Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku


Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Dagarnir líða svo ótrúlega hratt hjá mér nú um mundir. Á hverjum degi finnst mér ég rétt komin á fætur þegar það er komið aftur kvöld. Ég á það til að taka að mér of mikið af verkefnum. Það er mikið að gera í aðalvinnunni minni, nóg að gera í aukavinnunni og komið að skiladögum í auka-aukavinnunni minni. Ég á erfitt með að segja nei við verkefnum og þegar ég hef tekið þau að mér þá vil ég gera þau 110% og tímarnir í sólarhringnum duga ekki til. Ég er samt að æfa mig að segja nei og tekst það öðru hverju! 🙂 Núna er sérstaklega mikið að gera því ég er að auki að undirbúa og pakka fyrir ferðalag okkar Elfars sem hefst á morgun. Hann er að fara að flytja fyrirlestur á ráðstefnu á Rhodos og ég gat ekki staðist mátið að fara með. Mikið verður gott að fara í sólina í nokkra daga eftir sólarlaust sumar hér á Íslandi! Amman og afinn eru svo góð að flytja inn til barnanna á meðan þannig að við getum notið þess að vera í fríi áhyggjulaus – mikið hlakka ég til! 🙂

Áður en ég vík að uppskrift dagsins þá langar mig að benda á frábæra bók sem kom út í síðustu viku. Steingrímur Sigurgeirsson rekur vefinn Vínótek sem er dæmalaust öflugur og flottur uppskriftavefur en að auki eru þar umfjöllun og dómar um vín og veitingastaði ásamt vefverslun með til dæmis vínglösum. Steingrímur var að gefa út bókina „Vín – frá þrúgu í glas„, bók sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um vín. Ég hef ekkert vit á vínum, vel oftar en ekki vín út frá fallegum myndum á flöskunni, finnst sæt hvítvín best því þau bragðast eins og ávaxtasafi og býð gestum mínum blygðunarlaust upp á rauðvín af „belju“ ef því er að skipta. Botninum náði ég þó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þá var ég að vinna á sjúkrahúsinu með íslenskum lækni sem leysti af á deildinni minni um tíma. Við buðum honum í mat og ég eldaði góða máltíð. Rétt áður en hann kom þá datt mér allt í einu í hug að kannski væri huggulegt að bjóða upp á rauðvínslögg með kjötinu. Við áttum eina ræfilslega rauðvínsflösku frá Californiu sem hafði kostað 50 sænskar krónur, sem sagt ekkert gæðavín þar á ferðinni en ég ákvað að láta það duga. Rétt áður en gesturinn mætti þá tók ég eftir því að eiginmaðurinn hafði lagt hvítvínsglös á borðið, ég ætlaði að láta hann skipta um glös en gleymdi því. Því fór svo að gestinum var boðið upp á 50 króna bandarískt rauðvín í hvítvínsglösum. Gesturinn var svo ljúfur og hógvær að hann hrósaði máltíðinni bak og fyrir og lét eins og honum hefði verið boðið eðalvín. Það var ekki fyrr en alllöngu seinna að við komumst að því að hann er einn helsti og besti hvítvínssérfræðingur landsins! Eftirleiðis þegar hann kom til okkar í mat þá lét ég hann um að koma með vínið með sér og einbeitti mér að því sem ég kann betur, að elda mat! Það mætti halda að þessi saga hefði frést út því ég fékk sent eintak af bókinni „Vín – frá þrúgu í glas“ í síðustu viku – kærar þakkir Forlagið, ég þurfti á henni að halda! 😉 Ég er heilmikið búin að lesa í bókinni sem er algjörlega frábær. Upplýsingarnar eru afar aðgengilegar, jafnvel fyrir einhvern eins og mig sem kann ekkert um vín, og settar fram á skemmtilegan hátt. Nú veit ég til dæmis hver er munurinn á Reserva og Grand Reserva! 🙂 Lesturinn æsir upp í mér enn frekar löngunina að fara í matar- og vínferð til Frakklands og Ítalíu, draumur sem ég mun láta rætast einn daginn!

IMG_0037Mér finnst rauðvínsglasahringirnir á bókakápunni og inni í bókinni svo flottir og vel til fundnir!

Það er skemmtileg tilviljun að rauðvínshringirnir á bókinni eru einmitt í sama lit og rétturinn sem ég ætla að gefa uppskrift að í dag – þetta er vinsæll litur! Í afmælisveislu Jóhönnu um daginn bauð ég upp á rúllutertubrauð sem ég hef ekki prófað áður en uppskriftina sá ég í Gestgjafanum og breytti henni, notaði annarskonar ost og sultu. Það verður að segjast að brauðrétturinn var ákaflega sérstakur á litinn en góður var hann. Anna vinkona benti mér pent á að brauðrétturinn og buxurnar hennar og hálsmenið voru nákvæmlega eins á litinn og ég held ég geti fullyrt að það sé sjaldgæft að afmælisgestir klæði sig í stíl við brauðrétti eða að brauðréttir séu í tískulitunum! Þrátt fyrir sérstakan lit þá var þessi brauðréttur mjög góður og skemmtileg tilbreyting í brauðréttaflóruna. Þar sem að brauðrétturinn var ekkert sérstaklega aðlaðandi fyrir myndartöku af tók ég fáar myndir af honum en hér flikkar Anna vinkona verulega upp á eina brauðréttamyndina – allt í stíl! 🙂

IMG_7001

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 200 g hindberjasulta
  • skinkusneiðar (ég notaði tæpt box af silkiskorni reyktri skinku frá Ali)
  • 1 Gullostur, mjög kaldur (gott að setja í frysti í 3-4 tíma – ég mundi þetta auðvitað ekkert þannig að ég setti ostinn bara í frysti í 1 tíma og það var í lagi)

Ofn hitaður í 180 gráður. Penslið rúllutertubrauðið með sultu og leggið skinku ofan á. Skerið kalda ostana í sneiðar og leggið á rúlluna. Brauðinu er rúllað upp og hjúpnum (sjá uppskrift hér neðar) smurt á brauðið. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 15 mínútur.

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Hjúpur:

  • 3 msk. bláberjasulta
  • 3 msk rjómaostur
  • 1 eggjarauða

Sultu og rjómaosti hrært vel saman í potti og hitað upp.  Því næst er blandan kæld og eggjarauðunni hrært út í.

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum


Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Ég veit ekki hvernig það er með ykkur en ég kemst auðveldlega í gegnum daginn án þess að borða sætmeti. En svo kemur kvöldið og óvægin fígúra tekur líf mitt í sínar hendur! Í stuttu máli gengur þetta svona fyrir sig. Ég byrja daginn vel, mig langar bara í hollan og góðan mat og kaupi meðvitað ekkert sætmeti inn á heimilið. Þar sem ég í makindum mínum og blásakleysi lýk við kvöldmatinn og er reiðubúin að njóta kvöldsins án nokkurs sætmetis, ryðst sætindapúkinn óboðinn inn á mitt stofugólfið með heimtufrekju og læti! Ég segi það og skrifa, ég ræð ekkert við þessa ótemju! Ég hef lent í ófáum ævintýrum vegna púkans sem tekur yfir líf mitt þegar rökkva tekur. Fyrir alllöngu þegar ég bjó í Svíþjóð þá ruddist púkinn fyrirvaralaust heim til mín eitt kvöldið eins og svo oft áður (hann virðir engin landamæri!). Líkt og gísl með Stokkhólmsheilkennið æddi ég af stað út í hraðbanka á hjóli (ég var bíllaus) til þess að taka út pening. Eina sjoppan í nágrenni við mig tók nefnilega ekki kort og það sem meira var þá lokaði hún á afar ókristilegum tíma, klukkan 21. Auðvitað hafði púkinn, jafn ófyrirleitinn og hann er, ákveðið að derra sig þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í níu! Eitthvað tautaði ég áhyggjuorð yfir því að ég myndi ekki pin-númerið á debetkortinu mínu. Púkinn hló upp í opið geðið á mér að þessari fátæklegu afsökun og píndi mig til þess að reyna að rifja upp pin-númerið þrisvar í hraðbankanum – þar með átti ég ekkert debetkort lengur! Í fáti og örvæntingu rótaði ég í veskinu mínu og fann vísakortið sem ég notaði sjaldan. Púkinn hafði komið mér algjörlega úr jafnvægi, ég steingleymdi að nokkru áður taldi ég mig hafa týnt vísakortinu og lét bankann loka því. Hraðbankinn gleypti því vísakortið líka með bestu lyst við fyrstu tilraun. Þar sem ég stóð móð og másandi eftir hjólasprettinn við hraðbankann, korta- og peningalaus og mændi örvæntingafull yfir götuna á sjoppuna sem verið var að loka, tók ég ákvörðun! Ég ætlaði að rísa upp gegn púkanum, gefa honum táknrænan kinnhest og tilkynna að hann stjórnaði ekki lífi mínu lengur hringja í Elfar í vinnuna og biðja hann um að koma við í sjoppunni sem var opin allan sólarhringinn á leið sinni heim af kvöldvaktinni!

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Það eina góða við púkann er að það þarf lítið til að gleðja hann, skömmina þá arna! Mér nægir lítill moli til þess að reka hann heim til sín og þar með kem ég loksins að uppskrift dagsins! Ég var eitthvað að vandræðast með nafnið á henni. Mér datt í hug „hollustumolar“ en það getur vart talist annað en sjálfsblekking. Þessir molar eru ekki beint hollir, stútfullir af  kaloríum, en þeir eru kannski ekkert svo óhollir heldur. Í þeim er enginn viðbættur sykur, einungis hnetur, þurrkuð ber, kókosflögur, lífrænt hnetusmjör auk kókosolíu og 70% súkkulaðis. Þetta munngæti er sérlega fljótlegt að útbúa, dásamlega gott og allir púkar fara heim til sín eftir einn lítinn mola – svona bjarga ég kvöldunum (og kortunum!) mínum! 🙂

Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Uppskrift:

  • 100 g 70% súkkulaði
  • ca. 120 g lífrænt hnetusmjör
  • 40 ml kókosolía
  • 100 g hnetur (ég notast við það sem ég á, hér notaði ég blöndu af heslihnetum, möndlum og kasjúhnetum.
  • 80 g þurrkuð ber (ég nota berjablöndu frá Líf sem í eru þurrkuð múlber, gojaber, bláber og blæjuber)
  • 80 g kókosflögur

Súkkulaði, kókosolía og hnetusmjör brætt saman í potti. Um leið allt er bráðnað saman er potturinn tekinn af hellunni og hnetum, berjum og kókosflögum bætt út í. Blandað vel saman. Hellt í form klætt bökunarpappír, særð formsins fer eftir því hversu þykka bita maður vill. Ég nota tvö brauðform en fylli bara annað til hálfs. Kælt í minnst klukkutíma. Þá stykkið skorið í bita.

IMG_6909

Geymist í ísskáp og nælt í einn bita á kvöldin til að halda sælgætispúkum frá! 🙂Súkkulaðimolar með hnetum, berjum og kókosflögum

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu


t´oðu

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu

Núna erum við loksins öll komin í sumarfrí nema auðvitað stóru krakkarnir sem vinna eins og hestar í allt sumar. Ég er aðeins að reyna að halda mig frá tölvunni til þess að njóta frísins betur. Það er nefnilega afar tímafrekt að halda úti svona uppskriftabloggi ef vel á að vera. Til dæmis er eiginmaðurinn farinn að kalla bloggið mitt „Kvöldsögur“ þar sem að lunginn af kvöldunum fara oft í að blogga! 🙂 Ég gat samt ekki hamið mig að kíkja hér inn og gefa ykkur uppskrift af dásamlega góðum kjúklingavefjum. Við fórum í skemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja núna fyrir helgi og ég útbjó þessar vefjur til þess að taka með í nesti (ég setti inn myndir frá þeim degi á Instagram, endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram!). Þessar vefjur eru frábært nesti í ferðalög, þær eru hollar, ákaflega góðar og jafngóðar heitar sem kaldar. Það er svo lítið mál að útbúa þessar vefjur og skella þeim í kælibox. Þá sleppur maður við að koma við í óspennandi vegasjoppum og eyða háum fjárhæðum í oft og tíðum óhollan og lítt gómsætan mat.

IMG_1760

En og aftur er hægt að undrast yfir hvað hægt er að útbúa ljúffengan mat úr fáum hráefnum og með lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hjónaband kjúklingsins, mangósósunnar, cashew hnetanna og ferska mangósins sem gerir vefjurnar svona gómsætar. Þessar vefjur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1771Kaldar kjúklingavefjur – tilbúnar í ferðalagið!

Uppskrift fyrir 4 vefjur:

  • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði salt, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion)
  • kál
  • klettasalat
  • tómatar, skornir í bita
  • gúrka, skorin í bita
  • ferskt kóríander, saxaður gróft
  • 1 stór ferskur mangó, skorinn í bita
  • cashew hnetur, saxaðar gróft
  • tortilla pönnukökur
  • mangósósa
mangósósa uppskrift:
  • 200 g grísk jógúrt
  • 3 msk mango chutney
  • 1 tsk karrí
  • 1 vænn biti ferskt mangó – (líka hægt að nota nokkra bita af frystu mangói)
  • salt og pipar eftir smekk

IMG_1746

Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman í matvinnsluvél. Smakkað til með salti, pipar og meira karrí ef með þarf.

Kjúklingalundirnar eru skornar í hæfilega stóra bita og kryddaðar eftir smekk. Ég kryddaði þær með salti, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion). Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Tortillurnar eru hitaðar og á þær eru settar kál og klettasalat, tómatar, gúrkur og mangó ásamt kjúklingnum. Ofan á þetta allt er svo dreift cashew hnetum, kóríander og vel af mangósósu. Vefjunni er svo rúllað upp. Bæði hægt að bera vefjurnar fram kaldar og heitar.

IMG_1775

Grillaður beikonvafinn Halloumi ostur


IMG_0557

Uppskriftin sem ég ætla að setja inn í dag er af Halloumi osti en hann er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og í Grikklandi. Halloumi hefur hátt bræðslumark og hentar þvi vel til steikingar og grillunnar. Halloumi er hvítur og mjúkur með saltbragði, ekki ósvipaður mozzarrella. Þegar ég bjó í Svíþjóð þá notuðum við oft þennan ost, annað hvort grillaðan eða steiktan, en ostinn var auðvelt að nálgast í öllum matvöruverslunum í Svíþjóð. Hér á landi hefur hins vegar verið erfiðara að nálgast Halloumi. Hann hefur þó verið til í versluninni Tyrkneskur Bazar og hjá Búrinu. En ég sá hér á Lífsstílssíðu Sólveigar að nú er hægt að kaupa Halloumi í Bónus! Ég var fljót til að næla mér í einn og grillaði beikonvafinn Halloumi í kvöld og bar fram með grillmatnum, gómsætt!

Uppskrift

  • 1 Halloumi ostur (fæst í Bónus)
  • nokkrar beikonsneiðar
  • ítalskt kydd (blanda af kryddjurtum, t.d. rósmarín og timjan)
  • salt & pipar

IMG_0549

Osturinn er skorinn niður í passlega þykkar sneiðar. Ég náði 10 sneiðum úr einum osti. Hver sneið er krydduð með kryddjurtum, salti og pipar (ég notaði lítið salt þvi beikonið er salt). Þá er einni beikonsneið vafið þétt utan um hverja ostsneið. Grillað við meðalhita í ca. 5 mínútur á hvorri hlið.

IMG_0552 IMG_0556

Grillaður beikonvafinn Halloumi ostur og myndir af Instagram


IMG_0557

Ég hef ekki mikið verið í eldhúsinu undanfarið heldur hef ég notið góða veðursins í garðinum, á veitingastöðum og í veislum síðastliðna daga. Dásamlegt alveg hreint og eitt af því sem er svo skemmtilegt við sumarið þegar veðrið leikur við okkur. Ég prófaði tvo nýja veitingastaði nýverið, Steikhúsið og Kopar, frábærlega góður matur á báðum þessum stöðum. Ég hef einmitt sett inn myndir frá þessum veitingahúsaferðum á Instagram. Áður en ég eignaðist Iphone þá fannst mér svolítið leiðinlegt að geta ekki fylgst með hinum og þessum vinum, ættingjum og bloggurum á Instagram. Ég ætla því að setja inn hér á bloggið nokkrar myndir frá Eldhússögum á Instagram undanfarið fyrir þá sem ekki hafa aðgang þar.
IMG_0649

IMG_0666IMG_0714IMG_0691IMG_0697IMG_0602IMG_0731IMG_0739IMG_0740IMG_0750IMG_0749IMG_0759IMG_0766IMG_0767

Uppskriftin sem ég ætla að setja inn í dag er af Halloumi osti en hann er hefðbundinn ostur frá Kýpur sem er líka vinsæll í Austurlöndum nær og í Grikklandi. Halloumi hefur hátt bræðslumark og hentar þvi vel til steikingar og grillunnar. Halloumi er hvítur og mjúkur með saltbragði, ekki ósvipaður mozzarrella. Þegar ég bjó í Svíþjóð þá notuðum við oft þennan ost, annað hvort grillaðan eða steiktan, en ostinn var auðvelt að nálgast í öllum matvöruverslunum í Svíþjóð. Hér á landi hefur hins vegar verið erfiðara að nálgast Halloumi. Hann hefur þó verið til í versluninni Tyrkneskur Bazar og hjá Búrinu. En ég sá hér á Lífsstílssíðu Sólveigar að nú er hægt að kaupa Halloumi í Bónus! Ég var fljót til að næla mér í einn og grillaði beikonvafinn Halloumi í kvöld og bar fram með grillmatnum, gómsætt!

Uppskrift

  • 1 Halloumi ostur (fæst í Bónus)
  • nokkrar beikonsneiðar
  • ítalskt kydd (blanda af kryddjurtum, t.d. rósmarín og timjan)
  • salt & pipar

IMG_0549

Osturinn er skorinn niður í passlega þykkar sneiðar. Ég náði 10 sneiðum úr einum osti. Hver sneið er krydduð með kryddjurtum, salti og pipar (ég notaði lítið salt þvi beikonið er salt). Þá er einni beikonsneið vafið þétt utan um hverja ostsneið. Grillað við meðalhita í ca. 5 mínútur á hvorri hlið.

IMG_0552 IMG_0556

Pepperóníbrauð


Pepperóníbrauð

Núna eru krakkarnir komnir í sumarfrí og það er alltaf sami höfuðverkurinn að finna eitthvað  handa þeim að borða í hádeginu. Yngsta barnið er einstaklega kresið og það þýðir lítið að bjóða henni bara ristað brauð, jógúrt eða skyr í hádeginu, hún er lítið hrifin af því. Sá gállinn er á henni að ef að henni líkar ekki maturinn þá sleppir hún því bara að borða þrátt fyrir svengd. Ég er því alltaf að reyna finna eitthvað gott til þess að eiga í hádeginu fyrir krakkana. Ef ég er heima þá er fljótlegt að búa til ostapasta og það er afar vinsælt.

IMG_1133

Ekki finnst þeim verra að fá crepes með eggi, skinku og osti.

Collages1-001

Eða pastasalat með pepperóní. 

IMG_3953

Í afmælinu hennar mömmu bauð hún upp á pepperóní brauð sem er afar vinsælt hjá krökkunum og gott að geta gripið til í frystinum. Þessi brauð passa líka vel á veisluborðið í barnaafmælum eða til að taka með í ferðalagið. Krakkarnir á heimilinu mæla eindregið með þessu brauði! 🙂

Uppskrift (Brauð og kökubók Hagkaups):

  • 320 ml mjólk
  • 600 g hveiti (hægt að skipta helmingnum út fyrir heilhveiti)
  • 20 g salt
  • 20 sykur
  • 60 smjör
  • 1 pk þurrger

Fylling:

  • 400 g beikonsmurostur
  • 130 g pepperóní, saxað
  • rifinn mozzarellaostur

Setjið allt saman í hrærivélaskál og vinnið rólega í 4 mínútur með króknum, vinnið svo deigið á miðjuhraða í 5 mínútur. Mótið deigið í kúlu og látið það hefast undir rökum klút í ca. 45 mínútur. Fletjið þá deigið út með kökukefli 30 cm x 70 cm, smyrjið ostinum á miðjuna á deginu og setjið pepperóní yfir ostinn. Brjótið saman deigið, fyrst annan helminginn yfir ostafyllinguna, svo hinn ofan á þann helming (deigið verður þannig þrefalt). Snúið deiginu við, sárið niður. Skerið deigið niður í tígla og leggið á smjörpappír (ca. 16 stk). Látið deigið hefast í 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi. Penslið deigið með vatni og setjið mozzarellaostinn yfir. Bakið við 220 gráður í um það bil 18 mínútur eða þar til það er kominn fallegur gylltur litur á brauðin.

IMG_9926

Quesadillas


Quesadillas

Núna er ég komin í sumarfrí frá aðalvinnunni minni en þá hittist þannig á að það er brjálað að gera í aukavinnunni minni. Síðastliðinn föstudag tók ég fjórtán tíma vinnutörn og henni er ekki lokið enn. Það dregst því að ég geti notið sumarfríisins. En um helgina var ég allavega í fríi og gerði margt skemmtilegt. Í gær fórum við í glæsilega fermingaveislu og seinna um daginn var Símon „litli“ bróðir minn með útskriftarveislu. Þessi snillingur er kominn með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði.

Simon

Klára og myndarlega verkfræðingaparið, Bryndís og Símon og girnilegar veitingar í veislunni þeirra.

Þar með erum við öll þrjú systkinin orðnir meistarar! 😉 Guðjón bróðir er nefnilega með meistaragráðu í hugbúnaðarverkfræði og ég í bókasafns- og upplýsingafræði. Ég gerði einn rétt fyrir útskriftarveisluna hjá Símoni bróður, quesadillas. Þessar fylltu mexíkósku pönnukökur eru afar sniðugar í veislur og partý. Það er hægt að gera svo margar mismunandi fyllingar, það er fljótlegt að útbúa þær og síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar.

Simon1

Ég prófaði annars vegar að leggja eina pönnuköku ofan á aðra og hinsvegar að setja fyllingu öðrum megin á pönnukönuna og loka henni með því að brjóta hana saman. Hið síðarnefnda var einfaldara því þá komust fleiri pönnukökur á bökunarplötuna, eins helst fyllingin betur í pönnukökunni. Gott er að bera quesadillurnar fram á meðan þær eru enn heitar en þær eru samt ekkert síðri orðnar kaldar.

IMG_0390Það er hægt að leggja tvær tortillur saman og skera síðan í átta bita en mér fannst best að brjóta eina saman og skera hana svo í fjóra bita. 

Ég gerði nokkrar tegundir af quesadillas að þessu sinni. Sumt hafði ég skipulagt fyrirfram, annað kom að sjálfu sér útfrá því sem ég átti til í ísskápnum. Hér gef ég uppskriftir að helstu tegundunum.

IMG_0680

Quesadillur í bígerð – tekið af Instagram

Quesadillas með gullosti og mango chutney

  • Gullostur
  • mango chutney
  • tortillas pönnukökur

IMG_0382Hér setti ég fyllingu á alla pönnukökuna og svo aðra yfir

Pönnukakan er smurð með mango chutney, gott að skera mangóbitana í minni bita. Því næst er Gullosturinn skorinn í sneiðar og þeim raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Þá er henni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0427

Quesadillas með mozzarella, basiliku og tómötum

  • Mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum)
  • fersk basilika
  • tómatar
  • svartur grófmalaður pipar
  • tortillas pönnukökur

IMG_0466

Mozzarellakúlan er sneidd í fremur þunnar sneiðar og raðað á annan helming pönnukökunnar. Þá eru tómatarnir skornir í tvennt og kjötið hreinsað innan úr þeim (það er ekki notað, vökvinn verður of mikill). Það sem eftir verður er skorið í lita bita og dreift yfir mozzarella ostinn. Þá er basilikan söxuð og dreift yfir að lokum ásamt dálitlum pipar. Þvi næst er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

Quesadillas með steiktum sveppum, steinselju, rifnum mozzarellaosti og parmesan

  • sveppir
  • grænmetiskraftur
  • salt og svartur pipar
  • fersk blaðasteinselja, söxuð smátt
  • smjör til steikingar
  • rifinn mozzarellaostur eða gratínostur
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • tortilla pönnukökur

IMG_0393IMG_0395

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjör á pönnu, kryddaðir með salti, pipar, ferskri steinselju og grænmetiskrafti. Þegar sveppirnir eru mátulega steiktir eru þeir veiddir af pönnunni og fitan látin leka af þeim. Því næst er þeim dreift yfir annan helminginn á pönnukökunni. Rifnum mozzarellaosti og parmesan osti er dreift yfir sveppina. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0406

Quesadillas með pestó, skinku, parmesan, basiliku og rifnum mossarellaosti

  • Pestó að eigin vali, ég notaði pestó með valhnetum og papriku frá Jamie Oliver (fæst allavega í Krónunni) – má líka sleppa og nota bara neðangreint hráefni
  • reykt skinka
  • parmesan ostur, rifinn
  • rifinn mozzarella ostur eða gratínostur
  • tortilla pönnukökur
  • ferskt basilika (eða blaðasteinselja), saxað smátt

IMG_0399

Pönnukakan er smurð með pestóinu (má líka sleppa). Því næst er skinkan skorin í bita og henni raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Að lokum er rifnum mozzarellaosti og rifnum parmesan osti ásamt basiliku (eða blaðasteinselju) dreift yfir skinkuna. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0403

Quesadillas með fetaosti, svörtum ólífum og chili

  • 1/2 rautt chili
  • ca 100 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 50 g fetaostur
  • ca. 12 svartar ólífur
  • ca. 1 1/2 msk ferskt kóríander, saxað
  • 2 -3 tortillur

IMG_0387

Þar sem búið er til mauk úr þessari fyllingu gef ég upp nákvæmari mælieiningar á hráefnunum hér en fyrir hinar fyllingarnar. Fræhreinsið og saxið chili-aldinið og setjið það í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Ostamaukinu er skipt jafnt á tvær eða þrjár tortillur og þær lagðar saman. Tortilla pönnukökurnar eru settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0412

 

Eggja- og beikonmúffur


Eggja- og beikonmúffur

Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram eða á Facebook sáu að ég setti inn myndir í vikunni sem birtust einmitt í Vikunni! Ég var nefnilega beðin um að vera matgæðingur Vikunnar og gefa þrjár uppskriftir. Mér fannst þetta spennandi verkefni og ákvað að gefa nýjar uppskriftir sem ég hef ekki sett inn á bloggið enn.

Vikan2-001

Ein þeirra er ofsalega ljúffeng og góð tælensk kjúklinga- og sætkaröflusúpa. Þetta er bragðmikil og einkar bragðgóð súpa sem er ákaflega einföld og fljótlegt að búa til. Önnur uppskriftin var að blautri súkkulaðiköku með glóaldini, það er dásamleg súkkulaðikaka með appelsínubragði, minnir á kattartungurnar góðu. Þriðja uppskriftin er af einum þeim besta laxarétti sem ég hef smakkað! Sojamaríneraður lax með mangó/avókadósalsa og smjörsteiktu spínati. Þennan rétt tekur engan tíma að elda en maður minn hvað hann er góður! Samsetningin er skotheld, ljúffengur laxinn með bragðgóðu maríneringunni og dásamlega góða meðlætið – það er bara skylda fyrir laxaunnendur að prófa þennan rétt! Tölublaðið af Vikunni með ofantöldum uppskriftum kom út fyrir helgi, ég hvet ykkur til þess að næla ykkur í eintak!

Vikan1-001

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift af ekki síður góðum mat. Þetta eru eggja- og beikonmúffur sem slógu í gegn í sextugsafmæli mömmu (meira um afmælisveitingarnar í næstu færslu! 😉 ). Þar sómdu múffurnar sér einstaklega vel á brunch-borðinu.

IMG_9925

Múffurnar eru ákaflega ljúffengar og afar einfaldar að útbúa. Það eina sem krefst er að vera með gott möffinsform. Ég prófaði að gera þær í einnota möffinsformum en þær festust of mikið við formin fyrir minn smekk. Ég notaði því „non stick“ möffinsform sem tekur 24 múffur í einu, þetta er svona míní-möffinsform. Ég fékk það í Hagkaup á 2990 kr. Múffurnar losnuðu mjög auðveldlega úr forminu, ég þurfti ekki einu sinni að smyrja það að innan. Það er afar gaman að bera þessar múffur fram á til dæmis „brunch“ borði því þær eru svo fallegar. Eins er svo skemmtilegt að með þessum múffum fær maður morgunverðinn allan í einum litlum gómsætum bita – egg, beikon og ost!

IMG_0094Svona líta múffurnar út að innan

Það er auðvitað líka hægt að nota þessa uppskrift venjuleg möffinsform sem eru stærri (taka þá oft átta eða tólf múffur í einu). Þá þarf bara að auka aðeins við bökunartímann.

Uppskrift (passar í eitt möffinsform sem tekur 24 mínímúffur eða form sem tekur 12 venjulegar múffur):

  • 10 egg
  • 150 g rifinn ostur (ég notaði mozzarella)
  • 3/4 dl rjómi
  • ca 140 gr beikon
  • sléttblaða steinselja, skorin smátt (ég notaði ca. 1 dl), líka hægt að nota graslauk
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • það er hægt að bæta við öðrum hráefnum eftir smekk, t.s. spínati, eins er hægt að gera múffurnar meira „spicy“ með t.d. með því að krydda þær með chiliflögum.

IMG_9864

 Ofn er hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Beikonið er steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það skorið í litla bita. Eggin er þeytt létt saman í skál. Því næst er rifna ostinum, rjómanum, steinseljunni og kryddinu bætt út í. Blöndunni er því næst ausið með skeið ofan í möffinsformið. Gæta þarf að fara vel ofan í botninn á skálinni með skeiðinni og þannig sjá til þess að beikonið og osturinn dreifist jafnt ofan í hvert hólf. Best er að sléttfylla hólfin.

IMG_9870

Þá eru múffurnar bakaðar við 180 gráður í 15 mínútur. Á meðan bakstri stendur rísa múffurnar vel upp úr forminu en falla síðan dálítið niður eftir að þær eru teknar út.

IMG_9911Svona líta múffurnar út í lok bökunartímans

IMG_9898Hér eru múffurnar byrjaðar að falla saman eftir baksturinn – það er alveg eðlilegt.

Hjá mér voru múffurnar alveg lausar í forminu og auðvelt reyndist að fær þær upp á disk með gaffli. Gott er að bera múffurnar fram heitar en það er líka hægt að bera þær fram kaldar.

IMG_9905

Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

  • 100 g laxaflak
  • 1 stk. hvítlauksgeiri
  • 2msk Maldon sjávarsalt
  • hluti úr ferskum ananas
  • 2-3 msk. sýrður rjómi
  • 1stk skarlottulaukur
  • ferskur pipar úr millu
  • 2 msk. ólífuolía
  • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Ananas-salsa með myntu og chili og Eldhússögur á Instagram


IMG_8883

Í gær kom Elfar aftur heim frá Svíþjóð. Hann kom ekki tómhentur heim því ég fékk blóm og afmælisgjöf! Ég á samt ekki afmæli fyrr en eftir nokkra daga en hann var spenntur eins og lítið barn og gat ekki beðið með að gefa mér gjöfina! 🙂 Ég er sem sagt orðin Iphone eigandi!  Ég hef alltaf sagt að Iphone sé óþarfi, ég þurfi ekkert slíkt tæki. Elfar var ekki samþykkur því og sagði að nýútskrifaður upplýsingafræðingur þyrfti að eiga Iphone! Ósk var honum innilega sammála, sjálfri fannst henni afar lífsbætandi að eignast Iphone! 🙂 Ég verð nú eiginlega að vera sammála þeim feðginum eftir að hafa fiktað við Iphone-símann minn í dag, þetta er ansi sniðugt tæki! Núna eru Eldhússögur komnar á Instagram eins og öll almennileg blogg og ég get loksins farið að fylgjast með bloggunum sem ég les á Instagram! Spennandi! Ykkur er velkomið að fylgjast með mér á Instagram, þið finnið mig undir eldhussogur.

Ég er svo leið yfir því að finna ekki uppskriftina af eplakökunni sem ég bakaði um daginn. Ég er búin að leita og leita! Hún var voða góð og fór strax í uppáhald hjá Jóhönnu Ingu sem elskar eplakökur. Svo virðist sem kakan verði bara að lifa í minningunni og á myndum!

IMG_8539Þegar ég var með útskriftaveisluna mína um daginn var einn rétturinn hjá Marentzu einhverskonar ananas-salsa sem var svo gott.

IMG_8214Ég sá í hendi mér að þetta salsa væri gott með allskonar súkkulaðikökum, súkkulaðifrauði, vöfflum, ís og öðru góðu gúmmelaði eða bara eitt og sér. Ég prófaði sjálf að búa til ananas-salsa og bjó til eftirfarandi uppskrif. Magnið metur maður bara sjálfur, fer eftir því hvaða bragð maður vill að sé ríkjandi.

  • ferskur ananas skorin í bita
  • rautt chili, saxað smátt
  • fersk mynta, söxuð smátt
  • limesafi
  • hunang (má sleppa)

Öllu blandað saman og látið bíða í ísskáp í minnst 20 mínútur áður en salsað er borið fram. Borið fram með súkkulaðikökum, ís, grilluðu ljósu kjöti eða fisk. Ég held hreinlega að þetta passi vel með ansi mörgu! 🙂

IMG_8869