Baunaspírur


Baunaspírur

Ég má til með að deila einni snilld með ykkur. Fyrir nokkru síðan fór ég í Nettó og þar var verið að kynna svo góðar baunaspírur. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifin af alfalfaspírum og nota þær mikið ofan á brauð og í salöt. Þessar spírur fannst mér einstaklega ferskar og góðar, ég skrifaði einmitt um það í þessari bloggfærslu. Framleiðandinn er Ecospira í Hafnarfirði og ég var yfir mig spennt um daginn þegar ég sá að þeir eru farnir að selja spírurnar í áskrift.

Núna er ég sem sagt orðin áskrifandi af brakandi ferskum baunaspírum sem ég fæ einu sinni í viku. Í pakkanum er 200 gröm af blönduðum spírum, til dæmis brokkolíspírur, alfalfaspírur og radísuspírur. Allar þessar spírur er víst ofurhollar og stútfullar af vítamínum og andoxnarefnum. Núna langar mig að finna fleiri notkunarmöguleika á spírunum. Ef þið lumið á góðum uppskriftum þar sem allskonar baunaspírur eru notaðar þá endilega deilið þeim með mér! 🙂

Hér er blandan sem ég fékk í þessari viku.

Baunaspírur

  • Radísuspírur, grænar með rauðum stilk, dálítið beittar.
  • Blaðlauksspírur, grænar, langar og mjóar með svörtu á endunum.
  • Alfalfaspírur, ljósgrænar með ljósbrúnu hismi á, smágerðar og mildar.
  • Brokkólí- & smáraspírur, grænar smágerðar, milt grænmetisbragð og örlítið stökkar.
  • Blanda dagsins, blanda af mungbaunum, kjúklingabaunum, rauðum linsum og grænum ertum.

Þessi blanda kostar bara 1000 krónur sem mér finnst mjög gott verð. Ég hef líka séð að spírurnar eru til í flestum matvöruverslunum.

IMG_0735

Í dag fékk ég mér nýbakað og gómsætt gróft brauð. Ég setti fyrst á brauðið hreinan Philadelphia ost, þá alfalfaspírur og svo tómat-avokado salsa. Ég dreifi síðan yfir þetta allt örlítið af grófmöluðum svörtum pipar og smá maldon salti – ljúffengt!

IMG_0742

Núna ætla ég að einbeita mér af því að verða frísk fyrir morgundaginn en ég er að fara til Boston með saumaklúbbnum mínum, ferð sem við höfum safnað fyrir og skipulagt í nokkur ár! Það má því með sanni segja að spennan sé í hámarki núna í kvöld! 🙂 Ég nældi mér hins vegar í kvef og ljótan hósta, alveg hreint óþolandi tímasetning á veikindum. Það er ekki í boði að taka með þessi veikindi til Boston og ég ætla því að borða mikið af þessum hollu baunaspírum í kvöld og skola þeim niður með tei! 😉

Það mun væntanlega ekki gerast mikið á blogginu á næstu dögum þegar ég verð erlendis. En í næstu viku kem ég endunærð heim úr þessari menningarferð (*hóst*) og þá fer bloggið aftur á fullt, meðal annars með skemmtilegum leik þar sem þessi spennandi verðlaun munu koma við sögu.

IMG_0544

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku


Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Dagarnir líða svo ótrúlega hratt hjá mér nú um mundir. Á hverjum degi finnst mér ég rétt komin á fætur þegar það er komið aftur kvöld. Ég á það til að taka að mér of mikið af verkefnum. Það er mikið að gera í aðalvinnunni minni, nóg að gera í aukavinnunni og komið að skiladögum í auka-aukavinnunni minni. Ég á erfitt með að segja nei við verkefnum og þegar ég hef tekið þau að mér þá vil ég gera þau 110% og tímarnir í sólarhringnum duga ekki til. Ég er samt að æfa mig að segja nei og tekst það öðru hverju! 🙂 Núna er sérstaklega mikið að gera því ég er að auki að undirbúa og pakka fyrir ferðalag okkar Elfars sem hefst á morgun. Hann er að fara að flytja fyrirlestur á ráðstefnu á Rhodos og ég gat ekki staðist mátið að fara með. Mikið verður gott að fara í sólina í nokkra daga eftir sólarlaust sumar hér á Íslandi! Amman og afinn eru svo góð að flytja inn til barnanna á meðan þannig að við getum notið þess að vera í fríi áhyggjulaus – mikið hlakka ég til! 🙂

Áður en ég vík að uppskrift dagsins þá langar mig að benda á frábæra bók sem kom út í síðustu viku. Steingrímur Sigurgeirsson rekur vefinn Vínótek sem er dæmalaust öflugur og flottur uppskriftavefur en að auki eru þar umfjöllun og dómar um vín og veitingastaði ásamt vefverslun með til dæmis vínglösum. Steingrímur var að gefa út bókina „Vín – frá þrúgu í glas„, bók sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um vín. Ég hef ekkert vit á vínum, vel oftar en ekki vín út frá fallegum myndum á flöskunni, finnst sæt hvítvín best því þau bragðast eins og ávaxtasafi og býð gestum mínum blygðunarlaust upp á rauðvín af „belju“ ef því er að skipta. Botninum náði ég þó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þá var ég að vinna á sjúkrahúsinu með íslenskum lækni sem leysti af á deildinni minni um tíma. Við buðum honum í mat og ég eldaði góða máltíð. Rétt áður en hann kom þá datt mér allt í einu í hug að kannski væri huggulegt að bjóða upp á rauðvínslögg með kjötinu. Við áttum eina ræfilslega rauðvínsflösku frá Californiu sem hafði kostað 50 sænskar krónur, sem sagt ekkert gæðavín þar á ferðinni en ég ákvað að láta það duga. Rétt áður en gesturinn mætti þá tók ég eftir því að eiginmaðurinn hafði lagt hvítvínsglös á borðið, ég ætlaði að láta hann skipta um glös en gleymdi því. Því fór svo að gestinum var boðið upp á 50 króna bandarískt rauðvín í hvítvínsglösum. Gesturinn var svo ljúfur og hógvær að hann hrósaði máltíðinni bak og fyrir og lét eins og honum hefði verið boðið eðalvín. Það var ekki fyrr en alllöngu seinna að við komumst að því að hann er einn helsti og besti hvítvínssérfræðingur landsins! Eftirleiðis þegar hann kom til okkar í mat þá lét ég hann um að koma með vínið með sér og einbeitti mér að því sem ég kann betur, að elda mat! Það mætti halda að þessi saga hefði frést út því ég fékk sent eintak af bókinni „Vín – frá þrúgu í glas“ í síðustu viku – kærar þakkir Forlagið, ég þurfti á henni að halda! 😉 Ég er heilmikið búin að lesa í bókinni sem er algjörlega frábær. Upplýsingarnar eru afar aðgengilegar, jafnvel fyrir einhvern eins og mig sem kann ekkert um vín, og settar fram á skemmtilegan hátt. Nú veit ég til dæmis hver er munurinn á Reserva og Grand Reserva! 🙂 Lesturinn æsir upp í mér enn frekar löngunina að fara í matar- og vínferð til Frakklands og Ítalíu, draumur sem ég mun láta rætast einn daginn!

IMG_0037Mér finnst rauðvínsglasahringirnir á bókakápunni og inni í bókinni svo flottir og vel til fundnir!

Það er skemmtileg tilviljun að rauðvínshringirnir á bókinni eru einmitt í sama lit og rétturinn sem ég ætla að gefa uppskrift að í dag – þetta er vinsæll litur! Í afmælisveislu Jóhönnu um daginn bauð ég upp á rúllutertubrauð sem ég hef ekki prófað áður en uppskriftina sá ég í Gestgjafanum og breytti henni, notaði annarskonar ost og sultu. Það verður að segjast að brauðrétturinn var ákaflega sérstakur á litinn en góður var hann. Anna vinkona benti mér pent á að brauðrétturinn og buxurnar hennar og hálsmenið voru nákvæmlega eins á litinn og ég held ég geti fullyrt að það sé sjaldgæft að afmælisgestir klæði sig í stíl við brauðrétti eða að brauðréttir séu í tískulitunum! Þrátt fyrir sérstakan lit þá var þessi brauðréttur mjög góður og skemmtileg tilbreyting í brauðréttaflóruna. Þar sem að brauðrétturinn var ekkert sérstaklega aðlaðandi fyrir myndartöku af tók ég fáar myndir af honum en hér flikkar Anna vinkona verulega upp á eina brauðréttamyndina – allt í stíl! 🙂

IMG_7001

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 200 g hindberjasulta
  • skinkusneiðar (ég notaði tæpt box af silkiskorni reyktri skinku frá Ali)
  • 1 Gullostur, mjög kaldur (gott að setja í frysti í 3-4 tíma – ég mundi þetta auðvitað ekkert þannig að ég setti ostinn bara í frysti í 1 tíma og það var í lagi)

Ofn hitaður í 180 gráður. Penslið rúllutertubrauðið með sultu og leggið skinku ofan á. Skerið kalda ostana í sneiðar og leggið á rúlluna. Brauðinu er rúllað upp og hjúpnum (sjá uppskrift hér neðar) smurt á brauðið. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 15 mínútur.

Rúllutertubrauð með Gullosti og skinku

Hjúpur:

  • 3 msk. bláberjasulta
  • 3 msk rjómaostur
  • 1 eggjarauða

Sultu og rjómaosti hrært vel saman í potti og hitað upp.  Því næst er blandan kæld og eggjarauðunni hrært út í.

Döðlubrauð


Döðlubrauð

Við fjölskyldan erum nýkomin heim úr rúmlega vikulöngu fríi. Við keyrðum hringinn í kringum landið og dvöldum í sumarbústaði rétt fyrir utan Vopnafjörð. Við vorum orðin dálítið leið á því að fara alltaf bara austur fyrir fjall í bústað og höfum því undanfarin ár sóst eftir því að fara á meira „framandi“ staði og sjá þá í leiðinni meira af landinu okkar. Í ár var það sem sagt Vopnafjörður, í fyrra Patreksfjörður og árið þar áður vorum við á Seyðisfirði. Það sem er svo skemmtilegt við svona ferðir er meðal annars það að borgarbörnin okkar fá meiri tilfinningu fyrir landinu og hrópa alltaf upp yfir sig ef þau heyra til dæmis fréttir frá þeim stöðum sem við höfum dvalið á.

Matarlega séð voru tveir toppar í ferðinni okkar (fyrir utan okkar eigin grilltoppa í bústaðnum! 😉 ). Annar þeirra var Humarhöfnin á Höfn í Hornafirði. Það er afar notalegur staður sem býður upp á ljúffengan humar (reyndar á alltof háu verði samt að mínu mati). Hins vegar var það gistihúsið Egilsstaðir. Þvílíkur dásemdarstaður, það má enginn láta þann stað fram hjá sér fara þegar ferðast er um austurland! Sjálft húsið býr yfir mikilli sögu og hefur verið gert upp á ákaflega fallegan hátt. Það er hægt að gleyma sér við að skoða alla antíkmunina sem komið hefur verið fyrir smekklega í húsinu. Húsið sjálft og umhverfi þess er eitt og sér tilefni til heimsóknar en maturinn er líka dásamlega góður. Elfar fékk sér æðislega humarsúpu og ég fékk mér lambahamborgara með sultuðum lauk og camembertsósu, hnossgæti – ég á eftir að reyna við hann í eldhúsinu mínu! Það er mjög sniðugt að heimasækja staðinn á milli kl. 11.30 – 17.00. Þá er í boði léttur matseðill með girnilegum matréttum á afar sanngjörnu verði – þið bara verðið að prófa ef þið eigið leið þarna um! 🙂

Egilsstaðir

Takið eftir því hvað gömlu gluggarnir eru endurnýttir á skemmtilegan hátt, þeir eru notaðir sem myndarammar.

Þó svo að við höfum alls ekki fengið neitt dandalaveður (elsk’etta vopnfirska orð fyrir „bongóblíðu“! ) þá áttum við frábæra daga í bústaðnum. Fórum reglulega í sund í Selárdalslaug og skoðuðum Burstarfell sem er einstaklega skemmtilegt. Við fórum líka í löggu- og bófa í fallega skóginum í kringum bústaðinn.

IMG_1295Búin á því eftir mikinn hamagang í löggu og bófa! Mamman var svo æstur bófi að hún snéri sig á ökkla þar sem hún var á háskalegum flótta yfir læk og stökk beint ofan í gjótu! 

Einnig veiddum við á höfninni á Vopnafirði. Við veiddum ýmislegt; bæði þorsk og ýsu, kræktum í stóran krabba og nældum óvart í rassinn á mávi! Við fengum bæði síld og makríl hjá sjómönnunum fyrir beitu og við það varð mávurinn óþarflega spenntur í kringum okkur. Jóhanna Inga lagði stöngina frá sér á bryggjuna og þá notaði einn mávurinn tækifærið og ætlaði að stela beitunni en þar með flaug hann líka af stað með stöngina! Það varð upp fótur og fit þegar við reyndum að bjarga stönginni og rétt gátum komið í veg fyrir að hún færi í sjóinn!

IMG_1316

Jóhanna Inga krækti í krabba!

Í þessu fríi hef ég lítið sinnt blogginu en bæti úr því í dag með uppskrift af dásamlega góðu og einföldu döðlubrauði. Ég er í raun ekki mikið fyrir döðlubrauð – eða það hélt ég þar til að ég smakkaði þetta brauð. Það slær fátt þessu brauði við þegar það er nýbakað, enn volgt og með góðu lagi af íslensku smjöri og jafnvel góðum osti og sultu líka!

IMG_6542

Uppskrift (1 brauð):

  • 2 bollar hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli vatn
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 msk smjör
  • 1 egg

Ofninn er hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform er smurt að innan (stærð ca. 22 cm x 8 cm – þegar botninn á forminu er mælt en það víkkar út að ofan) Döðlur, vatn og smör sett í pott og hitað að suðu og látið malla í 1 – 2 mínútur, hrært á meðan. Síðan er blandan hrærð í hrærvél þar til hún er orðin að mauki. Restinni að hráefninu er bætt út í hrærivélaskálina og öllu blandað saman. Deigið er sett í brauðform og bakað við 180 gráður í 50 mínútur.

IMG_6548

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu


t´oðu

Dásamlegar kjúklingavefjur með mangósósu

Núna erum við loksins öll komin í sumarfrí nema auðvitað stóru krakkarnir sem vinna eins og hestar í allt sumar. Ég er aðeins að reyna að halda mig frá tölvunni til þess að njóta frísins betur. Það er nefnilega afar tímafrekt að halda úti svona uppskriftabloggi ef vel á að vera. Til dæmis er eiginmaðurinn farinn að kalla bloggið mitt „Kvöldsögur“ þar sem að lunginn af kvöldunum fara oft í að blogga! 🙂 Ég gat samt ekki hamið mig að kíkja hér inn og gefa ykkur uppskrift af dásamlega góðum kjúklingavefjum. Við fórum í skemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja núna fyrir helgi og ég útbjó þessar vefjur til þess að taka með í nesti (ég setti inn myndir frá þeim degi á Instagram, endilega fylgist með Eldhússögum á Instagram!). Þessar vefjur eru frábært nesti í ferðalög, þær eru hollar, ákaflega góðar og jafngóðar heitar sem kaldar. Það er svo lítið mál að útbúa þessar vefjur og skella þeim í kælibox. Þá sleppur maður við að koma við í óspennandi vegasjoppum og eyða háum fjárhæðum í oft og tíðum óhollan og lítt gómsætan mat.

IMG_1760

En og aftur er hægt að undrast yfir hvað hægt er að útbúa ljúffengan mat úr fáum hráefnum og með lítilli fyrirhöfn. Ég held að það sé hjónaband kjúklingsins, mangósósunnar, cashew hnetanna og ferska mangósins sem gerir vefjurnar svona gómsætar. Þessar vefjur eru í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum, ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_1771Kaldar kjúklingavefjur – tilbúnar í ferðalagið!

Uppskrift fyrir 4 vefjur:

  • 1 poki kjúklingalundir frá Rose Poultry (700 g)
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði salt, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion)
  • kál
  • klettasalat
  • tómatar, skornir í bita
  • gúrka, skorin í bita
  • ferskt kóríander, saxaður gróft
  • 1 stór ferskur mangó, skorinn í bita
  • cashew hnetur, saxaðar gróft
  • tortilla pönnukökur
  • mangósósa
mangósósa uppskrift:
  • 200 g grísk jógúrt
  • 3 msk mango chutney
  • 1 tsk karrí
  • 1 vænn biti ferskt mangó – (líka hægt að nota nokkra bita af frystu mangói)
  • salt og pipar eftir smekk

IMG_1746

Öllum hráefnunum í sósuna er blandað vel saman í matvinnsluvél. Smakkað til með salti, pipar og meira karrí ef með þarf.

Kjúklingalundirnar eru skornar í hæfilega stóra bita og kryddaðar eftir smekk. Ég kryddaði þær með salti, pipar, best á allt frá Pottagöldrum og chili explosion). Kjúklingurinn er steiktur á pönnu. Tortillurnar eru hitaðar og á þær eru settar kál og klettasalat, tómatar, gúrkur og mangó ásamt kjúklingnum. Ofan á þetta allt er svo dreift cashew hnetum, kóríander og vel af mangósósu. Vefjunni er svo rúllað upp. Bæði hægt að bera vefjurnar fram kaldar og heitar.

IMG_1775

Kryddjurtabrauð með parmesan og ólífum


IMG_1233

Dásamlega gott kryddjurtabrauð! 

IMG_1231

Ohh … ég elska sumarið! Það er með ólíkindum hvað allt verður eitthvað svo mikið léttara og skemmtilegra í birtu, góðu veðri og sól. Þó svo að við í Reykjavík höfum bara fengið þrjá sólardaga í júní þá gildir að nýta þá daga vel. Jóhanna Inga og vinkona hennar fengu að gista úti í tjaldi einn slíkan sjaldséðan sólardag í júní. Það byrjaði með því að þær settu upp lítið tjald sem þeim fannst tilvalið að gista í.

IMG_0537

Foreldrunum leist nú ekkert á það og pabbinn sló upp betra tjaldi.

IMG_0539

Það var svo spennandi að það endaði á því að Jóhanna gisti tvær nætur í tjaldinu, þá seinni með Vilhjálmi bróður sínum. Stelpurnar gerðu ægilega heimilislegt í kringum tjaldið og útbjuggu meira að segja póstkassa. Þangað streymdu bréf frá nánustu ættingjum. Skemmtilegasta bréfið var frá pabbanum þar sem hann gaf meðal annars ýmisskonar útivistarráð! Ruslapóstur var sko ekki afþakkaður á þessu heimili heldur vildu þær allan póst! 🙂

IMG_0538

IMG_0540En að uppskrift dagsins sem er dásamlega gott brauð! Við unnum í garðinum í dag og ég skellti í eitt svona brauð sem við gæddum okkur á úti í garði seinnipartinn. Þetta brauð er ekki bara ákaflega einfalt að baka heldur er það svo hrikalega gott! Ég sá eftir að hafa ekki bakað tvö brauð því brauðið hvarf ofan í fjölskylduna á mettíma. Það hvarflaði að mér að kalla þetta sumarbústaðarbrauð því ég sá svo sterkt fyrir mér hvað það væri notalegt að baka þetta brauð í sumarbústaðinum og njóta með fjölskyldunni. En það verða bara allir að prófa að baka þetta himneska brauð – það er skipun! 🙂

IMG_1199 IMG_1228

Uppskrift (gefur eitt brauð): 

  • 280 g hveiti (eða spelt)
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk flögusalt, mulið á milli fingranna (ég notaði flögusalt með rósamarín)
  • 60 g rifinn parmesan ostur
  • 60 g rifinn mozzarella eða cheddar ostur
  • ca. 12 grænar ólífur (eða fleiri – fer eftir smekk), skornar í tvennt
  • ca. 3 sólþurrkaðir tómatar (fer eftir smekk – ég notaði minna), skornir í litla bita
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 1 gott knippi steinselja, söxuð fínt
  • 2 tsk ferskt timjan eða 1 tsk timjan krydd
  • 2 egg
  • 2 1/2 msk ólífuolía
  • 300 ml létt-AB mjólk (eða 300 ml mjólk blandað saman við 1 msk hvítvínsedik eða sítrónusafi – látið standa í 10 mínútur)

Ofan á brauðið:

IMG_1204

Ofninn hitaður í 180 gráður undir- og yfirhita. Brauðform smurt að innan. Brauðformið sem ég nota er 25 x 11 cm (mælt að ofan, formið mjókkar aðeins niður). Hveiti, lyftiduft, matarsódi, salt, pipar, ostur, parmesan ostur, ólífur, sólþurrkaðir tómatar og steinselja sett í stóra skál og blandað vel saman.

IMG_1158

Í annarri skál eru eggjum, ólífuolíu og AB-mjólk blandað vel saman. Því næst er gerð smá dæld í miðjuna á þurrefnunum og vökvanum hellt út í.

IMG_1166

Blandað vel saman með sleif þar til deigið er orðið slétt. Deiginu er hellt í smurt brauðformið, það smurt með eggjablöndunni og saltflögum og timjan greinum dreift yfir brauðið.

IMG_1186

Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 40 mínútur. Ég vildi að ég gæti sett hér inn ilminn sem lagði um húsið af þessu ljúffenga brauði! 🙂 Brauðið er best nýbakað og volgt.

IMG_1232

Svo dásamlega gott og það tekur örstutta stund að útbúa deigið! 

IMG_1191

Pepperóníbrauð


Pepperóníbrauð

Núna eru krakkarnir komnir í sumarfrí og það er alltaf sami höfuðverkurinn að finna eitthvað  handa þeim að borða í hádeginu. Yngsta barnið er einstaklega kresið og það þýðir lítið að bjóða henni bara ristað brauð, jógúrt eða skyr í hádeginu, hún er lítið hrifin af því. Sá gállinn er á henni að ef að henni líkar ekki maturinn þá sleppir hún því bara að borða þrátt fyrir svengd. Ég er því alltaf að reyna finna eitthvað gott til þess að eiga í hádeginu fyrir krakkana. Ef ég er heima þá er fljótlegt að búa til ostapasta og það er afar vinsælt.

IMG_1133

Ekki finnst þeim verra að fá crepes með eggi, skinku og osti.

Collages1-001

Eða pastasalat með pepperóní. 

IMG_3953

Í afmælinu hennar mömmu bauð hún upp á pepperóní brauð sem er afar vinsælt hjá krökkunum og gott að geta gripið til í frystinum. Þessi brauð passa líka vel á veisluborðið í barnaafmælum eða til að taka með í ferðalagið. Krakkarnir á heimilinu mæla eindregið með þessu brauði! 🙂

Uppskrift (Brauð og kökubók Hagkaups):

  • 320 ml mjólk
  • 600 g hveiti (hægt að skipta helmingnum út fyrir heilhveiti)
  • 20 g salt
  • 20 sykur
  • 60 smjör
  • 1 pk þurrger

Fylling:

  • 400 g beikonsmurostur
  • 130 g pepperóní, saxað
  • rifinn mozzarellaostur

Setjið allt saman í hrærivélaskál og vinnið rólega í 4 mínútur með króknum, vinnið svo deigið á miðjuhraða í 5 mínútur. Mótið deigið í kúlu og látið það hefast undir rökum klút í ca. 45 mínútur. Fletjið þá deigið út með kökukefli 30 cm x 70 cm, smyrjið ostinum á miðjuna á deginu og setjið pepperóní yfir ostinn. Brjótið saman deigið, fyrst annan helminginn yfir ostafyllinguna, svo hinn ofan á þann helming (deigið verður þannig þrefalt). Snúið deiginu við, sárið niður. Skerið deigið niður í tígla og leggið á smjörpappír (ca. 16 stk). Látið deigið hefast í 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi. Penslið deigið með vatni og setjið mozzarellaostinn yfir. Bakið við 220 gráður í um það bil 18 mínútur eða þar til það er kominn fallegur gylltur litur á brauðin.

IMG_9926

Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku


IMG_8860

Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂

Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!

Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.

IMG_8939

Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning

IMG_8927

Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.

IMG_8933

Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.

IMG_8898IMG_8913

Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂

IMG_8907

Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.

IMG_8917IMG_8919

Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.

Uppskrift:

  • 1 snittubrauð
  • 2 hvítlauksrif
  • ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
  •  fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
  • 1 kúla Mozzarella ostur
  • salt og pipar
  • ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn

Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.

Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

IMG_8855

Skonsur


IMG_8399Þá er enn ein helgin liðin – það er nú meira hvað helgarnar líða hratt! Á föstudagskvöldið fórum við hjónin á árshátíð og í gærkvöldi var okkur boðið í matarboð. Í kvöld ætlum við hins vegar að slaka á og horfa á Argo, bíómyndina sem hlaut Óskarinn. Jóhanna Inga tók þátt í danskeppni í gær en hún er að æfa street dance. Þær voru voða sætar vinkonurnar þrjár. Þær sáu um þetta algjörlega sjálfar, völdu lag, sömdu dans og æfðu. Þær eru nú bara átta ára og mér fannst þetta ótrúlega vel af sér vikið hjá þeim ásamt því að þora að dansa síðan fyrir framan fullan sal af áhorfendum. Stöllurnar byrjuðu að æfa snemma í gærmorgun hér heima og voru orðnar glorhungraðar um hádegið. Ég bakaði þá fyrir þær skonsur. Það var einmitt ein af þeim uppskriftum sem er í gömlu uppskriftarbókinni minni og ég hef alltaf verið á leiðinni að færa hér inn á bloggið. Skonsur eru mjög vinsælar á okkar heimili, bornar fram sjóðheitar með smjöri og osti, namm! 🙂

Uppskrift:

  • 7 dl hveiti
  • 1 dl sykur
  • 4 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 3 egg
  • 3 msk olía
  • ca. 5 dl mjólk

IMG_8396

Þurrefnum blandað saman í skál og og eggjum svo hrært saman smátt og smátt ásamt olíunni og mjólkinni. Ég hræri deigið í höndunum með písk. Pönnukökupanna hituð og borin á hana olía eða smjör ef þarf. Degið sett á pönnuna með stórri skeið eða ausu og skonsurnar steiktar á meðalháum hita (ég notaði ca. 7 af 9). Þegar það fara myndast holur í degið er skonsunum snúið við með pönnukökuspaða eða steikarspaða. Skonsurnar bornar fram heitar með smjör og því áleggi sem hugurinn girnist, til dæmis osti og/eða smjöri.

IMG_8398

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

  • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

  • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
  • tómatar, skornir í sneiðar
  • basilikublöð
  • salt og svartur grófmalaður pipar
  • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
  • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

  • parmaskinka
  • brie ostur eða annar góður mygluostur,
  • chilisulta
  • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

  • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
  • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
  • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
  • klettasalat
  • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371

Hvítlauksbrauð Ínu


IMG_7329Ég hef sagt frá því áður hvað mér finnst gaman að horfa á Food Network og ég haldi mest upp á þáttinn Barefood Contessa. Þar er Ina Garten við völd með frábærar uppskriftir. Ég fór að hugsa það um daginn að þó hún hafi veitt mér ýmisskonar innblástur þá hef ég ekki beint prófað uppskriftirnar hennar. Ég fór því á stúfana að skoða uppskriftirnar hennar Ínu. Ég á engar uppskriftabækur eftir hana en það kemur ekki að sök þar sem þær eru örugglega allar á netinu. Netið er algjör himnasending þegar kemur að uppskriftum (og öllu öðru!)! Ég var með gómsætan lax í matinn og fann uppskrift af girnilegu hvítlauksbrauði frá Ínu sem ég sá í hendi mér að myndi smellpassa með laxinum. Þetta er svolítið svindl brauð því það er ekki ekki heimabakað en svakalega er það gott! Það er auðvitað líka bara himnasending að fá svona gott brauð með hér um bil engri fyrirhöfn. Í uppskrift Ínu mælir hún með því að nota Ciabatta brauð. Ég keypti hins vegar birkibrauð sem kom afar vel út því það er með stökkum hjúp og er mjúkt og ljóst að innan. Ég mæli svo mikið með þessu hvítlauksbrauði sjóðandi heitu og ljúffengu með einhverjum góðum matrétti!

IMG_7317

Uppskrift:

  • 6 hvítlauksrif, söxuð
  • 30 g steinselja (ítölsk, þessi með flötu blöðunum)
  • 30 g oregano blöð (bergmynta) ég notaði kóríander í staðinn og það kom vel út
  • 1/2 tsk maldon salt salt (ég notaði líka Parmesan/basil saltið sem mér áskotnaðist í jólagjafapakkarugli í saumó – takk Laufey!)
  • svartur nýmalaður pipar
  • 40 g ólífuolía
  • 1 brauðhleifur, t.d. ciabatta brauð (hér notaði ég birkibrauð)
  • 1 1/2 tsk mjúkt smjör

IMG_7314

Bakarofn hitaður í 160 gráður. Hvítlaukurinn settur í matvinnsluvél þar til hann er fínhakkaður. Þá er oreganoblöðum, steinseljublöðum, salti og pipar bætt út í og vélin látin ganga nokkrum sinnum þar til þau eru grófhökkuð. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að fínhakka allt með hníf.

Olían hituð á pönnu við meðalhita og lauk/kryddjurtablöndunni bætt út, steikt í örstutta stund á vægum hita og svo er pannan tekin af hellunni. Brauðið er skorið langsum og smjörinu smurt á neðri helminginn. Þá er blöndunni á pönnunni dreift yfir neðri helming brauðsins. Mér fannst reyndar gott að smyrja blöndunni á báða helminga brauðsins, þá er jafnvel hægt að bera það fram í tveimur helmingum í stað þess að vera lagt saman. Því næst er brauðið lagt saman, því pakkað inn í álpappír og það hitað í ofni við 160 gráður í 5 mínútur. Þá er álpappírinn tekin af brauðinu og það bakað í 7-10 mínútur til viðbótar.

IMG_7321