Mjúk piparkaka


Ég verð að viðurkenna að ég varð dálítið spennt yfir því að jóladótið væri komið í Íkea! Ég hefði sko margfalt heldur viljað fara þangað í dag í stað þess að hanga yfir ritgerðinni! Reyndar var ég afskaplega þakklát fyrir ritgerðina mína í dag eftir að hafa lent í óskemmtilegu ævintýri. Tölvan mín nefnilega slökkti á sér á fimmtudagskvöldið og ég gat ekki kveikt á henni, það var bara eins og hún hefði krassað. Ég var alveg viss um að ritgerðin mín væri horfin og var ekki ánægð með sjálfa mig þegar ég uppgötvaði að síðasta afrit sem ég hafi gert var 10 daga gamalt … 10 daga vinna farin í súginn! Og hverjar eru líkurnar á því að aðeins mánaðargömul Macbook talva krassi og að eigandinn sé ákkurat vinna í lokaritgerð? Held að það séu afskaplega litlar líkur á því og týpískt að ég skuli lenda í svoleiðis ævintýri. Ég varð ekki glaðari þegar mér var tjáð daginn eftir að það tæki þrjár vikur bara áður en Eplið gæti skoðað tölvuna! Á þessum tímapunkti var ég alvarlega að íhuga að hætti þessum ritgerðarskrifum! En með hjálp góðs fólks í bland við íslenska fyrirbærið ,,maður þekkir mann“ fékk ég tölvuna tilbaka samdægurs, búið að gera við hana og gögnin í lagi! Nú tek ég afrit á nokkra tíma fresti! 🙂 En í stað þess að skoða jóladótið í Íkea í dag þá ákvað ég í einni skriftarpásunni að skella mjúkri piparköku í ofninn sem leiddi af sér dásamlegan piparkökuilm um allt hús … kannski dálítið ótímabæran en dásamlegan samt! Þetta er afar einföld og fljótleg kaka sem er yndislega góð. Sérstaklega þegar hún er nýkomin úr ofninum, enn volg! Í uppskriftinni er Lingonsylt (týtuberjasulta) sem fæst einmitt í Íkea (góð afsökun fyrir Íkeaferð!). Ég veit ekki hvort hún fæst annars staðar en það er hægt að nota til dæmis sólberjasultu í staðinn.

Uppskrift:

  • 2 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 1,5 tsk kanill
  • 1,5 tsk matarsódi
  • 2 dl mjólk
  • 1 msk síróp
  • 2-3 msk týtuberjasulta (fæst í Íkea – lingon sylt) eða sólberjasulta
  • 100 gr smjör

Ofn hitaður í 175 gráður. Eggin þeytt. Á meðan er mjólk, síróp, týtuberjasulta og smjör sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Blöndunni leyft að kólna dálítið áður en henni er bætt út í eggin ásamt sykri, hveiti, kanil og matarsóda. Kakan bökuð í 24 cm smelluformi eða í kringlóttu sandkökuformi frekar neðarlega við 175 gráður í 30-40 mínútur.

Svíþjóðarkaka


Þessi kaka er þekkt í Svíþjóð og kallast því viðeigandi nafni,,Sverigekaka“ eða Svíþjóðarkaka. Hún er líka þekkt undir, að mínu mati, meira óviðeigandi nafni, það er ,pensionärskaka“ eða lífeyrisþegakaka … nokkuð augljóst væntanlega af hverju ég kýs fyrrnefnda nafnið! Voða lítið girnilegt við síðarnefnda nafnið! Þetta afar auðveld kaka að baka en hún þarf að bíða ísskáp í nokkra tíma eða yfir nóttu áður en hún er borin fram. Það er til þess að kremið stífni. Ég bakaði þessa köku að kvöldi og setti hana í kæli yfir nóttu. Daginn eftir komu þrjár vinkonur Jóhönnu Ingu með henni heim úr skólanum. Þær fengu sér allar væna kökusneið og ein þeirra sagði ,,rétt upp hönd sem finnst þetta besta kaka í heimi“! Þær réttu allar upp hönd þannig að kakan fékk háa einkunn í aldurshópnum 7-8 ára! 🙂 Fleirum í fjölskyldunni þótti hún greinilega góð því að skömmu seinna var hún horfin. Það er því óhætt að mæla með Sverigekökunni!

Botn:

  • 3 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl sjóðandi heitt vatn

Krem:

  • 1 dl mjólk
  • 125 gr smjör
  • 3 msk vanillusykur
Bakarofn hitaður í 175 gráður. Smelluform (ca 24 cm) smurt. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Þurrefnunum blandað út í ásamt heita vatninu. Deiginu hellt í bökunarformið og kakan bökuð við 175 gráður í 30-40 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað er hún klofin í tvennt. Ég á svona skurðaráhald úr Íkea sem kemur sér vel þegar maður sker ójafnt eins og ég geri!
Krem: Smjör og mjólk soðið saman, hitinn lækkaður og vanillusykri bætt út í. Hrært við vægan hita þar til sykurinn hefur leyst upp (má ekki sjóða eftir að vanillusykurinn fer út í, þá verður kremið beiskt). Leyfið blöndunni að kólna aðeins og hellið henni svo jafnt yfir neðri botn kökunnar. Kremið á að vera í vökvaformi. Efri hluti kökunnar lagður yfir botninn. Plastfilma sett yfir kökuna og hún sett í kæli í nokkra klukkutíma eða yfir nótt. Flórsykur er sigtaður yfir kökuna áður en hún er borin fram og stundum er settur yfir hana glassúr.

Sebrakaka


Ég gat ekki staðist mátið að prófa þessa köku eftir að ég sá hana á netinu. Tvennt fannst mér afar spennandi, annað var skemmtilegt útlit kökunnar og hitt var að í henni var kók! Ég hef aldrei bakað úr kóki áður þó ég sé nú hrifin af þeim drykk! 🙂 Þetta er í raun tilbrigði við hefðbundna marmaraköku, bara mikið flottari, mýkri og bragðbetri kaka. Ég var nú ekki viss um að ná sebraútlitinu, hélt að það væri kannski afskaplega erfitt. Annað kom þó á daginn, þetta var ægilega auðvelt og skemmtilegt. Jóhönnu Ingu fannst afar gaman að fylgjast með gerð kökunnar og það var hún sem tók myndirnar þegar ég var að setja deigið í kökuformið. Ég notaði svona nestispoka frá Íkea sem hægt er að loka til þess að sprauta deiginu. Smellan helst vel lokuð og pokarnir eru þykkir, það er því lítil hætta á því að deigið fari út um allt. Mikilvægt er að klippa bara örlítið gat á eitt hornið til þess að deigið renni ekki alltof hratt, maður vill geta haft góða stjórn á því. Ég setti til skiptis ljóst og dökkt deig frekar þétt, það er líka hægt að hafa breiðari renndur, setja þá meira af deigi í hverjum skammti. Það kemur líka mjög flott út. Þetta er virkilega góð kaka, það gerir hana afar safaríka að nota kók en það er líka hægt að nota sódavatn til að ná sömu eiginleikum fyrir þá sem ekki vilja nota kók.

Uppskrift:

  • 5½ dl hveiti + 3 msk
  • 3 msk kakó
  • 3 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 4 stór egg
  • 2 dl matarolía, (ekki ólífuolía)
  • 2 dl kók eða sódavatn

Ofninn er stilltur á 160 gráður á blæstri eða 180 gráður á undir og yfirhita. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Vanillusykri bætt út í. Hveiti og lyftidufti sigtað út í og blandað við deigið. Því næst er matarolíunni hellt út í og þá gosdrykknum. Deiginu er skipt jafnt í tvær skálar. Í aðra þeirra er kakói sigtað út í og blandað saman við deigið með sleikju. Út í hina skálina er þremur matskeiðum af hveiti sigtað út í og blandað við deigið með sleikju. Kringlótt smelluform eða silikonform er smurt að innan (ca. 24 cm). Blöndurnar eru settar í sitt hvorn pokann og þeim lokað vel, örlítið gat er klippt á annað hornið á báðum pokunum. Smávegis af ljósa deiginu er sprautað á miðjuna á botn kökuformsins, því næst er dökka deiginu sprautað ofan í það ljósa. Þannig er haldið áfram koll af kolli þar til báðar blöndurnar eru búnar. Miðjan mun færast til út í kantana á bökunarforminu, það er allt í lagi. Það er örugglega líka hægt að hella bara úr skálunum beint í formið en þá eru kannski meiri líkur á því að litirnir blandist ekki alveg eins og maður vill, erfiðara að hafa stjórn á bununum. Bakað við 160 gráður á blæstri (180 gráður undir/yfir hita) í 40-45 mínútur.

Apríkósukaka með karamellukókos


Ég prófaði að baka þessa köku í fyrsta sinn í gær og tók hana með mér í saumó. Hún var svakalega góð þó hún væri svolítið blaut þegar hún var enn heit, hún varð bara meira djúsí við það. Ég held ástæðan fyrir því að hún var blaut var að ég notaði aðeins of stórt form þannig að kakan náði ekki nógu mikillri hæð, apríkósurnar hefðu þurft að vera þaktar betur með deigi. Það kom samt ekkert að sök, kakan var guðdómlega góð! Ég var með form sem er 25×35 sem er aðeins of stórt, það er betra að nota bökunarform sem er 20×30, nú eða auðvitað að stækka bara uppskriftina fyrir stærra form. Það væri ekkert vitlaust að tvöfalda uppskriftina og setja hana í ofnskúffu, þetta er svo góð kaka að hún klárast alltof fljótt! Mæli virkilega með henni með laugardagskaffinu á morgun! 🙂

Uppskrift:

  • 2 egg
  • 4 dl sykur
  • 6 dl hveiti
  • 4 tsk lyftiduft
  • 3 dl mjólk
  • 200 g smjör
  • 250 g niðursoðnar apríkósur
  • 2-3 msk kókós (f. kökuformið)

Karamellukókos:

  • 4 msk smjör, brætt
  • 1 dl rjómi
  • 3 dl ljóst síróp
  • 200 gr kókosmjöl

Ofninn stilltur á 200. gráður. Bökunarform, ca. 20×30 cm, þakið bökunarpappír og ca. 2-3 matskeiðum af kókosmjöli stráð yfir. Apríkósurnar þerraðar og skornar í litla bita. Smjörið brætt í potti og látið kólna dálítið. Egg og sykur þeytt þar til blandan er létt og ljós. Hveiti og lyftidufti bætt út í ásamt mjólkinni og brædda smjörinu. Helmingnum af deiginu er hellt í bökunarformið, dreift úr því út í öll horn. Apríkósunum dreift jafnt yfir deigið og svo restinni af deiginu hellt yfir. Bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

Á meðan er karamellukókos útbúið. Öllum hráefnunum hellt í pottinn og látið malla í 10 mínútur. Kakan er tekin út eftir 15 mínútur og karamellukókos dreift yfir kökuna og hún svo bökuð í 10-15 mínútur í viðbót. Gott er að bera kökuna fram heita með þeyttum rjóma eða vanilluís. Hún er líka ægilega góð köld!

Haframúffur með banönum


Samkvæmt skilgreiningu Nönnu Rögnvaldar sem var að gefa út nýja og girnilega múffubók þá er munurinn á bollakökum og múffum eftirfarandi. Bollakökur eru dísætar en múffur er eitthvað sem maður getur hugsað sér að borða í morgunmat. Ég veit ekki alveg með þessar múffur, þær eru alls ekki dísætar, enda með haframjöli í. En maður myndi seint kannski bjóða upp á þær í morgunmat! Þetta er eitthvað millistig þarna á milli, kannski múffukökur! Þetta eru einfaldar ,,múffukökur“, mjúkar og afar góðar, allavega voru þær allar horfnar örstuttu eftir að ég bakaði þær! Formin sem ég notaði fékk ég í Svíþjóð og eru meira eins og lítil kökuform. En það er auðvitað hægt að nota venjuleg múffuform undir þær. Deigið er frekar blautt þannig að formin þurfa að vera vel stíf.

Uppskrift, ca. 15-20 múffur

  • 60 gr mjúkt smjör
  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 2 egg
  • 1 1/2 dl mjólk eða súrmjólk
  • 1 1/2 dl haframjöl
  • 2 1/2 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk negull
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 bananar, mjög vel þroskaðir

Ofninn stilltur á 225 gráður. Smjör, sykur og púðursykur hrært þar til blandan verður létt og ljós. Eggjum bætt út í, einu í senn, því næst er mjólkinni bætt út í. Haframjöli, hveiti, lyftidufti, negul og vanillusykri er því næst hrært við blönduna. Að lokum eru bananar stappaðir og þeim bætt út í blönduna.  Múffuform eru fyllt að 3/4 hluta. Bökuð við 225 gráður í 15-20 mínútur.

Kryddkaka


Þessi uppskrift af kryddköku er komin frá ömmu minni, hún kallar kökuna reyndar kryddjólaköku. Ömmu er nú farið að bregða fyrir oft á blogginu mínu sem er eiginlega skrítið í ljósi þess að hún heldur því fram að sér þyki agalega leiðinlegt að elda mat og baka! En það hefur þó ekki komið í veg fyrir að hún eldi mat upp á hvern einasta dag og baki kökur auk þess sem hún vann meira að segja í eldhúsi í mörg ár. Amma segist samt ekkert skilja í því að ég hafi gaman að því að laga mat, sá áhugi sé allavega ekki frá sér kominn! 🙂 En amma er með á hreinu gamlar og góðar íslenskar uppskriftir eins og þessa kryddköku. Þetta er feikigóð kaka sem er afar einfalt að búa til. Amma setur yfirleitt í hana rúsínur en ég sleppi þeim, krakkarnir vilja þær ekki og mér finnst kakan líka betri án rúsína. Þessi uppskrift dugar í tvö jólakökuform sem eru  25 x 11 cm.

Uppskrift:

  • 500 gr hveiti
  • 150 gr púðursykur
  • 150 gr sykur
  • 3 egg
  • 250 gr smjör, mjúkt (við stofuhita)
  • 2 tsk matarsódi
  • 2 tsk kanill
  • 2 tsk negull
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 dl mjólk eða súrmjólk

Aðferð:

Ofninn stilltur 180 gráður. Allt hráefnið sett saman í skál og hrært saman. Deiginu skipt í tvö smurð jólakökuform,  25 x 11 cm, og þau bökuð við 180 gráður í ca. 45 mínútur.

 

Súkkulaðikaka með Pipp karamellukremi


Þessi kaka afar sniðug að mörgu leyti. Í fyrsta lagi þarf ekki að nota hrærivél, hún er bara gerð í potti. Þess vegna er hægt að gera hana hvar sem er, t.d. í sumarbústað. Í öðru lagi er hér um bil ekkert hveiti í henni og það er hægt að skipta því út fyrir maísenamjöl ef maður vill hafa hana hveitilausa. Í þriðja lagi þá er hún svakalega góð! 🙂 Kremið er afsakaplega ljúffengt, gert úr Pipp súkkulaði með karamellu, það er líka hægt að nota Pipp með piparmyntukremi ef maður er hrifnari af piparmyntu. Í kökunni er kaffi en mér finnst kaffi afskaplega bragðvont og forðast yfirleitt allt kaffi í kökum, tertum og eftirréttum. Ég hef hins vegar ekkert fundið fyrir kaffibragðinu í þessari köku hingað til. En svo bar við í þetta sinn að mér fannst of mikið kaffibragð af henni. Það var ekki fyrr en núna í þessum skrifuðu orðum að ég uppgötvaði að ég hafði notað tvær matskeiðar af kaffinu í stað tveggja teskeiða, mæli ekki með því! Hins vegar fannst engum öðrum en mér of mikið kaffibragð af kökunni þannig það virtist ekki koma að sök!

Uppskrift:

  •  250 gr suðusúkkulaði
  • 180 gr smjör
  •  2 tsk instant Nescafe, kaffiduft mulið, t.d. í morteli (má sleppa)
  •  2 dl sykur
  •  4 egg
  •  2 tsk vanillusykur
  •  1/2 tsk lyftiduft
  •  1/2 dl hveiti (má nota maísenamjöl fyrir glútenfría köku)

Krem:

  •  25 gr smjör
  •  1/2 dl rjómi
  •  200 gr Pipp með karamellukremi (selt í 100 gr. plötum) eða með piparmyntu

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175 gráður. Smelluform (24 cm) smurt að innan. Súkkulaði brotið niður í pott ásamt smjöri, brætt við vægan hita og hrært í á meðan. Potturinn tekinn af hellunni og blandan látin kólna dálítið. Neskaffi mulið mjög smátt (ég gerði það í morteli) og því bætt út í ásamt sykri og eggjum, hrært vel með písk þar til að blandan er slétt. Hveiti, vanillusykri og lyftidufti blandað saman og sigtað ofan í pottinn. Hrært þar til að blandan er slétt. Deiginu er helt í smurt bökunarform og bakað í ca. 45 – 50 mínútur neðarlega í ofninum. Fylgist vel með kökunni, hún má vera blaut í miðjunni.

Krem:

Hráefnið í kreminu sett saman í pott og brætt við vægan hita, hrært þar til að Pipp súkkulaðið er bráðnað og kremið er slétt og glansandi. Potturinn tekinn af hellunni.

Þegar kakan hefur kólnað og kremið þykknað dálítið er því smurt yfir kökuna. Kakan skreytt með t.d. jarðaberjum og borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Frönsk hvít súkkulaðikaka


Ég var búin að spá lengi í þessa köku áður en ég lét verða af því að baka hana. Mér finnst hvítt súkkulaði í desertum mjög gott en bara í hófi. Mér var því hugleikið hvernig frönsk súkkulaðikaka kæmi út eingöngu með hvítu súkkulaði. Hefðbundið brúnt súkkulaði er samsett úr þremur megin hráefnum, kakómassa (fínmaldar kakóbaunir), kakósmjöri og sykri auk bragðefna. Í hvítu súkkulaði er aðeins kakósmjörið frá kakóbauninni notað, ekki sjálfur kakómassinn, auk mjólkurdufts og sykurs. Hvítt súkkulaði er oft bragðbætt með vanillu þar sem að kakósmjörið er næstum því bragð- og lyktarlaust. Til þess að hvítt súkkulaði sé stimplað sem gæðasúkkulaði þarf að vera í því 20% eða hærra innihald af kakósmjöri en stundum er notuð jurtafeiti í stað kakósmjörs. Hvítt súkkulaði er mun viðkvæmara en dökkt þegar það er brætt, jafnvel þó kakósmjörið sé ekta. Það þarf að passa að hafa vatnið vel fyrir neðan suðu og láta það ekki snerta skálarbotninn með súkkulaðinu. Í þessari uppskrift er hvíta súkkulaðið sett út í heitt smjör en mér fannst blandan vilja skilja sig og gerði meira að segja tvær tilraunir við að hræra þessum hráefnum saman, ég hafði smjörið ekki eins heitt í seinna skiptið. En sú tilraun kom alveg eins út, ég notaði því blönduna eins og hún var og það virtist ekki koma að neinni sök.

Pabba fannst þessi kaka ofboðslega góð, alveg í uppáhaldi hjá honum. Mér fannst hún líka mjög góð en ég hefði ekki viljað mjög stóra sneið af henni, meira svona eins og konfektmola með kaffinu enda er hún mjög sæt. Ég fann þessa uppskrift á sænskri vefsíðu og þar fékk kakan mjög góða dóma af þeim fjölmörgu sem höfðu prófað að baka hana. Ég hvet því alla sem eru hrifnir af hvítu súkkulaði að prófa!  Þegar ég baka þessa köku næst þá mun ég gera eina breytingu. Ég myndi prófa að sleppa glassúrinu og í staðinn bera fram með henni hindberjasósu. Hér er uppskrift af slíkri sósu. Ég held að það væri ákaflega gott að fá svolítið súra berjasósu á móti sætu kökunni.

Uppskrift:

  • 250 gr hvítt gott súkkulaði
  • 200 gr smjör
  • 3 egg
  • 2 1/2 dl sykur
  • 2 msk koníak (fyrir þá sem ekki vilja koníak sem bragðefni er hægt að nota 2 tsk vanillusykur í staðinn)
  • 2 dl hveiti

Glassúr:

150 gr hvítt súkkulaði
1/2 dl rjómi

Aðferð:

Stillið ofninn á 175 gráður. Bræðið smjörið í potti á meðalhita. Takið pottinn af hellunni og bætið súkkulaðinu út í, hrærið saman þar til súkkulaðið er bráðnað. Þeytið egg og sykur þar til blandan er létt og ljós. Hrærið út í súkkulaði, koníaki og blandið svo sigtuðu hveiti varlega út í blönduna í lokin. Hellið deiginu í smurt form með lausum botni (ca. 24 cm) og bakið neðarlega í ofni í ca. 30-35 mínútur. Látið kökuna kólna og setjið hana svo í ísskáp. Glassúr: Saxið súkkulaðið, hellið rjóma í pott og látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni, bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til það er bráðnað. Látið glassúr stífna aðeins í ísskáp, í ca. 5 mínútur. Smyrjið glassúr yfir kökuna og setjið í kæli, kakan er best borin fram daginn eftir. Berið fram með þeyttum rjóma (og hindberjasósu, ég er viss um að það sé súper gott!)

Brownie ostakaka með kasjúhnetum og karamellukremi


Þessi kaka heitir á frummálinu ,,brownie-fudge“ ostakaka. Mér finnst vanta frekar mörg orð yfir hráefni og eldamennsku í íslensku. Til dæmis er ekkert íslenskt orð yfir brownies sem hefur náð fótfestu. Stundum er reyndar notað orðið „brúnkur“. ,,Fudge“ þýðir ljós karamella en mér finnst það alls ekki eins lýsandi orð eins og ,,fudge“. En það er allt að gerast í þessari köku þrátt fyrir skort á íslenskum lýsingarorðum! Brownie, saltar hnetur, ostakaka, karamellukrem … blanda sem getur ekki annað en kitlað bragðlaukana. Það er hægt að nota ósaltar kasjúhnetur eða pekanhnetur en best er að nota saltar. Ég hef reyndar ekki fundið saltar pekanhnetur enn, en það er hægt að kaupa kasjúhnetur saltar.

Ostakökublanda

  • 300 gr Philadelphia ostur
  • ¾ dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur

Hrærið saman Philadelphia osti, sykri og vanillusykri þar til blandan verður slétt. Geymið blönduna.

Brownie deig:

  • 2 egg
  • 100 gr smjör
  • 2 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 2 dl hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • 1 dl kasjúhnetur eða pekanhnetur, saxaðar gróft

Þeytið egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Setjið smjör og kakó í pott og hitið á vægum hita þar til smjörið er bráðnað og hefur blandast við kakóið, hellið svo smjörblöndunni út í eggjablönduna og hrærið. Sigtið hveiti og lyftiduft út í deigið, bætið við grófsöxuðum hnetunum og blandið varlega saman við.

Hitið bökunarofninn í 180 gráður. Smyrjið bökunarform með lausum botni (gott að nota lítið form, t.d. 20 eða 22 cm). Hellið helmingnum af kökudeiginu í formið og sléttið úr því. Hellið svo varlega ostablöndunni ofan á og sléttið úr henni út í alla kanta. Að lokum er restinni af kökudeginu hellt yfir og dreift vel yfir ostablönduna. Bakið neðarlega í ofninum  við 180 gráður í ca. 30 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Karamellukrem

40 gr smjör
1 msk mjólk
1½ dl flórsykur
2 msk kakó
kasjú hnetur eða peacan hnetur til að skreyta með

Bræðið smjör og mjólk saman í potti. Bætið flórsykri og kakó út í. Hrærið og látið malla í 2-3 mínútur. Leyfið kreminu aðeins að kólna og notið síðan sleikju til að dreifa því jafnt yfir kökuna. Skreytið með grófsöxuðum hnetum. Látið kökuna standa í kæli þar til kremið hefur harðnað. Best er að leyfa kökunni að standa í kæli yfir nóttu. Berið fram með þeyttum rjóma.

Besta skúffukakan


Ég er dálítið spennt að setja þessa uppskrift hérna inn! Ég fer sjaldnast nákvæmlega eftir mataruppskriftum og breyti þeim oft og iðulega. En kökuuppskriftir eru viðkvæmari fyrir breytingum og ekki oft sem ég breyti þeim mikið. Ég hef hins vegar verið að prófa mig áfram með skúffukökur. Allir vilja eiga eina feiknagóða uppskrift af skúffuköku og ég hef prófað margar slíkar til að finna hina einu og sönnu, en án árangurs. Vissulega eru margar skúffukökur ljómandi góðar en undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með mína eigin uppskrift og er loksins komin niður á eina sem ég er mjög ánægð með. Þessi skúffukaka er bragðgóð og mjúk, sú besta sem ég hef smakkað hingað til. Ég held að einn af göldrunum við hana sé súrmjólkin með karamellubragði!

Jóhanna Inga yngsta skottið okkar átti 8 ára afmæli um daginn og þá var auðvitað bökuð skúffukaka. Reyndar var ég ekki búin að fullþróa uppskriftina mína þá, það gerðist nú bara í gær! En ágætis skúffukaka var þó bökuð á afmælinu og í ár var yngsta barnið með afar þægilega ósk um afmælistertu. Engar flóknar fígúrur eða kastalar, brúðarterta skyldi það vera! 🙂 Hún átti að vera með hvítu kremi, blómum og skrauti. Jóhanna Inga valdi sjálf af kostgæfni allt skrautið á tertuna og við mæðgur hjálpuðumst að með að skreyta brúðarterturnar! Þær voru tvær, önnur fyrir 20 stelpna bekkjarafmæli og hin fyrir fjölskylduafmælið.

Heimilisfaðirinn sem er liðtækur á grillinu en er ekkert mikið í eldamennskunni annars átti sína 15 mínútna frægð við afmælisundirbúninginn! Honum var afhent melóna ásamt skurðarhníf og gefinn fyrirmæli um útskurð. Verandi fjarska góður skurðlæknir fórst honum þetta verk auðvitað snilldar vel úr hendi og út kom þessi skemmtilegi broddgöltur:

Þessi krúttulegi broddgöltur fer inn í hugmyndabankann fyrir afmæli sem er hér.

Uppskriftin af skúffukökunni hér að neðan passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm. Ég myndi gera uppskriftina eina og hálfa, jafnvel tvöfalda fyrir stóra ofnskúffu. Ég notaði uppskriftina af kökukreminu fyrir líka fyrir hvítu brúðartertuna hennar Jóhönnu, ég sleppti bara kakóinu og setti dálítin vanillusykur í staðinn þar sem að hún vildi hvítt krem. Ég vil taka það fram að kökuuppskriftin er mín en uppskriftina af kökukreminu fékk ég úr Gestgjafanum.

Uppskrift (fyrir form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift):

  • 2 dl sykur
  • 2 dl púðursykur
  • 2 egg
  • 170 gr smjör, brætt
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 3 tsk. vanillusykur
  • 1 dl. kakó, sigtað
  • 2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
  • 1 dl vatn, sjóðandi heitt

Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.

Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.

Kökukrem:

  • 150 gr smjör, mjúkt
  • 200 gr flórsykur
  • 4,5 msk kakó
  • 2 msk síróp

Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.