafði óskað sér ,,súkkulaðiköku með mjúkri miðju“ sem ég bakaði auðvitað með glöðu geði. Ég held að margir sælkerar muni eftir kökunni framan á Kökublaði Gestgjafans árið 2002! Ég man allavega vel eftir þeirri forsíðu, litla syndin ljúfa! Ég keypti mér það blað hér á Íslandi og bakaði þessa ljúfu synd ósjaldan í matarboðum í Stokkhólmi næstu árin. Snilldin við þessa köku er að uppskriftin er afskaplega einföld og það er hægt að útbúa deigið einum degi áður en kakan er bökuð. Svo er kakan afar falleg á diski svo ekki sé talað um hversu ljúffeng hún er! Það eina sem þarf að hafa fyrir er að finna út nákvæman bökunartíma. Ef kakan er of lítið bökuð þá heldur hún ekki forminu og lekur út um allt (en er samt góð!) en ef hún er ofbökuð þá lekur ekkert úr miðjunni (en hún er samt góð!). Þetta snýst allt um mínútur. Ég hef komist að því að fyrir ofninn minn þurfa kökurnar sem bakaðar eru ókældar 11 mínútur í ofni, fyrir deig sem geymt er í ísskáp og sett kalt í ókæld form þarf 14 mínútur, en fyrir deig sem er geymt í ísskáp í sjálfum bökunarformunum þarf 16 mínútna bökunartíma. En best finnst mér að baka eina til tvær auka kökur sem ég prófa tímann á. Tek þá eina köku út t.d. eftir rúmar 10 mínútur og sé hversu vel hún er bökuð, (ég lofa, prufukökurnar lenda ekki í ruslinu! 😉 ) þá er hægt að áætla hversu langan tíma hinar kökurnar sem enn eru í ofninum þurfa. Þegar maður er einu sinni búin að finna út tímann fyrir sinn bakarofn þá er afar einfalt að baka þessar kökur í framhaldinu.

Uppskrift f. 6

  • 140 gr smjör, meira til að smyrja formin
  • 140 gr 70% súkkulaði eða hefðbundið suðusúkkulaði
  • 2 egg
  • 3 eggjarauður
  • 140 gr flórsykur, sigtað
  • 60 gr hveiti, sigtað

Hitið ofninn í 220 gráður (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform mjög vel með smjöri. Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin (rúmlega 1 dl í hvert form) og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í ca. 11-12 mínútur. Takið þær út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa betur um þær og hvolfið þeim á diska. Það er gott að leggja disk yfir formið og hvolfa því síðan, þá er minni hætta á að kakan brotni í sundur en ef forminu er hvolft beint á diskinn. Sigtið flórsykur yfir og berið kökurnar fram t.d. með hindberjasósu, þeyttum rjóma og/eða vanilluís. Skreytið með hindberjum eða jarðaberjum.

Hindberjasósa

  • 200 g hindber, fersk eða fryst
  • 3 msk. sykur
  • 2-3 tsk vatn

Látið berin þiðna ef þau eru frosin. Setjið þau síðan í matvinnsluvél eða blandara ásamt sykri og vatni og maukið þau (líka hægt að mauka þau með gaffli). Smakkið sósuna, bragðbætið hana með meiri sykri ef þarf og berið hana síðan fram með kökunum.

Hafraklattar


Þessir hafraklattar eru ofsalega góðir og ef maður einbeitir sér eingöngu að haframjölinu í uppskriftinni er jafnvel hægt að ímynda sér að þeir séu bráðhollir! Það er mikilvægt að baka klattana ekki of lengi. Ekki láta ykkur bregða þó þeir séu enn dúnmjúkir eftir baksturinn. Leyfið þeim að kólna og þá dökkna þeir aðeins og harðna en verða samt enn lungnamjúkir að innan. Jóhanna Inga beið spennt eftir að myndartökunni lyki (börnin eru farin að spyrja alltaf núna: ,,ertu búin að taka mynd, megum við borða?“ 😉 ) og hámaði svo í sig hafraklatta á mettíma!

Uppskrift:

  • 500 gr smjör (lint)
  • 100 gr sykur/hrásykur
  • 300 gr púðursykur
  • 4 tsk vanillusykur
  • 4 egg
  • 350 gr hveiti/spelt
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • 550 gr haframjöl
  • 100 gr. smátt skorið suðusúkkulaði (má auka, minnka eða sleppa)
  • 1 bolli rúsínur (má auka, minnka, sleppa)

Aðferð:

Smjör, sykur og púðursykur þeytt þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í einu og einu í senn ásamt vanillusykri. Þurrefnum bætt út í, hveiti, matarsóda, salti og kanil, og í lokin er haframjöli, rúsínum og súkkulaði bætt við.

Á þessu stigi er deigið mjög blautt. Búið til kúlur í höndunum, ca. á stærð við tómata/plómur, setjið á plötu og fletjið lítillega út. Ég næ um það bil 9 stykkjum á plötu. Athugið að klattarnir stækka í ofninum.

Bakað í miðjum ofni við 200° í  ca 8-10 mínútur. Mikilvægt að baka ekki klattana of lengi, þeir eiga rétt að vera ljósbrúnir. Úr þessari uppskrift fékk ég ca. 30 klatta.

Heimsins bestu Brownies


Ég hef áður minnst á muscovado sykur og hvað hann sé góður í tertur og kökur. Muscovado sykur er hrásykur, unninn úr sykurreyr en ekki hreinsaður. Þó að hann sé ekki beint hollur þá inniheldur hann b-vítamín og ýmis önnur næringarefni sem eru ekki í hreinsuðum sykri. Það er ákveðið lakkrís/karmellubragð af honum og hann hentar því afar vel í ýmsar kökur, sælgæti, karamellusósur auk heitra drykkja. Þegar muscovado sykur er notaður í kökur verða þær bragðmeiri og rakari en ef að notaður er venjulegur sykur eða púðursykur þar sem að muscovado heldur svo vel í sér raka. Þess vegna hentar hann vel í brownies því þær eiga að vera svolítið rakar og næstum klesstar. Mér finnst þessar brownies feykigóðar og einfaldar að baka. Þegar ég er með matarboð skelli ég oft í eina uppskrift á meðan ég elda matinn og býð upp á nýbakaðar og gómsætar brownies í eftirrétt!

Uppskrift:

200 gr. suðusúkkulaði
225 gr. smjör
3 egg
225 Muscovado sykur (dökkur)
80 gr. hveiti
1 tsk. lyftiduft
100 gr. grófhakkaðir valhnetukjarnar, líka hægt að nota pekanhnetur.
200 gr. mjólkursúkkulaði, grófbrytjað

Hitið ofnin í 180 gráður og smyrjið ferkantað form (ca. 20×30 cm). Brjótið suðusúkkulaðið í bita og setjið í pott ásamt smjörinu, bræðið við mjög vægan hita. Takið pottinn af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan slétt. Þeytið saman egg og Muscovado sykur þar til létt og ljóst. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við. Blandið hveiti, lyftidufti, valhnetum og mjólkursúkkulaði varlega saman við. Hellið í formið og bakið neðarlega í ofni í 30-40 mín, eða þar til skorpa hefur myndast ofan á en kakan er enn mjúk. Leyfið kökunni að kólna dálítið í forminu áður en hún er skorin í bita. Berið bitana fram volga með vanilluís eða þeyttum rjóma, berjum og jafnvel heitri karamellusósu!

Karmellusósa:

120 g smjör
115 g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi

Setjið allt hráefnið saman í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í 3-5 mínútur. Hærið stöðugt í á meðan.
Berið sósuna fram heita með kökunni

Frönsk súkkulaðikaka


Eldhússaga dagsins er frönsk súkkulaðikaka, saga sem verður aldrei of oft sögð! 🙂 Strangt til tekið eru klassískar franskar súkkulaðikökur ekki með kremi, en þessi fær undanþágu án nokkurra vandkvæða! Ljúffeng súkkulaðikakan leidd saman við gómsæt kremið, það er bara ekki hægt að standa í vegi fyrir slíkri sameiningu, enda les líklega engin frönsk kökulögga þetta blogg! Ég skreyti oftast þessa frönsku dásemd með jarðaberjum eða hindberjum. En verandi stödd á Vestfjörðunum þurfti ég að grípa til þess sem í boði var. Það var annars vegar kiwi og hins vegar nýtínd bláber frá bláberjalyngi við fjallsrætur Brella þó enn sé júlí. Einkenni franskra súkkulaðikaka eru að í þeim er lítið, jafnvel ekkert hveiti. Kakan er dökk, þétt og þung og á að vera eins og hún sé dálítið klesst. Þetta er einföld kaka sem flestum þykir góð, þetta er til dæmis uppáhaldskaka yngstu barnanna á heimilinu.

Uppskrift

Botn:

  • 2 dl sykur
  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 1 dl hveiti
  • 4 stk egg

Súkkulaðikrem:

  • 150 g suðusúkkulaði
  • 70 g smjör
  • 2-3 msk síróp

Aðferð-botn:

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Bakið í vel smurðu tertuformi (ath. ekki lausbotna) við 170°C í 30 mínútur.

Aðferð – krem:

Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Kakan á að vera blaut í miðjunni. Gott er að bera kökuna fram með rjóma eða ís og berjum, til dæmis jarðaberjum, hindberjum eða bláberjum.

Gulrótarkaka með súkkulaði og eplum


Gulrótarkökur eru rosalega góðar, sérstaklega þær sem eru safaríkar og bragðmiklar. Þessi er ein af þeim, þetta er dásamlega góð uppskrift. Þessi gulrótarkaka er best daginn eftir að hún er bökuð.

Uppskrift:

  •  3 stór egg
  • 2.5 dl matarolía (t.d. sólblómaolía)
  • 200 gr. sykur
  • 150 gr púðursykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 tsk kanill
  • 1/2 tsk múskat
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 320 gr. hveiti
  • 100 gr. suðusúkkulaði, fínsaxað
  • 400 gr gulrætur, rifnar
  • 1-2 græn epli, rifin

Rjómaostakrem

  •  100 gr. smjör, við stofuhita
  • 200 gr. flórsykur
  • 200 gr. rjómaostur, við stofuhita
  • 3 tsk vanillusykur

Aðferð:

Hitð ofinn í 180 gráður. Þeytið saman egg, sykur og olíu þar til blandan verður ljós. Bætið út í hveiti og öðrum þurrefnum og blandið varlega saman. Bætið við súkkulaði, rifnum gulrótum og rifnum eplum og blandið við deigið. Bakið í lausbotna smurðu formi (25 cm) í miðjum ofni í 50-60 mínútur.

Krem:

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til það verður létt og ljóst, bætið þá við rjómaostinum og vanillusykri. Smyrjið kremið á kökuna þegar hún er orðin köld.

Amerísk ostakaka með bláberjum


Jæja, tölum um ostakökur, þær dásemdarkökur! Það eru til tvenns konar útfærslur á ostakökum, bakaðar og óbakaðar. Uppistaðan í þessum óbökuðu er rjómaostur og þeyttur rjómi. Þær eru einungis kældar og því þarf oftast að setja í þær matarlím til að þær haldi forminu. Í bökuðum ostakökum, stundum kallaðar New York ostakökur, er uppistaðan líka rjómaostur, í sumum uppskriftum er að auki sýrður rjómi en sammerkt með þeim öllum er að í þeim eru egg. Bakaðar ostakökur eru, eins og segir sig sjálft, bakaðar í ofni en bornar fram kaldar. Hér áður fyrr gerði ég oftar óbakaðar ostakökur en núna er ég farin að gera oftar bakaðar. Þessi uppskrift af bakaðri ostaköku (kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu) er mín uppáhalds hingað til, ég mun þó örugglega halda áfram að prófa fleiri uppskriftir! Ég held að galdurinn við hana sé hvíta súkkulaðið. Það er ótrúlegt hvað hvítt súkkulaði getur gert mikið fyrir kökur og eftirrétti! Í upphaflegu uppskriftinni er þessi ostakaka bökuð með bláberjum. Sú útgáfa hjá mér sést á myndinni hér að ofan (borin fram á dásamlega mánaðarstellinu sem ég fékk frá ömmu). En mér finnst hins vegar ekki verra að sleppa bláberjunum og skreyta hana með hindberjum og bera fram með hindberjasósu sem er himnesk með þessari ostaköku! Það er heldur ekkert sem segir að ekki sé hægt að baka hana með bláberjunum og bera fram með hindberjasósu! Þið sem elskið „Cheescake Factory“ ostakökur verðið að prófa þessa!

Uppskrift

  • 300 gr Digestive kex
  • 150 gr ósaltað smjör
  • 1 dl sykur
  • 1 dl maizenamjöl
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 gr Philadephia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi 10%
  • 3 egg
  • 1 dl rjómi
  • 200 gr hvítt súkkulaði
  • 2.5 dl. bláber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
Hindberjasósa:
  • 300 gr hindber (má nota frosin ber sem búið er að afþýða)
  • 2-3 msk sykur

Aðferð:

  1. Ofn stilltur á 175 gráður. Smjör brætt og kex mulið í matvinnsluvél eða mixer og því blandað saman við smjörið. Sett í bökunarform með lausum botni og blöndunni þrýst i í botninn og aðeins upp í hliðar á forminu. Botnin bakaður í 10 mínútur og látin kólna.
  2. Ofninn lækkaður í 160 gráður. Sykri, maizenamjöli og vanillusykri blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og rjómaosti bætt við og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við og þeytt vel, en þó ekki of lengi eftir að eggjum hefur verið bætt við. Rjómanum smám saman bætt við og þeytt á meðan. Súkkulaði brætt yfir vatnsbaði og bætt út í. Hellið blöndunni yfir kexbotninn og dreifið báberjunum yfir kökuna.
  3. Bakið við 160 gráður í 45-55 mínútur, eða þar til að kakan er bökuð að öllu leiti nema bara dálítið blaut í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum og henni leyft að standa í ofninum í allavega hálftíma í viðbót. Notið álpappír yfir kökuna ef hún fer að dökkna mikið þegar líður á bökunartímann. Athugið að ostakakan verður ekki beint stíf þegar hún er tilbúin, sjáið þetta myndband við ca. 2.55 mínútur, þarna er sýnt að kakan getur ,,dansað“ svolítið þó hún sé tilbúin. Síðan sígur hún dálítið og jafnar sig. Það koma oft sprungur í yfirborðið en það er algengt, látið það ekki á ykkur fá! Ostakakan látin bíða í ísskáp yfir nóttu eða í minnst 6-8 tíma áður en hún er borin fram.
  4. Fyrir þá sem vilja prófa hindberjasósuna með! Afþýðið 300 gr. af hinberjum, bætið við 2-3 msk. af sykri og hrærið vel saman með gafli eða töfrasprota. Bætið við örlitlu vatni ef sósan er of þykk. Það er hægt að hella sósunni ofan á kökuna og bera hana þannig fram eða bera sósuna fram með kökunni. Ég mæli með þessum frosnu hindberjunum í Kosti, þau eru alveg eins og þau séu fersk þegar þau eru afþýdd. Þau eru rándýr, 2000 kr. fyrir tæpt kíló. En það er samt mun ódýrara en að kaupa fersk ber, auk þess eru þau öll í lagi (maður fær oft ónýt fersk ber), hægt að næla sér í skammt í frystinn hvenær sem er og svo eru þau stór og ljúffeng!

Dásamleg kirsuberjaterta


Þessa mynd tók ég fyrir um það bil ári síðan þegar ég gerði þessa dásamlegu kirsuberjatertu í fyrsta sinn og tók hana með til góðra vina í Grjótaþorpinu. Ég hafði séð upppskriftina á ýmsum sænskum matarbloggum og gat ekki annað en prófað. Síðan þá hef ég gert þessa tertu nokkrum sinnum, breytt og aðlagað uppskriftina og núna er þetta ein af mínum uppáhaldstertum.  Það er mikilvægt að gera tertuna deginum áður og leyfa henni að brjóta sig í kæli yfir nóttu áður en hún er borin fram. Botnarnir verða þá blautir, eiginlega eins og súkkulaðifrauð eða búðingur sem er einstaklega ljúffengt í bland við gómsæta kirsuberjakremið! Í uppskriftinni er mascarpone ostur en ég hef líka notað rjómaost og mér finnst það alveg jafn gott. Kirsuber fást yfirleitt aldrei á veturnar og þá er hægt að skreyta tertuna með öðrum berjum. En núna eru kirsuber til í mörgum verslunum þannig að það er ákkurat rétti tíminn til að prófa þessa dásemd! Það tekur dálítin tíma að gera tertuna þar sem að það þarf að baka þrjá botna og búa til tvenns konar krem. En ég get lofað að það er þess virði! 🙂

IMG_8361

Hér bakaði ég tertuna við annað tækifæri og skeytti hana með jarðaberjum í stað kirsuberja

Uppskrift

Kökubotnar

  • 2 egg
  • 2 dl sterkt kaffi
  • 2½ dl súrmjólk
  • 1,25 dl matarolía
  • 200 g hveiti
  • 420 g sykur
  • 85 g kakó
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk vanillusykur

IMG_7174Ofninn hitaður í 160 gráður á blæstri. Þrjú bökunarform, 20 cm í þvermál, smurð að innan. Gott er að klæða formin að innan með bökunarpappír til að auðveldara sé að losa botnana.

Eggjum, kaffi, matarolíu og súrmjólk er hrært saman í stutta stund, því næst er þurrefnunum bætt út í og hrært þar til deigið er jafnt og kekkjalaust.

Deiginu er svo skipt í formin þrjú og bakað í ca. 35 mínútur. Athugið að botnarnir munu líta út fyrir að vera blautir. Botnarnir eru látnir kólna. Það er hægt að setja botnana í frysti í ca. 30 mínútur áður en kremið er sett á til þess að auðvelda fyrir ásetningu kremsins.

Kirsuberjakrem

  • 500 g mascarpone ostur
  • 3 dl rjómi
  • 2½ dl kirsuberjasósa (t.d. frá Den gamle fabrik)
  • 120 g sykur
  • ½ tsk vanilusykur

Rjóminn er þeyttur og geymdur í ísskáp. Því næst er mascarpone ostur, sykur og vanillusykur þeytt saman þar til blandan er kekkjalaus. Þá er þeytta rjómanum bætt varlega út í mascarpone blönduna með sleikju ásamt kirsuberjasósunni.

Einn kökubotn er settur á kökudisk og hann smurður kirsuberjakremi, þetta er er endurtekið með hina tvo kökubotnana. Kirsuberjakreminu er svo smurt ofan á kökuna og á hliðarnar. Tertan kæld í ísskáp á meðan súkkulaðikremið er búið til.

Súkkulaðikrem

  • 175 g suðusúkkulaði
  • ½ dl rjómi
  • 1 msk smjör
  • 1msk síróp

Súkkulaði, rjómi, smjör og síróp er hitað saman í potti við vægan hita. Gott er að hræra blöndunni öðru hvoru þar til hún er orðin slétt og samfelld. Þá er súkkulaðiblöndunni leyft að kólna þar til hún hefur þykknað passlega mikið. Að lokum er súkkulaðikreminu hellt yfir tertuna og það látið leka dálítið niður með köntunum. Þá er kirsuberjunum dreift yfir tertuna með stilknum á, ef kirsuber eru ekki fáanlega er hægt að nota jarðaber. Þetta er terta sem bragðast best daginn eftir!

 

Amerísk bananakaka


Þessi uppskrift af bananköku hefur fylgt okkur fjölskyldunni í 20 ár eða frá því að við hjónin fórum að búa! Hún er alltaf jafn vinsæl og ég held að það hafi aldrei gerst að hún hafi verið til í meira en sólarhring á heimilinu! Þetta er uppáhaldskaka eiginmannsins og eina kakan sem hann bakar! 🙂


Uppskrift

  • 150 gr. mjúkt smjör (eða smjörliki)
  • 3 dl. sykur
  • 2 egg
  • 5 dl. hveiti
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. salt
  • 1/2 tsk. negull
  • 1/2 tsk. múskat (má sleppa)
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 3 bananar (vel þroskaðir)

Aðferð:

Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smjöri og sykri hrært saman mjög vel. Eggjum bætt út í, einu í senn. Þurrefni blandað saman og sáldrað út í. Bananar maukaðir og settir út í. Degið sett í hringlaga smurt form form. Bakað í ca. 45 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn. Það gæti þurft að setja álpappír yfir hana undir lok bökunartímans ef hún er farin að dökkna mikið.